Það sigrar enginn lengur með útjaskaða orðinu „sósíalisti“

Hægri menn í Bandaríkjunum halda lífi með því að hræða almenning nógu mikið á því að hinir séu sósíalistar. Hér er bara eitt dæmi af mörgum:

Hér er orðið sósíalismi tengdur við „eymd og volæði“ og þess vegna virkar það á suma að hræða þá með því að þessi og hinn sé sósíalismi. Heilinn hugsar oft ekki rökrétt heldur býr til tengingar (hugrenningatengsl) út úr því sem tengt er saman í umræðunni.

Það hjálpar Trump að orðið sósíalisti hefur verið talað niður í áratugi, er yfirleitt tengt við misheppnaða þjóðfélagsskipan í Rússlandi fyrir um 100 árum og aðra misheppnaða tilraun Hugo Chávez í Venezúela. Hér ræður sú orðræða sem hæst hefur, því miður óháð því hvort hún er sönn eða rétt.

Orðræðan í Bandaríkjunum sem Trump og hans fólk veðjar á er einfaldlega svona:

  1. Sósíalismi er stórhættulegur, eykur eymd allra.
  2. Demókratar eru sósíalistar, þeir kalla yfir okkur eymd.
  3. Þar af leiðir, það er hættulegt að kjósa demókrata, líf þitt endar í eymd.

Og ef einhverjum demókrata gengur vel, eins og Andrew Gillum í Florida þá er strategían að tala um versta sósíalistann, þann hættulegasta. Bandaríkjamenn gleypa við þessari barnalegu orðræðu af því að vinstra fólk er yfirleitt svo lélegt að svara fyrir sig. Það fer í vörn og flestir reyna að svara að þeir séu ekkert svo miklir sósíalistar. Reyna að afmá eitthvað af skítastimplinum sem Trump er búinn að festa á þá. Það dugar aldrei. Það verður að svara með „anti-branding“ þ.e. að kalla Trump og félaga hans sínum réttu nöfnum sem vekja upp hugsanir um að það kunni að vera hættulegt að kjósa þá. Því miður er enginn demókrati í Bandaríkjunum líklegur til að ná að svara umræðunni með því að berjast til baka og sækja á Trump, allir eru aðeins að verjast orðræðu hans með því að segjast ekki vera svo miklir sósíalistar. Með því þá viðurkenna demókratar að sósíalisti sé slæmt orð og viðurkenna líka að þeir séu að einhverju leyti sósíalistar.

Á Íslandi er orðræðan að þróast í svipaðar áttir. Verkalýðsfélög eru í sterkri umræðu og nota allskyns orð um sig á meðan andstæðingar þeirra hér á landi eru byrjaðir að taka upp sömu orðræðu og Trump: Að verkalýðsfélög vilji bara sósíalisma (sjá hér og hér):

   

Hér er einnig notað „vofa“ og „Karl Marx“ og það tengt við andstæðinga Sjálfstæðisflokks. Að ramma inn umræðuna með þessum hætti virkar á marga og þess vegna verður fólk sem ætlar sér að ná tökum gagnstæðri umræðu að færa hana eitthvað en að tala um sósíalisma. Það verður að breyta um orð. Það er ekki hægt að sigra með því að játast undir umræðuna að vera sósíalisti, jafnvel þó einstaklingar neiti því orði; á meðan enginn fer að nota annað orð þá er umræðan römmuð í kringum það hvort andstæðingurinn sé sósíalisti, mikill eða lítill. Þannig fær fólk í umræðunni, eins og Áslaug Arna hér að ofan, margt fólk á sitt band af því þeir tengja verkalýðsbaráttuna og vinstra fólk við sósíalisma og vofu Karl Marx. Misheppnuð konsept úr fortíðinni. Sterk innrömmun, það má Áslaug Arna eiga. En veikt hjá þeim sem tala gegn henni að ramma ekki umræðuna einn á annan hátt. Fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn? Bara það að vera ekki sósíalistar? Hvaða orð væri hægt að nota til að lýsa þeim sem eru í nánu sambandi við fámennan hluta þjóðarinnar?

Verkalýðsfélög, vinstra fólk og aðrir sem vilja nota krafta í þágu almennings verða að ramma umræðuna inn upp á nýtt. Eyðileggja innrömmunina um hvort einhver sé sósíalisti. Taka þann umræðuramma út úr umræðunni og setja umræðuna í annan ramma. Draga athyglina að öðrum tengslum. Þetta er stór áskorun fyrir margt vinstra fólk því það er óvant því að beita sér með öflugum hætti í umræðunni.

Hér er dæmi þar sem rammi umræðunnar veikir þann sem talar. Það er gott hjá Sólveigu Önnu að vinna að því að bæta kjör almennings, einkum þeirra lægst launuðu, en það veikir umræðuna af hennar hálfur að tala sin inn sem andstæðing borgarastéttarinnar. „Borgarastéttin verður tjúlluð ef henni er ógnað“.

 

Íslendingar hafa ekki það skýra stéttasýn að þeir átti sig á því að borgarastétt sé eitthvað annað en almenningur. Þess vegna er Sólveig Anna að tala í raun gegn almenningi með þessari orðræðu, þegar hún er vafalítið að reyna að tala til alls almennings.

Það er ekki bara orðið „sósíalismi“ sem er nýjasta orðið sem styrkir hægra fólk, víða um heim um þessar mundir. Það er líka orðið „verkalýður“ sem veikir launaumræðu verkalýðsfélaga. Þetta er orð sem hefur fengið á sig neikvæða ímynd í marga áratugi. Verkalýðshreyfingin verður því að finna ný orð, hætta að kenna sig við „verkalýð“ og hætta að taka þátt í umræðu um hvort hún sé eða ekki að ýta undir „sósíalisma“. Endurhanna orðræðuna, tala út frá sínum hagsmunum og ná að tala til allra. Um andstæðinga sína hefur verkalýðshreyfingin oft talað um „auðvald“ og það er ekki sterkt orð heldur, nema út frá því að styrkja ímynd andstæðinga sinna. Auðvald er sá ríki og hver vill ekki vera ríkur? Sá sem talar gegn auðvaldi er því ekki ríkur og hver vill samsama sig við þann hóp? Já, ég veit að þetta er ekki rökrétt því orðið „auðvald“ er neikvætt orð en það er bara ekki gott orð til að afla sér fylgismanna. Ekki tala um að andstæðingar þínir séu ríkt fólk því svo margir vilja vera ríkir. Ekki tala um þig sem verkalýð því það er allt of neikvætt orð til að margir vilji samsama sig við það.

Ekki er það þó þannig að hægra fólk sé með pálmann í höndunum í umræðunni allri. Hægra fólk aðhyllist oft gamaldags gildi; vill upphefja þann harða og ákveðna og elskar ennþá yfirborðskennda orðræðu með klisjukenndum orðum. Dæmi má taka af formanni SA sem hefur aðhyllst þessa tegund af orðræðu og talað nokkuð oft án þess að ná til almennings. Hér er dæmi:

„Aðal­atriðið núna er að standa vörð um þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur á und­an­förn­um árum. Það á að vera sam­eig­in­legt mark­mið okk­ar allra.“

Þetta er ekki orðræða sem nær til almennings. Þetta er klisjulegt og hefur litla tengingu við þau gildi sem skipta fólk miklu máli. Kjarabaráttan verður erfiðari fyrir atvinnurekendur ef formaður þeirra nær ekki að tala sig einlægt inn í þau gildi sem skipta fólk máli.

Þannig að styrkur hægra fólks er oft sá að vera sækja hart fram í orðræðunni, galli þeirra er að þykja klisjur og gömul gildi ennþá aðlaðandi. Styrkur vinstra fólk er að geta tengt við mörg gildi sem skipta almenning meira máli en áður en galli þeirra er að setja sig oft inn í umræðuna sem veika aðilann sem sækir ekki fram. Barátta næstu mánuða mun aðallega fram með orðum og hvernig konseptin eru römmuð inn. Út frá þeim kemur í ljós hverjir munu sigra umræðuna.

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …