Útlendingum og Evrópusambandinu kennt um allt

Ítali sem ég hitti um daginn sagði: „Þið Íslendingar skuluð alls ekki ganga í Evrópusambandið af því að þar er svo mikil spilling og af því þá lamast atvinnuvegir eins og gerðist á Ítalíu þegar blómlegur smáiðnaður vék fyrir massaiðnaði annarra landa.“

Það er algengt að kenna Evrópusambandinu um vanda sem það á ekki sök á. Vandamál Ítalíu er fyrst og fremst innanríkisvandamál: landlæg spilling, skortur á siðferði er víða hluti af hinni ítölsku þjóðarsál, ofuráhersla á hið sjónræna ásamt mafíustarfsemi sem heldur landinu frá framförum. Þessi vandi Ítala og á rætur sínar að rekja til þess að þjóðin hefur aldrei gert upp tímabilið með Mussolini, sem ríkti með harðstjórn, valdahroka og ofbeldi 1922-1943. Þjóðverjar gerðu upp samskonar tímabil – með Hitler, en Ítalir hafa aldrei haft hugrekki til sömu hreinsunar á þjóðarsálinni, kenna frekar öðrum um ófarir sínar. Og það sama má segja um Grikki, Ítali, Rússa, Ungverja, Pólverja og fleiri þjóðir sem oft kenna Evrópusambandinu um innri vanda sem er heima fyrir – þó að slíkur vandi sé oftast vegna vanstjórnar heima fyrir, spillingar eða hugarfars sem þarf að laga.

Á vefnum eru margar „EuroMyths Busted“-síður og hér er eitt dæmi um PDF skjal sem tekur nokkrar rangfærslur fyrir: https://goo.gl/7mjL7B 

[3d-flip-book mode=”fullscreen” urlparam=”fb3d-page” id=”5994″ title=”false”]

Sem dæmi þá höfum við heyrt margar við sögur um að „Evrópusambandið ætli að banna…“ allskonar. Banna vaxliti, ljósaperur, bogna banana, kanel-krydd í bakaríum, kirkjuklukkur, M&M sælgæti, hnetur, kúlulaga melónur, blöðrur í höndum barna, baðstrendur, frjálsa endurvinnslu, feitar sósur og svo margt fleira. Svo kemur í ljós að yfir 95% af þessum bann-fréttum eru uppspuni frá rótum. Hér er hægt að lesa um EUROMYTHS, sannleikann um undarlegu bannfréttirnar og sjá flestar af þeim hraktar:https://goo.gl/1gYVhF

Þær breytingar sem EU hefur lagt til hafa yfirleitt verið vel rökstuddar og miða að því að fara vel með, auka nýtni og bæta umhverfið. Gott dæmi er sagan sem var sögð að EU ætlaði „af því bara“ að banna ljósaperur með hvíttuðum tón. Sagan var þannig að EU ætlaði að gera þetta bara af því að þeir elska að banna allt. Svo kemur í ljós, þegar staðreynda-síður, eins og þessar, eru skoðaðar, að með þessu banni næst 30% orkusparnaður fyrir allar perunotkun í Evrópu. Af því að það þarf minna ljósmagn til að lýsa upp herbergi ef peran er glær. Ágætis tillaga, mikill sparnaður og gott fyrir umhverfið. Eftir sitja þeir sem trúðu ruglinu og blogguðu um það, sumir hverjir vel þekktir Íslendingar sem gengt hafa ráðherrastöðum. Þetta er gott dæmi um „ignorance“ þ.e. fáfræði og þá löngun að trúa blint skoðanabræðrum í sama klani. „Þetta hlýtur að vera satt af því þetta hentar mínum veruleika“ er því miður of algeng hugsun nú til dags.

Aðildarþjóðir EU verða auðvitað að vinna áfram í að minnka spillingu í sambandinu (alveg eins og innan einstakra landa) og bæta marga aðra þætti þannig að sambandið þjóni íbúum sem best. En þó að það sé hægt að finna galla við EU þá er það að vera utan þess að hverfa úr sambandinu sjaldnast ávísun á betra hlutskipti. Vald heimastjórnar sem er stundum enn spilltari, býr við minna eftirlit og sýnir ólýðræðislega einræðistilburði (UK/Brexit, Pólland, USA, Ungverjaland, Rússland o.fl.) er eins og að kvarta yfir rigningu en enda í ánni.

– – –

Svo er útlendingum kennt um hérumbil allt sem Evrópusambandinu er ekki kennt um. Vegna þeirra þá átt þú að vera að missa vinnuna þína, þjóðareinkenni þín og hérumbil allar ríkistekjur sem hefðu annars farið í að styrkja innviði. Að það sé útlendingum að kenna að heilsugæsla versnar, ellilífeyrir minnkar, bókasöfnum sé lokað o.s.frv.

Veiking innviða er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að fámennir hópar, innanlands, eru að taka of mikið úr sameiginlegum sjóðum. Það er hægt að gera ráð fyrir því að útlendingar séu nærri aldrei í þeim hópi, a.m.k. ekki fátækir innflytjendur. Hér á landi eru það t.d. útgerðarfyrirtæki sem eru sum hver í þessu hlutverki; þau greiða veiðigjöld sem eru örfá prósent af hagnaði og eyða miklum fjármunum í að byggja upp orðræðu og ímynd um að slíkt sé eðlilegt.

Ukip fékk sem dæmi nægan fjölda atkvæða til að lenda í 2. eða 3. sæti í nokkrum bæjum í Bretlandi (t.d. Stockport), í síðustu kosningum, þó að langt innan við 1% af íbúafjölda séu útlendingar. Þetta er dæmi þar sem búið er að magna upp hættuna á því að fátækir útlendingar og innflytjendur skapi mestu ógn okkar tíma. Áróður um að innflytjendur séu helsta ógn vorra tíma heldur áfram í umræðunni þrátt fyrir að straumur flóttamanna inn til Evrópu hafi minnkað um 72% síðan 2016.

– – –

Það má því kenna Evrópusambandinu og útlendingum sjaldnar um vandamálin heima fyrir, í hverju landi. Beinum gagnrýnum sjónum okkar frekar að stjórnvöldum á hverjum stað, of litlu gagnsæi, spillingu heima fyrir, áróðri hagsmunaafla og svo fjármálakerfinu sem víða er spillt og leggur of háar álögur á almenning í flestum löndum. Þarna liggur okkar aðalhætta því þarna eru öfl sem geta grafið undan helgum stoðum sterkra samfélaga og gert þau veikari. Útlendingar og Evrópusambandið eru ekki aðalhætta neins, nema þess sem hefur meðtekið of mikið af falsfréttum og lifir í búbblu sem Zuckerberg skammtar viðkomandi.

 

 

 

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …