Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað verður ekki sett í gang og hitt skilið eftir. Þá halda vandræðin bara áfram að banka upp á.

Með því að skoða þetta fræðslumyndband þá má sjá að hækkun hitastigs jarðar á næstu árum gæti leyst úr læðingi verri vírusa en SARS-CoV-2 vírusinn sem veldur COVID-19. Fyrstu vísbendingar hafa komið fram um að þetta sé í raun byrjað.

Þess vegna er svo augljóst að við verðum að finna leið til að koma ferðamennsku einhvernvegin í gang því ferðamennska er undirstöðuatvinnugrein – en einnig að taka stærri skref en áður í umhverfismálum og láta þetta tvennt vinna saman.

Ísland á að byrja nú síðla árs 2020 að reisa ferðamennskuna við með því að gera íslenska ferðamennsku sjálfbæra. Ekki bíða bara eftir að gamla normið verði aftur eins og óábyrg neysla verði hluti af daglegu lífi okkar allra heldur að senda út skilaboðin um að Ísland skilji breytinguna sem verið sé að kalla eftir að og að Ísland ætli að hafa alla ferðamennsku sjálfbæra. Þetta myndi skapa gríðarlega eftirspurn og athygli. En er þetta raunhæft?

Já, það er raunhæft og fyrstu þjóðirnar eru farnar að feta sig í þessa átt – ætla að ná þessari syllu að verða „fyrst til að verða sjálfbær“. Dæmi um þau lönd eru: Kosta Ríka, Slóvenía, Bútan, Noregur, Finnland, Maldívieyjar, Nýja Sjálland og Kenýa.

Styrkur Íslands er að landið hefur trúverðuga ímynd fyrir því að standa fyrir sjálfbæra ferðamennsku og gæti því auðveldlega komist í hóp þeirra topp-fimm þjóða sem slíkt stunda. En til þess þarf leiðarljós, skattalega hvata og frumkvæmi frá ríkisvaldinu þó að sjálfbær ferðamennska á Íslandi gæti auðvitað gert þetta án slíkra hvata – myndi bara taka lengri tíma.

Þetta væri hægt að gera til að koma ferðamennsku sem fyrst í gang og að byggja hana upp inn í nýja tíma þar sem eftirspurn er mjög vaxandi:

[1] HRAÐA ÞVÍ AÐ KOMA FERÐAMENNSKU Í GANG:

Byrja á að gera samkomulag við örfá lönd í einu (1-3 lönd) um að opna á ferðamennsku á milli Íslands og þeirra landa. Lykilatriði hér væri að velja lönd sem eru lík okkur og einkum þar sem COVID-19 sjúkdómurinn hefur skotið sér niður með svipuðum áhrifum og smithlutfalli og átt hefur sér stað á Íslandi. Þannig værum við ekki að fá auknar líkur á smiti heldur aðeins að stækka svipaðan hóp gagnvart sóttvarnarmálum og er til staðar á Íslandi. Þetta þarf að útfæra og að vera, að sjálfsögðu gert í samræmi við íslensk sóttvarnaryfirvöld.

Þýskaland og Austurríki eru byrjuð að ræða á þessum nótum að opna landamæri ríkjanna með þessum hætti. Við ættum að íhuga svipuð skref og velja lönd þar sem beitt hefur verið svipuðum úrlausnum og fólk er vant að hlýða svipuðum fyrirmælum. Þar sem hlutfallsleg smitkúrfa hefur þróast með svipuðum hætti. Sem dæmi mætti nefna Finnland, Króatíu, Möltu og Kanada en það eru lönd þar sem kórónuvírus hefur hent sér niður með svipuðum afleiðingum og á Íslandi og fólk er vant svipuðum reglum um samskipti og eru í gildi hér heima.

[2] BYGGJA UPP NÝJA ÍMYND OG STEFNU FYRIR SJÁLFBÆRRI FERÐAMENNSKU

 1. Að Ísland standi fyrir sjálfbæra ferðamennsku.
 2. Að ástunda ferðamennsku þannig að þörfum viðskiptavina sé sinnt á þess að gengið sé á möguleika kynslóða framtíðar, einkum hvað varðar náttúru, mengun, efnahag, menningu og sögu.
 3. Sjálfbær ferðamennska á Íslandi hafi lágt kolefnisfótspor og að ríkið styðji við kolefnisjöfnun og kolefnisbindingu með skattalegum hvötum.
 4. Að til sé leiðarljós frá stjórnvöldum og skattalegir hvatar til að ástunda sjálfbæra ferðamennsku.

– – –

(Mynd fengin af vefsíðunni: https://guidetoiceland.is/)

 

 

 

Sáttmáli um kaupmátt gæti leyst kjaradeilur (frekar en launahækkanir)

Það eru um 18.000 manns í verkfalli eða á leið í verkfall á vegum Eflingar og BSRB. Búið er að setja fram kröfur sem sumar hverjar lýsa verulegum hækkunum. Auðvitað væri gott ef hægt væri að hækka laun sem mest en við verðum líka að vera raunhæf þannig að launafólk sé að fá raunverulega kjarabót en ekki tímabundna hækkun sem verðbólga, gjaldskrárhækkanir og samdráttur í þjónustu étur upp.

Sérstaklega er varasamt við endann á hagsveiflu síðustu ára að keyra af stað umtalsverðar launahækkanir því fyrirtæki verða á næstu misserum ekki í stakk búin að greiða miklar launahækkanir nema með öðrum aðgerðum sem lækka kaupmátt aftur á ný. Þetta hafa hagfræðingar minnt á (hér) aftur og aftur.  Og allt þetta ofaní hagfræðilega frostið sem kórónaveiran er að valda þar sem neysla, flutningar og ferðalög eru að lenda í gríðarlegum samdrætti (t.d. 90% afbókanir á hótelum í Róm, 80% á Sikiley, sjá hér) en allt slíkt mun hafa neikvæð áhrif í flestum löndum álfunnar.

Gerum nýjan sáttmála um kaupmátt

Við sem þjóðfélag verðum að leita annarra leiða en að fara í umtalsverðar, beinar launahækkanir til að jafna kjör hjá Eflingu og BSRB (og annarra). Hægt væri að horfa á dæmið í heild og ekki hugsa bara um laun heldur kaupmátt. Ef hægt væri að auka kaupmátt án þess að fara út í beinar launahækkanir þá væri leikurinn unninn. Almenningi er alveg sama hvort að laun hækki eða kostnaður heimila minnki – það kemur út á eitt. Horfum því á leiðir til að auka kaupmátt og stefnum á aðgerðir í þeim efnum. Förum í aðgerðir og semjum um sterkari kaupmátt: Gerum því nýjan sáttmála um kaupmátt á Íslandi.

Að lækka gjöld heimila og fyrirtækja en að viðhalda sömu launum myndi framkalla meiri kjarabót en kemur fram í ítrustu kröfum verkalýðsfélaga í dag. Hægt væri að finna leiðir að að lækka vexti heimila og fyrirtækja (húsnæðislán, yfirdráttarlán og annar fjármögnunarkostnaður), lækka kostnað seðlabanka við gjaldeyrisforða og að fá miklu fleiri fjárfesta inn í landið. Þetta væri hægt með gjaldmiðlabreytingu í sama anda og Litháar framkvæmdu 2015 með gríðarlegum ábata fyrir samfélagið allt.

Aðferð Litháa

Litháen tók upp evru í ársbyrjun 2015 og seðlabanki Litháen hefur gefið út skýrslu um ábatann af því að nota evru frekar en gamla gjaldmiðilinn LTL (litas) sem landið notaði í 98 ár. Ábatinn af gjaldmiðlabreytingunni var nefnilega ótrúlega mikill og jók þessi breyting hag almennings og fyrirtækja um tæpan milljarð evra sem er yfir 100 milljarðar íslenskra króna. Það er ekki hægt að yfirfæra þessa tölu beint af því Litháar eru 2,8 milljónir á meðan Íslendingar eru aðeins um 0,4 milljónir en á móti kemur að ýmsir þættir vega á móti, líkt og vaxtakostnaður fyrirtækja og einstaklinga (sem er mun meiri hér á landi) og verðlag og laun einnig mun hærri hér á landi.

Kostnaður við innleiðingu evrunnar í Litháen var að mati seðlabanka landsins sá að verðbólga hækkaði um 0,11% á ári fyrst um sinn. Ávinningurinn reyndist samt vera töluvert meiri. Skoðum því út frá því sem seðlabankinn í Litháen hefur staðfest að sé ábati við að skipta yfir í evru og yfirfærum það yfir á Ísland:

Ávinningur íslensks launafólks yrði mikill

Ef við gerum ráð fyrir svipuðum áhrifum og áttu sér stað í Litháen 2015-2020 þá yrði ávinningur íslensks launafólk mikið við að skipta út ISK yfir í EUR:

 • Miklu meiri fjárhagslegur stöðugleiki fyrirtækja og heimila, „íslenska hagsveiflan“ myndi nánast deyja.
 • Seðalbanki Litháa rökstyður bæði launahækkanir og hækkanir á lífeyri vegna evru – slíkt gæti gerst á Íslandi að sama skapi.
 • Hagvöxtur myndi hækka. Í Litháen myndi jók gjaldmiðislbreytingin hagvöxt um 0,4-0,6% bara vegna breytingar frá LTL yfir í evru.
 • Vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja myndi lækka.
 • Lántökukostnaður myndi lækka verulega.
 • Kostnaður vegna gjaldeyrisforða seðlabanka myndi þurrkast út, er 17-20 milljarðar á ári hér á Íslandi.
 • Myndi auka fjárfestingu á Íslandi.
 • Myndi opna á fjárhagslega samvinnu fjármálafyrirtækja við stærri slík fyrirtæki erlendis.
 • Myndi auka samkeppni á fjármálamarkaði.

Beinn ávinningur fyrir hinn íslenska launþega

Ef við notum útreikninga litháíska seðlabankans og yfirfærum yfir á íslenskt samfélag væri beinn ávinningur þessi 97-119 milljarðar á ári. Sumir aðilar hafa reiknað þessa tölu upp í 150 milljarða á ári (hér) og önnur aðferð (hér) kallar fram töluna 112 milljarðar sem kostnað við ISK á ári. Gróflega getum við talað um að hin íslenska króna kosti fyrirtæki og launþega um 100 milljarða kr. á ári. Hæglega er því hægt að segja gróflega að hin íslenska króna kosti hverja fjölskyldu á Íslandi um 1 milljón króna á ári.

Ávinningur fyrir starfsmann Eflingar eða BSRB við að fá launahækkun gæti verið 50-90 þús. (heildarlaun) og gæti dottið niður um a.m.k. helming á 2-3 árum vegna aukinnar verðbólgu, aukinna álaga, verðhækkana og vegna samdráttar í þjónustu. Þetta myndi þýða að ávinningur vegna launahækkanna eftir skatta myndi vera 30-60 þús. (sem útborguð laun) og gæti því ávinningur eftir 2-3 ár hafa fallið niður í 15-40 þús. á mánuði, ef neikvæð kerfislæg áhrif launahækkanna verða mikil.

Sáttmáli um kaupmátt skilar mun meiru en launahækkanir

Ávinningur vegna launahækkanna gæti orðið 30-60 þús á mánuði (útborguð laun) pr. meðaltalseinstakling en gætu þessi áhrif lækkað umtalsvert ef neikvæð kerfislæg áhrif (t.d. verðbólga) launahækkanna verða mikil.

Ávinningur vegna sáttmála um kaupmátt gætu orðið 70-140 þús á mánuði pr. meðaltalseinstakling (jafngildir lækkun í útgjöldum = hækkun í útborguðum launum).

Hægt er að segja að sáttmáli um kaupmátt gæti skilað tvisvar til þrisvar sinnum þeim ábata sem Efling og BSRB geta náð með launahækkunum. Ef litið er til lengri tíma og horft til neikvæðra áhrifa launahækkanna þá eru áhrifin mun meiri með því að gera sáttmála um kaupmátt.

Niðurstaðan er því að nýr sáttmáli um kaupmátt gæti skilað bæði fyrirtækjum og launafólki mun meiri ábata heldur en launahækkanir. Auðvitað myndu aðgerðir í þessa átt taka tíma en það væri gerlegt fyrir ríkisstjórn að ákveða og tímasetja plan í þessa átt í tengslum við kosningar á næsta ári. Hér er möguleiki á ávinningi fyrir launafólk sem getur orðið töluvert hærri en launahækkanir geta gefið launafólki og væri því til mikils að vinna að ná fram breytingu í þessum dúr. Um þetta ættu allir að geta sameinast, launafólk, fulltrúar fyrirtækja og stjórnvöld.

 

 

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta Íslend­ingar valið úr mörgum sér­eigna­sjóð­um. Margir tugir sjóða eru í boði á okkar litla mark­aðs­svæði og er því mik­il­vægt að móta sér skoðun á því hvaða sjóðir koma til greina sem ágætir val­kostir í við­bót­ar­sparn­aði fyrir almenn­ing.

Engin ein regla er til sem metur hvaða sjóðir eru betri en aðr­ir. Bæði er það að for­sendur fólks eru mis­mun­andi og grunn­gerðir sjóða einnig; svo kemur líka til að það er erfitt að velja hvaða þættir eiga að ráða mestu. Er það ávöxtun eða stöð­ug­leiki eða aðrir þætt­ir? Er væn­legt að velja sjóð með háa ávöxtun en aðeins stuttan starfs­tíma? Eða er betra að velja sjóð sem kom vel út úr hrun­inu, tók litla áhættu? Allt eru þetta spurn­ingar sem hver og einn getur haft mis­mun­andi svör við.

Einnig má geta þess að við höfum mjög mis­mun­andi ávöxtun í sér­eign­ar­sjóðum líkt á einnig við um sam­eign­ar­sjóði (skyldu­líf­eyr­is­sjóð­i). Ef við skoðum alla sjóði á Íslandi þá er mun­ur­inn næstum sexfaldur á hæstu og lægstu með­al­raun­á­vöxtun í sér­eign, ekki ósvipað og er raunin með sam­eign­ar­sjóði. Annað sem gerir það erfitt að bera saman sér­eign­ar­sjóði á Íslandi er að þeir hafa starfað í mjög mis­mun­andi langan tíma. Sumir í 2 ár, aðrir í 10 ár og allt upp í 20 ár eða meira og gerir það allan sam­an­burð erf­ið­ar­i.

Hér á landi hefur verið all­nokkuð hringl með sér­eigna­sjóði, sjóðir að sam­ein­ast og fengið ný heiti og svo sumir að hætta og svo nýjir að byrja sem gerir það að verkum að erf­ið­ara verður að rekja sögu sjóða, einkum þegar saga for­vera sjóða er ekki birt með þeim gögnum sem birt eru í nafni sjóðs með nýju nafni. Þetta lýsir öðrum þræði umhverfi sem er ekki orðið nógu stöðugt í eðli sínu, líkt og margir þættir íslensks við­skipta­lífs hafa verið á síð­ustu ára­tug­um.

