Hinn stóri áhrifavaldur

Hvað leiðir ungmenni út á þá refilsstigu að skjóta tugi jafnaldra sinna og kunningja líkt og gerst hefur með reglulegu millibili m.a. í framhaldsskólum í Bandaríkjunum og í Kanada (allir muna t.d. morðin í Colimbine High School í apríl 1999)?  Padraig Mara ritar mjög góða grein í Lesbók Morgunblaðsins um þetta laugardaginn 7. júlí.  Greinin er mjög vel þýdd af Ármanni Halldórssyni.

Er það dauðarokkið, pönkið og anarkistminn sem heltekur þessa unglinga með svo vofeiflegum hætti?  Er það ljótu atriðin í bíómyndunum eða gengdarlaus spilun dráps-tölvuleikja sem ýta óhörnuðu fólki út í þetta myrkur?  Þetta eru skýringar sem jú oft eru nefndar.  En eigum við þá að banna eitthvað af þessu?  Nei, vegna þess að ekkert af þessu rekur unglinga út í jafn afbrigðilega hegðun og morð er.  Sökin er nærtækari: firring og skortur á tengslum.

Best er að gefa Padraig Mara orðið þegar hann útskýrir orsakirnar:

Firring frá heiminum gegnum Internet og tölvuleiki, firring frá tilfinningum sínum vegna eilífra lyfjauppáskrifta, og skortur á tengslum við félaga og fjölskyldu. Skólamorðingjarnir einkennast allir af yfirþyrmandi einangrun, tilfinningar þeirra hafa fengið að krauma og verða dekkri og ógeðslegri og byggjast upp meðan að fantasíur þeirra verða stöðugt viðbjóðslegri. Án jarðtengingar og flóttaleiðar urðu þeir morðingjar inn í sér löngu áður en þeir hleyptu af skoti. (sjá nánar í Lesbók MBL 07/07/07, bls. 3)

Meginverkefni á sviði félagsmála næstu ára og áratuga er því að leita leiða að minnka stig firringar í samfélaginu og að gefa öllum betra tækifæri til að njóta ríkra tengsla við annað fólk.  Sá sem er farinn að einangra sig verður að eiga auðsæja leið að því að tengjast fólki þar sem viðkomandi er velkominn og þar sem honum er mætt á þeim stað þar sem hann er.

 

 

Check Also

Forræðishyggja eða faghyggja?

Af hverju bönnum við 16 ára unglingum að aka bílum? Af hverju bönnum við almennan …