Hentar Victorinox-reglan á Íslandi?

1:5 reglan
Svissneska Victorinox fyrirtækið, sem framleiðir m.a. rauða hágæðahnífa, sem margir kannast við, var stofnað 1884 og hefur alveg frá byrjun lagt mikla áherslu á jafnt mikilvægi allra starfsmanna. Þeir hafa ekki í 80 ár þurft að segja upp starfsmanni vegna efnahagslegra ástæðna en hafa þó glímt við miklar sveiflur, einkum í kjölfar árásana á tvíburaturnanna 2001 þegar fólk hætti alveg að kaupa hnífa á flugvöllum og bannað var að ferðast með þá.

Victorinox hefur frá í árdaga stuðst við þá reglu að hæstu laun starfsmanns megi ekki vera hærri en fimmföld meðallaun í fyrirtækinu. Þetta er 1:5 reglan, svokallaða, og það er ekki hægt að segja að þessi jafnaðar-regla hafi neikvæð áhrif á reksturinn því Victorinox stendur afar vel fjárhagslega og þar eru meðallaun mjög há pr. starfsmann eða um 35 milljónir ISK á hvern starfsmann. Victorinox veltir 70 milljörðum ISK og er því nokkuð stórt fyrirtæki.

Er hægt að innleiða svipaðar reglur smátt og smátt hér á landi? Geta fyrirtæki gert það sjálf? Er hægt að innleiða reglur af þessum toga fyrir land í heild? Það er erfitt að stjórna einkafyrirtækjum í eigu fárra, hvernig laun þau greiða, en það væri hægt gagnvart sumum fyrirtækjum m.a. opinberum fyrirtækjum sem og fyrirtækjum á markaði. Einnig  mætti hugsa sér þetta sem mögulegt nýtt rekstrarform sem gæti notið einhverra ívilnana og væri þannig hvetjandi.

Hvernig myndi 1:5 reglan útleggjast á Íslandi?
Ef við tökum til einföldunar að 500 þús kr séu meðallaun þá væri hægt að ræða 5 · 500.000 = 2.500.000 kr. í laun á mánuði fyrir hæstu mögulegu laun. Það eru há laun og er mögulegt að samfélagið gæti samþykkt að slík laun væru nægjanlega há sem hæstu laun.

Of mikill ójöfnuður gerir lífið verra (fyrir alla)
Þessi umræða kemur í kjölfar margra rannsókna og einnig því sem blasir við í heiminum, að aukinn ójöfnuður er ekki að leiða til ávinnings fyrir neinn, nema afar fáa einstaklinga. Ójöfnuður er orðinn það mikill að fleiri og fleiri eru farnir að sjá marga stóra ágalla við svona mikinn ójöfnuð og vilja upphefja umræðu til að ná þessum ójöfnuði eitthvað til baka – allavega að stöðva vöxt hans sem hefur aldrei verið meiri en nú.

Nóg er að horfa á rannsóknir Richard Wilkinson (hér) sem sýnir fram á hvað ójöfnuður er að skaða öll þjóðfélög mikið. Það er ekki nóg með að fleiri og fleiri hafi minna og minna á milli handanna; aukinn ójöfnuður gerir heilsu verri, umhverfið óhreinna, ánægja íbúa minnkar og hagvöxtur minnkar. Það eru því í raun eiginlega engir sem hagnast á svona mikilum ójöfnuði, nema það fáir að þessi þróun er löngu hætt að vera réttlætanleg.

Klisjuumræðan í stjórnmálunum reynir alltaf að flokka fólki hólf og lengi hefur það verið þannig að þeir sem tala gegn ójöfnuði eiga að vera sótsvartir vinstrimenn með óraunhæfa drauma um sósíallískar hugsjónir, teygandi svart kaffi í dragsúgi uppi á heiðum. Þetta er langt frá sannleikanum því ég þekki marga sem hallast meira til hægri en vinstri (t.d. ég sjálfur) en er þrátt fyrir það löngu hætt að lítast á blikuna. Við sjáum að of mikil græðgi er að eyðileggja heiminn, eyðileggja samfélög fólks og draga sterka innviði niður í máttleysi. Dæmin eru orðin svo skelfileg að meira að segja nokkuð ýkt fræði Ronald Reagans um nýfrjálshyggju eru farin að vera röksemdir okkar allra sem vilja benda á að núverandi stig ójafnaðar sé að eyðileggja allt það besta í veröldinni (sjá hér).

Við ættum því að hugleiða hvort það sé ekki einfaldlega sanngjarnt að skoða hvað skapað hefur 134 ára velgengni hjá fyrirtækinu Victorinox og finna leiðir til að auka jöfnuð í íslensku samfélagi á þann hátt að þeir sem reyna mikið á sig og bera sannarlega mikla ábyrgð geta fengið aukalega, en án þess að bilið þróist yfir í að vera of mikið.

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …