Mesta fylgisaukning flokka kemur þegar þeir endurbæta orðræðuna

Orðræða flokka er mjög misjöfn. Sjálfstæðisflokkur heldur úti orðræðu sem er áhrifarík á meðan flokkar eins og VG gera lítið til að byggja upp sterka orðræðu. Rannsóknir sýna að fólk kýs flokka meira vegna orðræðunnar frekar en stefnumála. Þetta er meginástæðan af hverju Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stór, hann hefur eignað sér öll sterku, góðu og áhrifaríku orðin sem svo margir vilja samsama sig við.

Dæmi:

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn byggir á þessari orðræðu:

 • Við erum „festa og stöðugleiki
 • Við bjóðum „skattalækkanir
 • Við færum þér „frelsi
  ― ― ― ― ― ― ― ―
 • Hinir flokkarnir eru „óábyrgir smáflokkar
 • Án Sjálfstæðisflokks ríkir „veiklulegt smáflokkakraðak
 • Hinir flokkarnir leiða til „glundroða og stefnuleysis
 • Hinir flokkarnir eru „ekki stjórntækir
 • Hinir flokkarnir kalla fram „miklar skattahækkanir
 • Hinir flokkarnir kunna ekki „ábyrga stjórn peningamála

Að mörgu leyti er þetta snjöll orðræða hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki vegna þess að þessi orð skili þeim mesta fylginu heldur vegna þess að aðrir flokkar mótmæla ekki því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn rammar sig inn. Ef Sjálfstæðisflokkurinn segir „við bjóðum stöðugleika“ þá trúa flestir því AF ÞVÍ AÐ hinir flokkarnir mótmæla því ekki. Það er enginn sem er að reyna að eigna sér þetta tiltekna orðfæri nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna trúir almenningur þessari orðnotkun og trúir þá því að allt verði betra (stöðugra) ef Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn. Og þess vegna kjósa margir hann aftur þó að þeim fjölgi sem hafa athugasemdir við framkomu, aðgerðir og starfshætti flokksins.

Af hverju reyna VG, Píratar eða Samfylking ekki að eigna sér orðin sem eru skyld orðinu „stöðugleiki“? Af hverju breyta þessir flokkar ekki þessari ímyndarsköpun Sjálfstæðisflokks með því að tengja þann flokk við „óstöðugleika“? Af hverju tengja þessir flokkar sig ekki við yfirvegaða stjórnarhætti eins og stöðugleika með því að keppa um orðið. Ef tveir eru komnir sem bjóða besta tilboðið (best orðið) þá er kominn vafi og annar flokkurinn tapar þá helming af sínum tengslum við orðið, sé framsetningin sómasamleg.

En aðrir flokkar hafa alla tíð verið að mestu getulausir gagnvart baráttunni við Sjálfstæðisflokkinn í keppninni um orðnotkun. Þeir bara samþykkja orðið sem Sjálfstæðisflokkurinn eignar sér og hirðir restina af orðunum sem eru í boði.

Af hverju velja aðrir flokkar ekki að tengja sig við frelsi og ábyrgð og stöðuga stjórn? Við farsæl orð sem tengjast jafnvægi, hamingju og vellíðan? Eina svarið sem manni dettur í hug er kerfislæg deyfð og hugsanlegt áhugaleysi á að keppa á þessu sviði. Þeir virðast lítið kunna þá list að keppa um orð og konsept og láta bara yfir sig ganga því sem hent er til þeirra.

Annars geta Sjálfstæðismenn bæði verið mjög sterkir í umræðunni (ramma vel inn) en einnig eiga þeir til allmörg dæmi um að ramma inn málefni algerlega yfir strikið. Þingmaður þeirra sagði í janúar 2017 að best væri „að nota harðan stálhnefa“ gegn hælisleitendum. Þetta er gott dæmi um hvað Sjálfstæðisflokkur á það til að vera ekki nógu einlægur, mennskur og hlýr. Allt slíkt er aumingjaskapur og það hefur virkað ágætlega nema hvað þörf og eftirspurn fólks gagnvart mýkri gildum hefur aukist það mikið að Sjálfstæðisflokkurinn verður að taka suma grunnþætti í gegn í umræðu sinni ef hann ætlar ekki að fjarlægjast almenning æ meir í umræðunni. Sama harka, ákveðni, festa o.fl. virkar ekki alveg eins og og hún gerði hér fyrir allmörgum árum.

Stóra áskorun Sjálfstæðisflokksins í orðræðunni er að ramma erfiðu málin inn með einlægum hætti. Þar virka þeir kaldir og gamaldags þursar því þeir hafa ekki náð að fylgja tíðarandanum hvað þetta varðar. Þeir nota enn hörku, ákveðni og ímyndaða festu og telja sig komast í gegnum erfiðu málin á þeim nótunum. Það virkaði vel hér áður fyrr en virkar fremur illa í dag. Á mörgum keimlíkum sviðum er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga æ erfiðara með orðræðuna, einkum þegar erfið mál eru rædd, því þeir þurfa nauðsynlega á endurnýjun að halda og læra hvernig á að tileinka sér nútímalegri orð. Stöðugleiki er orð sem hefur verið eftirsótt og virkað vel en það er samt veikari ímyndarþáttur nú en áður.

Vinstri-græn

Vinstri-græn byggja á fremur takmarkaðri orðræðu. Þeir tala eins og að þeir séu yfir það hafnir að eigna sér orð. Það sé fyrir neðan þeirra virðingu. Gott og vel. Þá mun VG líka tapa að mestu í baráttunni um orð sem skipta fólk máli. Og þar með mun sá flokkur, enn og aftur, ekki koma hugmyndum sínum í verk.

 • VG hugsa mest um „umhverfið“ – erum „á móti aukinni umferð/mengun/bílum
 • Við í VG viljum „félagslegan jöfnuð“ til handa öllum
  ― ― ― ― ― ― ― ―
 • Um fylgi Sjálfstæðisflokks segir VG að það „fylgið komi á óvart

VG segir gjarnan frá stefnumálum – í langri upptalningu – er rammar þau nærri ekkert inn til að þau höfði til hins almenna kjósanda. Það er eins og þeir hugsi: Ef kjósendur skilja ekki hvað við erum sniðug þá ætlum við ekkert að segja þeim það. Við viljum bara fólk sem er hrifið að hugsjónum okkar og þekkir hvað liggur að baki okkar hugmyndafræði. Það er því gegn hugsunarhætti VG að vilja að koma stefnumálum sínum í skiljanlegan og grípandi búning. Og þar liggur einn stærsti þröskuldur flokksins gagnvart meiri fylgisaukningu.

Að fylgi andstæðingsins „komi á óvart“ er ótrúlega lin orðræða. Segir fólki ekki af hverju það eigi að kjósa VG og segir fólki ekki af hverju það eigi ekki að kjósa hina.

VG eru því líklegast einn sá flokkur sem er slakastur í að ramma inn sín stefnumál. Þess í stað eyða þeir vafalítið miklum tíma í að grandskoða og lúslesa stefnuna sína en leggja minni áherslu á framsetningu á þeirri stefnu. Þeim finnst nægjanlegt að hafa efnisinnihaldið í lagi en að framsetning sé aukaatriði. Á meðan keppast aðrir við að ramma inn sín málefni og ná því oftar hljómgrunni og athygli, ekki út á stefnumál heldur vegna áhugaverðrar framsetningar.

VG tengja sig sem sagt aðeins við umhverfi og gegn mengun t.d. frá bílum og við félagslegan jöfnuð sem er fremur veikt af því að konseptið félagslegur jöfnuður er á einhvern hátt svo „dull“ leið til að lýsa því sem maður er að stefna að. Allir vilja stefna að einhverju sem er eftirsóknavert og lætur fólki líða vel en fáir tengja við að „félagslegur jöfnuður“ sé það sem sé eftirsóknavert. Flestir telja að þetta sé konsept sem er hluti af gömlu kerfunum sem töpuðu með Hillary Clinton; sé veikt kerfi sem kalli ekki fram kraftinn í þjóðfélagsþegnunum. Stór hluti Íslendinga eru samt sem áður kratar sem eru ekki fjarri kerfinu sem félagslegur jöfnuður lýsir. En samt sem áður eru orðið „félagslegur jöfnuður“ ekki leiðin til að ramma inn það sem allir vinstri- og hægri-kratar landsins þrá. VG þarf því að fara í pælingar um að ramma þetta konsept og fleiri alveg upp á nýtt. Nema kannski umhverfismálin því þau eru vel innrömmuð VG í hag.

Dæmi af VG úr umræðunni sem mögulega þarf að endurbæta:

Enginn efast um að Katrín Jakobsdóttir er öflugur stjórnmálamaður með breiða skírskotun til margra utan VG. En það er hér um bil það eina sem hana vantar að ramma sín málefni inn á þann hátt að fólk tengi við. Hér er Katrín með sterkt mál en veika innrömmun. Sveltistefna er ekki eitthvað sem fólk tengir við ef það er sett í búninginn að fleiri eigi að fá meira. Allir vita að það þarf að velja og hafna hvað almannafé varðar og því er sveltistefna ekki það sem fólk tengir brýnast við. Orðið sveltistefna er hér notað um meðhöndlun og vörslu ríkisfjármuna og með því að nota þetta orð þá er Katrín í raun að segja að andstæðingar sínir passi þá fjármuni vel, séu agaðir í því hvert peningar séu settir. Hugsi gjarnan: Tja, er það ekki bara gott ef fjármálaráðherra er stífur á að eyða fé úr ríkiskassa? Þar á að vera agi og það þýðir ekki að dreifa peningum út um allar trissur. Orðið sveltistefna tiltekur einnig að einhver sé fórnarlamb og þá hlýtur það a vera sá sem er ekki í stjórn. Þ.e.a.s. VG og aðrir. Sá sem notar orðið gerir sig þess vegna að fórnarlambi og hjálpar öðrum að skynja sig í því hlutverki. Þetta eru algengustu mistök vinstra fólks í orðræðu: Að ramma sig inn sem fórnarlamb. Tala með röddu þess sem ræður litlu. Tala eins og sá sem mun tapa. Þannig styrkir orðið sveltistefna ekki málflutning VG en veikir hann miklu fremur.

Annað dæmi frá hinni annars vinsælu Katrínu er að ramma málin inn sem mikla eða litla „gleði“:

Fólki er alveg sama hvort það er mikil eða lítið gleði í ríkisstjórnarsamstarfi. Fólk vill bara að ríkið sé rekið skynsamlega, að farið sé vel með fé og að framþróun sé í gangi í þjóðfélaginu með jöfn tækifæri í huga. Þess vegna er brýnt fyrir VG að ramma inn gagnrýni á ríkisstjórn með öðrum hætti en að tala um skort á gleði. Í þessu sambandi skiptir gleði frekar litlu máli.

Um aðra flokka verður fjallað síðar.

― ― ― ― ―

Skyldir pistlar:

Vandi íslenskra stjórnmála er samskiptavandi

Samfylking gleymdi að eigna sér orð

 

 

 

Check Also

Úthlutun þingsæta með misjöfnu atkvæðavægi

Við útdeilingu þingsæta er atkvæðahlutföllum, breytt í heiltölur, heil sæti, sem getur aldrei endurspeglað hlutföllin …