Tveir baráttuhópar í loftslagsmálum: Tæknisinnar og náttúruþjónar

Til að efla baráttuna í loftslagsmálum er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér ólíkum hópum aðgerðar- og loftslagssinna. Oft má flokka baráttufólk fyrir loftslagsmálum í tvo hópa, tæknisinna og náttúruþjóna.

Í samhenginu loftslagsmál mætti skilgreina tæknisinna þá sem vilja nota tækni til að leysa loftslagsmál. Nota iðnað, verkfræði og vísindi til að leysa loftslagsvandann. Náttúruþjónar vilja hins vegar leysa loftslagsmál með því að leyfa náttúrunni að vinna sjálfri sem mest óáreittri og að hætta inngripum með tækni inn í ferla náttúrunnar. Aðalvandamál vegna hlýnunar jarðar er að draga hratt úr losun á CO2. Tæknisinnar vilja nota tækni til að ná jöfnuði í losun, bæði með því að draga úr losun og með því að taka CO2 úr andrúmslofti. Að nota sem sagt tækni til að leysa vandann. Náttúruþjónar vilja hins vegar draga úr losun með því að draga úr eða banna þá starfsemi sem leiðir til losunar. Og að yrkja jörðina og auka getu hennar til að binda meira og losa minna í gegnum krafta náttúrunnar.

Tæknisinnar og náttúruþjónar hafa þannig nákvæmlega sama markmið, vilja bara fara mjög ólíkar leiðir að þeim.

Við sjáum hér á landi mjög mismunandi leiðir sem tæknisinnar og náttúruþjónar vilja leggja áherslu á. Tæknisinnar vilja nota tækni til að vinna gróðurhúsalofttegundir úr mengunarstraumum. Vilja nota tækni á stóriðju og ná að fanga mengunina áður en hún sleppur út í andrúmsloftið. Vilja hreinsa CO2 úr andrúmslofti með tækni og endurvinna þannig CO2 úr andrúmslofti inn í hringrásarferla sem við mankyn notum.  Og margt fleira. Náttúruþjónar vilja hins vegar takmarka mengandi iðnað verulega og draga úr eða banna slíka starfsemi og ná þannig að draga úr losun CO2 í andrúmslofti. Vilja friðlýsa stór náttúrusvæði og láta þau ósnortin. Leggja áherslu á gróðursetningu og að hjálpa náttúrunni að binda meira magn CO2. Og margt fleira.

Hér kemur að atriði sem snertir Ísland mjög mikið. Það er virkjun vatnsafla og jarðvarma. Náttúruþjónar eru ekki svo mjög hlyntir virkjunum og vitna í söguna sem segir að hrein raforka hafi of oft verið notuð til mengandi framleiðslu. Að virkjanir hafi leitt til aukinnar mengunar (óbeint). Tæknisinnar vilja hins vegar halda áfram að skoða virkjunarkosti og auka framleiðslu á loftslagsvænum afurðum sem menga ekki og gera gagn í loftslagsmálum. Sem dæmi þá verður mikil þörf á að framleiða grænt eldsneyti fyrir skip, flug og önnur samgöngutæki. Þetta verður ekki gert nema með tæknilausnum, verkfræði, eðlisfræði og efnafræði.

Leiða má líkum að því að umræðan og virkjanir og áhrif þeirra á loftslagsmál muni breytast allnokkuð á næstu árum. Í áratugi hefur íslensk þjóð verið vön því að virkjanir leiði til aukningar á mengandi starfsemi. Með aukinni tækniþekkingu eru fleiri og fleiri að átta sig á því að virkjanir á Íslandi framleiða afar verðmæta raforku sem er græn og getur gert mjög mikið gagn í loftslagsmálum. Að græna raforkan okkar geti gert það kleyft að ástunda verðmæta framleiðslustarfsemi án þess að menga. Jafnvel með því að menga neikvætt þ.e. að umbreyta mengun yfir í eitthvað gott fyrir okkur öll. Þetta getur græna raforkan okkar gert. Þeir sem vilja vinna að “net zero” markmiðinu, að viðbótarlosun CO2 út í andrúmsloft verði núll eða neikvæð hljóta því að verða í æ meira mæli hlyntir því að virkja, einfaldlega vegna þess að hrein græn raforka getur gjörbreytt stóru tölunum í loftslagsmálum. Þetta mætti kalla „að virkja grænt“ þegar virkjað er með þeim hætti að engin mengun verður í starfseminni sem notar grænu raforkuna. Svokallað “win-win” fyrir alla.

Við dettum fljótlega í það að spyrja okkur: Hvort eru það tæknisinnar eða náttúruþjónar sem hafa rétt fyrir sér? Svarið er hvorugur hópurinn eða báðir. Það er því engin leið er að segja að annar hópurinn hafi meira rétt fyrir sér heldur en hinn. Samt vinna þessir hópar mjög lítið saman, líta gjarnan hvor á annan sem andstæðinga. Þetta er slæmt fyrir loftslagsmálin því vísindafólk hefur fyrir löngu bent á að mankyn verður að nýta sér aðferðir beggja hópa – bæði tæknisinna og náttúruþjóna til að leysa loftslagsmálin. Þessir hópar ættu því að vinna meira saman en áður.

Tæknisinnar hafa eitt og annað til síns máls. Fyrir 50 árum lifði 40% jarðarbúa við mikla fátækt, jafnvel hungur. Hálfri öld seinna eru það 8% jarðarbúa sem lifa við sömu skilyrði. Þetta er ávinningur sem náðist með tækni og hugviti. Ávinningurinn er meiri en þessi breyting frá 40% niður í 8% af því að á sama tíma hefur íbúafjöldi jarðar tvöfaldast. Með miklum endurbótum á tækni til jarðræktar var hægt að margfalda skilvirkni og framleiðslu á matvælum og þannig seðja mun fleiri munna en áður var. Tæknilausnir hafa þannig verið grunnur að mörgum helstu framfaraskrefum mankyns. En á sama tíma hafa afleiðingar þessara framfaraskrefa ekki verið íhuguð til enda og því hefur tæknin e.t.v. farið fram úr sér sjálfri og gert loftslagsbúskap grikk. Tæknin getur því gert gagn í loftslagsmálum og forðað milljörðum tonna af CO2 frá því að enda í andrúmsloftinu.

Náttúruþjónar hafa líka eitt og annað til síns máls. Þeir eru í eðli sínu skeptískir á tæknina og segja að tækni, iðnaður og framleiðsla sé ástæða þess að allt of mikil losun er á CO2 út í andrúmsloftið. Vilja því ekki nota tækni til að leysa loftslagsvandann af því þeir hafa illan bifur á tækni; líta á tæknilegar lausnir sem kjarna vandans.

Til að setja allt afl í loftslagsmálin þurfa bæði tæknisinnar og náttúruþjónar að vinna saman. Það á ekki að vera erfitt, báðir hópar hafa nákvæmlega sama markmið.

 

Check Also

Ný skýrsla um loftslagsmál – ótrúleg sýn!

Nýja loftslagsskýrslan frá IPCC (6th Assessment Report) segir margt nýtt um stöðuna í loftslagsmálum í …