Gildin sem sigruðu í kosningunum

Það er nær endalaust hægt að setja upp túlkun á talnalegum niðurstöðum kosninganna. Flestir unnu á einhvern hátt (nema BF) og margir töpuðu líka á einhvern hátt. Sjálfstæðisflokkur er stærstur í öllum kjördæmum en tapaði líka í nær öllum kjördæmum. Er það sigur eða tap? Og Framsókn hélt sínu fylgi sem er ákveðinn árangur þegar flokkur klofnar í tvennt. En á sama tíma hafa þeir sjaldan verið minni. Sigur eða ekki? Svona mætti lengi telja.

Það er því áhugavert að skoða niðurstöður kosninga út frá þeim undirliggjandi gildum sem hafa risið uppi í umræðunni sem krafa fólks um betrumbætt stjórnmál.

Hvaða gildum óx ásmegin og hvaða gildi fengu lítin hljómgrunn?

#1 GAGNSÆI fékk klárlega aukin hljómgrunn í þessum kosningum. Bæði var boðað til kosninga vegna skorts á gagnsæi (leyndarhyggju) og svo var sterk umræða í allri kosningabaráttunni um að leyndarhyggja væri eitt stærsta mein íslenskra stjórnmála. Flestir flokkar tóku undir þessa umræðu, einkum miðjan og vinstri flokkarnir sem juku í heild fylgi sitt allnokkuð. Þeir flokkar sem virtust leggja minni áhersluna á gagnsæi, t.d. Sjálfstæðisflokkur féllu niður í fylgi. Lögbannsmál Stundarinnar veikti ímynd Sjálfstæðisflokks til þessa ímyndarþáttar, hvort sem það er vegna réttmætrar ástæðu eða ekki.

Sérstaka stöðu í þessum efnum hefur Miðflokkurinn, sem virtist ekki leggja mikla áherslu á að tala fyrir mikilvægi þess að auka gagnsæi í stjórnmálum. Skýringin á þessu getur verið eðlileg því það er alþekkt, í þjóðfélögum, að ákveðinn hluti kjósenda er ekkert að velta gildum fyrir sér. Það eru þeir kjósendur sem horfa fyrst og fremst á valkosti út frá eigin ávinningi. Í þroskakenningum er þetta segment oft nefnt blindur egóismi og lýsir því að sumir ná ekki að tengja við aðra hluta samfélagsins en sjálfa sig og velja sér því flokka út frá hreinum og klárum tilboðum, frekar en að hugsa um ávinning til samfélagsins í heild. Kjósendur Miðflokksins endurspegla mögulega að einhverju leyti þennan þjóðfélagshóp, enda var það peningalegur ávinningur í formi bankahlutabréfa sem oftast var nefndur af kjósendum Miðflokksins sem mikilvæg ástæða til að kjósa flokkinn, óháð því hvort það veiki getu ríkissjóðs til að standa undir innviðum og samfélagslegri ábyrgð eða ekki. Sagt var, svo að dæmi sé tekið að 100 þúsund krónur fyrir einstakling væru flottur díll og að ríkissjóður verði bara að taka því til að tryggja einstaklingum þennan ávinning.

Út frá niðurstöðum kosninga, könnunum um hvað skipti kjósendur máli og mörgum öðrum vísbendingum einnig má færa rök fyrir því að um 20-25% kjósenda séu þannig þenkjandi að gildin í samfélaginu skipti mun minna máli heldur en fjárhagslegur ávinningur þeirra persónulega. Það er því staðreynd sem er mikilvægt að horfa á að gildi skipta suma þjóðfélagshópa litlu eða engu máli. Jákvætt er hins vegar að átta sig á að meirihluti fólks lætur gildin í samfélaginu skipta miklu máli og er þar um að ræða töluverðan meirihluta fólks.

#2: SAMVINNA OG HLUTTEKNING. Gildi um aukna samvinnu fengu mikinn hljómgrunn í kosningabaráttunni; einnig það að leggja á sig að setja sig í spor annarra, að skilja mótaðila. Nóg var að hlusta á umræður forystumanna á RUV um möguleika á samsetningu ríkisstjórnar til að átta sig á mikilli kúvendingu hvað þetta varðar. Þar mátti heyra algerlega nýjan tón, sem varla hefur heyrst áður: Að nú sé ekki lengur hægt að koma inn í viðræður um myndun stjórnar með forskrifaðar kröfur á blaði heldur verði að setjast niður og hlusta á hina og móta saman eitt sameiginlegt blað yfir þá þætti sem leggja á áherslu á ef farsæl ríkisstjórn á að komast á koppinn. Að það sé rétt að hugsa um víðtækt samstarf margra aðila í stað þess að spila leikinn út frá eigin þörfum. Það er nýlunda að það sé talað jafnt skýrt og opinskátt á þessum nótum og ánægjulegt að sjá þróun í þessa átt. Í þessa veru töluðu allir forystumenn flokka.

#3: GEGN FORINGJADÝRKUN – Að hampa ekki aðeins þeim sterka. Í fyrsta sinn má heyra raddir sem tala fyrir því að það sé ekkert endilega mikilvægt að hafa sterka leiðtoga sem ráða miklu (oft öllu) og að það sé ekkert endilega ávísun á stöðugleika í stjórnmálum að hafa stóran meirihluta í ríkisstjórn. Enda sýna dæmin að tæpur meirihluti í ríkisstjórn getur bæði verið skammlífur og langlífur. Stjórnmálamenn eru í æ ríkara mæli farnir að átta sig á að heilindi og auðmýkt séu mikilvægari þættir í langlífri ríkisstjórn heldur en endilega stór meirihluti á Alþingi. Að hampa þeim sterka er því mögulega á einhverju undanhaldi, a.m.k. er greinilegt að önnur sjónarmið hafa fengið vaxandi hljómgrunn í umræðunni. Miðflokkurinn sker sig úr hvað þetta varðar vegna þess að tilurð hans byggir á einum stofnanda sem öllu ræður. Að því leyti til stangast tilvist Miðflokksins að einhverju leyti á við þann tíðaranda sem er vaxandi nú um mundir. Miðflokkurinn hamar foringja sínum og vill að hans eigin sjónarmið séu ráðandi í stað þess að lýðræðisleg og opin umræða sé grundvöllur ákvarðanatöku.

#4: GILDI ANDSTÆÐ ALMENNINGI VÍKJANDI. Mörg önnur gildi virðast vera víkjandi í umræðunni eins og t.d. tækifærismennska, prinsippleysi og að nýta valdið fyrir eigin hagsmuni. Mjög sterk orðræða var í kosningabaráttunni um þann rauða þráð sem sameinar þessi gildi í einn farveg: Að gefa sjónarmiðum og hagsmunum almennings meiri gaum en áður og að átta sig á því að slík hugsun gefur flokkum mun meira fylgi en flestar aðrar áherslur. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknaflokkur og Flokkur fólksins lögðu allir áherslu á að styrkja samfélagsþætti sem snerta almenning. Og Vinstri græn, Samfylking og Viðreisn lögði jafnvel enn ríkari áherslur á að nú væri komið að því að setja almenning í fyrsta sætið, bæði með því að fjárfesta í innviðum fyrir almennings en einnig með því að innleiða nútímalegri vinnubrögð sem gæti gefið Íslandi sterka og stöðuga stjórn til lengri tíma. Erfitt er þó að meta þessa þætti út frá kosningabæklingum og orðræðu í kosningum því allir vilja sýnast hugsa um hagsmuni almennings þó að margir flokkar freistist til þess að horfa meira til eigin hagsmuna og forgangsraða í þeirra þágu.

—  —  —

AÐRAR ÁHERSLUR: Nokkrar áherslur komu fram í kosningabaráttunni sem voru á skjön við þau gildi sem hafa átt auknu fylgi að fagna:

Dæmi voru um það voru þegar talað var um málin með ákveðnum fautaskap, ókurteisi, þegar dylgjur voru settar fram (jafnvel í sigurræðum á kosningakvöldi); þegar hótfyndni, hæðni og vænisýki birtist með afgerandi hætti og einnig þegar í ljós koma að foringjar væru jafnvel helteknir af ranghugmyndum sem staðreyndir og rök gætu ekki feykt á brott. Persónueinkenni og siðferðisvenjur í þessum dúr heilla alltaf einhverja kjósendur en eru hins vegar algjört eitur í beinum mikils meirihluta kjósenda. Því ma gera ráð fyrir því að þeir sem stíga í þennan væng hinnar trumpísku aðferðafræði sem heltekið hefur bandarísk stjórnmál hin síðstu misseri, muni ekki á endanum ríða feitum helsti frá þátttöku í stjórnmálum. Íslendingar eru auðvitað allskonar en eitt sem er sameiginlegt með þeim flestum er að þeir eru ekki móttækilegir fyrir dónaskap. Meira að segja sá sem hefur fengið neikvæða ímynd fær samúð margra ef hann einhver sýnir honum dónaskap.

Í öðru lagi er það nokkuð ljóst að eftirspurn eftir hótfyndni er nánast horfin á meðal almennings og dylgjur, ókurteisi, vænisýki og ranghugmyndir eru siðvenjur sem fólk túlkar fyrst og fremst sem vangetu til að taka þátt í samstarfi. Samstarf í ríkisstjórn þar sem slíkar siðvenjur fá hljómgrunn verður að byggja á einhverju öðru en á þeim gildum um samstarf, saminnu og gegnsæi sem hafa fengið sterkan hljómgrunn á meðal fólks. Slíkt samstarf verður að byggja á sterkum og þröngum hagsmunum til að fá grundvöll til að lifa. Miðað við þau gildi sem hafa fengið breiðari vængi á síðustu misserum má gera ráð fyrir því að samstarf sem tekur ekki ríkulegt tillit til nútímagilda muni hugsanlega vara stutt og verða fáum til gæfu.

 

 

 

 

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …