#metoo færist á næsta stig

Þó að #metoo byltingin hafi byrjað fyrir ári síðan, í október 2017, er hún bara rétt að byrja. Í byrjun var sjónum beint að frægu og valdamiklu fólki og sem hafði sýnt af sér ofbeldi, kynferðislega misnotkun og áreitni innan skemmtanaiðnaðarins og beitt þöggun á slík mál í skjóli þess að það hafði fé og vald.

Næsta stig af #metoo er að birtast um þessar mundir og þar verður kastljósinu beint að venjulegu fólki en ekki bara þekktu fólki. Þetta er #metoo númer 2 þar sem sjónum verður ekki aðeins beint að kynbundinni misnotkun og þöggun heldur einnig gagnvart yfirgangi þeirra sem vilja reyna að þagga niður réttmæta umræðu sem leitar upp á yfirborðið. Þetta gerist því miður oft innan fyrirtækja þar sem sett er í gang sýndarbrottrekstur eða að manneskju er haldið niðri til að þagga niður umræðu um mál sem eru óþægileg. Þess vegna er #metoo númer 2 bylting fyrir almennu réttlæti, sanngirni og gagnsæi.

Við erum þegar byrjuð að sjá æ fleiri tilvik þar sem ekkert ofbeldi, yfirgangur eða áreitni verður liðin. Og þá gildir einu hvort um er að ræða frægan kvikmyndaleikara eða vaktstjóra í pizzugerðar-fyrirtæki í Kópavogi. Allt er lagt undir og skoðað í #metoo númer 2. Við öll erum komin inn á radarinn og skilaboðin eru að almennt réttlæti skuli hafa í heiðri, allir skuli njóta sanngirni og að gagnsæi skuli ríkja um flest mál. Og ekki bara gagnvart kynbundinni misnotkun heldur gagnvart öllum yfirgangi, frekju og ósanngirni.

Dæmin sem hafa birst innan OR og ON að undanförnu eru í þessum anda. Þar stendur ung kona upp og mótmælir fáránlegri framkomu sem hefur verið normalíseruð og álitin saklaus af samfélagi sem fylgir ekki tíðarandanum. Það sem er breytt nú er að það er ríkulega hlustað á öll slík mótmæli. Það maldar enginn í móinn lengur né felur sig á bak við luktar dyr. Þeir sem reyna það munu þurfa að hætta. Þeir sem hafa merkt sig með gildum gamla tímans þurfa líka að hætta. Og þau fyrirtæki sem hafa leyft rembulegri menningu að þrífast þurfa að fara í alsherjar þvott. Það er ekki lengur hægt að fela sig á bak við trúnaðarupplýsingar, það er ekki lengur hægt að segjast ekki hafa vitað og segjast ekki ætla að tjá sig frekar um málið. #metoo er mætt í útgáfu númer tvö og þá er enginn undanskilinn og enginn aðgöngumiði að gamla tímanum er umborinn. #metoo var ekki bara tímabundin bylting á haustmánuðum 2017 heldur var upphafið að bylgju réttlætis sem mun lifa því við viljum öll kveðja yfirgang, ofríki, frekju og þöggun og sjá ný gildi setjast að í stað þeirra gömlu.

—  —  —

#metoo byltingin var að sumu leyti fyrirséð því hún er alveg í takt við annað sem hefur verið að gerjast í þjóðfélaginu nokkur misseri á undan. Ég var í London 2014 með fólki úr fjármála- og tæknigeiranum með fyrirlestur í því sem ég kallaði „The Great Value Shift“ – hin stóra breyting á gildum sem var að byrja að ryðja sér til rúms í samfélaginu, í kjölfar hrunsins. Þar leiðbeindi ég fólki úr þessum geirum og er nokkuð fróðlegt að skoða þessar glærur úr þessu námskeiði frá 2014 og hér má sjá eina af glærunum sem ég fór yfir:

Þarna byrjaði ég að tala um að miklar breytingar væru að eiga sér stað um allan vestræna heiminn og jafnvel um veröld alla. Þessar breytingar væru það kraftmiklar að það þýddi ekkert að ætla sér ekki að vera hluti af þeim því þá gæti maður allt eins hætt sínum starfa. Verst munu þeir fara sem streitast á móti.

Þarna messaði ég yfir bankafólki sem reyndi af breskum kurteisismætti að reyna að skilja og sjá dæmi um þessar breytingar í nútímanum þá. Minnihluti þeirra tengdi við þessa orðræðu þá, þótt ekki séu nema 4 ár síðan. Fólk var vant því að það væri eftirsótt að tilheyra þeim stóra, sterka, valdamikla; þeim óskeikula sem hefði valdið og réði för. En margt hefur breyst síðan þá.

Ég hef nokkrum sinnum talað um breytingu á gildum síðan þá og hér er það í íslenskri útgáfu frá 2015:

Þessi nýju gildi sem eru að festa rætur ganga flest út á aukinn fjölbreytileika, meiri sanngirni og mýkt og að allur yfirgangur og mannleg óvirðing sé í öllum tilvikum óásættanleg. Þetta er ákveðinn kjarni sem ummyndaðist svo í #metoo byltingunni sem ekki sér fyrir endan á.

 

 

Facebook Comments

Check Also

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar …