Í kjölfar kosninga 2018 – staða flokkanna

Fólk velur hvað það eigi að kjósa í kosningum að mestu út frá skilaboðum, grunnímynd og þeim gildum sem fólk telur að flokkar og frambjóðendur standi fyrir. Þess vegna er fróðlegt að skoða hvaða skilaboð flokka og frambjóðenda náðu í gegn í nýliðnum sveitarstjórnakosningum.

Hvað virkaði og hvað hefði mátt gera betur?

Niðurstöður kosninganna: Enginn skýr sigurvegari.

Samfylking

Það er merkileg staða sem Dagur B. Eggertsson er í. Mörgu fólki finnst hann hafa staðið sig svo sem sæmilega sem borgarstjóri en fáir eru mjög ánægðir með hann. Varðandi rekstur borgarinnar þá heldur hann velli þar, a.m.k. hefur andstæðingum ekki tekist að vekja upp sterka umræðu um að eitthvað sé að í rekstri borgarinnar. Það eru miklu frekar samgöngumálin og skipulagsmálin sem hafa veikt hann töluvert mikið sem borgarstjóra. Fólk í fastri bílaumferð er orðið langþreytt og Dagur hefur ekki einu sinni rænu á að svara þannig að hann sýni hluttekningu með þeim tugum þúsunda manna sem upplifa slíkar umferðarhörmungar á degi hverjum. Það eitt eru pólitísk mistök því að offors gegn þessum mikla fjölda er bara ávísun á óvinsældir. Af hverju ekki að reyna að leysa þeirra vanda líka, a.m.k. að sýna viðleitni til þess?

Orðræða Samfylkingar og margra annarra hefur nefnilega verið: Það þarf ekkert að gera fyrir bílafólk því þá koma bara fleiri bílar og svo er Borgarlína alveg að fara að koma sem mun leysa allt. Þetta er auðvitað mikil einföldun á málinu. Borgarlína kemur ekki fyrr en eftir nokkuð mörg ár og með því að svara bílafólki með því að Borgarlína sé að koma þá er í leiðinni verið að segja: Mér er alveg sama þótt þessi umferðarteppa verði í mörg ár í viðbót.

Margir sem tala fyrir Borgarlínu gera yfirleitt þau mistök að t tala léttúðlega um að kýla bara á eina Borgarlínu sem fyrst, já bara drífa í henni! Athugið að þetta gæti verið ein allra stærsta fjárfesting Íslands eða a.m.k. eins sveitarfélags. Fyrstu áætlanir segja 80 milljarðar og ef við notuðm skekkjuna sem var frá áætlun Hörpu upp í raunverulegan kostnað (faktor 3) þá gæti Borgarlína mögulega kostað 80 x 3 eða leikandi um 240 milljarða. Þetta er gríðarleg upphæð fyrir sveitarfélag jafnvel þó að ríkið taki þátt. Þess vegna verða allir sem tala um Borgarlínu, þessa mikilvægu samgöngubót, að tala af miklu meiri ábyrgð, bæði vegna kostnaðarins og líka vegna þess að það er ekki fullséð um það hver sé besta útfærslan og ekki er heldur fullséð að hægt sé að hafa yfirumsjón með jafn stóru verki og halda spillingarhættum frá verkinu á sama tíma.

Auðvitað á að stefna á Borgarlínu en það þarf að undirbúa hana betur. Borgarlína er mikilvæg vegna þess að hverfi borgarinnar eru að verða dreifðari og fólk þarf að fara lengri vegalengdir. En samhliða Borgarlínu þarf líka að leysa vanda ökumanna einkabíla, það er ekki nóg að segja þeim að hætta að keyra. Sú fjárfesting mun líka nýtast sjálfkeyrandi bílum. Það þarf samt áfram að hvetja til takmörkunar á notkun einkabíla, líkt og gert er á ýmsum svæðum erlendra borga, en það væri þó líklega skynsamlegt að leyfa Miklubraut að vera samfellda akstursleið, alla leið úr Mosfellsbæ að Þjóðminjasafni. Þeir sem vilja útiloka annað eru að fá helming borgarbúa upp á móti sér.

Hitt stóra málið sem veikt hefur Dag eru skipulagsmálin en þar hafa þeir félagar, Dagur og  Hjálmar Sveinsson, tekið mjög stóra pólitíska áhættu sem engan vegin gekk upp: Þeir ákváðu í sameiningu að leyfa byggingaverktökum að ráðskast með verðmætustu pláss borgarinnar, byggja þar ljót hús, sem gína yfir öllu (t.d. Lækjargata, Hafnartorg, Valssvæðið, Gamli Garður) og vekja þannig upp áánægju dágóðs hluta Íslendinga sem reglulega koma á þessi svæði.  Þarna er gínandi gámaarkitektúr sem þeir félagar hafa leyft og þar með tryggt byggingaraðilum hagnað á kostnað þess að viðhalda staðarandanum sem öll þjóðin vill viðhalda á þessum svæðum.

Nokkur af umdeildustu verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í tíð Dags og Hjálmars

 –

Í annan stað hafa Dagur og Hjálmar brugðist verulega þegar kemur að því að hafa nóg af hagkvæmum lóðum til úthlutunnar. Þar tóku þeir einnig pólitíska áhættu sem ekki gekk upp. Þarna má segja að slök dómgreind hafi ráðið för; það er eins og þeir félagar hafi ákveðið að það væri í lagi að sinna ekki þörfum og sjónarmiðum meirihluta borgarbúa: að fjölskyldufólki sé gert tiltölulega auðvellt að byggja sér húsnæði í borginni. Með því að sinna þessu ekki hafa Dagur og Hjálmar bakað sér þá andúð sem leiddi til verulegs taps Samfylkingarinnar í Reykjavík í nýafstöðnum kosningum.

Reyndar er andúð margra Reykvíkinga á verkum Dags og Hjálmars nokkru meiri en tap Samfylkingarinnar segir til um. Það kom nefnilega skýrt í ljós að ein af stóru ástæðunum af hverju fólk kaus Samfylkinguna var einfaldlega vegna sjónarmiðsins „ég vil ekki Sjálfstæðisflokkinn“. Það er slök staða sem flokkur er í þegar ein stærsta ástæða sem fólk finnur fyrir til að kjósa þann flokk sé sú að hinir séu hálfu verri. Slíkur flokkur á ekki sjö dagana sæla framundan.

Sjónarmið og verk Dags og Hjálmars eru nefnilega þeirrar gerðrar sem eyðileggur samstöðu vinstra fólks: að klikka á því að láta grunnsjónarmið um að setja þarfir almennings í fyrsta sæti á undan þörfum einstakra fyrirtækja. Einnig gera þeir þau algengu mistök, sem oft má finna hjá vinstra fólki, að telja að þeir þurfi ekki að útskýra óvinsælar gjörðir sínar; að halda að einhvernvegin muni allir skilja þeirra gjörðir og sjá sama ljós og þeir sjálfir. Nei, hið rétta er að stjórnmálamenn þurfa að hugsa um að selja, markaðssetja og ramma inn sínar hugmyndir til þess að hljóta hljómgrunn. Þessu hafa margir vinstri menn óbeit á og því hefur langvarandi staða vinstra fólks verið sú að fá takmarkað fylgi þó að hugsjónirnar séu góðar.

Það var eftir því tekið að engin sérstök málefni Samfylkingarinnar náðu alveg í gegn. Þeir náðu aldrei að verða flokkurinn sem var flokkur tiltekins máls nema þá að viðhalda Degi sem borgarstjóra og að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Sjálfstæðisflokkur

Í Reykjavík tók Eyþór Arnalds nokkra áhættu með að skipta algerlega um fólk á lista. Eftir á að hyggja var það líklega of áhættusöm aðgerð, vegna þess að nýja fólkið náði ekki að skipa sér sterkan sess í hjörtum borgarbúa. Sú sem var í 2. sæti, Hildur Björnsdóttir var reyndar mjög sýnileg, ásamt Eyþóri, en aðrir sáust lítið. Þess vegna skorti á tilfinninguna um breiðan lista sem hefði víðtæka skírskotun með fólki sem fólk hafði heyrt af.

Eyþór má þó eiga það að hann var duglegur og framkvæmdaglaður í kosningabaráttunni; var mjög sýnilegur og sagði margt sem komst á síður fjölmiðla. En líklega má segja að hann hafi talað um of mörg mál, komið fram með of margar lausnir. Líklega má telja nokkuð víst að ef hann hefði hamrað á einhverjum þremur lykil-málunum fyrir kosningar þá hefði hann fengið eitthvað meira fylgi, hugsanlega nóg til að ráða öllu eftir kosningar. Orðræðan reyndist á endanum of víðfem og fólk náði ekki mjög sterkri tengingu við málefni Sjálfstæðiflokksins. Ein algengasta ástæðan sem margir nefndu fyrir því að kjósa Eyþór var að þeir væru komnir með nóg af Degi (skilaboðin „Dagur er að kveldi kominn“ náðu í gegn). Það er ekki nógu sterk ástæða fyrir flokk til að halda sterku flugi til langframa.

Eyþór var líklega of mikið í bláa-jakkafata-gírnum fyrir kosningar, talandi um umfangsmiklar framkvæmdir. Það eru alltaf færri og færri sem tengja sterkt við bláa bindið og þeir sem fíla það eru hvort eð er tryggustu kjósendur xD í Reykjavík: Íhaldsamt, eldra fólk sem myndu kjósa Eyþór óháð klæðaburði. Það hefði verið strategískara fyrir Eyþór að klæða sig líkara Röskvu-manni; í strigaskó og vor-litaðar buxur eins og gæjarnir á auglýsingastofunum eru alltaf í. Vera meira hippi, minna skynjaður sem innmúraður Sjalli, ekki til að villa á sér heimildir heldur að sýna meira tónlistarmanninn sem er með rokk-hjarta. Það hefði bætt við nokkrum prósentum. Að sama skapi hefði það verið áhrifaríkt að sjá Eyþór sinna af alúð málum sem eru ekki hans ektamál. Finna fyrir honum í málum sem tengjast börnum, skólum, umhyggju og mannlegri tilveru.

Líklega verður það engin sæluvist fyrir Eyþór að setjast í borgarstjórnarstólinn – ef af því verður. Hann þyrfti þá a.m.k. að læra að ná til fleiri hópa í Reykjavík og fá fólk til að trúa því að hann ætli að vera borgarstjóri allra. Eyþór fékk flestar útstrikanir (3%) allra í borgarstjórnarkosningunum og þarf að hafa það í huga ef hann nær stóli borgarstjóra að reyna að ná til sem flestra. Hann er þó ráðagóður og tengdur menningunni sem mun hjálpa honum að fóta sig sem borgarstjóri.

Í Kópavogi sigldi Ármann Kr. Ólafsson nokkuð lygnan sjó. Hans styrkleiki er alltaf að koma betur og betur í ljós: að vera alþýðlegi pilturinn að norðan sem kann að höfða til venjulegs fólks. Og það sem meira er: Ármann virðist kunna að láta ólík sjónarmið vinna smurt saman. Kannski er Ármann Kr. Ólafsson mögulegt leiðtogaefni sem gæti tekið að sér stærra hlutverk en hann gerir nú.

Það reyndar kom sér heldur illa fyrir Ármann að fréttir um launahækkun bárust stuttu fyrir kosningar. Það hefur eflaust tekið einhver atkvæði frá honum. En ekki nóg til að hafa veruleg áhrif þar á. Líklega hefur Ármann jafnað þann dragbít með alþýðlegri auglýsingu þar sem hann gerir í raun grín að klassískri, leiðinlegri stjórnmálaumræðu og náði tengingu við fólkið í landinu. Þannig var barátta Ármanns sumpart lygnari en margur leiðtogi Sjálfstæðismanna upplifði á sveitarstjórnastiginu.

Á nokkrum öðrum stöðum náði Sjálfstæðisflokkurinn viðunandi úrslitum en líka eru mörg dæmi um flokksbrot og klofning innan flokksins á sveitarstjórnarstiginu sem áður var reynsluheimur vinstri manna, nær einvörðungu. Þó að staða Sjálfstæðisflokksins sé ekki slök eftir kosningarnar eru þó nokkur mikilvæg umhugsunarefni sem þarf að líma saman ef ekki á að koma til frekari sundrungar á hægri vængnum.

Vinstri græn

Aftur eru Vinstri græn í vanda vegna þess að þau ná ekki að setja fram skilaboð sem hreyfa við fólki. Líf Magneudóttir komst inn í Reykjavík en hefði ekki gert það nema af því fjöldi borgarfulltrúa var aukinn í 23 fulltrúa. Fylgi lækkaði töluvert og það er einmitt vegna þess að það er bara reynt að segja eitthvað, ekkert sem náði eyrum um það af hverju VG á að taka þátt í stjórnun borgarinnar. Það er eins og grunnskilaboðin hafi verið að kjósendur eigi að kjósa VG í Reykjavík bara ef það er vinstra fólk. Bara af því Líf og hennar teymi er vinstra megin. Auðvitað eru þetta alltof veik skilaboð og alls ekki nægjanleg fyrir hinn venjulega kjósanda.

Skoðum aðeins skilaboð VG í Reykjavík fyrir kosningarnar:

 • „VG vill lýðræði á vinnstöðum“
  Í sjálfu sér jákvætt en varla það brýnasta sem liggur á hjarta borgarbúa, eða hvað?
 • „VG vill minnka mismunun í grunnskólum“
  Í sjálfu sér jákvætt en fáir kjósendur skynja að þetta sé akút málefni sem brennur á vörum borgarbúa, dagsdaglega.
 • „VG vill miðstöð fyrir innflytjendur“
  Í sjálfu sér jákvætt mál („nice to have“) en það á eftir að útskýra fyrir kjósendum af hverju þetta er brýnt.
 • „VG: Gerum Reykjavík veganvæna“
  Er það hlutverk borgarstjórnar að velja einhverja sérstaka gerð matarræðis og setja á oddinn? Hvað með að gera Reykjavík ketó-væna eða minnka sykur í matvörum sem borgarbúar neyta? Í sjálfu sér jákvætt en sett fram á óraunhæfan hátt og án þess að kjósendur sjái að þarna sé verið að velja mál sem brennur á borgarbúum. Miklu fremur sjá kjósendur fyrir sér að einhver áhugamanneskja um vegan hafi verið á töflufundi fyrir kosningar og náð þessu inn í lista yfir stefnumál kosninganna.
 • „VG: Mörkum stefnu um aukin loftgæði í Reykjavík“
  Aftur er þetta mjög jákvætt mál en sett fram þannig að maður fær á tilfinninguna að það eigi ekkert að gera endilega strax heldur halda nokkuð marga fundi og sjá til hvað sé hægt að gera einhverntíman. Af hverju ekki að nefna 3 helstu málin sem bæta loftgæði borgarinnar?
 • „VG: Aukum kolefnisbindingu og endurheimtum votlendi“
  Afar fáir Reykvíkingar tala um í heitu pottunum að það þurfi að endurheimta votlendi. Er það ekki eitthvað sem ríkisstjórn þarf að huga að en er ekki mál sveitarstjórna nema þá að hluta. Að vilja endurheimta votlendi skilar afar fáum atkvæðum þó að málefnið sé í sjálfu sér gott.
 • „VG: Höldum áfram að breyta samfélaginu í anda femínískra byltinga“
  Hér er enn eitt málið sem er of almennt. Svona framsetning skilar ekki mörgum atkvæðum. Svara þyrfti miklu frekar hvað eigi að gera. Hvað meirar VGR með þessu markmiðið? Hvað ætla þeir að gera í raun? Þetta er nefnilega eins og að hafa markmiðið: „Höldum áfram að gera samfélagið gott“. Þó að það sé jákvætt markmið þá skilar það fáum atkvæðum af því kjósandinn tengir ekki við þetta. Hann áttar sig ekki á því hvað á að gera með þessu markmiði.

Eins og sjá má þá eru þessi skilaboð VG í sjálfu sér jákvæð en þau eru sett fram á þann hátt að fólk tengir ekki nógu sterkt við þau. Oft of almennt og svo vantar þá það mikilvægasta inn í: að tengjast inn í mikilvæg mál sem eru á vörum borgarbúa, dagsdaglega. Ekki bara hugsa um mismunun, innflytjendamiðstöð, votlendi, feminískar byltingar og stefnu í loftgæðismálum. Þarf fleiri praktískari hluti inn til að ná hljómgrunni.

Ekki var allt máttlítið sem kom frá VG; það var sem dæmi frábært mál hjá þeim og náði sterkt í gegn að segja fjölgun hleðslustöðva á oddinn. Ef VG hefði náð svona skýrum fókusi á fleiri mál sem snerta borgarbúa beint þá hefði útkoman verið betri.

En eitt skýrasta dæmið um skort á næmni fyrir réttum skilaboðum hjá leiðtoga VG í Reykjavík er að hún sagði (hér) að vinstrið væri að fá rassskellingu. Það má virða það við Líf Magneudóttur að þetta er að vissu leyti sannleikurinn en samt sem áður er þetta þannig rammað inn að aðrir munu elska að endurtaka þetta. Stjórnmálafræðingar og blaðamenn tóku þetta orðlag upp frá Líf og útskýra niðurstöðu VG sem rassskellingu. Þetta er eins og að tala sjálfan sig niður; útbúa fóður fyrir andstæðinginn. Þetta er hvorki klókt né sniðugt að gera (ekki einu sinni fyndið) og er bara til þess fallið að veikja ímynd VG enn frekar.

Katrín Jakobsdóttir birtist aðeins í kosningabaráttunni og kom þar fram sem virðuleg og leiðtogaleg. Margt dynur á henni og ekki vantar stóryrta gagnrýni í hennar garð um þessar mundir. En tíminn vinnur með Katrínu því hún er heiðarleg stjórnmálakona sem mun smátt og smátt sýna styrk sinn þó ekki ætli hún að flagga því öllu í byrjun.

Einnig birti VG myndband sem kallaðist Stjórnmálaskóli Vinstri grænna (hér) sem var hálf-kjánalegt (jú, sumum fannst það fyndið) en vakti ekki upp neina hugmynd um af hverju það væri mikilvægt að hafa VG með við stjórnun borgarinnar. Styrkti VG í Reykjavík ekkert.

Svo er það stóra málið, sem gildir jafnt fyrir VG og Samfylkingu að mörg önnur öfl eru hægt og bítandi að taka við hlutverki þeirra sem talsmenn láglaunafólks. Skýrt dæmi er Sósíalistaflokkurinn sem ekki enn er orðinn stórt afl en gæti vaxið ef VG og Samfylking heldur áfram að tala ekki röddu neðsta þriðjungsins í launatöflunni. Slík þróun myndi auka á tilvistarkreppu VG og Samfylkingar og þar með vanda þeirra.

Viðreisn

Viðreisn vann ágætan sigur og er í oddaaðstöðu. Það er þó fyrst og fremst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem er sigurvegarinn þó að hún hafi ekki verið í framboði; hún er formaður Viðreisnar og dróg vagninn allnokkuð í kosningabaráttunni. Þorgerður Katrín er hægt og bítandi að sigla flokknum inn á trúverðugt svið festu og stöðugleika þó að það muni áfram taka tíma að ná því varanlega. En seigla Þorgerðar er að skila sér og af því er virðist, baráttuandi og kjarkað hugarfar hennar. Stóra tækifærið fyrir Viðreisn er að sameina undir sínum hatti þau fjölmörgu klofningsframboð og flokksbrot sem komu fram á síðustu mánuðum undir sjónarmiðum krata og hægri krata. Þetta er fólk sem oft kaus á árum áður Sjálfstæðisflokkinn en finnur ekki samleið með honum nú. Ef Þorgerður Katrín nær að smala þessum nokkuð mörgu brotum undir sinn hatt þá er flokkurinn kominn á nýtt stig.

Það var þó margt veikt hjá Viðreisn í þessari kosningabaráttu. Aðallega var það forystukonan í Reykjavík sem ekki náði sterku flugi en virtist hafa skynjað það rétt og hafði sig mátulega mikið í frammi. Það væri því klókt hjá henni að spila úr góðri stöðu með hóflegum fókus á sjálfa sig.

Mörg málefni Viðreisnar náðu ekki nógu skýrt í gegn. „Einfaldara líf“ er dæmi um slíkt. Hvernig á að stefna að slíku? Skólamálin voru oft nefnd en þá sögðu fulltrúar Viðreisnar (Þórdís Lóa og Pawel) að þau væru í ólestri og að Viðreisn ætlaði að laga þau. Þetta er of almennt, í ætt við það sem hér er nefnt í kaflanum um Vinstri græn. Of fáir átta sig á því hvað þetta þýðir. Hvað ætlar flokkurinn að gera nákvæmlega? Hvað á að laga í skólamálum? Bara skólamálin almennt? Ómarkvisst. Svo þegar Viðreisn var spurð að því hvað þetta merki og hvað þau ætli að gera í raun og veru til að bæta skólamálin þá kom enn þokukendari útskýring. Forystumanneskjan sagði þá: „Jú, með því að auka faglegt sjálfstæði og sveigjanleika“. Hvað þýðir það?

Fleiri punktar hjá Viðreisn sem hefðu þurft að endurramma og útskýra betur:

 • „Viðreisn: Við viljum leiðrétta laun kennara þannig að skólar verði eftirsóttir vinnustaðir“
  Auðvitað er þetta jákvætt, en svona framsetning nær ekki endilega sterkt í gegn af því fólk spyr sig hvernig þetta sé hægt? Hvað á að skera niður í staðin? Allir vita að þetta mun kosta mikla peninga og því væri miklu sterkara að ramma þetta inn með því að segja „Viðreisn ætlar að bæta kjör kennara um 20% með því að …“. Og að koma svo með lausnina að því.
 • „Viðreisn: Aukum sérúrræði fyrir börn með sérþarfir“
  Hér er annað atriði sem er jákvætt í sjálfu sér en tilheyrir ekki endilega stóru málunum sem skipta fólk máli. Viðreisn hefði þess vegna frekar átt á leggja áherslu á stærri málefni, hamra oftar á þeim í stað þess að fara í smærri mál, þó að þau séu flest jákvæð.
 • „Viðreisn: Hættum greiningarhyggju á börnum“
  Hér er einnig undarlegt loforð sem er erfitt að tengja við. Er það ekki fagfólk sem ákveður greiningar á börnum (ofvirkni, ADHD, einhverfa, Tourette o.s.frv.)? Er það stjórnmálamanna að segja hvenær eigi að leggja þessa læknisfræðilegu ráðleggingu niður? Væri þá ekki réttar að benda á að Viðreisn taki undir orð sérfræðinga sem mæla með því að minnka áherslu á greiningar og auka þess í stað íþróttaiðkun? Með þeim hætti væri búið að ramma þetta mál inn á jákvæðari hátt, þannig að fleiri kjósendur tengi við.

Af mörgu öðru er að taka. Viðreisn þarf umfram allt að hlusta á borgarbúa en ekki láta tækifærismennsku ráða lögum og lofum í ákvörðunum um samstarfsaðila. Miklu máli mun skipta hvað Sjálfstæðisflokkur hefur leikið Þorgerði Katrínu grátt og oft á ósanngjarnan hátt. Nú er hugsanlega komið að endurgjaldinu til baka: Þorgerður Katrín mun líklega ekki mæla með viðræðum við Sjálfstæðisflokk í sínu baklandi nema að enginn annar valkostur sé fyrir hendi.

Píratar

Píratar voru fremur mikið á hlutlausa svæðinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar þetta árið. Fá sértæk málefni náðu í gegn og fáir kandídatar þeirra náðu sterkt í gegn þannig að þeir yrðu minnisstæðir. Samt náðu Píratar 2 fulltrúum og juku fylgi sitt allnokkuð (fóru í 7,7%). Það verður því ekki af þeim tekið að þeir náði góðum árangri og það sem er líklega ein af meginástæðunum eru að þeir hömruðu á einföldum skilaboðum sem geymdu aðeins 3 lykla:

1) Heiðarleiki
2) Traust vinnubrögð
3) Aðhald gegn spillingu

Það var eiginlega fátt annað sem sást frá Pírötum. Það er nefnilega alltaf gríðarlega verðmætt þegar forysta í hópi (flokkur eða fyrirtæki) nær að halda sig við einföldu skilaboðin. Og þá er oft kostur að ná athygli í gegnum skilaboðin sjálf heldur en persónuleg einkenni fulltrúa.

En það er með þessi grunnskilaboð Pírata: að uppræta spillingu og breyta kerfinu og ýta undir gildin um gagnsæi og ábyrgð sem er svo mikill kjarni í því sem fólki er umhugað um nú á tímum. Að þessu leyti náðu Píratar því sérstöðu, að lofa ekki hærri launum kennara og öllu stærra og betra heldur lofuðu að hafa ákveðin gildi í heiðri. Þetta virkar yfirleitt miklu betur heldur en að lofa einstökum fjárlagaliðum (hækka laun kennara, Viðreisn) og þess vegna náðu þeir að stækka sig verulega í borginni.

Pírata skortir samt ennþá skýrari leiðtogaímynd því þó að þeir séu hlyntir dreifðu valdi þá er skýr leiðtogaímynd einfaldlega hraðvirk leið til að ná skilaboðum í gegn.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn áttu nokkuð sterka kosningabaráttu þar sem þeir náðu í gegn með persónulega kynningu á frambjóðendum. Í kjölfarið fylgdu myndir sem fengu mikla dreifingu og voru í anda „I Want You“/„Uncle Sam“-herferðar Bandaríkjahers frá 19. öld þar sem kemur fram áskorun um að skrá sig í herinn. Auglýsingar Sósíalistaflokksins hefur einnig tilvist yfir í „Columbia“-konseptið sem var notað í USA og Evrópu sem táknmynd fyrir Bandaríkjamenn (sjá hér).

Skiptir litu þó að auglýsing Sósíalistaflokksins hafi þessa tilvísun; ef eitthvað er þá er það kostur. Fólk tengir við. Margir tala um að einlæg framkoma Sönnu hafi ráðið úrslitum um að ná í gegn í Reykjavík og er vissulega margt til í því. Sanna er hrífandi manneskja og á auðvelt með að afla persónufylgis langt út fyrir raðir harðra sósíalista. En auglýsingaherferð flokksins hafði líka mikil áhrif og fyrst og fremst náði að láta fólk skynja eitt mikilvægasta atriðið í kosningabaráttu: að þau væru á uppleið. Takturinn hækkaðir alltaf, jafnt og þétt og hafði áhrif í þessa átt sem var svo niðurstaða flokksins.

Miðflokkurinn

Það skemmir fyrir Vigdísi Hauksdóttur að vera ekki með fæturnar á jörðinni í öllum sínum yfirlýsingum. Ætlum að fá 4 eða 6 menn, sagði hún en fékk 1. Kjánalegt, vissulega og skemmir fyrir að flokkurinn nái frekari útbreiðslu. Miðflokkurinn er enn skynjaður sem sama sem og Sigmundur Davíð. Það er af því að fólk fær það reglulega staðfest að SDG sé álitinn hálfgerður Guð af flokksmeðlimum. Slíkur Norður-Kóreskur status gerir ekkert nema að grafa, smátt og smátt, undan tilvistarímynd flokksins og takmarka þá skynjun að Miðflokkurinn sé eitthvað annað en hliðarsjálf eins manns. Og á meðan Sigmundur hefur ekki bitið úr nálinni með það af hverju hann hætti sem forsætisráðherra (Wintris, Panama) þá mun flokkurinn ekki rísa hærra en nú er, fá smáfylgi hér og þar.

Í rauninni var það líklega ekki klókt hjá Miðflokknum að velja Vigdísi Hauksdóttur sem forystukonu í Reykjavík. Það hefur sýnt sig að menntað fólk hefur lítinn áhuga á Vigdísi og því hefði Vigdís verið sterkari frambjóðandi annarsstaðar, líklega allstaðar annarsstaðar en í Reykjavík. Hún er of yfirlýsingaglöð fyrir menntaða Reykvíkinginn sem vill hafa hlutina vel unna og í jafnvægi. Vigdís væri betri sem fulltrúi þar sem kjörsókn og menntunarstig er lágt, eins og t.d. í Reykjanesbæ. Þar gæti hún miklu frekar dregið vagninn.

Orðræðan sem Miðflokkurinn velur sér er nefnilega nokkuð frá takti þjóðarhjartans. Miðflokkurinn talar ýkt og án mikillar innistæðu þar sem fram kemur oft mikil sannfæring um eitthvað sem reynist ekki vera rétt á endanum. Íslendingar eru nefnilega hófstilltir jafnaðarmenn, sjálfstæðir og þótt margir séu í grunnin egó-sinnaðir þá eru þeir nær allir með velviljuð og hlý hjörtu sem fátt mega aumt sjá. Inn í þetta „zone“ nær Miðflokkurinn ekki að tala nema að takmörkuðu leyti.

Hversu furðulegt sem það hljómar þá var það þyngdartap Sigmundar sem reis einna hæst í umræðu Miðflokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar (sýnir hvað Miðflokkurinn er mikið hliðarsjálf Sigmunds). Orðræða Sigmundar af því tilefni var kjánaleg – eiginlega barnaleg – var á þá lund að af því að Sigmundi tókst að losna við nokkur kíló þá muni allt reynast Miðflokki auðvellt:

      

Auðvitað eru hlutirnir ekki svona hjá neinum stjórnmálaflokki í heiminum. Miðflokkurinn mætti því oftar tala með báða fætur á jörðinni og með meiri tengingu við lífið og tilveruna eins og hún er og með meiri skilning á framtíðinni sem bíður handan hornsins. Helsti vinkillinn sem kemur frá Miðflokki og almenningur á erfitt með að tengja við eru ýmis gamaldags viðhorf sem lýsa ákveðinni andúð á nútíma lausnum. Að borða mat eins og var í gamla daga, að nota lausnir eins og var í gamla daga. Allt þetta er umræðusvið sem er ákveðinn dragbítur á starf Miðflokksins.

Aðrir

Stóru gleðitíðindi kosningabaráttunnar er hvað rasísk öfl fengu fá atkvæði. Þau hafa aldrei fengið færri atkvæði og ættu í raun að leysa sína flokka upp. Það er þó ólíklegt að slíkt muni gerast því þetta eru yfirleitt fámennir hópar örfárra manna sem fá þarna agnarlitla atóm-athygli og það er nóg til að þeir haldi áfram, í fámenni sínu og fáfengileika sínum, með færri atkvæði í húsi heldur en fjöldi meðmælendalista. Utangarðsmenn sem eru á skjön við meginstrauma þjóðfélagsins og hvert tíminn er að teyma okkur öll. Það væri svosem í lagi að hafa nokkra hokna karla í skraufþurri pissukeppni um mesta rasistann ef ekki fengi að fljóta með frá þeim svona mikil manneskjuleg andúð á grunngildum þess að lifa saman í samfélagi. Andúð og fyrirlitning á fólki í neyð sem þarf hjálp annarra til að geta komið sér upp mannsæmandi lífi. Það er því gleðilegt að þessum viðhorfum og gildum hafi verið hafnað rækilega.

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …