Vandi íslenskra stjórnmála er samskiptavandi

Íslensk stjórnmál eru að sumu leyti í hnút. Stjórnmálamenn njóta lítils trausts og fólki finnst stjórnmálakerfið vera úr takti og sumpart gamaldags. Átök kynslóða standa yfir og skortur á trausti yfirgnæfir viðhorf fólks. Hvað er það sem hefur komið stjórnmálum í þennan hnút og hvernig er hægt að laga ástandið? Ég varpa hér fram kenningu um að vandinn skapast vegna þess að samskipti, orðræða og skilaboð íslenskra stjórnmálamanna eru of handahófskennd, stundum ófagleg, misvísandi og klaufaleg. Stjórnmálamenn tala of oft með þeim hætti sem veikir þeirra eigin málstæð í stað þess að styrkja hann.

Vil ég skoða stjórnmálaumræðuna út frá fræðum sem ég hef stuðst við í ráðgjafaverkefnum fyrir Verdicta og sjá hvort hægt sé að greina stöðuna til gagns með þeim hætti.

Lítt ígrunduð orðaræða gefur andstæðingum höggstað

Skoðum hvað Richard Nixon sagði 1974 í einu frægasta sjónvarpsávarpi sögunnar:

I’m not a crook” sagði hann þegar hann afsakaði aðild sína að Watergate-málinu og var með því að reyna að fá bandarískan almenning til að milda neikvæða afstöðu sína til hans vegna afskipta hans á laun gagnvart blaðamönnum sem voru að segja fréttir.

Setningin „I’m not a crook” er nefnilega merkileg út frá samskiptafræðum vegna þess að orðið „not” hefur yfirleitt engin áhrif hvað hughrif varðar þó að það telji í rökfræðinni. Í orðræðu Nixons heyrir fólk einfaldlega forseta tala um hvort hann sé „crook” (þrjótur) að miklu eða litlu leyti. Það fær fólk til að hugsa að hann sé a.m.k „crook” að einhverju leyti jafnvel þó að orðið „not” sé sett þar á undan. Þannig tengdi Nixon sjálfan sig orðið „crook” af því hann notaði það í setningu um sjálfan sig. Þannig virkar mannsheilinn, hann hlustar ekki á rökræna röð orða heldur tekur aðalorðin og mótar sér skoðun á viðmælandanum út frá því hvaða orðaræðu hann velur sér, oft óháð rökrænum skilningi orða.

Þetta er eins og setningin „Don’t think of an Elephant” – um leið og þetta er sagt við hóp fólks þá byrja allir að hugsa um „elephant” – hugsa um fíl eða fíla.  Þannig virkar mannsheilinn, orð kveikja myndir, óháð því hvort „not” sé sett á undan myndrænu lykilorðunum eður ei.

Það sama gerist alltof oft í íslenskum stjórnmálum:

erum-ekki-i-storkostlegum-vandræðum

Þegar ég sá þessa forsíðu á árinu 2008 þá vissi ég að eitthvað mikið var að. Fjármálaráðherra notaði hugtakið „stórkostleg vandræði” og þá vissi ég að íslenska ríkið var í allavega í allmiklum vandræðum, ef ekki þaðan af verra, þó að fjármálaráðherra hafi notað orðið „ekki” í sömu setningu.

Birgir Ármannsson er vafalítið grandvar drengur og því er þetta orðalag hans alveg út úr kú. Hann á ekki að tala um það hvort Sjálfstæðismenn séu eða séu ekki lygarar, ekki nema ef hann vill að fólk tengi þá við lygara. Miklu betra hefði verið að sleppa orðinu „lygarar” því þetta eina orð kallar fram svo neikvæð hugrenningatengsl að það eitt og sér skemmir alveg fyrir þeirri meiningu sem verið er að reyna að ná fram.

BirgirÁrm2

Árni Páll Árnason talar nokkuð oft á þann máta að neikvæðari mynd er skynjuð en hann er að reyna að ná fram.

Ex APA

Hér notar Árni Páll mjög neikvætt orðalag; hann segir „Ég skaut mig ekki í fótinn” og er að reyna að vísa í að hann hafi í tilteknu máli ekki verið eins slakur og margir halda. En þetta orðalag er aðeins til þess fallið að fá fólk til að hugsa á enn neikvæðari hátt um málið en efni standa til.  Ekki er gott að tala um að maður hafi eða hafi ekki skotið sig í fótinn því það er nær enginn munur á að hafa skotið sig í fótinn eða að hafa ekki skotið sig í fótinn.  Órökrétt? Já. En þannig virkar mannsheilinn einfaldlega.

Arni2

Árni Páll er oft sérlega andsnúinn sjálfum sér í orðlagi því hann talar svo oft um þau gildi sem hann vill ekki standa fyrir. Hann segir um vandræðaleg mál að þau séu „ekki vandræðaleg”.  Hann segir þegar Samfylkingunni gengur heldur illa að flokknum gangi „ekki illa” og segir að það sé „ekki ágreiningur” þegar hann vill beina sjónum sínum frá ágreiningi.  Árni Páll tengir sig um of þeim gildum sem hann vill ekki tengjast.  Hann virðist hafa sýn um hvað hann vill ekki vera en hefur e.t.v. minni sýn um það sem hann vill standa fyrir.  Þetta er e.t.v. meginástæðan af hverju hann var ekki farsæll sem formaður Samfylkingarinnar, hann talaði of oft þannig að fólk tengdi ekki við það sem hann sagði.

Og áfram heldur sagan:

Landeyjarhöfn hefur verið til vandræða en það er ekki að hjálpa til þegar eitt aðalhöfuð hafnarinnar notar líka orðið „vandræðabarn” alveg eins og helstu andstæðingar hafnarinnar:

Landeyjarhöfn2d

Með þessu er Landeyjarhöfn örugglega orðið heilmikið vandræðabarn, bæði að sögn andstæðinga og fylgismanna.

Þetta er eins og að heyra drengi í barnaskóla hrópa á eftir einum „Þú ert lélegur í fótbolta” og að sá sami snúi sér við og svari „Ég er ekkert lélegur í fótbolta”.  Auðvitað eru svona svör bullandi vörn þess sem er búin að missa kjarkinn og þá sýn hvað hann sjálfur stendur fyrir.  Það er nefnilega svo miklu áhrifaríkara að beina orðavali í þá átt sem maður vill stefna að en ekki tala um það sem maður vill ekki vera.  Sá sem talar „ekki”-tungumálið er nefnilega sjálfur búinn að gleyma góðu, jákvæðu orðunum sem segja að hann hafi sýn, markmið, getu og þor.

Annað minnistætt dæmi um klaufalega orðræðu er þegar Huang Nubo ásældist Grímsstaði á Fjöllum.  Hann útskýrði ekki áhuga sinn á jörðinni – ekki nema með furðulegri sögu af lopapeysugjöf – svo að fólk fékk á tilfinninguna að þarna lægi eitthvað dularfult að baki.  Íslendingar óttuðust áform Huangs og hvað gerði hann til að sefa þann ótta? Hann fór að tala um ótta! Hann sagði „Íslendingar þurfa ekkert að óttast”.  Með þessu er búið að festa í sessi að Íslendingar óttast áform hans og þá er búið að ramma málið inn í óttann og þá fer fólk að tala um málið á þeim nótum.

NUBO

Að tala með þessum hætti veikir eigin málstað. Þetta er samt algeng og kemur fyrir alla, hér er eitt dæmi af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem oft er mælskur út frá íslenskulegu sjónarmiði þótt orðavalið sem hann notar veiki hans málstað oft á tíðum:

SDG - Hangir ekki á bláþræði

Ef eitthvað hangir alls ekki á bláþræði þá þarf ekkert að tala um þennan bláþráð.  Hann er bara ekki í myndinni ef allt er í lagi.  Þess vegna opnar sá sem talar hugarheim sinn með þessu orðalagi og sýnir að bláþráður er eitt af því sem hugsað er um.

Einhverjir kunna að halda að málið snúst um það að sleppa orðinu „ekki” og tala alltaf um jákvæðustu útgáfu allra mála. En það er ekki nóg. Þá eru lítt ígrundaða orðræðan komnir í hina áttina þ.e. viðkomandi er farinn að tala án þess að nokkur trúi viðkomandi.  Ef samstarf í ríkisstjórn gengur illa þá er líklega best að sleppa því að segja „Samstarfið hangir ekki á bláþræði” en það er hálfu verra að ramma umræðuna inn með hugtaki sem enginn trúir. Rétt eins og að segja „Samstarfið hefur aldrei verið betra” í slíkum aðstæðum.  Helstu veikleiki Sigmundar í orðræðunni hefur einmitt verið að reyna að færa umræðuna yfir á svið sem enginn skynjar nema hann.  Sigmundur talaði um „loftárásir” þegar enginn sá loftárásir nema hann.  Sigmundur talaði um „einelti” og „andstæðinga” þegar flestir aðrir sáu bara málefnanlega umræðu þar sem tekist var á með eðlilegum hætti um rök.  Íslenskulega virðist Sigmundur Davíð hafa ágætt vald á málinu en öll orðræða hans er samt sem áður máttlítil því stjórnmálaumræða snýst að svo miklu leyti um hugtakanotkun og þar notar Sigmundur oft hugtök sem ekki allir leggja trúnað á.

Sigmundur hefur sérstakan stíl í umræðunni því hann virðist ekki hafa lag á því að tækla erfiða umræðu og ná tökum á henni þannig að ryk setjist. Í erfiðri umræðu gerir hann yfirleitt alltaf það sama: Hann kastar neikvæðni og rýrð til baka.  Það leiðir til þess að hann vinnur sjaldan þá í lið með sér sem eru upphaflega í öðru liði.  Þetta hefur veikt Sigmund í umræðunni því fólk gerir þá kröfu til leiðtoga að þeir geti sigrað erfiða umræðu, ekki með þjósti, rýrð, ásökunum og dylgjum heldur vill fólk sjá leiðtoga ná að sigra umræðu með því að ná að beygja umræðuna með jákvæðum og málefnalegum hætti á aðra braut með því að nota sannfæringakraft, einlægni og trúverðugleika. Það er að ramma umræðuna inn á snjallan hátt, út frá þeim sjónarhóli sem hentar þeim sem talar.

Niðurstaða: Oft er orðaval íslenskra stjórnmálamanna ekki nægjanlega ígrundað, ómarkvisst og til þess fallið að veikja málstað þess sem talar.  Annað hvort vegna þess að sá sem talar rammar umræðuna inn út frá öfugum formerkjum eða stillir hana inn á svið sem er órafjarri þeirri skynjun sem er ríkjandi hjá almenningi.  Íslensk stjórnmál myndu þess vegna njóta góðs af því að ná betri tökum á því að ramma umræðuna betur inn.

Umræðan í bandarískum stjórnmálum er römmuð inn með sérstakri aðferðafræði

Í bandarískum stjórnmálum hefur verið lagt i mikla vinnu til að gæta þess að stjórnmálamenn tali út frá hugtökum sem fá fólk til að skilja þeirra hlið mála.  Mikil strategísk vinna sem fer í það að ramma hugmyndir rétt inn. Lítum á nokkur dæmi þar sem mál hafa verið römmuð inn með áhrifaríkri orðræðu sem hjálpaði þeim sem talaði:

george.w.bush-tax-relief

Tax Relief” var hugtakasmíð sem gekk langt í að fá fólk til að trúa málstað ríkisstjórnar G.W.Bush. Hugtakið var engu að síður snjallt og vel til þess fallið að sigra umræðuna sem þá var um skattamál í Bandaríkjunum.  Meginástæðan er að Demókratar áttuðu sig ekki á mætti þess að ramma orðræðuna rétt inn og sögðust ítrekað vera á móti „Tax Relief”-verkefninu.  Þá skilur hinn almenni borgari það sem svo að Demókratinn sé á móti því að skattbyrðum sé létt af almenningi og þar með er orðræðan töpuð, alveg sama hvað rök eru notuð.  Demókratar virtust vera á móti því að „relief” sé beitt á skatta.  Enginn er hrifinn af því að heyra „I’m against the tax relief” en engu að síður sögðu Demókratar þessa setningu oft í viðtölum og uppskáru einfaldlega færri atkvæði.

no-child-left-behind-10-years-later-16x9

No Child Left Behind” var áhrifamikið orðalag sem Bush-stjórnin notaði til að ná í gegn frumvörpum um skóla og menntun í Bandaríkjunum.  Það er með hálfum hug að ég hrósa þessu orðalagi því Bush-stjórnin og orðfræðilegur hugmyndafræðingur hennar, Karl Rove, fór lagt yfir strikið í að nota strategískt orðalag því þeir settu hlutina í fallan búning sem oft var lítil innistæða fyrir.  Það kemur allt af í bakið á fólki, þótt síðar verði.

Obama og hans fólk rammaði inn kosningabaráttuna með einu orði: Change.  Töluðu um að breytingar þyrftu að eiga sér stað.  Þetta var bráðsnjallt því hver vill ekki breytingar?  Svo er það hvers on eins að ákveða breytingarnar sem hann óskar eftir.

Þáttur einlægni og heiðarleika

Líklega álykta einhverjir sem svo að umræðu- og samskiptatækni eins og framing sé aðferð til að setja ósannindi í fagran búning. Það er mikill misskilningur. Það er nefnilega ekki hægt að nota framing til að setja fallegan borða utan um ófagran tilgang, hugsun og illa ætlan (bad motivation). Það var e.t.v. hægt að gera slíkt fyrir mörgum árum og var vafalítið oft gert. En nútíminn, með sínu aukna gegnsæi, Interneti, sjálfsprottnum einmennings- og sannleiksleitandi fjölmiðlum kemur sem betur fer í veg fyrir það. Það er eins og að það sé eitthvað alheimslögmál í gangi sem er þannig að ef einhver ætlar að ramma inn málefni með orðræðu sem er ekki sönn að þá verði niðurstaðan máttlaus og oft þveröfug þannig að slíkir tilburðir snúast yfirleitt í höndunum á þeim sem slíkt reyna.  Þess vegna er það verkefni hvers og eins að finna sanna og réttmæta þætti og ramma sín málefni út frá slíkum vinklum því það er eina leiðin til að sigra umræðu og ná að láta sína umræðuramma verða ofaná í umræðunni. Koma einlæglega fram, finna út sanna og rétta vinkla á máefnum og draga þá fram í stað þess að reyna að hagræða umræðunni með illum ásetningi. Það einfaldlega virkar aldrei.

Vinstra fólk er oft linara í orðræðunni – hægra fólk oft beittara

Sú orðræða sem vinstra fólk velur snýst oft í höndunum á þeim og styrkir andstæðinga þeirra. Þetta er að einhverju leyti vegna þess að í hópum vinstri manna má oft finna upplýst menntafólk sem tileinkað hefur sér akademísk vinnubrögð, röksemdafærslur og talanda.  Það leiðir til þess að orðræða vinstra fólks á það til að vera lin, vangaveltukennd – þar sem velt er upp öllum hliðum mála, staðreyndatroðin og í verstu tilfellunum styrkir hún ímynd um veiklyndi, framkvæmdaleysi og linkind.  Tökum dæmi sem Brynjar Níelsson ritaði og talaði um lýðskrum vinstri manna. Í þessari grein er Brynjar í sóknarhug og fussar mikið yfir fundi vinstri manna þar sem rædd var meiri samvinna þeirra í millum.  Hér er blogg-grein Brynjars en þar segir meðal annars: „Aldrei gefa vinstri menn eftir í lýðskrumi” og „…enda hlustar meirihlutinn ekkert á borgarbúa” og „er á góðri leið með að setja borgarsjóð í þrot.

FRAMING Brynjar2

Pistill Brynjars vakti athygli vegna þess að orðræða pistilsins er sóknarorðræða en fjölmiðlar í leit að músarsmellum lesenda vilja þannig efni. Brynjar rammar orðræðuna inn út frá sínum skoðunum og hagsmunum og það versta sem andstæðingur Brynjars getur gert er að nota sama umræðuramma til að reyna að snúa umræðunni.  Þannig tapast yfirleitt umræðan. Hér er útgáfa DV af frétt um bloggpistil Brynjars sem rammar hann inn sem þann sem leiðir orðræðuna:

Brynjar

Stjórnarandstaðan reyndi að svara og má nefna hér eitt dæmi frá Össuri sem hann skrifaði á Facebook-vegginn sinn. Þar notar Össur sömu orðræðu og Brynjar hannaði og þess vegna veikir Össur sinn eigin málstað en styrkir Brynjars.  Össur jú kannski tæknilega séð að mótmæla Brynjari en miklu veigameira er sá þáttur að hann taki undir umræðuramma Brynjars því það undirstrikar hver verður ofaná. Brynjar Níelsson.

Ossur

Orð Össurar eru engin sókn, aðeins endurómur af þeirri sókn sem Brynjar hafði áður sett fram. Heilabúið virkar þannig að það hugsar í umræðurömmum (myndlíkingum, conceptum og hugtökum) og því hjálpar Össur heilmikið til þess að sjónarmið Brynjars verði ofaná af því Össur sækir ekkert fram í umræðunni með sína eigin ramma. Að auki er orðræða Össurar dálítið afsökunarkennd því hann reynir að útskýra hvernig Brynjar misskilur hlutina. Þetta er ágætt dæmi um hvað vinstra fólk á það gjarnan til að vera veikari aðilinn í umræðunni, sækja minna og taka oftar upp umræðuramma hægri manna og endurtaka þar með þeirra orðræðu.

Það er samt engan vegin þannig að hægri menn sigri alltaf í orðræðunni og að vinstri menn tapi henni. Þarna koma til fleiri þættir eins og ímynd, trúverðugleiki og að tengja sig við gildi.

  • Hægri menn geta oft verið beittari og áhrifameiri í umræðunni og sigra þannig einstök og skyndileg áróðursstríð oftar en vinstri menn. En þeir tapa aftur á móti oftar á ímyndindarþættirnum sem orðræðan sjálf skilur eftir sig. Með öðrum orðum: þeir eru stundum háværari og virka oft öflugari en fara stundum yfir strikið í kappseminni og tengja sig þannig við gildi sem meirihluti þjóðarinnar vill síður tengja sig við.  Hægri menn þurfa þess vegna að skilja betur gildi þjóðarinnar og tala oftar í takt við þau. Hætta að sækja alltaf fast að andstæðingnum og að hjóla í þá persónulega. Það þykir einfaldlega lummó framkoma nútildags að gera það. Allt í lagi þó að það hafi þótt fínt hér fyrir 10 árum en það þykir gamaldags í dag. Sjálfumgleði, ofurtrú, unggæðingsháttur og loyjalismi eru allt áherslur sem eru á útleið og hægra fólk þarf að læra nýjar áherslur í samskiptum og að tengja sjónarmið sín betur við gildi heildarinnar (þjóðar-, fjölskyldu- o.s.frv.) en ekki bara við efnahagsleg gildi.
  • Vinstra fólk er oft linara í umræðunni en kann aftur á móti oft betur að tala út frá gildum þjóðarinnar. Þess vegna tapa þeir oft þegar sótt er að þeim í umræðu sem fer skyndilega af stað því þeir fara of oft í vörn. Stykur vinstri manna í umræðunni er hins vegar sá að þeir vinna þeir oftar á ímyndarþættinum þ.e.a.s. þeir kunna betur að tala út frá gildum þjóðarinnar og tengja sig við þau gildi. Vinstri menn þurfa að breyta orðræðu sinni og þeir þurfa einnig að verða beittari en áður og líta á það sem hreina og klára keppni að ramma inn sín sjónarmið eins og best er hægt hverju sinni og að halda sig við þann umræðuramma eins lengi og hægt er. Hætta að taka upp orðræðu andstæðinga undir merkjum gæsalappa og kaldhæðni og leyfa sér að tala oftar með beittari hætti þó að það falli ekki alltaf inn í ramma akademískra vinnubragða. Þið eruð ekki að tala við háskólaprófessora – þið eruð að tala við almenning sem hlustar stutt, veit ekki heildarmyndina og nennir ekki að hlusta mikið á ykkur. Þið eruð eins og bílasali sem þarf að sannfæra áhugalítin viðskiptavin um að kaupa bíl en á móti ykkur er harður og tungulipur bílasali sem sækir fast að því að ná sölunni og notar stundum til þess meðöl sem þið eigið ekki í lyfjaskápnum.

Málefni sem stjórnmálafólki gengur illa að ramma inn

Bæði hægra og vinstra fólki gengur illa að ramma inn nokkur málefni. Einkum eru þetta málefni sem rædd hafa verið lengi og voru e.t.v. ekki til trafala fyrir allmörgum árum.  En gildi fólks hafa breyst hratt á undanförnum árum og þess vegna gengur ekki til lengdar að reyna að ramma inn sömu umræðu með óbreyttum hætti nú þó að það hafi gengið ágætlega fyrir nokkrum árum.  Tökum að lokum nokkur dæmi:

  • Hægri menn eiga í auknum erfiðleikum með að ná til fólk með mörg af sínum klassísku málefnum. Stuðningur við útgerð og kvótakerfi er eitt dæmi sem þeim tekst æ verr að ramma inn. Ástæaðan er sú að þeir reyna að ramma inn þetta málefni inn með umræðuramma sem virkaði ágætlega fyrir 10 árum en virkar ekki enn. Ein helsta röksemdin er „það er ekki til neitt betra kerfi” en þarna sneiða þeir algerlega hjá mörgum gildum sem skipta fólki máli eins og áhrif á búsetu sjávarþorpa, réttmætt endurgjald af auðlindum til þjóðarinnar og auðsöfnun fárra á kostnað margra. Á meðan hægri menn líta framhjá þessum gildum þá tapa þeir umræðunni, smátt og smátt. Svipaða sögu má segja um suma þætti sem tengjast hinu flókna málefni sem er Evrópusambandið því hægri menn eiga það til að ramma umræðuna inn út frá „mikil spilling í Evrópusambandinu” þegar þeir sjálfir (hægri menn) eru helst tengdir við spillingu hér heima. Það er ekki trúverðugur umræðurammi. Einnig er umræðuramminn „höfnum Evrópusambandinu svo að Ísland verði áfram fullvalda og frjálst land” sífellt að veikjast því hann tekur ekki á gildum sem skipta fólk æ meira máli: að lánskjör á Íslandi verði þau sömu og í nágrannalöndunum. Fólki er hreinlega sama um eitthavð ímyndað sjálfstæði ef fólk þarf að kaupa það svo dýru verði að þurfa að greiða 120 milljónir til baka af 20 milljóna íbúðaláni.
  • Einnig eru mörg málefni sem vinstra fólk gæti rammað inn miklu betur. Sérstaklega eru það velferðarmál, innflytjendamál og svo meðhöndlun fjármuna sem takmarkaða auðlind. Varðandi velferðar og innflytjendamál þá rammar vinstra fólk umræðuna yfirleitt inn „segjum já við flesta” sem er gott og gilt í sjálfu sér en tekur samt ekki á kostnaðar- og öryggissjónarmiðum sem skipta marga máli. Þannig finnst fólki að vinstra fólk vilji bara taka á móti öllum, veita öllum félagslega styrki, hækka greiðslur til allra minnihlutahópa o.s.frv. Þeitt veikir þeirra málstað mjög því það vantar alveg að taka með inn í orðræðuna að þetta þurfi að hanga saman við kostnað og getu lítils lands. Orðræða sem er í líkingu við „við skulum taka við fleirum en við getum ekki tekið á móti öllum” er eitthvað sem vinstra fólki vantar í umræðuna. Að sýna manngæsku en í takt við efni og ástæður hverju sinni. Og ef næg efni eru fyrir, þá þarf vinsta fólk að sýna það tölulega og á sannfærandi hátt að rýmið er enn mikið. Einnig er orðræða vinstra fólks oft allt að því óábyrg (þegar verst lætur) þegar kemur að sumum velferðarmálum því þeir tala oft þannig að almenningur fær á tilfinninguna að þeir ætli að eyða miklu fé í minnihlutahópa án þess að hugsa nógu mikið um hvað sé hægt að gera út frá efnum og ástæðum. Það myndi breyta miklu fyrir vinstra fólk ef það myndi taka þennan umræðuþátt inn í sína orðræðu.

Lokaorð

Það að stjórnmálafólki og stjórnmálaflokkum gangi oft tiltölulega illa að ramma inn sín stefnumál er vegna þess að í íslenskum stjórnmálum fer ekki fram nein skipulögð vinna á sviði framing og communication. Það er einfaldlega ekkert mikið hugsað um þessa hluti. Einhver segir bara eitthvað og rammar það bara inn eins og viðkomandi dettur það í hug hverju sinni. Þetta sést best á því hvað íslenskum stjórnmálaflokkum hefur sjaldan tekist að eigna sér ákveðin orð og konsept. Það er einfaldlega skortur á markaðssetningu. Sjálfstæðisflokki hefur ágætlega tekist að eigna sér nokkur orð og er frelsi eitt þeirra. Vinstra fólki (einkum VG) hefur tekist að eignast orðið grænt sem er nátengt umhverfismálum. Á meðan hefur framsóknarflokki ekki tekist að eigna sér mörg orð nú í seinni tíð nema tengslamyndun við ákveðna hópa, einkum bændur og ákveðna hagsmunahópa. Samfylkingunni hefur ekki eignað sér mörg af góðu orðunum – frekar sum þeirra neikvæðu – og er það vandi flokksins í hnotskurn. Samfylkingin á e.t.v. orðið jafnaðarmennska en það orð, eitt og sér, er ekki nátengd mikilvægum gildum almennings. Það er bara eitthvað tækniorð. Píratar eru í þann vegin að eigna sér orðið breytingar (t.d. með sögninn „að endurræsa”); Björt framtíð hefur ekki eignað sér nein sérstök orð og það sama má segja um marga aðra flokka.  Sjáum sem dæmi flokkinn Dögun sem hefur vafalítið mörg ágæt stefnumál á sinni könnu en hefur samt ekki náð að eigna sér neitt konsept, engin orð, enga málaflokka. Þetta er vandi margra flokka í hnotskurn.  Þetta þarf þó ekki að vera vandi ef starf flokkanna er gert hnitmiðaðra en nú er og nýjustu aðferðum á sviði samskiptafræða (framing) er beitt.

Check Also

Úthlutun þingsæta með misjöfnu atkvæðavægi

Við útdeilingu þingsæta er atkvæðahlutföllum, breytt í heiltölur, heil sæti, sem getur aldrei endurspeglað hlutföllin …