Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda valinn fyrsti valkostur fyrir almenning

Er lífeyrissjóðurinn þinn að ávaxta lífeyrinn þinn vel? Þetta skiptir máli því við öll erum skylduð til að greiða sparnað til lífeyrissjóða sem við ætlum að stóla á síðasta fjórðunginn á ævinni. Þessar upplýsingar ættu auðvitað að liggja fyrir með skýrum hætti sem því miður er svo ekki alltaf. Erfitt hefur verið að bera saman langtímaávöxtun sjóða sem gerir greiðendum lífeyris erfitt með að átta sig á því hvort þeir séu að njóta góðrar ávöxtunnar eða ekki.

Víða í Evrópu tíðkast það miklu meira en hér að bera saman sjóði og veita þeim þannig aðhald og auka samkeppni. Slíkt er vonandi að færast í aukana hér á landi.

Verkefnið PensionPro (á vegum ráðgjafafyrirtækisins Verdicta) miðar að því að opna þessar upplýsingar gagnvart almenningi og er stefnt að því að almenningur geti skoðað upplýsingar um alla sjóði og borið saman hvernig þeir hafa staðið sig til lengri tíma, 20 ár aftur í tímann. Mun þetta opna á næstu vikum.

Í dag var tilkynnt hvaða lífeyrissjóður hefði staðið sig best þegar öll sagan er skoðuð, 20 ár aftur í tímann m.v. þá sameignarsjóði (skyldulífeyrissjóði) sem eru opnir fyrir almenningi. Niðurstaðan var sú að Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem hefur staðið sig best og er sá sjóður sem er fyrsti valkostur fyrir almenning þegar horft er til langst tíma.

Ath. hér er ekki verið að fjalla um séreignasjóði (viðbótarlífeyrissparnað), heldur sameignarsjóði.

Í dag var ég svo heppinn að fá að hitta framkvæmdastjóra Söfnuarsjóðs lífeyrisréttinda, Sigurbjörn Sigurbjörnsson, og afhenda honum viðurkenningu fyrir þennan góða árangur:

Sigurbjörn Sigurbjörnsson hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda tekur við PensionPro verðlaununum úr hendi Hallgríms Óskarssonar sem fyrsti valkostur almennings 2018. (Mynd: GeiriX)

—  —  —

Þegar 20 ár eru skoðuð er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda með 5,02% meðalraunávöxtun yfir allt tímabilið. Slík ávöxtun er afar góður árangur og getur Söfnunarsjóðurinn verið afar ánægður með slíkan árangur.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hefur að auki sýnt jafnan stöðugleika m.v. aðra sambærilega sjóði á Íslandi og kemur hann einnig vel út þegar ýmis önnur tímabil eru skoðuð nánar, bæði árin fyrir og eftir hrun. Sérstaklega hefur Söfnunarsjóður lífeyris­réttinda staðið sig vel á árunum eftir hrun, þar sem hann hefur náð 8,74% í meðalraun­ávöxtun fyrir árin 2009-2012. Þessi árangur, sem og árangurinn í heild, er afar góður og er því hægt að mæla með Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem fyrsta valkosti almennings á árinu 2018.

PensionPro verðlaunin eru afleiðing af rannsóknarvinnu sem miðað hefur að því að birta ítarlegri upplýsingar um lífeyrissjóði en verið hefur til þessa. Fyrstu upplýsingarnar í þá veru birtust í eftirfarandi grein sem er frá 9. maí 2018, rituð af Gylfa Magnússyni og Hallgrími Óskarsyni:

—  —  —

Ítarefni:

  – Umfjöllun um valið á Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda
     http://www.verdicta.is/pensionpro-2018/

 

Check Also

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta …