Ímyndarbreytingar hjá stjórnmálafólki á fleygiferð

Eftir kosningar, þegar stjórnarmyndunarviðræður standa yfir, er almenningur með stjórnmálafólk undir sérstöku nálarauga. Eins konar ímyndarlegu nálarauga. Fólk fylgist betur en áður með hvað leiðtogarnir eru að segja og hvernig þeir athafna sig í viðræðum við aðra flokka. Fólk er að móta sér skoðun á því hvaða flokkar séu í raun hæfir til að vera í ríkisstjórn og leiða þjóðina á vit nýrra tíma. Fólk er að móta sér nýja ímynd. Þess vegna er aldrei eins mikilvægt fyrir stjórnmálafólk í forystu að vanda sig í samtali við fjölmiðla og kjósendur eins og einmitt nú.

Nokkur veigamikil atriði sem gerst hafa á síðustu vikum og hafa áhrif á ímynd flokka og leiðtoga:

Katrín Jakobsdóttir

Katrín naut þess í kjölfar kosninga að hafa haft mestu forgjöfina hvað ímynd varðar. Mikil sátt hefur ríkt um þann möguleika að hún leiði ríkisstjórn og hún hefur yfir sér trúverðuga ásjónu sem marga líkar við, jafnvel þótt þeir kjósi aðra flokka. Hins vegar gerði Katrín tvenn mistök sem veikir ímyndina:

Ég er orðin þreytt” sagði Katrín í miðjum viðræðum og vildi ekki halda viðræðum áfram. Þetta voru mikil mistök því þarna þurfti hún einmitt að sýna að hún hefði geta staðið vaktina – óþreytt – þó að erfið mál séu óleyst. Af því að Katrín hefur ekki enn gengt stöðu forsætisráðherra þá á hún aðeins eftir að vinna sér inn ímynd sem öflugur verkstjóri sem kann að leiða þó hún hafi mjög sterka ímynd sem viðkunnanlegur og heiðarlegur leiðtogi. En með þessum þreytulegu orðum þá fékk hún fólk til að hugsa að það sé henni hugsanlega ofviða að leiða ríkisstjórn því hún yrði oft svo þreytt. Vildi þægilegri verkefni.

Annað sem hún gerði sem veikir ímynd Vinstri-grænna er hvernig hún orðaði breytingar á skattlagningu gagnvart fólki í landinu. Alltaf talaði hún og hennar flokksfólk um skattahækkanir sem markmið í sjálfu sér eins og það væri virkilega þeirra ætlun að fólk væri sem mest skattpínt. Varla er það svo og því gerðu VG mikil mistök að ramma inn skattahækkanir á sérlega neikvæðan máta. Eins og að þau vilji bara hafa skatta háa óháð öllu öðru. Þarna fékk almenningur það á tilfinninguna að VG væri á móti almenningi og á móti því að hagur fólks myndi vænkast. Þetta er afar mikilvægt atriði fyrir framtíð VG og ef það yrði kosið aftur nú, á næstu mánuðum, má færa rök fyrir því að þetta atriði myndi geta svipt VG allnokkrum hluta af sínu fylgi. Einnig er það hugsanlega veikleiki hjá VG að það er á einhvern óræðan hátt andstætt þeirra vinnuaðferðum að hugsa um ímyndarmál. Margir halda að ímyndarmál snúist um að búa til umbúðir utanum lítið innihald en svo er yfirleitt ekki. Ímyndarmál snúast miklu oftar um það að taka sín kjarnamál og finna leiðir til að gefa þeim vængi.

Til að styrkja ímynd:

Leiðtogar VG þurfa að gjörbreyta því hvernig þeir tala um skatta. Þeir þurfa að segja „við viljum hafa skatta lága en hafa sterka innviði eins og heilbrigðis- mennta- og samgöngukerfi”. Það væri sannarlega breyting að heyra VG tala um að hafa skatt lága en það er eina leiðin til að fá fólk til að trúa því sem VG er raunverulega að vinna að: að hafa innviði sterka. Hætta að tala um skatthækkanir sem markmið. Tala um sterka innviði sem markmið. Svo er það afleiðing af því að hafa sterka innviði að afla ríkissjóði fé með ýmsum aðgerðum. En ekki hamra á orðinu skattahækkanir eins og nú er gert.

Að auki þyrfti hinn kjörþokkafulli formaður að muna að þrátt fyrir mjög góða ímynd að þá á hún enn eftir að sanna sig á einum ímyndarþætti sem er sterk leiðtogaímynd fyrir Ísland. Katrín þyrfti að nota hvert tækifæri að tala um hennar sýn að lausn, ekki hvað staðan sé flókin. Katrín þarf að fá fólk til að trúa að hún geti leyst öll verkefni, líka í erfiðum aðstæðum, þar sem sætta þarf sjónarmið margra. „Katrín ræður við kettina” ættu að vera hennar undirliggjandi skilaboð á næstu vikum. Það er hér um bil það eina sem hún þarf að hafa í huga þegar hún talar til fólks því allt annað virðist hún hafa í ríku mæli.

Bjarni hefur gert margt sem styrkt hefur ímynd hans og flokks frá kosningum hans en einnig gert nokkra hluti sem hafa veikt ímyndina. Bjarni hefur öðrum fremur sýnt mestu leiðtogahæfileikana og sannaði það mitt í miðjum viðræðum, þegar allir höfðu rætt við alla, fram og aftur. Þá sagðist Katrín Jakobsdóttir „vera orðin þreytt” en í sama fréttatíma sagðist Bjarni vera bjartsýnn og að nú þyrftu leiðtogar að átta sig á að allir þyrftu að gefa eftir. Að hann væri, þrátt fyrir vandræði, mjög bjartsýnn á lausn. Þetta vill fólk heyra, óháð því hvort fólk aðhyllist vinstri eða hægri stefnu. Vill heyra að einhver sé að vinna að lausn og trúi á lausn.

Hins vegar hefur Bjarni nokkrum sinnum dottið í það að tala sig inn sem andstæðing almennings jafnvel þegar engin ástæða er til. Þegar Landspítali grátbað um aðeins meira fé af fjárlögum til að þurfa ekki að draga seglin saman enn eina ferðina þá sagði Bjarni að það væri ekki hægt þrátt fyrir að það væri 30 milljarða afgangur af fjárlögum. En með því að segja „nú skulum við taka höndum saman um Landsspítalann og veita honum það sem hann þarf” hefði Bjarni stimplað sig inn til margra næstu ára sem landsfaðir, nánast óhagganlegur og hefði getað hækkað fylgi síns flokks í nokkuð stöðuga tölu á milli 30-40%. En í stað þess þá skynjaði almenningur að Bjarni væri með svari sínu ekki að vinna að hagsmunum almennings þó að svigrúm væri til þess. Ýmislegt í þessum dúr gerir Bjarni af og til, að tala sig upp gegn almenningi þegar hann þarf þess ekki. Lykilatriðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu væri að fá ráðgjöf sem er ekki úr innsta ranni því að mörgu leyti þarf nýja hugsun og nýja gerð af samtali (framing) til að aðlaga ímynd Sjálfstæðisflokks að þeirri framtíðarsýn sem almenningur hefur.

Til að styrkja ímynd:

Helsti veikleiki Bjarna þegar kemur að ímynd er það sem hægrið glímir við: Takmörkuð færni í að samsama sig við þau gildi sem þjóðin elskar. Þetta snýst ekki um miklar breytingar á stefnu, miklu frekar þyrfti að þjálfa sig í að tala nær þeim gildum sem skipta fólk máli því að mörgu leyti er flokkur Bjarna nær þeim gildum heldur en oft kemur fram í fjölmiðlum.

Margt hægra fólk er gjarnan í vandræðum vegna þess að það kann gömlu möntruna of vel: Að vera hinn harði leiðtogi sem er fastur fyrir og með skýra stefnu og talar hart gegn öllum andstæðingum. Það er ákaflega lítil eftirspurn fyrir slíkum samskiptum í dag því fólk allsstaðar í stjórnmálum vill heyra samtal í takt við hin nýju, mjúku gildi sem fóru að festa rætur hjá almenningi upp úr árunum eftir hrun. Þetta er meginástæðan af hverju hægrið hefur dottið frá 35% fylgi niður í 20-25% fylgi hin síðari ár. Þetta sást vel í síðustu forsetakosningum þegar Davíð Oddsson fór fram. Davíð er lipur ræðumaður og snjall að svo mörgu leyti en notaði í baráttunni svipaða samskiptataktík og hann notaði á sínum velmektarárum sem borgarstjóri og síðar forsætisráðherra. En fylgi upp á 13,7% niðurstaða segir sína sögu um að almenningur vill heyra samskipti af öðrum toga en Davíð kann. Þetta er meginástæðan fyrir vinsældum Guðna í þessum kosningum; honum eru mildari samskipti eðlislæg þar sem má vera mannlegur og ekki þarf að sýna hörku eða setja sig á stall. Þetta þarf hægrið að læra betur á næstu misserum ef það vill ná betur til breiðari hóps fólks.

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson hafa verið samstíga í stjórnarmyndunarviðræðum. Það getur bæði verið kostur og galli. Ef annar aðilinn gerir eitthvað rangt fá báðir flokkar ímyndarskell. En á meðan fólk er sátt við framgöngu þeirra þá styrkir þetta samstarf beggja flokka.

Báðir aðilar stíga erfiðan ímyndardans sem getur endað með falli eða með báða fætur á jörðinni. Báðir flokkar voru kosnir af því að þeir töluðu fyrir breytingum og fólk bíður enn með að sjá til þeirra verka – hvort þeir muni standa undir nafni eður ei. Ímynd beggja er því enn í mótun.

Fólk hefur enn þá trú að báðir flokkar geti staðið undir þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra beggja sem talsmenn breytinga. Það er einkum staðfesta þeirra að hafna samstarfi við Framsóknarflokk sem hefur veitt fólki trú á að þeir geti komið að breytingum. Á móti kemur að bæði Benedikt og samflokksmaður hans hafa talað mjög fyrir þörfum atvinnurekenda, í sumum tilfellum þvert á vilja og þarfir almennings. Slík orð í einum fréttatíma geta auðveldlega hrifsað á brott bróðurpartinn af þeirri jákvæðu ímynd sem enn er til staðar og því þurfa báðir aðilar að vanda sig sérstaklega. Báðir búa við mikið ímyndarójafnvægi og að lítið þarf til að feykja jákvæðri inneign út í veður og vind.

Til að styrkja ímynd:

Hafa þarf í huga að tengja sig sem minnst við þau stefnumál sem fólk skynja að vinni gegn almenningi – þeir voru kosnir út á það að vinna fyrir almenning. Ef báðir aðilar fara á endanum í samstarf við Sjálfstæðisflokk þá er staðan nokkuð vandasöm og ímynd beggja getur bæði styrkst eða fallið niður. Hafa ber í huga að Björt framtíð rétt hékk inni á þingi því þingmenn flokksins náðu að nudda þeirri ímynd í gegn að þeir væru talsmenn nýrra gilda og vinnubragða. Ef þeir gæta sín ekki í samningagerð við samstarfsflokka getur þessi litla ímyndareign horfið með öllu. Það sama má segja um ímynd Viðreisnar: Þeir dansa nú eins og vegasalt á milli jákvæðra hugsanna og neikvæðra en ekkert er fast í hendi. Fólk bíður eftir að sjá þeirra verk til að ákveða hvort þeir séu framtíðar- eða fortíðarafl. Um það snýst stóra ímyndarspurningin sem snýr að þeim.

Talsmenn Pírata

Píratar hafa ímynd þess að vera ólíkindatól. Sannarlega talsmenn nýrra vinnubragða og nútíma samskipta en þegar kemur að stjórnun landsins þá alls ekki allir vissir í sinni sök um getu og hæfni. Ráða þeir við slíkt verkefni eða yrði það þeim ofraun? Eins og Björt framtíð og Viðreisn gera þá búa Píratar við óstöðuga ímynd því lítið þarf til að ímynd styrkist eða veikist til muna.

Það er Pírötum til trafala að vilja ekki hafa einn leiðtoga. Það minnkar ímynd um leiðtogahæfni því Píratar segja að hjá þeim ráði margir á meðan margir eru þeirrar skoðunar að slíkt gangi ekki ef flokkurinn á að taka þátt í ríkisstjórn. Það væri því kostur að hafa einn foringja þó að það sé gott hjá Pírötum að láta breitt lýðræði koma að öllum meginmálum.

Einnig veikir það Pírata að þeirra sterkasti maður út á við, Helgi Hrafn Gunnarsson, hafi horfið af Alþingi. Um hann ríkir jákvæðari ímynd en flestra annarra í þeirra flokki. Eftir standa Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy og hvorugt þeirra hefur náð að sýna nógu sannfærandi leiðtogaímynd. Auðvitað eru Príratar nýr flokkur og því að sumu leyti ósanngjarnt að segja þá ekki hafa sterka leiðtogaímynd. Vel getur verið að þeir öðlist hana með tímanum. Birgitta á sína bestu spretti í samskiptum við erlenda fjölmiðla en Smári McCarthy þarf að vinna töluvert í sinni framkomu og talanda til að eiga möguleika á traustri leiðtogaímynd á meðal almennings. Birgitta sýnir einstaka sinnum spretti sem jafnast á við þá bestu en sýnir svo líka allt aðra framkomu inn á milli.

Ímynd Samfylkingar og Framsóknarflokks hefur lítið breyst frá kosningum og því ekki ástæða til að fjalla um þá flokka sérstaklega hér og nú. Báðir flokkar glíma við mjög mikinn ímyndarvanda og er ekki enn hægt að sjá fyrir endann á því hvernig þeir flokkar ætla sér að vinna úr þeim vanda.

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …