Hagvöxtur mælir neyslu, ekki framfarir.

Hagvöxtur er mælikvarði á neyslu en ekki framfarir þjóða. Aukin neysla, aukin plastnotkun, aukið kjötát og aukin matarsóun sýna aukinn hagvöxt. Hagvöxtur mælir hvort efnahagslífið sé á hreyfingu en mælir ekki hvort það hreyfist í rétta átt. Þessu þarf að breyta.
– – –
Í raun má segja að hagvöxtur mæli vöxt á öllu nema á þeim þáttum sem gera lífið bærilegra til lengri tíma litið. Hófsöm neysla, minni matarsóun, fleiri gæðastundir, andleg upplifun, góð samskipti, eftirminnileg upplifun er ekki tekið inn í jöfnuna fyrir hagvöxt. Hagvöxtur vex hins vegar ef vextir hækka á húsnæðislánum. Hagvöxtur vex ef mengun eykst (sem afleiðing af aukinni neyslu og framleiðslu) og hagvöxtur eykst ef við erum að ganga á á og þurrka upp auðlindir jarðar. Mikil aukning í hagvexti er oft nátengd auknum ójöfnuði og aukinni stéttaskiptingu. Hagvöxtur eykst mikið ef 10% ríkustu verða ríkari en eykst miklu minna ef 50% neðstu verða ríkari. Það er því mikil þörf á að endurbæta mælingar á hagvexti þannig að hann taki inn í myndina framfarir en ekki neyslu og hætta að verðlauna ofbeldi gangvart umhverfinu. Það vantar sem sagt sjálbærni og raunverulegar framfarir inn í mælingar á hagvexti.

Önnur birtingamynd á galla hagvaxtarmælinga er að framleiðsla á stríðstólum eykur hagvöxt. Og ef einhver ákveður að sprengja upp borgir og landssvæði og byggja þær aftur upp þá framkallar það mikinn hagvöxt. Aukin framleiðsla stríðstóla og morðvopna skapar einnig hagvöxt og svona mætti lengi telja. Sú mýta hefur meira að segja verið uppi að stríð séu nú að ýmsu leyti jákvæð vegna alls þess hagvaxtar sem fylgir í kjölfarið. Þetta er mikil vitleysa því augljóst er að það er hagkvæmara og heppilegra fyrir samfélagið að gera eitthvað annað en að sprengja og byggja upp borgir. Það væri alltaf heppilegra að framkalla meiri athafnir af þeim toga heldur en að reyna að réttlæta stríð og eyðileggingu með hagvexti.

Hagvöxtur er því með öllu ónothæfur mælikvarði eins og hann er notaður og reiknaður út nú. Það mætti hins vegar skoða að draga ýmsa þætti frá hagvaxtartölum, eins og framleiðslu stríðstóla, morðvopna og losun CO2. Þetta er sú leið sem við þurfum að fara: Að byrja á að mæla GGDP („Green Gross Domestic Product“) sem mætti kalla grænan hagvöxt eða kolefnisjafnaðan hagvöxt sem tekur inn í hefðbundinn hagvöxt alla losun sem framkallast í hagkerfinu við vöxt eins og framleiðslu og neyslu. Hagvöxtur með ábyrgð. Ef fyrirtæki losar 1 tonn af CO2 þá væru áhrif þess dregin frá hefðbundnum hagvexti þannig að aukin plastnotkun, meiri matarsóun og aukin neysla myndu (samanlagt) reiknast rétt í mælingum á hagvexti. Þetta er ekki ný hugmynd (hún kom fyrst fram 1972). Það myndi breyta strax mjög miklu ef Hagstofan og greiningadeildir bankanna myndu breyta reiknireglum sínum á hagvexti í þessa veru.

Check Also

Tveir baráttuhópar í loftslagsmálum: Tæknisinnar og náttúruþjónar

Til að efla baráttuna í loftslagsmálum er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér ólíkum …