Erum við hálfnuð í eftirvinnslu hrunsins?

Breytingar á Íslandi eftir hrun voru fyrst og fremst breytingar á gildum fólks, væntingum, áherslum og vonum. Stutta útgáfan er að við hættum að líta upp til gömlu gildanna um áhættusemi, hörku, karllægra sjónarmiða og hættum að líta á ríkidæmi sem töff. Vissulega er eftirsóknarvert að hafa vel rúmlega í sig og á en það sem breyttist eftir hrun var að fólk fór að bera virðingu fyrir öðrum gildum en efnahagslegum.

Í stuttu máli má segja að þetta sé breytingin á þeim gildum sem hófst af fullum þunga í hruninu og stendur enn yfir, því svona breytingar á gildum geta gjarnan tekið 10 ár til að ná alveg í gegn.

Það er fróðlegt að skoða hvar nýju gildin hafa náð fótfestu og hvar ekki því það segir okkur til um hversu langt við erum komin í átt að þeim breytingum sem við vildum stefna að í kjölfar hrunsins. Stóra spurningin er því þessi:

Hvar hafa nýju gildin náð fótfestu og hvar ekki?

Stjórnmál
Við sjáum að valdið og valdakerfið er ekki lengur hafið yfir annað í tilverunni. Þess er krafist að sanngirni ríki á öllum stigum valds og því er misnotkun valds, sem var algeng hér á árum áður, mjög á undanhaldi. Samvinna hefur einnig aukist þó að sum öfl streitist þar á móti. Aukin áhersla er einnig lögð á umhverfi og náttúruvernd og það þykir beinlínis hættulegt fyrir stjórnmálalegan feril að taka lítil tillit til þeirra gilda. Krafan um dreifingu valds er einnig sterk og jafnframt krafan um samfélagsleg gildi en þar undir er krafan um aukið gagnsæi sem er mjög sterk um þessar mundir. Það er helst í stjórnmálum að það gengur hægt að ná breytingum fram. Það gegnur hægt að ná fram gagnsæi, dreifingu valds og að aðilar séu látnir axla ábyrgð. Krafan um gildi fólksins í landinu og að það sé unnið fyrir þann hóp er einnig rík (andstæða elítuisma) og það gengur mjög hægt fyrir stjórnmálin að hraða breytingum á því sviði. Krafan um einlægni, það að segja satt og lýsa stöðunni rétt, eins og hún er á hverjum tíma, er einnig að tefja stjórnmálin nokkuð í átt að nýjum gildum.

Stjórnmálin þurfa því að hraða breytingum á þessum gildum til að svara kalli þjóðarinnar, en þannig mun traust aftur byrja að aukast á stjórnmálastéttinni:

 • Auka gagnsæi og önnur samfélagsleg gildi.
 • Auka áherslur á gildi og þarfir fólksins í landinu, minnka áherslu á að þjóna sérhagsmunum á kostnað heildarinnar.
 • Einlægni í tilsvörum við á opinberum vettvangi og við fólkið í landinu er oft ekki nægjanlegt. Gjarnan er farið í kringum hlutina og aðstæðum ekki lýst eins og þær eru, af því að það er landlægur vani í íslenskum stjórnmálum að segja aðeins frá hluta máls, í von um að það geti skapað viðkomandi sterkari stöðu í framhaldi.

Fjármálakerfið
Fjármálakerfið er einn sá þáttur samfélagsins sem hefur gengið hvað hægast í að ná umbreytingu eftir hrun. Innan frá hefur ekki mjög mikið breyst þó að það sé verið að kalla fram nýja ásýnd um nýgildi, í þeirri von að skapa traust. Slíkt hefur gengið hægt eftir hrun því enn eru bankarnir með mjög litla tengingu við traust, rétt eins og lífeyrissjóðir. Krafan um fjölbreytileika hefur aukist mikið og hafa bankar og fjármálafyrirtæki aðeins gengið í jákvæða átt hvað þetta varðar. Einnig eru fjármálafyrirtæki áhættufælnari en áður var en að mestu eru þá upptalið af þeim þáttum sem þeir hafa náð sterkum tökum á.

Fjármálakerfið þyrfti því að ná sterkari tökum á þessum umbreytingum á átt að nýjum gildum, ætli þeir að svara kalli almennings:

 • Ofuráhersla á hagnað er vissulega kjarninn í bankastarfsemi en er engu að síður í takt við gömu gildi. Fólk getur alveg skilið mikilvægi þess að hagnast vel en verður ósátt ef það skynjar að hagnaður sé það eina sem rekur bankafólk áfram. Hagnaður þarf því að ríkja í sátt við aðra þætti þar sem samfélög fái betur að njóta þess þegar vel gengur. Ættu bankar að skoða, smátt og smátt, einhver skref í þá átt að taka upp deilihagkerfi að einhverju leyti þegar vel gengur þannig að fleiri fái að njóta haganaðar. Hagnaðurinn kemur frá viðskiptavinum og skyldir aðilar eiga að njóta hans upp að ákveðnu marki, samkvæmt þeim kröfum um ný gildi sem eru uppi.
 • Kuldaleg framkoma, að vera einstrengislegur, ofuráhersla á reglur, lítil mannleg nálgun eru allt gildi sem fjármálafyrirtæki ná mjög litlum árangri í að sýna.
 • Að vera fjarlægur, stór, öflugur, yfirstétt, ofar öðrum eru einnig gildi sem fjármálafyrirtækjum gegnur ill að að skilja og ná tökum á.
 • Karlæg sjónarmið, harka og yfirgangur er því miður enn ákveðinn hluti af kúltúr í fjármálafyrirtækjum og virðist ganga hægt að ná að tengja sig við nýrri gildi, sem krafa er um í dag.
 • Mikil krafa er í garð fjármálafyrirtæki um aukið gagnsæi og sanngirni í garð viðskiptavina en fjármálafyrirtækjum hefur gengið illa að komas til móts við þau gildi.

Fyrirtækjamenning og stofnanir
Fyrirtækjamenning er á margvíslegan hátt að glíma við gamaldags, karllægan kúltúr sem margir halda í vegna þess að það er þeirra aðferð til að halda völdum. Lausnir síðustu ára um kynjakvóta ekki náð að vinna á þessum gömlu gildum eins hratt og fólk er að gera kröfu um (sjá nýlega frétt). Krafan um aukið gagnsæi er einnig sterk í garð fyrirtækja og þó að þeim gangi betur en bönkum að ná tökum á þeim þá er enn langt í land m.v. þær kröfur sem eru uppi. Einnig er í gangi ákveðin glíma við ofuráherslu á sterka hagnaðarþörf án þess að ábata sé alltaf dreift til samfélagsins, eins og ný gildi gera kröfu um. Að öðru leyti er margt jákvætt í fyrirtækjakúltúr, almennt séð og ýmis teikn á lofti að þar gangi ágætlega að innleiða þau nýju gildi sem krafa er gerð um í samfélaginu.

Almenningur
Það má segja að almenningi hafi gengið einna best í að tengja sig við ný gildi eftir hrun. Almenningur er sá hluti samfélagsins sem leiðir breytingar í átt að nýjum gildum fyrir þjóðfélagið í heild á meðan fjármálakerfið og fyrirtækjamennig að einhverjum hluta hluta er að streitast á móti. Einnig er það stjórnmálakerfið sem nær ekki nógu hratt að ganga brautina í átt að nýjum gildum. Almenningur leiðir baráttuna, gerir kröfur og vill að aðrir gangi hraðar á sömu braut.

Staðan nú
Í heild má því segja að Ísland sé komið ágætlega í gang með að tileinka sér þau gildi sem krafa hefur verið gerð um, eftir hrun. Almenningur stendur sig ágætlega en innviðir samfélagsins eru töluvert á eftir, einkum stjórnmálastéttin og svo fjármálageirinn. Gróflega má segja að við séum komin nálægt því að vera hálfnuð, svona fljótt á litið, þó að vissulega sé erfitt að leggja nákvæman mælikvarða fram þar um.

—  —  —

Sjáum við merki um að það sé verið að streitast á móti breytingum?
Það eru mörg skýr merki um slíkt, hér eru nokkur dæmi:

 • Hæðni og hótfyndni er mjög komið úr tísku – tilheyrir gömlum gildum sem eru á útleið; slíkt má sjá t.d. í skopmyndum og leiðurum og orðræðu þeirra sem vilja halda í tímana eins og þeir voru.
 • Orðræða um að gamlir flokkar sem voru öflugir einu sinni, eigi að vera við stjórnvölinn, af því að þannig var það einu sinni.
 • Afneitun og firring þegar málefni eru rædd; sannleikans ekkert endilega leitað; ríghaldið í sjónarmið hagsmunahópa og ætlast til að þau valti yfir hagsmuni almennings; yfirgangur og frekja.
 • Tregða stjórnmálamanna, stofnanna og oft fyrirtækja til að streitast á móti gagnsæi.
 • Vaxandi ójöfnuður í samfélögum, víða um heim, er greinilegt tákn um tregðu til að meðtaka ný samfélagsleg gildi sem aukin krafa er um, ekki bara á Íslandi, heldur einnig um víða veröld.
 • Aukin samþjöppun valds og tengsl fyrirtækja og stjórnmálamanna (ógagnsæi) eru einnig dæmi um þróun sem er í þá átt að viðhalda gömlum gildum fortíðar.

Traust er beintengt breytingu á gildum
Nú er mikið rætt um að auka traust á stjórnmálum og þeim kerfum sem halda þjóðfélaginu saman. Eru ýmsar leiðir ræddar í þeim efnum sem margar eru góðra gjalda verðar. Stóra myndin í þessum efnum felst þó í því að stjórnmálin tileinki sér ný gildi sem almenningur gerir kröfu um. Traust á stjórnmálum mun ekki aukast að ráði fyrr en almenningur fær það á tilfinninguna að stjórnmálin séu komin ágætlega á veg með að tileinka sér þau nýju gildi sem fólk er að kalla eftir. Í dag eiga stjórnmálin töluvert langt í land, einkum þegar reynt er að gera það utan frá, í stað þess að gera það innanfrá.

 

Facebook Comments

Check Also

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar …