Hið afdrifaríka hundshvarf

Jim Beach hefur verið fluga á tónlistarvegg heimsins í marga áratugi, hefur verið umoðsmaður eða persónulegur vinur sumra af þekktari tónlistarmönnum sögunnar.  Fyrir vikið er addressubók hans feit og þykk og geymir mörg netföng og símanúmer gaman er að skoða.

Fyrir allnokkru týndi Jim Beach hundi.  Hann býr í Montreux við Genfarvatn og ætlaði frú Beach sannarlega að koma að gagni í leit að seppa og sendi út hjálparbeiðni úr tölvu karlsins.  Líkast til hefur hún ætlað að senda á vini og nágranna en smellti á ranga hnappa og sendi skeyti sitt á alla í feitu og þykku addressubókinni.  Elton John! Nennir þú að kíkja út og leita að hundinum mínum?  Hann er á vappi hér einhversstaðar í Montreux!

Frú Beach setti alla addressubókina í “To:” línuna – sendi ekki blint afrit.  Allir fengu netföng allra.  Vel á annað þúsund netföng.

Og vegna smávægilegs atviks þá hafði lítt þekktur Íslendingur á miðjum aldri þurft að senda þessum Jim litla fyrirspurn nokkru áður en hundshvarfið kom til.  Og fyrir einhverja tölvu-sjálfvirkni endaði netfang Íslendingsins í feitu addressubókinni.

Undrun Íslendingsins varð mikil er hann fékk skeytið um hundshvarfið – og sá öll netföngin.  Þarna voru netföng flestra þeirra tónlistarmanna sem hann hafði hlustað á og dáð frá unglingsárum.  Þarna var t.d. megnið af þeim sem stigu á svið á Live Aid tónleikunum frægu.  Þarna voru prívat netföng manna eins og Elton John, George Michael, Queen-meðlima, Annie Lennox, AC/DC-meðlima, Kate Bush, David Bowie o.fl.  Ekki þó Britney 50 cent eða Backstreet Boys heldur meira miðaldra lið.  Og meira Evrópa heldur en USA.  Þó var Beyoncé Knowles þarna en ekki Cliff Richard!  Og auðvitað hvorki Elvis né Freddie.

Í fyrstu hugði Íslendingurinn þetta vera gullnámu – fátt væri skemmtilegra en að eiga þess kost að spjalla lítillega við allt þetta fólk.  En fljótt runnu tvær grímur á pilt; hvað ætti hann svosum að segja við þessa framverði tónlistarinnar?  “Heyrðu Elton, ég hef samið alveg æðisleg júróvísion lög, viltu heyra nokkur?”  Eða: “Heyrðu Beyoncé, mér finnst þú vera æðislegur dansari, kanntu nokkuð gömlu dansana?  The famous “Skottís”, you know!!!”

Fljótlega komst piltur að því að hér var um að ræða sveitapiltsins draum; að hann hefði lítið við þetta fólk að tala.  Á meðan liggur listinn ónotaður og hringar sig hægt og bítandi síðustu hringina í kringum niðurfall rafrænu ruslafötunnar.

Og þó ekki alveg ónotaður.  Það var of mikil freisting að láta netfang hjá Brian May – gítarleikara Queen fara með öllu forgörðum.  Enda er hann annálað kurteisisdýr og einnig raunvísindalegt gáfumenni svo að eitthvað kæmi kannski út úr því að senda honum línu…  Og það varð úr… pilturinn sendi Brian H. May litla kveðjur frá Íslandi og fékk svar samdægurs.  Og eins og við mátti búast var svarið kurteist en sprellifjörugt; þar segir m.a.:

…You’re right … I have never been to Iceland … I hear it’s very beautiful, and of course geologically unique, being atop one of the upward springs of Magma which forms our Tectonic system !   I would love to see it.   Of course the first thing that comes to mind for people like us is that Iceland is killing all the whales which everyone else is trying to protect …  so I hope you will tell your government how I feel !  Don’t worry, it’s not I’m not very enamoured of OUR government’s behaviour either ! …

Varla eru til margir heimsþekktir rokkgítarleikarar sem geta rabbað um bergkvikur (magma) og jarðskorpuhreyfingar (tectonics) (Brian May er með Ph.D. gráðu í stjörnufræði frá Imperial College).

brianmay2

Toppmaður hann Brian May!

Check Also

Einkenni velsældar

Allir vilja lifa á tímum velsældar þar sem sem flest svið mannlífsins blómstra.  Hvaða tímabil …