Sækjum fram í loftslagsmálum

Margt er skrifað um loftslagsbreytingar og mögulegar yfirvofandi hörmungar ef ekkert verður að gert. En í stað þess að keppa um verstu mögulegu forspánna um hvað gæti gerst mætti líka keppa um bestu mögulegu lausnirnar og fókusera á þær. Það er nefnilega fáu að kvíða, eins og sást við úrlausn COVID-faraldursins, ef vísinda- og tæknifólk fær næði og fé til að ástunda rannsóknir sem hraða á lausnum vandans.

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin og skíturinn er of mikið magn CO2 í andrúmslofti. Óhreinindin koma frá íbúum hússins sem hafa gengið illa um og neita að hætta og benda hver á annan. Ennþá erum við þó á frumstigi þess að leysa vandann því mikill hluti tímans fer enn í það að deila um hvort það sé ekki bara nóg að hætta að skíta meira út eða hvort að það þurfi raunverulega að taka sig til og þrífa skítinn. Að minnka óþrifnað (draga úr losun CO2) og að þrífa (hreinsa CO2 úr andrúmslofti) eru í stóru myndinni þær einu tvær lausnir sem hægt er að horfa á til að skila húsinu hreinu og notalegu að búa í. Og við sjáum það fljótlega að við verðum að nota báðar aðferðir, af því skíturinn er orðinn svo mikill. Það þarf að hætta að skíta út og það þarf líka að þrífa skítinn sem kominn er.

Loftslagsvandinn snýst um að heimurinn í heild komist fyrst á stigið „net-zero“ (að magn af CO2 sem sett er út í andrúmsloftið sé jafnt eða helst minna en það sem tekið er úr andrúmslofti) og eftir það má fara að því að stefna að því að magn CO2 lækki alltaf úr andrúmslofti, ár frá ári.

Hvað getum við gert til að sækja hraðar fram í loftslagsmálum?

Leið 1: Færa fjármagn í meira mæli til aðferða sem leysa vandann

Margfalda þarf fjárfestingar til loftslagsverkefna sem raunverulega minnka magn CO2 í andrúmslofti. Alveg eins og þegar forstjóri Pfizer opnaði á mjög mikla fjármuni til rannsókna og þróunar á COVID-bóluefni. Með þannig stuðning er vísindafólk ekki lengi að finna lausn sem virkar.

Um þetta ræðir Bill Gates í nýju bókinni sinni, „How to Avoid a Climate Disaster“ þegar hann segir:  „Avoiding a climate disaster requires a different way of doing business, the courage to take on risks that many CEOs are not used to taking — and that investors are not used to rewarding.“

Framfaraskref mannkyns hafa oft átt sér stað þegar fyrirtæki með hvatakerfi frá ríki fá aukið svigrúm til að fara á fullt í rannsóknir og þróun. Internetið, GPS-stað­setningar­­kerfið og mRNA-bóluefnaþróun (sem gaf okkur bóluefni gegn Covid). Allt þetta kom til af því að ríkið setti upp hvata- og stuðningskerfi í átt til góðra verka og beindi fjármagni í átt að vænlegum lausnum í stað þess að setja allt skattfé í einn stóran samneyslupott. Það tendrast nefnileg oft heilmikill afreksmáttur þegar ríki og einkaaðilar vinna náið saman. Þessum öfluga afreksmætti einkageirans og opinbera geirans lýsir ítalski-bandaríski hagfræðingurinn, Mariana Mazzucato, mjög vel í bók sinni „Mission Economy“ en þar er er bent á hvað hægt er að leysa mikinn kraft úr læðingi með því að hið opinbera taki að sér að vera hraðall fyrir mikilvæg verkefni og noti skattahvata til að leysa stærstu vandamál hvers tíma. Ekki til að fjármagna lausnir, heldur til að koma einkaaðilum nógu hratt í gang í þá vinnu að þróa lausnir.

Nýlega komu mjög jákvæðar fréttir í þessa átt þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti nýlega breytingar á lögum um tekjuskatt sem felur í sér aukna hvata fyrir einkaaðila til fjárfestinga í eignum sem teljast umhverfisvænar (grænar eignir) og stuðla að grænni umbreytingu.

Einnig má minnast á kolefnisgjald sem innheimt hefur verið frá 2010. Hefur ríkið innheimt um 50 milljarða af notendum jarðefnaeldsneytis á þeim tíma sem liðinn er og ef þetta gjald myndi fara beint í lausnir, rannsóknir og verkefni sem leysa loftslagsvandann þá myndi það skila miklum árangri og færa okkur hraðar nær lausnum. Hér væri hægt að hugsa sér að t.d. útgerð sem greiðir 100 milljónir á ári í kolefnisgjald mætti taka þá upphæð, eða hluta hennar, og leggja í loftslagsvæn verkefni sem myndu á sama tíma nýtast viðkomandi útgerð. Það mætti hugsa sér „hvatatengt kolefnisgjald“ sem væri þannig að ef fyrirtæki er ekkert að gera í loftlagsmálum þá greiði það fullt gjald en ef það fer í fjárfestingar sem nýtast beint í loftslagsmálum þá sé það frádráttarbært frá kolefnisgjaldi.

Einnig má minnast á að nokkrar ríkisstjórnir (t.d. sú kanadíska, sjá bls. 166) eru farnar að gefa út græn skuldabréf, einmitt til að færa fjármagn hraðar inn í lausnir sem leysa loftslagsvandann. Hér gæti ríkið komið inn sem öflugt hreyfiafl og verið farvegur sem hraðar á loftslagsvænum verkefnum.

Leið 2: Umbreyta hreinni raforku yfir í rafeldsneyti

Það þarf hvata og reglugerðir til að flytja fjármuni frá jarðefnaeldsneyti og yfir í hreinni leiðir. Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra hafa komið fram með sterka sýn um þetta í nýlegri grein „Skiptum yfir í eigin orku“ þar sem rætt er um þá stórkostlegu möguleika að breyta okkar hreinu raforku yfir í eldsneyti fyrir skip, flugvélar og önnur samgöngutæki. Mjög mikil og vaxandi eftirspurn er eftir svona vöru vegna RED II tilskipunnar Evrópusambandsins sem gerir samgöngutækjum skylt að hafa alltaf lægra og lægra CO2 magn í þeirri orku sem notuð er. Á Íslandi væri hægt að framleiða hreint eldsneyti með aðeins 1-2 grömm af CO2 á orkueiningu (MJ) sem er 98% hreinna en venjulegt eldsneyti og um 70-90% hreinna en það eldsneyti sem nú er framleitt og kallað hreint (biodiesel, hefðbundið „grátt“ metanól, TME, UCOME, HVO o.fl.). Þessi hreina vara er ekki seld í lítra- eða tonnatali heldur eftir hreinleika (gCO2/MJ) sem skapar Íslandi afar sterka sérstöðu. Þessi sérstaða hefur verið staðfest m.a. af Friedrich-Alexander-University Erlangen-Nürnberg sem vann merkilega rannsókn, án aðkomu íslenskra aðila, sem staðfestir að Ísland er einn allra hagkvæmasti valkostur í veröldinni fyrir framleiðslu á grænu eldsneyti fyrir skip, flugfélar og önnur samgöngutæki.

Leið 3: Efla CCUS (Carbon Capture, Utilization, and Storage)

Eins og sagt var í formála þessarar greinar þá eru í grunninn aðeins tvær leiðir til að leysa loftslagsvandann (og svo eru margar úrvinnsluleiðir með þær tvær aðferðir). Það er að draga úr losun og svo að hreinsa CO2 úr andrúmslofti. CCUS er samheiti yfir þær síðarnefndu aðferðir sem hreinsa CO2 úr andrúmslofti. Hægt er að binda úr mengunar­straumi verksmiðja og koma í veg fyrir losun og einnig er hægt, eins og unnið er að víða um heim af miklum krafti, að binda CO2 beint úr andrúmslofti (Direct Air Capture, sjá dæmi um það hér).

