Sykurskattur eða heilsugjald?

Nú er umræða um sykurskatt aftur komin á flug. Þeir sem fá tekjur sínar út frá sykursölu tala allir með einum rómi. Forstjóri sælgætisfyrirtækisins Góu segir „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og líka: „Það getur vel verið að við séum orðin eitthvað of þung. En tökum við ekki bara á því í ró­legheitunum?“ Og forstjóri Nóa-Síríus segir: „Það eru engar einhlítar niðurstöður í rannsóknum um tengsl sykursýki og sykurneyslu sem sýna fram á beint samband þar á milli. Ég efast um að sykurskattur hafi stórkostleg áhrif, en veit að hann eykur mjög flækjustigið hjá viðkomandi fyrirtækjum og er þeim dýr í framkvæmd.“

Það er sérstakt að sjá þessa orðræðu um sykur hér á landi því ef staðreynda er leitað út frá reynslu annarra þjóða þá sjást allsstaðar þau rök að aukagjald á sykurneyslu minnki sölu á sykri. Þetta einkennir íslenska umræðu oft; það eru settar fram einhverjar staðreyndir og gert ráð fyrir því að enginn leiti sannleikans erlendis og að íslensku orðræðunni sé þar með bara trúað. Þetta virkaði hér áður fyrr, þegar Ísland var einangraðra og fréttir og upplýsingar bárust stopult. En nú er varla hægt lengur að slengja bara einhverju fram sem stenst ekki skoðun.

Það meira að segja þannig að framkvæmdastýra landsamtaka íslenskra útgerðarmanna blandaði sér í sykurumræðuna á síðasta ári og sagði: „Neyslu sykraðra matvæla verður ekki stýrt með sköttum“ og gaf lítið fyrir rannsóknir og ráðleggingar Landlæknisembættisins um sykurmál. Hún vissi jú miklu betur en sjálfur Landlæknir. Grein hennar er hér. Þetta er stór galli við íslenska umræðu hvað hún á það til að vera faglítil og málefnalaus. Það má bara segja eitthvað og vona að einhver trúi.

Rök #1: Sykurskattur virkar ekki

Slökustu rökin í sykurumræðunni eru: „Sykurskattar virka ekki“ því að þeir virka auðvitað í takt við hvað þeir eru háir. Skattur sem var 1 króna á gosflösku virkar jú ekkert en hærra gjald (t.d. nokkur hundruð krónur á flösku) myndi auðvitað stórlega draga úr neyslu. Þannig að þegar sagt er „Sykurskattar virka ekki“ þá er í raun verið að segja „Agnarlítill sykurskattur virkar ekki“ og það er rétt, aukagjöld á sykur verða að vera allnokkur þannig að fólk finni fyrir því ef sala á að minnka. WHO segir að 20% aukagjald leiði strax til mikils samdráttar í neyslu:

Sjá hér grein The Guardian um málið, þar sem vitnað er í niðurstöður óháðra rannsókna og reynslu annarra landa í að hemja sykurneyslu.

Helstu niðurstöður WHO eru:

  • 20% álögur eða hærri á sykraða drykki (þar sem sykur er >8% innihalds) lækka neyslu mjög verulega
  • Mikil umræða er í öllum löndum að setja á sykurskatta. Mörg lönd hafa nýlega tekið þetta upp eða eru á leiðinni í þá átt.
  • Líffræðilega þá þarf mannslíkaminn ekki sykur til neyslu. Sykurneysla er því að langmestu leyti áunnin þörf sem þarf að draga til baka með öllum tiltækum ráðum.
  • Mikil andstaða er með álögur á sykraða drykki í nokkrum löndum veraldar, m.a. í Kólumbíu. Þar eykst offita og sykursýki hraðar en annarsstaðar.

Rök #2: Engar rannsóknir styðja sykurskatt

Önnur slök rök í umræðunni um sykurskatt eru að engar rannsóknir sýni fram á að auknar álögur á sykur minnki ofneyslu sykurs. Þetta eru “fake news” eða beinlínis röng staðreynd og á því ekki að flokkast sem rök. Þetta er væntanlega sagt af því fá rök eru í raun á móti aukagjöldum til að hemja sykurneyslu og við verðum að horfa til þess að það er beinlínis réttmætt hlutverk forstjóra sælgætisfyrirtækja að vernda tekjustreymi og efnahagsreikninga sinna fyrirtækja. Sú viðleitni má samt ekki verða ofaná ef hagsmunir almennings eru á öndverðum meiði.

Álögur á skylda þætti, t.d. sígarettur hafa verið við lýði í allmörg ár og hafa um víða veröld skilað fækkun reykingamanna. Í ítarlegum rannsóknum um slíka skattlagningu (sjá t.d. þessa rannsókn) kemur í ljós að skattlagning er oftast lítil og hefur því einkum áhrif á efnaminna fólk. Það fólk sem býr við góð efni er ekki að fara að breyta reykingum sínum þó að pakki af sígarettum hækki úr 1500 kr upp í 1700 kr. Slíkt hefur ekki áhrif. Alls staðar er þó mælt með því að nota álögur á tóbak í meira mæli til að hafa letjandi áhrif á reykingar. Það sama ætti að gilda með sykraðar vörur.

Einnig er það skýr niðurstaða að neysla sykraðra drykkja er stærsti áhrifavaldurinn í því að offita og sykursýki er að verða sá sjúkdómur sem er dýrastur samfélögum á Vesturlöndum og víðar. Dr. Douglas Bettcher, forstöðumaður þeirrar deildar hjá WHO sem sér um forvarnir á ósmithæfum sjúkdómum segir:  “Consumption of free sugars, including products like sugary drinks, is a major factor in the global increase of people suffering from obesity and diabetes”.

Rök #3: Við viljum ekki forræðishyggju

Það eru sterk rök að vilja ekki forræðishyggju, almennt séð. En það eru veik rök að kalla það forræðishyggju að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Allar þjóðir gera það nú þegar.

Það er ekki forræðishyggja að takmarka aðgengi að áfengi, vopnum, eiturlyfjum; við köllum það skynsemi og að hlíta ráðum fagaðila.

Forræðishyggja eða faghyggja?

Við getum öll verið sammála að það þarf að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Alltaf þarf að vega og meta rétt einstaklingsins m.v. áhrifin á samfélagið. Þess vegna ættum við að geta sameinast um það að forræðishyggja sé slæm en að faghyggja sé til að bæta samfélagið. Undir faghyggju flokkast að setja álögur á sykurneyslu til að minnka sölu á sykurvörum:

Þeir sem eru hlyntir því að takmarka þætti sem hafa neikvæð áhrif á samfélagið ættu því að gera þennan greinarmun: Að vera á móti forræðishyggju, enda er hún nær ætíð vitlaus hugmynd. En að átta sig á því að faghyggja er nauðsynleg til að viðhalda góðu samfélagi. Það er nefnilega ekki allt forræðishyggja – langt í frá. Fæst af því sem bannað er má flokka undir forræðishyggju. Slíkt var líklega raunin hér á árum áður en frjálsræði hefur sem betur fer aukist.

Umræðan sem er í kringum áramót um það hvort leyfa eigi eða banna flugelda í höndum almennings er dæmi um þennan línudans á milli sjálfsstjórnar, frelsis og þess að taka tilllit til samfélagslegra sjónarmiða. Meðrök eru upplifun og skemmtanagildi en mótrök eru mikil lofmengun, sóðaskapur, slys og mikil ónot dýra og búfénaðar. Þetta verður að vega og meta í stað þess að hver hrópi þá skoðun sem hentar hans eigin aðstæðum og úr hans litla ranni.

Rök #4: Sykurskattur eykur verðbólgu og hækkar íbúðalán

Þeir sem hafa haft lifibrauð sitt af sykursölu hafa bent á að ef sykurskattur verður lagður á þá mun hann hækka verðbólgu. Það kann að vera rétt þó að ólíklegt sé að sú hækkun munu valda miklum hækkunum á íbúðalánum. En hugsanlega einhverjum hækkunum. En það er ekki röksemd að þess vegna meigi ekki hækka álögur á sykraðar vörur. Þetta er fyrst og fremst enn eitt dæmið um hvað verðtrygging, verðbólga og mælingar á þeim þáttum eru vitlaust gerðir hér á landi. Við munum einhverntíman líta til baka og spyrja okkur: Af hverju höfðum við kerfi sem er þannig að þegar rakari hækkar verð á klippingu að þá hækki húsnæðislán?

Það er hins vegar ekki hægt að nota þetta sem röksemd í því að setja ekki auknar álögur á sykur – þetta er tvö aðskilin mál:

  1. Viljum við hækka álögur á sykraðar vörur til að stemma stigu við neyslu þeirra?
  2. Viljum við hafa verðtryggingarkerfi sem er þannig að þegar neysluvörur hækka að þá hækki íbúðalán?

Vörur eins og tóbak hefur fengið aukna neysluskatta á undanförnum árum og hefur það m.a. haft þau áhrif að neysla tóbaks hefur minnkað. Þetta hefur væntanlega hækkað íbúðalán, eins furðulegt og það hljómar. En samt sem áður getum við ekki fryst verðhækkanir til eilífðarnóns af því að við viljum ekki hækka íbúðalán. Við verðum einfaldlega að breyta verðtryggingarkerfinu og það er allt annað mál.

Rök #5: Sykurskattar eru flóknir og dýrir fyrir sælgætisfyrirtæki

Forstjórar sælgætisfyrirtækja hafa talað um að það sé flókið og dýrt fyrir sælgætisfyrirtæki ef sykurskattar eru innleiddir. Jú, það er flóknara en að hafa þá ekki en þetta er samt engin röksemd í málinu. Innheimta VSK er flókin, en eigum við þá að hætta henni? Er ekki innheimta yfirleitt flókið fyrirbæri? Það er margt annað flókið sem fyrirtæki gera, m.a. er matvælaframleiðsla frekar flókin framleiðsla. Og að uppfylla lög og reglur til að fá leyfi til matvælaframleiðslu. Það má því strika þessi rök út.

Rök #6: Notum forvarnir, ekki bönn

Ein algengasta röksemd í umræðunni er að það eigi ekki að nota bönn heldur forvarnir. Að allir séu látnir vita hvað sykur sé slæmur og þá muni fólk minnka neyslu hans hratt og örugglega. Það mætti ræða þessa leið ef sælgætisfyrirtækjum væri þá ekki heimilt að dreifa áróðri sem hvetur til sykurneyslu, á sama tíma, eins og þau gera nú. Auglýsingar eru nefnilega mjög hvetjandi til neyslu, séu þær rétt gerðar. Máttur ríkis til að standa fyrir forvörnum verður alltaf takmarkaður og verður alltaf miklu veikara afl heldur en það afl sem fyrirtækin ráða yfir þegar þau setja í gang herferðir til að hvetja til aukinnar neyslu á sykri. Auglýsingar sælgætisfyrirtækjanna gera þetta og það verður einfaldlega að taka umræðuna um það að þau geta ekki skýlt sér á bak við það að fólk taki sjálft ákvörðun, ekkert sé þeim sjálfum að kenna.

Fólk getur tekið réttar ákvarðanir ef það hefur óheft aðgengi að réttum upplýsingum. En þegar það eru auglýsingar sem hvetja til allskonar neyslu, sem ekki er holl, þá er ekki hægt að tala um að fólk eigi bara sjálft að taka upplýsta ákvörðun. Fólk verður fyrir áhrifum vegna hvatningar og auglýsingar eru gerðar til að hafa slík áhrif. Þegar vísað er í að fólk eigi að taka rökréttar ákvarðanir þá er verið að gera ráð fyrir því að fólk hugsi eins og tölvur og vélmenni sem er mjög langt frá lagi. Sagan sýnir að fólk á fremur auðvellt með að gera órökrétta hluti og er þá oft að hlýða kenndum og tilfinningum sem ýta undir tiltekna hegðan eða að láta undan óbeinum þrýstingi til að neyta tiltekinnar vöru eða haga neyslu sinni með ákveðnum, samfélagslega viðurkenndum hætti.

Breyttur tíðarandi

Í sykurumræðunni kemur í ljós finnst sumum það vera rök ef tekjur eins fyrirtækis minnka. Auðvitað er gott ef fyrirtækjum gengur vel en það má aldrei vera á kostnað samfélagsins. John Stuar Mill skrifaði um frelsi á þann hátt að það væri mikilvægt en mætti aldrei vera til að skaða samfélagið. Í ljós hefur komið að sykur er verra efni en fólk hélt og þá eiga fyrirtæki að laga sig að þeim venjum, finna nýjar vörur og þróa þær gömlu þannig að þær séu eftirsóttar en séu með minna af sykri og helst engum viðbættum sykrum. Þetta er einfaldlega breyttur veruleiki og það er eitthvað sem flest fyrirtæki þurfa að glíma við daglega; að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Sælgætisfyrirtækin íslensku eiga því að taka þann vinkil í málinu sem tekur mest tillit til samfélagslegrar ábyrgðar; segjast ætla að verða í forystu í að bjóða góðar vörur með helst engum sykri. Þar ættu þessi fyrirtæki að keppa en ekki eyða kröftum sínum í að deila um það með veikum rökum um það hvort þau eigi að fá að framleiða vörur sem eru troðfullar af sykri athugasemdalaust. Við lifum við breyttan tíðaranda sem segir okkur að það sé eðlilegt að taka meira tillit en verið hefur. Þetta er angi af því máli; sælgætisfyrirtæki verða einfaldlega að laga sig að þessum breytta tíðaranda.

Mjólkursamsalan er dæmi um fyrirtæki sem hefur hlustað á breyttan tíðaranda. Fyrirtækið fékk gagnrýni fyrir að selja sykraðar vörur og ota þeim að börnum. Þeir tóku algengustu vörurnar sem féllu mögulega undir þessa gagnrýni, eins og Engjaþykkni og settu þá vöru (og fleiri vörur) í flokkinn „Eftirréttir“ til að undirstrika það að þetta væri ekki ætlað sem dagleg neysluvara fyrir börn. Þetta er væntanlega aðeins fyrsta skrefið af mörgum hjá MS en er klárlega jákvæð þróun og sýnir að MS getur hlustað á breyttan tíðaranda og aðlagað sig.

Víkkum út kröfur um röksemdir

Þegar umræða um álögur á sykur fer fram ættum við að taka þær röksemdir sem settar eru fram og setja þær í einfalt próf:

Fyrir hverja röksemd þarf að svara þremur spurningum. Ef öllum spurningum er svarað játandi þá bendir allt til þess að um sé að ræða mjög gilda röksemd sem þarf að taka til nánari skoðunnar.

  1. Gildir röksemdin fyrir hagsmuni þess sem setur hana fram? [Já/Nei]
  2. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið allt hér og nú? [Já/Nei]
  3. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið til framtíðar? [Já/Nei]

Tökum röksemd Helga í Góu: „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og spyrjum þessara þriggja spurninga. Spurningu 1 er hægt að svara játandi því röksemdir gildir fyrir fjárhagslega hagsmuni þess er setti hana fram. Hinum spurningunum er svarað neitandi og því á þessi röksemd Helga ekki endilega að fá mikið vægi í umræðunni. Rök Helga snúast fyrst og fremst um hagsmuni hans, ekki samfélagsins.

Hér erum við að horfa á það að það þurfi að breyta um áherslur í íslenskri umræðu; að minnka áherslu þeirra sem geta aðeins svarað spurningu (1) játandi. Að taka aukið tillit til þeirra þátta sem skipta mestu máli, samfélagsins alls.

Hættum að nota orðið „sykurskattur“

Orðið „sykurskattur“ er mjög neikvætt orð og styrkir málstað þeirra sem vilja ekki álögur á sykraðar vörur. Þess vegna ætti að hugsa þetta frá grunni og ramma inn upp á nýtt þetta sem við viljum kalla álögur á sykraðar vörur. Orð eins og „heilsugjald“ lýsir þessum álögum betur því þarna er verið að gera framleiðendur ábyrga fyrir því að framleiða, auglýsa og hvetja til aukinnar notkunnar á sykri með því að láta þá taka þátt í þeim kostnaði sem verður til í samfélaginu þegar fólk hefur neytt of mikils sykur sí áratugi.

 

 

Facebook Comments

Check Also

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar …