Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar og BSRB. Búið er að setja fram kröfur sem sumar hverjar lýsa verulegum hækkunum. Auðvitað væri gott ef hægt væri að hækka laun sem mest en við verðum líka að vera raunhæf þannig að launafólk sé að fá raunverulega kjarabót en ekki tímabundna hækkun sem verðbólga, gjaldskrárhækkanir og samdráttur í þjónustu étur upp.

Sérstaklega er varasamt við endann á hagsveiflu síðustu ára að keyra af stað umtalsverðar launahækkanir því fyrirtæki verða á næstu misserum ekki í stakk búin að greiða miklar launahækkanir nema með öðrum aðgerðum sem lækka kaupmátt aftur á ný. Þetta hafa hagfræðingar minnt á (hér) aftur og aftur.  Og allt þetta ofaní hagfræðilega frostið sem kórónaveiran er að valda þar sem neysla, flutningar og ferðalög eru að lenda í gríðarlegum samdrætti (t.d. 90% afbókanir á hótelum í Róm, 80% á Sikiley, sjá hér) en allt slíkt mun hafa neikvæð áhrif í flestum löndum álfunnar.

Gerum nýjan sáttmála um kaupmátt

Við sem þjóðfélag verðum að leita annarra leiða en að fara í umtalsverðar, beinar launahækkanir til að jafna kjör hjá Eflingu og BSRB (og annarra). Hægt væri að horfa á dæmið í heild og ekki hugsa bara um laun heldur kaupmátt. Ef hægt væri að auka kaupmátt án þess að fara út í beinar launahækkanir þá væri leikurinn unninn. Almenningi er alveg sama hvort að laun hækki eða kostnaður heimila minnki – það kemur út á eitt. Horfum því á leiðir til að auka kaupmátt og stefnum á aðgerðir í þeim efnum. Förum í aðgerðir og semjum um sterkari kaupmátt: Gerum því nýjan sáttmála um kaupmátt á Íslandi.

Að lækka gjöld heimila og fyrirtækja en að viðhalda sömu launum myndi framkalla meiri kjarabót en kemur fram í ítrustu kröfum verkalýðsfélaga í dag. Hægt væri að finna leiðir að að lækka vexti heimila og fyrirtækja (húsnæðislán, yfirdráttarlán og annar fjármögnunarkostnaður), lækka kostnað seðlabanka við gjaldeyrisforða og að fá miklu fleiri fjárfesta inn í landið. Þetta væri hægt með gjaldmiðlabreytingu í sama anda og Litháar framkvæmdu 2015 með gríðarlegum ábata fyrir samfélagið allt.

Aðferð Litháa

Litháen tók upp evru í ársbyrjun 2015 og seðlabanki Litháen hefur gefið út skýrslu um ábatann af því að nota evru frekar en gamla gjaldmiðilinn LTL (litas) sem landið notaði í 98 ár. Ábatinn af gjaldmiðlabreytingunni var nefnilega ótrúlega mikill og jók þessi breyting hag almennings og fyrirtækja um tæpan milljarð evra sem er yfir 100 milljarðar íslenskra króna. Það er ekki hægt að yfirfæra þessa tölu beint af því Litháar eru 2,8 milljónir á meðan Íslendingar eru aðeins um 0,4 milljónir en á móti kemur að ýmsir þættir vega á móti, líkt og vaxtakostnaður fyrirtækja og einstaklinga (sem er mun meiri hér á landi) og verðlag og laun einnig mun hærri hér á landi.

