Traust eflist ekki með yfirlýsingum um að ætla sér að gera betur

Eitt sinn var sú tíð að nóg að gera svona til að fá aukið traust hjá almenningi:

Það var sem sagt nóg að segjast vera traustur―tengja sig við traust―til að fá aukna ímynd um traust. Auðvitað virkaði þetta ekki á alla, en marga. Traust á fyrirtækjum og stofnunum var í sterku hlutfalli við það hversu mikið þessir aðilar tengdu sig við traust og töluðu um traust. Þetta var á þeim tímum þegar var lítil samkeppni um traust―næstum allir voru traustir og ef eitthvað kom upp þá var því sópað undir hið eilífa teppi.

Þessir tímar eru liðnir og það sem betur fer. Almenningur mótar sér eigin skoðanir um traust og notar til þess yfirleitt allt annað en yfirlýsingar sjálfra fyrirtækja og stofnana um traust. Almenningur vill dæma út frá verkum af því fólk er orðið nánast ónæmt fyrir yfirlýsingum um að ætla sér að vera traustur.

Mörg dæmi eru um það úr fortíðinni að fyrirtæki hafi gengið svo langt að auglýsa verðleika sína og tala um sig sjálft og sína eiginleika í þriðju persónu (hér er dæmi) sem myndi í dag teljast yfirgengilega taktlaust.  Samt er ekki svo langt síðan að þetta þótti gott og gilt.

Það er sem sagt ekki lengur nóg að lýsa yfir vilja til góðrar hegðunar því það eitt og sér eykur mjög lítið þá tiltrú að hegðun fari batnandi. Annað þarf til að traust megi aukast, einkum þegar traust hefur hrunið mikið á stuttum tíma.

Traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila hefur þynnst út með máli Samherja. Fólk trúir því í auknu mæli að fyrirtæki geti farið sínu fram án þess að nægjanlegt eftirlit sé fyrir hendi. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir ríkisstjórn að bregðast við stöðunni með aðgerðum sem raunverulega auka traust. Nú er búið að tilkynna um þessar aðgerðir:

  1. Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja.
  2. Auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja.
  3. Stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi.
  4. Ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót.
  5. Tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna.
  6. Varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum.
  7. Fylgjast með viðbrögðum erlendis.
  8. Óska eftir út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða.

Eru þessar aðgerðir líklegar til að auka traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila?

Atriði 1 og 2 eru sama atriðið, beint að tveimur mismunandi gerðum fyrirtækja. Að betra aðgengi sé að upplýsingum um þrjá þætti sem tengjast þessum fyrirtækjum: Upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Hér er ólíklegt að þessi atriði auki traust á ríkisstjórn, eftirlitsaðila og getu þeirra til að sjá fyrir og koma í veg fyrir að mál geti átt sér stað eins og Samherja-málið blasti við í fréttaþættinum Kveik. Fyrirtæki geta nefnilega sett fram allar þessar tölur og upplýsingar án þess að neitt grunsamlegt vakni, jafnvel þótt að verið sé að ástunda á bak við tjöldin greiðslur sem eiga sér ekki eðlilegar skýringar. Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá úr upplýsingum um rekstur? Lista yfir mútugreiðslur? Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá í upplýsingum um góða stjórnarhætti? Yfirlýsingu fyrirtækja að stjórnarhættir þeirra séu nú ekki góðir af því að þau ástundi mútur? Við búum ekki í kvikmyndinni „The Invention of Lying“ þar sem allir segja 100% satt. Við búum í heimi þar sem fyrirtæki eiga það til að ganga mjög langt til að fela vafasama slóð.

Atriði 3, að stuðla að úttekt er enn ólíklegra til að auka traust. Nógu lítil áhrif hefur það að láta vinna úttekt, of oft er slíkt plagg kurteisislegt tal um ýmsa þætti þess sem skoðað er. Hvað þá með að stuðla að úttekt? Það hefur enn meira vægi. Alveg eins væri hægt að setja á aðgerðalista ríkisstjórnar að stuðla að því að stór fyrirtæki fari nú að haga sér sómasamlega. Hverju myndi það skila? Líkast til engu.

Atriði 4 er í sjálfu sér jákvætt en hefur lítið vægi af því fyrirtæki láta aðra leppa eignarhald ef eignarhald er ekki í lagi vegna tengdra aðila. Þetta hafa fyrirtæki gert um langt skeið og sást vel í Rannsóknarskýrslu Alþingis eftir hrun þar sem leppun eignarhalds var ástundað allsstaðar þar sem þurfti. Notað eins og kítti gegn leka. Þetta atriði mun því varla auka traust almennings gagnvart getu ríkisstjórnar og eftirlitsaðilum mikið, a.m.k. ekki hvað eftirfylgni gagnvart gott viðskiptasiðferði varðar.

Atriði 5 er mjög jákvætt og mun líklega hafa áhrif til þess að bæta traust. Ef rannsóknaraðilar hafa svigrúm til að starfa vel og faglega þá er mikilvæg stoð til staðar. Mjög mikilvægt.

Gagnvart atriði 6, þá skiptir öllu máli hvernig varnir eru settar upp. Gall

Atriði 7, hefur eðli málsins samkvæmt ekki nein áhrif á traust af því að stjórnvöld eiga alltaf að fylgjast með orðræðu erlendis.

Atriði 8 er þess eðlis að það gæti haft jákvæð áhrif í þá átt að ýta undir traust en það verður að koma í ljós þegar út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða verður birt hver áhrifin verða.

Aðferð handhægra hænuskrefa

Tölum út frá „game theory“ og skoðum leikinn: Stjórnvöld að reyna að passa að einkafyrirtæki valdi ekki samfélagslegum skaða. Gallinn við þennan leik er að stjórnvöld eru alltaf nokkrum leikjum á eftir. Stjórnvöld eru allt of lítið að fylgjast með þessum málum með pro-aktífri vinnu og regluverki. Þegar almenningi ofbýður þá fara stjórnvöld af stað og spila nokkra leiki. Gallinn er hins vegar að einkafyrirtæki eru að spila leikinn alla daga og hafa því yfirleitt langan tíma til að undirbúa nýja leiki sem sjá við hægum leikjum stjórnvalda.

Dæmi: Bannað er að framleiða stórtæk vopn (WMD-vopn) víða og eru það samfélagslegir hagsmunir sem ráða slíku banni. Flestir eru sammála því að hefta framleiðslu slíkra hættulegra vopna. Bannið er þannig að það er bannað að framleiða þessa hluti í mörgum Vestrænum löndum (þó ekki öllum) og nær bannið til þess að ekki megi fullframleiða þessi vopn. Einkafyrirtæki framleiða þá vopnin í 2-3 löndum og flytja til enn annars lands þar sem þau eru sett saman. Stjórnvöld víðast hvar vita af þessu en gera fátt í þessu af því almenningur er ekki að krefjast þess. Þarna taka stjórnvöld lítil hænuskref í málinu og gefa einafyrirtækjum fullt svigrúm til að fara framhjá lögunum. Alltof oft nota stjórnvöld þessa aðferða handhægra hænuskrefa. Gera eitthvað en vita það að sum einafyrirtæki munu finna nýja leikfléttur og komast framhjá lögum ef þau vilja nógu mikið.

Stjórnvöld eru oft aðeins að hugsa um næstu kosningar og athafnasýn þeirra nær oft ekki lengra en að næsta kjördegi. Ef almenningur er óánægður þá þarf að gera eitthvað. Markmið stjórnmálamanna er því að sefa óánægju, ekki að semja úthugsuð lög sem gera samfélagslegt rými almennings og einkafyrirtækja betri til lengri tíma. Í þessu liggur aðstöðu- og markmiðamunurinn hjá þessum tveimur aðilum.

Stjórnvöld þurfa því að skipta út aðferð handhægra hænuskrefa þegar þau eru að eiga við fyrirtæki sem geta í ákveðnum aðstæðum skapað eða ýtt undir samfélagslega hættu, ójöfnuð, auðsöfnun, ólöglega fjármagnsflutninga og mútur. Stjórnvöld þurfa að taka upp aðferð langtíma lagasetningar þar sem þau gera ráð fyrir að aðilar reyni að komast framhjá þeim lögum sem verið er að semja. Átta sig á hvern er verið að „díla við“ og hvernig leikreglur eru í raun og veru. Taka þá hugsun út að enginn ætli að leita nýrra leiða, nýrra klækja. Stjórnvöld þurfa þess vegna í allri lagasetningu sem varðar siðferði og fyrirtækjaumhverfi að setja fram miklu víðtækari lög sem taka ekki aðeins á tilvikinu sem nýbúið er að koma upp heldur binda hendur þeirra sem reyna að spila grófasta leikinn og beita mestu klækjunum.

Hvað væri hægt að gera frekar til að auka traust?

Traust á milli stjórnvalda og almennings eykst ef:

(1) stjórnvöld bregst við í erfiðum málum með aðgerðum sem eru það öflugar að almenningur fær trú á að nú sé eitthvað að breytast,
(2) ef stjórnvöld framkvæma eitthvað sem hefur afgerandi áhrif á að sömu hlutir endurtaki sig ekki,
(3) ef stjórnvöld fara út fyrir þægindarammann og hugsa hlutina lengra en fram að næstu kosningum
(4) og ef stjórnvöld sýna það glögglega að hagur almennings er númer eitt.

Það eru sem sagt ótvíræðar aðgerðir en ekki hvít- og kattarþvottur sem fær traust á milli stjórnvalda og almennings til að aukast. Til að svo megi verða þá þurfa stjórnvöld að stíga aðeins meira út fyrir þægindaramman en þau hafa gert til þessa. Af því að traust mun ekki aukast með yfirlýsingum um að ætla sér að gera einhverntíman seinna betur.

 

 

 

 

 

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …