Þegar lýðræðið er sett á ís

Í hverju landi ríkir stjórnarfar sem fær virðulegt nafn. Á Íslandi heitir það „lýðræði“ í daglegu tali eða „þingbundið lýðræði“ (Unitary Parliamentary Republic) þegar rætt er á nákvæmari nótum.

Nú gleðjumst við réttilega oft yfir því að lýðræði sé á Íslandi. En við sjáum það út frá öðrum löndum að það er ekki nóg að hafa skilgreint lýðræðislegt stjórnarfar til að tryggja að lýðræði sé virkt í viðkomandi landi. Við sjáum að löndin eru mörg sem hafa sama stjórnarfar og á Íslandi en þó má örugglega segja að raunverulegt lýðræði sé mjög mismunandi í þessum löndum og að áhrif „lýðsins“ eða almennings séu mjög mismunandi:

Þannig að virkt og raunverulegt lýðræði þarf alls ekki að vera til staðar þó að land hafi þingbundið lýðræði. Því ef við nostrum ekki við lýðræðið þá getur lýðræðið boðið heim hættum sem grafa undan því. Spilling, flokksræði, leynd og sérhagsmunahópar eiga nefnilega miklu greiðari leið að ná fótfestu í lýðræðislegu umhverfi ef lýðræðið er þannig hannað að það er hægt að hunsa vilja almennings. Þá geta þessi öfl, sem eru andstæðingar lýðræðis, náð fótfestu og breytt lýðræði yfir í fáræði í nafni lýðræðis – þar sem vilji fárra ræður þvert á vilja margra. Færa má rök fyrir því að þetta sé að einhverju leyti staðan í mörgum þeirra landa sem eru á listanum í töflunni hér ofar.

Eina leiðin til að breyta því að lýðræði komist í hendur fárra og breytist í fáræði er að koma í veg fyrir það að stjórnvöld geti hunsað vilja almennings í stórum og veigamiklum málum. Nægir að hugsa um mál eins og heilbrigðismál, nýja stjórnarskrá, ákvarðanir í hruninu og margar aðrar þar sem stjórnvöld hafa hunsað skýran vilja meirihluta almennings í löndum eins og t.d. Íslandi.

Það er því réttmætt að spyrja: Er lýðræði á Íslandi virkt?

Virkt lýðræði einkennist af því að stjórnvöld eru að setja mál almennings í forgang; eru að framkvæma vilja almennings. Sem betur fer gerist slíkt oft en mörg mál síðari ára vekja upp ugg um það að stjórnvöld séu oft treg til að framkvæma í mál sem hafa skýran meirihlutavilja almennings á bak við sig.

Nú spyrja margir: Af hverju þarf að gagnrýna lýðræðisstig þar sem Ísland kemur yfirleitt vel út í alþjóðlegum samanburði á hinum ýmsu „Democracy Index“-listum? Því er til að svara að flestir – nær allir – slíkir listar mæla aðra þætti en hversu virkt lýðræði er í raun í hverju landi. Einn þekktasti listi yfir mat á lýðræði í löndum er „Democracy Index“-listinn sem unnin er af Economist Intelligence Unit (EIU). Þar kemur Ísland mjög vel út, er nú í 2. sæti (sjá allann listann hér):

Gallinn við þennan „Democracy Index“-lista er að hann setur fram mat á lýðræði út frá hvort fólk geti yfir höfuð kosið ef það vill, hvort kjósendur séu öruggir á kjörstað og öðrum þáttum sem eiga frekar við í ríkjum þar sem mun meiri harðstjórn ríkir en er á Íslandi og í nágrannalöndum okkar.

Þetta eru helstu matsatriði „Democracy Index“-listans:

 1. Að kosningar séu öllum opnar. (Whether national elections are free and fair)
 2. Að kjósendur séu öruggir. (The security of voters)
 3. Sjálfstæði ríkisstjórna. (The influence of foreign powers on government)
 4. Svigrúm fulltrúa á að koma málum til leiðar. (The capability of the civil servants to implement policies)

Ísland kemur vel út á öllum þessum atriðum: Kosningar eru öllum opnar (ekki er reynt að hindra ákveðna hópa svo að neinu nemi), kjósendur eru öruggir og áhrif erlendra aðila á ríkisstjórnir eru ekki neitt sérstaklega óeðlileg. Einnig hafa kjörnir fulltrúar svigrúm til að koma málum til leiðar, kjósi þeir það. Oft er það reyndar á kostnað þess að fara gegn flokkslínnum en möguleikinn er til staðar.

Þess vegna er beinlínis rangt að taka lista eins og „Democracy Index“-listann og segja að allt varðandi lýðræði á Íslandi sé í lagi. Þessi listi mælir ekki lykilatriði lýðræðisins: Hvort stjórnvöld setji það í algjöran forgang að vinna út frá hagmunum almennings í stað þess að vinna út frá hagsmunum sérhagsmunahópa. Þetta er nefnilega kjarninn í lýðræðinu í dag: Eru stjórnvöld að setja þarfir og vilja almennings í fyrsta sæti? Jú, í einhverjum tilfellum, en ekki alltaf og að mati almennings, alls ekki í mörgum veigamiklum málum (stjórnarskrá, heilbrigðiskerfið, löggæsla, ljósmæður, meðferð hrunmála, leyndarhyggja o.fl.). Fjölmörgum málum er þannig háttað að ríflegur meirihluti þjóðar hefur kosið að setja þau í forgang en stjórnvöld hafa hunsað þann vilja. Það þynnir út lýðræðið, svo að ekki sé meira sagt.

—  —  —

Að lokum má nefna þann mikilvæga þátt, sem æ oftar kemur fram í rannsóknum fræðimanna á virku lýðræði: Það sem eflir lýðræði er ekki að vinna beint að því að tala fyrir lýðræði því lýðræði getur tekið á sig svo margar myndir (spilltar og óspilltar). Niðurstaða fræðimanna er miklu frekar sú að barátta gegn spillingu á öllum stigum þjóðfélagsins auki lýðræði og greiði götu vilja almennings í veigamiklum málum. Þetta má sjá hér:

Niðurstaðan á þessu grafi er sú að virkt lýðræði, þar sem vilji almennings er ekki hundsaður fæst fram með því að hafa lága spillingu. Einkum ef tekst að minnka spillingu, ógagnsæi og leynd í stjórnsýslunni í heild. Þetta er niðurstaða sem Íslendingar verða að taka alvarlega og auka gegnsæi á öllum stigum stjórnsýslunnar sem og að setja harðari reglugerðir sem koma í veg fyrir spillingu, eða allavega auka fælingarmátt vegna spillingar. Sjá nánar um þetta hér.

 

Mesta tap lífeyrissjóða er í hlutabréfum – samt er haldið áfram

Árin 2008-2010 var langmesta tap lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum:

Þetta gildir ekki bara um árin 2008-2010 því yfir önnur tímabil hefur mikið tap lífeyrissjóða einnig verið vegna innlendra hlutabréfa, bæði fyrir og eftir hrun.

Það kom því ekki á óvart, þegar það kom í ljós að sá lífeyrissjóður, sem hefur hæstu ávöxtunina af öllum íslenskum lífeyrissjóðum sem eru almenningi opnir, skuli lítið taka þátt í íslenska hlutabréfamarkaðinum. Sjá hér frétt um verðlaun til handa Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem hefur slíka fjárfestingastefnu að sögn framkvæmdastjóra sjóðsins.

Það er eflaust gott að fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðnum, ef markmiðið er að ná ágóða á tiltölulega skömmum tíma, á 1-5 árum. En lífeyrissparnaður er sparnaður yfir 40-50 ár og á slíkur sparnaður ekki heima á örsmáum hlutabréfamarkaði, eins og íslenski hlutabréfamarkaðurinn er. Það er ekki nóg með að þar séu miklar sveiflur, heldur er seljanleiki oft erfiður, því stöðutaka lífeyrissjóða er svo stór að oft er enginn kaupandi til staðar nema næsti lífeyrissjóður. Það er nefnilega ekki nóg að græða skv. bókfærðu verði, það verður líka að vera hægt að selja skjótt, á hárréttum tíma, til að taka út góða ávöxtun.

Það má því færa rök fyrir því að íslenskir sameignasjóðir eigi að draga úr þátttöku sinni á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Reynslan sýnir að þaðan koma stærstu taptölur sjóðanna og það er ekkert breytt við íslenska hlutabréfamarkaðinn nú sem kemur í veg fyrir að áframhaldandi tap sjóða á hlutabréfum sé til staðar. Nóg er að horfa á nýlegar fréttir, sem reglulega berast, sem sýna miklar dýfur í verði hlutabréfa sem þýðir lægri lífeyri fyrir íslenskan almenning:

Frétt MBL.is, „Bréfin lækkuðu um 24,65%“, en þar segir:

„Bréf í Icelanda­ir lækkuðu um 24,65 pró­sent í dag. Loka­gengi bréf­anna var 9,57 og var velta viðskipta með bréf­in 600 millj­ón­ir króna.“

Markmið lífeyrisþega eru að viðhalda jafnri og traustri ávöxtun til áratuga. Íslenskur hlutabréfamarkaður veitir ekki slíka ávöxtun. Því er því beint til lífeyrissjóða að draga úr stöðutökum sínum á íslenskum hlutabréfamarkaði og færa sig nær þeim fjárfestingarflokkum sem minnsta tapið hafa veitt á liðnum árum: Innlend veðskuldabréf (húsnæðislán). Við sjáum skýr dæmi um þá sjóði sem forðast hafa íslenska hlutabréfamarkaðinn að þeir eru til lengri tíma að ná hærri langtímaraunávöxtun en aðrir. Næg dæmi eru því fyrir hendi til að rökstyðja slíka áherslubreytingu.

Það er því furðulegt þegar lífeyrissjóðir eru hvattir til þess að taka með auknum þætti þátt í húsnæðisverkefnum sem hafa einmitt (sjá töfluna efst) skilað minnsta tapinu og minnstri áhættunni. Svar lífeyrissjóða er að þeir vilja ekki taka þátt í stórum húsnæðisverkefnum „vegna áhættunnar“, eins og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefndi, sjá hér.

Fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða sagði óaðl­að­andi fyrir líf­eyr­is­sjóði að standa í rekstri leigu­fé­laga. Sjóð­irnir væru fyrst og fremst fjár­festar og myndu ein­ungis styrkja fjár­mögnun leigu­í­búða í gegnum hluta­fé­lög til þess að lág­marka áhætt­una.

Þetta eru undarleg ummæli og þvert ofaní staðreyndir hér að ofan. Fjárfestingar lífeyrissjóða í stórum húsnæðisverkefnum, eins og leigufélögum er minnsti áhættuþáttur lífeyrissjóða skv. bókum þeirra sjálfra. Þátttaka á íslenska hlutabréfamarkaðnum er einmitt mesti tapliðurinn og skapar því mestu áhættuna fyrir lífeyrissjóði, öfugt við það sem framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefnir.

―  ―  ―

Unnið er að því að skoða önnur tímabil, bæði 2000-2008 og svo einnig nýrri tímabil, 2009-2014. Erfiðara er að skoða síðustu ár af því að eignir lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði eru færðar inn sem bókfært verð sem reynist oft vera annað en innlausnarverð sem er hið endanlega verð, eftir að sala hefur átt sér stað.

Lífeyrissjóðir tregir til að birta upplýsingar um eigin árangur

Allir landsmenn eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði (sameignarsjóði). Þessi skylduáskrift ætti sjálfkrafa að krefjast þess að hámarksgagnsæi myndi ríkja um alla meðhöndlun þessara fjármuna því hér er um að ræða stærsta sparnað almennings og það sem fólk þarf að treysta á síðasta fjórðung ævinnar. Skýrar upplýsingar um raunávöxtun, kostnað og aðra þætti ættu að liggja fyrir augu almennings en svo er því miður ekki.

Sú ótrúlega staðreynd er þó engu að síður sannleikur: Lífeyrissjóðir hafa til þessa ekki viljað setja fram aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning sem gefa fólki kleyft að bera saman langtímaávöxtun sjóða með auðlæsilegum hætti. Lífeyrissjóðir gefa reyndar upp ávöxtun í ársreikningum og birta stundum ávöxtun örfá ár aftur í tímann en nær aldrei er um að ræða heildstæðan samanburð lífeyrissjóða, ekki einu sinni þeirra stærstu. Að bera saman ávöxtun sín á milli er eitthvað sem lífeyrissjóðir á Íslandi virðast forðast og er sú afstaða mjög bagaleg, sé horft til hagsmuna almennings.

Það er ekki nóg að birta tölur og hafa þær dreifðar og óaðgengilegar (í mörgum skjölum sem geymd eru á mismunandi stöðum). Almenningur verður að fá þessar tölur samanteknar á aðgengilegt og staðlað form, alveg eins og er með innihaldslýsingu matvæla og önnur töluleg gögn sem almenningur á rétt að vera upplýstur um. Um þetta ritaði ég nýlega (Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða) en miðað við núverandi birtingu upplýsinga frá lífeyrissjóðum þyrfti einstaklingur að opna a.m.k. 20 Excel skjöl með um 200.000 tölum, finna réttur tölurnar og reikna þær rétt saman til að átta sig á því hvaða lífeyrissjóðir eru að ávaxta lífeyri landsmanna vel og hverjir ekki. Auk þessi þyrfi að vinna gögn úr ársreikningum sjóða sem eru um 600 PDF skjöl til að sjá sameiningarhlutföll og aðrar upplýsingar um rekstur, kostnað og afkomu, til að fá 20 ára heildarsýn á hvaða lífeyrissjóðir eru að standa sig vel. Augljóst er að Jón og Gunna eru ekki að dunda við þetta yfir sjónvarpinu á kvöldin.

Það er því nær ómögulegt fyrir almenning að svara spurningunni hvaða lífeyrissjóðir séu að standa sig vel til lengri tíma litið.

Margir hafa á umliðnum árum haft samband við mig og viljað fá ráðleggingar um það hvaða lífeyrissjóðir séu að ávaxta vel á Íslandi. Hef ég þess vegna í nokkur ár hvatt lífeyrissjóði reglulega og landssamtök þeirra til að birta raunávöxtunartölur allra sjóða a.m.k. 20 ár aftur í tímann og að hafa þær tölur samanburðarhæfar á milli sjóða. Yfirleitt hefur verið tekið neikvætt í þetta af lífeyrissjóðum og landssamtökum þeirra. Þeir hafa í samskiptum við mig nefnt þrjár meginástæður fyrir því af hverju þeir telja óæskilegt að birta samanburðarhæfar tölur:

 1. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að ávöxtunarstefna þeirra sé mismunandi. Að það megi ekki bera saman „epli og appelsínur“, eins og þeir orða það.
 2. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að sumir sem greiða í lífeyrissjóði eiga erfitt með að skipta um sjóði, hafi ekkert val.
 3. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að uppgjörsaðferðir séu mismunandi og að sameining ýmissa sjóða sem hluti af fortíðinni sem geri uppgjör og útreikning ávöxtunar eilítið flóknari.

Að mínu mati eru þetta ekki sterkar röksemdir því réttur almennings til að fá að vita um ávöxtun á eign peningum ætti að vera svo sjálfsögð það á ekki að þurfa að ræða það neitt frekar. En þetta er stundum reyndin á Íslandi, að það þurfi að kreista fram upplýsingar í dagsljósið sem ættu að vera öllum opnar. Þessum þremur punktum frá lífeyrissjóðunum mætti svara svo:

 1. Það eru engin rök að koma í veg fyrir að birta ávöxtunartölur af því ávöxtunarstefna sjóða sé mismunandi. Almenningur vill vilta hver er að standa sig vel og hver ekki. Það er svo tæknilegt mál að skoða skýringuna þar á bak við, af hverju sumir eru með 1,25% raunávöxtun í 20 ár en aðrir >6%. Skýringin gæti m.a. verið mismunandi ávöxtunarstefna en það er bara ein skýring af mörgum. Ekki ástæða til að birta ekki ávöxtunartölur.
 2. Það er rétt að sumir hafa ekkert val um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í. Þetta tengist nefnilega stundum samningum launþegafélaga. En þetta er – enn og aftur – ekki ástæða til að koma í veg fyrir að birta ávöxtun á sparnaði almennings. Það gæti t.d. verið gott að vita fyrir Jón og Gunnu að ef þau eru að greiða í sjóð sem ávaxtar þeirra lífeyri ekki nema 1,25%, yfir starfsævina, að þau þurfi að leggja fyrir aukalega ef þau ætla að lifa með reisn á efri árum. Það væri næg ástæða til að birta tölurnar.
 3. Ekki er hægt að sleppa frá því að birta ávöxtunartölur lífeyris almennings vegna þess að það sé flókið að leggja saman nokkrar tölur. Búið er að sýna fram á það með vísindavinnu (sem vísað í m.a. hér). Ekkert er því að vanbúnaði, talnalega séð, til að þessar tölur séu birtar.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi:

Ávöxtun á skyldulífeyri landsmanna er mjög mismunandi. Það er eðlileg krafa út frá öllum sjónarmiðum að birta það hvaða lífeyrissjóðir eru að skila landsmönnum góðri ávöxtun og hverjir ekki:

― ― ―

Hversu miklu máli skiptir mismunandi ávöxtun?

Það skiptir mjög miklu máli hvort einstaklingur er í sjóði sem skilar góðri eða slakri ávöxtun.

Dæmi:
Jón og Siggi hafa sömu laun alla starfsævina og greiða í lífeyrissjóð 40 ár. Jón greiðir í sjóð sem er með 1,25% ávöxtun en Siggi greiðir í sjóð sem er með 6,16% ávöxtun, alla starfsævina. Hver er munurinn í útgreiddum lífeyri, þegar þeir eru að hefja töku lífeyris?

Margir þættir hafa áhrif á hvað þeir fá raunverulega, ekki bara ávöxtunin þó hún sé mikilvægasti þátturinn. Sjóðsfélagahópurinn (hvort mikið eða lítið er um örorku) ræður allnokkrum um það hvað þeir Jón og Siggi fá því fjármögnun slíkra greiðslna er í nafni allra hinna sjóðsfélaganna. Auk þess breytast töflur lífeyrissjóða sem segja til um hvað sjóðsfélagar fá m.v. inngreiddan lífeyri, nokkuð ört. Fyrir sjóði með háa ávöxtun koma réttindaaukar en aftur á móti skerðing hjá þeim sjóðum sem lága ávöxtun hafa.

Hér er dæmi um réttindatöflu hjá lífeyrissjóð VR:

Þetta er eins og lífeyrissjóðir áætla endurgreiðslu: Fyrir hverjar 10.000 kr. sem greiddar eru inn í sjóðinn fær einstaklingur endurgreiðsluréttindi (ávinnslu) upp á ákveðna upphæð sem heldur viðkomandi sjóð innan jákvæðra tryggingafræðilegra marka. Ávinnslan er svo út æviskeiðið, ólíkt séreignarsparnaði sem er föst tala.

Það er því ekki hægt að reikna nákvæmlega hvað Jón eða Siggi mun fá í lífeyri nema með því að gefa sér allmargar forsendur. Það fer mikið eftir samþykktum sjóða, ávöxtun, kostnaðarstrúktúr sjóðsins og rekstur hans ásamt öðrum þáttum, sjóðsfélögum, réttindatöflum og breytingum sem þær eru háðar, svo að fátt eitt sé nefnt. Tölurnar sem nefndar eru hér eru því ekki endanleg niðurstaða aðeins áætlun út frá algengum forsendum sem hafa verið gefnar til að átta sig á stærðargráðunni sem niðurstaðan getur legið á:

Önnur leið til að nálgast niðurstöðu í þessu dæmi: Segja má, gróflega séð að ef við miðum við tvo meðalmenn með meðallífslíkur og meðallaun en að þeir greiði, eins og í dæminu hér að ofan, í tvo mismunandi sjóði (annar með 1,25% ávöxtin, hinn með 6,16% ávöxtun) að þá fái sá sem valdi sjóð með lága ávöxtun um 40% lægri lífeyri úr sínum sjóð en meðalmaður myndi fá (sem fær 3,5% ávöxtun) en sá sem valdi sjóðinn með 6,16% ávöxtun fái um 65% hærri lífeyri úr sínum sjóð.

Hafa verður í huga að hér er miðað við ávöxtunartölur síðustu 20 ár sem er ekki nema helmingur af 40 árum og því mjög mörg „ef“ í þessum útreikningum. Vel má færa rök fyrir því að næstu 20 ár verði með þeim hætti að ávöxtunarmunur lífeyrissjóða verði lægri og því er rétt að það komi fram að það séu ákveðin líkindi í þá átt að munurinn verði minni í framtíðinni. Síðustu 20 ár fela í sér eitt bankahrun með tilheyrandi sveiflum og ef við bindum vonir við minni sveiflur á næstu árum þá kann að vera að sá munur sem tilgreindur er hér á Jóni og Sigga verði minni í framtíðinni.

Ath. að lífeyrissjóðir með lága ávöxtun ná ekki að greiða sjóðsfélögum lágmarkslaun. Í þeim tilvikum tekur hið almenna tryggingakerfi við og hækkar upphæðina sem kemur frá lífeyrissjóðum upp í það sem þjóðfélagið (ríkið) skilgreinir sem réttmæt lágmarkslaun. Þó að einstaklingar séu að fá lágan lífeyri þá er hin endanlega upphæð því oft aðeins hluti af upphæðinni sem berst viðkomandi einstakling, upphæðin frá lífeyrissjóðnum er oft töluvert lægri, a.m.k. í sumum tilfellum.

― ― ―

Það þarf ekki að lýsa því hvað þetta er sjálfsagt mál í nágrannalöndum, þar eru þessar upplýsingar mjög aðgengirlegar (t.d. í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Austurríki, Frakklandi og víðar). Þar eru ávöxtunartölur lífeyrissjóða bornar saman, oft vikulega. Enda eykur slíkt aga og samkeppni sjóða og gerir aðeins gott fyrir ávöxtun á fé almennings.

Í nokkur ár hef ég bent á hvað þetta er mikilvægt mál fyrir almenning. Í fyrstu fékk ég harða gagnrýni fyrir að krefjast þess að lífeyrissjóðir birtu samanburðarhæfar raunávöxtunartölur yfir langt tímabil. Á síðustu mánuðum hafa þessar raddir dvínað ögn og meira er tekið undir þessi sjónarmiða að það eigi að birta þessar tölur, skilyrðislaust. Vonandi eru því að koma nýjir tímar í þessum málum og gagnsæi lífeyrissjóða að aukast.

 

 

 

 

 

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda valinn fyrsti valkostur fyrir almenning

Er lífeyrissjóðurinn þinn að ávaxta lífeyrinn þinn vel? Þetta skiptir máli því við öll erum skylduð til að greiða sparnað til lífeyrissjóða sem við ætlum að stóla á síðasta fjórðunginn á ævinni. Þessar upplýsingar ættu auðvitað að liggja fyrir með skýrum hætti sem því miður er svo ekki alltaf. Erfitt hefur verið að bera saman langtímaávöxtun sjóða sem gerir greiðendum lífeyris erfitt með að átta sig á því hvort þeir séu að njóta góðrar ávöxtunnar eða ekki.

Víða í Evrópu tíðkast það miklu meira en hér að bera saman sjóði og veita þeim þannig aðhald og auka samkeppni. Slíkt er vonandi að færast í aukana hér á landi.

Verkefnið PensionPro (á vegum ráðgjafafyrirtækisins Verdicta) miðar að því að opna þessar upplýsingar gagnvart almenningi og er stefnt að því að almenningur geti skoðað upplýsingar um alla sjóði og borið saman hvernig þeir hafa staðið sig til lengri tíma, 20 ár aftur í tímann. Mun þetta opna á næstu vikum.

Í dag var tilkynnt hvaða lífeyrissjóður hefði staðið sig best þegar öll sagan er skoðuð, 20 ár aftur í tímann m.v. þá sameignarsjóði (skyldulífeyrissjóði) sem eru opnir fyrir almenningi. Niðurstaðan var sú að Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem hefur staðið sig best og er sá sjóður sem er fyrsti valkostur fyrir almenning þegar horft er til langst tíma.

Ath. hér er ekki verið að fjalla um séreignasjóði (viðbótarlífeyrissparnað), heldur sameignarsjóði.

Í dag var ég svo heppinn að fá að hitta framkvæmdastjóra Söfnuarsjóðs lífeyrisréttinda, Sigurbjörn Sigurbjörnsson, og afhenda honum viðurkenningu fyrir þennan góða árangur:

Sigurbjörn Sigurbjörnsson hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda tekur við PensionPro verðlaununum úr hendi Hallgríms Óskarssonar sem fyrsti valkostur almennings 2018. (Mynd: GeiriX)

—  —  —

Þegar 20 ár eru skoðuð er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda með 5,02% meðalraunávöxtun yfir allt tímabilið. Slík ávöxtun er afar góður árangur og getur Söfnunarsjóðurinn verið afar ánægður með slíkan árangur.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hefur að auki sýnt jafnan stöðugleika m.v. aðra sambærilega sjóði á Íslandi og kemur hann einnig vel út þegar ýmis önnur tímabil eru skoðuð nánar, bæði árin fyrir og eftir hrun. Sérstaklega hefur Söfnunarsjóður lífeyris­réttinda staðið sig vel á árunum eftir hrun, þar sem hann hefur náð 8,74% í meðalraun­ávöxtun fyrir árin 2009-2012. Þessi árangur, sem og árangurinn í heild, er afar góður og er því hægt að mæla með Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem fyrsta valkosti almennings á árinu 2018.

PensionPro verðlaunin eru afleiðing af rannsóknarvinnu sem miðað hefur að því að birta ítarlegri upplýsingar um lífeyrissjóði en verið hefur til þessa. Fyrstu upplýsingarnar í þá veru birtust í eftirfarandi grein sem er frá 9. maí 2018, rituð af Gylfa Magnússyni og Hallgrími Óskarsyni:

—  —  —

Ítarefni:

  – Umfjöllun um valið á Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda
     http://www.verdicta.is/pensionpro-2018/

 

Í kjölfar kosninga 2018 – staða flokkanna

Fólk velur hvað það eigi að kjósa í kosningum að mestu út frá skilaboðum, grunnímynd og þeim gildum sem fólk telur að flokkar og frambjóðendur standi fyrir. Þess vegna er fróðlegt að skoða hvaða skilaboð flokka og frambjóðenda náðu í gegn í nýliðnum sveitarstjórnakosningum.

Hvað virkaði og hvað hefði mátt gera betur?

Niðurstöður kosninganna: Enginn skýr sigurvegari.

Samfylking

Það er merkileg staða sem Dagur B. Eggertsson er í. Mörgu fólki finnst hann hafa staðið sig svo sem sæmilega sem borgarstjóri en fáir eru mjög ánægðir með hann. Varðandi rekstur borgarinnar þá heldur hann velli þar, a.m.k. hefur andstæðingum ekki tekist að vekja upp sterka umræðu um að eitthvað sé að í rekstri borgarinnar. Það eru miklu frekar samgöngumálin og skipulagsmálin sem hafa veikt hann töluvert mikið sem borgarstjóra. Fólk í fastri bílaumferð er orðið langþreytt og Dagur hefur ekki einu sinni rænu á að svara þannig að hann sýni hluttekningu með þeim tugum þúsunda manna sem upplifa slíkar umferðarhörmungar á degi hverjum. Það eitt eru pólitísk mistök því að offors gegn þessum mikla fjölda er bara ávísun á óvinsældir. Af hverju ekki að reyna að leysa þeirra vanda líka, a.m.k. að sýna viðleitni til þess?

Orðræða Samfylkingar og margra annarra hefur nefnilega verið: Það þarf ekkert að gera fyrir bílafólk því þá koma bara fleiri bílar og svo er Borgarlína alveg að fara að koma sem mun leysa allt. Þetta er auðvitað mikil einföldun á málinu. Borgarlína kemur ekki fyrr en eftir nokkuð mörg ár og með því að svara bílafólki með því að Borgarlína sé að koma þá er í leiðinni verið að segja: Mér er alveg sama þótt þessi umferðarteppa verði í mörg ár í viðbót.

Margir sem tala fyrir Borgarlínu gera yfirleitt þau mistök að t tala léttúðlega um að kýla bara á eina Borgarlínu sem fyrst, já bara drífa í henni! Athugið að þetta gæti verið ein allra stærsta fjárfesting Íslands eða a.m.k. eins sveitarfélags. Fyrstu áætlanir segja 80 milljarðar og ef við notuðm skekkjuna sem var frá áætlun Hörpu upp í raunverulegan kostnað (faktor 3) þá gæti Borgarlína mögulega kostað 80 x 3 eða leikandi um 240 milljarða. Þetta er gríðarleg upphæð fyrir sveitarfélag jafnvel þó að ríkið taki þátt. Þess vegna verða allir sem tala um Borgarlínu, þessa mikilvægu samgöngubót, að tala af miklu meiri ábyrgð, bæði vegna kostnaðarins og líka vegna þess að það er ekki fullséð um það hver sé besta útfærslan og ekki er heldur fullséð að hægt sé að hafa yfirumsjón með jafn stóru verki og halda spillingarhættum frá verkinu á sama tíma.

Auðvitað á að stefna á Borgarlínu en það þarf að undirbúa hana betur. Borgarlína er mikilvæg vegna þess að hverfi borgarinnar eru að verða dreifðari og fólk þarf að fara lengri vegalengdir. En samhliða Borgarlínu þarf líka að leysa vanda ökumanna einkabíla, það er ekki nóg að segja þeim að hætta að keyra. Sú fjárfesting mun líka nýtast sjálfkeyrandi bílum. Það þarf samt áfram að hvetja til takmörkunar á notkun einkabíla, líkt og gert er á ýmsum svæðum erlendra borga, en það væri þó líklega skynsamlegt að leyfa Miklubraut að vera samfellda akstursleið, alla leið úr Mosfellsbæ að Þjóðminjasafni. Þeir sem vilja útiloka annað eru að fá helming borgarbúa upp á móti sér.

Hitt stóra málið sem veikt hefur Dag eru skipulagsmálin en þar hafa þeir félagar, Dagur og  Hjálmar Sveinsson, tekið mjög stóra pólitíska áhættu sem engan vegin gekk upp: Þeir ákváðu í sameiningu að leyfa byggingaverktökum að ráðskast með verðmætustu pláss borgarinnar, byggja þar ljót hús, sem gína yfir öllu (t.d. Lækjargata, Hafnartorg, Valssvæðið, Gamli Garður) og vekja þannig upp áánægju dágóðs hluta Íslendinga sem reglulega koma á þessi svæði.  Þarna er gínandi gámaarkitektúr sem þeir félagar hafa leyft og þar með tryggt byggingaraðilum hagnað á kostnað þess að viðhalda staðarandanum sem öll þjóðin vill viðhalda á þessum svæðum.

Nokkur af umdeildustu verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í tíð Dags og Hjálmars

 –

Í annan stað hafa Dagur og Hjálmar brugðist verulega þegar kemur að því að hafa nóg af hagkvæmum lóðum til úthlutunnar. Þar tóku þeir einnig pólitíska áhættu sem ekki gekk upp. Þarna má segja að slök dómgreind hafi ráðið för; það er eins og þeir félagar hafi ákveðið að það væri í lagi að sinna ekki þörfum og sjónarmiðum meirihluta borgarbúa: að fjölskyldufólki sé gert tiltölulega auðvellt að byggja sér húsnæði í borginni. Með því að sinna þessu ekki hafa Dagur og Hjálmar bakað sér þá andúð sem leiddi til verulegs taps Samfylkingarinnar í Reykjavík í nýafstöðnum kosningum.

Reyndar er andúð margra Reykvíkinga á verkum Dags og Hjálmars nokkru meiri en tap Samfylkingarinnar segir til um. Það kom nefnilega skýrt í ljós að ein af stóru ástæðunum af hverju fólk kaus Samfylkinguna var einfaldlega vegna sjónarmiðsins „ég vil ekki Sjálfstæðisflokkinn“. Það er slök staða sem flokkur er í þegar ein stærsta ástæða sem fólk finnur fyrir til að kjósa þann flokk sé sú að hinir séu hálfu verri. Slíkur flokkur á ekki sjö dagana sæla framundan.

Sjónarmið og verk Dags og Hjálmars eru nefnilega þeirrar gerðrar sem eyðileggur samstöðu vinstra fólks: að klikka á því að láta grunnsjónarmið um að setja þarfir almennings í fyrsta sæti á undan þörfum einstakra fyrirtækja. Einnig gera þeir þau algengu mistök, sem oft má finna hjá vinstra fólki, að telja að þeir þurfi ekki að útskýra óvinsælar gjörðir sínar; að halda að einhvernvegin muni allir skilja þeirra gjörðir og sjá sama ljós og þeir sjálfir. Nei, hið rétta er að stjórnmálamenn þurfa að hugsa um að selja, markaðssetja og ramma inn sínar hugmyndir til þess að hljóta hljómgrunn. Þessu hafa margir vinstri menn óbeit á og því hefur langvarandi staða vinstra fólks verið sú að fá takmarkað fylgi þó að hugsjónirnar séu góðar.

Það var eftir því tekið að engin sérstök málefni Samfylkingarinnar náðu alveg í gegn. Þeir náðu aldrei að verða flokkurinn sem var flokkur tiltekins máls nema þá að viðhalda Degi sem borgarstjóra og að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Sjálfstæðisflokkur

Í Reykjavík tók Eyþór Arnalds nokkra áhættu með að skipta algerlega um fólk á lista. Eftir á að hyggja var það líklega of áhættusöm aðgerð, vegna þess að nýja fólkið náði ekki að skipa sér sterkan sess í hjörtum borgarbúa. Sú sem var í 2. sæti, Hildur Björnsdóttir var reyndar mjög sýnileg, ásamt Eyþóri, en aðrir sáust lítið. Þess vegna skorti á tilfinninguna um breiðan lista sem hefði víðtæka skírskotun með fólki sem fólk hafði heyrt af.

Eyþór má þó eiga það að hann var duglegur og framkvæmdaglaður í kosningabaráttunni; var mjög sýnilegur og sagði margt sem komst á síður fjölmiðla. En líklega má segja að hann hafi talað um of mörg mál, komið fram með of margar lausnir. Líklega má telja nokkuð víst að ef hann hefði hamrað á einhverjum þremur lykil-málunum fyrir kosningar þá hefði hann fengið eitthvað meira fylgi, hugsanlega nóg til að ráða öllu eftir kosningar. Orðræðan reyndist á endanum of víðfem og fólk náði ekki mjög sterkri tengingu við málefni Sjálfstæðiflokksins. Ein algengasta ástæðan sem margir nefndu fyrir því að kjósa Eyþór var að þeir væru komnir með nóg af Degi (skilaboðin „Dagur er að kveldi kominn“ náðu í gegn). Það er ekki nógu sterk ástæða fyrir flokk til að halda sterku flugi til langframa.

Eyþór var líklega of mikið í bláa-jakkafata-gírnum fyrir kosningar, talandi um umfangsmiklar framkvæmdir. Það eru alltaf færri og færri sem tengja sterkt við bláa bindið og þeir sem fíla það eru hvort eð er tryggustu kjósendur xD í Reykjavík: Íhaldsamt, eldra fólk sem myndu kjósa Eyþór óháð klæðaburði. Það hefði verið strategískara fyrir Eyþór að klæða sig líkara Röskvu-manni; í strigaskó og vor-litaðar buxur eins og gæjarnir á auglýsingastofunum eru alltaf í. Vera meira hippi, minna skynjaður sem innmúraður Sjalli, ekki til að villa á sér heimildir heldur að sýna meira tónlistarmanninn sem er með rokk-hjarta. Það hefði bætt við nokkrum prósentum. Að sama skapi hefði það verið áhrifaríkt að sjá Eyþór sinna af alúð málum sem eru ekki hans ektamál. Finna fyrir honum í málum sem tengjast börnum, skólum, umhyggju og mannlegri tilveru.

Líklega verður það engin sæluvist fyrir Eyþór að setjast í borgarstjórnarstólinn – ef af því verður. Hann þyrfti þá a.m.k. að læra að ná til fleiri hópa í Reykjavík og fá fólk til að trúa því að hann ætli að vera borgarstjóri allra. Eyþór fékk flestar útstrikanir (3%) allra í borgarstjórnarkosningunum og þarf að hafa það í huga ef hann nær stóli borgarstjóra að reyna að ná til sem flestra. Hann er þó ráðagóður og tengdur menningunni sem mun hjálpa honum að fóta sig sem borgarstjóri.

Í Kópavogi sigldi Ármann Kr. Ólafsson nokkuð lygnan sjó. Hans styrkleiki er alltaf að koma betur og betur í ljós: að vera alþýðlegi pilturinn að norðan sem kann að höfða til venjulegs fólks. Og það sem meira er: Ármann virðist kunna að láta ólík sjónarmið vinna smurt saman. Kannski er Ármann Kr. Ólafsson mögulegt leiðtogaefni sem gæti tekið að sér stærra hlutverk en hann gerir nú.

Það reyndar kom sér heldur illa fyrir Ármann að fréttir um launahækkun bárust stuttu fyrir kosningar. Það hefur eflaust tekið einhver atkvæði frá honum. En ekki nóg til að hafa veruleg áhrif þar á. Líklega hefur Ármann jafnað þann dragbít með alþýðlegri auglýsingu þar sem hann gerir í raun grín að klassískri, leiðinlegri stjórnmálaumræðu og náði tengingu við fólkið í landinu. Þannig var barátta Ármanns sumpart lygnari en margur leiðtogi Sjálfstæðismanna upplifði á sveitarstjórnastiginu.

Á nokkrum öðrum stöðum náði Sjálfstæðisflokkurinn viðunandi úrslitum en líka eru mörg dæmi um flokksbrot og klofning innan flokksins á sveitarstjórnarstiginu sem áður var reynsluheimur vinstri manna, nær einvörðungu. Þó að staða Sjálfstæðisflokksins sé ekki slök eftir kosningarnar eru þó nokkur mikilvæg umhugsunarefni sem þarf að líma saman ef ekki á að koma til frekari sundrungar á hægri vængnum.

Vinstri græn

Aftur eru Vinstri græn í vanda vegna þess að þau ná ekki að setja fram skilaboð sem hreyfa við fólki. Líf Magneudóttir komst inn í Reykjavík en hefði ekki gert það nema af því fjöldi borgarfulltrúa var aukinn í 23 fulltrúa. Fylgi lækkaði töluvert og það er einmitt vegna þess að það er bara reynt að segja eitthvað, ekkert sem náði eyrum um það af hverju VG á að taka þátt í stjórnun borgarinnar. Það er eins og grunnskilaboðin hafi verið að kjósendur eigi að kjósa VG í Reykjavík bara ef það er vinstra fólk. Bara af því Líf og hennar teymi er vinstra megin. Auðvitað eru þetta alltof veik skilaboð og alls ekki nægjanleg fyrir hinn venjulega kjósanda.

Skoðum aðeins skilaboð VG í Reykjavík fyrir kosningarnar:

 • „VG vill lýðræði á vinnstöðum“
  Í sjálfu sér jákvætt en varla það brýnasta sem liggur á hjarta borgarbúa, eða hvað?
 • „VG vill minnka mismunun í grunnskólum“
  Í sjálfu sér jákvætt en fáir kjósendur skynja að þetta sé akút málefni sem brennur á vörum borgarbúa, dagsdaglega.
 • „VG vill miðstöð fyrir innflytjendur“
  Í sjálfu sér jákvætt mál („nice to have“) en það á eftir að útskýra fyrir kjósendum af hverju þetta er brýnt.
 • „VG: Gerum Reykjavík veganvæna“
  Er það hlutverk borgarstjórnar að velja einhverja sérstaka gerð matarræðis og setja á oddinn? Hvað með að gera Reykjavík ketó-væna eða minnka sykur í matvörum sem borgarbúar neyta? Í sjálfu sér jákvætt en sett fram á óraunhæfan hátt og án þess að kjósendur sjái að þarna sé verið að velja mál sem brennur á borgarbúum. Miklu fremur sjá kjósendur fyrir sér að einhver áhugamanneskja um vegan hafi verið á töflufundi fyrir kosningar og náð þessu inn í lista yfir stefnumál kosninganna.
 • „VG: Mörkum stefnu um aukin loftgæði í Reykjavík“
  Aftur er þetta mjög jákvætt mál en sett fram þannig að maður fær á tilfinninguna að það eigi ekkert að gera endilega strax heldur halda nokkuð marga fundi og sjá til hvað sé hægt að gera einhverntíman. Af hverju ekki að nefna 3 helstu málin sem bæta loftgæði borgarinnar?
 • „VG: Aukum kolefnisbindingu og endurheimtum votlendi“
  Afar fáir Reykvíkingar tala um í heitu pottunum að það þurfi að endurheimta votlendi. Er það ekki eitthvað sem ríkisstjórn þarf að huga að en er ekki mál sveitarstjórna nema þá að hluta. Að vilja endurheimta votlendi skilar afar fáum atkvæðum þó að málefnið sé í sjálfu sér gott.
 • „VG: Höldum áfram að breyta samfélaginu í anda femínískra byltinga“
  Hér er enn eitt málið sem er of almennt. Svona framsetning skilar ekki mörgum atkvæðum. Svara þyrfti miklu frekar hvað eigi að gera. Hvað meirar VGR með þessu markmiðið? Hvað ætla þeir að gera í raun? Þetta er nefnilega eins og að hafa markmiðið: „Höldum áfram að gera samfélagið gott“. Þó að það sé jákvætt markmið þá skilar það fáum atkvæðum af því kjósandinn tengir ekki við þetta. Hann áttar sig ekki á því hvað á að gera með þessu markmiði.

Eins og sjá má þá eru þessi skilaboð VG í sjálfu sér jákvæð en þau eru sett fram á þann hátt að fólk tengir ekki nógu sterkt við þau. Oft of almennt og svo vantar þá það mikilvægasta inn í: að tengjast inn í mikilvæg mál sem eru á vörum borgarbúa, dagsdaglega. Ekki bara hugsa um mismunun, innflytjendamiðstöð, votlendi, feminískar byltingar og stefnu í loftgæðismálum. Þarf fleiri praktískari hluti inn til að ná hljómgrunni.

Ekki var allt máttlítið sem kom frá VG; það var sem dæmi frábært mál hjá þeim og náði sterkt í gegn að segja fjölgun hleðslustöðva á oddinn. Ef VG hefði náð svona skýrum fókusi á fleiri mál sem snerta borgarbúa beint þá hefði útkoman verið betri.

En eitt skýrasta dæmið um skort á næmni fyrir réttum skilaboðum hjá leiðtoga VG í Reykjavík er að hún sagði (hér) að vinstrið væri að fá rassskellingu. Það má virða það við Líf Magneudóttur að þetta er að vissu leyti sannleikurinn en samt sem áður er þetta þannig rammað inn að aðrir munu elska að endurtaka þetta. Stjórnmálafræðingar og blaðamenn tóku þetta orðlag upp frá Líf og útskýra niðurstöðu VG sem rassskellingu. Þetta er eins og að tala sjálfan sig niður; útbúa fóður fyrir andstæðinginn. Þetta er hvorki klókt né sniðugt að gera (ekki einu sinni fyndið) og er bara til þess fallið að veikja ímynd VG enn frekar.

Katrín Jakobsdóttir birtist aðeins í kosningabaráttunni og kom þar fram sem virðuleg og leiðtogaleg. Margt dynur á henni og ekki vantar stóryrta gagnrýni í hennar garð um þessar mundir. En tíminn vinnur með Katrínu því hún er heiðarleg stjórnmálakona sem mun smátt og smátt sýna styrk sinn þó ekki ætli hún að flagga því öllu í byrjun.

Einnig birti VG myndband sem kallaðist Stjórnmálaskóli Vinstri grænna (hér) sem var hálf-kjánalegt (jú, sumum fannst það fyndið) en vakti ekki upp neina hugmynd um af hverju það væri mikilvægt að hafa VG með við stjórnun borgarinnar. Styrkti VG í Reykjavík ekkert.

Svo er það stóra málið, sem gildir jafnt fyrir VG og Samfylkingu að mörg önnur öfl eru hægt og bítandi að taka við hlutverki þeirra sem talsmenn láglaunafólks. Skýrt dæmi er Sósíalistaflokkurinn sem ekki enn er orðinn stórt afl en gæti vaxið ef VG og Samfylking heldur áfram að tala ekki röddu neðsta þriðjungsins í launatöflunni. Slík þróun myndi auka á tilvistarkreppu VG og Samfylkingar og þar með vanda þeirra.

Viðreisn

Viðreisn vann ágætan sigur og er í oddaaðstöðu. Það er þó fyrst og fremst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem er sigurvegarinn þó að hún hafi ekki verið í framboði; hún er formaður Viðreisnar og dróg vagninn allnokkuð í kosningabaráttunni. Þorgerður Katrín er hægt og bítandi að sigla flokknum inn á trúverðugt svið festu og stöðugleika þó að það muni áfram taka tíma að ná því varanlega. En seigla Þorgerðar er að skila sér og af því er virðist, baráttuandi og kjarkað hugarfar hennar. Stóra tækifærið fyrir Viðreisn er að sameina undir sínum hatti þau fjölmörgu klofningsframboð og flokksbrot sem komu fram á síðustu mánuðum undir sjónarmiðum krata og hægri krata. Þetta er fólk sem oft kaus á árum áður Sjálfstæðisflokkinn en finnur ekki samleið með honum nú. Ef Þorgerður Katrín nær að smala þessum nokkuð mörgu brotum undir sinn hatt þá er flokkurinn kominn á nýtt stig.

Það var þó margt veikt hjá Viðreisn í þessari kosningabaráttu. Aðallega var það forystukonan í Reykjavík sem ekki náði sterku flugi en virtist hafa skynjað það rétt og hafði sig mátulega mikið í frammi. Það væri því klókt hjá henni að spila úr góðri stöðu með hóflegum fókus á sjálfa sig.

Mörg málefni Viðreisnar náðu ekki nógu skýrt í gegn. „Einfaldara líf“ er dæmi um slíkt. Hvernig á að stefna að slíku? Skólamálin voru oft nefnd en þá sögðu fulltrúar Viðreisnar (Þórdís Lóa og Pawel) að þau væru í ólestri og að Viðreisn ætlaði að laga þau. Þetta er of almennt, í ætt við það sem hér er nefnt í kaflanum um Vinstri græn. Of fáir átta sig á því hvað þetta þýðir. Hvað ætlar flokkurinn að gera nákvæmlega? Hvað á að laga í skólamálum? Bara skólamálin almennt? Ómarkvisst. Svo þegar Viðreisn var spurð að því hvað þetta merki og hvað þau ætli að gera í raun og veru til að bæta skólamálin þá kom enn þokukendari útskýring. Forystumanneskjan sagði þá: „Jú, með því að auka faglegt sjálfstæði og sveigjanleika“. Hvað þýðir það?

Fleiri punktar hjá Viðreisn sem hefðu þurft að endurramma og útskýra betur:

 • „Viðreisn: Við viljum leiðrétta laun kennara þannig að skólar verði eftirsóttir vinnustaðir“
  Auðvitað er þetta jákvætt, en svona framsetning nær ekki endilega sterkt í gegn af því fólk spyr sig hvernig þetta sé hægt? Hvað á að skera niður í staðin? Allir vita að þetta mun kosta mikla peninga og því væri miklu sterkara að ramma þetta inn með því að segja „Viðreisn ætlar að bæta kjör kennara um 20% með því að …“. Og að koma svo með lausnina að því.
 • „Viðreisn: Aukum sérúrræði fyrir börn með sérþarfir“
  Hér er annað atriði sem er jákvætt í sjálfu sér en tilheyrir ekki endilega stóru málunum sem skipta fólk máli. Viðreisn hefði þess vegna frekar átt á leggja áherslu á stærri málefni, hamra oftar á þeim í stað þess að fara í smærri mál, þó að þau séu flest jákvæð.
 • „Viðreisn: Hættum greiningarhyggju á börnum“
  Hér er einnig undarlegt loforð sem er erfitt að tengja við. Er það ekki fagfólk sem ákveður greiningar á börnum (ofvirkni, ADHD, einhverfa, Tourette o.s.frv.)? Er það stjórnmálamanna að segja hvenær eigi að leggja þessa læknisfræðilegu ráðleggingu niður? Væri þá ekki réttar að benda á að Viðreisn taki undir orð sérfræðinga sem mæla með því að minnka áherslu á greiningar og auka þess í stað íþróttaiðkun? Með þeim hætti væri búið að ramma þetta mál inn á jákvæðari hátt, þannig að fleiri kjósendur tengi við.

Af mörgu öðru er að taka. Viðreisn þarf umfram allt að hlusta á borgarbúa en ekki láta tækifærismennsku ráða lögum og lofum í ákvörðunum um samstarfsaðila. Miklu máli mun skipta hvað Sjálfstæðisflokkur hefur leikið Þorgerði Katrínu grátt og oft á ósanngjarnan hátt. Nú er hugsanlega komið að endurgjaldinu til baka: Þorgerður Katrín mun líklega ekki mæla með viðræðum við Sjálfstæðisflokk í sínu baklandi nema að enginn annar valkostur sé fyrir hendi.

Píratar

Píratar voru fremur mikið á hlutlausa svæðinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar þetta árið. Fá sértæk málefni náðu í gegn og fáir kandídatar þeirra náðu sterkt í gegn þannig að þeir yrðu minnisstæðir. Samt náðu Píratar 2 fulltrúum og juku fylgi sitt allnokkuð (fóru í 7,7%). Það verður því ekki af þeim tekið að þeir náði góðum árangri og það sem er líklega ein af meginástæðunum eru að þeir hömruðu á einföldum skilaboðum sem geymdu aðeins 3 lykla:

1) Heiðarleiki
2) Traust vinnubrögð
3) Aðhald gegn spillingu

Það var eiginlega fátt annað sem sást frá Pírötum. Það er nefnilega alltaf gríðarlega verðmætt þegar forysta í hópi (flokkur eða fyrirtæki) nær að halda sig við einföldu skilaboðin. Og þá er oft kostur að ná athygli í gegnum skilaboðin sjálf heldur en persónuleg einkenni fulltrúa.

En það er með þessi grunnskilaboð Pírata: að uppræta spillingu og breyta kerfinu og ýta undir gildin um gagnsæi og ábyrgð sem er svo mikill kjarni í því sem fólki er umhugað um nú á tímum. Að þessu leyti náðu Píratar því sérstöðu, að lofa ekki hærri launum kennara og öllu stærra og betra heldur lofuðu að hafa ákveðin gildi í heiðri. Þetta virkar yfirleitt miklu betur heldur en að lofa einstökum fjárlagaliðum (hækka laun kennara, Viðreisn) og þess vegna náðu þeir að stækka sig verulega í borginni.

Pírata skortir samt ennþá skýrari leiðtogaímynd því þó að þeir séu hlyntir dreifðu valdi þá er skýr leiðtogaímynd einfaldlega hraðvirk leið til að ná skilaboðum í gegn.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn áttu nokkuð sterka kosningabaráttu þar sem þeir náðu í gegn með persónulega kynningu á frambjóðendum. Í kjölfarið fylgdu myndir sem fengu mikla dreifingu og voru í anda „I Want You“/„Uncle Sam“-herferðar Bandaríkjahers frá 19. öld þar sem kemur fram áskorun um að skrá sig í herinn. Auglýsingar Sósíalistaflokksins hefur einnig tilvist yfir í „Columbia“-konseptið sem var notað í USA og Evrópu sem táknmynd fyrir Bandaríkjamenn (sjá hér).

Skiptir litu þó að auglýsing Sósíalistaflokksins hafi þessa tilvísun; ef eitthvað er þá er það kostur. Fólk tengir við. Margir tala um að einlæg framkoma Sönnu hafi ráðið úrslitum um að ná í gegn í Reykjavík og er vissulega margt til í því. Sanna er hrífandi manneskja og á auðvelt með að afla persónufylgis langt út fyrir raðir harðra sósíalista. En auglýsingaherferð flokksins hafði líka mikil áhrif og fyrst og fremst náði að láta fólk skynja eitt mikilvægasta atriðið í kosningabaráttu: að þau væru á uppleið. Takturinn hækkaðir alltaf, jafnt og þétt og hafði áhrif í þessa átt sem var svo niðurstaða flokksins.

Miðflokkurinn

Það skemmir fyrir Vigdísi Hauksdóttur að vera ekki með fæturnar á jörðinni í öllum sínum yfirlýsingum. Ætlum að fá 4 eða 6 menn, sagði hún en fékk 1. Kjánalegt, vissulega og skemmir fyrir að flokkurinn nái frekari útbreiðslu. Miðflokkurinn er enn skynjaður sem sama sem og Sigmundur Davíð. Það er af því að fólk fær það reglulega staðfest að SDG sé álitinn hálfgerður Guð af flokksmeðlimum. Slíkur Norður-Kóreskur status gerir ekkert nema að grafa, smátt og smátt, undan tilvistarímynd flokksins og takmarka þá skynjun að Miðflokkurinn sé eitthvað annað en hliðarsjálf eins manns. Og á meðan Sigmundur hefur ekki bitið úr nálinni með það af hverju hann hætti sem forsætisráðherra (Wintris, Panama) þá mun flokkurinn ekki rísa hærra en nú er, fá smáfylgi hér og þar.

Í rauninni var það líklega ekki klókt hjá Miðflokknum að velja Vigdísi Hauksdóttur sem forystukonu í Reykjavík. Það hefur sýnt sig að menntað fólk hefur lítinn áhuga á Vigdísi og því hefði Vigdís verið sterkari frambjóðandi annarsstaðar, líklega allstaðar annarsstaðar en í Reykjavík. Hún er of yfirlýsingaglöð fyrir menntaða Reykvíkinginn sem vill hafa hlutina vel unna og í jafnvægi. Vigdís væri betri sem fulltrúi þar sem kjörsókn og menntunarstig er lágt, eins og t.d. í Reykjanesbæ. Þar gæti hún miklu frekar dregið vagninn.

Orðræðan sem Miðflokkurinn velur sér er nefnilega nokkuð frá takti þjóðarhjartans. Miðflokkurinn talar ýkt og án mikillar innistæðu þar sem fram kemur oft mikil sannfæring um eitthvað sem reynist ekki vera rétt á endanum. Íslendingar eru nefnilega hófstilltir jafnaðarmenn, sjálfstæðir og þótt margir séu í grunnin egó-sinnaðir þá eru þeir nær allir með velviljuð og hlý hjörtu sem fátt mega aumt sjá. Inn í þetta „zone“ nær Miðflokkurinn ekki að tala nema að takmörkuðu leyti.

Hversu furðulegt sem það hljómar þá var það þyngdartap Sigmundar sem reis einna hæst í umræðu Miðflokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar (sýnir hvað Miðflokkurinn er mikið hliðarsjálf Sigmunds). Orðræða Sigmundar af því tilefni var kjánaleg – eiginlega barnaleg – var á þá lund að af því að Sigmundi tókst að losna við nokkur kíló þá muni allt reynast Miðflokki auðvellt:

      

Auðvitað eru hlutirnir ekki svona hjá neinum stjórnmálaflokki í heiminum. Miðflokkurinn mætti því oftar tala með báða fætur á jörðinni og með meiri tengingu við lífið og tilveruna eins og hún er og með meiri skilning á framtíðinni sem bíður handan hornsins. Helsti vinkillinn sem kemur frá Miðflokki og almenningur á erfitt með að tengja við eru ýmis gamaldags viðhorf sem lýsa ákveðinni andúð á nútíma lausnum. Að borða mat eins og var í gamla daga, að nota lausnir eins og var í gamla daga. Allt þetta er umræðusvið sem er ákveðinn dragbítur á starf Miðflokksins.

Aðrir

Stóru gleðitíðindi kosningabaráttunnar er hvað rasísk öfl fengu fá atkvæði. Þau hafa aldrei fengið færri atkvæði og ættu í raun að leysa sína flokka upp. Það er þó ólíklegt að slíkt muni gerast því þetta eru yfirleitt fámennir hópar örfárra manna sem fá þarna agnarlitla atóm-athygli og það er nóg til að þeir haldi áfram, í fámenni sínu og fáfengileika sínum, með færri atkvæði í húsi heldur en fjöldi meðmælendalista. Utangarðsmenn sem eru á skjön við meginstrauma þjóðfélagsins og hvert tíminn er að teyma okkur öll. Það væri svosem í lagi að hafa nokkra hokna karla í skraufþurri pissukeppni um mesta rasistann ef ekki fengi að fljóta með frá þeim svona mikil manneskjuleg andúð á grunngildum þess að lifa saman í samfélagi. Andúð og fyrirlitning á fólki í neyð sem þarf hjálp annarra til að geta komið sér upp mannsæmandi lífi. Það er því gleðilegt að þessum viðhorfum og gildum hafi verið hafnað rækilega.

 

Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða

Landsmenn greiða háar fjárhæðir inn í lífeyriskerfið, til að safna fyrir árunum þegar vinnu er lokið. Þetta þurfa landsmenn að greiða skv. lögum,  þetta er ekki val. Þess vegna er það afskaplega mikilvægt að landsmenn fái allar upplýsingar um þessa sjóði, árangur, ávöxtun og aðra framistöðuþætti á þann hátt að landsmenn geti borið lífeyrissjóði saman, bæði til að taka upplýsta ákvörðun um hvaða sjóðir eru að standa sig vel og svo einnig til að efla gagnsæi, aga og samkeppni sjóða.

Því miður hefur það verið svo að gagnsæi í upplýsingagjöf sjóða, einkum er varðar langtímaávöxtun, hefur ekki alltaf verið nægjanlegur. Almenningur á erfitt með að bera sjóði saman til langs tíma litið því þessar upplýsingar liggja hvergi fyrir á aðgengilegu formi.

Reyndar eru þessar upplýsingar „birtar“ með vissum hætti, tæknilega séð. En til að bera sig saman þarf sérfræðikunnáttu, að safna saman gögnum úr talnasafni Fjármálaeftirlits, skoða ársreikninga og meta sameiningarhlutföll. Í einu skjali í talnasafni eru gjarnan um 10.000 tölur. Skoða þarf skjöl fyrir hvert ár, allt aftur eins og talnasafnið nær, til að bera saman árangur lífeyrissjóða. Til að fá heildarmynd þarf því að glöggva sig á a.m.k. 20 talnasöfnum sem geyma þar með yfir 200 þúsund tölur, finna þær réttu og reikna þær svo rétt saman. Eftir slíka vinnu væri hægt að fá heildaryfirlit. Augljóst er að þetta er ekki eitthvað sem einstaklingar hrista fram úr erminni.

Nýlega birtist grein eftir þá Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Hallgrím Óskarsson, verkfræðing og varaformann Gagnsæis. Þar kemur fram að ávöxtun lífeyrissjóða er mjög misjöfn, allt frá 1,25% til 6,16%, sé langt tímabil skoðað aftur í tímann (1997-2016), eða 20 ár (greinina má sjá hér).

Í þessu sambandi er athyglisvert er að skoða ýmislegt efni frá sjóðum sjálfum (ársreikninga, vefsíður, auglýsingar o.fl.) og orðalag þar sem notað er til að lýsa gengi sjóða. Eru ýmis dæmi þar sem talað er um að tiltekinn sjóður sé traustur og öruggur og að ávöxtun sé mjög góð þegar reyndin er í einhverjum tilfellum að um er að ræða fremur slakan árangur sé skoðað til lengri tíma. Eitt er að hafa góða ávöxtun yfir sérvalið tímabil en mikilvægara er að geta þess hvernig hefur gengið á ársgrunni eins langt aftur og sjóður (eða forverar hans) hefur starfað. Í einhverjum tilfellum eru dæmi um efstu stig lýsingarorða og að talað sé um einstakan árangur sjóða þegar dæmi eru um sjóði sem eru í reynd mjög neðarlega á lista, sé ávöxtun innlendra skyldulífeyrissjóða skoðuð yfir langt tímabil.

Sjóðsfélagar eiga ekki skilið svona loðna upplýsingagjöf. Þeir eiga það skilið að fá skýrar, greinilegar og samanburðarhæfar upplýsingar, útgefnar af óháðum aðila, þar sem raunverulegur árangur sjóða (ávöxtun) er borin saman við aðra sjóði. Allt of mikill skortur á gagnsæi hefur ríkt of lengi um þessar upplýsingar hér á landi.

Í Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Hollandi og víðar er ávöxtun sjóða birt mjög oft mörg ár aftur í tíman – stundum marga áratugi aftur í tímann og gert aðgengilegt fyrir almenningi. Sjóðir hér á landi hafa oft sagt að það eigi ekki að bera þá saman af því þeir hafa mismunandi fjárfestingastefnu en ef slík rök halda þá ætti aldrei að bera saman neinn árangur íslenskra sjóða. Þar væri ekki verið að hugsa um eðlilega upplýsingagjöf til almennings. Vera má að sjóðir hafi mismunandi fjárfestingastefnu en það gildir einu, almenningur á réttláta kröfu sem er að fá þessar upplýsingar betur upp á borðið en verið hefur. Sem betur fer hillir undir að það séu gagnsærri tímar framundan í þessum efnum en það er ekki endilega af frumkvæði lífeyrissjóðanna sjálfra.

Einnig er áhugaverð sú regla sem gildir yfirleitt í þessum löndum líka, þó að hún sé með breytilegu sniði á milli landa. Þar er það þannig að sjóðir eiga ekki að matreiða upplýsingar um ávöxtun og aðra framistöðuþætti því reynslan sýnir að þeir hafa tilhneigingu til að birta góðu tímabilin oftar en þau slæmu. Í Þýskalandi, Sviss og víðar verða sjóðir að setja fram beina tilvitnun óháðs ráðgjafa um það hvernig ávöxtun og aðrir framistöðuþættir eru gagnvart tilteknum sjóði. Þar er það orðspor ráðgjafanna sjálfra sem er í húfi; þeir vilja gefa almenningi skýrar upplýsingar og því er það þeirra hagur að birta eins gagnsæja útgáfu eins og hægt er af raunverulegri framistöðu sjóða til að þeir sem lesi – almenningur – öðlist traust á viðkomandi ráðgjafa og að hann verði þá eftirsóttur til að tala um sjóði. Þetta er ágætis fyrirkomulag sem eykur gagnsæi í upplýsingagjöf til almennings.

Sjá nánari fréttir um þessi mál:

„Núverandi kerfi er lífeyrishappadrætti“
http://www.visir.is/g/2018180519926

Bestu lífeyrissjóðir skila fjórfalt meiri ávöxtun en hinir lökustu
http://www.visir.is/g/2018180508993

― ― ―

(Grein þessi birtist fyrst á vef félagsins Gagnsaei.is)

Vaxtarhlutdeild sýnir stöðuna eftir nokkur ár

Í áratugi hefur útreiknuð eða mæld markaðshlutdeild verið einn helsti mælikvarði fyrirtækja á stöðu þeirra og árangri. Þetta var ágætismælikvarði á meðan viðskiptalífið breyttist hægt, því markaðshlutdeild lýsir fyrst og fremst þeim árangri sem búið er að ná til þessa. Markaðshlutdeild getur auðvitað áfram verið nytsamur mælikvarði, einkum í þeim geirum þar sem breytingar eru hægar. En af því að staða fyrirtækja er alltaf að breytast hraðar og hraðar þá er vaxandi þörf á að horfa til jafns á aðra mælikvarða sem gefa innsýn inn í hver líkleg markaðshlutdeild verður í framtíðinni. Þá er skynsamt að skoða þann hluta viðskipta þar sem vöxturinn er mestur og reikna hver sé hlutur viðkomandi fyrirtækis í vaxtarhlutanum. Það er vaxtarhlutdeild.

Markaðshlutdeild segir nefnilega fremur lítið um framtíðina af því að vöxtur viðskipta á sér oft stað á sérstökum og oft nýjum segmentum en þar er það einmitt þar sem við sjáum framtíðina mótast.

Þetta mætti skoða út frá verslun, iðnaði, framleiðslu, þjónustu, fjarskiptum o.fl. en þar er áhugaverðast að fylgjast með hlutdeildinni þar sem mestur vöxtur er.  Einnig má nefna bílabransann en hann er dæmigerður geiri þar sem markaðshlutdeild er nokkuð þekkt en þó má fá innsýn inn í breytingar í framtíðinni ef við skoðum vaxtarhlutdeild. Með því að skoða hana er hægt að sjá líklega markaðshlutdeild inni í framtíðinni en vaxtar-segment bílabransans eru rafmagnsbílar og hybrid-bílar. Til eru dæmi um bílaframleiðanda sem hafa um langt skeið haft mikla markaðshlutdeild og hafa enn, en hafa afar litla vaxtarhlutdeild. Það eru bílaframleiðendur sem munu líklega eiga erfitt í framtíðinni.

Vaxtarhlutdeild er því nokkurs konar innsýn um markaðshlutdeild framtíðar, með einhverri óvissu þó.

Þannig er hægt að nota vaxtarhlutdeild til þess að:

 1. Fá innsýn inn í það hverjir verða sterku vörumerkin á næstu árum og áratugum (til að skilja markaðinn).
 2. Átta sig á því hvaða vörumerki eru í hættu með að lenda í hröðu falli á næstu misserum eða árum (fyrir stjórnendur).
 3. Skoða hvaða nýju aðilar geta átt möguleika á að ná sterkri fótfestu í náinni framtíð (fyrir fjárfesta).

Þetta er í takt við það sem við sjáum þegar líftími fyrirtækja er skoðaður. Hann styttist sífellt og hefur gert frá upphafi mælinga. Fyrir 70-80 árum var 40-70 ára aldurstími fyrirtækja algengur. Nú erum við að sjá miklu lægri tölur eða um 18 ára líftíma fyrirtækja að meðaltali (skv. tölum fyrirtækja bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum).

Niðurstaðan er: Fyrirtæki hafa alltaf styttri og styttri tíma til að bregðast við aðstæðum. Þess vegna þurfum við hraðvirkari mælikvarða sem segja okkur hver sé líkleg hlutdeild fyrirtækja í náinni framtíð eins og hún er að þróast hverju sinni. Þær upplýsingar er hægt að greina með því að skoða vaxtarhlutdeild.

Ég hef unnið greiningu á vaxtarhlutdeild fyrirtækja í ráðgjöfinni fyrir Verdicta. Hefur vaxtarhlutdeild oft veitt fyrirtækjum algerlega nýja innsýn inn í það hvert þau eru að stefna.

 

Sykurskattur eða heilsugjald?

Nú er umræða um sykurskatt aftur komin á flug. Þeir sem fá tekjur sínar út frá sykursölu tala allir með einum rómi. Forstjóri sælgætisfyrirtækisins Góu segir „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og líka: „Það getur vel verið að við séum orðin eitthvað of þung. En tökum við ekki bara á því í ró­legheitunum?“ Og forstjóri Nóa-Síríus segir: „Það eru engar einhlítar niðurstöður í rannsóknum um tengsl sykursýki og sykurneyslu sem sýna fram á beint samband þar á milli. Ég efast um að sykurskattur hafi stórkostleg áhrif, en veit að hann eykur mjög flækjustigið hjá viðkomandi fyrirtækjum og er þeim dýr í framkvæmd.“

Það er sérstakt að sjá þessa orðræðu um sykur hér á landi því ef staðreynda er leitað út frá reynslu annarra þjóða þá sjást allsstaðar þau rök að aukagjald á sykurneyslu minnki sölu á sykri. Þetta einkennir íslenska umræðu oft; það eru settar fram einhverjar staðreyndir og gert ráð fyrir því að enginn leiti sannleikans erlendis og að íslensku orðræðunni sé þar með bara trúað. Þetta virkaði hér áður fyrr, þegar Ísland var einangraðra og fréttir og upplýsingar bárust stopult. En nú er varla hægt lengur að slengja bara einhverju fram sem stenst ekki skoðun.

Það meira að segja þannig að framkvæmdastýra landsamtaka íslenskra útgerðarmanna blandaði sér í sykurumræðuna á síðasta ári og sagði: „Neyslu sykraðra matvæla verður ekki stýrt með sköttum“ og gaf lítið fyrir rannsóknir og ráðleggingar Landlæknisembættisins um sykurmál. Hún vissi jú miklu betur en sjálfur Landlæknir. Grein hennar er hér. Þetta er stór galli við íslenska umræðu hvað hún á það til að vera faglítil og málefnalaus. Það má bara segja eitthvað og vona að einhver trúi.

Rök #1: Sykurskattur virkar ekki

Slökustu rökin í sykurumræðunni eru: „Sykurskattar virka ekki“ því að þeir virka auðvitað í takt við hvað þeir eru háir. Skattur sem var 1 króna á gosflösku virkar jú ekkert en hærra gjald (t.d. nokkur hundruð krónur á flösku) myndi auðvitað stórlega draga úr neyslu. Þannig að þegar sagt er „Sykurskattar virka ekki“ þá er í raun verið að segja „Agnarlítill sykurskattur virkar ekki“ og það er rétt, aukagjöld á sykur verða að vera allnokkur þannig að fólk finni fyrir því ef sala á að minnka. WHO segir að 20% aukagjald leiði strax til mikils samdráttar í neyslu:

Sjá hér grein The Guardian um málið, þar sem vitnað er í niðurstöður óháðra rannsókna og reynslu annarra landa í að hemja sykurneyslu.

Helstu niðurstöður WHO eru:

 • 20% álögur eða hærri á sykraða drykki (þar sem sykur er >8% innihalds) lækka neyslu mjög verulega
 • Mikil umræða er í öllum löndum að setja á sykurskatta. Mörg lönd hafa nýlega tekið þetta upp eða eru á leiðinni í þá átt.
 • Líffræðilega þá þarf mannslíkaminn ekki sykur til neyslu. Sykurneysla er því að langmestu leyti áunnin þörf sem þarf að draga til baka með öllum tiltækum ráðum.
 • Mikil andstaða er með álögur á sykraða drykki í nokkrum löndum veraldar, m.a. í Kólumbíu. Þar eykst offita og sykursýki hraðar en annarsstaðar.

Rök #2: Engar rannsóknir styðja sykurskatt

Önnur slök rök í umræðunni um sykurskatt eru að engar rannsóknir sýni fram á að auknar álögur á sykur minnki ofneyslu sykurs. Þetta eru “fake news” eða beinlínis röng staðreynd og á því ekki að flokkast sem rök. Þetta er væntanlega sagt af því fá rök eru í raun á móti aukagjöldum til að hemja sykurneyslu og við verðum að horfa til þess að það er beinlínis réttmætt hlutverk forstjóra sælgætisfyrirtækja að vernda tekjustreymi og efnahagsreikninga sinna fyrirtækja. Sú viðleitni má samt ekki verða ofaná ef hagsmunir almennings eru á öndverðum meiði.

Álögur á skylda þætti, t.d. sígarettur hafa verið við lýði í allmörg ár og hafa um víða veröld skilað fækkun reykingamanna. Í ítarlegum rannsóknum um slíka skattlagningu (sjá t.d. þessa rannsókn) kemur í ljós að skattlagning er oftast lítil og hefur því einkum áhrif á efnaminna fólk. Það fólk sem býr við góð efni er ekki að fara að breyta reykingum sínum þó að pakki af sígarettum hækki úr 1500 kr upp í 1700 kr. Slíkt hefur ekki áhrif. Alls staðar er þó mælt með því að nota álögur á tóbak í meira mæli til að hafa letjandi áhrif á reykingar. Það sama ætti að gilda með sykraðar vörur.

Einnig er það skýr niðurstaða að neysla sykraðra drykkja er stærsti áhrifavaldurinn í því að offita og sykursýki er að verða sá sjúkdómur sem er dýrastur samfélögum á Vesturlöndum og víðar. Dr. Douglas Bettcher, forstöðumaður þeirrar deildar hjá WHO sem sér um forvarnir á ósmithæfum sjúkdómum segir:  “Consumption of free sugars, including products like sugary drinks, is a major factor in the global increase of people suffering from obesity and diabetes”.

Rök #3: Við viljum ekki forræðishyggju

Það eru sterk rök að vilja ekki forræðishyggju, almennt séð. En það eru veik rök að kalla það forræðishyggju að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Allar þjóðir gera það nú þegar.

Það er ekki forræðishyggja að takmarka aðgengi að áfengi, vopnum, eiturlyfjum; við köllum það skynsemi og að hlíta ráðum fagaðila.

Forræðishyggja eða faghyggja?

Við getum öll verið sammála að það þarf að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Alltaf þarf að vega og meta rétt einstaklingsins m.v. áhrifin á samfélagið. Þess vegna ættum við að geta sameinast um það að forræðishyggja sé slæm en að faghyggja sé til að bæta samfélagið. Undir faghyggju flokkast að setja álögur á sykurneyslu til að minnka sölu á sykurvörum:

Þeir sem eru hlyntir því að takmarka þætti sem hafa neikvæð áhrif á samfélagið ættu því að gera þennan greinarmun: Að vera á móti forræðishyggju, enda er hún nær ætíð vitlaus hugmynd. En að átta sig á því að faghyggja er nauðsynleg til að viðhalda góðu samfélagi. Það er nefnilega ekki allt forræðishyggja – langt í frá. Fæst af því sem bannað er má flokka undir forræðishyggju. Slíkt var líklega raunin hér á árum áður en frjálsræði hefur sem betur fer aukist.

Umræðan sem er í kringum áramót um það hvort leyfa eigi eða banna flugelda í höndum almennings er dæmi um þennan línudans á milli sjálfsstjórnar, frelsis og þess að taka tilllit til samfélagslegra sjónarmiða. Meðrök eru upplifun og skemmtanagildi en mótrök eru mikil lofmengun, sóðaskapur, slys og mikil ónot dýra og búfénaðar. Þetta verður að vega og meta í stað þess að hver hrópi þá skoðun sem hentar hans eigin aðstæðum og úr hans litla ranni.

Rök #4: Sykurskattur eykur verðbólgu og hækkar íbúðalán

Þeir sem hafa haft lifibrauð sitt af sykursölu hafa bent á að ef sykurskattur verður lagður á þá mun hann hækka verðbólgu. Það kann að vera rétt þó að ólíklegt sé að sú hækkun munu valda miklum hækkunum á íbúðalánum. En hugsanlega einhverjum hækkunum. En það er ekki röksemd að þess vegna meigi ekki hækka álögur á sykraðar vörur. Þetta er fyrst og fremst enn eitt dæmið um hvað verðtrygging, verðbólga og mælingar á þeim þáttum eru vitlaust gerðir hér á landi. Við munum einhverntíman líta til baka og spyrja okkur: Af hverju höfðum við kerfi sem er þannig að þegar rakari hækkar verð á klippingu að þá hækki húsnæðislán?

Það er hins vegar ekki hægt að nota þetta sem röksemd í því að setja ekki auknar álögur á sykur – þetta er tvö aðskilin mál:

 1. Viljum við hækka álögur á sykraðar vörur til að stemma stigu við neyslu þeirra?
 2. Viljum við hafa verðtryggingarkerfi sem er þannig að þegar neysluvörur hækka að þá hækki íbúðalán?

Vörur eins og tóbak hefur fengið aukna neysluskatta á undanförnum árum og hefur það m.a. haft þau áhrif að neysla tóbaks hefur minnkað. Þetta hefur væntanlega hækkað íbúðalán, eins furðulegt og það hljómar. En samt sem áður getum við ekki fryst verðhækkanir til eilífðarnóns af því að við viljum ekki hækka íbúðalán. Við verðum einfaldlega að breyta verðtryggingarkerfinu og það er allt annað mál.

Rök #5: Sykurskattar eru flóknir og dýrir fyrir sælgætisfyrirtæki

Forstjórar sælgætisfyrirtækja hafa talað um að það sé flókið og dýrt fyrir sælgætisfyrirtæki ef sykurskattar eru innleiddir. Jú, það er flóknara en að hafa þá ekki en þetta er samt engin röksemd í málinu. Innheimta VSK er flókin, en eigum við þá að hætta henni? Er ekki innheimta yfirleitt flókið fyrirbæri? Það er margt annað flókið sem fyrirtæki gera, m.a. er matvælaframleiðsla frekar flókin framleiðsla. Og að uppfylla lög og reglur til að fá leyfi til matvælaframleiðslu. Það má því strika þessi rök út.

Rök #6: Notum forvarnir, ekki bönn

Ein algengasta röksemd í umræðunni er að það eigi ekki að nota bönn heldur forvarnir. Að allir séu látnir vita hvað sykur sé slæmur og þá muni fólk minnka neyslu hans hratt og örugglega. Það mætti ræða þessa leið ef sælgætisfyrirtækjum væri þá ekki heimilt að dreifa áróðri sem hvetur til sykurneyslu, á sama tíma, eins og þau gera nú. Auglýsingar eru nefnilega mjög hvetjandi til neyslu, séu þær rétt gerðar. Máttur ríkis til að standa fyrir forvörnum verður alltaf takmarkaður og verður alltaf miklu veikara afl heldur en það afl sem fyrirtækin ráða yfir þegar þau setja í gang herferðir til að hvetja til aukinnar neyslu á sykri. Auglýsingar sælgætisfyrirtækjanna gera þetta og það verður einfaldlega að taka umræðuna um það að þau geta ekki skýlt sér á bak við það að fólk taki sjálft ákvörðun, ekkert sé þeim sjálfum að kenna.

Fólk getur tekið réttar ákvarðanir ef það hefur óheft aðgengi að réttum upplýsingum. En þegar það eru auglýsingar sem hvetja til allskonar neyslu, sem ekki er holl, þá er ekki hægt að tala um að fólk eigi bara sjálft að taka upplýsta ákvörðun. Fólk verður fyrir áhrifum vegna hvatningar og auglýsingar eru gerðar til að hafa slík áhrif. Þegar vísað er í að fólk eigi að taka rökréttar ákvarðanir þá er verið að gera ráð fyrir því að fólk hugsi eins og tölvur og vélmenni sem er mjög langt frá lagi. Sagan sýnir að fólk á fremur auðvellt með að gera órökrétta hluti og er þá oft að hlýða kenndum og tilfinningum sem ýta undir tiltekna hegðan eða að láta undan óbeinum þrýstingi til að neyta tiltekinnar vöru eða haga neyslu sinni með ákveðnum, samfélagslega viðurkenndum hætti.

Breyttur tíðarandi

Í sykurumræðunni kemur í ljós finnst sumum það vera rök ef tekjur eins fyrirtækis minnka. Auðvitað er gott ef fyrirtækjum gengur vel en það má aldrei vera á kostnað samfélagsins. John Stuar Mill skrifaði um frelsi á þann hátt að það væri mikilvægt en mætti aldrei vera til að skaða samfélagið. Í ljós hefur komið að sykur er verra efni en fólk hélt og þá eiga fyrirtæki að laga sig að þeim venjum, finna nýjar vörur og þróa þær gömlu þannig að þær séu eftirsóttar en séu með minna af sykri og helst engum viðbættum sykrum. Þetta er einfaldlega breyttur veruleiki og það er eitthvað sem flest fyrirtæki þurfa að glíma við daglega; að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Sælgætisfyrirtækin íslensku eiga því að taka þann vinkil í málinu sem tekur mest tillit til samfélagslegrar ábyrgðar; segjast ætla að verða í forystu í að bjóða góðar vörur með helst engum sykri. Þar ættu þessi fyrirtæki að keppa en ekki eyða kröftum sínum í að deila um það með veikum rökum um það hvort þau eigi að fá að framleiða vörur sem eru troðfullar af sykri athugasemdalaust. Við lifum við breyttan tíðaranda sem segir okkur að það sé eðlilegt að taka meira tillit en verið hefur. Þetta er angi af því máli; sælgætisfyrirtæki verða einfaldlega að laga sig að þessum breytta tíðaranda.

Mjólkursamsalan er dæmi um fyrirtæki sem hefur hlustað á breyttan tíðaranda. Fyrirtækið fékk gagnrýni fyrir að selja sykraðar vörur og ota þeim að börnum. Þeir tóku algengustu vörurnar sem féllu mögulega undir þessa gagnrýni, eins og Engjaþykkni og settu þá vöru (og fleiri vörur) í flokkinn „Eftirréttir“ til að undirstrika það að þetta væri ekki ætlað sem dagleg neysluvara fyrir börn. Þetta er væntanlega aðeins fyrsta skrefið af mörgum hjá MS en er klárlega jákvæð þróun og sýnir að MS getur hlustað á breyttan tíðaranda og aðlagað sig.

Víkkum út kröfur um röksemdir

Þegar umræða um álögur á sykur fer fram ættum við að taka þær röksemdir sem settar eru fram og setja þær í einfalt próf:

Fyrir hverja röksemd þarf að svara þremur spurningum. Ef öllum spurningum er svarað játandi þá bendir allt til þess að um sé að ræða mjög gilda röksemd sem þarf að taka til nánari skoðunnar.

 1. Gildir röksemdin fyrir hagsmuni þess sem setur hana fram? [Já/Nei]
 2. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið allt hér og nú? [Já/Nei]
 3. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið til framtíðar? [Já/Nei]

Tökum röksemd Helga í Góu: „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og spyrjum þessara þriggja spurninga. Spurningu 1 er hægt að svara játandi því röksemdir gildir fyrir fjárhagslega hagsmuni þess er setti hana fram. Hinum spurningunum er svarað neitandi og því á þessi röksemd Helga ekki endilega að fá mikið vægi í umræðunni. Rök Helga snúast fyrst og fremst um hagsmuni hans, ekki samfélagsins.

Hér erum við að horfa á það að það þurfi að breyta um áherslur í íslenskri umræðu; að minnka áherslu þeirra sem geta aðeins svarað spurningu (1) játandi. Að taka aukið tillit til þeirra þátta sem skipta mestu máli, samfélagsins alls.

Hættum að nota orðið „sykurskattur“

Orðið „sykurskattur“ er mjög neikvætt orð og styrkir málstað þeirra sem vilja ekki álögur á sykraðar vörur. Þess vegna ætti að hugsa þetta frá grunni og ramma inn upp á nýtt þetta sem við viljum kalla álögur á sykraðar vörur. Orð eins og „heilsugjald“ lýsir þessum álögum betur því þarna er verið að gera framleiðendur ábyrga fyrir því að framleiða, auglýsa og hvetja til aukinnar notkunnar á sykri með því að láta þá taka þátt í þeim kostnaði sem verður til í samfélaginu þegar fólk hefur neytt of mikils sykur sí áratugi.

 

 

Þrjár gerðir af villandi kosningaauglýsingum algengastar

Fyrir kosningarnar í október 2017 var meira gert af því en áður að koma villandi kosningaáróðri til kjósenda. Settar voru fram rangar fullyrðingar, einkum gagnvart því að skattpíning myndi aukast gríðarlega og efnahagslegt ástand myndi hríðversna ef tilteknir flokkar myndu fá of mikil völd.

Í kosningafræðum er þetta kallað „disinformation“, þegar einhver reynir að hafa áhrif á niðurstöður kosninga með villandi upplýsingum eða með því að birta aðeins eina hlið mála þannig að falskri heildarmynd er haldið á lofti. Þessi aðferð er ein þekktasta aðferðin í nútímanum til að hafa áhrif á kosningar. Veikari fjölmiðlar og einnig aukinn fjöldi fjölmiðla í eigu hagmunaaðila kemur svo í veg fyrir að nægar óháðar raddir séu til staðar til að tækla þessi tilvik, uppljóstra um þau og leiðrétta rangfærslur. Þess vegna eru snarpar kosningar þar sem stutt er til kjördags, kjöraðstæður fyrir að beita þessari aðferð til að hafa áhrif á hvert atkvæði lenda.

Hér er því hægt að segja að verið sé að skekkja lýðræðið, a.m.k. að hafa óæskileg áhrif á það. Á móti er sagt: Við skulum virða þessa lýðræðislegu niðurstöðu kosninga en það er ekki að öllu leyti rétt á meðan það liggur fyrir að einn aðilinn gerði langmest í því að setja fram villandi auglýsingar (áróður) sér í hag.

Þetta eru helstu aðferðirnar sem notaðar hafa verið til að hafa áhrif á kosningar:

Það væri gaman við tækifæri að rekja dæmi um villandi kosningaáróður í þessum þremur propaganda-flokkum, allt frá snemma á síðustu öld. Dæmin eru mörg, bæði frá Þýskalandi í tengslum við seinna stíð (WWII) en einnig líka frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Bandaríkjunum og víðar.

Í flokkinum „Grey Propaganda“ eru þær auglýsingar sem birtust hér á Íslandi fyrir kosningarnar. Nafnlausar eða í nafni aðila sem annað hvort er ekki til eða látið líta út fyrir að viðkomandi sé fulltrúi stórs hóps þjóðfélagsþegna. Ef ekkert verður gert í að koma böndum á þessa villandi upplýsingagjöf í kosningum mun hún aðeins aukast, ár frá ári, og leiða til mikilla bjögunnar á lýðræðinu.

Svo má segja þeir stjórnmálaforingar sem hafa verið hallir undir poplúlísk mál séu sjálfir að setja fram það sem kallað er „White Propaganda“ því þar eru skýr dæmi um að stjórnmálamenn setji fram mjög bjagaðar upplýsingar til að upphefja eigin gjörðir og til að beina sjónum að öðrum málum en þeirra eigin. Þetta er einnig frekar nýtt hér á landi en hefur þó þekkst hin síðari ár.

Ég hef spurt þrjá þaulvana auglýsingamenn og þeir telja (án ábyrgðar) að kostnaður nafnlausu auglýsinganna, sem beindust mest gegn því að vinstri flokkar næðu miklum árangri hafi verið á bilinu 40-60 milljónir króna. Alveg sama hvort svona efni beinist gegn vinstri eða hægri flokkum. Þetta á einfaldlega ekki að líðast og það eru til aðferðir til að koma í veg fyrir þetta. Ef það verður ekki gert mun fólk, smátt og smátt, missa trú á að atkvæðagreiðslur og kosningar þjóni þeim tilgangi að ná fram vilja fólksins. Sú umræða er reyndar þegar byrjuð eins og David Van Reybrouck ræðir í merkilegri grein sinni í The Guardian, Why elections are bad for democracy“.

Ísland þarf skýrari lagasetningu gegn villandi kosningaáróðri

Mikil áhrif voru höfð á kosningaúrslit í Bandaríkjunum þegar Trump var kjörinn forseti, með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum. Þetta er svolítið óhuggulegt en á samt samsvörun við íslenskan veruleika því í nýafstöðnum kosninum til Alþingis voru það nafnlausar auglýsingar og villandi efni á samfélagsmiðlum sem höfðu allnokkur áhrif á niðurstöður kosningar.

Íslensk kosningalög nr. 24/2000 taka ekki með skýrum hætti á þessum vanda. Þau tala um að kosningaáróður sé óleyfilegur, það „að hafa áhrif á hvernig fólk greiðir atkvæði“:

Þessi lög kveða samt ekki skýrt á um að banna skuli að hafa áhrif á kjósendur með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum. Þess vegna þarf að endurbæta kosningalög og færa slíkar takmarkanir inn í þau. Annars endum við í hinu villta vestri þar sem falskt efni verður alsráðandi í kosningum og sá vinnur sem er tilbúinn að fara niður á lægsta planið og hefur úr mestu fjármununum að spila. Yfirleitt væru það þeir flokkar sem væru nátengdastir viðskiptalífinu og stærri fyrirtækjum.

Í Bandaríkjunum er verið að kynna ný lög sem einmitt eiga að koma í veg fyrir falskan kosningaáróður. Honest Ads Act. Í þeim er gert ráð fyrir að leggja kvaðir á fyrirtæki eins og Facebook, Google, Twitter og YouTube í þá veru að ritskoða efni. Að það sé á þeirra ábyrgð að kanna með réttmæti auglýsinga. Í lögunum er gert ráð fyrir gagnagrunni þar sem geyma verður allar pólitískar auglýsingar og að þar verði þær tengdar við kostunaraðila. Þessi leið er víða gagnrýnd m.a. vegna þess að hún tekur ekki á þeim aðilum sem framleiða slíkt efni. Enda væru slíkar aðgerðir torveldari því þær geta verið framleiddar í nærri hvaða landi sem er í heiminum og væri auðvitað erfitt fyrir eitt ríki að setja lög sem gilda fyrir önnur ríki. Kannski komumst við að því í framtíðinni að slíkt mun vera nauðsynlegt til að ná tökum á þessum vanda. Samhæfð lagasetning á milli margra þjóðríkja væri auðvitað áhrifaríkari.

 

Á Íslandi væri hægt að útfæra þetta svona:

 1. Auglýsingar sem fela í sér fullyrðingar þarf að staðreyndaprófa hjá óháðum aðila. Ef auglýsandi getur ekki lagt fram ótvíræð gögn sem sanna allar fullyrðingar sem koma fram í auglýsingu sem á að fara í birtingu þarf auglýsandinn að kosta það að óháður greiningaraðili kanni réttmæti þeirra skilaboða sem á að setja í birtingu. Auglýsingadeild fjölmiðils (birtingaaðili) skal meta hvort meta þurfi sannleiksgildi fullyrðinga sem koma fram í auglýsingum áður en birting er heimiluð.
 2. Auglýsingadeildir munu þannig ekki þurfa að staðreyndaprófa auglýsingar heldur væri það kostað af auglýsandanum sjálfum.
 3. Kveðið yrði á um það í lögum að bannað væri að setja í dreifingu auglýsingar sem hafa áhrif á kjósendur með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum.


Dæmi úr íslenskum veruleika:

Fyrir kosningarnar hér á landi í október 2017 voru birtingar á hreinum óhróðri og fölskum upplýsingum algengar. Og með skýrum hætti er hægt að sjá það í gögnum um ástæður kjósenda fyrir vali sínu að þær auglýsingar höfðu áhrif. Dæmi:

 1. Ef þú kýst tiltekinn flokk þá mun hann hækka þína skatta margfallt.
 2. Ef þú kýst tiltekinn flokk þá mun hann setja Evrópumet í skattahækkunum.
 3. Ekki kjósa tiltekinn flokk því hann mun minnka frelsi þitt til athafna.
 4. Ekki kjósa tiltekinn flokk því hann mun færa atvinnuhætti aftur til baka um marga áratugi.

Ofangreint er alls ekki tæmandi listi, aðeins dæmi af handahófi.

Um það hljóta allir að vera sammála um að þetta beri að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Það er fátt dýrmætara lýðræðinu en að láta almenning taka upplýsta ákvörðun um hvernig eigi að kjósa án þess að hagsmunaaðilar séu að reyna að hafa áhrif á þann þátt tilverunnar. Næg eru áhrif þeirra fyrir.

Gildin sem sigruðu í kosningunum

Það er nær endalaust hægt að setja upp túlkun á talnalegum niðurstöðum kosninganna. Flestir unnu á einhvern hátt (nema BF) og margir töpuðu líka á einhvern hátt. Sjálfstæðisflokkur er stærstur í öllum kjördæmum en tapaði líka í nær öllum kjördæmum. Er það sigur eða tap? Og Framsókn hélt sínu fylgi sem er ákveðinn árangur þegar flokkur klofnar í tvennt. En á sama tíma hafa þeir sjaldan verið minni. Sigur eða ekki? Svona mætti lengi telja.

Það er því áhugavert að skoða niðurstöður kosninga út frá þeim undirliggjandi gildum sem hafa risið uppi í umræðunni sem krafa fólks um betrumbætt stjórnmál.

Hvaða gildum óx ásmegin og hvaða gildi fengu lítin hljómgrunn?

#1 GAGNSÆI fékk klárlega aukin hljómgrunn í þessum kosningum. Bæði var boðað til kosninga vegna skorts á gagnsæi (leyndarhyggju) og svo var sterk umræða í allri kosningabaráttunni um að leyndarhyggja væri eitt stærsta mein íslenskra stjórnmála. Flestir flokkar tóku undir þessa umræðu, einkum miðjan og vinstri flokkarnir sem juku í heild fylgi sitt allnokkuð. Þeir flokkar sem virtust leggja minni áhersluna á gagnsæi, t.d. Sjálfstæðisflokkur féllu niður í fylgi. Lögbannsmál Stundarinnar veikti ímynd Sjálfstæðisflokks til þessa ímyndarþáttar, hvort sem það er vegna réttmætrar ástæðu eða ekki.

Sérstaka stöðu í þessum efnum hefur Miðflokkurinn, sem virtist ekki leggja mikla áherslu á að tala fyrir mikilvægi þess að auka gagnsæi í stjórnmálum. Skýringin á þessu getur verið eðlileg því það er alþekkt, í þjóðfélögum, að ákveðinn hluti kjósenda er ekkert að velta gildum fyrir sér. Það eru þeir kjósendur sem horfa fyrst og fremst á valkosti út frá eigin ávinningi. Í þroskakenningum er þetta segment oft nefnt blindur egóismi og lýsir því að sumir ná ekki að tengja við aðra hluta samfélagsins en sjálfa sig og velja sér því flokka út frá hreinum og klárum tilboðum, frekar en að hugsa um ávinning til samfélagsins í heild. Kjósendur Miðflokksins endurspegla mögulega að einhverju leyti þennan þjóðfélagshóp, enda var það peningalegur ávinningur í formi bankahlutabréfa sem oftast var nefndur af kjósendum Miðflokksins sem mikilvæg ástæða til að kjósa flokkinn, óháð því hvort það veiki getu ríkissjóðs til að standa undir innviðum og samfélagslegri ábyrgð eða ekki. Sagt var, svo að dæmi sé tekið að 100 þúsund krónur fyrir einstakling væru flottur díll og að ríkissjóður verði bara að taka því til að tryggja einstaklingum þennan ávinning.

Út frá niðurstöðum kosninga, könnunum um hvað skipti kjósendur máli og mörgum öðrum vísbendingum einnig má færa rök fyrir því að um 20-25% kjósenda séu þannig þenkjandi að gildin í samfélaginu skipti mun minna máli heldur en fjárhagslegur ávinningur þeirra persónulega. Það er því staðreynd sem er mikilvægt að horfa á að gildi skipta suma þjóðfélagshópa litlu eða engu máli. Jákvætt er hins vegar að átta sig á að meirihluti fólks lætur gildin í samfélaginu skipta miklu máli og er þar um að ræða töluverðan meirihluta fólks.

#2: SAMVINNA OG HLUTTEKNING. Gildi um aukna samvinnu fengu mikinn hljómgrunn í kosningabaráttunni; einnig það að leggja á sig að setja sig í spor annarra, að skilja mótaðila. Nóg var að hlusta á umræður forystumanna á RUV um möguleika á samsetningu ríkisstjórnar til að átta sig á mikilli kúvendingu hvað þetta varðar. Þar mátti heyra algerlega nýjan tón, sem varla hefur heyrst áður: Að nú sé ekki lengur hægt að koma inn í viðræður um myndun stjórnar með forskrifaðar kröfur á blaði heldur verði að setjast niður og hlusta á hina og móta saman eitt sameiginlegt blað yfir þá þætti sem leggja á áherslu á ef farsæl ríkisstjórn á að komast á koppinn. Að það sé rétt að hugsa um víðtækt samstarf margra aðila í stað þess að spila leikinn út frá eigin þörfum. Það er nýlunda að það sé talað jafnt skýrt og opinskátt á þessum nótum og ánægjulegt að sjá þróun í þessa átt. Í þessa veru töluðu allir forystumenn flokka.

#3: GEGN FORINGJADÝRKUN – Að hampa ekki aðeins þeim sterka. Í fyrsta sinn má heyra raddir sem tala fyrir því að það sé ekkert endilega mikilvægt að hafa sterka leiðtoga sem ráða miklu (oft öllu) og að það sé ekkert endilega ávísun á stöðugleika í stjórnmálum að hafa stóran meirihluta í ríkisstjórn. Enda sýna dæmin að tæpur meirihluti í ríkisstjórn getur bæði verið skammlífur og langlífur. Stjórnmálamenn eru í æ ríkara mæli farnir að átta sig á að heilindi og auðmýkt séu mikilvægari þættir í langlífri ríkisstjórn heldur en endilega stór meirihluti á Alþingi. Að hampa þeim sterka er því mögulega á einhverju undanhaldi, a.m.k. er greinilegt að önnur sjónarmið hafa fengið vaxandi hljómgrunn í umræðunni. Miðflokkurinn sker sig úr hvað þetta varðar vegna þess að tilurð hans byggir á einum stofnanda sem öllu ræður. Að því leyti til stangast tilvist Miðflokksins að einhverju leyti á við þann tíðaranda sem er vaxandi nú um mundir. Miðflokkurinn hamar foringja sínum og vill að hans eigin sjónarmið séu ráðandi í stað þess að lýðræðisleg og opin umræða sé grundvöllur ákvarðanatöku.

#4: GILDI ANDSTÆÐ ALMENNINGI VÍKJANDI. Mörg önnur gildi virðast vera víkjandi í umræðunni eins og t.d. tækifærismennska, prinsippleysi og að nýta valdið fyrir eigin hagsmuni. Mjög sterk orðræða var í kosningabaráttunni um þann rauða þráð sem sameinar þessi gildi í einn farveg: Að gefa sjónarmiðum og hagsmunum almennings meiri gaum en áður og að átta sig á því að slík hugsun gefur flokkum mun meira fylgi en flestar aðrar áherslur. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknaflokkur og Flokkur fólksins lögðu allir áherslu á að styrkja samfélagsþætti sem snerta almenning. Og Vinstri græn, Samfylking og Viðreisn lögði jafnvel enn ríkari áherslur á að nú væri komið að því að setja almenning í fyrsta sætið, bæði með því að fjárfesta í innviðum fyrir almennings en einnig með því að innleiða nútímalegri vinnubrögð sem gæti gefið Íslandi sterka og stöðuga stjórn til lengri tíma. Erfitt er þó að meta þessa þætti út frá kosningabæklingum og orðræðu í kosningum því allir vilja sýnast hugsa um hagsmuni almennings þó að margir flokkar freistist til þess að horfa meira til eigin hagsmuna og forgangsraða í þeirra þágu.

—  —  —

AÐRAR ÁHERSLUR: Nokkrar áherslur komu fram í kosningabaráttunni sem voru á skjön við þau gildi sem hafa átt auknu fylgi að fagna:

Dæmi voru um það voru þegar talað var um málin með ákveðnum fautaskap, ókurteisi, þegar dylgjur voru settar fram (jafnvel í sigurræðum á kosningakvöldi); þegar hótfyndni, hæðni og vænisýki birtist með afgerandi hætti og einnig þegar í ljós koma að foringjar væru jafnvel helteknir af ranghugmyndum sem staðreyndir og rök gætu ekki feykt á brott. Persónueinkenni og siðferðisvenjur í þessum dúr heilla alltaf einhverja kjósendur en eru hins vegar algjört eitur í beinum mikils meirihluta kjósenda. Því ma gera ráð fyrir því að þeir sem stíga í þennan væng hinnar trumpísku aðferðafræði sem heltekið hefur bandarísk stjórnmál hin síðstu misseri, muni ekki á endanum ríða feitum helsti frá þátttöku í stjórnmálum. Íslendingar eru auðvitað allskonar en eitt sem er sameiginlegt með þeim flestum er að þeir eru ekki móttækilegir fyrir dónaskap. Meira að segja sá sem hefur fengið neikvæða ímynd fær samúð margra ef hann einhver sýnir honum dónaskap.

Í öðru lagi er það nokkuð ljóst að eftirspurn eftir hótfyndni er nánast horfin á meðal almennings og dylgjur, ókurteisi, vænisýki og ranghugmyndir eru siðvenjur sem fólk túlkar fyrst og fremst sem vangetu til að taka þátt í samstarfi. Samstarf í ríkisstjórn þar sem slíkar siðvenjur fá hljómgrunn verður að byggja á einhverju öðru en á þeim gildum um samstarf, saminnu og gegnsæi sem hafa fengið sterkan hljómgrunn á meðal fólks. Slíkt samstarf verður að byggja á sterkum og þröngum hagsmunum til að fá grundvöll til að lifa. Miðað við þau gildi sem hafa fengið breiðari vængi á síðustu misserum má gera ráð fyrir því að samstarf sem tekur ekki ríkulegt tillit til nútímagilda muni hugsanlega vara stutt og verða fáum til gæfu.

 

 

 

 

 

Létt líf eða hark?

Ísland er frábært land. En eins og í flestum löndum þá þarf að breyta og laga og reyna að fókusera á 1-2 aðalatriði sem væri mikilvægast að breyta.

Hér á Íslandi er laun ágæt í samanburði við nágrannalöndin en þá á oft eftir að skoða kostnað við að lifa í landinu til að átta sig á hvort um sé að ræða létt líf eða hark.

Ef við skoðum meðaltal af útborguðum launum og svo meðalleigugreiðslum sem fólk er að greiða pr. mánuð þá kemur í ljós að hlutfall leigu af ráðstöfunartekjum á Íslandi er óvanalega hátt, ef við berum okkur saman við helstu nágrannalönd. Að meðaltali er fólk á leigumarkaði að greiða 2/3 af launum einstaklings í leigu. Þetta er of hátt.

Ath. að hér eru tölur teknar fyrir höfuðborgarsvæðið í hverju landi og gildir þetta hlutfall því ekki fyrir aðstæður í minni borgum og á landsbyggð. En röðin er nærri eins, hvort sem verið er að skoða minni borgir eða landsbyggð þótt hlutfallið breytist eitthvað. Hér eru því teknar höfuðborgir landanna og gefur það því vísbendingu um það hvort að leigan sé að sliga fólk eða ekki.

Það ber ekki að skilja töfluna þannig að þetta hlutfall sé hæst á Íslandi af öllum löndum heimsins. Því fer fjarri. Í Lettlandi og í Litháen er hlutfallið hærra en á Íslandi svo að dæmi séu tekin. Þar er leiga reyndar töluvert lægri pr. fermeter en laun eru þar afar lág. Þar er því meira hark að lifa í þeim löndum (á leigumarkaði) heldur en í Reykjavík.

Í Sviss og Þýskalandi eru lög sem takmarka heimild leigufélaga til að hækka leigu. Hér á landi er þetta hálfgert vilta-vesturs-fyrirkomulag. Fyrirtæki sem eiga leiguíbúðir geta sent bréf til leigjenda og hækka fyrirvaralaust um 20% eða 30% á ári og eru mörg dæmi um það. Þar er alfarið verið að taka tillit til hagnaðar eiganda en ekki samfélagslegra sjónarmiða. Það þjóðfélag sem leyfir slíka einstefnu mun aðeins hola sjálft sig að innan. Leigufélög geta reyndar grætt óskaplega í nokkur ár en geta fólks til að vera þátttakendur í þeim leik minnkar og allir tapa á endanum.

Meginmarkið sem þarf að setja í húsnæðismálum:
Húsnæðiskostnaður á að vera í mesta lagi 45% af ráðstöfunartekjum.

Á Íslandi þarf því reglur sem heimila aðeins X%-mikla hækkun. Þetta ætti að vera á bilinu 1-4% hækkun en bilið þyrfti að skoðast út frá verðhækkunum á launum – ekki á neysluverðvísitölu. Þetta er það brýnasta sem þarf að gera gagnvart erfiðum leigumarkaði á Íslandi, að setja hömlur á endanlausar hækkanir á leigu. Hitt er að auka framboð af leiguhúsnæði hjá non-profit félögum. Það væri hitt sem þyrfti að bjóða upp á. Meira um það síðar.

 

Strax í skjól leysir húsnæðisvanda ungs fólks

Hvernig fer ungt fólk að því að kaupa húsnæði erlendis? Algengasta leiðin sem býðst í mörgum löndum Evrópu og víðar er að fara í náið samstarf við skyldutryggingalífeyrissjóðinn sinn og fá hann til að lána sér fyrir útborgun. Þannig er útborgun ekki lengur hindrun og fleiri komast strax í skjól. Þessa leið – sem notuð er í margvíslegum útgáfum í Þýskalandi, Austurríki, Hollandi, Frakklandi, Sviss og víðar, hef ég skoðað og mátað fyrir íslenska lífeyriskerfið og sett fram lausn sem er aðlöguð aðstæðum á Íslandi. Þessa lausn setti ég fram í maí 2016 og hefur hún fengið einhverja umræðu nú í kjölfar kosninga í október 2017.

Þessi lausn er góð fyrir lífeyrissjóði því þeir halda áfram að búa að tryggðri ávöxtun. Minna verður til almennra fjárfestinga í bréfum því meiri fjármunir munu fara til að lána fyrir útborgun. Eignahlið lífeyrissjóða mun því stækka í formi veðs í fasteignum í stað eignar í hlutabréfum. Og munum það að á árunum 2007-2009 þá voru það veð lífeyrissjóða sem stóðust bankahrunið og héldu verðgildi sínu á meðan hlutabréf, mörg hver, tóku djúpa dýfu.

Hér er hægt að ná í PDF-skjal sem lýsir lausninni:

PDF

 

 

 

 

 

Myndir út kynningunni:

 

________________________________

Umfjöllun MBL 1  (hér)

Umfjöllun MBL 2  (hér)

Viðtal í þættinum Harmageddon, X-ið 97.7 (hér)

Viðtal á Bylgjunni í þættinum Í bítið  (hér)

Umfjöllun á Hringbraut – sjónvarpsviðtal (hér)

Umfjöllun á Hringbraut – frétt um lausnina (hér)


Mynd af kynningarfundi um lausnina:

SIS pic3a

Sjónvarpsviðtal um lausnina:

Útvarpsviðtal um lausnina:

BITID

Blaðaefni o.fl. efni þar sem fjallað er um lausnina:

Hringbraut1

 

MBL 16MAY16 THUMB

HARMAGEDDON

MBL 29APR16 THUMB

 

 

 

 

 

 

 

Íslensk stjórnmál geta lært af landsliðinu í knattspyrnu

Í umræðu um hugarfarið sem liggur að baki íslenska landsliðinu í knattspyrnu hefur þjálfari liðsins nefnt nokkra lykilþætti sem eru grunnur að frábærum árangri liðsins. Er áhugavert að skoða hvaða lykilþættir eru því margt má eflaust af þeim læra.

Og nú, þegar íslensku stjórnmálafólki gengur illa að vinna saman þá er sérstaklega áhugavert að ímynda sér hvernig íslensk stjórnmál væru ef þau myndu tileinka sér sömu aðferðir til að ná árangri og landsliðið gerir.

Lykilþættirnir að baki þjálfun og samheldni liðsins eru þessir að sögn þjálfara og annarra sem til þekkja:

1) MIKIL ÁHERSLA Á GILDI
Það vekur það eftirtekt hvað Heimir Hallgrímsson leggur mikla áherslu á þau gildi sem landsliðsmenn skulu hafa í heiðri.

Í júní 2016, eftir leik gegn Noregi sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari landsliðsins þetta:

Það stæði upp úr eftir tapið í Noregi þar sem nokkur gildi landsliðsins hefðu ekki verið höfð í heiðri.

Það er sem sagt mjög alvarlegt ef gildin sem landsliðið stendur fyrir eru ekki höfð í heiðri. Gildi landsliðsins eru sem sagt lykilatriði og sett ofar öllu öðru.

Heimir sagði líka:

Við hugsum um það að hrósa fyrir karakterinn. Það eru gildi sem skipta ekki minna máli heldur en að vera góður í tækninni. Við þjálfararnir þurfum að hrósa sérstaklega fyrir þau gildi, að vera duglegur, vinnusamur, vera karakter og leiðtogi.

Þetta er annað dæmi um mikla áherslu á mikilvæg gildi. Að hrósa öðrum fyrir hæfileika og framlag en leggja litla áherslu á að koma sinni eigin hlutdeild að. Þetta er ekki bara að samsama sig við gildi heldur er slík framkoma einkenni góðra leiðtoga sem hafa ekki þörf fyrir reglulega viðurkenningu því hin eina sanna viðurkenning kemur þegar hópnum gengur vel, þegar endamarkmið nást.

2) SAMAN ERUM VIÐ STÆRRI
Þeir sem þekkja landsliðið segja að geta þess sé meiri en samanlögð geta einstaklinganna í liðinu. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði. Að þegar fullkomin samstaða næst um að leggja alla áherslu á samvinnu og samheldni (og leggja karp, hrossakaup og eigin hagsmuni til hliðar) að þá sé hægt að ná stærri markmiðum heldur en hægt er þegar hver er í sínu horni. Að ná þannig stærri markmiðum heldur en þegar HVER FLOKKUR er að paufast áfram, hver með sína útgáfu af áherslumálum, í keppni við hina að ná sínu fram.

3) HJÁLPSEMI
Hjálpsemi liðsmanna sín á milli hefur verið lýst þannig: Landsliðsmenn eru tilbúnir að leggja meira á sig fyrir liðsfélagann heldur en það sem þeir ætlast til að gert sé fyrir þá sjálfa. Þetta er að átta sig á því að mínar þarfir séu ekki mikilvægari en þarfir annarra. Ekki vegna þess að viðkomandi ætli að lúffa og láta öðrum eftir allt heldur vegna þess að átta sig á því að meiri árangur næst með þessum hugsunarhætti heldur en þegar ætlast er til þess að aðrir taki meira tillit til minna sjónarmiða heldur en ég er tilbúinn til að gera á móti. Þetta er að setja hvorki mig, þig né aðra í fyrsta sæti, heldur að setja alfarið hópinn, árangurinn og þá sem unnið er fyrir í fyrsta sæti.

4) ENDAMARKMIÐIÐ ER OFAR ÖLLU
Það skiptir ekki öllu máli hvaða leið er valin eða hver fékk hugmyndina, hver átti sendinguna. Endamarkmiðið er það eina sem skiptir máli og það er að sigra – að ganga vel og vera ánægður að leik loknum. Að sjá árangur að leik loknum eða í lok verkefna. Finna það að framvinda sé í gangi og að hægt sé að veita hugmyndum hvers og eins brautargengi án þess að það setji aðra í samstarfinu eitthvað niður. Að það sé ekki mikilvægt hver eigi hugmyndina ef hún þjónar endamarkmiðinu. Í þessu felst reisn sem mikilvægt er að sé til staðar í öllu árangursríku samstarfi.

― ― ―

Það sem helst kemur í veg fyrir sameignleg gildi, samvinnu, samheldni, hjálpsemi og sameignlega sýn á Alþingi er þessi rótgróna flokkakeppni sem yfirtekur pólitíkina. Þetta heyrum við oft:

 • Þetta er jú alveg sæmileg hugmynd en okkar flokkur átti aðeins betri hugmynd og við viljjum að hún fái brautargengi.
 • Þar sem þið fengu þrjú mál í gegn í síðasta mánuði þá er það lágmark að þið samþykkið þessi þrjú mál sem við erum með.
 • Ég leyfi mér ekki að hrósa þessari hugmynd, enda er hún komin frá flokki sem er okkar helsti andstæðingu.

Þekkt tilvitnun frá fyrrum borgarstjóra lýsir því best hvernig passað var upp á að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna sem minnsta, helst enga, jafnvel þó að allir ættu að vera að vinna að einu og sama markinu:

Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan sem stóð frá 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim.

Landsliðið okkar væri ekki ofarlega á FIFA-listanum ef samvinnan væri á þessum nótunum.

Viðar Halldórsson, íþróttafélagsfræðingur, var í nýlegu viðtali á RUV og lýsti því vel hvað ofangreind gildi um samvinnu séu orðin kjarninn í því að íslensku íþróttafólki gengur vel. Að afreksíþróttir erlendis séu orðnar þannig að einstaklingsmiðaðri hugsun og egói hvers og eins hafi verið hampað of mikið og sé búið að yfirtaka andann í mörgum hópíþróttum erlendis.

Viðar sagði:

Við höfum ekki bara verið að ná árangri í fótbolta á síðustu árum heldur öllum okkar stærstu íþróttum. Við höfum sóknarfæri í afreksíþróttum í dag vegna þess að afreksíþróttir erlendis eiga undir högg að sækja. Það er kominn svo mikill egóismi, allt snýst um peninga. Við sjáum mörg stórlið eins og Holland sem er að missa af sínu öðru stórmóti í röð. Í liðinu eru margir frábærir knattspyrnumenn en þar eru leikmennirnir orðnir miklu stærri en liðið. Þeir hugsa miklu meira um sjálfa sig heldur en liðið og þjóðina. Og þá byrjar liðinu að ganga illa því það vantar liðsheild, samvinnu og hjálpsemi til að ná árangri.

Margt myndi vinnast með því ef stjórnmálamenn myndu í auknu mæli horfa til þessara gilda og líta á samvinnu, liðsheild og hjálpsemi sem nauðsynlega þætti í því að ná árangri í störfum sínum fyrir þjóðina. Að taka sig sjálfan og sinn flokk aðeins út úr jöfnunni þegar mál eru rædd. Alþingi gæti náð undraverðum árangri og mál myndu ganga hratt fyrir sig ef stjórnmálafólk gæti tekið skref í átt að þessum gildum.

― ― ―

Frekara efni um gildin í stjórnmálum, sjá hér.

 

Mesta fylgisaukning flokka kemur þegar þeir endurbæta orðræðuna

Orðræða flokka er mjög misjöfn. Sjálfstæðisflokkur heldur úti orðræðu sem er áhrifarík á meðan flokkar eins og VG gera lítið til að byggja upp sterka orðræðu. Rannsóknir sýna að fólk kýs flokka meira vegna orðræðunnar frekar en stefnumála. Þetta er meginástæðan af hverju Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stór, hann hefur eignað sér öll sterku, góðu og áhrifaríku orðin sem svo margir vilja samsama sig við.

Dæmi:

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn byggir á þessari orðræðu:

 • Við erum „festa og stöðugleiki
 • Við bjóðum „skattalækkanir
 • Við færum þér „frelsi
  ― ― ― ― ― ― ― ―
 • Hinir flokkarnir eru „óábyrgir smáflokkar
 • Án Sjálfstæðisflokks ríkir „veiklulegt smáflokkakraðak
 • Hinir flokkarnir leiða til „glundroða og stefnuleysis
 • Hinir flokkarnir eru „ekki stjórntækir
 • Hinir flokkarnir kalla fram „miklar skattahækkanir
 • Hinir flokkarnir kunna ekki „ábyrga stjórn peningamála

Að mörgu leyti er þetta snjöll orðræða hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki vegna þess að þessi orð skili þeim mesta fylginu heldur vegna þess að aðrir flokkar mótmæla ekki því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn rammar sig inn. Ef Sjálfstæðisflokkurinn segir „við bjóðum stöðugleika“ þá trúa flestir því AF ÞVÍ AÐ hinir flokkarnir mótmæla því ekki. Það er enginn sem er að reyna að eigna sér þetta tiltekna orðfæri nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna trúir almenningur þessari orðnotkun og trúir þá því að allt verði betra (stöðugra) ef Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn. Og þess vegna kjósa margir hann aftur þó að þeim fjölgi sem hafa athugasemdir við framkomu, aðgerðir og starfshætti flokksins.

Af hverju reyna VG, Píratar eða Samfylking ekki að eigna sér orðin sem eru skyld orðinu „stöðugleiki“? Af hverju breyta þessir flokkar ekki þessari ímyndarsköpun Sjálfstæðisflokks með því að tengja þann flokk við „óstöðugleika“? Af hverju tengja þessir flokkar sig ekki við yfirvegaða stjórnarhætti eins og stöðugleika með því að keppa um orðið. Ef tveir eru komnir sem bjóða besta tilboðið (best orðið) þá er kominn vafi og annar flokkurinn tapar þá helming af sínum tengslum við orðið, sé framsetningin sómasamleg.

En aðrir flokkar hafa alla tíð verið að mestu getulausir gagnvart baráttunni við Sjálfstæðisflokkinn í keppninni um orðnotkun. Þeir bara samþykkja orðið sem Sjálfstæðisflokkurinn eignar sér og hirðir restina af orðunum sem eru í boði.

Af hverju velja aðrir flokkar ekki að tengja sig við frelsi og ábyrgð og stöðuga stjórn? Við farsæl orð sem tengjast jafnvægi, hamingju og vellíðan? Eina svarið sem manni dettur í hug er kerfislæg deyfð og hugsanlegt áhugaleysi á að keppa á þessu sviði. Þeir virðast lítið kunna þá list að keppa um orð og konsept og láta bara yfir sig ganga því sem hent er til þeirra.

Annars geta Sjálfstæðismenn bæði verið mjög sterkir í umræðunni (ramma vel inn) en einnig eiga þeir til allmörg dæmi um að ramma inn málefni algerlega yfir strikið. Þingmaður þeirra sagði í janúar 2017 að best væri „að nota harðan stálhnefa“ gegn hælisleitendum. Þetta er gott dæmi um hvað Sjálfstæðisflokkur á það til að vera ekki nógu einlægur, mennskur og hlýr. Allt slíkt er aumingjaskapur og það hefur virkað ágætlega nema hvað þörf og eftirspurn fólks gagnvart mýkri gildum hefur aukist það mikið að Sjálfstæðisflokkurinn verður að taka suma grunnþætti í gegn í umræðu sinni ef hann ætlar ekki að fjarlægjast almenning æ meir í umræðunni. Sama harka, ákveðni, festa o.fl. virkar ekki alveg eins og og hún gerði hér fyrir allmörgum árum.

Stóra áskorun Sjálfstæðisflokksins í orðræðunni er að ramma erfiðu málin inn með einlægum hætti. Þar virka þeir kaldir og gamaldags þursar því þeir hafa ekki náð að fylgja tíðarandanum hvað þetta varðar. Þeir nota enn hörku, ákveðni og ímyndaða festu og telja sig komast í gegnum erfiðu málin á þeim nótunum. Það virkaði vel hér áður fyrr en virkar fremur illa í dag. Á mörgum keimlíkum sviðum er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga æ erfiðara með orðræðuna, einkum þegar erfið mál eru rædd, því þeir þurfa nauðsynlega á endurnýjun að halda og læra hvernig á að tileinka sér nútímalegri orð. Stöðugleiki er orð sem hefur verið eftirsótt og virkað vel en það er samt veikari ímyndarþáttur nú en áður.

Vinstri-græn

Vinstri-græn byggja á fremur takmarkaðri orðræðu. Þeir tala eins og að þeir séu yfir það hafnir að eigna sér orð. Það sé fyrir neðan þeirra virðingu. Gott og vel. Þá mun VG líka tapa að mestu í baráttunni um orð sem skipta fólk máli. Og þar með mun sá flokkur, enn og aftur, ekki koma hugmyndum sínum í verk.

 • VG hugsa mest um „umhverfið“ – erum „á móti aukinni umferð/mengun/bílum
 • Við í VG viljum „félagslegan jöfnuð“ til handa öllum
  ― ― ― ― ― ― ― ―
 • Um fylgi Sjálfstæðisflokks segir VG að það „fylgið komi á óvart

VG segir gjarnan frá stefnumálum – í langri upptalningu – er rammar þau nærri ekkert inn til að þau höfði til hins almenna kjósanda. Það er eins og þeir hugsi: Ef kjósendur skilja ekki hvað við erum sniðug þá ætlum við ekkert að segja þeim það. Við viljum bara fólk sem er hrifið að hugsjónum okkar og þekkir hvað liggur að baki okkar hugmyndafræði. Það er því gegn hugsunarhætti VG að vilja að koma stefnumálum sínum í skiljanlegan og grípandi búning. Og þar liggur einn stærsti þröskuldur flokksins gagnvart meiri fylgisaukningu.

Að fylgi andstæðingsins „komi á óvart“ er ótrúlega lin orðræða. Segir fólki ekki af hverju það eigi að kjósa VG og segir fólki ekki af hverju það eigi ekki að kjósa hina.

VG eru því líklegast einn sá flokkur sem er slakastur í að ramma inn sín stefnumál. Þess í stað eyða þeir vafalítið miklum tíma í að grandskoða og lúslesa stefnuna sína en leggja minni áherslu á framsetningu á þeirri stefnu. Þeim finnst nægjanlegt að hafa efnisinnihaldið í lagi en að framsetning sé aukaatriði. Á meðan keppast aðrir við að ramma inn sín málefni og ná því oftar hljómgrunni og athygli, ekki út á stefnumál heldur vegna áhugaverðrar framsetningar.

VG tengja sig sem sagt aðeins við umhverfi og gegn mengun t.d. frá bílum og við félagslegan jöfnuð sem er fremur veikt af því að konseptið félagslegur jöfnuður er á einhvern hátt svo „dull“ leið til að lýsa því sem maður er að stefna að. Allir vilja stefna að einhverju sem er eftirsóknavert og lætur fólki líða vel en fáir tengja við að „félagslegur jöfnuður“ sé það sem sé eftirsóknavert. Flestir telja að þetta sé konsept sem er hluti af gömlu kerfunum sem töpuðu með Hillary Clinton; sé veikt kerfi sem kalli ekki fram kraftinn í þjóðfélagsþegnunum. Stór hluti Íslendinga eru samt sem áður kratar sem eru ekki fjarri kerfinu sem félagslegur jöfnuður lýsir. En samt sem áður eru orðið „félagslegur jöfnuður“ ekki leiðin til að ramma inn það sem allir vinstri- og hægri-kratar landsins þrá. VG þarf því að fara í pælingar um að ramma þetta konsept og fleiri alveg upp á nýtt. Nema kannski umhverfismálin því þau eru vel innrömmuð VG í hag.

Dæmi af VG úr umræðunni sem mögulega þarf að endurbæta:

Enginn efast um að Katrín Jakobsdóttir er öflugur stjórnmálamaður með breiða skírskotun til margra utan VG. En það er hér um bil það eina sem hana vantar að ramma sín málefni inn á þann hátt að fólk tengi við. Hér er Katrín með sterkt mál en veika innrömmun. Sveltistefna er ekki eitthvað sem fólk tengir við ef það er sett í búninginn að fleiri eigi að fá meira. Allir vita að það þarf að velja og hafna hvað almannafé varðar og því er sveltistefna ekki það sem fólk tengir brýnast við. Orðið sveltistefna er hér notað um meðhöndlun og vörslu ríkisfjármuna og með því að nota þetta orð þá er Katrín í raun að segja að andstæðingar sínir passi þá fjármuni vel, séu agaðir í því hvert peningar séu settir. Hugsi gjarnan: Tja, er það ekki bara gott ef fjármálaráðherra er stífur á að eyða fé úr ríkiskassa? Þar á að vera agi og það þýðir ekki að dreifa peningum út um allar trissur. Orðið sveltistefna tiltekur einnig að einhver sé fórnarlamb og þá hlýtur það a vera sá sem er ekki í stjórn. Þ.e.a.s. VG og aðrir. Sá sem notar orðið gerir sig þess vegna að fórnarlambi og hjálpar öðrum að skynja sig í því hlutverki. Þetta eru algengustu mistök vinstra fólks í orðræðu: Að ramma sig inn sem fórnarlamb. Tala með röddu þess sem ræður litlu. Tala eins og sá sem mun tapa. Þannig styrkir orðið sveltistefna ekki málflutning VG en veikir hann miklu fremur.

Annað dæmi frá hinni annars vinsælu Katrínu er að ramma málin inn sem mikla eða litla „gleði“:

Fólki er alveg sama hvort það er mikil eða lítið gleði í ríkisstjórnarsamstarfi. Fólk vill bara að ríkið sé rekið skynsamlega, að farið sé vel með fé og að framþróun sé í gangi í þjóðfélaginu með jöfn tækifæri í huga. Þess vegna er brýnt fyrir VG að ramma inn gagnrýni á ríkisstjórn með öðrum hætti en að tala um skort á gleði. Í þessu sambandi skiptir gleði frekar litlu máli.

Um aðra flokka verður fjallað síðar.

― ― ― ― ―

Skyldir pistlar:

Vandi íslenskra stjórnmála er samskiptavandi

Samfylking gleymdi að eigna sér orð

 

 

 

Fjögur gildi sem íslensk stjórnmál þurfa að tileinka sér

Stjórnmálaflokkum gegur illa að tileinka sér ný gildi sem fólk vill leggja áherslu á. Um þetta snýst sú togstreita og andúð sem hefur byggst upp á milli stjórnmálamanna og almennings.

GÖMUL GILDI – sem stjórnmálaflokkar þurfa að kveðja:

 • Leyndarhyggja. Leyndarhyggja er helsta mein stjórnmála og nú er svo komið að það þarf að taka hana með öllu út úr íslenskum stjórmálum ef þau eiga að geta aukið trúnað og traust gagnvart almenningi. Hvarvetna í heiminum er gerð krafa um aukið gagnsæi og að leyndarhyggja víki og eru mörg lönd komin mun lengra en Ísland hvað þetta varðar, einkum mörg nágrannalönd. Besta baráttan gegn leyndarhyggju er einfaldlega aukið gagnsæi.
 • Að hampa þeim sterka. Sú hugsun hefur verið ríkjandi að sá stóri og sterki verði að stjórna því annars verði allt ómögulegt. Þjóðarhjartað hefur trúað lengi á ímynd þess sem er „sýslumannslegur“ og talar eins og sá sem ræður. Almenningur er að breytast hvað þetta varðar og í stað þess að trúa á þann sem vísar í stöðugleika og ábyrgð vill almenningur trúa á þann sem er færastur til að leysa málin. Og sá sem er færastur er sá sem getur leyst málin með sanngirni, gagnsæi og almannahag að leiðarljósi.
 • „Ég er valdið“ – tækifærismennska og prinsippleysi. Ef stjórnmálamaður getur aðskilið sjálfan sig og sína persónu frá því hlutverki sem hann er valinn til að sinna þá er mikilvægu markmiði náð. Alltof oft hafa stjórnmálamenn litið svo á að þegar valdamikið embætti er komið í höfn að þá sé það persónan sjálf (persóna stjórnmálamannsins) sem hefur unnið fyrir þeim völdum og hafi ákveðinn rétta á að nýta sér þau völd beint eða óbeint. Þetta er gamaldags hugsun sem er á útleið því þó að stjórnmálamaður sé valinn til æðstu embætta þá verður hann að hafa í huga að hann á að þjóna almenningi og undirstöðum þjóðfélagsins. Gamla hugsunin, „að nú sé komið að mér“ viðheldur gömlum gildum sem má víða sjá enn, sbr. setningu þekkts stjórnmálamanns: „Maður sem hefur aðstöðu og misnotar hana ekki misnotar aðstöðu sína.“ Að hugsa sem svo að „ég eigi völdin“ af því að ég var kosinn er hluti af gömlu ídeólógíu sem almenningur vill losna við.
 • Verkleysi – elítuismi. Fólki finnst sem að stór hluti stjórnmálamanna lifi í hugarheimi sem sé ólíkur veröld almennings. Bæði er það elítuisminn – gjáin sem er á milli stjórnmála og almennings – og svo ákveðið getuleysi gagnvart mörgum erfiðum viðfangsefnum sem glímt er við í nútímanum, sem skapar ímynd verkleysis. Hillary Clinton tapaði m.a. vegna sterkrar tengingar við þessa eiginleika, að vera álitin þjóna kerfum, fremur en fólki. Aukin krafa er hér á landi að kerfum sé ekki þjónað, heldur að fólki og þörfum þess sé þjónað og að þeim sé mætt þar sem fólk er statt hverju sinni.

NÝ GILDI – sem stjórnmálaflokkar þurfa að leggja ríkari áherslu á:

 • [1] Gagnsæi. Gagnsæi er lykillinn að því að auka traust í stjórmálum. Lykillinn í því að minnka leyndarhyggju og gera ákvarðanir stjórnmálafólks betri fyrir samfélagið. Ef leynd hverfur þá hverfa þau tilvik þar sem hagmunir fárra eru teknir fram fyrir hagmuni almennings. Þannig er gagnsæi vopn gegn spillingu og vörn gegn hagsmunaárekstrum. Innra eftirlit, sterkari upplýsingalög og ítarlegri siðareglur eru þær leiðir sem notaðar eru til að efla gagnsæi í stjórnmálum – eru nokkurskonar forvörn gegn því að stjórnmálafólk freistist til að vinna gegn hagsmunum almennings. Hagsmunaskráning alþingismanna skiptir þarna máli en hún er enn sem komið er einföld og tekur ekki tillit til hagmuna maka og skyldra aðila.
 • [2] Sanngirni. Ísland hefur lengið búið við stjórnmálamenningu sem gerir mikið fyrir fáa. Í dag er kallað á aðrar áherslur – kallað er á meiri sanngirni og mannlegrar áherslur inn í stjórnmálin og að stjórnmálafólk geti unnið eins og fólk fyrir annað fólk. Krafa um aukna sanngirni mun smátt og smátt kalla fram aukinn jöfnuð og að notendur auðlinda greiði hámarksarð til þeirra sem þær eiga. Hér er því bæði átt við sanngirni í skiptingu fjármuna og einnig sanngirni í ákvörðunum er lúta að persónulegum málum og réttlæti einstaklinga. Einnig er kröfu almennings um aukna sanngirni beint inn á samninga sem gerðir eru fyrir hönd þjóðarinnar sbr. samninga álvera sem greiða litla skatta til Íslands í krafti þunnrar eiginfjármögnunar og þar með lægri tekna og hagnaðar sem lágmarkað þar með skatta til hins íslenska þjóðfélagsins.
 • [3] Auðmýkt, hluttekning, samkennd. Auðmýkt hefur verið hálfgert tískuorð, hin síðari ár. Með því að gera aukna kröfur um auðmýkt í stjórnmál er almenningur að biðja stjórnmálamenn að hætta að setja sig í stellingar gagnvart almenningi og að muna að sérhver stjórnmálamaður er þjónn almennings og á að vinna í hlutverki en ekki sá sem hefur vald yfir örlögum almennings. Auðmjúkur stjórnmálamaður er því sá sem er sympatískur gagnvart hlutverki sínu og gætir þess að setja hagsmuni heildarinnar í öndvegi bæði hvað ákvarðanir og tilsvör varðar.
 • [4] Öflugari hagsmunabarátta í nafni almennings. Í íslenskum stjórnmálum hefur það oft sést hvað stjórnmálamenn berjast stundum sterkar fyrir hagsmunum heldur en hugsjónum. Almenningur er að kalla eftir að þessi leikur snúist við: Að stjórnmálamenn berjist af hörku fyrir þeim gildum sem skipta almenning máli og séu jafnöflugir í þeirri baráttu og þegar þeir hafa barist fyrir hönd fjárhagslegra hagsmuna. Almenningur er því að kalla eftir að stjórnmálafólk berjist af meiri hörku fyrir hagsmunum sínum heldur en verið hefur til þessa og horfir til þess hvað sumir eru tilbúnir að ganga langt í baráttu fyrir hagsmuni þeirra sjálfra og tengdra aðila.

Kjarninn í vantrausti almennigns á stjórnmál er þess vegna of mikil spilling og leynd og á sama tíma of lítið gagnsæi. Spilling er skv. skilgreiningu þessi:

Spilling er þegar opinber valdhafi (t.d. stjórnmálamaður) freistast vegna loforða um verðlaun eða veraldlegan ágóða til þess að taka opinberar ákvarðanir í samræmi við hagsmuni þeirra aðila sem bjóða verðlaunin og skaðar með því þann hóp eða stofnun sem hann sjálfur er ábyrgur fyrir og á að vinna að heilindum fyrir.

Það sem hefur breyst á síðustu árum er að almenningur vill veita stjórnmálafólki miklu meira aðhald en áður var gert. Nú á tímum, þegar færri (og veikari) fjölmiðlar veita strangt aðhald finnst fólki það enn mikilvægara en áður að #hafahátt og láta í sér heyra. Með tækni samfélagsmiðla höfum við tækifæri til að senda stjórnmálafólki skilaboð sem veita því öflugt aðhald. Upp er komin ákveðinn samtakamáttur sem er öflugari en áður var, þar sem fólki finnst að slíkt samfélagslegt aðhald eigi að vera persónuleg skylda hvers og eins.