Að létta á byrðum lífsins

Hver Íslendingur þarf að bera aukabyrðar á sínum herðum, í gegnum lífið, sem flest fólk í nágrannalöndum þarf ekki að bera. Þetta er kostnaðurinn við að hafa íslenska krónu. Það er hægt að áætla hver þessi aukakostnaður er fyrir meðalmanninn út frá nokkrum borðleggjandi staðreyndum:

 1. Algengir vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru 4-7% en 1-3% í nágrannalöndum.
  Skuldir einstaklinga á Íslandi eru um 2000 milljarðar króna.
  Íslendingar greiða því um 80 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna húsnæðislána.
 2. Vextir á yfirdráttalánum á Íslandi eru 22% en 5-10% í nágrannalöndum.
  Heimilin hafa um 78 milljarða í yfirdráttarlán.
  Íslendingar greiða því um 16 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna yfirdráttarlána.
 3. Kostnaður Seðlabanka við að halda út gjaldeyrisforða er 17-20 milljarðar á ári.
 4. Fyrirtæki þurfa einnig að greiða mikið aukalega vegna íslensku krónunnar, en sá kostnaður fer beint út í verðlag sem almenningur borgar að stórum hluta á endanum. Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir því af hverju mjög margt er miklu dýrara hér á landi heldur en sambærilegum löndum eins og Færeyjum, þar sem flutningskostnaður er tiltölulega hár og byggðir afskekktar. Yfirdráttur fyrirtækja var skv. nýlegum tölum 118 milljarðar.
  Íslensk fyrirtæki greiða því um 20 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna yfirdráttarlána.
  Eftir er að telja ýmis önnur lán, t.d. skuldabréfalán og aðra fyrirgreiðslu sem hefur í för með sér aukakostnað vegna íslensku krónunnar.

Hér erum við því að tala um að íslenskur almenningur þarf að greiða um 140 milljarða vegna krónunnar á ári. Þetta er umframþyngdin sem íslenskur almenningur þarf að bera sem hann þyrfti ekki að draga á eftir sér, værum við með lágvaxtagjaldmiðil, eins og evru. Og við vitum það, þegar við leggjum af stað í gönguferð, að við verðum þreytt og gögnum hægar ef bakpokinn er þungur. Þetta er veruleiki Íslendinga og hefur verið í ein 100 ár. Þessar tölur breytast jú yfir tíma, eru mismunandi á milli fólks og breytast líka mjög eftir því hvar á æviskeiðinu hver er staddur.

Þetta eru gróflega áætlað tvenn mánaðarlaun á ári fyrir hvern hinn vinnandi launþega á Íslandi. Íslendingar þurfa að leggja á sig það sama eins og ef þeir væru að vinna fyrir 14 mánuðum á hverju ári, þegar aðrar þjóðir vinna aðeins fyrir hinu venjulega almanaksári, 12 mánuðum.

Þessu kerfi íslensku krónunnar er viðhaldið af þeim sem hagnast af þessu ástandi: Fjármagnseigendum, bönkum, fjárfestingarsjóðum og öðrum þeim sem lána peninga og geta tekið tvö- til þrefallt aukagjald, miðað við aðra sem lána peninga í helstu nágrannlöndum.

Þetta er veruleiki Íslendinga:

Á myndinni má sjá að Íslendingar sætta sig við eina hæstu vexti í veröldinni, hærri vexti en t.d. í Albaníu, Makedóníu, Bosníu og Grikklandi. Meira að segja Færeyjingar hafa 3 sinnum lægri vexti á húsnæðislánum en Íslendingar. Til að breyta þessu þarf að breyta um strategíu, ekki er lengur nóg að hrópa „Við viljum lægri vexti“ – það er búið að hrópa slíkt í áratugi, án árangurs. Taktíkin og orðræðan þarf að breytast. Beinum sjónum okkar að þeim sem hagnast á kerfi verðtryggingar á Íslandi.

 

 

Facebook Comments

Check Also

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar …