Vaxtarhlutdeild sýnir stöðuna eftir nokkur ár

Í áratugi hefur útreiknuð eða mæld markaðshlutdeild verið einn helsti mælikvarði fyrirtækja á stöðu þeirra og árangri. Þetta var ágætismælikvarði á meðan viðskiptalífið breyttist hægt, því markaðshlutdeild lýsir fyrst og fremst þeim árangri sem búið er að ná til þessa. Markaðshlutdeild getur auðvitað áfram verið nytsamur mælikvarði, einkum í þeim geirum þar sem breytingar eru hægar. En af því að staða fyrirtækja er alltaf að breytast hraðar og hraðar þá er vaxandi þörf á að horfa til jafns á aðra mælikvarða sem gefa innsýn inn í hver líkleg markaðshlutdeild verður í framtíðinni. Þá er skynsamt að skoða þann hluta viðskipta þar sem vöxturinn er mestur og reikna hver sé hlutur viðkomandi fyrirtækis í vaxtarhlutanum. Það er vaxtarhlutdeild.

Markaðshlutdeild segir nefnilega fremur lítið um framtíðina af því að vöxtur viðskipta á sér oft stað á sérstökum og oft nýjum segmentum en þar er það einmitt þar sem við sjáum framtíðina mótast.

Þetta mætti skoða út frá verslun, iðnaði, framleiðslu, þjónustu, fjarskiptum o.fl. en þar er áhugaverðast að fylgjast með hlutdeildinni þar sem mestur vöxtur er.  Einnig má nefna bílabransann en hann er dæmigerður geiri þar sem markaðshlutdeild er nokkuð þekkt en þó má fá innsýn inn í breytingar í framtíðinni ef við skoðum vaxtarhlutdeild. Með því að skoða hana er hægt að sjá líklega markaðshlutdeild inni í framtíðinni en vaxtar-segment bílabransans eru rafmagnsbílar og hybrid-bílar. Til eru dæmi um bílaframleiðanda sem hafa um langt skeið haft mikla markaðshlutdeild og hafa enn, en hafa afar litla vaxtarhlutdeild. Það eru bílaframleiðendur sem munu líklega eiga erfitt í framtíðinni.

Vaxtarhlutdeild er því nokkurs konar innsýn um markaðshlutdeild framtíðar, með einhverri óvissu þó.

Þannig er hægt að nota vaxtarhlutdeild til þess að:

  1. Fá innsýn inn í það hverjir verða sterku vörumerkin á næstu árum og áratugum (til að skilja markaðinn).
  2. Átta sig á því hvaða vörumerki eru í hættu með að lenda í hröðu falli á næstu misserum eða árum (fyrir stjórnendur).
  3. Skoða hvaða nýju aðilar geta átt möguleika á að ná sterkri fótfestu í náinni framtíð (fyrir fjárfesta).

Þetta er í takt við það sem við sjáum þegar líftími fyrirtækja er skoðaður. Hann styttist sífellt og hefur gert frá upphafi mælinga. Fyrir 70-80 árum var 40-70 ára aldurstími fyrirtækja algengur. Nú erum við að sjá miklu lægri tölur eða um 18 ára líftíma fyrirtækja að meðaltali (skv. tölum fyrirtækja bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum).

Niðurstaðan er: Fyrirtæki hafa alltaf styttri og styttri tíma til að bregðast við aðstæðum. Þess vegna þurfum við hraðvirkari mælikvarða sem segja okkur hver sé líkleg hlutdeild fyrirtækja í náinni framtíð eins og hún er að þróast hverju sinni. Þær upplýsingar er hægt að greina með því að skoða vaxtarhlutdeild.

Ég hef unnið greiningu á vaxtarhlutdeild fyrirtækja í ráðgjöfinni fyrir Verdicta. Hefur vaxtarhlutdeild oft veitt fyrirtækjum algerlega nýja innsýn inn í það hvert þau eru að stefna.

 

Facebook Comments

Check Also

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar …