Kostnaður við COVID og kostnaður við loftslagsmál

Við sjáum í þessari frétt frá BBC að þjóðir heims eru að setja mikla fjármuni í baráttuna við COVID-19 faraldurinn. Margar þjóðir setja um 15% af GDP (vergri landsframleiðslu); aðrar meira eða minna. Þetta er auðvitað mjög jákvætt en er áhugavert að skoða í samhengi við hversu miklu sömu þjóðir eru að setja í loftslagsmál.

Samtals GDP fyrir öll lönd heims er um 87 þús milljarðar USD (87,000 billions of USD) eða bara 87 trilljónir USD (þar sem trillion er 10 í 12. veldi). Ef 10% af því er sett í aðgerðir vegna COVID-19 þá er veröldin líklega að setja um 8-10 trilljónir USD eða á bilinu 1-2 milljónir milljarða ISK – bara það sem er af þessu ári. Allt þetta er mjög jákvætt og varpar ljósi á hvað hægt er að gera ef aðsteðjandi hætta er mikil.

Í loftslagsmál er hins vegar sett aðeins brota-brot af þessari upphæð, vel innan við 1% af upphæðinni sem sett er í að tækla COVID-19. Samt er loftslagsvandinn engu minni en COVID-vandinn, hefur bara meiri langtímaáhrif. Þeir sem deyja af COVID deyja fljótlega en þeir sem láta lífið eða upplifa hörmungar vegna lofslagsmála gera það yfir mun lengra tímabil. Við sjáum t.d. hér í ritrýndri grein Lancet að árleg tilvik þar sem loftslagsvandinn veldur dauða eru yfir hálf milljón manna á ári (talað er um 529.000 manns). Þetta er ekki svo mjög fjarri þeim sem látist hafa af COVID til þessa á þessu ári, þó að talan sé orðin allnokkuð hærri nú, uppsöfnuð yfir árið (er farin að nálgast 1 milljón þegar þetta er ritað).

Við sáum í fyrstu stóru COVID-bylgjunni sem var vorið 2020 að útblástur féll um 8-17% prósent yfir þröngt tímabil (fer eftir hvernig er talið) en náði aftur fyrri hæðum þannig að langtímaáhrif vegna COVID á útblástur gróðurhúsalofttegunda er fremur lítil (skv. þessari Harvard-rannsókn). Við sjáum líka að COVID-19 og loftslagsvandinn geta ýtt undir hvert annað og ýkt tölur beggja. Ástæðan er sú að lélegri loftgæði gera fólk viðkvæmara fyrir veirufaröldrum eins og COVID-19 og því getur verri staða í loftslagsmálum gert mankyn verr í stakk búið til að takast á við nýja veiru. Við sáum þetta vorið 2020 þegar mjög margt fólk á iðnaðarsvæðum á Norður-Ítalíu, þar sem loftmengun er slök, hvað margir dóu í norðri en fáir í suðri. Meginástæðan er sú hvað loftmengun er mikið meiri í norðri.

Enn sem komið er treysta loftslagsáætlanir á samdátt í losun. En ef við reiknum dæmið til enda þá náum við aldrei að bjarga loftlaginu með samdrætti í losun, það verður meira að koma til (fjallað um þetta ítarlega hér). Skoðum stóru myndina:

Nú er styrkur CO2 í andrúmslofti 415 ppm (parts per million) en þarf að vera 250-300 ppm ef við ætlum að búa við hreinasta og besta loftslag sem hentar jörðinni og lífríki hennar.

Mankyn bætir 40 milljörðum tonna í andrúmsloftið á ári hverju. Magnið er orðið allt of mikið og verður það áfram því CO2 þynnist mjög hægt út; núverandi magn verður í 200 ár, óbreytt að mestu. Í heild eru það því um 500-800 milljarðar tonna af CO2 sem þarf að taka úr andrúmsloftinu. Samdráttur í losun er því ekki nægur, enda þó að allt slíkt sé jákvætt þá er það einfaldlega ekki nóg. Þess vegna þurfum við öll ráð sem hægt er að nota til að TAKA CO2 ÚR ANDRÚMSLOFTI og er verkefnið að taka nógu mikið af CO2 fyrir árið 2050 til að hægt sé að stefna á að magn CO2 verði ekki hærra en 350 ppm um miðja þessa öld.

Bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum er búið að gera áætlanir um mörg lofthreinsiver sem eiga að taka á þessu vandamáli: að hreinsa CO2 úr andrúmslofti og flýta fyrir því að ppm-magn CO2 lækki í andrúmslofti. Hægt er að hugsa sér nokkur lofthreinsiver í flestum löndum sem ná að hreinsa nógu mikið af CO2 úr andrúmslofti til að hægt sé að ná þeim markmiðum sem þarf að ná. Minni losun og hreinsun CO2 úr andrúmslofti er það sem þarf að nota, bæði samhliða, til að ná markmiðum. Aðeins samdráttur í losun nær því ekki, um það vitna tölurnar.

Tré eru auðvitað mjög mikilvæg í loftslagsbaráttunni en það er eins með tré eins og samdrátt í losun; ef við ætlum aðeins og treysta á bindingu CO2 með trjám þá þyrfti 1 milljón tré í 50 ár til að binda 1 milljón tonna af CO2 úr andrúmslofti.

Til að komast nær lausn í loftslagsmálum þarf því nýja hugsun, ekki ósvipaða og má sjá hvernig við, sem þjóðir, ætlum með samtakamætti að leysa COVID vandamálið. Við þurfum lausnir þar sem horft er til framtíðar, ekki til þess að vona það besta með að losun verði aðeins minni á næsta ári en hún var í ár. Við þurfum mikla fjárfestingu í allskonar gerðum af lausnum í loftslagsmálum og þar væri hægt að skapa mannfrekan „iðnað“ sem þarf mikla orku en mengar ekkert heldur tekur beinlínis mengun úr andrúmslofti. Þetta er sá nýji iðnaður sem við Íslendingar ættum að stefna á í framtíðinni.

Í þessu sambandi er gott að horfa á alþjóðlega mælikvarða eins og EPI (Environmental Performance Index) en þar er Danmörk á toppnum og öll Norðurlöndin mjög ofarlega. Ísland er hins vegar í 17. sæti og gæti gert betur. Hér má sjá ítarlega stöðu Íslands og þá flokka þar sem Ísland stendur sig vel og ekki eins vel.

 

 

 

 

 

 

 

 

Check Also

Tveir baráttuhópar í loftslagsmálum: Tæknisinnar og náttúruþjónar

Til að efla baráttuna í loftslagsmálum er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér ólíkum …