Mestu vaxtalækkanir í áraraðir

Í kjölfar vaxtahækkana á húsnæðislánum hjá einstaka lífeyrissjóðum hafa spunnist upp miklar umræður hvenær réttlætanlegt sé að hækka vexti. Auðvitað eru mörg sjónarmið sem þar koma inn í, bæði tryggingafræðileg staða sjóða en einnig skiptir máli að hafa í heiðri hagsmuni lántakenda, að hækka vexti ekki um of, út frá sanngirnis- og siðferðislegu sjónarmiði. Síðarnefndur sjónarmiðin hafa til þessa verið á stóru gráu svæði, hér á landi og oft lítil tillit tekið til þeirra.

Vextir hafa verið að lækka mikið hvort sem horft er til Íslands, Skandinavíu, Evru-svæðisins eða til Bandaríkjanna. Við höfum við verið að upplifa einstakt vaxtalækkunarskeið á húsnæðis­lánum og er langt síðan jafn öflugt lækkunarferli hefur sést í tölum. Nokkur dæmi:

Þróun vaxta á húsnæðislánum á evru-svæðinu, breytilegir vextir með yfir 10 ára vaxtatímabil skv. evrópska seðlabankanum (sjá hér). Vextir eru nú með lægsta móti:

Einnig hefur þróun vaxta á 30 ára húsnæðislánum í Bandaríkjunum verið að lækka verulega hin síðari ár (sjá hér). Og ef við lítum aðeins út fyrir húsnæðismarkaðinn þá hafa vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum í 30 helstu nágrannlöndunum hafa lækkað í öllum löndum frá áramótum utan við eitt land, Litháen þar sem vextir á þeim bréfum hafa staðið í stað (sjá hér):

Þeir lífeyrissjóðir sem hafa reynt að rökstyðja hækkun vaxta, síðustu mánuði, eru í þeim ákvörðunum sínum mjög á skjön við alla þróun vaxta, víðast hvar í okkar heimshluta.

Hægt væri e.t.v. að rökstyðja vaxtahækkanir hjá lífeyrissjóðum ef afkoma þeirra væri tvísýn eða ef tryggingafræðileg staða hefði veikst hin síðustu misseri. Þvert á móti þá hafa þær tölur styrkst og er afkoma mjög viðunandi og horfur góðar, sé vitnað í ársreikninga þeirra sjóða sem reynt hafa að ástunda vaxtahækkanir.

Enn furðulegra verður málið skoðað þegar krafan á verðtryggðum ríkistryggðum bréfum (HFF) er skoðuð en hún hefur lækkað verulega, síðustu misseri:

Sú mikla umræða um vaxtahækkanir Lífeyrisjóðs verslunarmanna hefur reyndar kallað fram hvað stefnumótun og skýrar leikreglur eru í sumum tilvikum byggðar á veikum grunni í lífeyriskerfinu. Stjórnendur sjóða geta hækkað vexti til að treysta góða afkomu sjóðs í næsta ársreikningi, en eftir þeim niðurstöðum eru þeir að hluta dæmdir. Og hver vill ekki fá jákvæðan dóm? Það hlýtur því að vera ákveðin umframhvatning sem er í einhverjum tilvikum til staðar í lífeyrissjóðum landsmanna, að hækka vexti meira en nauðsynlegt er, til að tryggja viðunandi afkomu. Þessa umframrentu verða greiðendur húsnæðislána – almenningur sjálfur – að greiða, í hverjum mánuði. Veik staða almennings að svara vaxtahækkunum hefur lengi verið óviðundandi hér á landi því sjóðir og fjármálafyrirtæki hafa haft ægivald yfir vaxtaákvörðunum sem hafa beina tengingu við afkomuna. Freistnivandinn er því til staðar og því þarf skýrari reglur og að skerpa á stefnumótun svo að það sé ekki alltaf almenningur sem þarf að breikka bakið ef stjórnendur sjóða skynja minnsta mögulega ótta um að ókyrrð sé í nánd.

Og ef vaxtaþróun á Íslandi er skoðuð út frá Hagtölum Seðlabanka Íslands þá má sjá að við lifum nú lægsta vaxtaskeið í áratugi ef undan er skilið mitt ár 2011 þegar eftirleikur hrunins kallaði fram ögn lægri vexti en eru nú, 5,25%. Lægstu óverðtryggðu vextir af skuldabréfalánum nú eru 5,60% sem er lægsta tala sem sést hefur á góðæristímum um langt skeið, hér á landi:

Sama saga er því sögð í öllum tölum, hér heima og í tölum annarra landa: Seðlabankar, lífeyrissjóðir, bankar og fjármálafyrirtæki eru öll sem eitt að hamast við að lækka vexti. Hvernig á íslenskur lífeyrissjóður í ósköpunum að rökstyðja það að hækka þurfi vexti? Voru gerð mistök í fortíðinni sem þarf að breiða yfir nú?

 

Núverandi ástandi í vaxtaákvörðunum húsnæðislána, sem hafa mikil áhrif á almenning er því eitt stórt, grátt svæði þarf sem skýra þarf leikreglur, siðferði og ferli ákvarðana, þannig að það sé ekki alltaf öllu velt á hin breiðu bök vinnandi fólks. Hvað með þegar lífeyrissjóður gerir mistök í fortíðinni og sér þau ekki fyrr en nokkrum árum síðar í slakari tryggingafræðilegri stöðu? Það væri auðvelt að hylma yfir slíkt með því að hækka vexti á allt aðra kynslóð en þá sem var til staðar þegar mistökin voru gerð. Slíkt hefur komið fyrir í vaxtaákvörðunum lífeyrissjóða og er enn að koma fyrir. Aftur, þá er þetta þægindaumhverfi lífeyrissjóða eitthvað sem þarf að skerpa á með skýrari stefnumótun í samvinnu við FME. Lykilatriðið er að hafa ákvarðanir um vexti í takt við þróun hér heima og erlendis. Að vaxtahækkanir lífeyrissjóða sem koma í kjölfar fádæma vaxtalækkana Seðlabanka séu ekki liðnar nema að til komi haldbærar skýringar sem setji hina raunverulegu ástæðu á borðið.

Þetta vandamál – vaxtahækkunarfreistni – hefur svo leitt til þess að vextir eru tvö- til þrefalt of háir á Íslandi m.v. nágrannalönd. Árin hafa liðið og fólk verður sífellt óánægðara en lítið gerist. Að taka á þessum vanda og opna umræðuna, eins og VR gerði nýlega kallar því fram mikil neikvæð viðbrögð, fyrst og fremst vegna þess að sjónarmið almennings hafa ekki áður verið lögð á borðið þegar vaxtaákvarðanir eru teknar og lífeyrissjóðir hafa ekki vanist því að þurfa að taka tillit til sjónarmiða almennings í sama mæli hér og tíðkast í nágrannalöndunum. Umræðan bendir vonandi til þess að hagsmunir almennings verði oftar settir á borðið þegar ákvarðanir um vextir eru teknar.

Framtíðin hlýtur að bjóða almenningi upp á breytt landslag í vaxtaákvörðunum: Að hugsað sé bæði um hag sjóða og hag greiðenda þegar vaxtaákvarðanir fara fram. Allt bendir til þess að nokkuð lengi hafi hallað á annan aðilann um of í þessum dansi, að vextir hafa verið of háir og hvorki lífeyrissjóðir né stjórnvöld hafa gert mikið til að líta til sanngirnissjónarmiða fyrir almenning í landinu. Við vonum að þetta sé að breytast og lífeyrissjóðir og aðrar fjármálastofnanir endurskoði þá „þægindastrategíu“ að hækka vexti í hvert sinn sem einhver óstöðugleiki gerir vart við sig í hinum miklu víðáttum Excel-skjala.

(Þessi grein birtist einnig í Kjarnanum, sjá hér.)

Facebook Comments

Check Also

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta …