Með yfirlýsingu gegn kynjahalla sýnir Íslandsbanki samfélagsleg ábyrgð

Íslandsbanki hefur sett viðskiptabann á karllæga fjölmiðla (sjá hér). Þessi yfirlýsing bankans hefur kallað fram mikil viðbrögð og er fróðlegt að velta fyrir sér hvað liggi hér að baki.

Á hverju byggir andstaða margra við yfirlýsingu bankans?

Andstaða vegna þess að fjölmiðlar eiga að vera frjálsir. Bankinn er hér að taka afstöðu með jafnrétti kynjanna. Það er sérstaklega mikilvægt samfélaglegt mál. Það er mikilvægt að gefa fjölmiðlum  þau skilaboð að það þurfi að hlúa að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Þetta er enn mikilvægara en áður af því að flestir fjölmiðlar í dag eru tengdir inn í öflugar einingar, inn í stjórnmálaflokka, inn í fyrirtæki og inn í valdamikla hópa. Fjölmiðlar eru því ekki frjálsir eins og áður voru dæmi um. Eigendur fjölmiðla þurfa því aðhald í þá átt að fylgja eðlilegum kröfum samtímans. Einstaklingar geta haldið á lofti samfélagslegri ábyrgð en ef öflug fyrirtæki gera það líka þá nást mikilvægar breytingar fram miklu hraðar en ella.

Andstaða er einnig vegna þess að það er sagt að fjölmiðlar eigi að vera sjálfstæðir og að ákvörðun Íslandsbanka sé aðför að sjálfstæði ritstjórna. Hvernig geta áherslur bankans verið aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði? Bankinn er ekkert að skipta sér af áherslum ritstjórna hvað efnisþætti varðar. Ritstjórnir geta eftir sem áður fjallað um öll mál með þeim efnistökum sem þeir vilja. Bankinn er hins vegar að leggja áherslu á að kynjahalli sé lagaður. Það er ekki stýring á efnisáherslum ritstjórna. Yfirlýsing bankans er þannig hvatning til samfélagsins til þess að leggja áherslur sem bæta samfélagið. Alveg eins og ef einhver fjölmiðill myndi taka upp á því að auglýsa áfengi og gera því hátt undir höfði. Það væri jákvætt ef einhver stór auglýsandi myndi neita að auglýsa í slíkum fjölmiðli sem myndi misbeita sér með slíkum hætti. Yfirlýsing Íslandsbanka er af sama meiði: Að hvetja til þess að sanngjarnari og réttlátari áherslur séu hafðar í heiðri.

Hvað með vilja fólks til að stór fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum?

Andstaða er til staðar vegna þess að banki á ekki að taka pólitíska afstöðu, segja margir. Eitt af því sem hefur breyst mikið á síðasta áratug er að almenningur og viðskiptavinir vilja að fyrirtæki taki afstöðu í mikilvægum samfélagsmálum. Það vegur lítið ef lítill hópur eða smáfyrirtæki lýsir sig fylgjandi samfélagslegum málum en ef stór banki gerir það þá hefur það miklu meira vægi. Þannig eru stór fyrirtæki alltaf að verða mikilvægur hornsteinn til að ýta undir nauðsynlegar breytingar því ef fyrirtæki taka ekki afstöðu gagnvart samfélagsmálum verða breytingar svo miklu hægari og torsóttari. Kannanir Edelmann frá 2018 sýna mjög aukna þörf almennings til að stærri fyrirtæki og þekkt vörumerki taki afstöðu til mikilvægra mála. Þessi krafa er mjög í vexti; það var aðeins um helmingur fólks sem hafi þetta viðhorf 2017 en ári síðar voru það 64% sem vildu þetta mjög skýrt.

Nútíminn gerir því skýra kröfu um að stór fyrirtæki taki skýra afstöðu í samfélagslegum málum. Íslandsbanki er með þessari yfirlýsingu að segja að hann skilji nútímann og ætli sér að vera hluti af honum. Og þarna er bankinn ekki að gera neitt annað en að vera samkvæmur sjálfum sér því Íslandsbanki hefur öðrum bönkum fremur haft ímyndina „nútímalegur banki“ og ef Íslandsbanki myndi ekki taka afstöðu til samfélagslegra mála þá væri bankinn einfaldlega að skaða vörumerki sitt meira en hægt væri að réttlæta.

Og sumir tala um andstöðu vegna þess að bankinn býr sjálfur við kynjahalla varðandi laun og starfsfólk. Þetta er allnokkur rökleysa. Að engin megi lýsa yfir skoðun og vilja til breytinga nema að hafa aldrei gert neitt gagnrýnivert áður? Er það virkilega svo? Hver ætlar að vera svo háheilagur að segjast geta fylgt þessari reglu? Ef ég segi: Við skulum öll reyna að gera betur – má ég þá ekki segja slíkt ef ég hef einhverntíman áður ekki náð að gera eins og ég gat? Er það bara hin fullkomna mannvera – hið fullkomna fyrirtæki – sem má búa til reglur samfélagsins? Hér er sú rökvilla sett fram að snúa yfirlýsingu Íslandsbanka yfir í það að bankinn sé að fordæma alla sem séu ekki fullkomnir – fordæma alla sem hafa ekki kynjamál í 100% lagi. Það er ekki svo. Bankinn er að hvetja okkur öll og samfélagið allt til að gera betur á sviði jafnréttis kynja. Bankinn er ekki að dæma. Bankinn er að hvetja til betri breytni með því að segjast ætla að taka betri ákvarðanir sjálfur.

„Hatar Íslandsbanki karlmenn?“ er svo dæmi um ýkta og tilhæfulausa skoðun sem sett hefur verið fram vegna yfirlýsingar Íslandsbanka. Annar sagði að nú væri Íslandsbanki að eyðileggja öll fyrirtæki þar sem einyrkjar starfa þar sem aðeins er 1 karlamaður starfsmaður. Ekkert af þessu á sér nokkurn fót. Þetta lýsir bara undarlega mikilli hræðslu við breytingar sem eru óumflýjanlegar. Bankinn hatar ekki karlmenn og ætlar áfram að vera jákvæður út í öll fyrirtæki – líka stór fyrirtæki þar sem aðeins karlmenn starfa og veita slíkum fyrirtækjum áfram góða þjónustu. Bankinn var ekki að beina þessari yfirlýsingu til karlkynsins heldur til máttarstólpa samfélagsins: Fjölmiðla sem hafa mikil áhrif á skoðanir landsmanna. Þar er mikilvægt að veita aðhald.

Allir eru sammála um að fyritæki eigi að sýna samfélagslega ábyrgð. En það er ekki bara að gróðursetja tré og gefa leikskólabörnum buff. Það er líka að taka ábyrgð á því að samfélagið þróist í jákvæða átt. Alveg eins og að hvetja samfélagið til að efla heilsu eins og Íslandsbanki gerir með Reykjavíkurmaraþoni. Með sama hætti er Íslandsbanki að hvetja samfélagið að þróast í jákvæða átt, með þessari yfirlýsingu sinni.

Kjarni málsins: Íslandsbanki er að ákveða að auglýsa ekki í fjölmiðlum sem viðurkenna ekki jafnrétti kynjanna í verki. Neikvæðu viðbrögðin eru e.t.v. í mörgum tilfellum vegna þess að fólk lætur hræðsluna við eðlilegar kröfur samtímans um breytingar bera sig ofurliði. Hræðslan að það sé verið að breyta þjóðfélaginu um of og hræðslan að það sé verið að ýta þér og þínum gildum til hliðar.

Yfirlýsing Íslandsbanka er því mikilvægt framlag til samfélagsins alls (er í raun eitursnjöll) því að bankinn er með þessu að stíga inn í nútímann á svo mörgum sviðum og flytja hugtakið samfélagsleg ábyrgð upp á nýtt og mikilvægara stig. Einnig er bankinn að svara aukinini þörf meirihluta fólks að fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum. Öryggi í umferð, hvetja til útiveru, hvetja til að taka ábyrgð á heilsu. Allt þetta hafa fyrirtæki gert. Af hverju ekki að ýta undir jafnrétti kynjanna?

Check Also

Hagvöxtur mælir neyslu, ekki framfarir.

Hagvöxtur er mælikvarði á neyslu en ekki framfarir þjóða. Aukin neysla, aukin plastnotkun, aukið kjötát …