Erlendis er algeng­ara að sjá sjóði sem höndla með frjálsan sparnað sem starfað hafa í marga ára­tugi eða jafn­vel meira en 100 ár í óbreyttri mynd. Reynslan sýnir nefni­lega að stöð­ug­leiki í ávöxtun gefur oft vís­bend­ingu um lang­tíma­ár­angur líf­eyr­is­sjóða. Það er því fagn­að­ar­efni að sumir íslenskir sjóðir eru farnir að birta upp­lýs­ingar um stöð­ug­leika í ávöxtun á vef­síðum sín­um.

Ofan­greind mynd sýnir þann mun sem er í ávöxtun íslenskra sér­eigna­sjóða og þýskra sér­eign­ar­sjóða (ávöxtun í evr­um). Við sjáum að ávöxtun er miklu stöðugri á meg­in­land­inu en íslensku sjóð­irnir sýna miklu meiri sveifl­ur. Eft­ir­tekt­ar­vert er að sjá árið 2008 þar sem sér­eign á Íslandi hrundi um -13,4% (þó ekki eins mikið og sam­eign, sem hrundi um -22,9%) en margir sér­eigna­sjóða í Þýska­landi högg­uð­ust ekki. Ef tíma­bilið fyrir hrun er skoð­að, sem var mikið upp­gangs­tíma­bil á Íslandi þá var ávöxtun í evrum og í ISK næstum því sú sama. Tvö ár, 2002 og 2007 drógu mikið úr árangri góðu áranna en í evrum voru öll árin nær því að vera svip­uð. Eftir hrun, sem væri bæði aðhalds­tími og upp­gangs­tími, var áfram mik­ill stöð­ug­leiki í ávöxtun á sér­eign­ar­sjóðum í evrum (í Þýska­land­i). Á Íslandi var ávöxtun sér­eigna­sjóða sveiflu­kennd­ari en samt virð­ist stöð­ug­leiki íslenskra sér­eigna­sjóða hugsanlega vera að aukast, þó ekki sé hægt að segja til um það með vissu.

En ef við skoðum nokkra mik­il­væga þætti eins og ávöxtun sjóða, stöð­ug­leika, líf­tíma og gengi á erf­iðum tímum þá höfum við fjórar breytur sem allar segja nokkuð um það hvort við­kom­andi við­bót­ar­líf­eyr­is­sjóður er álit­legur val­kostur eða ekki. Heild­ar­gagna­safn fyrir alla sjóði er á vef­síð­unni www.Pension­Pro.is og ef ofan­greindar breytur eru skoð­aðar þá kemur í ljós að það eru nokkrir sér­eigna­sjóðir á Íslandi sem hafa staðið sig vel og hafa reynst vera góðir val­kostir þegar kemur að því að velja við­bót­ar­líf­eyr­is­sparn­að. Skoðum nokkur dæmi um slíka sjóði, þótt hér sé ekki til­gang­ur­inn að gefa út var­an­legan lista yfir bestu sjóð­ina.

Hér er mik­il­vægt að lýsa ögn mun­inum á grunn­gerðum sumra sjóða: Alli­anz er trygg­inga­samn­ingur sem tryggir við­skipta­vini ákveðna ávöxt­un. Við­skipta­vin­ur­inn veit hvað hann fær að lág­marki að lok­um. Þannig er sér­eign­ar­sparn­aður oft á meg­in­landi Evr­ópu, trygg­inga­samn­ingar þar sem almenn­ingur veit hvað hann fær að lokum og lág­mar­k­á­vöxtun er tryggð. Íslenskir sjóðir eru hins vegar flestir mark­aðs­sjóð­ir, sem ávaxta fé sjóðs­fé­laga með eigna­stýr­ingu á mörk­uð­um, í sjóðum og með ýmsum öðrum hætti. Ekk­ert er tryggt hvað ávöxtun varð­ar, þó hún sé oft­ast ágæt a.m.k. þegar vel árar. Íslenskir sér­eigna­sjóðir sveifl­ast þannig oft meira (upp og nið­ur) heldur en trygg­inga­samn­ingar og ekki er ein­hlítt hvort reyn­ist bet­ur.

Svo þarf að huga að því, þegar líf­eyrir er geymdur í evr­um, eins og hjá Alli­anz, Bayern o.fl., að líf­eyrir er greiddur með íslenskum krón­um, sú upp­hæð flutt yfir í evrur og eign­ar­safnið geymt og ávaxtað í evr­um. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hversu vel þetta fyr­ir­komu­lag hent­ar. Því þegar kemur að því að fá líf­eyri í evrum greiddan skv. trygg­inga­samn­ingn­um, þá er aftur skipt frá evrum og yfir í íslenskar krón­ur. Það skiptir því máli hvernig verð­bólga þró­ast ann­ars vegar og gengi íslenskar krónu og evru hins vegar og getur það haft mikil áhrif á þá upp­hæð sem hver og einn fær á end­an­um. Það er ágætt að gera sér grein fyrir hver áhrif þess­ara tveggja þátta eru á líf­eyr­is­sparnað sem geymdur er í evr­um.

Ef íslensk króna veik­ist þá hækkar ávöxtun í evrum og svo öfugt. Ef ávöxtun í evrum er 5% og geng­is­breyt­ingar valda því að gengu EUR styrk­ist um 10% þá geng­is­leið­rétt­ist ávöxt­unin upp í 15,5%. Ef gengi ISK styrk­ist um 10% þá verður geng­is­leið­rétt ávöxtun -5,5%. Hins vegar ef verð­bólga eykst þá lækkar ávöxt­unin í evrum og svo öfugt. Ef ávöxtun væri 5% í evrum og verð­bólga væri 2% þá myndi ávöxt­unin vegna verð­bólg­unar lækka úr 5% í 2,9%. Þetta getur spilað saman og haft áhrif í báðar áttir þannig að ávöxtun í evrum styrk­ist eða veik­ist vegna geng­is- og verð­bólgu­breyt­inga. Ef við skoðum stöð­una frá alda­mótum þá hafa geng­is- og ver­bólgu­breyt­ingar hækkað ávöxtun í evrum (aukið líf­eyr­is­eign í evr­um) í 11 skipti en í 8 ár hefur breyt­ingin verið nei­kvæð. Inn í þessu er hið sér­staka ár, 2008, þar sem verð­bólga var 16,4% (hafði lækk­andi áhrif á ávöxtun í evr­um) en á móti kom geng­is­breyting sem var þannig að evran styrkt­ist um 86,4% þannig að sam­an­lagt höfðu geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar þau áhrif að ávöxtun í evr­um, sem var 5,6% þetta ár, varð á end­anum 69,1% séð út frá þeim sem lifðu við íslenska krónu. Þetta ár styrkt­ist því líf­eyr­is­eign í evr­um, líkt og aðrar eignir erlendis og hafði geng­is­breyt­ingin meiri áhrif en verð­bólgu­á­hrif­in. Önnur ár voru, eins og nærri má geta, miklu áhrifa­minni hvað varðar þessar breyt­ingar á gengi og verð­bólgu.

Lyk­il­at­rið­ið, fyrir þá sem vilja ávaxta í evrum er að ef þeir ætla að eyða líf­eyr­inum í evru­lönd­um, t.d. greiða kostnað við ferða­lög efri áranna með þeim líf­eyri þá þarf mjög lítið að hugsa um áhrif og geng­is. Þeir sem ætla sér slíkt eru að leika sterkan leik með því að tryggja sér eign sem er utan við íslenskar sveifl­ur, líf­eyr­is­eign sem býr við stöð­ug­leika og litlar sveiflur í ávöxt­un. Hins vegar gildir fyrir þá sem ætla að nota líf­eyri úr evrum hér heima að þá hafa geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar áhrif og geta þau áhrif verið í báðar átt­ir. Verð­bólga er oft há hér á landi og stundum hærri en geng­is­breyt­ing­ar. Ef fer fram sem horfir að verð­bólga fari almennt lækk­andi þá mun það styrkja eign líf­eyr­is­þega í evr­um. Í nýlegri frétt Seðla­bank­ans um gjald­eyr­is­mark­að, geng­is­þróun og gjald­eyr­is­forða er stöð­ug­leiki gengis að aukast (flökt að minn­ka) en íslenska krónan lækk­aði bæði gagn­vart evru og banda­ríkja­dal á síð­asta ári. Ýtir það undir þær hug­myndir um að líf­eyr­is­eign erlendis sé að styrkj­ast og sé að verða enn sterk­ari val­kostur á næstu árum, ef áfram fer sem horf­ir.

Að geyma sér­eigna­líf­eyri í íslenskum sjóðum tekur alveg úr sam­bandi þessa þætti sem geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar geta haft. Á móti koma meiri sveiflur í ávöxtun íslenskra sér­eigna­sjóða og eru dæmi um að þeir sjóðir hafi hækkað eða lækkað um tugi pró­senta á einu ári. Vera má að sumum kunni það vera áhættu­samt, að t.d. 40% af sér­eign sjóðs­fé­laga eyð­ist á einu ári. Þessa áhættu­þætti verður hver og einn að gera upp við sig. Er meiri áhætta af geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingum eða er meiri áhætta vegna þess að margir íslenskir sér­eigna­sjóðir hafa ávöxtun sem sveifl­ast tölu­vert og taka oft stór stökk í ávöxt­un, upp og nið­ur? Svarið við þessu er ekki ein­hlítt.

Einnig má geta þess að þeir sem hafa hug á því að nýta sér inn­greiðslu á sér­eigna­sparnað til að greiða inn á hús­næð­is­lán að þá henta sjóðir eins og Alli­anz síður heldur en íslensku sjóð­irn­ir. Slíkt skiptir margt fólk tölu­verðu máli, einkum ungt fólk sem sér fram á að stækka við fast­eign sína á næstu miss­erum eða ein­fald­lega þeir sem vilja nota þetta úrræði til að greina niður eigin fast­eigna­lán.

— ― — ― —

Um for­sendur í þess­ari grein: Það ber að hafa í huga að í þess­ari grein er ekki end­an­legur listi yfir sjóði sem hafa staðið sig vel. Ýmisr aðrir sjóðir hafa líka staðið sig ágæt­lega en m.v. þá þætti sem lagðir voru til grund­vallar þá reynd­ust ofan­greindir sjóðir koma einna best út, einkum af því það var reynt að skoða sjóði innan sama tíma­bils. Þetta tíma­bil, 2003-2018, er einna algeng­asta starfs­tíma­bil flestra sjóða í sér­eign á Íslandi, þó að margir eigi líka starfs­sögu utan þess tíma­bils. Þannig var langt var til grund­vallar að velja sjóði sem höfðu sögu fyrir hrun, í hruni og eftir hrun þannig að hægt sé að meta sjóði í mis­mun­andi aðstæð­um. Það er nefni­lega nokkuð inni­halds­rýrt, eins og sumir sjóðir hafa gert, að aug­lýsa góða ávöxtun sjóða sem hafa aðeins starfað í örfá ár, og það jafn­vel á góð­ær­is­tímum þegar flestum sjóðum gengur vel. Einnig ber að hafa í huga að röð sjóða í töfl­unni hefur enga sér­staka merk­ingu. Einnig ber að nefna að ávöxtun í for­tíð er ekki endi­lega vís­bend­ing á ávöxtun í fram­tíð og að auki er rétt að hafa þann almenna fyr­ir­vara að ávöxtun er í eðli sínu slembin og getur að ein­hverju leyti farið eftir til­vilj­unum og heppni eða óheppni. Þegar raun­á­vöxtun allra sjóða er reiknuð þá var stuðst við almennt með­al­tal en ekki vegið þar sem ekki feng­ust ábyggi­legar vog­tölur fyrir alla sjóði. Mik­il­vægt er einnig að veita því athygli að hér er verið að tala um þær leiðir innan sjóða sem eru nefndar í töfl­unni, ekki allar leiðir sjóða. Sumir af þessum sjóð­um, sem nefndir eru í töfl­unni bjóða upp á leiðir sem hafa ekki sama öfl­uga árangur að baki og þær leiðir innan sjóð­anna sem hér eru nefnd­ar. Almennur fyr­ir­vari er gerður um villur sem kunna að slæð­ast með.

 

 

 

 

 

Traust eflist ekki með yfirlýsingum um að ætla sér að gera betur

Eitt sinn var sú tíð að nóg að gera svona til að fá aukið traust hjá almenningi:

Það var sem sagt nóg að segjast vera traustur―tengja sig við traust―til að fá aukna ímynd um traust. Auðvitað virkaði þetta ekki á alla, en marga. Traust á fyrirtækjum og stofnunum var í sterku hlutfalli við það hversu mikið þessir aðilar tengdu sig við traust og töluðu um traust. Þetta var á þeim tímum þegar var lítil samkeppni um traust―næstum allir voru traustir og ef eitthvað kom upp þá var því sópað undir hið eilífa teppi.

Þessir tímar eru liðnir og það sem betur fer. Almenningur mótar sér eigin skoðanir um traust og notar til þess yfirleitt allt annað en yfirlýsingar sjálfra fyrirtækja og stofnana um traust. Almenningur vill dæma út frá verkum af því fólk er orðið nánast ónæmt fyrir yfirlýsingum um að ætla sér að vera traustur.

Mörg dæmi eru um það úr fortíðinni að fyrirtæki hafi gengið svo langt að auglýsa verðleika sína og tala um sig sjálft og sína eiginleika í þriðju persónu (hér er dæmi) sem myndi í dag teljast yfirgengilega taktlaust.  Samt er ekki svo langt síðan að þetta þótti gott og gilt.

Það er sem sagt ekki lengur nóg að lýsa yfir vilja til góðrar hegðunar því það eitt og sér eykur mjög lítið þá tiltrú að hegðun fari batnandi. Annað þarf til að traust megi aukast, einkum þegar traust hefur hrunið mikið á stuttum tíma.

Traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila hefur þynnst út með máli Samherja. Fólk trúir því í auknu mæli að fyrirtæki geti farið sínu fram án þess að nægjanlegt eftirlit sé fyrir hendi. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir ríkisstjórn að bregðast við stöðunni með aðgerðum sem raunverulega auka traust. Nú er búið að tilkynna um þessar aðgerðir:

 1. Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja.
 2. Auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja.
 3. Stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi.
 4. Ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót.
 5. Tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna.
 6. Varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum.
 7. Fylgjast með viðbrögðum erlendis.
 8. Óska eftir út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða.

Eru þessar aðgerðir líklegar til að auka traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila?

Atriði 1 og 2 eru sama atriðið, beint að tveimur mismunandi gerðum fyrirtækja. Að betra aðgengi sé að upplýsingum um þrjá þætti sem tengjast þessum fyrirtækjum: Upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Hér er ólíklegt að þessi atriði auki traust á ríkisstjórn, eftirlitsaðila og getu þeirra til að sjá fyrir og koma í veg fyrir að mál geti átt sér stað eins og Samherja-málið blasti við í fréttaþættinum Kveik. Fyrirtæki geta nefnilega sett fram allar þessar tölur og upplýsingar án þess að neitt grunsamlegt vakni, jafnvel þótt að verið sé að ástunda á bak við tjöldin greiðslur sem eiga sér ekki eðlilegar skýringar. Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá úr upplýsingum um rekstur? Lista yfir mútugreiðslur? Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá í upplýsingum um góða stjórnarhætti? Yfirlýsingu fyrirtækja að stjórnarhættir þeirra séu nú ekki góðir af því að þau ástundi mútur? Við búum ekki í kvikmyndinni „The Invention of Lying“ þar sem allir segja 100% satt. Við búum í heimi þar sem fyrirtæki eiga það til að ganga mjög langt til að fela vafasama slóð.

Atriði 3, að stuðla að úttekt er enn ólíklegra til að auka traust. Nógu lítil áhrif hefur það að láta vinna úttekt, of oft er slíkt plagg kurteisislegt tal um ýmsa þætti þess sem skoðað er. Hvað þá með að stuðla að úttekt? Það hefur enn meira vægi. Alveg eins væri hægt að setja á aðgerðalista ríkisstjórnar að stuðla að því að stór fyrirtæki fari nú að haga sér sómasamlega. Hverju myndi það skila? Líkast til engu.

Atriði 4 er í sjálfu sér jákvætt en hefur lítið vægi af því fyrirtæki láta aðra leppa eignarhald ef eignarhald er ekki í lagi vegna tengdra aðila. Þetta hafa fyrirtæki gert um langt skeið og sást vel í Rannsóknarskýrslu Alþingis eftir hrun þar sem leppun eignarhalds var ástundað allsstaðar þar sem þurfti. Notað eins og kítti gegn leka. Þetta atriði mun því varla auka traust almennings gagnvart getu ríkisstjórnar og eftirlitsaðilum mikið, a.m.k. ekki hvað eftirfylgni gagnvart gott viðskiptasiðferði varðar.

Atriði 5 er mjög jákvætt og mun líklega hafa áhrif til þess að bæta traust. Ef rannsóknaraðilar hafa svigrúm til að starfa vel og faglega þá er mikilvæg stoð til staðar. Mjög mikilvægt.

Gagnvart atriði 6, þá skiptir öllu máli hvernig varnir eru settar upp. Gall

Atriði 7, hefur eðli málsins samkvæmt ekki nein áhrif á traust af því að stjórnvöld eiga alltaf að fylgjast með orðræðu erlendis.

Atriði 8 er þess eðlis að það gæti haft jákvæð áhrif í þá átt að ýta undir traust en það verður að koma í ljós þegar út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða verður birt hver áhrifin verða.

Aðferð handhægra hænuskrefa

Tölum út frá „game theory“ og skoðum leikinn: Stjórnvöld að reyna að passa að einkafyrirtæki valdi ekki samfélagslegum skaða. Gallinn við þennan leik er að stjórnvöld eru alltaf nokkrum leikjum á eftir. Stjórnvöld eru allt of lítið að fylgjast með þessum málum með pro-aktífri vinnu og regluverki. Þegar almenningi ofbýður þá fara stjórnvöld af stað og spila nokkra leiki. Gallinn er hins vegar að einkafyrirtæki eru að spila leikinn alla daga og hafa því yfirleitt langan tíma til að undirbúa nýja leiki sem sjá við hægum leikjum stjórnvalda.

Dæmi: Bannað er að framleiða stórtæk vopn (WMD-vopn) víða og eru það samfélagslegir hagsmunir sem ráða slíku banni. Flestir eru sammála því að hefta framleiðslu slíkra hættulegra vopna. Bannið er þannig að það er bannað að framleiða þessa hluti í mörgum Vestrænum löndum (þó ekki öllum) og nær bannið til þess að ekki megi fullframleiða þessi vopn. Einkafyrirtæki framleiða þá vopnin í 2-3 löndum og flytja til enn annars lands þar sem þau eru sett saman. Stjórnvöld víðast hvar vita af þessu en gera fátt í þessu af því almenningur er ekki að krefjast þess. Þarna taka stjórnvöld lítil hænuskref í málinu og gefa einafyrirtækjum fullt svigrúm til að fara framhjá lögunum. Alltof oft nota stjórnvöld þessa aðferða handhægra hænuskrefa. Gera eitthvað en vita það að sum einafyrirtæki munu finna nýja leikfléttur og komast framhjá lögum ef þau vilja nógu mikið.

Stjórnvöld eru oft aðeins að hugsa um næstu kosningar og athafnasýn þeirra nær oft ekki lengra en að næsta kjördegi. Ef almenningur er óánægður þá þarf að gera eitthvað. Markmið stjórnmálamanna er því að sefa óánægju, ekki að semja úthugsuð lög sem gera samfélagslegt rými almennings og einkafyrirtækja betri til lengri tíma. Í þessu liggur aðstöðu- og markmiðamunurinn hjá þessum tveimur aðilum.

Stjórnvöld þurfa því að skipta út aðferð handhægra hænuskrefa þegar þau eru að eiga við fyrirtæki sem geta í ákveðnum aðstæðum skapað eða ýtt undir samfélagslega hættu, ójöfnuð, auðsöfnun, ólöglega fjármagnsflutninga og mútur. Stjórnvöld þurfa að taka upp aðferð langtíma lagasetningar þar sem þau gera ráð fyrir að aðilar reyni að komast framhjá þeim lögum sem verið er að semja. Átta sig á hvern er verið að „díla við“ og hvernig leikreglur eru í raun og veru. Taka þá hugsun út að enginn ætli að leita nýrra leiða, nýrra klækja. Stjórnvöld þurfa þess vegna í allri lagasetningu sem varðar siðferði og fyrirtækjaumhverfi að setja fram miklu víðtækari lög sem taka ekki aðeins á tilvikinu sem nýbúið er að koma upp heldur binda hendur þeirra sem reyna að spila grófasta leikinn og beita mestu klækjunum.

Hvað væri hægt að gera frekar til að auka traust?

Traust á milli stjórnvalda og almennings eykst ef:

(1) stjórnvöld bregst við í erfiðum málum með aðgerðum sem eru það öflugar að almenningur fær trú á að nú sé eitthvað að breytast,
(2) ef stjórnvöld framkvæma eitthvað sem hefur afgerandi áhrif á að sömu hlutir endurtaki sig ekki,
(3) ef stjórnvöld fara út fyrir þægindarammann og hugsa hlutina lengra en fram að næstu kosningum
(4) og ef stjórnvöld sýna það glögglega að hagur almennings er númer eitt.

Það eru sem sagt ótvíræðar aðgerðir en ekki hvít- og kattarþvottur sem fær traust á milli stjórnvalda og almennings til að aukast. Til að svo megi verða þá þurfa stjórnvöld að stíga aðeins meira út fyrir þægindaramman en þau hafa gert til þessa. Af því að traust mun ekki aukast með yfirlýsingum um að ætla sér að gera einhverntíman seinna betur.

 

 

 

 

 

 

Með yfirlýsingu gegn kynjahalla sýnir Íslandsbanki samfélagsleg ábyrgð

Íslandsbanki hefur sett viðskiptabann á karllæga fjölmiðla (sjá hér). Þessi yfirlýsing bankans hefur kallað fram mikil viðbrögð og er fróðlegt að velta fyrir sér hvað liggi hér að baki.

Á hverju byggir andstaða margra við yfirlýsingu bankans?

Andstaða vegna þess að fjölmiðlar eiga að vera frjálsir. Bankinn er hér að taka afstöðu með jafnrétti kynjanna. Það er sérstaklega mikilvægt samfélaglegt mál. Það er mikilvægt að gefa fjölmiðlum  þau skilaboð að það þurfi að hlúa að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Þetta er enn mikilvægara en áður af því að flestir fjölmiðlar í dag eru tengdir inn í öflugar einingar, inn í stjórnmálaflokka, inn í fyrirtæki og inn í valdamikla hópa. Fjölmiðlar eru því ekki frjálsir eins og áður voru dæmi um. Eigendur fjölmiðla þurfa því aðhald í þá átt að fylgja eðlilegum kröfum samtímans. Einstaklingar geta haldið á lofti samfélagslegri ábyrgð en ef öflug fyrirtæki gera það líka þá nást mikilvægar breytingar fram miklu hraðar en ella.

Andstaða er einnig vegna þess að það er sagt að fjölmiðlar eigi að vera sjálfstæðir og að ákvörðun Íslandsbanka sé aðför að sjálfstæði ritstjórna. Hvernig geta áherslur bankans verið aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði? Bankinn er ekkert að skipta sér af áherslum ritstjórna hvað efnisþætti varðar. Ritstjórnir geta eftir sem áður fjallað um öll mál með þeim efnistökum sem þeir vilja. Bankinn er hins vegar að leggja áherslu á að kynjahalli sé lagaður. Það er ekki stýring á efnisáherslum ritstjórna. Yfirlýsing bankans er þannig hvatning til samfélagsins til þess að leggja áherslur sem bæta samfélagið. Alveg eins og ef einhver fjölmiðill myndi taka upp á því að auglýsa áfengi og gera því hátt undir höfði. Það væri jákvætt ef einhver stór auglýsandi myndi neita að auglýsa í slíkum fjölmiðli sem myndi misbeita sér með slíkum hætti. Yfirlýsing Íslandsbanka er af sama meiði: Að hvetja til þess að sanngjarnari og réttlátari áherslur séu hafðar í heiðri.

Hvað með vilja fólks til að stór fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum?

Andstaða er til staðar vegna þess að banki á ekki að taka pólitíska afstöðu, segja margir. Eitt af því sem hefur breyst mikið á síðasta áratug er að almenningur og viðskiptavinir vilja að fyrirtæki taki afstöðu í mikilvægum samfélagsmálum. Það vegur lítið ef lítill hópur eða smáfyrirtæki lýsir sig fylgjandi samfélagslegum málum en ef stór banki gerir það þá hefur það miklu meira vægi. Þannig eru stór fyrirtæki alltaf að verða mikilvægur hornsteinn til að ýta undir nauðsynlegar breytingar því ef fyrirtæki taka ekki afstöðu gagnvart samfélagsmálum verða breytingar svo miklu hægari og torsóttari. Kannanir Edelmann frá 2018 sýna mjög aukna þörf almennings til að stærri fyrirtæki og þekkt vörumerki taki afstöðu til mikilvægra mála. Þessi krafa er mjög í vexti; það var aðeins um helmingur fólks sem hafi þetta viðhorf 2017 en ári síðar voru það 64% sem vildu þetta mjög skýrt.

Nútíminn gerir því skýra kröfu um að stór fyrirtæki taki skýra afstöðu í samfélagslegum málum. Íslandsbanki er með þessari yfirlýsingu að segja að hann skilji nútímann og ætli sér að vera hluti af honum. Og þarna er bankinn ekki að gera neitt annað en að vera samkvæmur sjálfum sér því Íslandsbanki hefur öðrum bönkum fremur haft ímyndina „nútímalegur banki“ og ef Íslandsbanki myndi ekki taka afstöðu til samfélagslegra mála þá væri bankinn einfaldlega að skaða vörumerki sitt meira en hægt væri að réttlæta.

Og sumir tala um andstöðu vegna þess að bankinn býr sjálfur við kynjahalla varðandi laun og starfsfólk. Þetta er allnokkur rökleysa. Að engin megi lýsa yfir skoðun og vilja til breytinga nema að hafa aldrei gert neitt gagnrýnivert áður? Er það virkilega svo? Hver ætlar að vera svo háheilagur að segjast geta fylgt þessari reglu? Ef ég segi: Við skulum öll reyna að gera betur – má ég þá ekki segja slíkt ef ég hef einhverntíman áður ekki náð að gera eins og ég gat? Er það bara hin fullkomna mannvera – hið fullkomna fyrirtæki – sem má búa til reglur samfélagsins? Hér er sú rökvilla sett fram að snúa yfirlýsingu Íslandsbanka yfir í það að bankinn sé að fordæma alla sem séu ekki fullkomnir – fordæma alla sem hafa ekki kynjamál í 100% lagi. Það er ekki svo. Bankinn er að hvetja okkur öll og samfélagið allt til að gera betur á sviði jafnréttis kynja. Bankinn er ekki að dæma. Bankinn er að hvetja til betri breytni með því að segjast ætla að taka betri ákvarðanir sjálfur.

„Hatar Íslandsbanki karlmenn?“ er svo dæmi um ýkta og tilhæfulausa skoðun sem sett hefur verið fram vegna yfirlýsingar Íslandsbanka. Annar sagði að nú væri Íslandsbanki að eyðileggja öll fyrirtæki þar sem einyrkjar starfa þar sem aðeins er 1 karlamaður starfsmaður. Ekkert af þessu á sér nokkurn fót. Þetta lýsir bara undarlega mikilli hræðslu við breytingar sem eru óumflýjanlegar. Bankinn hatar ekki karlmenn og ætlar áfram að vera jákvæður út í öll fyrirtæki – líka stór fyrirtæki þar sem aðeins karlmenn starfa og veita slíkum fyrirtækjum áfram góða þjónustu. Bankinn var ekki að beina þessari yfirlýsingu til karlkynsins heldur til máttarstólpa samfélagsins: Fjölmiðla sem hafa mikil áhrif á skoðanir landsmanna. Þar er mikilvægt að veita aðhald.

Allir eru sammála um að fyritæki eigi að sýna samfélagslega ábyrgð. En það er ekki bara að gróðursetja tré og gefa leikskólabörnum buff. Það er líka að taka ábyrgð á því að samfélagið þróist í jákvæða átt. Alveg eins og að hvetja samfélagið til að efla heilsu eins og Íslandsbanki gerir með Reykjavíkurmaraþoni. Með sama hætti er Íslandsbanki að hvetja samfélagið að þróast í jákvæða átt, með þessari yfirlýsingu sinni.

Kjarni málsins: Íslandsbanki er að ákveða að auglýsa ekki í fjölmiðlum sem viðurkenna ekki jafnrétti kynjanna í verki. Neikvæðu viðbrögðin eru e.t.v. í mörgum tilfellum vegna þess að fólk lætur hræðsluna við eðlilegar kröfur samtímans um breytingar bera sig ofurliði. Hræðslan að það sé verið að breyta þjóðfélaginu um of og hræðslan að það sé verið að ýta þér og þínum gildum til hliðar.

Yfirlýsing Íslandsbanka er því mikilvægt framlag til samfélagsins alls (er í raun eitursnjöll) því að bankinn er með þessu að stíga inn í nútímann á svo mörgum sviðum og flytja hugtakið samfélagsleg ábyrgð upp á nýtt og mikilvægara stig. Einnig er bankinn að svara aukinini þörf meirihluta fólks að fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum. Öryggi í umferð, hvetja til útiveru, hvetja til að taka ábyrgð á heilsu. Allt þetta hafa fyrirtæki gert. Af hverju ekki að ýta undir jafnrétti kynjanna?

Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Eigum við að hafa börnin okkar á leikskóla þar sem næring í fæðu er 100% en hlýja og manngæska á lágu stigi? Nei, við erum flest sammála um að framkoma, hlýja og manngæska starfsfólks sé grunnatriði og að önnur atriði skipti flest minna máli.

Þetta hefur alveg farist fyrir í skipulagsmálum. Við deilum um nýtingarhlutföll, byggingarmagn, hæðir húsa og aðgang að sólargeislum en tölum aldrei um aðalþáttinn sem byggingar þurfa að uppfylla: Að fegra umhverfi sitt og ýta undir þann staðaranda sem er á hverjum stað fyrir sig. Að fólk sé ánægt með að fá nýja byggingu á nýjan stað. Að byggingar gleðji augun.

Bygginarlist hefur auðvitað verið allavega síðustu árhundruð en oft hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja í þeim anda að verið sé að prýða bæi og borgir. Að fegra. Að gleðja augun. Að vekja upp löngun til að virða fyrir sér nýja byggingu og að sækja í það að vera í nánd við hana. Að vera sáttur við að hún sé komin til að vera. Að hún hjálpi hverfi að vaxa og dafna og ýti upp andanum um gott mannlíf í bæjum og borgum.

Mörg dæmi frá gamalli tíð eru til þegar metnaður var lagður í að byggja falleg hús – þá þótti það eðlilegur þáttur að taka með inn í ákvörðunarferlið. En þegar við hættum þessum áherslum erum við komin með byggingarmenningu þar sem hagnaðardrifnir aðilar fá stærri hluta af byggingar-kökunni og við hin sitjum uppi með hús sem eru hönnuð sem ódýrust (oft kassalaga „gámaarkitektúr“) en eru látin kosta það sama eins og ef mikil vinna væri lögð í að tryggja fegurð og smekkvísi bygginga. Þegar þetta er raunin, þá erum við komin á einhvern súran stað þar sem dómgreindin er búin að tapa fyrir Excel-skjalinu.

Sem betur fer er ljós í myrkri: Fleiri og fleiri byggingaaðilar (t.d. í Skandinavíu) hafa tekið upp gamalt handbragð og stíl og þróað nútímalegar aðferðir við að byggja aftur fagurt. Þetta verður aðeins gert með því að tryggja óhagnaðardrifna byggingaferli (lesist: hóflega hagnaðardrifið byggingarferli). Hér eru myndir frá sænsku hönnuðunum í Jupiter & Gran sem hafa þróað klassíska byggingarstílinn áfram og bætt hann með nútímalegum og skilvirkum vinnubrögðum. Svona er að eiga sér stað í Svíþjóð í dag varðandi nýbyggingar:

Fleiri myndir hér af FB-síðu Jupiter & Gran eru hér: https://www.facebook.com/pg/sundswalltrafastigheter/photos/

Meginmálið er þetta: Skipulagsyfirvöld verða að taka formfegurð og staðaranda inn í ákvarðanaferli um leyfi til nýbygginga. Það er ekki hægt að segja að fegurð bygginga sé smekkur sem sé breytilegur hjá hverjum og einum. Danski arkitíektinn Jan Gehl hefur haft frumkvæði að því að þróa aðferðir til að meta formfegurð og hvað almenningi þykir um nýjar bygginar sem eiga hugsanlega að rísa.

Á Akureyri er nú deilt um hvort kassalaga fjölbýlishús eigi að fá að rísa á lágreistri byggð Oddeyrarinnar. Til eru aðferðir til að leggja mat á hvað fólki finnst. Skipulagsyfirvöld gætu látið framkvæma kortlagningu á upplifun fólks gagnvart nýju húsunum og notað þann lykilþátt sem eitt atriðið í þeirri ákvörðun hvort viðkomandi eiga að rísa. Það væri gott innlegg í málið og svo sannarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp og styðja við þann fallega og eftirsóknaverða staðaranda sem er á Oddeyrinni.

Víða í borgun er algjört bann við því að breyta ásýnd þess stíl sem markaður er í byggingum borga. Amsterdam og Boston hafa verið framarlega hvað þetta varðar. Þar er skýr krafa um útlit og að nýjar byggingar efli staðaranda. Ef Íslendingar bera gæfu til að opna á þessar áherslur munum við á ný ganga inn í blómaskeið nýrrar byggingalistar þar sem sátt almennings og skipulagsyfirvalda nær nýjum hæðum. Tækfærið er núna með verkefnum einsog nýju Oddeyrarhúsunum. Tækifærið fór forgörðum á Hafnartorgi í Reykjavík. Ákvörðunin og valið er í höndum skipulagsyfirvalda.

Hagvöxtur mælir neyslu, ekki framfarir. Varasamur mælikvarði?

Hagvöxtur er mælikvarði á neyslu en ekki framfarir þjóða. Aukin neysla, aukin plastnotkun, aukið kjötát og aukin matarsóun sýna aukinn hagvöxt. Hagvöxtur mælir hvort efnahagslífið sé á hreyfingu en mælir ekki hvort það hreyfist í rétta átt. Þessu þarf að breyta.
– – –
Í raun má segja að hagvöxtur mæli vöxt á öllu nema á þeim þáttum sem gera lífið bærilegra til lengri tíma litið. Hófsöm neysla, minni matarsóun, fleiri gæðastundir, andleg upplifun, góð samskipti, eftirminnileg upplifun er ekki tekið inn í jöfnuna fyrir hagvöxt. Hagvöxtur vex hins vegar ef vextir hækka á húsnæðislánum. Hagvöxtur vex ef mengun eykst (sem afleiðing af aukinni neyslu og framleiðslu) og hagvöxtur eykst ef við erum að ganga á á og þurrka upp auðlindir jarðar. Mikil aukning í hagvexti er oft nátengd auknum ójöfnuði og aukinni stéttaskiptingu. Hagvöxtur eykst mikið ef 10% ríkustu verða ríkari en eykst miklu minna ef 50% neðstu verða ríkari. Það er því mikil þörf á að endurbæta mælingar á hagvexti þannig að hann taki inn í myndina framfarir en ekki neyslu og hætta að verðlauna ofbeldi gangvart umhverfinu. Það vantar sem sagt sjálbærni og raunverulegar framfarir inn í mælingar á hagvexti.

Önnur birtingamynd á galla hagvaxtarmælinga er að framleiðsla á stríðstólum eykur hagvöxt. Og ef einhver ákveður að sprengja upp borgir og landssvæði og byggja þær aftur upp þá framkallar það mikinn hagvöxt. Aukin framleiðsla stríðstóla og morðvopna skapar einnig hagvöxt og svona mætti lengi telja. Sú mýta hefur meira að segja verið uppi að stríð séu nú að ýmsu leyti jákvæð vegna alls þess hagvaxtar sem fylgir í kjölfarið. Þetta er mikil vitleysa því augljóst er að það er hagkvæmara og heppilegra fyrir samfélagið að gera eitthvað annað en að sprengja og byggja upp borgir. Það væri alltaf heppilegra að framkalla meiri athafnir af þeim toga heldur en að reyna að réttlæta stríð og eyðileggingu með hagvexti.

Hagvöxtur er því með öllu ónothæfur mælikvarði eins og hann er notaður og reiknaður út nú. Það mætti hins vegar skoða að draga ýmsa þætti frá hagvaxtartölum, eins og framleiðslu stríðstóla, morðvopna og losun CO2. Þetta er sú leið sem við þurfum að fara: Að byrja á að mæla GGDP („Green Gross Domestic Product“) sem mætti kalla grænan hagvöxt eða kolefnisjafnaðan hagvöxt sem tekur inn í hefðbundinn hagvöxt alla losun sem framkallast í hagkerfinu við vöxt eins og framleiðslu og neyslu. Hagvöxtur með ábyrgð. Ef fyrirtæki losar 1 tonn af CO2 þá væru áhrif þess dregin frá hefðbundnum hagvexti þannig að aukin plastnotkun, meiri matarsóun og aukin neysla myndu (samanlagt) reiknast rétt í mælingum á hagvexti. Þetta er ekki ný hugmynd (hún kom fyrst fram 1972). Það myndi breyta strax mjög miklu ef Hagstofan og greiningadeildir bankanna myndu breyta reiknireglum sínum á hagvexti í þessa veru.

Mestu vaxtalækkanir í áraraðir

Í kjölfar vaxtahækkana á húsnæðislánum hjá einstaka lífeyrissjóðum hafa spunnist upp miklar umræður hvenær réttlætanlegt sé að hækka vexti. Auðvitað eru mörg sjónarmið sem þar koma inn í, bæði tryggingafræðileg staða sjóða en einnig skiptir máli að hafa í heiðri hagsmuni lántakenda, að hækka vexti ekki um of, út frá sanngirnis- og siðferðislegu sjónarmiði. Síðarnefndur sjónarmiðin hafa til þessa verið á stóru gráu svæði, hér á landi og oft lítil tillit tekið til þeirra.

Vextir hafa verið að lækka mikið hvort sem horft er til Íslands, Skandinavíu, Evru-svæðisins eða til Bandaríkjanna. Við höfum við verið að upplifa einstakt vaxtalækkunarskeið á húsnæðis­lánum og er langt síðan jafn öflugt lækkunarferli hefur sést í tölum. Nokkur dæmi:

Þróun vaxta á húsnæðislánum á evru-svæðinu, breytilegir vextir með yfir 10 ára vaxtatímabil skv. evrópska seðlabankanum (sjá hér). Vextir eru nú með lægsta móti:

Einnig hefur þróun vaxta á 30 ára húsnæðislánum í Bandaríkjunum verið að lækka verulega hin síðari ár (sjá hér). Og ef við lítum aðeins út fyrir húsnæðismarkaðinn þá hafa vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum í 30 helstu nágrannlöndunum hafa lækkað í öllum löndum frá áramótum utan við eitt land, Litháen þar sem vextir á þeim bréfum hafa staðið í stað (sjá hér):

Þeir lífeyrissjóðir sem hafa reynt að rökstyðja hækkun vaxta, síðustu mánuði, eru í þeim ákvörðunum sínum mjög á skjön við alla þróun vaxta, víðast hvar í okkar heimshluta.

Hægt væri e.t.v. að rökstyðja vaxtahækkanir hjá lífeyrissjóðum ef afkoma þeirra væri tvísýn eða ef tryggingafræðileg staða hefði veikst hin síðustu misseri. Þvert á móti þá hafa þær tölur styrkst og er afkoma mjög viðunandi og horfur góðar, sé vitnað í ársreikninga þeirra sjóða sem reynt hafa að ástunda vaxtahækkanir.

Enn furðulegra verður málið skoðað þegar krafan á verðtryggðum ríkistryggðum bréfum (HFF) er skoðuð en hún hefur lækkað verulega, síðustu misseri:

Sú mikla umræða um vaxtahækkanir Lífeyrisjóðs verslunarmanna hefur reyndar kallað fram hvað stefnumótun og skýrar leikreglur eru í sumum tilvikum byggðar á veikum grunni í lífeyriskerfinu. Stjórnendur sjóða geta hækkað vexti til að treysta góða afkomu sjóðs í næsta ársreikningi, en eftir þeim niðurstöðum eru þeir að hluta dæmdir. Og hver vill ekki fá jákvæðan dóm? Það hlýtur því að vera ákveðin umframhvatning sem er í einhverjum tilvikum til staðar í lífeyrissjóðum landsmanna, að hækka vexti meira en nauðsynlegt er, til að tryggja viðunandi afkomu. Þessa umframrentu verða greiðendur húsnæðislána – almenningur sjálfur – að greiða, í hverjum mánuði. Veik staða almennings að svara vaxtahækkunum hefur lengi verið óviðundandi hér á landi því sjóðir og fjármálafyrirtæki hafa haft ægivald yfir vaxtaákvörðunum sem hafa beina tengingu við afkomuna. Freistnivandinn er því til staðar og því þarf skýrari reglur og að skerpa á stefnumótun svo að það sé ekki alltaf almenningur sem þarf að breikka bakið ef stjórnendur sjóða skynja minnsta mögulega ótta um að ókyrrð sé í nánd.

Og ef vaxtaþróun á Íslandi er skoðuð út frá Hagtölum Seðlabanka Íslands þá má sjá að við lifum nú lægsta vaxtaskeið í áratugi ef undan er skilið mitt ár 2011 þegar eftirleikur hrunins kallaði fram ögn lægri vexti en eru nú, 5,25%. Lægstu óverðtryggðu vextir af skuldabréfalánum nú eru 5,60% sem er lægsta tala sem sést hefur á góðæristímum um langt skeið, hér á landi:

Sama saga er því sögð í öllum tölum, hér heima og í tölum annarra landa: Seðlabankar, lífeyrissjóðir, bankar og fjármálafyrirtæki eru öll sem eitt að hamast við að lækka vexti. Hvernig á íslenskur lífeyrissjóður í ósköpunum að rökstyðja það að hækka þurfi vexti? Voru gerð mistök í fortíðinni sem þarf að breiða yfir nú?

 

Núverandi ástandi í vaxtaákvörðunum húsnæðislána, sem hafa mikil áhrif á almenning er því eitt stórt, grátt svæði þarf sem skýra þarf leikreglur, siðferði og ferli ákvarðana, þannig að það sé ekki alltaf öllu velt á hin breiðu bök vinnandi fólks. Hvað með þegar lífeyrissjóður gerir mistök í fortíðinni og sér þau ekki fyrr en nokkrum árum síðar í slakari tryggingafræðilegri stöðu? Það væri auðvelt að hylma yfir slíkt með því að hækka vexti á allt aðra kynslóð en þá sem var til staðar þegar mistökin voru gerð. Slíkt hefur komið fyrir í vaxtaákvörðunum lífeyrissjóða og er enn að koma fyrir. Aftur, þá er þetta þægindaumhverfi lífeyrissjóða eitthvað sem þarf að skerpa á með skýrari stefnumótun í samvinnu við FME. Lykilatriðið er að hafa ákvarðanir um vexti í takt við þróun hér heima og erlendis. Að vaxtahækkanir lífeyrissjóða sem koma í kjölfar fádæma vaxtalækkana Seðlabanka séu ekki liðnar nema að til komi haldbærar skýringar sem setji hina raunverulegu ástæðu á borðið.

Þetta vandamál – vaxtahækkunarfreistni – hefur svo leitt til þess að vextir eru tvö- til þrefalt of háir á Íslandi m.v. nágrannalönd. Árin hafa liðið og fólk verður sífellt óánægðara en lítið gerist. Að taka á þessum vanda og opna umræðuna, eins og VR gerði nýlega kallar því fram mikil neikvæð viðbrögð, fyrst og fremst vegna þess að sjónarmið almennings hafa ekki áður verið lögð á borðið þegar vaxtaákvarðanir eru teknar og lífeyrissjóðir hafa ekki vanist því að þurfa að taka tillit til sjónarmiða almennings í sama mæli hér og tíðkast í nágrannalöndunum. Umræðan bendir vonandi til þess að hagsmunir almennings verði oftar settir á borðið þegar ákvarðanir um vextir eru teknar.

Framtíðin hlýtur að bjóða almenningi upp á breytt landslag í vaxtaákvörðunum: Að hugsað sé bæði um hag sjóða og hag greiðenda þegar vaxtaákvarðanir fara fram. Allt bendir til þess að nokkuð lengi hafi hallað á annan aðilann um of í þessum dansi, að vextir hafa verið of háir og hvorki lífeyrissjóðir né stjórnvöld hafa gert mikið til að líta til sanngirnissjónarmiða fyrir almenning í landinu. Við vonum að þetta sé að breytast og lífeyrissjóðir og aðrar fjármálastofnanir endurskoði þá „þægindastrategíu“ að hækka vexti í hvert sinn sem einhver óstöðugleiki gerir vart við sig í hinum miklu víðáttum Excel-skjala.

(Þessi grein birtist einnig í Kjarnanum, sjá hér.)

Lífeyrissjóðir „hálfbirta“ gögn

Á árunum fyrir hrun var traust almenn­ings á líf­eyr­is­sjóðum fremur hátt eða um 30-40%. Eftir hrun hrap­aði traustið niður í um 8% árið 2013 og hefur síðan þá mælst á bil­inu 13-20% (MMR) og er því óhætt að segja að enn sé nokkuð í land að traust almenn­ings á líf­eyr­is­kerf­inu sé á við­un­andi stað.

Í mörg ár hefur almenn­ingur kraf­ist þess að líf­eyr­is­sjóðir birti ávöxtun sjóða með aðgengi­legum hætti. Í umhverfi þar sem mikið traust rík­ir, er slíkt auð­sótt mál, enda er um að ræða sjálf­sagða kröfu um eðli­legt gagn­sæi. En líf­eyr­is­sjóðir tóku í fyrstu dræmt í þessa ósk almenn­ings og nefndu að slíkt væri óþarfi, almenn­ingur ætti bara að treysta sjóð­un­um. Eftir margra ára ítrek­anir og þrýst­ing frá fjöl­miðlum sögð­ust líf­eyr­is­sjóðir þó á end­anum ætla að birta tölur um ávöxtun og hefur það nú nýlega gerst. Líf­eyr­is­sjóðir birtu á dög­unum upp­lýs­ingar um ávöxtun sinna sam­eign­ar­sjóða (skyldu­líf­eyr­is­sjóða) á vef sín­um, lif­eyr­is­mal.­is. Olli það þó von­brigðum þegar í ljós kom hvað lítið af gögnum voru birt og hvað þau voru sett fram á ólæsi­legan máta. Má í stuttu máli segja að líf­eyr­is­sjóðir hafi rétt svo hálf­birt gögn, og tæp­lega þó, ef grannt er skoð­að.

Líf­eyr­is­sjóðir birta nú aðeins gögn aftur til árs­ins 2009 og sýna engin eldri gögn sem þó liggja fyrir og birta engin gögn af hrunsár­unum eða á árunum fyrir hrun. Þó eru til gögn sem liggja fyrir aftur til 1997 fyrir alla sjóði og fyrir marga hverja eru til gögn mun lengra aft­ur. Að auki eru heild­ar­tölur fyrir kerfið til­búnar aftur til árs­ins 1971 og því er mikið til af gögnum sem ekki þótti ástæða til að birta nú. Að birta aðeins síð­ustu 10 árin af þeirri 20-25 ára gagna­sögu sem liggur fyrir er ekki til þess fallið að auka traust almenn­ings á líf­eyr­is­kerf­inu.

Fyrir ein­stak­ling sem fæddur er 1970 má gera ráð fyrir að við­kom­andi hafi byrjað að fullu að greiða í líf­eyr­is­sjóði um 25 ára ald­ur, árið 1995. Ef þessi ein­stak­lingur vill skoða stöðu sína í upp­lýs­inga­veitu líf­eyr­is­sjóða þá fær hann ekk­ert að vita um ávöxtun sjóða fyrstu 14 greiðslu­árin sín. Þó er þarna um að ræða ár þar sem mikið reyndi á kerfið og má sjá út frá gögnum hverjir tóku óþarf­lega mikla áhættu á mik­il­vægum augna­blikum í for­tíð­inni. Ekki er hægt að sjá þetta í þeim gögnum sem líf­eyr­is­sjóðir birta nú. Við­kom­andi ein­stak­lingur fær aðeins að sjá 41,6% af þeim gögn­unum sem liggja fyrir en meiri­hluta gagna (58,3%) er vís­vit­andi haldið frá.

Auð­vitað á líf­eyr­is­kerfið að birta öll gögn, eins langt aftur og hægt er og brjóta upp gögn fyrir hvern sjóð og hvert ár. Þegar leitað er eftir svörum hjá líf­eyr­is­sjóðum er sagt að slíkt sé óþarfi af því að það séu svo fáir sem vilji sjá alla sög­una. Einnig nefna þeir að það sé miklu gagn­legra að skoða bara stutt aftur í tím­ann, það sé vill­andi fyrir almenn­ing að vera skoða sög­una aftur fyrir hrun. Þetta er auð­vitað alrangt. Það er alltaf til gagns að hafa allar upp­lýs­ingar þó ekki sé nema til að koma til móts við nútíma­kröfur um gagn­sæi. Að hálf­birta gögn er að segja að gagn­sæi sé óþarf­i.

Helm­ingur gagna gefur auð­vitað aðeins hálfa mynd. Núver­andi birt­ing á ávöxt­un­ar­tölum líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins kallar nefni­lega fram skekkta mynd af nið­ur­stöð­um. Dæmi eru um sjóði sem sýn­ast í gögnum nú vera með þeim bestu þegar lengri saga þeirra myndi sýna að þeir eru með þeim lök­ustu. Og öfugt. Er það rétt­læt­an­legt hjá líf­eyr­is­kerf­inu að gefa þannig skakka mynd til almenn­ings? Svona við­heldur líf­eyr­is­kerfið skorti á traust­i.

(Þessi grein birtist einnig í Kjarnanum, sjá hér.)

Forræðishyggja eða faghyggja?

Af hverju bönnum við 16 ára unglingum að aka bílum? Af hverju bönnum við almennan vopnaburð á Íslandi? Af hverju bönnum við eiturlyf og af hverju setjum við letjandi hömlur á mengun?

Mörg bönn eru sett til að gera þjóðfélagið betra. En upp úr 1980, þegar frjálshyggja komst í tísku, þá upphófst sú rödd að það væri forræðishyggja að banna flest. Fólk ætti að ráða sér sjálft með sem flest, það myndi sjálft vita hvað væri skynsamlegt. Þetta var svo yfirfært á fyrirtæki hins frjálsa markaðar; að „markaðurinn“ myndi leiðrétta sig sjálfur og því þyrfti engin boð og bönn. Verslun með allt ætti að leyfa og sem fæstar hömlur ætti setja á hvað fólk mætti og mætti ekki. Allt í nafni hinnar púkalegu forræðishyggju sem er eins og grýla úr fornöld; hin leiðinlega kerling sem er fúl og vill banna allt.

Orðið forræðishyggja náði þannig að verða tískuorð, einkum það að vera á móti forræðishyggju. Gallinn var þó sá að fólk fór að nota orðið forræðishyggja yfir allt mögulegt sem var hægt að banna. Þannig komst það meira í tísku en æskilegt er að taka hömlur af nær öllu. Enn er þetta ríkt í fólki og má sjá að margir alþingismenn eru enn að berjast fyrir því að opna fyrir víðtæka sölu á áfengi. Vilja ekki takmarkanir af því það á að vera sjálfsagður réttur einstaklings að geta keypt sér hvítvín með humrinum t.d. á sunnudagskvöldi.

Gallinn við hugtakið forræðishyggja og notkun fólks á því er að fólk fór að nota þetta orð um allt mögulegt, líka um það þegar alls engin forræðishyggja er í gangi. Fólk fór að rökstyðja það að taka úr gildi allskyns bönn af því að þau endurspegluðu forræðishyggju.

Þarna liggur ákveðið mein sem þarf að laga. Það er aðeins sumt sem er forræðishyggja – alls ekki allt.

Það er forræðishyggja að takmarka aðgengi að því sem skaðar samfélagið lítið sem ekkert.

Þannig væri það forræðishyggja að banna rauðvín en leyfa hvítvín. Það væri forræðishyggja að leyfa bara svart-hvíta skjái en ekki litaskjái (eitt sinn var það rætt á Alþingi!) og það væri forræðishyggja að banna íþróttir af því þær valda meiðslum.

Hættum allri forræðishyggju – hún er alltaf óþörf!

Hvernig ætlum við þá að meðhöndla mál sem fela það í sér að takmarka aðgengi að því sem skaðar samfélagið nokkuð eða mikið? Jú, við ætlum að taka fagleg rök og líta til okkar dýpstu þekkingar og reynslu og taka ákvöðrun um að setja þær skorður (stundum bönn) sem nauðsynleg eru til að byggja upp gott þjóðfélag. Þess vegna bönnum við skambyssur á Íslandi. Er það forræðishyggja? Nei, það er faglegt og rétt mat að þannig er þjóðfélagið betra. Það þjóðfélag sem við viljum byggja upp. Þetta er faghyggja, ekki forræðishyggja.

Þess vegna þurfum við að aðgreina: Hvað er forræðishyggja? Hvað er faghyggja?

Að banna skaðsöm eiturlyf er faghyggja af því óheft notkun þeirra er skaðleg fyrir þjóðfélagið, bæði peningalega og út frá almennri líðan. Það er faghyggja að skylda ökumenn til að nota bílbelti.

Það er einnig faghyggja að hafa óbreytt fyrirkomulag með áfengissölu, að auka ekki aðgengi að áfengi. Vera má að margir geti sagt: Jú, það væri betra fyrir mig sjálfan að hafa áfengi í matvörubúðum, enda neyti ég áfengis aðeins í litlu magni og sjaldan. Þannig fólk er til og er meira að setja algengt. En þá erum við komin að þeim punkti að við erum ekki ein í samfélagi okkar. Við verðum að taka ákvörðun út frá því hvernig samfélagið allt mun koma út, ef ákveðin boð og bönn eru eða eru ekki til staðar. Þess vegna er ekki nóg að segjast vilja aukið aðgengi að áfengi af því „ég sjálfur“ mun höndla það frelsi vel. Þetta yrði nefnilega á sama tíma frelsi þeirra sem geta ekki farið eins vel með áfengi. Þetta eru meginrökin með því að hlusta á faghyggjuna: Að viðurkenna að samfélagið snýst ekki bara um sjálfan mig. Það snýst um hina líka. Það er jú hvers og eins að taka ábyrgð á sinni hegðan en á sama tíma verðum við líka að viðurkenna að þessi rök duga skammt, alveg eins og með „markaðinn“ sem átti að leiðrétta sig sjálfur.

Það er því faghyggja að hafna frumvarpi eins og áfengisfrumvarpinu. Við getum ekki miðað allt út frá okkur sjálfum, við verðum að taka þátt í að ákveða hlutina eins og þeir eru, út frá þeim staðreyndum, reynslu og þekkingu sem gera gott samfélag betra.

– – –

Ungt fólk þarf nýja trú á framtíðina

Það er rétt hjá Grétu Thunberg að ungt fólk er að missa trú á framtíðina af því eldra fólk er að tekur of mikið út á kostnað yngri kynslóða. Við tökum úr gæðum framtíðar með því að finna réttlætingu á slöku siðferði okkar gengdarlausu neyslu. Neyslustiginu er haldið uppi, á kostnað umhverfis og jarðargæða, með markaðsskilaboðum sem normalísera neysluna og segja hana nauðsynlega til að öðlast hamingju.

Miðaldra kynslóðir eru því eins og foreldrar sem sólunda ættarauðnum á meðan börnin horfa á og sjá fyrir sér framtíð án öryggis, í ótryggu umhverfi þar sem sögur af gæðum og neyslu forferða munu þykja ótrúlegar lýsingar og óábyrgar. Setningar frá ungu fólki eins og „þið eruð að eyðileggja okkar framtíð“ (sjá hér og hér) eru farnar að rata í fjölmiðla og er orðinn hinn skiljanlegi nýji undirtónn sem gert hefur baráttu ungs fólks svo miklu öflugri en áður var. Ekki er hægt að bíða eftir að ríkisstjórnir leysi vandann því vandinn er falinn í því hvernig við hegðum okkur sem einstaklingar, í neysluheimi okkar, hvers og eins einstaklings.

Besta leiðin til að breyta þessari þróun á heimsvísu er að skilja hvernig ungu fólki líður. Rannsóknir sýna það að fyrst upp úr 1990 og sérstaklega upp úr aldamótum, fór á örla á auknum kvíða og þunglyndi hjá ungu fólki sem rekja má beint til þess að ungt fólk telur að það sé verið að eyðileggja framtíð þess. En nú er ungt fólk fyrst og fremst börn eldri kynslóða og okkur þykir jú vænt um börnin okkar. Getum við þá ekki drattast til þess að hlusta á þau og framkvæma eitthvað sem er þeirra innsti vilji og dýpsta þrá: Að öðlast nýja trú á sína eigin framtíð?

Hér má sjá að þessi kjarnapunktur er ekki aðeins hrópandi, hann er öskrandi: Með öllum sínum ráðum, lausnum og fyrirheitum sem OECD lönd hafa tiltekið, lofað, samþykkt og ákveðið, mun losun CO2 í andrúmsloft rétt ná að standa í stað en mun aukast mjög mikið í löndum utan OECD (Kína og Indland leiða þá þróun).

Það er því ekki hægt annað en að taka undir þau grunnskilaboð frá ungu fólki eins og Grétu Thunberg, að það sé óskiljanlegt af hverju allir telji að loftslags- og umhverfismál séu mikilvægustu málefni samtímans en samt sé eiginlega enginn að gera neitt sérstakt til að vinna stór skref í málinu. Auðvitað eru margir að gera eitt og annað, flokka sorp, minnka CO2 fótspor o.fl. En heimurinn og ríkisstjórnir eru ekki að gera neitt í takti við hvað málið er alvarlegt. Mannfólk er að breyta loftslaginu, er að breyta loftinu sem það andar að sér. Hvað annað gæti verið mikilvægara að skoða? Af hverju snýst ekki allt um að breyta þessu ástandi? Af hverju loga ekki fréttatímar í umræðum um þetta? Af hverju er þetta ekki á forsíðum flestra blaða? Jú, það er vegna þess að við erum föst í neysluvenjum þar sem við höfum fengið áratugalanga þjálfun í að réttlæta fyrir okkur sjálfum.

Um þetta eru notuð ensku orðin „ignorance“ og „apathy“, það að nenna ekki að hugsa um þessi mál (ignorance / firring) og svo það sem er hálfu verra, að vera bara algjörlega sama (apathy / sinnuleysi).

Við þurfum því að setja fram neyðarkall til okkar sjálfra: Að velja alla neyslu út frá samviskunni, út frá siðferði og að fara í stríð við þægindavenjur okkar sjálfra. Taka upp samviskuval í verslunum, hlusta á hina innri rödd og hætta þægindavali. Gefa hreinlega skít í þægindavalið. Við elskum jörðina, börnin okkar og viljum allt fyrir þau gera. Byrjum þá á neyslunni, hættum að leyfa skilaboðum sem hvetja til neyslu að ná til okkar. Við erum oft á hverjum degi að taka þessar ákvarðanir og það er þar sem þetta allt byrjar.

Það þyrfti því að setja af stað stórt ákall til þess að meirihluti fólk sættist á þennan nýja lífsstíl: Að láta samvisku og siðferði stýra neyslu, að segja það upphátt að þægindavalkostirnir séu einfaldlega nánast að drepa okkur, eru að grilla okkur hægt á teini. Tökum á móti nútímanum og hættum þessari meðvirkni með neyslumenningunni. Við vitum það öll að hamingjan tengist ekki neyslu, og fleiri og fleiri eru að átta sig á því, á eigin skinni, að hamingjan er einmitt nátengd því að hemja eigin neyslu, að finna tengingu við núið í því að vera ekki að hugsa um næsta neyslupunkt, næsta tækifæri til að kaupa meira af þessu nýja og sniðuga. Þetta var nefnilega aldrei fótur fyrir þessu neyslutengda loforði um hamingjuna, þetta var allan tíman öfugt: Hamingjuna finnum við með því að takmarka neyslu okkar og finna þar með fyrir okkur sjálfum, ná tengslum við núið, okkur sjálf og heiminn í leiðinni. Gefum ungu fólki (og okkur sjálfum) nýja von: Látum samviskuna stýra neyslunni, ekki þægindavalkostina.

Hér er listi sem hægt er að byrja á:

 

Það er hægt að bjóða lægri vexti hér á landi

Af hverju eru vextir hér þrefallt hærri en í Færeyjum? Af hverju borgar ung fjölskylda 68 þús ISK af húsnæðisláni í Þýskalandi á meðan íslensk fjölskylda greiðir 103 þús krónur fyrir jafnhátt lán sem nær yfir jafnlangan tíma?

Svarið er hin íslenska verðtrygging. Þetta er kerfi þar sem lántakandinn eignast lítið í eigninni af því lánið lækkar ekki mikið nema síðasta hluta lánstímans. Verðtrygging er því eins og að borga leigu nema að ef þú endist út lánstímann þá verður niðurstaðan loks jákvæð á endanum (þó að þú sért búinn að greiða húsið þitt 4-5 sinnum á meðan Svíi eða Normaður greiðir sína eign tvisvar sinnum (höfuðstól plús vextir) yfir allan lánstímann.

Verðtryggingarkerfið er yfirleitt óhagstætt lántakendum en hefur sinn tilgang af því það býður lægri afborganir en óverðtryggð lán – fyrst um sinn. Þess vegna neyðist fólk stundum til að taka þessi lán. Eins konar „lausn“ í kerfi sem er með of háa vexti. Áhættan er í nágrannalöndum tekin til jafns af fjármálastofnunum og lántakendanum á meðan lántakandinn á Íslandi tekur álögurnar og áhættuna, ef hægt er að skilgreina þungar byrðar sem áhættu. Bankinn sem lánar á Íslandi er því sem næst í áhættulausum viðskiptum ef hann passar sig bara að hafa veðsetningu ekki yfir 70% til að eiga veðrými fyrir mögulegum verðlækkunum á fasteignamarkaði, ef lántakandinn skyldi hætta að greiða.

Enda var það svo í hruninu að bankar, fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir töpuðu nær öllum gerðum lána nema húsnæðislánum, einkum þeim sem bundin voru verðtryggingu, það voru einu fjárfestingarnar sem héldu sér að mestu.

Þrefalt hærri vextir en í Færeyjum

Íslendingar greiða hærri vexti en í löndum á borð við Albaníu, Bosníu, Grikkland og Makedóníu. Þá greiðum við þrefalt hærri vexti en Færeyingar. Vaxtatölur geta verið mismunandi eftir gögnum en Íslendingar greiða á milli 6,2 og 7,4 prósent húsnæðislánavexti m.v. uppflettingu (í dag, 3. apríl 2019) á vefnum Auðbjörg.is sem birtir lista yfir vexti lánastofnanna:

Íslendingar verma því eitt af hæstu sætum á lista yfir hæstu vaxtabyrði í Evrópu:

Gamaldags hagfræði? 

Seðlabanki hefur það markmið að halda verðbólgu innan marka. Horfir ekki á að hafa vexti sem lægsta, lítur aðeins á verðbólgu. En er þaðskynsamleg hagfræði að horfa aðeins á verðbólgu en ekki vaxtastig húsnæðislána?

Vextirnir þurfa nefnilega ekki að vera svona háir heldur sé hátt vaxtastig á Íslandi val Seðlabankans. Spurningin er frekar af hverju Seðlabankinn velji að hafa vexti svona háa. Hægt er að færa rök fyrir því að bankinn sé að styðjast við gamaldags hagfræði. Þeir virðast telja nauðsynlegt að hafa vexti háa til að hafa taumhald á verðbólgu en fyrir mörgum árum, þá sagði hagfræðin að háir vextir væru besta leiðin til að temja verðbólguna. Margt hefur hins vegar breyst frá því að sú kennisetning var virt og álitin óumdeilanleg. Margar aðrar leiðir eru til að hemja verðbólgu en háir vextir. Óstöðug króna, mikil þensla, mikill munur á innflutningi og útflutningi eða háar skuldir ríkissjóðs kalla ekkert á háa vexti en eru alltaf notaðar sem skýringar á því af hverju Íslendingar þurfa að greiða háa vexti. Þarna er unnið með þá gömlu hagfræðihugmynd að ef banki stjórnar verðinu á peningum þá geti hann stjórnað magninu og haft þannig taumhald á þenslu.

Þetta virkar í fræðilegu umhverfi en ekki í hinu raunverulega umhverfi sem íslenskt hagkerfi lifir í. Af hverju að reyna að stýra peningamagni í umferð með vöxtun þegar það er hægt að hafa bein áhrif á peningamagnið sjálft með því að stýra lánum bankakerfisins, að stýra því í hvað er lánað? Þetta er kallað stýring á lánamyndun, þegar bankar eru lattir til að bjóða neyslulán en hvattir til að lána til uppbyggingar, til dæmis framleiðslu- og iðnfyrirtækja sem skapa raunverulegar þjóðartekjur.

Stjórn lánamyndunar væri miklu betra stýritæki, bæði vegna þess að það er hraðvirkara og hefur beina stjórn á fjármagni í umferð en hefur einnig þann kost að almenningur þarf ekki að bera þungar byrðar verðtryggingarinnar ævina á enda. Þetta hafa mjög margir seðlabankar notað með afar góðum árangri. Að mínu mati ætti Seðlabankinn sem fyrsta skref að lækka vexti á tíu ára ríkisskuldabréfum niður í um tvö prósent en það myndi leiða strax til lækkunarferlis hjá bönkum og við myndum fljótlega fara að sjá miklu lægri vexti á óverðtryggðum lánum. Samhliða þessu ætti að byrja á nýrri stefnu í Seðlabankanum um stjórn lánamyndunar sem væri stjórntæki sem hentar Íslandi miklu betur en markmið um verðbólgu (sem nást alls ekki alltaf, hvort eð er). 

Í kjaraviðræðum ætti ríkisstjórnin að boða nýja stefnu í þessa veru en ég hef þá trú að hún myndi falla miklu betur í kramið og leiða til víðtækari sáttar en nokkrar launabreytingar. Hættum að keppa í launum, keppum frekar í eðlilegra fjármálaumhverfi þar sem fjallþungar byrðar eru teknar af íslenskum almenningi með nýrri stefnu Seðlabankans um stjórn lánamyndunar.

Líkja má núverandi vaxtastefnu Seðlabanka við gamlar læknisaðferðir sem þóttu góðar einu sinni. Nýjar leiðir þróast í þessu eins og öðru. Nóg er að hugsa um dæmið af læknum sem einu sinni kunnu enga aðferð til að meðhöndla þunglyndi aðra en að setja sjúklinga á þunglyndislyf. En í dag eru til svo margar aðrar aðferðir, til dæmis að fara út að hreyfa sig. Það læknar þunglyndi hjá mörgum. Eins er með hagfræði Seðlabanka og vaxtastefnu. Hún á að breytast í takt við tíðarandann, hagfræðilegt umhverfi og þarfir þjóðarinnar.

Seðlabankinn ætti því að íhuga að breyta um strategíu, lækka vexti og ástunda aðrar aðferðir til að hafa taumhald á verðbólgu. Íslendingar eiga nefnilega betra skilið en að halda áfram að borga 3–5 sinnum meira fyrir íbúðarhúsnæði okkar heldur en flestir aðrir. Rökin um að við séum ekki í eins slæmum málum og Moldóvar og íbúar Úkraínu virka ekki lengur því almenningur í landinu er að gera kröfum um sömu húsnæðisvexti og eru í Færeyjum.

Slök lánakjör á Íslandi

30 milljón króna húsnæðislán krefst þessara afborgana m.v. vexti sem bjóðast í dag á hvoru svæði fyrir sig:

Ísland – verðtryggt:
Til 40 ára: Mán.afborgun er 107 þús/mán.
Til 25 ára: Mán.afborgun er 142 þús/mán.

Ísland – óverðtryggt:
Til 25 ára: Mán.afborgun er 182 þús/mán.

Svíþjóð – óverðtryggt (verðtryggt ekki í boði):
Til 25 ára: Mán.afborgun er 116 þús/mán.

Ef allar aðstæður eru þær sömu þá greiðir sá sem tekur lán í Svíþjóð 116 þús á mánuði á meðan sá sem tekur sama lán greiðir 182 þús á mánuði.
Sá íslenski greiðir 56% hærri afborgun á mánuði í 25 ár.

Er rétt að banna verðtryggingu?

Það er ekki rétt að banna verðtryggingu nema ef lágir vextir eru tryggðir um leið. Ef ekkert er gert fyrir fólk nema að banna verðtryggingu lenda margir í því að hafa ekki efni á að kaupa sér húsnæði og verða því lengur á leigumarkaði, greiða háa leigu af því þeir hafa ekki efni á að greiða óverðtryggða lánið nema að vextir lækki verulega. Ef við skoðum reiknilíkön fyrir annuitet verðtryggt lán og svo einfaldan vaxtaútreikning fyrir óverðtryggt lán þá verða upphæðir óverðtryggða lánsins sterkur valkostur ef vextir fara undir 2% – ef þeir eru um 1,5-1,8%. Ríkisstjórnin getur boðið þessa vexti í gegnum SÍ með þeirri leið sem hér að ofan er lýst (stjórn lánamyndinar). Þetta þyrfti ekki að kosta ríkissjóð neinar upphæðir því þessi lán væru gefin út í krónum, tekin á kjörum ríkissjóðs, langt undir 1,5% vaxtamarkinu. Þetta myndi gjörbylta íslenskum húsnæðis- og lánamarkaði. Þetta yrði ekki séríslensk leið því margir stórir seðlabankar hafa farið þessa leið til að lækka vexti, auka innspýtingu í hagkerfið þegar kerfið sjálft er á leið í kólnun, líkt og nú er í íslensku hagkerfi.

Miðað við ofangreint dæmi þá gerir verðtryggingin það að verkum að 107 þús. mán. afborgun er í boði. Ef verðtrygging er bönnuð hækkar lánið í 182 þús ef það er stytt í 25 ár. Þetta myndi gera það að verkum að margir myndu þurfa að vera lengur á leigumarkaði af því að greiðslubyrði væri orðin of há.

Að lækka húsnæðisliðinn hjá almenningi verður því aðeins gert með því að lækka vexti á Íslandi og það verður aðeins gert með því að breyta áherslum í efnahagsmálum af hálfu ríkisins og Seðlabanka. Þetta er hægt ef aðeins viljinn er fyrir hendi, það eru engar íslenskar skýringar sem koma í veg fyrir að Íslendingar geti ekki notið sömu kjara og almenningur í nágrannalöndunum.


Brexit þjóðaratkvæðagreiðslan ekki faglega marktæk

Ef allir Bretar hefðu kosið í Brexit þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní 2016 og aðeins munað fáum atkvæðum, hefði sú niðurstaða verið marktæk og lýðræðisleg. En það er sjaldan þannig að allir kjósa. Þess vegna þurfum við einhverja aðferðafræði til að meta hvort meirihluti sé örugglega fyrir hendi gagnvart ákveðinni niðurstöðu, einkum ef munur er lítill (eins og í Brexit) og einnig ef margir kjósa ekki.

Sú röksemd að horfa aðeins á atkvæði þeirra sem kjósa er vissulega ein aðferð til að komast að niðurstöðu en sú aðferð er ekkert sérstaklega lýðræðisleg. Við sjáum hnignandi þátttöku kjósenda og einnig aukna tálmun fyrir fólk sem vill kjósa en gerir eða getur ekki. Því er brýnt að tækla þetta vandamál og finna öflugri vísindalegri nálgun til að lesa úr kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum, einkum þegar munur er lítill. Lykilatriðið er að rétt túlkun komist í gegn, að ekki sé fullyrt að þjóð hafi valið eitthvað sem hún valdi ekki. Við sjáum það, þegar skoðað er með tölfræðilegum aðferðum, að hvorki þeir sem völdu „Leave“ eða „Remain“ geta sagst hafa unnið kosningarnar. Munurinn var einfaldlega of lítill.

Skoðum Brexit úrslitin frá 2016 í einfaldri mynd (tölur hér eru x100.000 lægri en í raun og veru):

456 manns geta kosið en 129 manns kjósa ekki. Það er dágóður hluti eða 27,8% allra. 174 manns segja „förum“ úr EU en 161 manns velja „verum“ í EU. Aðeins munar 13 manns á þessum hópum.

Ef aðeins munar 13 manns og 129 manns kusu ekki og meirihluti skoðanakannanna bendir til að meirihluti þessara 129 manns hafi ekki haft áhuga á að víkja úr EU þá er okkur allnokkur vandi á höndum. Það er ekki skýr meirihluti fyrir þeirri niðurstöðu að Bretlandi yfirgefi EU.

Það eru einkum þrjár ástæður fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla Breta frá 2016 leyfir ekki þá túlkun að annar hópurinn hafi sigrað:

#1 Tölfræðilegar röksemdir

Niðurstaðan frá 2016 (52%-48%) veitir ekki tölfræðilega heimild til að annar hópurinn lýsi yfir sigri. Tölfræðileg marktækni er ekki næg til að annar hópurinn geti óhikað lýst yfir sigri. Þetta er hægt að fá út með því að skoða úrslitin (52%-48%) og tölfræðilegan mun (significant difference) á jöfnum úrslitum (50%-50%).  Þessa niðurstöðu er hægt að fá með því að reikna Cohen’s d effect size en þannig sjást tölfræðileg líkindi á að það sé til staðar munur á stærð hópanna tveggja, þeirra sem vilja vera og fara. Í venjulegum könnunum höfum við öryggisbil/vikmörk (confidence interval) sem segja okkur líkurnar á að úrslit m.v. úrtak endurspegli allt þýðið (population) og er það byggt á úrtaksstærð. Hægt er að reikna raunstærð hópa (effect size) og sjá hvort að einhver, örlítill, veikur, talsverður, allnokkur, verulegur eða mikill munur er á milli hópa, ef munur er lítill. Ef raunstærð (effect size) er reiknuð út frá Brexit-úrslitum kemur í ljós að munurinn á hópunum er það lítill að það er ekki hægt að fullyrða að um mun sé að ræða (negligible effect size). Við erum því með tölfræðilega niðurstöðu sem segir að munurinn sé ekki marktækur á milli hópa. Fræðimenn bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum hafa bent á þetta í æ meira mæli og eru þær raddir að ná eyrum fjölmiðla og stjórnvalda upp að einhverju marki. Útreikningur á raunstærð sýnir (m.v. Brexit-tölur um kjörsókn, stærð hópa og aðra þætti) að úrslitin hefður þurft að vera nær 60%-40% til að tölfræðileg marktækni hefði leyft skýra túlkun á að annar hópurinn hefði örugglega sigrað. Ef slíkt hefði átt sér stað þá hefði Theresa May geta leyft sér þann ósveigjanleika sem hún hefur sýnt til þessa.

Tölfræðilega er það því niðurstaða að úrslitin voru jöfn; ekki var hægt að fullyrða með vissu að annar hópurinn hefði unnið. Þegar Theresa May segir það vera svik við fyrri þjóðaratkvæðagreiðslu, að efna til annarrar slíkrar, þá er hún því miður á algjörum villigötum og sýnir vanþekkingu á túlkun á niðurstöðum. Einu svikin sem hægt er að tala um er að fara út í þessar grunnbreytingar á þjóðfélagsgerð Bretlands án þess að hafa tölfræðilega marktækni á bak við sig. Að leyfa leyfa ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sú fyrri gaf til kynna jafnstóra hópa er líka eitthvað sem mætti flokka sem svik.

#2 Óþekktar forsendur og óþekktar afleiðingar

Er einhver tilbúinn að aka blindandi? Að aka í mikilli þoku þegar ljósin eru léleg? Nei, vegna þess að við vitum ekki hvað er framundan. Leiðir vinstri beygja til réttrar niðurstöðu? Hægri?

Nei, viljum aka ákvarðanir þegar mest af forsendum og flestar afleiðingar okkar ákvarðana eru ljósar.

Bretar voru beðnir um að ákveða að fara eða vera í EU þegar hérumbil allt var óljóst. Nokkur dæmi sem kjósendur spurðu sig á kjördag en áttu engin svör við:

 1. Ef við förum („Leave“) þýðir það að við endum í EFTA?
 2. Ef við förum („Leave“) þýðir það að skattar lækki af því minna af fjármunum fer til EU?
 3. Ef við förum („Leave“), mun fyrirtækjum í Bretlandi fækka?
 4. Ef við förum („Leave“), mun þjóðarframleiðsla standa í stað eða minnka?
 5. Hvaða þættir munu breytast, hvorn valmöguleika sem við veljum?
 6. Ef við veljum að fara („Leave“), mun þá allt vera óbreytt?
 7. Ef við veljum að vera („Remain“), mun þá það reynast rétt sem fullyrt er að framleiðslustörf muni flytjast frá Bretlandi?
 8. Munu fjármálastofnanir hverfa ef við veljum að fara úr EU?
 9. Hver er munurinn á hörðu og mjúku Brexit?
 10. Þurfum við samning eða ekki? Hvort er hagstæðara?

Í raun vissu fáir hverjar afleiðingarnar af þessum tveimur valkostum yrðu. Samt voru Bretar látnir kjósa. Slíkt er varasamt því það getur kallað fram niðurstöðu sem er þjóðinni ekki hagstæð. Í raun ætti aldrei að efna til kosninga eða þjóðaratkvæðagreiðslu nema að forsendur valkosta og afleiðingar þeirra séu að mestu ljósar kjósendum.

Einnig þarf hér að taka tillit til þess að óræðum spurningum er erfitt að svara. Það er leiður siður að spyrja spurninga þegar þær eru orðaðar þannig að svarið er háð þekkingu sem er ekki til staðar. Viltu kjöt eða fisk? Hvernig get ég valið það nema að vita aðeins meira um málið? Viltu fara til Tenerife? Fæstir vilja vita eitt og annað áður en þeir svara (verð, tími, lengd ferðar, gerð gistingar, ferðafélagar, kostnaður o.fl.). Samt var Bretum gert að svara miklu flókari spurningu, sem fáir vissu nógu mikið um til að vera færir um að svara henni.

#3 Skekkt vitneskja kjósenda, falskar fréttir, bjögun beggja hópa

Það vildu fáir viðurkenna það árið 2016 en nú er það augljóst að falskar fréttir voru mjög ráðandi mánuðina fyrir Brexit atkvæðagreiðsluna. Þetta voru ekki litlir jaðarhópar sem mest áhrif höfðu heldur voru það þekktir stjórnmálamenn sem höfðu mest áhrif á að koma upplýsingum til kjósenda sem eftir á hafa reynst alrangar. Forsætirráðherra, utanríkisráðherra, formenn flokka og þingmenn breska þingsins gerðu sig seka um rangan fréttaflutning í þágu þess málstaðar sem þeir trúðu mest á. Nægar upplýsingar eru til nú í fjölmiðlum og á netinu sem staðreyndaprófa helstu söluraddirnar sem fengu mikið svigrúm í breskum fjölmiðlum fyrir Brexit. Fræg er fullyrðing Boris Johnson um að breska þjóðin myndi geta veitt £350 milljónum á viku inn í NHS (National Health Service) ef Bretland færi úr EU. Þetta reyndist vera rangt, upphæðin var langtum minni. Margar rangar fullyrðingar af þessum toga dúkkuðu upp og höfðu mikil áhrif.

Lærdómurinn af Brexit er að efna helst ekki til kosninga eða mikilvægra þjóðaratkvæðagreiðslna þegar ávinningur, forsendur og fréttaflutningur er óljós. Það er eðlileg krafa að ræða málin svo að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun.

Ýmis dæmi eru um að mjór meirihluti (eða jöfn niðurstaða) hafi átt sér stað. Árið 1994 voru merkilegar kosningar í Quebec þar sem Liberal Michel Charbonneau og Roger Paquin fengu jafnmörg atkvæði. Ákveðið var að efna ekki til hlutkestis (arfavitlaus aðferð) heldur að ræða málið aðeins betur og gera kjósendur upplýstari um báða frambjóðendur. Nýjar kosningar voru haldnar 42 dögum síðar sem enduðu þannig að Paquin vann með því að fá 532 fleiri atkvæðum en áður höfðu þeir fengið jafnmörg atkvæði, 16.536 atkvæði. Þetta er lítið dæmi um að reynt er að fá lýðræðislega niðurstöðu, eftir að lögleg kosning hefur ekki getað leitt til skýrrar niðurstöðu. Slíkt mætti upphugsa oftar; slíkt ættu Bretar að hugsa nú. Annars eru þeir í þeirri stöðu að hafa kastað upp peningi til að velja grunnstefnu fyrir sína þjóð. Myndi einhver samþykkja þá aðferð í veigamiklum málum? Líklega ekki. Þrátt fyrir það eru Bretar einmitt að gera það hér og nú.

 

 

 

 

 

Í fyrsta sinn er hægt að bera saman ávöxtun lífeyrissjóða

Í áratugi hafa lífeyrissjóðir búið við þau lög í landinu að almenningur verður að greiða inn í sjóðina lögbundin gjöld. Lífeyrissjóðir eru því í þeirri einstöku aðstöðu að fá gríðarlega fjármuni til sín, tugi milljarða í hverjum mánuði. Þessu fylgir mikil ábyrgð og þó að lífeyrissjóðir hafi að staðið sig ágætlega með margt þá er einnig hægt að benda á fjölmarga hluti sem eru alls ekki í nógu góðu lagi.

Það er ótrúlegt að lífeyrissjóðir hafi til þessa neitað að gefa upp samanburðarhæfa ávöxtun lífeyrissjóða í landinu. Þeir hafa sagt að ávöxtun sé gefin upp en það er ekki rétt. Ávöxtun er jú til fyrir eitt ár í einu fyrir einn sjóð. Til að skoða samanburð við annað ár þá verður að opna annað skjal, Excel eða PDF og finna réttu meðalraunávöxtunina fyrir það ár. Þetta verður að gera fyrir 20 ár og gera svo fyrir hvern einasta sjóð. Ef almenningur vill bera saman sjóði þá verður hver og einn að fara í þessa vinnu sem auðvitað enginn gerir. 

Ég hef í mörg ár ýtt á lífeyrissjóði og landssamtök þeirra að veita almenningi aðgengi að ávöxtun sjóða á þann hátt að almenningur getur borið sjóði saman. Lífeyrissjóðir og landssamtök þeirra hafa tekið illa í þetta og nefnt að þetta ætli þau sér ekki að gera. Þetta þykir mér vera með eindæmum ótrúlegt og einstakt að hafa skv. lögum áskrift að fjármunum almennings en neita að gefa almenningi kost á því að bera saman ávöxtun sjóða. Ég get ekki hugsað mér neitt annað dæmi hér án landi sem lýsir jafnmikilli firringu og tregðu til gagnsæis en þetta svar lífeyrissjóða í landinu: Að neita að leyfa almenningi að bera saman ávöxtun.

Til að gera langa sögu stutta þá var ákveðið að sætta sig ekki við þessi svör lífeyrissjóða heldur að taka þessar tölur saman. Voru þessar tölur birtar nýlega í þættinu Silfur Egils á RUV og hér er upptaka af þeim þætti:

Silfur Egils, 16. desember 2018:
https://youtu.be/GyfIOam0PZM

RUV fréttir sem fjölluðu um málið:
https://youtu.be/E6l3XIE-p_8

Grein í Fréttablaðinu sem tengist málinu og var birt í vor:
Vil ég nota tækifærið og þakka Dr. Gylfa Magnússyni kærlega fyrir samvinnu við úrvinnslu og greiningu gagna í þessu verkefni.

Almenningur á að velja byggingar sem rísa, ekki dómnefndir

Eigum við að hafa dómnefndir sem velja alþingismenn og forseta? Og dómnefndir sem velja sveitarstjórnir? Nei. Af hverju höfum við þá dómnefndir sem velja verðlaunatillögur að nýjum byggingum sem eiga að rísa á áberandi stöðum og oft eru kostaðar af almenningi?

Dómnefndir eru mikil hugsanavilla í arkítektúr. Ekki nema þá sem samkvæmisleikir til að klappa kollegum á bakið og lyfta því upp sem kollegum finnst áhugavert. En að nota dómnefndir til að velja hvaða tillögur eiga að sigra í arkítektasamkeppnum og hvaða hús eiga að rísa er eins og að nota dómnefndir til að velja stjórnmálaflokka og þingsæti.

Við notum dómnefndir þegar þarf að velja eitthvað sem er mjög huglægt og hefur takmörkuð áhrif á líf almennings. Eins og besta rithöfundinn, söngvarann, kvikmyndina og dansarann. Það má alveg vera Arnaldur eitt árið og Yrsa hitt, í flokkinum höfundar spennusagna. Við notum hins vegar kosningar þegar við veljum eitthvað sem skiptir miklu máli og hefur áhrif á daglegt líf fólks.

Byggingar á fjölförnum stöðum hafa einmitt mikil áhrif á líf fólks (sjá hér umfjöllun BBC). Við ættum því að láta fólk ráða því í miklu meira mæli hvaða byggingar verða valdar og látnar rísa á fjölförnum stöðum. Almenningur á að hafa mikið um það að segja, einkum byggingar sem almenningur notar og greiðir fyrir. Einnig ætti þetta að vera regla ef sterkur staðarandi er til staðar og þegar verið er að byggja þar sem tilvísun er í menningu og arfleið þjóðar.

Ef almenningur myndi fá að velja hvaða nýjar byggingar eiga að rísa á fjölförnum stöðum þá munu þeir sem senda inn tillögur—sjálfir arkítektarnir—hugsa allt öðruvísi. Þeir myndu hugsa hvað almenningi hugnast, ekki hvað fellur kollegum í geð. Þetta myndi breyta allri hugsun við hönnun bygginga.

Skoðum nú tvær leiðir sem hægt er að hafa í hönnun: ef dómnefndir velja hús eða ef almenningur velur (sjá neðar í pistlinum):

Áherslur í hönnun – ef dómnefndir velja hús/tillögur sem á að byggja

 • Viðmið er að hanna eitthvað nýstárlegt, frumlegt, einkennileg og óvenjulegt.
 • Reynt er að hanna eitthvað sem leiðir til vatnaskila í hönnun.
 • Hönnuðurinn verður að ákveðinni miðju í verkefninu, stundum er áhersla á að hanna til að skapa hönnuði stærra nafn o.s.frv.
 • Þörf byggingaverktaka til að fá sem flesta selda fermetra út úr byggingareit nær oft að vera sterkt til staðar og verður jafnvel ráðandi í sumum verkefnum.

Hér er dæmi þar sem áherslur hönnuðar hafa alveg yfirtekið söguna sem er til staðar og staðarandinn vanvirtur með öllu (skrifstofbygging í Mexíkóborg):

Hér er dæmi um hönnun sem fellur á staðnum illa í notendur og almenning. Hér var markmiðið að hanna eitthvað nýstárlegt og óvanalegt sem e.t.v. er gaman að sjá á blaði (eða sem þrívíddarrenderingu á tölvuskjá) en er stundum þreytandi fyrir augað og ýtir svo sannarlega ekki undir þann staðaranda sem er á staðnum því eldri byggingin á staðnum fær ekki að njóta sín. Nýja byggingin yfirtekur þá eldri með öllu og keyrir þvert ofaní menningu og arfleið hennar (Royal Ontario Museum í Toronto, Kanada):

Hér er annað dæmi þar sem mótvægi hönnunar (architectural contrast) er of mikið: Tvær íbúðablokkir, önnur gömul og allur staðarandinn miðast við hana, hin byggingin er ný og keyrir þvert ofan í öll þau gildi sem eru til staðar á svæðinu:

Og hér er enn eitt dæmið þar sem hönnun og andi sem er fyrir á svæðinu er algerlega keyrður til baka með mjög ólíkri hönnun. Þetta er óþægilegt fyrir augað og fyrir þá grunnþörf að styðja við eldri mannana verk sem hafa notið virðingar á svæðinu og fólk hefur um langt skeið notið og verið sátt við:

Enn eitt dæmið er franska skrifstofubyggingin í París, Tour Montparnasse sem er afar lítið í takti við staðaranda 15. hverfisins. Enda hafa alla tíð staðið miklar deilur um þessa byggingu og reglulega kemur í ljós í könnunum að fólki þykir hún vera ljót og passa illa í umhverfið. Það er nefnilega grunnþörf hjá fólki að lifa og hrærast í mannlífi og að umhverfið allt styðji við það mannlíf sem ríkir á hverjum stað. Borgaryfirvöld í París hafa reynt að koma til móts við þessar raddir með því að endurhanna ytra byrði turnsins en saga þeirra tilrauna er löng og ströng; það er ekki hægt að breyta aðeins ytra byrði og ætlast til þess að fólk verði ánægt. Það eru útlínur og fyrirferð turnsins sem pirrar fólk. Það sem lýsir viðhorfum fólks til turnsins best er þessi fræga setning: Besta útsýnið sem hægt er að finna í París er í turninum sjálfum af því það er eini staður borgarinnar þar sem ekki sést í turninn („It is said that the tower’s observation deck enjoys the most beautiful view in all of Paris, because it is the only place from where the tower cannot be seen“ – sjá hér):

Að lokum er hér enn eitt dæmið um hönnun sem hefur verið byggð algerlega út frá þörfum hönnuða, ekki út frá þörfum almennings. Hér er algjör skortur á gróðri, ekkert líf í augnsýn sem er jú þvert á grunnþarfir venjulegs fólks. Hönnuður þessa skelfilega útirýmis og byggingarinnar sem tengist útisvæðinu er Peter Eisenman og væri fróðlegt að heyra rök hans fyrir því að þetta svæði eigi að styrkja mannlíf. Sjáið litla hópinn af fólkinu, til vinstri, mitt í miðjum boganum, sem greinilega er að reyna að njóta stundarinnar, e.t.v. með nestisstund í huga en varla hefur þessi nestistími verið sá minnisstæðasti í upplifun þessa hóps er þarna situr:

Áherslur í hönnun – ef almenningur velur

 • Viðmið er að hann eitthvað sem er fallegt, styrkir gott mannlíf og vellíðan fólks.
 • Reynt er að hanna eitthvað sem hámarkar ánægju almennings.
 • Notkun almennings og ánægja fólks með húsið/bygginguna verður miðjan í hönnun.
 • Áhersla verður á að taka mikið tillit til
 • Áherslur byggingaverktaka til að fá sem flesta selda/leigða fermetra út úr byggingareit verða síður ráðandi.

Í dag er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum mjög aukin krafa um að byggt verði í takt við þarfir almennings. Fræg er sagan þegar átti að byggja íbúðablokkir við Apelvägen í Tyresö, í bæjarkjarna suður af Stokkhólmi. Haldin var samkeppni og aðeins ein tillaga barst, en hún var í fremur nútímalegum stíl:

Íbúum líkaði þessi tillaga illa (sjá hér), enda er mjög mikið um gamlar byggingar í Tyresö. Staðarandi þessa svæðis byggir á tveimur megineinkennum:

 1. Staðarandi, einkenni 1: Tyresö Slott (Nordiska Museet), kaffihús, safn og kastali, í gömlum stíl, frá 17. öld
 2. Staðarandi, einkenni 2: Tyresö Kyrka, kirkja frá 17. öld, vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Bæði þessu sterku 17. aldar einkenni í Tyresö voru lykilatriði því hvað íbúar sóttu fast að ofangreindar íbúðablokkir væru ekki byggðar. Og þar sem aðeins þessi eina tillaga barst þá ákváðu íbúar bæjarins að leggja fram nýja tillögu sem þeir þróuðu gróflega sjálfir. Tillaga íbúa var þessi:

Haldin var rafrænkosning og yfir 90% bæjarbúa völdu neðri tillöguna, tillögu íbúa.

Annað dæmi um nýjar byggingar sem almenningur hefur fengið að hafa áhrif á eru fjölmargar byggingar sem hafa risið á síðustu árum í bænum Norrtälje, norðaustur af Stokkhólmi. Hér er um að ræða íbúðabyggingu sem hefur sterka tilvísun í gömlu byggingarhefðina í Svíþjóð, sem hefur mjög ríkar tilvísanir í aldamótastílinn (sekelskiftesstil). Mikil ánægja er með þessa þróun í Norrtälje og hér er eitt dæmi um íbúðabyggingu þar sem tillit var tekið til óska almennings:

Annað dæmi þar sem þarfir almennings voru ráðandi við vali á nýju íbúðarhúsi á áberandi stað í Århus í Danmörku (byggt 2015):

Það er mjög gaman að sjá myndbandið af því þegar þetta hús var byggt (time-lapse myndum raðað saman):

Enn eitt dæmið er frá Nijmegen, sem er 120 þús manna bæjarfélag í rúmlega 100 km fjarlægð suðaustur af Amsterdam. Þar voru ljótar byggingar rifnar niður vegna þess að allir voru orðnir þreyttir á að hafa þær fyrir augum sér. Þær einfaldlega skemmdu mannlífið. Byggingar í gamla stílnum voru settar þarna inn á milli í stað þeirra eldri:

Keimlíkt þessu þyrfti að gera víða í Reykjavík, rífa niður ljótar byggingar sem samsama sig lítt þeim staðaranda sem ríkir í borginni. En Reykjavík er lítil og smátt og smátt verðu æ minna eftir af þeim staðaranda sem var og ef við breytum ekki stefnu í vali á byggingum þá er hætta á að við töpum miklum menningarverðmætum og gerum Reykjavík ljótari og ópersónulegri borg þar sem lítið er eftir af byggingum í þeim stíl sem ríkti þegar borgin byggðist upp. Inntak þessa pistils er því brýnt: Að byrja að byggja á ný fögur hús með sterka tilvísun í staðaranda, arfleið og sögu og þar sem fólki líður vel og að byggingar ýti undir samneyti fólk og gott mannlíf.

Það má segja að yfirstandandi sé stórslys númer 2 því að það fyrra var þegar rifin voru mörg gömul hús á árunum 1960-1980 og ljót byggð í staðin. Við áttuðum okkur smátt og smátt á virði og menningarsögu gamalla húsa en hin síðustu ár hafa skipulagsyfirvöld Reykjavíkur algerlega valtað yfir bygginarmenningu og sögu með því að leyfa verktökum að vera um of ráðandi í að skapa formfegurð borgarinnar. Þeir hugsa um of um eitt: að hámarka fjölda seldra og leigðra fermetra og því leita þeir í kassalaga gámastílinn sem hefur nú yfirtekið flest fjölförnustu svæði borgarinnar. Og nýjasta dæmið sýnir að enn er haldið áfram í sama gírnum:

Verðlaunartillagan við viðbyggingu stjórnarráðsins sver sig í ætt við „brutalist architecture“ sem er yfirleitt talin gróf, ómanneskjuleg og köld stefna sem yfirleitt vekur litla jákvæðni hjá fólki. Sem dæmi um þennan brútal-arkítektur er ráðhúsið í Boston sem oft er nefnt sem eitt ljótasta hús veraldar. Við þurfum að hætta að teikna hús út frá því að einhver arkítekt geti sett eitthvað sniðugt og óvanalegt í ferilsskrá sína og byrja að teikna út frá því hvað fólki finnst vera fallegt. Að byggja út frá brútal-arkítektúr við hliðina á lágreista, hlýja stórnarráðshúsinu er dæmi um ógögnur sem við erum komin í með hvernig útlit húsa á að vera. Ef um er að ræða prívat hús einhvers er sjálfsagt að gera engar kröfur eða ramma um útlit húsa. En þegar um er að ræða hús í nafni almennings, á stað sem almenningur fer oft um, er nauðsynlegt að byrja aftur á að byggja fallegt hús.

 

Lífeyrissjóðir sem vinna bæði gegn sjóðsfélögum og í þágu þeirra

Lífeyrissjóðir ættu að vinna í einu og öllu að hagsmunum sjóðsfélaga alveg frá því þeir byrja að greiða í sjóðina, ekki bara með hagsmuni lífeyrisþega í huga. Fyrir utan að huga að ávöxtun og restrarkostnaði er einnig mikilvægt að þeir setji sér siðferðisleg viðmið sem miða að því að hafa ekki neikvæð efnahagsleg áhrif á almenning í þeim geirum sem snerta neyslu og kaupmátt fólks.

Lífeyrissjóðir ættu allir að undirgangast opinber, siðferðisleg viðmið sem taka á þessum þáttum:

 • Auka áhættufælni – fækka áhættusömum verkefnum. Að ástunda varfærna fjárfestingastefnu með jafna og ágæta ávöxtun í huga og ekki taka þátt í áhættusömum fjárfestingum..
 • Tryggja lífeyriskerfið frá þátttöku í fjárfestingaverkefnum sem hafa fjárhagsleg sjónarmið annarra en sjóðsfélaga að leiðarljósi. Þetta getur gerst þegar stjórnir sjóða starfa ekki alfarið með hagsmuni sjóðsfélaga í huga.
 • Minnka þátttöku sína á sveiflukenndum hlutabréfamörkuðum.
 • Hafa jákvæð, efnahagsleg áhrif gagnvart almenningi. Loka á neikvæð hliðaráhrif. Gæta þess að hafa ekki neikvæð efnahagsleg áhrif í þeim geirum sem snerta neyslu og kaupmátt almennings með því að:
  • Hafa ekki þau efnahagslegu áhrif að almenningur búi við lakari kaupmátt.
  • Hafa ekki þau efnahagslegu áhrif að almenningur búi við háa vexti.
  • Hafa ekki þau efnahagslegu áhrif að gengissveiflur aukist.
  • Hafa ekki þau áhrif að kaupverð húseigna hækki meira en eðlilegt er.
  • Hafa ekki þau áhrif að leiguverð þróist hærra en eðlilegt er.
  • Taka þátt í fjármögunun húsnæðisverkefna, einkum ódýrra leiguíbúða.
  • Hafa ekki þau efnahagslegu áhrif að fyrirtæki á smásölumarkaði hámarki verð á vörum og þjónustu til almennings.

Því miður er meirihluti lífeyrissjóða á Íslandi ekki komnir langt í að huga að ofangreindum punktum. Lífeyrissjóðir hafa ekki sett sér siðferðisleg viðmið sem snerta hagsmuni sjóðsfélaga og er niðurstaðan sú að starfsemi lífeyrissjóða er stundum háttað í andstöðu við hagsmuni sjóðsfélaga.

Þetta er ákaflega furðulegt umhverfi og er hálfgert „vilta vestrið“ þar sem sjóðir bæði stuðla að hagsæld þeirra sem þiggja lífeyri en eru oft á sama tíma að hafa neikvæð áhrif á kjör þeirra sem eru að greiða inn í kerfið.

Íslenskir lífeyrissjóðir gera nefnilega ýmislegt sem sem hefur talsvert neikvæð áhrif á efnahag landsmanna og vinna þannig á móti því sem ætti að vera markmið þeirra – að efla hag sjóðsfélaga á öllum aldri:

 • Þeir auka á stundum sveiflur í gengi íslensku krónunnar.
 • Þeir auka á stundum álögur sumra smásölufyrirtækja sem almenningur notar mikið.
 • Athafnir lífeyrissjóða hafa oft neikvæð áhrif á kaupmátt.
 • Þeir ýta undir háa vexti á Íslandi, einkum vexti á íbúðalánum og eru helstu varðmenn verðtryggingar.
 • Þeir eiga það til að ýta undir verðmyndun hlutabréfa sem ekki er alltaf innistæða fyrir.
 • Með skorti á gagnsæi gera þeir fólki erfitt með að bera þá saman, fylgjast með ákvörðunum, búa við aðhald og opinbera umræðu og eftirlit með fjárfestingum. Mjög erfitt er að fá upplýsingar um ávöxtun sjóða og árangur einstakra fjárfestingaverkefna. Leynd hvílir yfir mörgu í starfsemi sjóðanna og forsvarsmenn sjóða taka illa í alla umræðu um breytingar á kerfinu sem gætu aukið skilvirkni þess.
 • Forsvarsmenn lífeyrissjóða hafa gert fremur lítið sem eykur traust almennings á þeim og er það áhyggjuefni. Samt liggur það fyrir að lífeyrissjóðir mælast mjög neðarlega – stundum neðst allra fjármálafyrirtækja þegar kemur að trausti, vinsældum og hvaða fyrirtæki séu til fyrirmyndar.

Almenningur sem kaupir matvöru, bensín, tryggingar, flugmiða o.fl. er oftast að versla við fyrirtæki þar sem lífeyrissjóðir eiga annaðhvort meirihluta í eða eru burðarfjárfestar. Þetta leiðir nefnilega til þess að lífeyrissjóðir eru að gera stífa arðsemiskröfu inn í fyrirtækin sem hækka verð sem almenningur greiðir. Er þetta í lagi? Þarna eru lífeyrissjóðir að segjast vera að hækka ávöxtun lífeyris með því að láta almenning í nútímanum greiða fyrir vörur og þjónustu með mjög háu verði.

Meginrökin gegn þessu núverandi kerfi lífeyrissjóða er að við greiðum miklu lengur inn í sjóðina en við tökum úr þeim. Þess vegna eiga lífeyrissjóðir að huga a.m.k. jafnmikið að siðferðislegum og efnahagslegum sjónarmiðum gagnvart sjóðsfélögum á meðan þeir eru að greiða inn í kerfið, eins og hver staðan verður þegar þeir taka út úr kerfinu. Því miður er eins og lífeyrissjóðir hugsi fyrst og fremst um tímabilið þegar fólk er lífeyrisþegar og hugsi svo lítið um hitt tímabilið, sem fólk greiðir inn í kerfið, oft með þeim árangri að það er verið að taka af lífskjörum fólks í blóma lífsins og flytja inn á stutta tímabilið, eftir að fólk hættir að vinna. Þetta er alveg galið.

Ef einstaklingur byrjar að greiða í lífeyrissjóði 20 ára gamall og greiðir fram að 67 ára aldri þá má gera ráð fyrir, út frá ævilíkum Íslendinga að viðkomandi fái lífeyri úr sameignarsjóðum í 17 ár.

Við greiðum inn í kerfið í 48 ár eða í 73,8% af tímanum 20-84 ára.
Við tökum lífeyri út úr kerfinu í 17 ár eða í 26,2% af tímanum 20-84 ára.

Mikilvægt er því að huga að ýmsum breytingum á lífeyriskerfinu. Í fyrstu er rétt að huga að eftirfarandi breytingum, öllum til ábata, bæði lífeyrisþegum sem og fólki sem er að greiða í sjóðina: