Mesta tap lífeyrissjóða er í hlutabréfum – samt er haldið áfram

Árin 2008-2010 var langmesta tap lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum:

Þetta gildir ekki bara um árin 2008-2010 því yfir önnur tímabil hefur mikið tap lífeyrissjóða einnig verið vegna innlendra hlutabréfa, bæði fyrir og eftir hrun.

Það kom því ekki á óvart, þegar það kom í ljós að sá lífeyrissjóður, sem hefur hæstu ávöxtunina af öllum íslenskum lífeyrissjóðum sem eru almenningi opnir, skuli lítið taka þátt í íslenska hlutabréfamarkaðinum. Sjá hér frétt um verðlaun til handa Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem hefur slíka fjárfestingastefnu að sögn framkvæmdastjóra sjóðsins.

Það er eflaust gott að fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðnum, ef markmiðið er að ná ágóða á tiltölulega skömmum tíma, á 1-5 árum. En lífeyrissparnaður er sparnaður yfir 40-50 ár og á slíkur sparnaður ekki heima á örsmáum hlutabréfamarkaði, eins og íslenski hlutabréfamarkaðurinn er. Það er ekki nóg með að þar séu miklar sveiflur, heldur er seljanleiki oft erfiður, því stöðutaka lífeyrissjóða er svo stór að oft er enginn kaupandi til staðar nema næsti lífeyrissjóður. Það er nefnilega ekki nóg að græða skv. bókfærðu verði, það verður líka að vera hægt að selja skjótt, á hárréttum tíma, til að taka út góða ávöxtun.

Það má því færa rök fyrir því að íslenskir sameignasjóðir eigi að draga úr þátttöku sinni á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Reynslan sýnir að þaðan koma stærstu taptölur sjóðanna og það er ekkert breytt við íslenska hlutabréfamarkaðinn nú sem kemur í veg fyrir að áframhaldandi tap sjóða á hlutabréfum sé til staðar. Nóg er að horfa á nýlegar fréttir, sem reglulega berast, sem sýna miklar dýfur í verði hlutabréfa sem þýðir lægri lífeyri fyrir íslenskan almenning:

Frétt MBL.is, „Bréfin lækkuðu um 24,65%“, en þar segir:

„Bréf í Icelanda­ir lækkuðu um 24,65 pró­sent í dag. Loka­gengi bréf­anna var 9,57 og var velta viðskipta með bréf­in 600 millj­ón­ir króna.“

Markmið lífeyrisþega eru að viðhalda jafnri og traustri ávöxtun til áratuga. Íslenskur hlutabréfamarkaður veitir ekki slíka ávöxtun. Því er því beint til lífeyrissjóða að draga úr stöðutökum sínum á íslenskum hlutabréfamarkaði og færa sig nær þeim fjárfestingarflokkum sem minnsta tapið hafa veitt á liðnum árum: Innlend veðskuldabréf (húsnæðislán). Við sjáum skýr dæmi um þá sjóði sem forðast hafa íslenska hlutabréfamarkaðinn að þeir eru til lengri tíma að ná hærri langtímaraunávöxtun en aðrir. Næg dæmi eru því fyrir hendi til að rökstyðja slíka áherslubreytingu.

Það er því furðulegt þegar lífeyrissjóðir eru hvattir til þess að taka með auknum þætti þátt í húsnæðisverkefnum sem hafa einmitt (sjá töfluna efst) skilað minnsta tapinu og minnstri áhættunni. Svar lífeyrissjóða er að þeir vilja ekki taka þátt í stórum húsnæðisverkefnum „vegna áhættunnar“, eins og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefndi, sjá hér.

Fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða sagði óaðl­að­andi fyrir líf­eyr­is­sjóði að standa í rekstri leigu­fé­laga. Sjóð­irnir væru fyrst og fremst fjár­festar og myndu ein­ungis styrkja fjár­mögnun leigu­í­búða í gegnum hluta­fé­lög til þess að lág­marka áhætt­una.

Þetta eru undarleg ummæli og þvert ofaní staðreyndir hér að ofan. Fjárfestingar lífeyrissjóða í stórum húsnæðisverkefnum, eins og leigufélögum er minnsti áhættuþáttur lífeyrissjóða skv. bókum þeirra sjálfra. Þátttaka á íslenska hlutabréfamarkaðnum er einmitt mesti tapliðurinn og skapar því mestu áhættuna fyrir lífeyrissjóði, öfugt við það sem framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefnir.

―  ―  ―

Unnið er að því að skoða önnur tímabil, bæði 2000-2008 og svo einnig nýrri tímabil, 2009-2014. Erfiðara er að skoða síðustu ár af því að eignir lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði eru færðar inn sem bókfært verð sem reynist oft vera annað en innlausnarverð sem er hið endanlega verð, eftir að sala hefur átt sér stað.

Check Also

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta …