Samkeppniseftirlit má ekki hefta smáa aðila í að keppa við þá stóru

Í grunninn er það góð og réttsýn hugsun að starfrækja samkeppniseftirlit á Íslandi. Annars væru undirboð stórra aðila algeng til að ná tökum á markaði, drepa samkeppni og tryggja þeim stóru undirtök á markaði. Þannig var Samkeppniseftirlitið hugsað á sínum tíma, sem stillitæki á íslenska markaðinn, til að þeir stóru haldi ekki alltaf áfram að stækka á kostnað þeirra litlu sem veita verðsamkeppni og aðhald. Það er réttmæt hugsun sem á að viðhalda.

En nú hafa aðstæður breyst á þann hátt að Samkeppniseftirlitið er hugsanlega í einhverjum tilvikum farið að hindra samkeppni. Þetta gerist þegar litlum, íslenskum aðilum er meinað að sameinast eða að vinna saman til að gera samkeppni við stóra, erlenda aðila mögulega.

Dæmi: Stöð 2 og Skjá 1 var meinað að vinna saman. Af hverju? Jú, Samkeppniseftirlitið taldi að þeir væru saman of stór og mikið ráðandi aðili sem gæti stýrt markaðnum hér á landi. En á meðan kom Netflix með alla sína stærð, kaupgetu, fjárhagslegan styrk og er búið að ná sterkari stöðu hér á markaði en Stöð 2 og Skjá 1 dreymdi nokkru sinni um að ná. Samkeppniseftirlitið fylgist sem sagt með Stöð 2 og Skjá 1 en hefur enga lögsögu yfir Netflix.

Með því að leyfa Stöð 2 og Skjá 1 að vinna saman hefði verið til öflugari aðili sem hefði framleitt meira af íslensku efni, hefði textað meira efni og stutt við íslenska menningu í meira mæli heldur en Netflix mun nokkru sinni hafa áhuga á að gera. En þetta bannar Samkeppniseftirlitið og segir að Stöð 2 og Skjár 1 megi ekki vinna saman.

Einnig starfrækir Costco margþætta starfsemi hér á landi; sala á matvörum, útivistarvörum, lyfjum, eldsneyti og ýmsu fleiru. Annarsstaðar eru þeir öflugir í bílasölu og sölu trygginga o.fl. Erfitt er fyrir íslenska aðila að keppa við innkaupsverð sem Costco fær hjá stórum framleiðendum erlendis og því hafa íslenskir aðilar, sumpart af veikum mætti, ákveðið að sameinast eða að bindast böndum til að eiga möguleika í þessari stöðu.

Þetta er farið að snúast upp í andhverfu sína. Samkeppniseftirlitið getur ekki lengur hugsað einvörðungu út frá íslensku aðilunum heldur verður að taka erlend fyrirtæki og stöðu þeirra og styrk með í reikninginn þegar verið er að leyfa eða að banna fyrirtækjum að fóta sig í erfiðu samkeppnisumhverfi. Það þarf því að einhverj leyti nýja nálgun og nýja hugsun inn í Samkeppniseftirlitið svo að það nái að vinna út frá þeim upphaflega tilgangi sem það var reist á: Að efla minni aðila til að kljást við stærri aðila í síharðnandi samkeppnisumhverfi. Annars verða litlu íslensku aðilarnir auðveld bráð erlendra fyrirtækja sem hingað munu koma.

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …