Lífeyrissjóðir tregir til að birta upplýsingar um eigin árangur

Allir landsmenn eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði (sameignarsjóði). Þessi skylduáskrift ætti sjálfkrafa að krefjast þess að hámarksgagnsæi myndi ríkja um alla meðhöndlun þessara fjármuna því hér er um að ræða stærsta sparnað almennings og það sem fólk þarf að treysta á síðasta fjórðung ævinnar. Skýrar upplýsingar um raunávöxtun, kostnað og aðra þætti ættu að liggja fyrir augu almennings en svo er því miður ekki.

Sú ótrúlega staðreynd er þó engu að síður sannleikur: Lífeyrissjóðir hafa til þessa ekki viljað setja fram aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning sem gefa fólki kleyft að bera saman langtímaávöxtun sjóða með auðlæsilegum hætti. Lífeyrissjóðir gefa reyndar upp ávöxtun í ársreikningum og birta stundum ávöxtun örfá ár aftur í tímann en nær aldrei er um að ræða heildstæðan samanburð lífeyrissjóða, ekki einu sinni þeirra stærstu. Að bera saman ávöxtun sín á milli er eitthvað sem lífeyrissjóðir á Íslandi virðast forðast og er sú afstaða mjög bagaleg, sé horft til hagsmuna almennings.

Það er ekki nóg að birta tölur og hafa þær dreifðar og óaðgengilegar (í mörgum skjölum sem geymd eru á mismunandi stöðum). Almenningur verður að fá þessar tölur samanteknar á aðgengilegt og staðlað form, alveg eins og er með innihaldslýsingu matvæla og önnur töluleg gögn sem almenningur á rétt að vera upplýstur um. Um þetta ritaði ég nýlega (Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða) en miðað við núverandi birtingu upplýsinga frá lífeyrissjóðum þyrfti einstaklingur að opna a.m.k. 20 Excel skjöl með um 200.000 tölum, finna réttur tölurnar og reikna þær rétt saman til að átta sig á því hvaða lífeyrissjóðir eru að ávaxta lífeyri landsmanna vel og hverjir ekki. Auk þessi þyrfi að vinna gögn úr ársreikningum sjóða sem eru um 600 PDF skjöl til að sjá sameiningarhlutföll og aðrar upplýsingar um rekstur, kostnað og afkomu, til að fá 20 ára heildarsýn á hvaða lífeyrissjóðir eru að standa sig vel. Augljóst er að Jón og Gunna eru ekki að dunda við þetta yfir sjónvarpinu á kvöldin.

Það er því nær ómögulegt fyrir almenning að svara spurningunni hvaða lífeyrissjóðir séu að standa sig vel til lengri tíma litið.

Margir hafa á umliðnum árum haft samband við mig og viljað fá ráðleggingar um það hvaða lífeyrissjóðir séu að ávaxta vel á Íslandi. Hef ég þess vegna í nokkur ár hvatt lífeyrissjóði reglulega og landssamtök þeirra til að birta raunávöxtunartölur allra sjóða a.m.k. 20 ár aftur í tímann og að hafa þær tölur samanburðarhæfar á milli sjóða. Yfirleitt hefur verið tekið neikvætt í þetta af lífeyrissjóðum og landssamtökum þeirra. Þeir hafa í samskiptum við mig nefnt þrjár meginástæður fyrir því af hverju þeir telja óæskilegt að birta samanburðarhæfar tölur:

  1. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að ávöxtunarstefna þeirra sé mismunandi. Að það megi ekki bera saman „epli og appelsínur“, eins og þeir orða það.
  2. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að sumir sem greiða í lífeyrissjóði eiga erfitt með að skipta um sjóði, hafi ekkert val.
  3. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að uppgjörsaðferðir séu mismunandi og að sameining ýmissa sjóða sem hluti af fortíðinni sem geri uppgjör og útreikning ávöxtunar eilítið flóknari.

Að mínu mati eru þetta ekki sterkar röksemdir því réttur almennings til að fá að vita um ávöxtun á eign peningum ætti að vera svo sjálfsögð það á ekki að þurfa að ræða það neitt frekar. En þetta er stundum reyndin á Íslandi, að það þurfi að kreista fram upplýsingar í dagsljósið sem ættu að vera öllum opnar. Þessum þremur punktum frá lífeyrissjóðunum mætti svara svo:

  1. Það eru engin rök að koma í veg fyrir að birta ávöxtunartölur af því ávöxtunarstefna sjóða sé mismunandi. Almenningur vill vilta hver er að standa sig vel og hver ekki. Það er svo tæknilegt mál að skoða skýringuna þar á bak við, af hverju sumir eru með 1,25% raunávöxtun í 20 ár en aðrir >6%. Skýringin gæti m.a. verið mismunandi ávöxtunarstefna en það er bara ein skýring af mörgum. Ekki ástæða til að birta ekki ávöxtunartölur.
  2. Það er rétt að sumir hafa ekkert val um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í. Þetta tengist nefnilega stundum samningum launþegafélaga. En þetta er – enn og aftur – ekki ástæða til að koma í veg fyrir að birta ávöxtun á sparnaði almennings. Það gæti t.d. verið gott að vita fyrir Jón og Gunnu að ef þau eru að greiða í sjóð sem ávaxtar þeirra lífeyri ekki nema 1,25%, yfir starfsævina, að þau þurfi að leggja fyrir aukalega ef þau ætla að lifa með reisn á efri árum. Það væri næg ástæða til að birta tölurnar.
  3. Ekki er hægt að sleppa frá því að birta ávöxtunartölur lífeyris almennings vegna þess að það sé flókið að leggja saman nokkrar tölur. Búið er að sýna fram á það með vísindavinnu (sem vísað í m.a. hér). Ekkert er því að vanbúnaði, talnalega séð, til að þessar tölur séu birtar.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi:

Ávöxtun á skyldulífeyri landsmanna er mjög mismunandi. Það er eðlileg krafa út frá öllum sjónarmiðum að birta það hvaða lífeyrissjóðir eru að skila landsmönnum góðri ávöxtun og hverjir ekki:

― ― ―

Hversu miklu máli skiptir mismunandi ávöxtun?

Það skiptir mjög miklu máli hvort einstaklingur er í sjóði sem skilar góðri eða slakri ávöxtun.

Dæmi:
Jón og Siggi hafa sömu laun alla starfsævina og greiða í lífeyrissjóð 40 ár. Jón greiðir í sjóð sem er með 1,25% ávöxtun en Siggi greiðir í sjóð sem er með 6,16% ávöxtun, alla starfsævina. Hver er munurinn í útgreiddum lífeyri, þegar þeir eru að hefja töku lífeyris?

Margir þættir hafa áhrif á hvað þeir fá raunverulega, ekki bara ávöxtunin þó hún sé mikilvægasti þátturinn. Sjóðsfélagahópurinn (hvort mikið eða lítið er um örorku) ræður allnokkrum um það hvað þeir Jón og Siggi fá því fjármögnun slíkra greiðslna er í nafni allra hinna sjóðsfélaganna. Auk þess breytast töflur lífeyrissjóða sem segja til um hvað sjóðsfélagar fá m.v. inngreiddan lífeyri, nokkuð ört. Fyrir sjóði með háa ávöxtun koma réttindaaukar en aftur á móti skerðing hjá þeim sjóðum sem lága ávöxtun hafa.

Hér er dæmi um réttindatöflu hjá lífeyrissjóð VR:

Þetta er eins og lífeyrissjóðir áætla endurgreiðslu: Fyrir hverjar 10.000 kr. sem greiddar eru inn í sjóðinn fær einstaklingur endurgreiðsluréttindi (ávinnslu) upp á ákveðna upphæð sem heldur viðkomandi sjóð innan jákvæðra tryggingafræðilegra marka. Ávinnslan er svo út æviskeiðið, ólíkt séreignarsparnaði sem er föst tala.

Það er því ekki hægt að reikna nákvæmlega hvað Jón eða Siggi mun fá í lífeyri nema með því að gefa sér allmargar forsendur. Það fer mikið eftir samþykktum sjóða, ávöxtun, kostnaðarstrúktúr sjóðsins og rekstur hans ásamt öðrum þáttum, sjóðsfélögum, réttindatöflum og breytingum sem þær eru háðar, svo að fátt eitt sé nefnt. Tölurnar sem nefndar eru hér eru því ekki endanleg niðurstaða aðeins áætlun út frá algengum forsendum sem hafa verið gefnar til að átta sig á stærðargráðunni sem niðurstaðan getur legið á:

Önnur leið til að nálgast niðurstöðu í þessu dæmi: Segja má, gróflega séð að ef við miðum við tvo meðalmenn með meðallífslíkur og meðallaun en að þeir greiði, eins og í dæminu hér að ofan, í tvo mismunandi sjóði (annar með 1,25% ávöxtin, hinn með 6,16% ávöxtun) að þá fái sá sem valdi sjóð með lága ávöxtun um 40% lægri lífeyri úr sínum sjóð en meðalmaður myndi fá (sem fær 3,5% ávöxtun) en sá sem valdi sjóðinn með 6,16% ávöxtun fái um 65% hærri lífeyri úr sínum sjóð.

Hafa verður í huga að hér er miðað við ávöxtunartölur síðustu 20 ár sem er ekki nema helmingur af 40 árum og því mjög mörg „ef“ í þessum útreikningum. Vel má færa rök fyrir því að næstu 20 ár verði með þeim hætti að ávöxtunarmunur lífeyrissjóða verði lægri og því er rétt að það komi fram að það séu ákveðin líkindi í þá átt að munurinn verði minni í framtíðinni. Síðustu 20 ár fela í sér eitt bankahrun með tilheyrandi sveiflum og ef við bindum vonir við minni sveiflur á næstu árum þá kann að vera að sá munur sem tilgreindur er hér á Jóni og Sigga verði minni í framtíðinni.

Ath. að lífeyrissjóðir með lága ávöxtun ná ekki að greiða sjóðsfélögum lágmarkslaun. Í þeim tilvikum tekur hið almenna tryggingakerfi við og hækkar upphæðina sem kemur frá lífeyrissjóðum upp í það sem þjóðfélagið (ríkið) skilgreinir sem réttmæt lágmarkslaun. Þó að einstaklingar séu að fá lágan lífeyri þá er hin endanlega upphæð því oft aðeins hluti af upphæðinni sem berst viðkomandi einstakling, upphæðin frá lífeyrissjóðnum er oft töluvert lægri, a.m.k. í sumum tilfellum.

― ― ―

Það þarf ekki að lýsa því hvað þetta er sjálfsagt mál í nágrannalöndum, þar eru þessar upplýsingar mjög aðgengirlegar (t.d. í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Austurríki, Frakklandi og víðar). Þar eru ávöxtunartölur lífeyrissjóða bornar saman, oft vikulega. Enda eykur slíkt aga og samkeppni sjóða og gerir aðeins gott fyrir ávöxtun á fé almennings.

Í nokkur ár hef ég bent á hvað þetta er mikilvægt mál fyrir almenning. Í fyrstu fékk ég harða gagnrýni fyrir að krefjast þess að lífeyrissjóðir birtu samanburðarhæfar raunávöxtunartölur yfir langt tímabil. Á síðustu mánuðum hafa þessar raddir dvínað ögn og meira er tekið undir þessi sjónarmiða að það eigi að birta þessar tölur, skilyrðislaust. Vonandi eru því að koma nýjir tímar í þessum málum og gagnsæi lífeyrissjóða að aukast.

 

 

 

 

 

Check Also

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta …