Svona er hægt leysa hnútinn í laxeldismálum á Íslandi

Nú er hart deilt um laxeldismál og eru tveir hópar sem nefna þessi rök í málinu:

#1: Eigendur og starfsmenn laxeldisfyrirtækja, og Vestfirðingar margir hverjir, nefna þetta:

 • Það verður að leyfa laxeldi, sama hvað það kostar, það er verið að reyna að viðhalda atvinnu á Vestfjörðum.

 • Vestfirðingar geta ekki misst stóran atvinnurekenda sem veitir mörgum vinnu.
    
 • Það sé í lagi þó að lax sleppi, hann mengar náttúrulega laxastofninn ekkert svo mikið.
    
 • Margt fólk á Vestfjörðum sem hefur ætlað sér að vinna við laxeldi er nýbúið að kaupa sér fasteign o.fl. og það er ekki hægt að kippa undan þeim fótunum, bara allt í einu.

#2: Náttúruverndarfólk, umhverfisverndunarsinnar, eigendur laxveiðiáa, almenningur sem á afkomu sína undir margvíslegum störfum tengdum laxveiðiám, nefna þetta:

 • Það gengur ekki að leyfa laxeldi í opnum sjókvíum, það sleppur alltaf nokkuð af laxi úr kvíum, sem fer upp ár og smitar náttúrulega stofninn og eyðir náttúrulegum eiginleikum hans (erfðarmengun). Laxeldi verði að vera í lokuðum kvíum. Víða í Noregi og Kanada hafa menn séð náttúrulega stofninn hverfa að hluta eða að mestu leyti úr ám þar sem eldi hefur verið nálægt. Sjá umfjöllum „Framtíð laxeldis er í lokuðum kerjum“ (sjá hér).
    
 • Það er gríðarleg mengun af eldislaxi, hver 10 þús tonn í eldi jafngilda sama úrgangi og 150 þús manna byggð. Mengun laxeldis á Vestfjörðum samsvarar því sömu mengun og allt höfuðborgarsvæðið sendir frá sér árlega. Mengun er bæði vegna skíts frá laxi og vegna afgangs fóðurs sem laxinn borðar ekki (sjá hér).
    
 • Útrýming dýrategundar (náttúrulega laxastofnsins) er líkleg niðurstaða ef laxeldi verður áfram leyft í götóttum eldiskvíum. Óháðar rannsóknir sýni að ef 10-20% innflæði sé inn í laxveiðiár í allt að 40 ár þá sé náttúrulegi stofninn búinn.
    
 • Það sé lágmarkskrafa að eigendur laxeldisfyrirtækja gangist undir sömu kröfur um vernd gagnvart náttúru eins og í nágrannalöndunum þar sem nær allt nýtt laxeldi nú verður að vera í lokuðum sjókvíum. Þessari norsku skýrslu (sjá hér) er gjarnan dreift til að sýna mengun og neikvæð áhrif frá laxeldi. Norskir eigendur laxeldis á Íslandi séu komnir hingað til lands af því hér á landi er miklu lélegra regluverk, eftirlit og að hér þurfi ekkert að greiða fyrir leyfin en í Noregi hefðu eigendur laxeldis á Vestfjörðum þurft að greiða 30-45 milljarða fyrir leyfi sem búið er að veita hér ókeypis.
    
 • Það eru 2700 manns sem vinna við laxveiðiár á Íslandi og störf þeim tengdum, en aðeins um 100 manns sem starfa við laxeldi nú og í mesta lagi 500 manns sem munu starfa við laxeldi ef öll leyfi sem Hafró telur fræðilegt að veita séu veitt, en það væru þá um 70 þús tonn. Það er því ekki verið að vernda störf með því að leyfa laxeldi í óþökk náttúrunnar, það er verið að fækka störfum í heild, bæði á Vestfjörðum og víðar.
    
 • Erfðamengun, margir nýjir sjúkdómar, margföld tíðni laxalúsar eru hluti af þeim afleiðingum sem við sjáum ef opið laxeldi er stundað í kvíum sem leka.

Þegar allar röksemdir eru skoðaðar þá er þetta ljóst:

 • Það verður að finna leið til að leyfa laxeldi við Ísland, þetta er atvinnutækifæri.
 • Það er ekki hægt að leyfa laxeldi sem lekur, sem mengar ár og umhverfi.

Þess vegna virðist bara vera ein leið sem er möguleg til að
leysa hnútinn í laxeldismálum á Íslandi:

Að leyfa laxeldi á Vestfjörðum og víðar en að hafa allt laxeldi
í lokuðum sjókvíum eða uppi á landi, eins og víða er farið að
gera aðeins hér á landi en víða í öðrum löndum. Það myndi koma
í veg fyrir blöndun við náttúrulegan stofn og þá væri hægt að
farga úrgangi í takt við nútíma umhverfisreglur.

Og að taka sama gjald og gert er í Noregi, Kanada og víðar
en slíkt gjald myndi skila íslenska þjóðarbúinu 30-45 milljörðum
og enn hærri upphæðum ef farið verður nær tillögum Hafró að
leyfa allt að 70 þús tonna eldi (verð í Noregi er 1,5 millj. pr. tonn)

—  —  —

Þarna liggur reyndar ákveðinn hundur grafinn. Norskir eigendur eru hugsanlega ekki tilbúnir að hlíta sömu reglum hér og í Noregi, að greiða gjald fyrir leyfin og að hafa allt eldi í lokuðum eldiskvíum því þá munu þeir líklega velja að hætta allri starfsemi hér á landi og starfa alfarið í Noregi, eða finna önnur svæði í heiminum þar sem regluverk er lítið, gjald fyrir leyfi sé ekkert og lágar kröfur um umhverfisvernd. Nú er þeirra kjörlendi Ísland en við vonum að umhverfið muni ekki bera langvarandi skaða af þessari starfsemi hér á landi. Ef við setjum þessar kröfur um gjald og lokaðar sjókvíar þá hef ég þá trú að sú kunnátta sem komin er á Vestfjörðum í laxeldi geti þá í framhaldi leitt til þess að Vestfirðingar sjálfir byrja á eldi í lokuðum kvíum og fái aðlögunartíma fyrir gjald sem þyrfti að greiða á meðan verið er að koma upp þessum iðnaði í höndum heimamanna eins og möguleg niðurstaða verður. Sú niðurstaða er hins vegar mjög jákvæð fyrir Vestfirðinga. Að ef norskir eigendur eru ekki tilbúnir að undirgangast sömu gjöld og umhverfisstaðla og þeir gera í Noregi að þá sé hægt að halda starfsemi áfram á vegum heimamanna.

 

 

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …