Má ég vera aðdáandi Trumps?

Verstu þjóðarleiðtogar sögunnar hafa yfirleitt gert eitthvað sem má skilgreina sem jákvætt:

Hitler tók vegakerfið í gegn (byggði Autobahn), byggði upp veldi Volkswagen, styrkti rannsókna- og vísindastarf meira en áður þekktist í Evrópu, byggði margar glæstar byggingar (t.d. Olympíuleikvanginn í Berlin) og styrkti vinnulöggjöf mikið, almenningi í hag.

Mussolini (harðstjóri Ítalíu 1922-1943, foringi fasista, Partito Nazionale Fascista) var öflugur í að byggja skóla, vegi og brýr og ýmsa innviði.

Jafnvel einn mesti fjöldamorðingi sögunnar, Mao ZeDong, innleiddi sterk réttindi kvenna í Kína og ríkari félagsleg réttindi en áður höfðu þekkst, styrkti efnahagslífið og jók velmegun, samstöðu og samkennd almennings.

― ― ―

Svona er þetta með flest fólk og flesta þjóðarleiðtoga: Nær allir gera eitthvað sem er gott og margir líka eitthvað sem er slæmt. Það eru auðvitað engin ný sannindi. En þetta varpar ljósi á það hvernig við eigum að hugsa um þjóðarleiðtoga og aðra ráðamenn í samfélaginu um það hvort við séum þeim fylgjandi eða ekki.

Stóra rökvillan, sem algeng er nú á tímum, er að fylgja þjóðarleiðtoga að málum vegna einhverra verka eða eiginleika sem við teljum upp og teljum vera jákvæð, en sleppum að horfa á heildarmyndina.

Þetta eru allt setningar sem ég hef heyrt oft og reglulega frá skynsömu fólki sem þó styður Trump:

 1. Trump er frábær af því hann brýtur niður establismentið og dregur úr valdi elítunnar.
 2. Trump er frábær af því hann er svo ríkur að enginn getur keypt hann eða mútað honum.
 3. Trump er frábær af því hann kann svo vel á viðskipti að hann mun gera Bandríkin enn stærra viðskiptaveldi en nokkru sinni áður.
 4. Trump er frábær af því hann er svo slyngur samningamaður („deal maker“) að hann mun ná öllum hagsmunum Bandaríkjanna fram í langfelstum málum.
 5. Trump er frábær af því hann er hann hefur sýnt það að hann kann að láta draumana rætast (hann er svo gott dæmi um hinn bandaríska draum).

Eitthvað af þessu er mögulega rétt. En ekkert er af þessu er nægjanleg ástæða fyrir því að vera fylgismaður Trumps, nema með því að loka augunum fyrir öðrum áhrifum sem hann hefur á samfélagið. Og að loka augunum fyrir öðrum áhrifaþáttum er það sem svo oft er nefnt „ignorance“ eða firring. Firring er þegar upplýst fólk lokar augunum gagnvart áhrifum leiðtoga en fáfræði er þegar fólk veit ekki betur.

Það er mögulega firring að segjast vera umhverfisverndarsinni en fljúga oft erlendis í erindum sem eru ekki alltaf mikilvæg. Það er einnig mögulega firring að fordæma þá sem enn nota jarðefnaeldsneyti á bíla en gera engar athugasemdir við alla plastnotkun sushi-veitingastaða. Það er líka firring að segja að Trump sé góður forseti af því hann mun draga úr valdi elítunnar (jafnvel þótt hann geri það) af því að það svo margt annað neikvætt sem fylgir veru hans á forsetastóli.

Fylgismenn stjórnmálaleiðtoga þurfa því að spyrja sig: Eru heildaráhrif leiðtogans jákvæð á samfélagið í heild? Býr hann til betra samfélag, þegar allt er skoðað?

Því ef einhver segist styðja Trump út frá því að tiltaka einhver möguleg einstök jákvæð áhrif (brýtur upp elítuna, er svo góður deal-maker o.s.frv.) þá eru það engin rök. Það er eins og Jürgen Fischer, þýskur handverksmaður svaraði árið 1936, þegar hann var spurður um hvort hann styddi Hitler: Já, ég ætla að kjósa Hitler, hann mun gera vegakerfið betra en nokkur annar og byggja hér í Þýskalandi flottustu vegi í heimi. Efnahagurinn mun blómstra og aðrar þjóðir líta til okkar öfundaraugum (sjá The Hitler State: The Foundation and Development Of The Internal Structure Of The Third Reich).

Nei, Jürgen Fischer, þú varst aðeins að horfa á einstaka þætti, ekki á allt og lokaðir augunum fyrir mörgum neikvæðum áhrifaþáttum Hitlers.

Hver eru neikvæðu áhrif Trumps þegar heildin er skoðuð? (Hér er ekki hægt að gera tæmandi lista)

 1. Trump ýtir undir rasisma og hatur á milli ólíkra hópa.
 2. Trump veikir frjálsa fjölmiðla og frjálsa umræðu, sem gerir fólk óupplýstara
 3. Trump ýtir undir ofbeldi í þjóðfélaginu, af hendi lögreglu og á milli ólíkra hópa.
 4. Trump ýtir mjög undir ógagnsæja stjórnsýslu sem kyndir undir spillingu, oft mjög mikla spillingu.
 5. Trump vinnur jafnt og þétt að því að komast sem næst því að verða einráður við stjórn landsins – fagleg sjónarmið verða undir, andverðleikar ofaná.
 6. Trump vill handvelja dómara og forstjóra stofnanna og takmarka þannig víðtæk áhrif margra sjónarmiða.
 7. Trump tekur ekkert tillit til hlýnunar jarðar og mun því hraða á því ferli sem er orðið nógu hratt fyrir.
 8. Trump sýnir fasíska stjórnartilburði sem alltaf hafa endað með ósköpum í veraldarsögunni.
 9. Trump dælir fjármunum í hermál en dregur úr fjármunum til innviða sem gera samfélagið betra.

Og svona mætti lengi telja.

― ― ―

Við getum nefnilega ekki ákveðið hvort Trump sé vænlegur á forsetastóli með því að telja upp lista yfir einstök verk og einstaka áhrifaþætti. Nei, við verðum að hugsa um heildarmyndina og spyrja okkur fyrir hvaða gildi hann stendur. Eru það gildi sem ég aðhyllist? Ljúga, pretta, svíkja, plata, hagræða, níðast á öðrum, lágt siðferði, engin sympatía? Nei, þetta eru gildi sem fæst okkar samþykkja. Það ætti að vera nóg til þess að segjast ekki styðja Trump. Vegna þess að ef við ræðum við Trumpista út frá staðreyndum og einstökum verkum og áhrifaþáttum þá erum við föst. Þeir geta alltaf sagt, eins og Jürgen Fischer að það sé frábært að fá besta vegakerfi í heimi. Við verðum að ræða út frá gildum, því það er þannig sem Trump stendur afhjúpaður, kviknakinn með skítinn undir teppinu í lófanum.

Gildin segja okkur nefnilega hvaða heildaráhrif stjórnmálaleiðtoga munu verða. Þess vegna er miklu betra að hugsa um stjórnmálaleiðtoga út frá gildum heldur en einstökum verkliðum, áherslum og áhrifaþáttum. Prófið að spyrja ykkur í huganum hvaða gildi það eru sem helstu stjórnmálaleiðtogar Íslands standa fyrir.

Og með því að horfa á gildin þá getum við meira að segja unnið kappræður við aðdáendur Trumps og fengið þá til að endurhugsa málin.

Leitum að þjóðarleiðtoga sem gerir samfélagið betra, ekki bara okkar eigin efnahag um stundarsakir. Og með því að spegla þá í gildum þá afhjúpast að einhverju leyti hvort þeir gera samfélaginu gott eða ekki.

Donald Trump virðist aðhyllast nefnilega svipuð gildi og Hitler, Mussolini og fleiri gerðu:

 • Ótakmörkuð græðgi er góð (eigin græðgi, ekki annarra).
 • Þröngsýni og firring er í lagi ef það þjónar mínum tímabundnu efnahagslegu hagsmunum.
 • Einstrengingsháttur, kredda og ofstæki er í lagi gagnvart þeim sem gagnrýna.
 • Lygi er aðeins tæki til að ná sínu fram.
 • Kvenfyrirlitning er aðeins aðferð til að finna fyrir mínu eigin valdi.
 • Harðstjórn, einræði, ósanngirni er í lagi því slíkt eykur völd.
 • Að fremja ódæði og kenna öðrum um er í lagi því það eykur athygli og minnkar eigin sök í erfiðum málum.
 • Þakklæti, samkennd og góðvild er eitthvað sem ekki þarf að leggja áherslu á.

― ― ―

„Worst thing that can happen to humanity“
Þegar þjóðarleiðtogi sýnir gildi eins og búið að lista upp hér að ofan þá sýnir sagan okkur að samfélagið fer hratt niður á við. Raunar má segja að ofangreind gildi, sem finna má bæði hjá Donald Trump og úr sögu Adolfs Hitler, séu öruggur leiðarvísir að það versta sem gerst hefur í veraldarsögunni. Nóg er að lesa bókina Um harðstjórn eftir Timothy Snyder til að sjá varnaðarorðin sem við eigum að hafa í huga ef við sjáum þjóðarleiðtoga sem aðhyllast ofangreind gildi.

Það er því raunveruleg hætta af þeim gildum sem Trump aðhyllist. Tölum út frá þeim því það er okkar allra að fylgjast með og vara við, horfa á heildarmyndina og benda á afleiðingar ógnvænlegra gilda sem hafa áður gert mikinn skaða í veraldarsögunni. Hættum að rífast við aðdáendur harðstjóra um það hvort einstök verk eða einstakir áhrifaþættir séu jákvæðir eða ekki. Tölum út frá gildum og fáum fólk til að tengja sig við þau. Þá verður umræðan ögn vitrænni.

 

Check Also

Traust eflist ekki með yfirlýsingum um að ætla sér að gera betur

Eitt sinn var sú tíð að nóg að gera svona til að fá aukið traust …