Sigurvegarar í pólitískri umræðu eru ekki þeir sem hafa bestu rökin, heldur þeir sem…

…hafa orðræðu sigurvegarans.

Það er svo margt sem er rökrétt en gerist samt eiginlega aldrei. Pólitískar samræður ganga út á að sigra, vera sá sem er ofaná – sigurvegari stundarinnar. Þetta þurfa ekki að vera stórar deilur; oft er aðeins verið að deila um smávægilega hluti. En mikilvægt að vera ofaná til að fólk skynji viðkomandi sem sigurvegara. Þá fer fylgið að aukast, af því að fólk vill vera í liði með sigurvegurum. Þetta hefur verið grunnímynd hægri manna í áratugi, að vera sigurvegarinn og hefur laðað margt fólk í þá deildina. Vinstra fólk talar yfirleitt ekki sem sigurvegarar heldur einblínir stundum á neikvæða þætti og kvartar. Er stundum skynjað sem væl. Fáir laðast að slíku og er þetta atriði stærsta einstaka atriðið af hverju vinstri flokkar (og miðju flokkar) þurfa oft að hafa meira fyrir því að afla fylgismanna heldur en hægra fólk. Viðreisn á að vera heilbrigða og mannlega útgáfan af Sjálfstæðisflokki. Af hverju njóta þeir aðeins brota-brots af fylgis Sjálfstæðisflokksins? Af því þeir hafa stefnu sem fólki líkar ekki? Nei, stefnan skiptir frekar litlu máli (enda er stefnum yfirleitt ekki framfylgt). Viðreisn hefur ekki jafnað Sjálfstæðisflokkinn af því Viðreisn er ekki skynjaður sem flokkur sigurvegara. Þeir urðu útundan í Sjálfstæðisflokknum og fóru – þannig er skynjunin allaveganna. Til að breyta þessu þarf Viðreisn að fara að tala eins og sigurvegari og efla þá ímynd hjá lykilfólki flokksins – breyta orðræðu þeirra. Það sama má segja með flokka á miðju og til vinstri. Þeir velja sér orðræðu sem fólk tengir við þann sem nöldrar og tapar.

Fáir hafa ritað jafn áhrifaríka frásögn af þessu heilkenni íslenskra stjórnmála eins og Bryndís Schram (sjá hér). Fátæka fólkið í Reykjavík kaus íhaldið af því það þótti svo fínt að kjósa íhaldið. Það vildi samsama sig við þá sem eru að sigra!

Í stuttu samtali á Alþingi í dag kristallast þetta mjög vel í einu litlu dæmi:
(hér er viljandi tekið dæmi af litlu máli til að sýna hvað það skiptir líka máli í smáum jafnt sem stórum málum að hugsa orðræðu sína rétt)


Bjarni Benediktsson frá Sjálfstæðisflokki sagði eftir að Samfylkingin hafði kynnt breytingar á fjárlagafrumvarpi:

Til að bjarga málum vill Samfylkingin bara smella 33 milljörðum á landsmenn í nýja skatta og gjöld. 33 milljörðum! Miklu meiri útgjöld, miklu hærri skattar og það mun allt fara til verri vegar. Þetta eru skilaboð Samfylkingarinnar.

—  —  —


Ágúst Ólafur Ágústsson frá Samfylkingu svaraði:

Ég gat sérstaklega um það á hvaða hópa þetta færi. Þessar skattahugmyndir okkar eru ekki að fara á hinn almenna Íslending. Þetta er hækkun fjármagnstekjuskatts sem þröngur hópur Íslendinga greiðir, þetta eru auðlindagjöld sem fá stórfyrirtæki í landinu greiða.

Ef efni þessara tveggja tilvitnana eru skoðuð þá virðast þær hafa svipað vægi, Bjarni að segja að þetta sé vitleysa og Ágúst að segja að þetta sé ekki vitleysa. En gallinn er bara sá að fólk hlustar ekki með rökum. Fólk hlustar út frá tilfinningu og hrífst miklu meira af því hvor talar meira eins og sigurvegari.

Og hvað er að tala eins og sigurvegari? Í því felst margt. Það er að sækja nógu fast á hinn aðilann að hann þurfi að fara í vörn. Bjarni sótti fast að Ágústi og setti hann í þá stöðu að þurfa að vera í vörn. Þurfa að segja „ég meinti þetta ekki svona, leyfðu mér að útskýra“. Sá sem þarf að útskýra sjálfan sig er yfirleitt búinn að tapa, hinn ræður orðræðunni. Samtalið hér að ofan snýst um það hvernig Bjarni sér hlutina, Ágúst er að reyna að leiðrétta hvernig Bjarni sér hlutina. Niðurstaða fólks: Bjarni sótti grimmt og tengdi sig við aðhald, ábyrgð og að létta byrðum af fólki. Ágúst var í vörn og þurfti að útskýra sín orð og tengdi sig við að eyða miklum fjármunum.

Til að ná taki í svona umræðu þarf Samfylking (og margir fleiri) að breyta um orðræðu. Sækja fram miklu fastar og ákveðnar og setja hina í þá stöðu að þurfa að vera sig. Sá vinnur sem talar þannig að andstæðingurinn þurfi að endurtaka orðalagið til að segja að þetta hafi ekki verið rétt. Sá vinnur sem stýrir orðræðunni og tengir sig við gildi sem allir vilja tengja sig við. Auk þess að vera með orðræðu sína í vörn þá tengdi Samfylkingin sig við óábyrga eyðslu (alla vega náði Bjarni að tengja Samfylkingu við það og Samfylkingin svaraði því ekki nógu vel). Ágúst og Samfylking tengdu sig þess vegna við miklu síðri gildi sem færri vilja samsama sig við. Þess vegna sigraði Bjarni í þessari litlu rimmu.

Vandinn við að breyta orðræðunni er að vinstra fólk og miðju fólk er oft akademískt í hugsun og vill ekki sækja fram með orðræðu sem stenst ekki fræðilega skoðun. En þá er það fólk ekki að spila leikinn og getur ekki vænst þess að sækja sterkt fram. Þú verður að spila leikinn ef þú vilt sigra stríðið svo að þínar hugsjónir nái að landi. Til þess er leikurinn gerður.

Að flestu leyti er allt þetta sem lýst er hér fremur leiðigjarnar staðreyndir. Það væri miklu betra og heilbrigðara ef allir hlustuðu fyrst og fremst á innihald, efnivið og rök. En því er ekki að heilsa. Í dag er það tilfinningin og upplifunin sem ræður, miklu fremur heldur en rökrétt samhengi mála.

—  —  —

Það eru alls ekki allir sem viðurkenna að þeir hlusti á eitthvað annað en rök í pólitískri umræðu – það er órökrétt að viðurkenna annað!

Nánar var fjallað um þessi mál í öðrum pistli, sjá hér.

 

 

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …