Íslensk stjórnmál geta lært af landsliðinu í knattspyrnu

Í umræðu um hugarfarið sem liggur að baki íslenska landsliðinu í knattspyrnu hefur þjálfari liðsins nefnt nokkra lykilþætti sem eru grunnur að frábærum árangri liðsins. Er áhugavert að skoða hvaða lykilþættir eru því margt má eflaust af þeim læra.

Og nú, þegar íslensku stjórnmálafólki gengur illa að vinna saman þá er sérstaklega áhugavert að ímynda sér hvernig íslensk stjórnmál væru ef þau myndu tileinka sér sömu aðferðir til að ná árangri og landsliðið gerir.

Lykilþættirnir að baki þjálfun og samheldni liðsins eru þessir að sögn þjálfara og annarra sem til þekkja:

1) MIKIL ÁHERSLA Á GILDI
Það vekur það eftirtekt hvað Heimir Hallgrímsson leggur mikla áherslu á þau gildi sem landsliðsmenn skulu hafa í heiðri.

Í júní 2016, eftir leik gegn Noregi sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari landsliðsins þetta:

Það stæði upp úr eftir tapið í Noregi þar sem nokkur gildi landsliðsins hefðu ekki verið höfð í heiðri.

Það er sem sagt mjög alvarlegt ef gildin sem landsliðið stendur fyrir eru ekki höfð í heiðri. Gildi landsliðsins eru sem sagt lykilatriði og sett ofar öllu öðru.

Heimir sagði líka:

Við hugsum um það að hrósa fyrir karakterinn. Það eru gildi sem skipta ekki minna máli heldur en að vera góður í tækninni. Við þjálfararnir þurfum að hrósa sérstaklega fyrir þau gildi, að vera duglegur, vinnusamur, vera karakter og leiðtogi.

Þetta er annað dæmi um mikla áherslu á mikilvæg gildi. Að hrósa öðrum fyrir hæfileika og framlag en leggja litla áherslu á að koma sinni eigin hlutdeild að. Þetta er ekki bara að samsama sig við gildi heldur er slík framkoma einkenni góðra leiðtoga sem hafa ekki þörf fyrir reglulega viðurkenningu því hin eina sanna viðurkenning kemur þegar hópnum gengur vel, þegar endamarkmið nást.

2) SAMAN ERUM VIÐ STÆRRI
Þeir sem þekkja landsliðið segja að geta þess sé meiri en samanlögð geta einstaklinganna í liðinu. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði. Að þegar fullkomin samstaða næst um að leggja alla áherslu á samvinnu og samheldni (og leggja karp, hrossakaup og eigin hagsmuni til hliðar) að þá sé hægt að ná stærri markmiðum heldur en hægt er þegar hver er í sínu horni. Að ná þannig stærri markmiðum heldur en þegar HVER FLOKKUR er að paufast áfram, hver með sína útgáfu af áherslumálum, í keppni við hina að ná sínu fram.

3) HJÁLPSEMI
Hjálpsemi liðsmanna sín á milli hefur verið lýst þannig: Landsliðsmenn eru tilbúnir að leggja meira á sig fyrir liðsfélagann heldur en það sem þeir ætlast til að gert sé fyrir þá sjálfa. Þetta er að átta sig á því að mínar þarfir séu ekki mikilvægari en þarfir annarra. Ekki vegna þess að viðkomandi ætli að lúffa og láta öðrum eftir allt heldur vegna þess að átta sig á því að meiri árangur næst með þessum hugsunarhætti heldur en þegar ætlast er til þess að aðrir taki meira tillit til minna sjónarmiða heldur en ég er tilbúinn til að gera á móti. Þetta er að setja hvorki mig, þig né aðra í fyrsta sæti, heldur að setja alfarið hópinn, árangurinn og þá sem unnið er fyrir í fyrsta sæti.

4) ENDAMARKMIÐIÐ ER OFAR ÖLLU
Það skiptir ekki öllu máli hvaða leið er valin eða hver fékk hugmyndina, hver átti sendinguna. Endamarkmiðið er það eina sem skiptir máli og það er að sigra – að ganga vel og vera ánægður að leik loknum. Að sjá árangur að leik loknum eða í lok verkefna. Finna það að framvinda sé í gangi og að hægt sé að veita hugmyndum hvers og eins brautargengi án þess að það setji aðra í samstarfinu eitthvað niður. Að það sé ekki mikilvægt hver eigi hugmyndina ef hún þjónar endamarkmiðinu. Í þessu felst reisn sem mikilvægt er að sé til staðar í öllu árangursríku samstarfi.

― ― ―

Það sem helst kemur í veg fyrir sameignleg gildi, samvinnu, samheldni, hjálpsemi og sameignlega sýn á Alþingi er þessi rótgróna flokkakeppni sem yfirtekur pólitíkina. Þetta heyrum við oft:

  • Þetta er jú alveg sæmileg hugmynd en okkar flokkur átti aðeins betri hugmynd og við viljjum að hún fái brautargengi.
  • Þar sem þið fengu þrjú mál í gegn í síðasta mánuði þá er það lágmark að þið samþykkið þessi þrjú mál sem við erum með.
  • Ég leyfi mér ekki að hrósa þessari hugmynd, enda er hún komin frá flokki sem er okkar helsti andstæðingu.

Þekkt tilvitnun frá fyrrum borgarstjóra lýsir því best hvernig passað var upp á að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna sem minnsta, helst enga, jafnvel þó að allir ættu að vera að vinna að einu og sama markinu:

Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan sem stóð frá 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim.

Landsliðið okkar væri ekki ofarlega á FIFA-listanum ef samvinnan væri á þessum nótunum.

Viðar Halldórsson, íþróttafélagsfræðingur, var í nýlegu viðtali á RUV og lýsti því vel hvað ofangreind gildi um samvinnu séu orðin kjarninn í því að íslensku íþróttafólki gengur vel. Að afreksíþróttir erlendis séu orðnar þannig að einstaklingsmiðaðri hugsun og egói hvers og eins hafi verið hampað of mikið og sé búið að yfirtaka andann í mörgum hópíþróttum erlendis.

Viðar sagði:

Við höfum ekki bara verið að ná árangri í fótbolta á síðustu árum heldur öllum okkar stærstu íþróttum. Við höfum sóknarfæri í afreksíþróttum í dag vegna þess að afreksíþróttir erlendis eiga undir högg að sækja. Það er kominn svo mikill egóismi, allt snýst um peninga. Við sjáum mörg stórlið eins og Holland sem er að missa af sínu öðru stórmóti í röð. Í liðinu eru margir frábærir knattspyrnumenn en þar eru leikmennirnir orðnir miklu stærri en liðið. Þeir hugsa miklu meira um sjálfa sig heldur en liðið og þjóðina. Og þá byrjar liðinu að ganga illa því það vantar liðsheild, samvinnu og hjálpsemi til að ná árangri.

Margt myndi vinnast með því ef stjórnmálamenn myndu í auknu mæli horfa til þessara gilda og líta á samvinnu, liðsheild og hjálpsemi sem nauðsynlega þætti í því að ná árangri í störfum sínum fyrir þjóðina. Að taka sig sjálfan og sinn flokk aðeins út úr jöfnunni þegar mál eru rædd. Alþingi gæti náð undraverðum árangri og mál myndu ganga hratt fyrir sig ef stjórnmálafólk gæti tekið skref í átt að þessum gildum.

― ― ―

Frekara efni um gildin í stjórnmálum, sjá hér.

 

Check Also

Úthlutun þingsæta með misjöfnu atkvæðavægi

Við útdeilingu þingsæta er atkvæðahlutföllum, breytt í heiltölur, heil sæti, sem getur aldrei endurspeglað hlutföllin …