Það er sem sagt hægt að gera mikið gagn með því að taka CCUS aðferðir inn í alla mögulega lausnarpakka sem unnið er að hjá stjórnvöldum, stofnunum og einka­aðilum. Fullur stuðningur við CCUS aðferðir gæti lækkað CO2 gildi í loftslagsbókhaldi Íslands um nokkrar milljónir tonna af CO2 á ári svo að hér er til mikils að vinna. Festa þyrfti CCUS aðferðir í lög, líkt og gert hefur verið í Kanada og víðar, og hvetja til fjárfestinga í þeim aðferðum, líkt og öðrum.

Kanadíska ríkisstjórnin stefnir að því að stuðningur ríkisins við CCUS aðferðir geti skilað að aukin binding verði í loftslagsbókhaldi Kanada um 15 millljónir tonna af CO2 strax á fyrsta ári þessarar nýju reglugerðar. Þetta kemur fram hér (bls. 168).

Á Íslandi væri hægt að taka svipuð skref, að festa í sessi jákvæða hvata fyrir því að fanga CO2 úr andrúmslofti eða að fjárfesta í slíkum verkefnum.

Einnig gæti ríkið beint og óbeint komið  að fjárfestingum í innviðum sem gera loftslagsvæn verkefni auðveldari í framkvæmd. Það er víða hægt að taka og einangra CO2 en ekki margir sem munu koma sér upp aðstöðu og búnaði til að umbreyta þessu dýrmæta efni í grænt, hreint eldsneyti eða aðrar verðmætar loftslagsvænar afurðir.

Leið 4: Að átta sig á því að CO2 er hið nýja gull framtíðar

Olíu-forstjórar sáu fyrir 150 árum að olía úr jörðu væri hið nýja gull en nú er CO2 úr andrúmslofti hratt að verða hið nýja framtíðargull mannkyns. Úr CO2 má framleiða eldsneyti, kolsýru fyrir matvælaiðnað, metanól, metan, etanól, áburð, ýmis mikilvæg efni og margar aðrar vörur sem flest okkar nota á hverjum degi. Og af því við ætlum að hætta að taka CO2 úr jörðu og spúa því út í andrúmsloftið þá getum við unnið CO2 úr andrúmslofti (eða úr mengunarstraumum) og framleitt nauðsynlegar vörur án þess að valda aukinni mengun.

Nægir hér að taka stóra tækifærið um stóraukna matvælaframleiðslu á Íslandi. Með því að hafa nægjanlegt CO2 til staðar sem má nýta sem vaxtarefni fyrir t.d. grænmeti, þá væri hægt að auka útflutning matvæla upp í svipaðar tölur og útflutnings­verð­mæti sjávarafurða er í dag. Víða eru matvöru­verslanir erlendis að komast á það stig að vilja helst aðeins selja grænmeti með lítið sem ekkert kolefnisfótspor. Fá svæði hafa jafn öfluga burði til að framleiða slíkar vörur eins og Ísland. Hér er að verða til hreint CO2 með litlu sem engu kolefnisfótspori (þökk sé hreinni raforku Íslands) og þessar auðlindir er hægt að nýta til að byggja upp nýjan iðnað (vertical farming) í stórum stíl og efla útflutningsverðmæti í stórum stíl.

Aðrar leiðir í loftslagsmálum eru auðvitað fjölmargar. En í þessari grein var markmiðið að telja upp nýjar aðgerðir sem hægt er að horfa til en ekki að telja upp margt af því góða og mikilvæga sem er verið að vinna að nú þegar, eins og gróðursetning trjáa o.fl. Markmiðið hér var að benda á nýjar leiðir sem hraða á lausn vandans og geta jafnframt verið mikilvæg tækifæri sem hægt er að nýta á Íslandi.

Tækifærin eru innan seilingar, við þurfum bara að leggjast á eitt að koma þeim kyrfilega fyrir í hendi. Þannig verður „húsið“ okkar hreint til frambúðar og efnahagslegur ábati nægjanlega mikill til að allir haldi glaðir, kátir og óttalausir inn í framtíðina.

 

—  — —

Grein þessi birtist fyrst í Fréttablaðinu, 9. júní 2021

 

 

Check Also

Tveir baráttuhópar í loftslagsmálum: Tæknisinnar og náttúruþjónar

Til að efla baráttuna í loftslagsmálum er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér ólíkum …