Sækjum fram í loftslagsmálum

Grein þessi birtist fyrst í Fréttablaðinu, 9. júní 2021

—  — —

Margt er skrifað um loftslagsbreytingar og mögulegar yfirvofandi hörmungar ef ekkert verður að gert. En í stað þess að keppa um verstu mögulegu forspánna um hvað gæti gerst mætti líka keppa um bestu mögulegu lausnirnar og fókusera á þær. Það er nefnilega fáu að kvíða, eins og sást við úrlausn COVID-faraldursins, ef vísinda- og tæknifólk fær næði og fé til að ástunda rannsóknir sem hraða á lausnum vandans.

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin og skíturinn er of mikið magn CO2 í andrúmslofti. Óhreinindin koma frá íbúum hússins sem hafa gengið illa um og neita að hætta og benda hver á annan. Ennþá erum við þó á frumstigi þess að leysa vandann því mikill hluti tímans fer enn í það að deila um hvort það sé ekki bara nóg að hætta að skíta meira út eða hvort að það þurfi raunverulega að taka sig til og þrífa skítinn. Að minnka óþrifnað (draga úr losun CO2) og að þrífa (hreinsa CO2 úr andrúmslofti) eru í stóru myndinni þær einu tvær lausnir sem hægt er að horfa á til að skila húsinu hreinu og notalegu að búa í. Og við sjáum það fljótlega að við verðum að nota báðar aðferðir, af því skíturinn er orðinn svo mikill. Það þarf að hætta að skíta út og það þarf líka að þrífa skítinn sem kominn er.

Loftslagsvandinn snýst um að heimurinn í heild komist fyrst á stigið „net-zero“ (að magn af CO2 sem sett er út í andrúmsloftið sé jafnt eða helst minna en það sem tekið er úr andrúmslofti) og eftir það má fara að því að stefna að því að magn CO2 lækki alltaf úr andrúmslofti, ár frá ári.

Hvað getum við gert til að sækja hraðar fram í loftslagsmálum?

Leið 1: Færa fjármagn í meira mæli til aðferða sem leysa vandann

Margfalda þarf fjárfestingar til loftslagsverkefna sem raunverulega minnka magn CO2 í andrúmslofti. Alveg eins og þegar forstjóri Pfizer opnaði á mjög mikla fjármuni til rannsókna og þróunar á COVID-bóluefni. Með þannig stuðning er vísindafólk ekki lengi að finna lausn sem virkar.

Um þetta ræðir Bill Gates í nýju bókinni sinni, „How to Avoid a Climate Disaster“ þegar hann segir:  „Avoiding a climate disaster requires a different way of doing business, the courage to take on risks that many CEOs are not used to taking — and that investors are not used to rewarding.“

Framfaraskref mannkyns hafa oft átt sér stað þegar fyrirtæki með hvatakerfi frá ríki fá aukið svigrúm til að fara á fullt í rannsóknir og þróun. Internetið, GPS-stað­setningar­­kerfið og mRNA-bóluefnaþróun (sem gaf okkur bóluefni gegn Covid). Allt þetta kom til af því að ríkið setti upp hvata- og stuðningskerfi í átt til góðra verka og beindi fjármagni í átt að vænlegum lausnum í stað þess að setja allt skattfé í einn stóran samneyslupott. Það tendrast nefnileg oft heilmikill afreksmáttur þegar ríki og einkaaðilar vinna náið saman. Þessum öfluga afreksmætti einkageirans og opinbera geirans lýsir ítalski-bandaríski hagfræðingurinn, Mariana Mazzucato, mjög vel í bók sinni „Mission Economy“ en þar er er bent á hvað hægt er að leysa mikinn kraft úr læðingi með því að hið opinbera taki að sér að vera hraðall fyrir mikilvæg verkefni og noti skattahvata til að leysa stærstu vandamál hvers tíma. Ekki til að fjármagna lausnir, heldur til að koma einkaaðilum nógu hratt í gang í þá vinnu að þróa lausnir.

Nýlega komu mjög jákvæðar fréttir í þessa átt þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti nýlega breytingar á lögum um tekjuskatt sem felur í sér aukna hvata fyrir einkaaðila til fjárfestinga í eignum sem teljast umhverfisvænar (grænar eignir) og stuðla að grænni umbreytingu.

Einnig má minnast á kolefnisgjald sem innheimt hefur verið frá 2010. Hefur ríkið innheimt um 50 milljarða af notendum jarðefnaeldsneytis á þeim tíma sem liðinn er og ef þetta gjald myndi fara beint í lausnir, rannsóknir og verkefni sem leysa loftslagsvandann þá myndi það skila miklum árangri og færa okkur hraðar nær lausnum. Hér væri hægt að hugsa sér að t.d. útgerð sem greiðir 100 milljónir á ári í kolefnisgjald mætti taka þá upphæð, eða hluta hennar, og leggja í loftslagsvæn verkefni sem myndu á sama tíma nýtast viðkomandi útgerð. Það mætti hugsa sér „hvatatengt kolefnisgjald“ sem væri þannig að ef fyrirtæki er ekkert að gera í loftlagsmálum þá greiði það fullt gjald en ef það fer í fjárfestingar sem nýtast beint í loftslagsmálum þá sé það frádráttarbært frá kolefnisgjaldi.

Einnig má minnast á að nokkrar ríkisstjórnir (t.d. sú kanadíska, sjá bls. 166) eru farnar að gefa út græn skuldabréf, einmitt til að færa fjármagn hraðar inn í lausnir sem leysa loftslagsvandann. Hér gæti ríkið komið inn sem öflugt hreyfiafl og verið farvegur sem hraðar á loftslagsvænum verkefnum.

Leið 2: Umbreyta hreinni raforku yfir í rafeldsneyti

Það þarf hvata og reglugerðir til að flytja fjármuni frá jarðefnaeldsneyti og yfir í hreinni leiðir. Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra hafa komið fram með sterka sýn um þetta í nýlegri grein „Skiptum yfir í eigin orku“ þar sem rætt er um þá stórkostlegu möguleika að breyta okkar hreinu raforku yfir í eldsneyti fyrir skip, flugvélar og önnur samgöngutæki. Mjög mikil og vaxandi eftirspurn er eftir svona vöru vegna RED II tilskipunnar Evrópusambandsins sem gerir samgöngutækjum skylt að hafa alltaf lægra og lægra CO2 magn í þeirri orku sem notuð er. Á Íslandi væri hægt að framleiða hreint eldsneyti með aðeins 1-2 grömm af CO2 á orkueiningu (MJ) sem er 98% hreinna en venjulegt eldsneyti og um 70-90% hreinna en það eldsneyti sem nú er framleitt og kallað hreint (biodiesel, hefðbundið „grátt“ metanól, TME, UCOME, HVO o.fl.). Þessi hreina vara er ekki seld í lítra- eða tonnatali heldur eftir hreinleika (gCO2/MJ) sem skapar Íslandi afar sterka sérstöðu. Þessi sérstaða hefur verið staðfest m.a. af Friedrich-Alexander-University Erlangen-Nürnberg sem vann merkilega rannsókn, án aðkomu íslenskra aðila, sem staðfestir að Ísland er einn allra hagkvæmasti valkostur í veröldinni fyrir framleiðslu á grænu eldsneyti fyrir skip, flugfélar og önnur samgöngutæki.

Leið 3: Efla CCUS (Carbon Capture, Utilization, and Storage)

Eins og sagt var í formála þessarar greinar þá eru í grunninn aðeins tvær leiðir til að leysa loftslagsvandann (og svo eru margar úrvinnsluleiðir með þær tvær aðferðir). Það er að draga úr losun og svo að hreinsa CO2 úr andrúmslofti. CCUS er samheiti yfir þær síðarnefndu aðferðir sem hreinsa CO2 úr andrúmslofti. Hægt er að binda úr mengunar­straumi verksmiðja og koma í veg fyrir losun og einnig er hægt, eins og unnið er að víða um heim af miklum krafti, að binda CO2 beint úr andrúmslofti (Direct Air Capture, sjá dæmi um það hér).

Það er sem sagt hægt að gera mikið gagn með því að taka CCUS aðferðir inn í alla mögulega lausnarpakka sem unnið er að hjá stjórnvöldum, stofnunum og einka­aðilum. Fullur stuðningur við CCUS aðferðir gæti lækkað CO2 gildi í loftslagsbókhaldi Íslands um nokkrar milljónir tonna af CO2 á ári svo að hér er til mikils að vinna. Festa þyrfti CCUS aðferðir í lög, líkt og gert hefur verið í Kanada og víðar, og hvetja til fjárfestinga í þeim aðferðum, líkt og öðrum.

Kanadíska ríkisstjórnin stefnir að því að stuðningur ríkisins við CCUS aðferðir geti skilað að aukin binding verði í loftslagsbókhaldi Kanada um 15 millljónir tonna af CO2 strax á fyrsta ári þessarar nýju reglugerðar. Þetta kemur fram hér (bls. 168).

Á Íslandi væri hægt að taka svipuð skref, að festa í sessi jákvæða hvata fyrir því að fanga CO2 úr andrúmslofti eða að fjárfesta í slíkum verkefnum.

Einnig gæti ríkið beint og óbeint komið  að fjárfestingum í innviðum sem gera loftslagsvæn verkefni auðveldari í framkvæmd. Það er víða hægt að taka og einangra CO2 en ekki margir sem munu koma sér upp aðstöðu og búnaði til að umbreyta þessu dýrmæta efni í grænt, hreint eldsneyti eða aðrar verðmætar loftslagsvænar afurðir.

Leið 4: Að átta sig á því að CO2 er hið nýja gull framtíðar

Olíu-forstjórar sáu fyrir 150 árum að olía úr jörðu væri hið nýja gull en nú er CO2 úr andrúmslofti hratt að verða hið nýja framtíðargull mannkyns. Úr CO2 má framleiða eldsneyti, kolsýru fyrir matvælaiðnað, metanól, metan, etanól, áburð, ýmis mikilvæg efni og margar aðrar vörur sem flest okkar nota á hverjum degi. Og af því við ætlum að hætta að taka CO2 úr jörðu og spúa því út í andrúmsloftið þá getum við unnið CO2 úr andrúmslofti (eða úr mengunarstraumum) og framleitt nauðsynlegar vörur án þess að valda aukinni mengun.

Nægir hér að taka stóra tækifærið um stóraukna matvælaframleiðslu á Íslandi. Með því að hafa nægjanlegt CO2 til staðar sem má nýta sem vaxtarefni fyrir t.d. grænmeti, þá væri hægt að auka útflutning matvæla upp í svipaðar tölur og útflutnings­verð­mæti sjávarafurða er í dag. Víða eru matvöru­verslanir erlendis að komast á það stig að vilja helst aðeins selja grænmeti með lítið sem ekkert kolefnisfótspor. Fá svæði hafa jafn öfluga burði til að framleiða slíkar vörur eins og Ísland. Hér er að verða til hreint CO2 með litlu sem engu kolefnisfótspori (þökk sé hreinni raforku Íslands) og þessar auðlindir er hægt að nýta til að byggja upp nýjan iðnað (vertical farming) í stórum stíl og efla útflutningsverðmæti í stórum stíl.

Aðrar leiðir í loftslagsmálum eru auðvitað fjölmargar. En í þessari grein var markmiðið að telja upp nýjar aðgerðir sem hægt er að horfa til en ekki að telja upp margt af því góða og mikilvæga sem er verið að vinna að nú þegar, eins og gróðursetning trjáa o.fl. Markmiðið hér var að benda á nýjar leiðir sem hraða á lausn vandans og geta jafnframt verið mikilvæg tækifæri sem hægt er að nýta á Íslandi.

Tækifærin eru innan seilingar, við þurfum bara að leggjast á eitt að koma þeim kyrfilega fyrir í hendi. Þannig verður „húsið“ okkar hreint til frambúðar og efnahagslegur ábati nægjanlega mikill til að allir haldi glaðir, kátir og óttalausir inn í framtíðina.

 

„Heimur allur hlær“

Í janúar 2021 kom út lagið „Heimur allur hlær“ í flutningi Stefáns Hilmarssonar.

Lag: Hallgrímur Óskarsson
Texti: Stefán Hilmarsson

Hér má hlusta á lagið:

Einnig er lagið á Spotify:

 

 

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin og skíturinn er of mikið magn CO2 í andrúmslofti. Óhreinindin koma frá íbúum hússins sem hafa gengið mjög illa um síðustu mánuði, skíta mikið út og neita að hætta.

Svo er skiladagur og húsið á að vera hreint. Þá byrjar hver á benda á annan. Ef við náum ekki að skila húsinu hreinu munum við þurfa að greiða háar sektir. Einhverjir vilja byrja að þrífa núna og segja að tíminn sé naumur (vísindamenn, aktivistar o.fl.) en sumir vilja einfaldlega bíða og sjá til og segja „þetta reddast“; enn aðrir segja „loftum bara vel út“ eða í mesta lagi „notum bara handryksuguna“.

Við höfum bara tvær leiðir til klára að þrífa húsið fyrir skiladag: Minnka óþrifnað íbúa, láta þá skíta minna og minna út (sambærilegt við að draga úr losun CO2). Auðvitað er það jákvætt, því þá hleðst upp minni skítur fyrir skiladag og verkefnið verður auðveldara. En samt þarf líka að þrífa skítinn sem kominn er (magn CO2 í andrúmslofti er alltof hátt). Og skíturinn fer ekki sjálfur, ekki er nóg að opna glugga og lofta út (magn CO2 í andrúmslofti þynnist ekki út nema á mjög löngum tíma, 200-300 árum).

Við munum því ekki komast hjá því að þrífa skítinn sem kominn er (hreinsa CO2 úr andrúmslofti). Og þá dugar engin handryksuga. Við þurfum öflug tæki af því að tíminn er að renna út.

Allt það góða fólk sem vill vinna gegn loftslagsbreytingum er með sama markmið: Að þrífa húsið fyrir skiladag (að koma aftur á réttu magni af CO2 í andrúmsloftið, frá 420 ppm niður í ≈350 ppm). En þrátt fyrir að þetta sé sama markmið allra þá er merkilegt að sjá hvað deilt er mikið um aðferðir. Einn vill nota ryksugur, annar sópa, sá þriðji klúta og fjórði teppahreinsivél. Af hverju segja ekki allir: Geggjað, notum öll tólin og tækin sem eru fyrir hendi; notum allar vinnufúsar hendur og vinnum þetta saman, Af því að það er tæpt að þetta náist.

Verkefnið sem við höfum öll er nefnilega stærra en flesta grunar. Skíturinn er orðinn svo mikill (útblástur er 40 milljarðar tonna af CO2 á ári) að við höfum bara eina lausn: Að nota allar leiðir, að gera allt sem hægt er. Að draga úr skít (draga úr losun) og að þrífa skít (hreinsa CO2 úr andrúmslofti).

En bíddu, er ekki til ókeypis leið til að þrífa? Binda ekki tré helling af CO2 úr andrúmslofti? Er ekki nóg að planta trjám og þá hreinsast húsið okkar sjálfkrafa? Jú, tré binda koltvísýring úr andrúmslofti. Notum sem mest af trjám og gróðursetjum tré allsstaðar þar sem hægt er. En það er ekki nóg. Eins og sjá mér hér og hér þá er skíturinn orðinn svo mikill að við myndum þurfa að fylla hálfu og heilu heimsálfurnar af trjám til að ná að vinna nógu mikið af CO2 úr andrúmslofti í tæka tíð til að stöðva gjörbyltingu í veðurfari og lífsskilyrðum. Að gróðursetja tré á landssvæðum sem jafnast á við stærstu lönd veraldar er því ekki raunhæft sem lausn ein og sér. Gróðursetning trjáa er mjög jákvæð og nauðsynlegt tæki í bland við aðrar lausnir. Og vonandi rennur upp sá dagur að tré duga ein og sér, þegar jafnvægi er komið á náttúru jarðar og gjörða mankyns.

Bill Gates hefur sömu sýn í nýju bókinni sinni, „How to Avoid a Climate Disaster“ þegar hann segir: „Although trees absorb some carbon, they can never take in enough to offset the damage from our modern lifestyle. To absorb the lifetime emissions that will be produced by every American alive today — just 4 per cent of the global population — you’d need to plant and permanently maintain trees on more than 16bn acres, roughly half the landmass of the world.“

Niðurstaðan er því: Við verðum að gera tvennt, að takmarka losun á CO2 eins mikið og hægt er og að fjarlægja CO2 úr andrúmslofti. Og ef það er eitt sem við þurfum ekki að deila um þá er það að mankyn þarf vatn og loft til að lifa. Mankyn byrjaði fyrir 150 árum að þrífa vatn til drykkjar (með síun og hreinsun). Hver sagði þá að það væri óþarfi að hreinsa vatn, að við ættum bara að bíða eftir að náttúran hreinsaði það á einhvern óútskýrðan hátt? Varla nokkur. Nú er þess vegna komið að því að hreinsa skítinn sem við höfum sett út í loftið sem við og börnin okkar öndum að okkur.

 

Kostnaður við COVID og kostnaður við loftslagsmál

Við sjáum í þessari frétt frá BBC að þjóðir heims eru að setja mikla fjármuni í baráttuna við COVID-19 faraldurinn. Margar þjóðir setja um 15% af GDP (vergri landsframleiðslu); aðrar meira eða minna. Þetta er auðvitað mjög jákvætt en er áhugavert að skoða í samhengi við hversu miklu sömu þjóðir eru að setja í loftslagsmál.

Samtals GDP fyrir öll lönd heims er um 87 þús milljarðar USD (87,000 billions of USD) eða bara 87 trilljónir USD (þar sem trillion er 10 í 12. veldi). Ef 10% af því er sett í aðgerðir vegna COVID-19 þá er veröldin líklega að setja um 8-10 trilljónir USD eða á bilinu 1-2 milljónir milljarða ISK – bara það sem er af þessu ári. Allt þetta er mjög jákvætt og varpar ljósi á hvað hægt er að gera ef aðsteðjandi hætta er mikil.

Í loftslagsmál er hins vegar sett aðeins brota-brot af þessari upphæð, vel innan við 1% af upphæðinni sem sett er í að tækla COVID-19. Samt er loftslagsvandinn engu minni en COVID-vandinn, hefur bara meiri langtímaáhrif. Þeir sem deyja af COVID deyja fljótlega en þeir sem láta lífið eða upplifa hörmungar vegna lofslagsmála gera það yfir mun lengra tímabil. Við sjáum t.d. hér í ritrýndri grein Lancet að árleg tilvik þar sem loftslagsvandinn veldur dauða eru yfir hálf milljón manna á ári (talað er um 529.000 manns). Þetta er ekki svo mjög fjarri þeim sem látist hafa af COVID til þessa á þessu ári, þó að talan sé orðin allnokkuð hærri nú, uppsöfnuð yfir árið (er farin að nálgast 1 milljón þegar þetta er ritað).

Við sáum í fyrstu stóru COVID-bylgjunni sem var vorið 2020 að útblástur féll um 8-17% prósent yfir þröngt tímabil (fer eftir hvernig er talið) en náði aftur fyrri hæðum þannig að langtímaáhrif vegna COVID á útblástur gróðurhúsalofttegunda er fremur lítil (skv. þessari Harvard-rannsókn). Við sjáum líka að COVID-19 og loftslagsvandinn geta ýtt undir hvert annað og ýkt tölur beggja. Ástæðan er sú að lélegri loftgæði gera fólk viðkvæmara fyrir veirufaröldrum eins og COVID-19 og því getur verri staða í loftslagsmálum gert mankyn verr í stakk búið til að takast á við nýja veiru. Við sáum þetta vorið 2020 þegar mjög margt fólk á iðnaðarsvæðum á Norður-Ítalíu, þar sem loftmengun er slök, hvað margir dóu í norðri en fáir í suðri. Meginástæðan er sú hvað loftmengun er mikið meiri í norðri.

Enn sem komið er treysta loftslagsáætlanir á samdátt í losun. En ef við reiknum dæmið til enda þá náum við aldrei að bjarga loftlaginu með samdrætti í losun, það verður meira að koma til (fjallað um þetta ítarlega hér). Skoðum stóru myndina:

Nú er styrkur CO2 í andrúmslofti 415 ppm (parts per million) en þarf að vera 250-300 ppm ef við ætlum að búa við hreinasta og besta loftslag sem hentar jörðinni og lífríki hennar.

Mankyn bætir 40 milljörðum tonna í andrúmsloftið á ári hverju. Magnið er orðið allt of mikið og verður það áfram því CO2 þynnist mjög hægt út; núverandi magn verður í 200 ár, óbreytt að mestu. Í heild eru það því um 500-800 milljarðar tonna af CO2 sem þarf að taka úr andrúmsloftinu. Samdráttur í losun er því ekki nægur, enda þó að allt slíkt sé jákvætt þá er það einfaldlega ekki nóg. Þess vegna þurfum við öll ráð sem hægt er að nota til að TAKA CO2 ÚR ANDRÚMSLOFTI og er verkefnið að taka nógu mikið af CO2 fyrir árið 2050 til að hægt sé að stefna á að magn CO2 verði ekki hærra en 350 ppm um miðja þessa öld.

Bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum er búið að gera áætlanir um mörg lofthreinsiver sem eiga að taka á þessu vandamáli: að hreinsa CO2 úr andrúmslofti og flýta fyrir því að ppm-magn CO2 lækki í andrúmslofti. Hægt er að hugsa sér nokkur lofthreinsiver í flestum löndum sem ná að hreinsa nógu mikið af CO2 úr andrúmslofti til að hægt sé að ná þeim markmiðum sem þarf að ná. Minni losun og hreinsun CO2 úr andrúmslofti er það sem þarf að nota, bæði samhliða, til að ná markmiðum. Aðeins samdráttur í losun nær því ekki, um það vitna tölurnar.

Tré eru auðvitað mjög mikilvæg í loftslagsbaráttunni en það er eins með tré eins og samdrátt í losun; ef við ætlum aðeins og treysta á bindingu CO2 með trjám þá þyrfti 1 milljón tré í 50 ár til að binda 1 milljón tonna af CO2 úr andrúmslofti.

Til að komast nær lausn í loftslagsmálum þarf því nýja hugsun, ekki ósvipaða og má sjá hvernig við, sem þjóðir, ætlum með samtakamætti að leysa COVID vandamálið. Við þurfum lausnir þar sem horft er til framtíðar, ekki til þess að vona það besta með að losun verði aðeins minni á næsta ári en hún var í ár. Við þurfum mikla fjárfestingu í allskonar gerðum af lausnum í loftslagsmálum og þar væri hægt að skapa mannfrekan „iðnað“ sem þarf mikla orku en mengar ekkert heldur tekur beinlínis mengun úr andrúmslofti. Þetta er sá nýji iðnaður sem við Íslendingar ættum að stefna á í framtíðinni.

Í þessu sambandi er gott að horfa á alþjóðlega mælikvarða eins og EPI (Environmental Performance Index) en þar er Danmörk á toppnum og öll Norðurlöndin mjög ofarlega. Ísland er hins vegar í 17. sæti og gæti gert betur. Hér má sjá ítarlega stöðu Íslands og þá flokka þar sem Ísland stendur sig vel og ekki eins vel.

 

 

 

 

 

 

 

 

Eru til raunhæfar leiðir til að leysa loftslagsvandann?

Mankyn og lífríki hér á jörðu þarf hreint vatn og hreint loft til að geta þrifist frá kynslóð til kynslóðar. Fyrir 150 árum var byrjað að hreinsa vatn til drykkjar (í kjölfar kólerufaraldursins í London um miðja 19. öldina; upphafsmaður var John Snow) og nú, vegna hlýnunar jarðar, er það orðið óumflýjanlegt að við þurfum að hreinsa mikið magn af CO2 úr andrúmslofti.

Af hverju er CO2 vandamál í andrúmslofti?

Sólargeislar berast til jarðar og gefa okkur hita. En þeir þurfa að mestu að speglast aftur út í himingeiminn aftur til að jörðin hitni ekki um of. Ef allir sólargeislar speglast frá jörðinni og út í geim verður jörðin of köld til að búa á. Þess vegna er gott að hafa gróðurhúsalofttegundir í lofthjúp jarðar, því það eru agnir sem spegla sólargeislum aftur til jarðarinnar og tryggja þannig rétt hitastig fyrir náttúru og lífríki. Ef of mikið er af gróðurhúsalofttegundum þá speglast of mikið af sólargeislum til baka og jörðin verður of heit.

En ef það væru engar gróðurhúsalofttegundir – ef það væri bara súrefni (O2) og nitur (N2) í andrúmsloftinu – þá myndi öll hitageislun sleppa út í geim og jörðin yrði mjög köld. Þess vegna þarf rétt magn af gróðurhúsalofttegundum (ekki of mikið og ekki of lítið) til að rétt magn af hitageislu sleppi aftur út í geiminn.

Vandamálið við hlýnun jarðar er því einfaldlega það að við mannfólk erum búin að bæta við það miklu af gróðurhúsalofttegundum (aðallega CO2 og metan) að of mikið af sólargeislum sem eru á leið frá jörðinni speglast til baka og hækka hitastig jarðar með skelfilegum afleiðingum. Þetta er það sem er nefnt neyðarástand í loftslagsmálum.

Þetta má sjá á eftirfarand mynd: „Venjulegu lofttegundirnar“ – O2 og N2 – láta alla hitageislun sleppa – þess vegna þarf aðeins af gróðurhúsalofttegundum til að tryggja að smávegis af hitageisluninni verði eftir á jörðinni. Vatnsgufa (H2O), metan (CH4) og koltvísýringur (CO2) eru helstu lofttegundirnar sem senda geislun til baka til jarðar og tryggja að hitastig jarðar haldist í jafnvægi. CO2 er skaðlegust ef hún er í of miklu magni vegna þess að það tekur CO2 um 200 ár að eyðast á náttúrulegan máta (metan eyðist á 10-15 árum og er því alls ekki eins skaðlegt hlýnun jarðar). Við erum þegar komin með um tvöfallt of mikið magn af CO2 og þess vegna verður óbreytt staða áfram óbreytt í 200 ár nema ef við byrjum að taka CO2 úr andrúmslofti.

Þetta má sjá á eftirfarandi skýringamynd:

Á þessari mynd sést að gróðurhúsalofttegundirnar (rauðar) hafa þau áhrif að hita-geislun er send aftur til jarðar. Jörðin yrði of köld ef engar væru gróðurhúsaloft-tegundirnar en of heit ef gróðurhúsalofttegundir eru í of miklu magni, eins og nú er.

    –
Hér er einnig gott myndband sem lýsir þessu vel:

Hversu miklu af umfram CO2 er búið að setja í andrúmsloft?

Mjög hraður vöxtur hefur verið magni CO2 sem mankyn setur sem mengun út í andrúmsloftið. Um miðja síðustu öld voru það um 5 milljarðar tonna af CO2 sem mankyn setti sem mengun út í andrúmsloft; nú eru það um 40 milljarðar tonna sem við setjum sem mengun út í andrúmsloft. Hægt er að færa rök fyrir því að umframmagn sé því á bilinu 500-800 milljarðar tonna af CO2 sem þarf að taka úr andrúmsloftinu til að bjarga því að ekki eigi sér stað mikil röskun á náttúrufari og veðurfari.

Hægt er að taka CO2 til baka úr andrúmslofti með lofthreinsun og er þegar byrjað að fanga CO2 úr andrúmslofti á nokkrum stöðum í heiminum (sjá t.d. hér og hér). Sumar lausnir binda þúsundir tonna; aðrar lausnir binda milljónir tonna. Við þurfum því lausnir sem ráða við að taka milljónir tonna af CO2 úr andrúmslofti, einfaldlega vegna þess að magnið er orðið það mikið og verður óbreytt í 200 ár, nema ef við grípum til rótttækra aðgerða:

Á þessu myndriti (frá The Economist) sést að losun CO2 hefur haldið áfram að aukast, ár frá ári í áratugi. Og það sem er uggvænlegast er að áföll í heiminum hafa ekki slegið á þessa þróun. Fjármálakreppur, olíukreppur, stórar þjóðfélagsbreytingar og sjúkdómar hafa ekki leitt það af sér að losun CO2 hafi minnkað – ekki nema mjög lítið og afar tímabundið. Margt bendir til þess að það sama verði uppi á teningnum, eftir að COVID-kreppunni lýkur.

Mankyn losar nú um 40 milljarða tonna af CO2 út í andrúmsloft á ári (heimild). Síðan um miðja 18. öld hefur mankyn samtals losað 1500 milljarða tonna (heimild) og þarf að taka til baka 30-50% af því magni til að ná hitastigi jarðar í rétt jafnvægi.

Verkefni mankyns er því að taka úr andrúmslofti 500-800 milljarða tonna af CO2, smátt og smátt, á næstu áratugum, til að stemma stigu við hlýnun jarðar. Við sjáum það í hendi okkar að smáar aðgerðir, að draga úr losun um nokkur þúsund tonn, eða tugþúsundir tonna eru að sjálfsögðu afar jákvæðar en eru engu að síður rétt svo aðeins dropi í hafi gagnvart því ógnarstóra verkefni sem mankyn á við að etja.

Af hverju þarf að hreinsa CO2 í andrúmslofti?

Það eru í grunninn tvær leiðir til að minnka magn CO2 í andrúmslofti: Draga úr losun í andrúmsloftið eða að hreinsa í burt það CO2 sem nú þegar er búið að safnast saman í andrúmsloftinu. Kjarni vandamálsins er að það er ekki lengur nóg að draga bara úr losun af því að magn CO2 er einfaldlega orðið of mikið. Hér er búið að taka gögn frá IPCC (The Intergovernmental Panel on Climate Change, sem nefnd er Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál) og teikna upp þrjár sviðsmyndir um hvernig hitastig á jörðinni getur þróast út frá því hvað mankyn mun gera gagnvart CO2:

Ef við gerum lítið sem ekki neitt og hlustum ekki á viðvaranir þá eykst magn CO2 í andrúmsloft mjög mikið og hitageislun jarðar speglast aftur niður á jörðina og of mikið af henni kemst ekki út. Afleiðingin er efsti flöturinn á myndritinu hér að ofan (dökk-fjólublái). Óbreytt losun mun leiða til gjörbreytingar í veðurfari og búsetuskilyrðum.

Ef við horfum aðeins á það að draga mikið úr losun (miðju-flöturinn á myndritinu) þá er það í sjálfu sér jákvætt en af því að magn CO2 er orðið það mikið þá mun það áfram vera í andrúmslofti í a.m.k. 200 ár og leið því til of lítilla breytinga sem eru jákvæðar næstu 200 ár. Hitastigshækkun gæti hægt á sér verulega en líklega aðeins þegar hitastig er þegar orðið of hátt.

Ef mankyn ætlar að gæta þess að hitastig á jörðinni hækki ekki meira en 1,5°C þá þurfum við að vera búin að ná kolefnishlutleysi 2050. Það er afar ólíklegt að slíkt náist með áframhaldandi losun sem er að miklu leyti óbreytt og frekar vaxandi, ef eitthvað er. Miðað við óbreytta losun þá erum við að stefna í a.m.k. 3-5°C hækkun á hitastigi jarðar, hið minnsta. Slíkt mun leiða af sér mjög neikvæðar breytingar á veðurfari og búsetuskilyrðum.

Eina aðgerðin sem getur fært okkur snögga lækkun á magni CO2 úr andrúmslofti er að hreinsa CO2 úr sjálfu andrúmsloftinu til að tryggja kolefnishlutleysi og að hitastig hækki ekki meira en vistkefi jarðar þolir með góðu móti.

Það er einfaldlega ekki hægt að draga úr losun nógu mikið til að tryggja viðunandi ástand vistkerfis jarðar. Við sem mankyn erum einfaldlega komin á þann stað að það er ekki hægt að draga bara úr losun með nógu afgerandi hætti til að hægt sé að tryggja að hitastig jarðar hækki ekki um of. Við erum komin fram úr þeim punkti að það sé hægt.

Ekki nóg að draga bara úr losun CO2

Að draga úr losun er mjög mikilvægt til að minnka magn CO2 i andrúmslofti. En ef við ætlum bara að draga úr losun þá er verkefnið svo erfitt og viðamikið af því að:

 1. MIKIÐ MAGN: Við þurfum að losa 500-800 milljarða af CO2 úr andrúmslofti.
 2. GEYMIST LENGI: Það CO2 sem er nú þegar í andrúmslofti geymist þar í allt að 200 ár.

Þannig að ef við ætlum bara að draga úr losun þá tekur við tímabil sem getur varað í allt að 200 ár þar sem hitastig jarðar er of hátt.

Að auki er stóra vandamálið að draga úr losun. Hvernig ætlum við að gera það? Það er ekki nóg (því miður) ef allir aka um á rafmagnsbíl því ef við skoðum heiminn sem heild þá eru nokkrir stórir þættir í losun gróðurhúsalofttegunda sem eru nátengdir því lífi sem við lifum á jörðinni í dag. Við sáum í COVID-19 faraldrinum að losun drógst aðeins saman um 5-8% og er það vegna þess að svo stór hluti losunar kemur frá því að kynda hús (hitun) og lýsa upp hús (rafmagn). Það er því ekki nóg að segja að við eigum að draga úr losun, við þurfum í leiðinni að finna nýjar leiðir til að ástunda lifnaðarhætti sem fáir vilja láta taka frá sér (vera hlýtt og hafa ljós í myrkri).

Við horfum inn í framtíðina og sjáum glitta í möguleika að hita hús og framleiða rafmagn með grænni aðferðum en verið hefur til þessa. En slíkt mun taka 30-50 ár að byggja upp með innviðum á þéttbýlustu stöðum heimsins, hugsanlega lengri tíma. Við sjáum að skv. nýjustu rannsóknum þá erum við stödd á þeim stað að losun sem við náum að hindra nú (minnkun í losun CO2 núna) kemur ekki fram sem ábati við hamfarahlýnun fyrr en upp úr miðri öld. Sjá grein um þetta á loftslagsvef tímaritsins The Economist (sjá hér):

Sjá nánar hér þessa grein af loftslagsvef tímaritsins The Economist. Hún skýrir tímalínuna í loftslagsmálum út frá aðgerðum nú og áhrifum þeirra. Meginniðurstaða er að sá árangur sem við munum vonandi ná í að draga úr losun muni ekki koma fram að fullu fyrr en 2050. Þetta eru „geymist lengi“-áhrifin; CO2 geymist lengi í andrúmslofti (í veðrahvolfinu) og er því erfitt að kalla fram sýnileg áhrif í loftslagsmálum með minni losun, ekki nema yfir mjög langt tímabil. CO2 þynnist ekki út nema á mjög löngum tíma, um 200 árum, að því að talið er. Það getur því flýtt fyrir árangri í loftslagsmálum ef við förum beint í að taka CO2 úr andrúmslofti, í stað þess að einblína að mestu á aðra þætti, eins og samdrátt losunar.

Á meðan ekki eru til nýjar mengunarminni aðferðir við að kynda og lýsa upp hús verður erfitt að draga mjög mikið úr losun. Draumurinn um mengunarlausar leiðir til að kynda og lýsa upp híbýli gæti legið í því að finna aðferð sem er ekki orkufrek til að búa til vetni (nú er rafgreining of orkufrek aðferð) en með nýjum aðferðum í framleiðslu á vetni gætu legið leiðir (sjá hér) til að minnka losun mjög mikið. En á meðan sá draumur er ekki í hendi þurfum við að leita allra leiða til að draga úr losun en sjáum í hendi okkar að það er ekki nóg, eitt og sér, því miður. Við þurfum að halda áfram að leita allra annarra leiða, að hreinsa CO2 úr andrúmslofti, gróðursetja meira, taka upp umhverfisvænni lífshætti og endurnýta meira af neysluvörum. Líkleg lausn er að af því magni sem við þurfum að taka CO2 út úr andrúmslofti verði 50% vegna þess að okkur tekst að draga úr losun og önnur 50% vegna þess að okkur tekst að binda CO2 úr andrúmslofti. Þannig er von um að okkur farnist vel með þetta gríðarstóra verkefni, að leysa loftslagshlýnun jarðar.

 

Hvaða séreignarsjóðir eru góðir valkostir?

Þegar kemur að því að velja hvar eigi að geyma og ávaxta við­bót­ar­líf­eyri þá geta Íslend­ingar valið úr mörgum sér­eigna­sjóð­um. Margir tugir sjóða eru í boði á okkar litla mark­aðs­svæði og er því mik­il­vægt að móta sér skoðun á því hvaða sjóðir koma til greina sem ágætir val­kostir í við­bót­ar­sparn­aði fyrir almenn­ing.

Engin ein regla er til sem metur hvaða sjóðir eru betri en aðr­ir. Bæði er það að for­sendur fólks eru mis­mun­andi og grunn­gerðir sjóða einnig; svo kemur líka til að það er erfitt að velja hvaða þættir eiga að ráða mestu. Er það ávöxtun eða stöð­ug­leiki eða aðrir þætt­ir? Er væn­legt að velja sjóð með háa ávöxtun en aðeins stuttan starfs­tíma? Eða er betra að velja sjóð sem kom vel út úr hrun­inu, tók litla áhættu? Allt eru þetta spurn­ingar sem hver og einn getur haft mis­mun­andi svör við.

Einnig má geta þess að við höfum mjög mis­mun­andi ávöxtun í sér­eign­ar­sjóðum líkt á einnig við um sam­eign­ar­sjóði (skyldu­líf­eyr­is­sjóð­i). Ef við skoðum alla sjóði á Íslandi þá er mun­ur­inn næstum sexfaldur á hæstu og lægstu með­al­raun­á­vöxtun í sér­eign, ekki ósvipað og er raunin með sam­eign­ar­sjóði. Annað sem gerir það erfitt að bera saman sér­eign­ar­sjóði á Íslandi er að þeir hafa starfað í mjög mis­mun­andi langan tíma. Sumir í 2 ár, aðrir í 10 ár og allt upp í 20 ár eða meira og gerir það allan sam­an­burð erf­ið­ar­i.

Hér á landi hefur verið all­nokkuð hringl með sér­eigna­sjóði, sjóðir að sam­ein­ast og fengið ný heiti og svo sumir að hætta og svo nýjir að byrja sem gerir það að verkum að erf­ið­ara verður að rekja sögu sjóða, einkum þegar saga for­vera sjóða er ekki birt með þeim gögnum sem birt eru í nafni sjóðs með nýju nafni. Þetta lýsir öðrum þræði umhverfi sem er ekki orðið nógu stöðugt í eðli sínu, líkt og margir þættir íslensks við­skipta­lífs hafa verið á síð­ustu ára­tug­um.

Erlendis er algeng­ara að sjá sjóði sem höndla með frjálsan sparnað sem starfað hafa í marga ára­tugi eða jafn­vel meira en 100 ár í óbreyttri mynd. Reynslan sýnir nefni­lega að stöð­ug­leiki í ávöxtun gefur oft vís­bend­ingu um lang­tíma­ár­angur líf­eyr­is­sjóða. Það er því fagn­að­ar­efni að sumir íslenskir sjóðir eru farnir að birta upp­lýs­ingar um stöð­ug­leika í ávöxtun á vef­síðum sín­um.

Ofan­greind mynd sýnir þann mun sem er í ávöxtun íslenskra sér­eigna­sjóða og þýskra sér­eign­ar­sjóða (ávöxtun í evr­um). Við sjáum að ávöxtun er miklu stöðugri á meg­in­land­inu en íslensku sjóð­irnir sýna miklu meiri sveifl­ur. Eft­ir­tekt­ar­vert er að sjá árið 2008 þar sem sér­eign á Íslandi hrundi um -13,4% (þó ekki eins mikið og sam­eign, sem hrundi um -22,9%) en margir sér­eigna­sjóða í Þýska­landi högg­uð­ust ekki. Ef tíma­bilið fyrir hrun er skoð­að, sem var mikið upp­gangs­tíma­bil á Íslandi þá var ávöxtun í evrum og í ISK næstum því sú sama. Tvö ár, 2002 og 2007 drógu mikið úr árangri góðu áranna en í evrum voru öll árin nær því að vera svip­uð. Eftir hrun, sem væri bæði aðhalds­tími og upp­gangs­tími, var áfram mik­ill stöð­ug­leiki í ávöxtun á sér­eign­ar­sjóðum í evrum (í Þýska­land­i). Á Íslandi var ávöxtun sér­eigna­sjóða sveiflu­kennd­ari en samt virð­ist stöð­ug­leiki íslenskra sér­eigna­sjóða hugsanlega vera að aukast, þó ekki sé hægt að segja til um það með vissu.

En ef við skoðum nokkra mik­il­væga þætti eins og ávöxtun sjóða, stöð­ug­leika, líf­tíma og gengi á erf­iðum tímum þá höfum við fjórar breytur sem allar segja nokkuð um það hvort við­kom­andi við­bót­ar­líf­eyr­is­sjóður er álit­legur val­kostur eða ekki. Heild­ar­gagna­safn fyrir alla sjóði er á vef­síð­unni www.Pension­Pro.is og ef ofan­greindar breytur eru skoð­aðar þá kemur í ljós að það eru nokkrir sér­eigna­sjóðir á Íslandi sem hafa staðið sig vel og hafa reynst vera góðir val­kostir þegar kemur að því að velja við­bót­ar­líf­eyr­is­sparn­að. Skoðum nokkur dæmi um slíka sjóði, þótt hér sé ekki til­gang­ur­inn að gefa út var­an­legan lista yfir bestu sjóð­ina.

Hér er mik­il­vægt að lýsa ögn mun­inum á grunn­gerðum sumra sjóða: Alli­anz er trygg­inga­samn­ingur sem tryggir við­skipta­vini ákveðna ávöxt­un. Við­skipta­vin­ur­inn veit hvað hann fær að lág­marki að lok­um. Þannig er sér­eign­ar­sparn­aður oft á meg­in­landi Evr­ópu, trygg­inga­samn­ingar þar sem almenn­ingur veit hvað hann fær að lokum og lág­mar­k­á­vöxtun er tryggð. Íslenskir sjóðir eru hins vegar flestir mark­aðs­sjóð­ir, sem ávaxta fé sjóðs­fé­laga með eigna­stýr­ingu á mörk­uð­um, í sjóðum og með ýmsum öðrum hætti. Ekk­ert er tryggt hvað ávöxtun varð­ar, þó hún sé oft­ast ágæt a.m.k. þegar vel árar. Íslenskir sér­eigna­sjóðir sveifl­ast þannig oft meira (upp og nið­ur) heldur en trygg­inga­samn­ingar og ekki er ein­hlítt hvort reyn­ist bet­ur.

Svo þarf að huga að því, þegar líf­eyrir er geymdur í evr­um, eins og hjá Alli­anz, Bayern o.fl., að líf­eyrir er greiddur með íslenskum krón­um, sú upp­hæð flutt yfir í evrur og eign­ar­safnið geymt og ávaxtað í evr­um. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hversu vel þetta fyr­ir­komu­lag hent­ar. Því þegar kemur að því að fá líf­eyri í evrum greiddan skv. trygg­inga­samn­ingn­um, þá er aftur skipt frá evrum og yfir í íslenskar krón­ur. Það skiptir því máli hvernig verð­bólga þró­ast ann­ars vegar og gengi íslenskar krónu og evru hins vegar og getur það haft mikil áhrif á þá upp­hæð sem hver og einn fær á end­an­um. Það er ágætt að gera sér grein fyrir hver áhrif þess­ara tveggja þátta eru á líf­eyr­is­sparnað sem geymdur er í evr­um.

Ef íslensk króna veik­ist þá hækkar ávöxtun í evrum og svo öfugt. Ef ávöxtun í evrum er 5% og geng­is­breyt­ingar valda því að gengu EUR styrk­ist um 10% þá geng­is­leið­rétt­ist ávöxt­unin upp í 15,5%. Ef gengi ISK styrk­ist um 10% þá verður geng­is­leið­rétt ávöxtun -5,5%. Hins vegar ef verð­bólga eykst þá lækkar ávöxt­unin í evrum og svo öfugt. Ef ávöxtun væri 5% í evrum og verð­bólga væri 2% þá myndi ávöxt­unin vegna verð­bólg­unar lækka úr 5% í 2,9%. Þetta getur spilað saman og haft áhrif í báðar áttir þannig að ávöxtun í evrum styrk­ist eða veik­ist vegna geng­is- og verð­bólgu­breyt­inga. Ef við skoðum stöð­una frá alda­mótum þá hafa geng­is- og ver­bólgu­breyt­ingar hækkað ávöxtun í evrum (aukið líf­eyr­is­eign í evr­um) í 11 skipti en í 8 ár hefur breyt­ingin verið nei­kvæð. Inn í þessu er hið sér­staka ár, 2008, þar sem verð­bólga var 16,4% (hafði lækk­andi áhrif á ávöxtun í evr­um) en á móti kom geng­is­breyting sem var þannig að evran styrkt­ist um 86,4% þannig að sam­an­lagt höfðu geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar þau áhrif að ávöxtun í evr­um, sem var 5,6% þetta ár, varð á end­anum 69,1% séð út frá þeim sem lifðu við íslenska krónu. Þetta ár styrkt­ist því líf­eyr­is­eign í evr­um, líkt og aðrar eignir erlendis og hafði geng­is­breyt­ingin meiri áhrif en verð­bólgu­á­hrif­in. Önnur ár voru, eins og nærri má geta, miklu áhrifa­minni hvað varðar þessar breyt­ingar á gengi og verð­bólgu.

Lyk­il­at­rið­ið, fyrir þá sem vilja ávaxta í evrum er að ef þeir ætla að eyða líf­eyr­inum í evru­lönd­um, t.d. greiða kostnað við ferða­lög efri áranna með þeim líf­eyri þá þarf mjög lítið að hugsa um áhrif og geng­is. Þeir sem ætla sér slíkt eru að leika sterkan leik með því að tryggja sér eign sem er utan við íslenskar sveifl­ur, líf­eyr­is­eign sem býr við stöð­ug­leika og litlar sveiflur í ávöxt­un. Hins vegar gildir fyrir þá sem ætla að nota líf­eyri úr evrum hér heima að þá hafa geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar áhrif og geta þau áhrif verið í báðar átt­ir. Verð­bólga er oft há hér á landi og stundum hærri en geng­is­breyt­ing­ar. Ef fer fram sem horfir að verð­bólga fari almennt lækk­andi þá mun það styrkja eign líf­eyr­is­þega í evr­um. Í nýlegri frétt Seðla­bank­ans um gjald­eyr­is­mark­að, geng­is­þróun og gjald­eyr­is­forða er stöð­ug­leiki gengis að aukast (flökt að minn­ka) en íslenska krónan lækk­aði bæði gagn­vart evru og banda­ríkja­dal á síð­asta ári. Ýtir það undir þær hug­myndir um að líf­eyr­is­eign erlendis sé að styrkj­ast og sé að verða enn sterk­ari val­kostur á næstu árum, ef áfram fer sem horf­ir.

Að geyma sér­eigna­líf­eyri í íslenskum sjóðum tekur alveg úr sam­bandi þessa þætti sem geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingar geta haft. Á móti koma meiri sveiflur í ávöxtun íslenskra sér­eigna­sjóða og eru dæmi um að þeir sjóðir hafi hækkað eða lækkað um tugi pró­senta á einu ári. Vera má að sumum kunni það vera áhættu­samt, að t.d. 40% af sér­eign sjóðs­fé­laga eyð­ist á einu ári. Þessa áhættu­þætti verður hver og einn að gera upp við sig. Er meiri áhætta af geng­is- og verð­bólgu­breyt­ingum eða er meiri áhætta vegna þess að margir íslenskir sér­eigna­sjóðir hafa ávöxtun sem sveifl­ast tölu­vert og taka oft stór stökk í ávöxt­un, upp og nið­ur? Svarið við þessu er ekki ein­hlítt.

Einnig má geta þess að þeir sem hafa hug á því að nýta sér inn­greiðslu á sér­eigna­sparnað til að greiða inn á hús­næð­is­lán að þá henta sjóðir eins og Alli­anz síður heldur en íslensku sjóð­irn­ir. Slíkt skiptir margt fólk tölu­verðu máli, einkum ungt fólk sem sér fram á að stækka við fast­eign sína á næstu miss­erum eða ein­fald­lega þeir sem vilja nota þetta úrræði til að greina niður eigin fast­eigna­lán.

— ― — ― —

Um for­sendur í þess­ari grein: Það ber að hafa í huga að í þess­ari grein er ekki end­an­legur listi yfir sjóði sem hafa staðið sig vel. Ýmisr aðrir sjóðir hafa líka staðið sig ágæt­lega en m.v. þá þætti sem lagðir voru til grund­vallar þá reynd­ust ofan­greindir sjóðir koma einna best út, einkum af því það var reynt að skoða sjóði innan sama tíma­bils. Þetta tíma­bil, 2003-2018, er einna algeng­asta starfs­tíma­bil flestra sjóða í sér­eign á Íslandi, þó að margir eigi líka starfs­sögu utan þess tíma­bils. Þannig var langt var til grund­vallar að velja sjóði sem höfðu sögu fyrir hrun, í hruni og eftir hrun þannig að hægt sé að meta sjóði í mis­mun­andi aðstæð­um. Það er nefni­lega nokkuð inni­halds­rýrt, eins og sumir sjóðir hafa gert, að aug­lýsa góða ávöxtun sjóða sem hafa aðeins starfað í örfá ár, og það jafn­vel á góð­ær­is­tímum þegar flestum sjóðum gengur vel. Einnig ber að hafa í huga að röð sjóða í töfl­unni hefur enga sér­staka merk­ingu. Einnig ber að nefna að ávöxtun í for­tíð er ekki endi­lega vís­bend­ing á ávöxtun í fram­tíð og að auki er rétt að hafa þann almenna fyr­ir­vara að ávöxtun er í eðli sínu slembin og getur að ein­hverju leyti farið eftir til­vilj­unum og heppni eða óheppni. Þegar raun­á­vöxtun allra sjóða er reiknuð þá var stuðst við almennt með­al­tal en ekki vegið þar sem ekki feng­ust ábyggi­legar vog­tölur fyrir alla sjóði. Mik­il­vægt er einnig að veita því athygli að hér er verið að tala um þær leiðir innan sjóða sem eru nefndar í töfl­unni, ekki allar leiðir sjóða. Sumir af þessum sjóð­um, sem nefndir eru í töfl­unni bjóða upp á leiðir sem hafa ekki sama öfl­uga árangur að baki og þær leiðir innan sjóð­anna sem hér eru nefnd­ar. Almennur fyr­ir­vari er gerður um villur sem kunna að slæð­ast með.

 

 

 

 

 

Traust eflist ekki með yfirlýsingum um að ætla sér að gera betur

Eitt sinn var sú tíð að nóg að gera svona til að fá aukið traust hjá almenningi:

Það var sem sagt nóg að segjast vera traustur―tengja sig við traust―til að fá aukna ímynd um traust. Auðvitað virkaði þetta ekki á alla, en marga. Traust á fyrirtækjum og stofnunum var í sterku hlutfalli við það hversu mikið þessir aðilar tengdu sig við traust og töluðu um traust. Þetta var á þeim tímum þegar var lítil samkeppni um traust―næstum allir voru traustir og ef eitthvað kom upp þá var því sópað undir hið eilífa teppi.

Þessir tímar eru liðnir og það sem betur fer. Almenningur mótar sér eigin skoðanir um traust og notar til þess yfirleitt allt annað en yfirlýsingar sjálfra fyrirtækja og stofnana um traust. Almenningur vill dæma út frá verkum af því fólk er orðið nánast ónæmt fyrir yfirlýsingum um að ætla sér að vera traustur.

Mörg dæmi eru um það úr fortíðinni að fyrirtæki hafi gengið svo langt að auglýsa verðleika sína og tala um sig sjálft og sína eiginleika í þriðju persónu (hér er dæmi) sem myndi í dag teljast yfirgengilega taktlaust.  Samt er ekki svo langt síðan að þetta þótti gott og gilt.

Það er sem sagt ekki lengur nóg að lýsa yfir vilja til góðrar hegðunar því það eitt og sér eykur mjög lítið þá tiltrú að hegðun fari batnandi. Annað þarf til að traust megi aukast, einkum þegar traust hefur hrunið mikið á stuttum tíma.

Traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila hefur þynnst út með máli Samherja. Fólk trúir því í auknu mæli að fyrirtæki geti farið sínu fram án þess að nægjanlegt eftirlit sé fyrir hendi. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir ríkisstjórn að bregðast við stöðunni með aðgerðum sem raunverulega auka traust. Nú er búið að tilkynna um þessar aðgerðir:

 1. Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja.
 2. Auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja.
 3. Stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi.
 4. Ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót.
 5. Tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna.
 6. Varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum.
 7. Fylgjast með viðbrögðum erlendis.
 8. Óska eftir út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða.

Eru þessar aðgerðir líklegar til að auka traust á ríkisstjórn og eftirlitsaðila?

Atriði 1 og 2 eru sama atriðið, beint að tveimur mismunandi gerðum fyrirtækja. Að betra aðgengi sé að upplýsingum um þrjá þætti sem tengjast þessum fyrirtækjum: Upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Hér er ólíklegt að þessi atriði auki traust á ríkisstjórn, eftirlitsaðila og getu þeirra til að sjá fyrir og koma í veg fyrir að mál geti átt sér stað eins og Samherja-málið blasti við í fréttaþættinum Kveik. Fyrirtæki geta nefnilega sett fram allar þessar tölur og upplýsingar án þess að neitt grunsamlegt vakni, jafnvel þótt að verið sé að ástunda á bak við tjöldin greiðslur sem eiga sér ekki eðlilegar skýringar. Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá úr upplýsingum um rekstur? Lista yfir mútugreiðslur? Hvað ætlast ríkisstjórn til að fá í upplýsingum um góða stjórnarhætti? Yfirlýsingu fyrirtækja að stjórnarhættir þeirra séu nú ekki góðir af því að þau ástundi mútur? Við búum ekki í kvikmyndinni „The Invention of Lying“ þar sem allir segja 100% satt. Við búum í heimi þar sem fyrirtæki eiga það til að ganga mjög langt til að fela vafasama slóð.

Atriði 3, að stuðla að úttekt er enn ólíklegra til að auka traust. Nógu lítil áhrif hefur það að láta vinna úttekt, of oft er slíkt plagg kurteisislegt tal um ýmsa þætti þess sem skoðað er. Hvað þá með að stuðla að úttekt? Það hefur enn meira vægi. Alveg eins væri hægt að setja á aðgerðalista ríkisstjórnar að stuðla að því að stór fyrirtæki fari nú að haga sér sómasamlega. Hverju myndi það skila? Líkast til engu.

Atriði 4 er í sjálfu sér jákvætt en hefur lítið vægi af því fyrirtæki láta aðra leppa eignarhald ef eignarhald er ekki í lagi vegna tengdra aðila. Þetta hafa fyrirtæki gert um langt skeið og sást vel í Rannsóknarskýrslu Alþingis eftir hrun þar sem leppun eignarhalds var ástundað allsstaðar þar sem þurfti. Notað eins og kítti gegn leka. Þetta atriði mun því varla auka traust almennings gagnvart getu ríkisstjórnar og eftirlitsaðilum mikið, a.m.k. ekki hvað eftirfylgni gagnvart gott viðskiptasiðferði varðar.

Atriði 5 er mjög jákvætt og mun líklega hafa áhrif til þess að bæta traust. Ef rannsóknaraðilar hafa svigrúm til að starfa vel og faglega þá er mikilvæg stoð til staðar. Mjög mikilvægt.

Gagnvart atriði 6, þá skiptir öllu máli hvernig varnir eru settar upp. Gall

Atriði 7, hefur eðli málsins samkvæmt ekki nein áhrif á traust af því að stjórnvöld eiga alltaf að fylgjast með orðræðu erlendis.

Atriði 8 er þess eðlis að það gæti haft jákvæð áhrif í þá átt að ýta undir traust en það verður að koma í ljós þegar út­tekt Al­þjóða­mat­væla­stofnunar á við­skipta­háttum út­gerða verður birt hver áhrifin verða.

Aðferð handhægra hænuskrefa

Tölum út frá „game theory“ og skoðum leikinn: Stjórnvöld að reyna að passa að einkafyrirtæki valdi ekki samfélagslegum skaða. Gallinn við þennan leik er að stjórnvöld eru alltaf nokkrum leikjum á eftir. Stjórnvöld eru allt of lítið að fylgjast með þessum málum með pro-aktífri vinnu og regluverki. Þegar almenningi ofbýður þá fara stjórnvöld af stað og spila nokkra leiki. Gallinn er hins vegar að einkafyrirtæki eru að spila leikinn alla daga og hafa því yfirleitt langan tíma til að undirbúa nýja leiki sem sjá við hægum leikjum stjórnvalda.

Dæmi: Bannað er að framleiða stórtæk vopn (WMD-vopn) víða og eru það samfélagslegir hagsmunir sem ráða slíku banni. Flestir eru sammála því að hefta framleiðslu slíkra hættulegra vopna. Bannið er þannig að það er bannað að framleiða þessa hluti í mörgum Vestrænum löndum (þó ekki öllum) og nær bannið til þess að ekki megi fullframleiða þessi vopn. Einkafyrirtæki framleiða þá vopnin í 2-3 löndum og flytja til enn annars lands þar sem þau eru sett saman. Stjórnvöld víðast hvar vita af þessu en gera fátt í þessu af því almenningur er ekki að krefjast þess. Þarna taka stjórnvöld lítil hænuskref í málinu og gefa einafyrirtækjum fullt svigrúm til að fara framhjá lögunum. Alltof oft nota stjórnvöld þessa aðferða handhægra hænuskrefa. Gera eitthvað en vita það að sum einafyrirtæki munu finna nýja leikfléttur og komast framhjá lögum ef þau vilja nógu mikið.

Stjórnvöld eru oft aðeins að hugsa um næstu kosningar og athafnasýn þeirra nær oft ekki lengra en að næsta kjördegi. Ef almenningur er óánægður þá þarf að gera eitthvað. Markmið stjórnmálamanna er því að sefa óánægju, ekki að semja úthugsuð lög sem gera samfélagslegt rými almennings og einkafyrirtækja betri til lengri tíma. Í þessu liggur aðstöðu- og markmiðamunurinn hjá þessum tveimur aðilum.

Stjórnvöld þurfa því að skipta út aðferð handhægra hænuskrefa þegar þau eru að eiga við fyrirtæki sem geta í ákveðnum aðstæðum skapað eða ýtt undir samfélagslega hættu, ójöfnuð, auðsöfnun, ólöglega fjármagnsflutninga og mútur. Stjórnvöld þurfa að taka upp aðferð langtíma lagasetningar þar sem þau gera ráð fyrir að aðilar reyni að komast framhjá þeim lögum sem verið er að semja. Átta sig á hvern er verið að „díla við“ og hvernig leikreglur eru í raun og veru. Taka þá hugsun út að enginn ætli að leita nýrra leiða, nýrra klækja. Stjórnvöld þurfa þess vegna í allri lagasetningu sem varðar siðferði og fyrirtækjaumhverfi að setja fram miklu víðtækari lög sem taka ekki aðeins á tilvikinu sem nýbúið er að koma upp heldur binda hendur þeirra sem reyna að spila grófasta leikinn og beita mestu klækjunum.

Hvað væri hægt að gera frekar til að auka traust?

Traust á milli stjórnvalda og almennings eykst ef:

(1) stjórnvöld bregst við í erfiðum málum með aðgerðum sem eru það öflugar að almenningur fær trú á að nú sé eitthvað að breytast,
(2) ef stjórnvöld framkvæma eitthvað sem hefur afgerandi áhrif á að sömu hlutir endurtaki sig ekki,
(3) ef stjórnvöld fara út fyrir þægindarammann og hugsa hlutina lengra en fram að næstu kosningum
(4) og ef stjórnvöld sýna það glögglega að hagur almennings er númer eitt.

Það eru sem sagt ótvíræðar aðgerðir en ekki hvít- og kattarþvottur sem fær traust á milli stjórnvalda og almennings til að aukast. Til að svo megi verða þá þurfa stjórnvöld að stíga aðeins meira út fyrir þægindaramman en þau hafa gert til þessa. Af því að traust mun ekki aukast með yfirlýsingum um að ætla sér að gera einhverntíman seinna betur.

 

 

 

 

 

 

Með yfirlýsingu gegn kynjahalla sýnir Íslandsbanki samfélagsleg ábyrgð

Íslandsbanki hefur sett viðskiptabann á karllæga fjölmiðla (sjá hér). Þessi yfirlýsing bankans hefur kallað fram mikil viðbrögð og er fróðlegt að velta fyrir sér hvað liggi hér að baki.

Á hverju byggir andstaða margra við yfirlýsingu bankans?

Andstaða vegna þess að fjölmiðlar eiga að vera frjálsir. Bankinn er hér að taka afstöðu með jafnrétti kynjanna. Það er sérstaklega mikilvægt samfélaglegt mál. Það er mikilvægt að gefa fjölmiðlum  þau skilaboð að það þurfi að hlúa að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Þetta er enn mikilvægara en áður af því að flestir fjölmiðlar í dag eru tengdir inn í öflugar einingar, inn í stjórnmálaflokka, inn í fyrirtæki og inn í valdamikla hópa. Fjölmiðlar eru því ekki frjálsir eins og áður voru dæmi um. Eigendur fjölmiðla þurfa því aðhald í þá átt að fylgja eðlilegum kröfum samtímans. Einstaklingar geta haldið á lofti samfélagslegri ábyrgð en ef öflug fyrirtæki gera það líka þá nást mikilvægar breytingar fram miklu hraðar en ella.

Andstaða er einnig vegna þess að það er sagt að fjölmiðlar eigi að vera sjálfstæðir og að ákvörðun Íslandsbanka sé aðför að sjálfstæði ritstjórna. Hvernig geta áherslur bankans verið aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði? Bankinn er ekkert að skipta sér af áherslum ritstjórna hvað efnisþætti varðar. Ritstjórnir geta eftir sem áður fjallað um öll mál með þeim efnistökum sem þeir vilja. Bankinn er hins vegar að leggja áherslu á að kynjahalli sé lagaður. Það er ekki stýring á efnisáherslum ritstjórna. Yfirlýsing bankans er þannig hvatning til samfélagsins til þess að leggja áherslur sem bæta samfélagið. Alveg eins og ef einhver fjölmiðill myndi taka upp á því að auglýsa áfengi og gera því hátt undir höfði. Það væri jákvætt ef einhver stór auglýsandi myndi neita að auglýsa í slíkum fjölmiðli sem myndi misbeita sér með slíkum hætti. Yfirlýsing Íslandsbanka er af sama meiði: Að hvetja til þess að sanngjarnari og réttlátari áherslur séu hafðar í heiðri.

Hvað með vilja fólks til að stór fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum?

Andstaða er til staðar vegna þess að banki á ekki að taka pólitíska afstöðu, segja margir. Eitt af því sem hefur breyst mikið á síðasta áratug er að almenningur og viðskiptavinir vilja að fyrirtæki taki afstöðu í mikilvægum samfélagsmálum. Það vegur lítið ef lítill hópur eða smáfyrirtæki lýsir sig fylgjandi samfélagslegum málum en ef stór banki gerir það þá hefur það miklu meira vægi. Þannig eru stór fyrirtæki alltaf að verða mikilvægur hornsteinn til að ýta undir nauðsynlegar breytingar því ef fyrirtæki taka ekki afstöðu gagnvart samfélagsmálum verða breytingar svo miklu hægari og torsóttari. Kannanir Edelmann frá 2018 sýna mjög aukna þörf almennings til að stærri fyrirtæki og þekkt vörumerki taki afstöðu til mikilvægra mála. Þessi krafa er mjög í vexti; það var aðeins um helmingur fólks sem hafi þetta viðhorf 2017 en ári síðar voru það 64% sem vildu þetta mjög skýrt.

Nútíminn gerir því skýra kröfu um að stór fyrirtæki taki skýra afstöðu í samfélagslegum málum. Íslandsbanki er með þessari yfirlýsingu að segja að hann skilji nútímann og ætli sér að vera hluti af honum. Og þarna er bankinn ekki að gera neitt annað en að vera samkvæmur sjálfum sér því Íslandsbanki hefur öðrum bönkum fremur haft ímyndina „nútímalegur banki“ og ef Íslandsbanki myndi ekki taka afstöðu til samfélagslegra mála þá væri bankinn einfaldlega að skaða vörumerki sitt meira en hægt væri að réttlæta.

Og sumir tala um andstöðu vegna þess að bankinn býr sjálfur við kynjahalla varðandi laun og starfsfólk. Þetta er allnokkur rökleysa. Að engin megi lýsa yfir skoðun og vilja til breytinga nema að hafa aldrei gert neitt gagnrýnivert áður? Er það virkilega svo? Hver ætlar að vera svo háheilagur að segjast geta fylgt þessari reglu? Ef ég segi: Við skulum öll reyna að gera betur – má ég þá ekki segja slíkt ef ég hef einhverntíman áður ekki náð að gera eins og ég gat? Er það bara hin fullkomna mannvera – hið fullkomna fyrirtæki – sem má búa til reglur samfélagsins? Hér er sú rökvilla sett fram að snúa yfirlýsingu Íslandsbanka yfir í það að bankinn sé að fordæma alla sem séu ekki fullkomnir – fordæma alla sem hafa ekki kynjamál í 100% lagi. Það er ekki svo. Bankinn er að hvetja okkur öll og samfélagið allt til að gera betur á sviði jafnréttis kynja. Bankinn er ekki að dæma. Bankinn er að hvetja til betri breytni með því að segjast ætla að taka betri ákvarðanir sjálfur.

„Hatar Íslandsbanki karlmenn?“ er svo dæmi um ýkta og tilhæfulausa skoðun sem sett hefur verið fram vegna yfirlýsingar Íslandsbanka. Annar sagði að nú væri Íslandsbanki að eyðileggja öll fyrirtæki þar sem einyrkjar starfa þar sem aðeins er 1 karlamaður starfsmaður. Ekkert af þessu á sér nokkurn fót. Þetta lýsir bara undarlega mikilli hræðslu við breytingar sem eru óumflýjanlegar. Bankinn hatar ekki karlmenn og ætlar áfram að vera jákvæður út í öll fyrirtæki – líka stór fyrirtæki þar sem aðeins karlmenn starfa og veita slíkum fyrirtækjum áfram góða þjónustu. Bankinn var ekki að beina þessari yfirlýsingu til karlkynsins heldur til máttarstólpa samfélagsins: Fjölmiðla sem hafa mikil áhrif á skoðanir landsmanna. Þar er mikilvægt að veita aðhald.

Allir eru sammála um að fyritæki eigi að sýna samfélagslega ábyrgð. En það er ekki bara að gróðursetja tré og gefa leikskólabörnum buff. Það er líka að taka ábyrgð á því að samfélagið þróist í jákvæða átt. Alveg eins og að hvetja samfélagið til að efla heilsu eins og Íslandsbanki gerir með Reykjavíkurmaraþoni. Með sama hætti er Íslandsbanki að hvetja samfélagið að þróast í jákvæða átt, með þessari yfirlýsingu sinni.

Kjarni málsins: Íslandsbanki er að ákveða að auglýsa ekki í fjölmiðlum sem viðurkenna ekki jafnrétti kynjanna í verki. Neikvæðu viðbrögðin eru e.t.v. í mörgum tilfellum vegna þess að fólk lætur hræðsluna við eðlilegar kröfur samtímans um breytingar bera sig ofurliði. Hræðslan að það sé verið að breyta þjóðfélaginu um of og hræðslan að það sé verið að ýta þér og þínum gildum til hliðar.

Yfirlýsing Íslandsbanka er því mikilvægt framlag til samfélagsins alls (er í raun eitursnjöll) því að bankinn er með þessu að stíga inn í nútímann á svo mörgum sviðum og flytja hugtakið samfélagsleg ábyrgð upp á nýtt og mikilvægara stig. Einnig er bankinn að svara aukinini þörf meirihluta fólks að fyrirtæki taki afstöðu í samfélagslega mikilvægum málum. Öryggi í umferð, hvetja til útiveru, hvetja til að taka ábyrgð á heilsu. Allt þetta hafa fyrirtæki gert. Af hverju ekki að ýta undir jafnrétti kynjanna?

Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Eigum við að hafa börnin okkar á leikskóla þar sem næring í fæðu er 100% en hlýja og manngæska á lágu stigi? Nei, við erum flest sammála um að framkoma, hlýja og manngæska starfsfólks sé grunnatriði og að önnur atriði skipti flest minna máli.

Þetta hefur alveg farist fyrir í skipulagsmálum. Við deilum um nýtingarhlutföll, byggingarmagn, hæðir húsa og aðgang að sólargeislum en tölum aldrei um aðalþáttinn sem byggingar þurfa að uppfylla: Að fegra umhverfi sitt og ýta undir þann staðaranda sem er á hverjum stað fyrir sig. Að fólk sé ánægt með að fá nýja byggingu á nýjan stað. Að byggingar gleðji augun.

Bygginarlist hefur auðvitað verið allavega síðustu árhundruð en oft hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja í þeim anda að verið sé að prýða bæi og borgir. Að fegra. Að gleðja augun. Að vekja upp löngun til að virða fyrir sér nýja byggingu og að sækja í það að vera í nánd við hana. Að vera sáttur við að hún sé komin til að vera. Að hún hjálpi hverfi að vaxa og dafna og ýti upp andanum um gott mannlíf í bæjum og borgum.

Mörg dæmi frá gamalli tíð eru til þegar metnaður var lagður í að byggja falleg hús – þá þótti það eðlilegur þáttur að taka með inn í ákvörðunarferlið. En þegar við hættum þessum áherslum erum við komin með byggingarmenningu þar sem hagnaðardrifnir aðilar fá stærri hluta af byggingar-kökunni og við hin sitjum uppi með hús sem eru hönnuð sem ódýrust (oft kassalaga „gámaarkitektúr“) en eru látin kosta það sama eins og ef mikil vinna væri lögð í að tryggja fegurð og smekkvísi bygginga. Þegar þetta er raunin, þá erum við komin á einhvern súran stað þar sem dómgreindin er búin að tapa fyrir Excel-skjalinu.

Sem betur fer er ljós í myrkri: Fleiri og fleiri byggingaaðilar (t.d. í Skandinavíu) hafa tekið upp gamalt handbragð og stíl og þróað nútímalegar aðferðir við að byggja aftur fagurt. Þetta verður aðeins gert með því að tryggja óhagnaðardrifna byggingaferli (lesist: hóflega hagnaðardrifið byggingarferli). Hér eru myndir frá sænsku hönnuðunum í Jupiter & Gran sem hafa þróað klassíska byggingarstílinn áfram og bætt hann með nútímalegum og skilvirkum vinnubrögðum. Svona er að eiga sér stað í Svíþjóð í dag varðandi nýbyggingar:

Fleiri myndir hér af FB-síðu Jupiter & Gran eru hér: https://www.facebook.com/pg/sundswalltrafastigheter/photos/

Meginmálið er þetta: Skipulagsyfirvöld verða að taka formfegurð og staðaranda inn í ákvarðanaferli um leyfi til nýbygginga. Það er ekki hægt að segja að fegurð bygginga sé smekkur sem sé breytilegur hjá hverjum og einum. Danski arkitíektinn Jan Gehl hefur haft frumkvæði að því að þróa aðferðir til að meta formfegurð og hvað almenningi þykir um nýjar bygginar sem eiga hugsanlega að rísa.

Á Akureyri er nú deilt um hvort kassalaga fjölbýlishús eigi að fá að rísa á lágreistri byggð Oddeyrarinnar. Til eru aðferðir til að leggja mat á hvað fólki finnst. Skipulagsyfirvöld gætu látið framkvæma kortlagningu á upplifun fólks gagnvart nýju húsunum og notað þann lykilþátt sem eitt atriðið í þeirri ákvörðun hvort viðkomandi eiga að rísa. Það væri gott innlegg í málið og svo sannarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp og styðja við þann fallega og eftirsóknaverða staðaranda sem er á Oddeyrinni.

Víða í borgun er algjört bann við því að breyta ásýnd þess stíl sem markaður er í byggingum borga. Amsterdam og Boston hafa verið framarlega hvað þetta varðar. Þar er skýr krafa um útlit og að nýjar byggingar efli staðaranda. Ef Íslendingar bera gæfu til að opna á þessar áherslur munum við á ný ganga inn í blómaskeið nýrrar byggingalistar þar sem sátt almennings og skipulagsyfirvalda nær nýjum hæðum. Tækfærið er núna með verkefnum einsog nýju Oddeyrarhúsunum. Tækifærið fór forgörðum á Hafnartorgi í Reykjavík. Ákvörðunin og valið er í höndum skipulagsyfirvalda.

Hagvöxtur mælir neyslu, ekki framfarir.

Hagvöxtur er mælikvarði á neyslu en ekki framfarir þjóða. Aukin neysla, aukin plastnotkun, aukið kjötát og aukin matarsóun sýna aukinn hagvöxt. Hagvöxtur mælir hvort efnahagslífið sé á hreyfingu en mælir ekki hvort það hreyfist í rétta átt. Þessu þarf að breyta.
– – –
Í raun má segja að hagvöxtur mæli vöxt á öllu nema á þeim þáttum sem gera lífið bærilegra til lengri tíma litið. Hófsöm neysla, minni matarsóun, fleiri gæðastundir, andleg upplifun, góð samskipti, eftirminnileg upplifun er ekki tekið inn í jöfnuna fyrir hagvöxt. Hagvöxtur vex hins vegar ef vextir hækka á húsnæðislánum. Hagvöxtur vex ef mengun eykst (sem afleiðing af aukinni neyslu og framleiðslu) og hagvöxtur eykst ef við erum að ganga á á og þurrka upp auðlindir jarðar. Mikil aukning í hagvexti er oft nátengd auknum ójöfnuði og aukinni stéttaskiptingu. Hagvöxtur eykst mikið ef 10% ríkustu verða ríkari en eykst miklu minna ef 50% neðstu verða ríkari. Það er því mikil þörf á að endurbæta mælingar á hagvexti þannig að hann taki inn í myndina framfarir en ekki neyslu og hætta að verðlauna ofbeldi gangvart umhverfinu. Það vantar sem sagt sjálbærni og raunverulegar framfarir inn í mælingar á hagvexti.

Önnur birtingamynd á galla hagvaxtarmælinga er að framleiðsla á stríðstólum eykur hagvöxt. Og ef einhver ákveður að sprengja upp borgir og landssvæði og byggja þær aftur upp þá framkallar það mikinn hagvöxt. Aukin framleiðsla stríðstóla og morðvopna skapar einnig hagvöxt og svona mætti lengi telja. Sú mýta hefur meira að segja verið uppi að stríð séu nú að ýmsu leyti jákvæð vegna alls þess hagvaxtar sem fylgir í kjölfarið. Þetta er mikil vitleysa því augljóst er að það er hagkvæmara og heppilegra fyrir samfélagið að gera eitthvað annað en að sprengja og byggja upp borgir. Það væri alltaf heppilegra að framkalla meiri athafnir af þeim toga heldur en að reyna að réttlæta stríð og eyðileggingu með hagvexti.

Hagvöxtur er því með öllu ónothæfur mælikvarði eins og hann er notaður og reiknaður út nú. Það mætti hins vegar skoða að draga ýmsa þætti frá hagvaxtartölum, eins og framleiðslu stríðstóla, morðvopna og losun CO2. Þetta er sú leið sem við þurfum að fara: Að byrja á að mæla GGDP („Green Gross Domestic Product“) sem mætti kalla grænan hagvöxt eða kolefnisjafnaðan hagvöxt sem tekur inn í hefðbundinn hagvöxt alla losun sem framkallast í hagkerfinu við vöxt eins og framleiðslu og neyslu. Hagvöxtur með ábyrgð. Ef fyrirtæki losar 1 tonn af CO2 þá væru áhrif þess dregin frá hefðbundnum hagvexti þannig að aukin plastnotkun, meiri matarsóun og aukin neysla myndu (samanlagt) reiknast rétt í mælingum á hagvexti. Þetta er ekki ný hugmynd (hún kom fyrst fram 1972). Það myndi breyta strax mjög miklu ef Hagstofan og greiningadeildir bankanna myndu breyta reiknireglum sínum á hagvexti í þessa veru.

Lífeyrissjóðir „hálfbirta“ gögn

Á árunum fyrir hrun var traust almenn­ings á líf­eyr­is­sjóðum fremur hátt eða um 30-40%. Eftir hrun hrap­aði traustið niður í um 8% árið 2013 og hefur síðan þá mælst á bil­inu 13-20% (MMR) og er því óhætt að segja að enn sé nokkuð í land að traust almenn­ings á líf­eyr­is­kerf­inu sé á við­un­andi stað.

Í mörg ár hefur almenn­ingur kraf­ist þess að líf­eyr­is­sjóðir birti ávöxtun sjóða með aðgengi­legum hætti. Í umhverfi þar sem mikið traust rík­ir, er slíkt auð­sótt mál, enda er um að ræða sjálf­sagða kröfu um eðli­legt gagn­sæi. En líf­eyr­is­sjóðir tóku í fyrstu dræmt í þessa ósk almenn­ings og nefndu að slíkt væri óþarfi, almenn­ingur ætti bara að treysta sjóð­un­um. Eftir margra ára ítrek­anir og þrýst­ing frá fjöl­miðlum sögð­ust líf­eyr­is­sjóðir þó á end­anum ætla að birta tölur um ávöxtun og hefur það nú nýlega gerst. Líf­eyr­is­sjóðir birtu á dög­unum upp­lýs­ingar um ávöxtun sinna sam­eign­ar­sjóða (skyldu­líf­eyr­is­sjóða) á vef sín­um, lif­eyr­is­mal.­is. Olli það þó von­brigðum þegar í ljós kom hvað lítið af gögnum voru birt og hvað þau voru sett fram á ólæsi­legan máta. Má í stuttu máli segja að líf­eyr­is­sjóðir hafi rétt svo hálf­birt gögn, og tæp­lega þó, ef grannt er skoð­að.

Líf­eyr­is­sjóðir birta nú aðeins gögn aftur til árs­ins 2009 og sýna engin eldri gögn sem þó liggja fyrir og birta engin gögn af hrunsár­unum eða á árunum fyrir hrun. Þó eru til gögn sem liggja fyrir aftur til 1997 fyrir alla sjóði og fyrir marga hverja eru til gögn mun lengra aft­ur. Að auki eru heild­ar­tölur fyrir kerfið til­búnar aftur til árs­ins 1971 og því er mikið til af gögnum sem ekki þótti ástæða til að birta nú. Að birta aðeins síð­ustu 10 árin af þeirri 20-25 ára gagna­sögu sem liggur fyrir er ekki til þess fallið að auka traust almenn­ings á líf­eyr­is­kerf­inu.

Fyrir ein­stak­ling sem fæddur er 1970 má gera ráð fyrir að við­kom­andi hafi byrjað að fullu að greiða í líf­eyr­is­sjóði um 25 ára ald­ur, árið 1995. Ef þessi ein­stak­lingur vill skoða stöðu sína í upp­lýs­inga­veitu líf­eyr­is­sjóða þá fær hann ekk­ert að vita um ávöxtun sjóða fyrstu 14 greiðslu­árin sín. Þó er þarna um að ræða ár þar sem mikið reyndi á kerfið og má sjá út frá gögnum hverjir tóku óþarf­lega mikla áhættu á mik­il­vægum augna­blikum í for­tíð­inni. Ekki er hægt að sjá þetta í þeim gögnum sem líf­eyr­is­sjóðir birta nú. Við­kom­andi ein­stak­lingur fær aðeins að sjá 41,6% af þeim gögn­unum sem liggja fyrir en meiri­hluta gagna (58,3%) er vís­vit­andi haldið frá.

Auð­vitað á líf­eyr­is­kerfið að birta öll gögn, eins langt aftur og hægt er og brjóta upp gögn fyrir hvern sjóð og hvert ár. Þegar leitað er eftir svörum hjá líf­eyr­is­sjóðum er sagt að slíkt sé óþarfi af því að það séu svo fáir sem vilji sjá alla sög­una. Einnig nefna þeir að það sé miklu gagn­legra að skoða bara stutt aftur í tím­ann, það sé vill­andi fyrir almenn­ing að vera skoða sög­una aftur fyrir hrun. Þetta er auð­vitað alrangt. Það er alltaf til gagns að hafa allar upp­lýs­ingar þó ekki sé nema til að koma til móts við nútíma­kröfur um gagn­sæi. Að hálf­birta gögn er að segja að gagn­sæi sé óþarf­i.

Helm­ingur gagna gefur auð­vitað aðeins hálfa mynd. Núver­andi birt­ing á ávöxt­un­ar­tölum líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins kallar nefni­lega fram skekkta mynd af nið­ur­stöð­um. Dæmi eru um sjóði sem sýn­ast í gögnum nú vera með þeim bestu þegar lengri saga þeirra myndi sýna að þeir eru með þeim lök­ustu. Og öfugt. Er það rétt­læt­an­legt hjá líf­eyr­is­kerf­inu að gefa þannig skakka mynd til almenn­ings? Svona við­heldur líf­eyr­is­kerfið skorti á traust­i.

(Þessi grein birtist einnig í Kjarnanum, sjá hér.)

Forræðishyggja eða faghyggja?

Af hverju bönnum við 16 ára unglingum að aka bílum? Af hverju bönnum við almennan vopnaburð á Íslandi? Af hverju bönnum við eiturlyf og af hverju setjum við letjandi hömlur á mengun?

Mörg bönn eru sett til að gera þjóðfélagið betra. En upp úr 1980, þegar frjálshyggja komst í tísku, þá upphófst sú rödd að það væri forræðishyggja að banna flest. Fólk ætti að ráða sér sjálft með sem flest, það myndi sjálft vita hvað væri skynsamlegt. Þetta var svo yfirfært á fyrirtæki hins frjálsa markaðar; að „markaðurinn“ myndi leiðrétta sig sjálfur og því þyrfti engin boð og bönn. Verslun með allt ætti að leyfa og sem fæstar hömlur ætti setja á hvað fólk mætti og mætti ekki. Allt í nafni hinnar púkalegu forræðishyggju sem er eins og grýla úr fornöld; hin leiðinlega kerling sem er fúl og vill banna allt.

Orðið forræðishyggja náði þannig að verða tískuorð, einkum það að vera á móti forræðishyggju. Gallinn var þó sá að fólk fór að nota orðið forræðishyggja yfir allt mögulegt sem var hægt að banna. Þannig komst það meira í tísku en æskilegt er að taka hömlur af nær öllu. Enn er þetta ríkt í fólki og má sjá að margir alþingismenn eru enn að berjast fyrir því að opna fyrir víðtæka sölu á áfengi. Vilja ekki takmarkanir af því það á að vera sjálfsagður réttur einstaklings að geta keypt sér hvítvín með humrinum t.d. á sunnudagskvöldi.

Gallinn við hugtakið forræðishyggja og notkun fólks á því er að fólk fór að nota þetta orð um allt mögulegt, líka um það þegar alls engin forræðishyggja er í gangi. Fólk fór að rökstyðja það að taka úr gildi allskyns bönn af því að þau endurspegluðu forræðishyggju.

Þarna liggur ákveðið mein sem þarf að laga. Það er aðeins sumt sem er forræðishyggja – alls ekki allt.

Það er forræðishyggja að takmarka aðgengi að því sem skaðar samfélagið lítið sem ekkert.

Þannig væri það forræðishyggja að banna rauðvín en leyfa hvítvín. Það væri forræðishyggja að leyfa bara svart-hvíta skjái en ekki litaskjái (eitt sinn var það rætt á Alþingi!) og það væri forræðishyggja að banna íþróttir af því þær valda meiðslum.

Hættum allri forræðishyggju – hún er alltaf óþörf!

Hvernig ætlum við þá að meðhöndla mál sem fela það í sér að takmarka aðgengi að því sem skaðar samfélagið nokkuð eða mikið? Jú, við ætlum að taka fagleg rök og líta til okkar dýpstu þekkingar og reynslu og taka ákvöðrun um að setja þær skorður (stundum bönn) sem nauðsynleg eru til að byggja upp gott þjóðfélag. Þess vegna bönnum við skambyssur á Íslandi. Er það forræðishyggja? Nei, það er faglegt og rétt mat að þannig er þjóðfélagið betra. Það þjóðfélag sem við viljum byggja upp. Þetta er faghyggja, ekki forræðishyggja.

Þess vegna þurfum við að aðgreina: Hvað er forræðishyggja? Hvað er faghyggja?

Að banna skaðsöm eiturlyf er faghyggja af því óheft notkun þeirra er skaðleg fyrir þjóðfélagið, bæði peningalega og út frá almennri líðan. Það er faghyggja að skylda ökumenn til að nota bílbelti.

Það er einnig faghyggja að hafa óbreytt fyrirkomulag með áfengissölu, að auka ekki aðgengi að áfengi. Vera má að margir geti sagt: Jú, það væri betra fyrir mig sjálfan að hafa áfengi í matvörubúðum, enda neyti ég áfengis aðeins í litlu magni og sjaldan. Þannig fólk er til og er meira að setja algengt. En þá erum við komin að þeim punkti að við erum ekki ein í samfélagi okkar. Við verðum að taka ákvörðun út frá því hvernig samfélagið allt mun koma út, ef ákveðin boð og bönn eru eða eru ekki til staðar. Þess vegna er ekki nóg að segjast vilja aukið aðgengi að áfengi af því „ég sjálfur“ mun höndla það frelsi vel. Þetta yrði nefnilega á sama tíma frelsi þeirra sem geta ekki farið eins vel með áfengi. Þetta eru meginrökin með því að hlusta á faghyggjuna: Að viðurkenna að samfélagið snýst ekki bara um sjálfan mig. Það snýst um hina líka. Það er jú hvers og eins að taka ábyrgð á sinni hegðan en á sama tíma verðum við líka að viðurkenna að þessi rök duga skammt, alveg eins og með „markaðinn“ sem átti að leiðrétta sig sjálfur.

Það er því faghyggja að hafna frumvarpi eins og áfengisfrumvarpinu. Við getum ekki miðað allt út frá okkur sjálfum, við verðum að taka þátt í að ákveða hlutina eins og þeir eru, út frá þeim staðreyndum, reynslu og þekkingu sem gera gott samfélag betra.

– – –

Ungt fólk þarf nýja trú á framtíðina

Það er rétt hjá Grétu Thunberg að ungt fólk er að missa trú á framtíðina af því eldra fólk er að tekur of mikið út á kostnað yngri kynslóða. Við tökum úr gæðum framtíðar með því að finna réttlætingu á slöku siðferði okkar gengdarlausu neyslu. Neyslustiginu er haldið uppi, á kostnað umhverfis og jarðargæða, með markaðsskilaboðum sem normalísera neysluna og segja hana nauðsynlega til að öðlast hamingju.

Miðaldra kynslóðir eru því eins og foreldrar sem sólunda ættarauðnum á meðan börnin horfa á og sjá fyrir sér framtíð án öryggis, í ótryggu umhverfi þar sem sögur af gæðum og neyslu forferða munu þykja ótrúlegar lýsingar og óábyrgar. Setningar frá ungu fólki eins og „þið eruð að eyðileggja okkar framtíð“ (sjá hér og hér) eru farnar að rata í fjölmiðla og er orðinn hinn skiljanlegi nýji undirtónn sem gert hefur baráttu ungs fólks svo miklu öflugri en áður var. Ekki er hægt að bíða eftir að ríkisstjórnir leysi vandann því vandinn er falinn í því hvernig við hegðum okkur sem einstaklingar, í neysluheimi okkar, hvers og eins einstaklings.

Besta leiðin til að breyta þessari þróun á heimsvísu er að skilja hvernig ungu fólki líður. Rannsóknir sýna það að fyrst upp úr 1990 og sérstaklega upp úr aldamótum, fór á örla á auknum kvíða og þunglyndi hjá ungu fólki sem rekja má beint til þess að ungt fólk telur að það sé verið að eyðileggja framtíð þess. En nú er ungt fólk fyrst og fremst börn eldri kynslóða og okkur þykir jú vænt um börnin okkar. Getum við þá ekki drattast til þess að hlusta á þau og framkvæma eitthvað sem er þeirra innsti vilji og dýpsta þrá: Að öðlast nýja trú á sína eigin framtíð?

Hér má sjá að þessi kjarnapunktur er ekki aðeins hrópandi, hann er öskrandi: Með öllum sínum ráðum, lausnum og fyrirheitum sem OECD lönd hafa tiltekið, lofað, samþykkt og ákveðið, mun losun CO2 í andrúmsloft rétt ná að standa í stað en mun aukast mjög mikið í löndum utan OECD (Kína og Indland leiða þá þróun).

Það er því ekki hægt annað en að taka undir þau grunnskilaboð frá ungu fólki eins og Grétu Thunberg, að það sé óskiljanlegt af hverju allir telji að loftslags- og umhverfismál séu mikilvægustu málefni samtímans en samt sé eiginlega enginn að gera neitt sérstakt til að vinna stór skref í málinu. Auðvitað eru margir að gera eitt og annað, flokka sorp, minnka CO2 fótspor o.fl. En heimurinn og ríkisstjórnir eru ekki að gera neitt í takti við hvað málið er alvarlegt. Mannfólk er að breyta loftslaginu, er að breyta loftinu sem það andar að sér. Hvað annað gæti verið mikilvægara að skoða? Af hverju snýst ekki allt um að breyta þessu ástandi? Af hverju loga ekki fréttatímar í umræðum um þetta? Af hverju er þetta ekki á forsíðum flestra blaða? Jú, það er vegna þess að við erum föst í neysluvenjum þar sem við höfum fengið áratugalanga þjálfun í að réttlæta fyrir okkur sjálfum.

Um þetta eru notuð ensku orðin „ignorance“ og „apathy“, það að nenna ekki að hugsa um þessi mál (ignorance / firring) og svo það sem er hálfu verra, að vera bara algjörlega sama (apathy / sinnuleysi).

Við þurfum því að setja fram neyðarkall til okkar sjálfra: Að velja alla neyslu út frá samviskunni, út frá siðferði og að fara í stríð við þægindavenjur okkar sjálfra. Taka upp samviskuval í verslunum, hlusta á hina innri rödd og hætta þægindavali. Gefa hreinlega skít í þægindavalið. Við elskum jörðina, börnin okkar og viljum allt fyrir þau gera. Byrjum þá á neyslunni, hættum að leyfa skilaboðum sem hvetja til neyslu að ná til okkar. Við erum oft á hverjum degi að taka þessar ákvarðanir og það er þar sem þetta allt byrjar.

Það þyrfti því að setja af stað stórt ákall til þess að meirihluti fólk sættist á þennan nýja lífsstíl: Að láta samvisku og siðferði stýra neyslu, að segja það upphátt að þægindavalkostirnir séu einfaldlega nánast að drepa okkur, eru að grilla okkur hægt á teini. Tökum á móti nútímanum og hættum þessari meðvirkni með neyslumenningunni. Við vitum það öll að hamingjan tengist ekki neyslu, og fleiri og fleiri eru að átta sig á því, á eigin skinni, að hamingjan er einmitt nátengd því að hemja eigin neyslu, að finna tengingu við núið í því að vera ekki að hugsa um næsta neyslupunkt, næsta tækifæri til að kaupa meira af þessu nýja og sniðuga. Þetta var nefnilega aldrei fótur fyrir þessu neyslutengda loforði um hamingjuna, þetta var allan tíman öfugt: Hamingjuna finnum við með því að takmarka neyslu okkar og finna þar með fyrir okkur sjálfum, ná tengslum við núið, okkur sjálf og heiminn í leiðinni. Gefum ungu fólki (og okkur sjálfum) nýja von: Látum samviskuna stýra neyslunni, ekki þægindavalkostina.

Hér er listi sem hægt er að byrja á:

 

Í fyrsta sinn er hægt að bera saman ávöxtun lífeyrissjóða

Í áratugi hafa lífeyrissjóðir búið við þau lög í landinu að almenningur verður að greiða inn í sjóðina lögbundin gjöld. Lífeyrissjóðir eru því í þeirri einstöku aðstöðu að fá gríðarlega fjármuni til sín, tugi milljarða í hverjum mánuði. Þessu fylgir mikil ábyrgð og þó að lífeyrissjóðir hafi að staðið sig ágætlega með margt þá er einnig hægt að benda á fjölmarga hluti sem eru alls ekki í nógu góðu lagi.

Það er ótrúlegt að lífeyrissjóðir hafi til þessa neitað að gefa upp samanburðarhæfa ávöxtun lífeyrissjóða í landinu. Þeir hafa sagt að ávöxtun sé gefin upp en það er ekki rétt. Ávöxtun er jú til fyrir eitt ár í einu fyrir einn sjóð. Til að skoða samanburð við annað ár þá verður að opna annað skjal, Excel eða PDF og finna réttu meðalraunávöxtunina fyrir það ár. Þetta verður að gera fyrir 20 ár og gera svo fyrir hvern einasta sjóð. Ef almenningur vill bera saman sjóði þá verður hver og einn að fara í þessa vinnu sem auðvitað enginn gerir. 

Ég hef í mörg ár ýtt á lífeyrissjóði og landssamtök þeirra að veita almenningi aðgengi að ávöxtun sjóða á þann hátt að almenningur getur borið sjóði saman. Lífeyrissjóðir og landssamtök þeirra hafa tekið illa í þetta og nefnt að þetta ætli þau sér ekki að gera. Þetta þykir mér vera með eindæmum ótrúlegt og einstakt að hafa skv. lögum áskrift að fjármunum almennings en neita að gefa almenningi kost á því að bera saman ávöxtun sjóða. Ég get ekki hugsað mér neitt annað dæmi hér án landi sem lýsir jafnmikilli firringu og tregðu til gagnsæis en þetta svar lífeyrissjóða í landinu: Að neita að leyfa almenningi að bera saman ávöxtun.

Til að gera langa sögu stutta þá var ákveðið að sætta sig ekki við þessi svör lífeyrissjóða heldur að taka þessar tölur saman. Voru þessar tölur birtar nýlega í þættinu Silfur Egils á RUV og hér er upptaka af þeim þætti:

Silfur Egils, 16. desember 2018:
https://youtu.be/GyfIOam0PZM

RUV fréttir sem fjölluðu um málið:
https://youtu.be/E6l3XIE-p_8

Grein í Fréttablaðinu sem tengist málinu og var birt í vor:
Vil ég nota tækifærið og þakka Dr. Gylfa Magnússyni kærlega fyrir samvinnu við úrvinnslu og greiningu gagna í þessu verkefni.

Almenningur á að velja byggingar sem rísa, ekki dómnefndir

Eigum við að hafa dómnefndir sem velja alþingismenn og forseta? Og dómnefndir sem velja sveitarstjórnir? Nei. Af hverju höfum við þá dómnefndir sem velja verðlaunatillögur að nýjum byggingum sem eiga að rísa á áberandi stöðum og oft eru kostaðar af almenningi?

Dómnefndir eru mikil hugsanavilla í arkítektúr. Ekki nema þá sem samkvæmisleikir til að klappa kollegum á bakið og lyfta því upp sem kollegum finnst áhugavert. En að nota dómnefndir til að velja hvaða tillögur eiga að sigra í arkítektasamkeppnum og hvaða hús eiga að rísa er eins og að nota dómnefndir til að velja stjórnmálaflokka og þingsæti.

Við notum dómnefndir þegar þarf að velja eitthvað sem er mjög huglægt og hefur takmörkuð áhrif á líf almennings. Eins og besta rithöfundinn, söngvarann, kvikmyndina og dansarann. Það má alveg vera Arnaldur eitt árið og Yrsa hitt, í flokkinum höfundar spennusagna. Við notum hins vegar kosningar þegar við veljum eitthvað sem skiptir miklu máli og hefur áhrif á daglegt líf fólks.

Byggingar á fjölförnum stöðum hafa einmitt mikil áhrif á líf fólks (sjá hér umfjöllun BBC). Við ættum því að láta fólk ráða því í miklu meira mæli hvaða byggingar verða valdar og látnar rísa á fjölförnum stöðum. Almenningur á að hafa mikið um það að segja, einkum byggingar sem almenningur notar og greiðir fyrir. Einnig ætti þetta að vera regla ef sterkur staðarandi er til staðar og þegar verið er að byggja þar sem tilvísun er í menningu og arfleið þjóðar.

Ef almenningur myndi fá að velja hvaða nýjar byggingar eiga að rísa á fjölförnum stöðum þá munu þeir sem senda inn tillögur—sjálfir arkítektarnir—hugsa allt öðruvísi. Þeir myndu hugsa hvað almenningi hugnast, ekki hvað fellur kollegum í geð. Þetta myndi breyta allri hugsun við hönnun bygginga.

Skoðum nú tvær leiðir sem hægt er að hafa í hönnun: ef dómnefndir velja hús eða ef almenningur velur (sjá neðar í pistlinum):

Áherslur í hönnun – ef dómnefndir velja hús/tillögur sem á að byggja

 • Viðmið er að hanna eitthvað nýstárlegt, frumlegt, einkennileg og óvenjulegt.
 • Reynt er að hanna eitthvað sem leiðir til vatnaskila í hönnun.
 • Hönnuðurinn verður að ákveðinni miðju í verkefninu, stundum er áhersla á að hanna til að skapa hönnuði stærra nafn o.s.frv.
 • Þörf byggingaverktaka til að fá sem flesta selda fermetra út úr byggingareit nær oft að vera sterkt til staðar og verður jafnvel ráðandi í sumum verkefnum.

Hér er dæmi þar sem áherslur hönnuðar hafa alveg yfirtekið söguna sem er til staðar og staðarandinn vanvirtur með öllu (skrifstofbygging í Mexíkóborg):

Hér er dæmi um hönnun sem fellur á staðnum illa í notendur og almenning. Hér var markmiðið að hanna eitthvað nýstárlegt og óvanalegt sem e.t.v. er gaman að sjá á blaði (eða sem þrívíddarrenderingu á tölvuskjá) en er stundum þreytandi fyrir augað og ýtir svo sannarlega ekki undir þann staðaranda sem er á staðnum því eldri byggingin á staðnum fær ekki að njóta sín. Nýja byggingin yfirtekur þá eldri með öllu og keyrir þvert ofaní menningu og arfleið hennar (Royal Ontario Museum í Toronto, Kanada):

Hér er annað dæmi þar sem mótvægi hönnunar (architectural contrast) er of mikið: Tvær íbúðablokkir, önnur gömul og allur staðarandinn miðast við hana, hin byggingin er ný og keyrir þvert ofan í öll þau gildi sem eru til staðar á svæðinu:

Og hér er enn eitt dæmið þar sem hönnun og andi sem er fyrir á svæðinu er algerlega keyrður til baka með mjög ólíkri hönnun. Þetta er óþægilegt fyrir augað og fyrir þá grunnþörf að styðja við eldri mannana verk sem hafa notið virðingar á svæðinu og fólk hefur um langt skeið notið og verið sátt við:

Enn eitt dæmið er franska skrifstofubyggingin í París, Tour Montparnasse sem er afar lítið í takti við staðaranda 15. hverfisins. Enda hafa alla tíð staðið miklar deilur um þessa byggingu og reglulega kemur í ljós í könnunum að fólki þykir hún vera ljót og passa illa í umhverfið. Það er nefnilega grunnþörf hjá fólki að lifa og hrærast í mannlífi og að umhverfið allt styðji við það mannlíf sem ríkir á hverjum stað. Borgaryfirvöld í París hafa reynt að koma til móts við þessar raddir með því að endurhanna ytra byrði turnsins en saga þeirra tilrauna er löng og ströng; það er ekki hægt að breyta aðeins ytra byrði og ætlast til þess að fólk verði ánægt. Það eru útlínur og fyrirferð turnsins sem pirrar fólk. Það sem lýsir viðhorfum fólks til turnsins best er þessi fræga setning: Besta útsýnið sem hægt er að finna í París er í turninum sjálfum af því það er eini staður borgarinnar þar sem ekki sést í turninn („It is said that the tower’s observation deck enjoys the most beautiful view in all of Paris, because it is the only place from where the tower cannot be seen“ – sjá hér):

Að lokum er hér enn eitt dæmið um hönnun sem hefur verið byggð algerlega út frá þörfum hönnuða, ekki út frá þörfum almennings. Hér er algjör skortur á gróðri, ekkert líf í augnsýn sem er jú þvert á grunnþarfir venjulegs fólks. Hönnuður þessa skelfilega útirýmis og byggingarinnar sem tengist útisvæðinu er Peter Eisenman og væri fróðlegt að heyra rök hans fyrir því að þetta svæði eigi að styrkja mannlíf. Sjáið litla hópinn af fólkinu, til vinstri, mitt í miðjum boganum, sem greinilega er að reyna að njóta stundarinnar, e.t.v. með nestisstund í huga en varla hefur þessi nestistími verið sá minnisstæðasti í upplifun þessa hóps er þarna situr:

Áherslur í hönnun – ef almenningur velur

 • Viðmið er að hann eitthvað sem er fallegt, styrkir gott mannlíf og vellíðan fólks.
 • Reynt er að hanna eitthvað sem hámarkar ánægju almennings.
 • Notkun almennings og ánægja fólks með húsið/bygginguna verður miðjan í hönnun.
 • Áhersla verður á að taka mikið tillit til
 • Áherslur byggingaverktaka til að fá sem flesta selda/leigða fermetra út úr byggingareit verða síður ráðandi.

Í dag er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum mjög aukin krafa um að byggt verði í takt við þarfir almennings. Fræg er sagan þegar átti að byggja íbúðablokkir við Apelvägen í Tyresö, í bæjarkjarna suður af Stokkhólmi. Haldin var samkeppni og aðeins ein tillaga barst, en hún var í fremur nútímalegum stíl:

Íbúum líkaði þessi tillaga illa (sjá hér), enda er mjög mikið um gamlar byggingar í Tyresö. Staðarandi þessa svæðis byggir á tveimur megineinkennum:

 1. Staðarandi, einkenni 1: Tyresö Slott (Nordiska Museet), kaffihús, safn og kastali, í gömlum stíl, frá 17. öld
 2. Staðarandi, einkenni 2: Tyresö Kyrka, kirkja frá 17. öld, vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Bæði þessu sterku 17. aldar einkenni í Tyresö voru lykilatriði því hvað íbúar sóttu fast að ofangreindar íbúðablokkir væru ekki byggðar. Og þar sem aðeins þessi eina tillaga barst þá ákváðu íbúar bæjarins að leggja fram nýja tillögu sem þeir þróuðu gróflega sjálfir. Tillaga íbúa var þessi:

Haldin var rafrænkosning og yfir 90% bæjarbúa völdu neðri tillöguna, tillögu íbúa.

Annað dæmi um nýjar byggingar sem almenningur hefur fengið að hafa áhrif á eru fjölmargar byggingar sem hafa risið á síðustu árum í bænum Norrtälje, norðaustur af Stokkhólmi. Hér er um að ræða íbúðabyggingu sem hefur sterka tilvísun í gömlu byggingarhefðina í Svíþjóð, sem hefur mjög ríkar tilvísanir í aldamótastílinn (sekelskiftesstil). Mikil ánægja er með þessa þróun í Norrtälje og hér er eitt dæmi um íbúðabyggingu þar sem tillit var tekið til óska almennings:

Annað dæmi þar sem þarfir almennings voru ráðandi við vali á nýju íbúðarhúsi á áberandi stað í Århus í Danmörku (byggt 2015):

Það er mjög gaman að sjá myndbandið af því þegar þetta hús var byggt (time-lapse myndum raðað saman):

Enn eitt dæmið er frá Nijmegen, sem er 120 þús manna bæjarfélag í rúmlega 100 km fjarlægð suðaustur af Amsterdam. Þar voru ljótar byggingar rifnar niður vegna þess að allir voru orðnir þreyttir á að hafa þær fyrir augum sér. Þær einfaldlega skemmdu mannlífið. Byggingar í gamla stílnum voru settar þarna inn á milli í stað þeirra eldri:

Keimlíkt þessu þyrfti að gera víða í Reykjavík, rífa niður ljótar byggingar sem samsama sig lítt þeim staðaranda sem ríkir í borginni. En Reykjavík er lítil og smátt og smátt verðu æ minna eftir af þeim staðaranda sem var og ef við breytum ekki stefnu í vali á byggingum þá er hætta á að við töpum miklum menningarverðmætum og gerum Reykjavík ljótari og ópersónulegri borg þar sem lítið er eftir af byggingum í þeim stíl sem ríkti þegar borgin byggðist upp. Inntak þessa pistils er því brýnt: Að byrja að byggja á ný fögur hús með sterka tilvísun í staðaranda, arfleið og sögu og þar sem fólki líður vel og að byggingar ýti undir samneyti fólk og gott mannlíf.

Það má segja að yfirstandandi sé stórslys númer 2 því að það fyrra var þegar rifin voru mörg gömul hús á árunum 1960-1980 og ljót byggð í staðin. Við áttuðum okkur smátt og smátt á virði og menningarsögu gamalla húsa en hin síðustu ár hafa skipulagsyfirvöld Reykjavíkur algerlega valtað yfir bygginarmenningu og sögu með því að leyfa verktökum að vera um of ráðandi í að skapa formfegurð borgarinnar. Þeir hugsa um of um eitt: að hámarka fjölda seldra og leigðra fermetra og því leita þeir í kassalaga gámastílinn sem hefur nú yfirtekið flest fjölförnustu svæði borgarinnar. Og nýjasta dæmið sýnir að enn er haldið áfram í sama gírnum:

Verðlaunartillagan við viðbyggingu stjórnarráðsins sver sig í ætt við „brutalist architecture“ sem er yfirleitt talin gróf, ómanneskjuleg og köld stefna sem yfirleitt vekur litla jákvæðni hjá fólki. Sem dæmi um þennan brútal-arkítektur er ráðhúsið í Boston sem oft er nefnt sem eitt ljótasta hús veraldar. Við þurfum að hætta að teikna hús út frá því að einhver arkítekt geti sett eitthvað sniðugt og óvanalegt í ferilsskrá sína og byrja að teikna út frá því hvað fólki finnst vera fallegt. Að byggja út frá brútal-arkítektúr við hliðina á lágreista, hlýja stórnarráðshúsinu er dæmi um ógögnur sem við erum komin í með hvernig útlit húsa á að vera. Ef um er að ræða prívat hús einhvers er sjálfsagt að gera engar kröfur eða ramma um útlit húsa. En þegar um er að ræða hús í nafni almennings, á stað sem almenningur fer oft um, er nauðsynlegt að byrja aftur á að byggja fallegt hús.

 

Það sigrar enginn lengur með útjaskaða orðinu „sósíalisti“

Hægri menn í Bandaríkjunum halda lífi með því að hræða almenning nógu mikið á því að hinir séu sósíalistar. Hér er bara eitt dæmi af mörgum:

Hér er orðið sósíalismi tengdur við „eymd og volæði“ og þess vegna virkar það á suma að hræða þá með því að þessi og hinn sé sósíalismi. Heilinn hugsar oft ekki rökrétt heldur býr til tengingar (hugrenningatengsl) út úr því sem tengt er saman í umræðunni.

Það hjálpar Trump að orðið sósíalisti hefur verið talað niður í áratugi, er yfirleitt tengt við misheppnaða þjóðfélagsskipan í Rússlandi fyrir um 100 árum og aðra misheppnaða tilraun Hugo Chávez í Venezúela. Hér ræður sú orðræða sem hæst hefur, því miður óháð því hvort hún er sönn eða rétt.

Orðræðan í Bandaríkjunum sem Trump og hans fólk veðjar á er einfaldlega svona:

 1. Sósíalismi er stórhættulegur, eykur eymd allra.
 2. Demókratar eru sósíalistar, þeir kalla yfir okkur eymd.
 3. Þar af leiðir, það er hættulegt að kjósa demókrata, líf þitt endar í eymd.

Og ef einhverjum demókrata gengur vel, eins og Andrew Gillum í Florida þá er strategían að tala um versta sósíalistann, þann hættulegasta. Bandaríkjamenn gleypa við þessari barnalegu orðræðu af því að vinstra fólk er yfirleitt svo lélegt að svara fyrir sig. Það fer í vörn og flestir reyna að svara að þeir séu ekkert svo miklir sósíalistar. Reyna að afmá eitthvað af skítastimplinum sem Trump er búinn að festa á þá. Það dugar aldrei. Það verður að svara með „anti-branding“ þ.e. að kalla Trump og félaga hans sínum réttu nöfnum sem vekja upp hugsanir um að það kunni að vera hættulegt að kjósa þá. Því miður er enginn demókrati í Bandaríkjunum líklegur til að ná að svara umræðunni með því að berjast til baka og sækja á Trump, allir eru aðeins að verjast orðræðu hans með því að segjast ekki vera svo miklir sósíalistar. Með því þá viðurkenna demókratar að sósíalisti sé slæmt orð og viðurkenna líka að þeir séu að einhverju leyti sósíalistar.

Á Íslandi er orðræðan að þróast í svipaðar áttir. Verkalýðsfélög eru í sterkri umræðu og nota allskyns orð um sig á meðan andstæðingar þeirra hér á landi eru byrjaðir að taka upp sömu orðræðu og Trump: Að verkalýðsfélög vilji bara sósíalisma (sjá hér og hér):

   

Hér er einnig notað „vofa“ og „Karl Marx“ og það tengt við andstæðinga Sjálfstæðisflokks. Að ramma inn umræðuna með þessum hætti virkar á marga og þess vegna verður fólk sem ætlar sér að ná tökum gagnstæðri umræðu að færa hana eitthvað en að tala um sósíalisma. Það verður að breyta um orð. Það er ekki hægt að sigra með því að játast undir umræðuna að vera sósíalisti, jafnvel þó einstaklingar neiti því orði; á meðan enginn fer að nota annað orð þá er umræðan römmuð í kringum það hvort andstæðingurinn sé sósíalisti, mikill eða lítill. Þannig fær fólk í umræðunni, eins og Áslaug Arna hér að ofan, margt fólk á sitt band af því þeir tengja verkalýðsbaráttuna og vinstra fólk við sósíalisma og vofu Karl Marx. Misheppnuð konsept úr fortíðinni. Sterk innrömmun, það má Áslaug Arna eiga. En veikt hjá þeim sem tala gegn henni að ramma ekki umræðuna einn á annan hátt. Fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn? Bara það að vera ekki sósíalistar? Hvaða orð væri hægt að nota til að lýsa þeim sem eru í nánu sambandi við fámennan hluta þjóðarinnar?

Verkalýðsfélög, vinstra fólk og aðrir sem vilja nota krafta í þágu almennings verða að ramma umræðuna inn upp á nýtt. Eyðileggja innrömmunina um hvort einhver sé sósíalisti. Taka þann umræðuramma út úr umræðunni og setja umræðuna í annan ramma. Draga athyglina að öðrum tengslum. Þetta er stór áskorun fyrir margt vinstra fólk því það er óvant því að beita sér með öflugum hætti í umræðunni.

Hér er dæmi þar sem rammi umræðunnar veikir þann sem talar. Það er gott hjá Sólveigu Önnu að vinna að því að bæta kjör almennings, einkum þeirra lægst launuðu, en það veikir umræðuna af hennar hálfur að tala sin inn sem andstæðing borgarastéttarinnar. „Borgarastéttin verður tjúlluð ef henni er ógnað“.

 

Íslendingar hafa ekki það skýra stéttasýn að þeir átti sig á því að borgarastétt sé eitthvað annað en almenningur. Þess vegna er Sólveig Anna að tala í raun gegn almenningi með þessari orðræðu, þegar hún er vafalítið að reyna að tala til alls almennings.

Það er ekki bara orðið „sósíalismi“ sem er nýjasta orðið sem styrkir hægra fólk, víða um heim um þessar mundir. Það er líka orðið „verkalýður“ sem veikir launaumræðu verkalýðsfélaga. Þetta er orð sem hefur fengið á sig neikvæða ímynd í marga áratugi. Verkalýðshreyfingin verður því að finna ný orð, hætta að kenna sig við „verkalýð“ og hætta að taka þátt í umræðu um hvort hún sé eða ekki að ýta undir „sósíalisma“. Endurhanna orðræðuna, tala út frá sínum hagsmunum og ná að tala til allra. Um andstæðinga sína hefur verkalýðshreyfingin oft talað um „auðvald“ og það er ekki sterkt orð heldur, nema út frá því að styrkja ímynd andstæðinga sinna. Auðvald er sá ríki og hver vill ekki vera ríkur? Sá sem talar gegn auðvaldi er því ekki ríkur og hver vill samsama sig við þann hóp? Já, ég veit að þetta er ekki rökrétt því orðið „auðvald“ er neikvætt orð en það er bara ekki gott orð til að afla sér fylgismanna. Ekki tala um að andstæðingar þínir séu ríkt fólk því svo margir vilja vera ríkir. Ekki tala um þig sem verkalýð því það er allt of neikvætt orð til að margir vilji samsama sig við það.

Ekki er það þó þannig að hægra fólk sé með pálmann í höndunum í umræðunni allri. Hægra fólk aðhyllist oft gamaldags gildi; vill upphefja þann harða og ákveðna og elskar ennþá yfirborðskennda orðræðu með klisjukenndum orðum. Dæmi má taka af formanni SA sem hefur aðhyllst þessa tegund af orðræðu og talað nokkuð oft án þess að ná til almennings. Hér er dæmi:

„Aðal­atriðið núna er að standa vörð um þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur á und­an­förn­um árum. Það á að vera sam­eig­in­legt mark­mið okk­ar allra.“

Þetta er ekki orðræða sem nær til almennings. Þetta er klisjulegt og hefur litla tengingu við þau gildi sem skipta fólk miklu máli. Kjarabaráttan verður erfiðari fyrir atvinnurekendur ef formaður þeirra nær ekki að tala sig einlægt inn í þau gildi sem skipta fólk máli.

Þannig að styrkur hægra fólks er oft sá að vera sækja hart fram í orðræðunni, galli þeirra er að þykja klisjur og gömul gildi ennþá aðlaðandi. Styrkur vinstra fólk er að geta tengt við mörg gildi sem skipta almenning meira máli en áður en galli þeirra er að setja sig oft inn í umræðuna sem veika aðilann sem sækir ekki fram. Barátta næstu mánuða mun aðallega fram með orðum og hvernig konseptin eru römmuð inn. Út frá þeim kemur í ljós hverjir munu sigra umræðuna.