Kostnaður við innleiðingu evrunnar í Litháen var að mati seðlabanka landsins sá að verðbólga hækkaði um 0,11% á ári fyrst um sinn. Ávinningurinn reyndist samt vera töluvert meiri. Skoðum því út frá því sem seðlabankinn í Litháen hefur staðfest að sé ábati við að skipta yfir í evru og yfirfærum það yfir á Ísland:

Ávinningur íslensks launafólks yrði mikill

Ef við gerum ráð fyrir svipuðum áhrifum og áttu sér stað í Litháen 2015-2020 þá yrði ávinningur íslensks launafólk mikið við að skipta út ISK yfir í EUR:

  • Miklu meiri fjárhagslegur stöðugleiki fyrirtækja og heimila, „íslenska hagsveiflan“ myndi nánast deyja.
  • Seðalbanki Litháa rökstyður bæði launahækkanir og hækkanir á lífeyri vegna evru – slíkt gæti gerst á Íslandi að sama skapi.
  • Hagvöxtur myndi hækka. Í Litháen myndi jók gjaldmiðislbreytingin hagvöxt um 0,4-0,6% bara vegna breytingar frá LTL yfir í evru.
  • Vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja myndi lækka.
  • Lántökukostnaður myndi lækka verulega.
  • Kostnaður vegna gjaldeyrisforða seðlabanka myndi þurrkast út, er 17-20 milljarðar á ári hér á Íslandi.
  • Myndi auka fjárfestingu á Íslandi.
  • Myndi opna á fjárhagslega samvinnu fjármálafyrirtækja við stærri slík fyrirtæki erlendis.
  • Myndi auka samkeppni á fjármálamarkaði.

Beinn ávinningur fyrir hinn íslenska launþega

Ef við notum útreikninga litháíska seðlabankans og yfirfærum yfir á íslenskt samfélag væri beinn ávinningur þessi 97-119 milljarðar á ári. Sumir aðilar hafa reiknað þessa tölu upp í 150 milljarða á ári (hér) og önnur aðferð (hér) kallar fram töluna 112 milljarðar sem kostnað við ISK á ári. Gróflega getum við talað um að hin íslenska króna kosti fyrirtæki og launþega um 100 milljarða kr. á ári. Hæglega er því hægt að segja gróflega að hin íslenska króna kosti hverja fjölskyldu á Íslandi um 1 milljón króna á ári.

Ávinningur fyrir starfsmann Eflingar eða BSRB við að fá launahækkun gæti verið 50-90 þús. (heildarlaun) og gæti dottið niður um a.m.k. helming á 2-3 árum vegna aukinnar verðbólgu, aukinna álaga, verðhækkana og vegna samdráttar í þjónustu. Þetta myndi þýða að ávinningur vegna launahækkanna eftir skatta myndi vera 30-60 þús. (sem útborguð laun) og gæti því ávinningur eftir 2-3 ár hafa fallið niður í 15-40 þús. á mánuði, ef neikvæð kerfislæg áhrif launahækkanna verða mikil.

Sáttmáli um kaupmátt skilar mun meiru en launahækkanir

Ávinningur vegna launahækkanna gæti orðið 30-60 þús á mánuði (útborguð laun) pr. meðaltalseinstakling en gætu þessi áhrif lækkað umtalsvert ef neikvæð kerfislæg áhrif (t.d. verðbólga) launahækkanna verða mikil.

Ávinningur vegna sáttmála um kaupmátt gætu orðið 70-140 þús á mánuði pr. meðaltalseinstakling (jafngildir lækkun í útgjöldum = hækkun í útborguðum launum).

Hægt er að segja að sáttmáli um kaupmátt gæti skilað tvisvar til þrisvar sinnum þeim ábata sem Efling og BSRB geta náð með launahækkunum. Ef litið er til lengri tíma og horft til neikvæðra áhrifa launahækkanna þá eru áhrifin mun meiri með því að gera sáttmála um kaupmátt.

Niðurstaðan er því að nýr sáttmáli um kaupmátt gæti skilað bæði fyrirtækjum og launafólki mun meiri ábata heldur en launahækkanir. Auðvitað myndu aðgerðir í þessa átt taka tíma en það væri gerlegt fyrir ríkisstjórn að ákveða og tímasetja plan í þessa átt í tengslum við kosningar á næsta ári. Hér er möguleiki á ávinningi fyrir launafólk sem getur orðið töluvert hærri en launahækkanir geta gefið launafólki og væri því til mikils að vinna að ná fram breytingu í þessum dúr. Um þetta ættu allir að geta sameinast, launafólk, fulltrúar fyrirtækja og stjórnvöld.

 

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …