Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin og skíturinn er of mikið magn CO2 í andrúmslofti. Óhreinindin koma frá íbúum hússins sem hafa gengið mjög illa um síðustu mánuði, skíta mikið út og neita að hætta.

Svo er skiladagur og húsið á að vera hreint. Þá byrjar hver á benda á annan. Ef við náum ekki að skila húsinu hreinu munum við þurfa að greiða háar sektir. Einhverjir vilja byrja að þrífa núna og segja að tíminn sé naumur (vísindamenn, aktivistar o.fl.) en sumir vilja einfaldlega bíða og sjá til og segja „þetta reddast“; enn aðrir segja „loftum bara vel út“ eða í mesta lagi „notum bara handryksuguna“.

Við höfum bara tvær leiðir til klára að þrífa húsið fyrir skiladag: Minnka óþrifnað íbúa, láta þá skíta minna og minna út (sambærilegt við að draga úr losun CO2). Auðvitað er það jákvætt, því þá hleðst upp minni skítur fyrir skiladag og verkefnið verður auðveldara. En samt þarf líka að þrífa skítinn sem kominn er (magn CO2 í andrúmslofti er alltof hátt). Og skíturinn fer ekki sjálfur, ekki er nóg að opna glugga og lofta út (magn CO2 í andrúmslofti þynnist ekki út nema á mjög löngum tíma, 200-300 árum).

Við munum því ekki komast hjá því að þrífa skítinn sem kominn er (hreinsa CO2 úr andrúmslofti). Og þá dugar engin handryksuga. Við þurfum öflug tæki af því að tíminn er að renna út.

Allt það góða fólk sem vill vinna gegn loftslagsbreytingum er með sama markmið: Að þrífa húsið fyrir skiladag (að koma aftur á réttu magni af CO2 í andrúmsloftið, frá 420 ppm niður í ≈350 ppm). En þrátt fyrir að þetta sé sama markmið allra þá er merkilegt að sjá hvað deilt er mikið um aðferðir. Einn vill nota ryksugur, annar sópa, sá þriðji klúta og fjórði teppahreinsivél. Af hverju segja ekki allir: Geggjað, notum öll tólin og tækin sem eru fyrir hendi; notum allar vinnufúsar hendur og vinnum þetta saman, Af því að það er tæpt að þetta náist.

Verkefnið sem við höfum öll er nefnilega stærra en flesta grunar. Skíturinn er orðinn svo mikill (útblástur er 40 milljarðar tonna af CO2 á ári) að við höfum bara eina lausn: Að nota allar leiðir, að gera allt sem hægt er. Að draga úr skít (draga úr losun) og að þrífa skít (hreinsa CO2 úr andrúmslofti).

En bíddu, er ekki til ókeypis leið til að þrífa? Binda ekki tré helling af CO2 úr andrúmslofti? Er ekki nóg að planta trjám og þá hreinsast húsið okkar sjálfkrafa? Jú, tré binda koltvísýring úr andrúmslofti. Notum sem mest af trjám og gróðursetjum tré allsstaðar þar sem hægt er. En það er ekki nóg. Eins og sjá mér hér og hér þá er skíturinn orðinn svo mikill að við myndum þurfa að fylla hálfu og heilu heimsálfurnar af trjám til að ná að vinna nógu mikið af CO2 úr andrúmslofti í tæka tíð til að stöðva gjörbyltingu í veðurfari og lífsskilyrðum. Að gróðursetja tré á landssvæðum sem jafnast á við stærstu lönd veraldar er því ekki raunhæft sem lausn ein og sér. Gróðursetning trjáa er mjög jákvæð og nauðsynlegt tæki í bland við aðrar lausnir. Og vonandi rennur upp sá dagur að tré duga ein og sér, þegar jafnvægi er komið á náttúru jarðar og gjörða mankyns.

Bill Gates hefur sömu sýn í nýju bókinni sinni, „How to Avoid a Climate Disaster“ þegar hann segir: „Although trees absorb some carbon, they can never take in enough to offset the damage from our modern lifestyle. To absorb the lifetime emissions that will be produced by every American alive today — just 4 per cent of the global population — you’d need to plant and permanently maintain trees on more than 16bn acres, roughly half the landmass of the world.“

Niðurstaðan er því: Við verðum að gera tvennt, að takmarka losun á CO2 eins mikið og hægt er og að fjarlægja CO2 úr andrúmslofti. Og ef það er eitt sem við þurfum ekki að deila um þá er það að mankyn þarf vatn og loft til að lifa. Mankyn byrjaði fyrir 150 árum að þrífa vatn til drykkjar (með síun og hreinsun). Hver sagði þá að það væri óþarfi að hreinsa vatn, að við ættum bara að bíða eftir að náttúran hreinsaði það á einhvern óútskýrðan hátt? Varla nokkur. Nú er þess vegna komið að því að hreinsa skítinn sem við höfum sett út í loftið sem við og börnin okkar öndum að okkur.

 

Check Also

Tveir baráttuhópar í loftslagsmálum: Tæknisinnar og náttúruþjónar

Til að efla baráttuna í loftslagsmálum er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér ólíkum …