Að létta á byrðum lífsins

Hver Íslendingur þarf að bera aukabyrðar á sínum herðum, í gegnum lífið, sem flest fólk í nágrannalöndum þarf ekki að bera. Þetta er kostnaðurinn við að hafa íslenska krónu. Það er hægt að áætla hver þessi aukakostnaður er fyrir meðalmanninn út frá nokkrum borðleggjandi staðreyndum:

 1. Algengir vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru 4-7% en 1-3% í nágrannalöndum.
  Skuldir einstaklinga á Íslandi eru um 2000 milljarðar króna.
  Íslendingar greiða því um 80 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna húsnæðislána.
 2. Vextir á yfirdráttalánum á Íslandi eru 22% en 5-10% í nágrannalöndum.
  Heimilin hafa um 78 milljarða í yfirdráttarlán.
  Íslendingar greiða því um 16 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna yfirdráttarlána.
 3. Kostnaður Seðlabanka við að halda út gjaldeyrisforða er 17-20 milljarðar á ári.
 4. Fyrirtæki þurfa einnig að greiða mikið aukalega vegna íslensku krónunnar, en sá kostnaður fer beint út í verðlag sem almenningur borgar að stórum hluta á endanum. Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir því af hverju mjög margt er miklu dýrara hér á landi heldur en sambærilegum löndum eins og Færeyjum, þar sem flutningskostnaður er tiltölulega hár og byggðir afskekktar. Yfirdráttur fyrirtækja var skv. nýlegum tölum 118 milljarðar.
  Íslensk fyrirtæki greiða því um 20 milljarða aukalega vegna krónunnar á ári, bara vegna yfirdráttarlána.
  Eftir er að telja ýmis önnur lán, t.d. skuldabréfalán og aðra fyrirgreiðslu sem hefur í för með sér aukakostnað vegna íslensku krónunnar.

Hér erum við því að tala um að íslenskur almenningur þarf að greiða um 140 milljarða vegna krónunnar á ári. Þetta er umframþyngdin sem íslenskur almenningur þarf að bera sem hann þyrfti ekki að draga á eftir sér, værum við með lágvaxtagjaldmiðil, eins og evru. Og við vitum það, þegar við leggjum af stað í gönguferð, að við verðum þreytt og gögnum hægar ef bakpokinn er þungur. Þetta er veruleiki Íslendinga og hefur verið í ein 100 ár. Þessar tölur breytast jú yfir tíma, eru mismunandi á milli fólks og breytast líka mjög eftir því hvar á æviskeiðinu hver er staddur.

Þetta eru gróflega áætlað tvenn mánaðarlaun á ári fyrir hvern hinn vinnandi launþega á Íslandi. Íslendingar þurfa að leggja á sig það sama eins og ef þeir væru að vinna fyrir 14 mánuðum á hverju ári, þegar aðrar þjóðir vinna aðeins fyrir hinu venjulega almanaksári, 12 mánuðum.

Þessu kerfi íslensku krónunnar er viðhaldið af þeim sem hagnast af þessu ástandi: Fjármagnseigendum, bönkum, fjárfestingarsjóðum og öðrum þeim sem lána peninga og geta tekið tvö- til þrefallt aukagjald, miðað við aðra sem lána peninga í helstu nágrannlöndum.

Þetta er veruleiki Íslendinga:

Á myndinni má sjá að Íslendingar sætta sig við eina hæstu vexti í veröldinni, hærri vexti en t.d. í Albaníu, Makedóníu, Bosníu og Grikklandi. Meira að segja Færeyjingar hafa 3 sinnum lægri vexti á húsnæðislánum en Íslendingar. Til að breyta þessu þarf að breyta um strategíu, ekki er lengur nóg að hrópa „Við viljum lægri vexti“ – það er búið að hrópa slíkt í áratugi, án árangurs. Taktíkin og orðræðan þarf að breytast. Beinum sjónum okkar að þeim sem hagnast á kerfi verðtryggingar á Íslandi.

 

 

Svona er hægt leysa hnútinn í laxeldismálum á Íslandi

Nú er hart deilt um laxeldismál og eru tveir hópar sem nefna þessi rök í málinu:

#1: Eigendur og starfsmenn laxeldisfyrirtækja, og Vestfirðingar margir hverjir, nefna þetta:

 • Það verður að leyfa laxeldi, sama hvað það kostar, það er verið að reyna að viðhalda atvinnu á Vestfjörðum.

 • Vestfirðingar geta ekki misst stóran atvinnurekenda sem veitir mörgum vinnu.
    
 • Það sé í lagi þó að lax sleppi, hann mengar náttúrulega laxastofninn ekkert svo mikið.
    
 • Margt fólk á Vestfjörðum sem hefur ætlað sér að vinna við laxeldi er nýbúið að kaupa sér fasteign o.fl. og það er ekki hægt að kippa undan þeim fótunum, bara allt í einu.

#2: Náttúruverndarfólk, umhverfisverndunarsinnar, eigendur laxveiðiáa, almenningur sem á afkomu sína undir margvíslegum störfum tengdum laxveiðiám, nefna þetta:

 • Það gengur ekki að leyfa laxeldi í opnum sjókvíum, það sleppur alltaf nokkuð af laxi úr kvíum, sem fer upp ár og smitar náttúrulega stofninn og eyðir náttúrulegum eiginleikum hans (erfðarmengun). Laxeldi verði að vera í lokuðum kvíum. Víða í Noregi og Kanada hafa menn séð náttúrulega stofninn hverfa að hluta eða að mestu leyti úr ám þar sem eldi hefur verið nálægt. Sjá umfjöllum „Framtíð laxeldis er í lokuðum kerjum“ (sjá hér).
    
 • Það er gríðarleg mengun af eldislaxi, hver 10 þús tonn í eldi jafngilda sama úrgangi og 150 þús manna byggð. Mengun laxeldis á Vestfjörðum samsvarar því sömu mengun og allt höfuðborgarsvæðið sendir frá sér árlega. Mengun er bæði vegna skíts frá laxi og vegna afgangs fóðurs sem laxinn borðar ekki (sjá hér).
    
 • Útrýming dýrategundar (náttúrulega laxastofnsins) er líkleg niðurstaða ef laxeldi verður áfram leyft í götóttum eldiskvíum. Óháðar rannsóknir sýni að ef 10-20% innflæði sé inn í laxveiðiár í allt að 40 ár þá sé náttúrulegi stofninn búinn.
    
 • Það sé lágmarkskrafa að eigendur laxeldisfyrirtækja gangist undir sömu kröfur um vernd gagnvart náttúru eins og í nágrannalöndunum þar sem nær allt nýtt laxeldi nú verður að vera í lokuðum sjókvíum. Þessari norsku skýrslu (sjá hér) er gjarnan dreift til að sýna mengun og neikvæð áhrif frá laxeldi. Norskir eigendur laxeldis á Íslandi séu komnir hingað til lands af því hér á landi er miklu lélegra regluverk, eftirlit og að hér þurfi ekkert að greiða fyrir leyfin en í Noregi hefðu eigendur laxeldis á Vestfjörðum þurft að greiða 30-45 milljarða fyrir leyfi sem búið er að veita hér ókeypis.
    
 • Það eru 2700 manns sem vinna við laxveiðiár á Íslandi og störf þeim tengdum, en aðeins um 100 manns sem starfa við laxeldi nú og í mesta lagi 500 manns sem munu starfa við laxeldi ef öll leyfi sem Hafró telur fræðilegt að veita séu veitt, en það væru þá um 70 þús tonn. Það er því ekki verið að vernda störf með því að leyfa laxeldi í óþökk náttúrunnar, það er verið að fækka störfum í heild, bæði á Vestfjörðum og víðar.
    
 • Erfðamengun, margir nýjir sjúkdómar, margföld tíðni laxalúsar eru hluti af þeim afleiðingum sem við sjáum ef opið laxeldi er stundað í kvíum sem leka.

Þegar allar röksemdir eru skoðaðar þá er þetta ljóst:

 • Það verður að finna leið til að leyfa laxeldi við Ísland, þetta er atvinnutækifæri.
 • Það er ekki hægt að leyfa laxeldi sem lekur, sem mengar ár og umhverfi.

Þess vegna virðist bara vera ein leið sem er möguleg til að
leysa hnútinn í laxeldismálum á Íslandi:

Að leyfa laxeldi á Vestfjörðum og víðar en að hafa allt laxeldi
í lokuðum sjókvíum eða uppi á landi, eins og víða er farið að
gera aðeins hér á landi en víða í öðrum löndum. Það myndi koma
í veg fyrir blöndun við náttúrulegan stofn og þá væri hægt að
farga úrgangi í takt við nútíma umhverfisreglur.

Og að taka sama gjald og gert er í Noregi, Kanada og víðar
en slíkt gjald myndi skila íslenska þjóðarbúinu 30-45 milljörðum
og enn hærri upphæðum ef farið verður nær tillögum Hafró að
leyfa allt að 70 þús tonna eldi (verð í Noregi er 1,5 millj. pr. tonn)

—  —  —

Þarna liggur reyndar ákveðinn hundur grafinn. Norskir eigendur eru hugsanlega ekki tilbúnir að hlíta sömu reglum hér og í Noregi, að greiða gjald fyrir leyfin og að hafa allt eldi í lokuðum eldiskvíum því þá munu þeir líklega velja að hætta allri starfsemi hér á landi og starfa alfarið í Noregi, eða finna önnur svæði í heiminum þar sem regluverk er lítið, gjald fyrir leyfi sé ekkert og lágar kröfur um umhverfisvernd. Nú er þeirra kjörlendi Ísland en við vonum að umhverfið muni ekki bera langvarandi skaða af þessari starfsemi hér á landi. Ef við setjum þessar kröfur um gjald og lokaðar sjókvíar þá hef ég þá trú að sú kunnátta sem komin er á Vestfjörðum í laxeldi geti þá í framhaldi leitt til þess að Vestfirðingar sjálfir byrja á eldi í lokuðum kvíum og fái aðlögunartíma fyrir gjald sem þyrfti að greiða á meðan verið er að koma upp þessum iðnaði í höndum heimamanna eins og möguleg niðurstaða verður. Sú niðurstaða er hins vegar mjög jákvæð fyrir Vestfirðinga. Að ef norskir eigendur eru ekki tilbúnir að undirgangast sömu gjöld og umhverfisstaðla og þeir gera í Noregi að þá sé hægt að halda starfsemi áfram á vegum heimamanna.

 

 

 

Erum við hálfnuð í eftirvinnslu hrunsins?

Breytingar á Íslandi eftir hrun voru fyrst og fremst breytingar á gildum fólks, væntingum, áherslum og vonum. Stutta útgáfan er að við hættum að líta upp til gömlu gildanna um áhættusemi, hörku, karllægra sjónarmiða og hættum að líta á ríkidæmi sem töff. Vissulega er eftirsóknarvert að hafa vel rúmlega í sig og á en það sem breyttist eftir hrun var að fólk fór að bera virðingu fyrir öðrum gildum en efnahagslegum.

Í stuttu máli má segja að þetta sé breytingin á þeim gildum sem hófst af fullum þunga í hruninu og stendur enn yfir, því svona breytingar á gildum geta gjarnan tekið 10 ár til að ná alveg í gegn.

Það er fróðlegt að skoða hvar nýju gildin hafa náð fótfestu og hvar ekki því það segir okkur til um hversu langt við erum komin í átt að þeim breytingum sem við vildum stefna að í kjölfar hrunsins. Stóra spurningin er því þessi:

Hvar hafa nýju gildin náð fótfestu og hvar ekki?

Stjórnmál
Við sjáum að valdið og valdakerfið er ekki lengur hafið yfir annað í tilverunni. Þess er krafist að sanngirni ríki á öllum stigum valds og því er misnotkun valds, sem var algeng hér á árum áður, mjög á undanhaldi. Samvinna hefur einnig aukist þó að sum öfl streitist þar á móti. Aukin áhersla er einnig lögð á umhverfi og náttúruvernd og það þykir beinlínis hættulegt fyrir stjórnmálalegan feril að taka lítil tillit til þeirra gilda. Krafan um dreifingu valds er einnig sterk og jafnframt krafan um samfélagsleg gildi en þar undir er krafan um aukið gagnsæi sem er mjög sterk um þessar mundir. Það er helst í stjórnmálum að það gengur hægt að ná breytingum fram. Það gegnur hægt að ná fram gagnsæi, dreifingu valds og að aðilar séu látnir axla ábyrgð. Krafan um gildi fólksins í landinu og að það sé unnið fyrir þann hóp er einnig rík (andstæða elítuisma) og það gengur mjög hægt fyrir stjórnmálin að hraða breytingum á því sviði. Krafan um einlægni, það að segja satt og lýsa stöðunni rétt, eins og hún er á hverjum tíma, er einnig að tefja stjórnmálin nokkuð í átt að nýjum gildum.

Stjórnmálin þurfa því að hraða breytingum á þessum gildum til að svara kalli þjóðarinnar, en þannig mun traust aftur byrja að aukast á stjórnmálastéttinni:

 • Auka gagnsæi og önnur samfélagsleg gildi.
 • Auka áherslur á gildi og þarfir fólksins í landinu, minnka áherslu á að þjóna sérhagsmunum á kostnað heildarinnar.
 • Einlægni í tilsvörum við á opinberum vettvangi og við fólkið í landinu er oft ekki nægjanlegt. Gjarnan er farið í kringum hlutina og aðstæðum ekki lýst eins og þær eru, af því að það er landlægur vani í íslenskum stjórnmálum að segja aðeins frá hluta máls, í von um að það geti skapað viðkomandi sterkari stöðu í framhaldi.

Fjármálakerfið
Fjármálakerfið er einn sá þáttur samfélagsins sem hefur gengið hvað hægast í að ná umbreytingu eftir hrun. Innan frá hefur ekki mjög mikið breyst þó að það sé verið að kalla fram nýja ásýnd um nýgildi, í þeirri von að skapa traust. Slíkt hefur gengið hægt eftir hrun því enn eru bankarnir með mjög litla tengingu við traust, rétt eins og lífeyrissjóðir. Krafan um fjölbreytileika hefur aukist mikið og hafa bankar og fjármálafyrirtæki aðeins gengið í jákvæða átt hvað þetta varðar. Einnig eru fjármálafyrirtæki áhættufælnari en áður var en að mestu eru þá upptalið af þeim þáttum sem þeir hafa náð sterkum tökum á.

Fjármálakerfið þyrfti því að ná sterkari tökum á þessum umbreytingum á átt að nýjum gildum, ætli þeir að svara kalli almennings:

 • Ofuráhersla á hagnað er vissulega kjarninn í bankastarfsemi en er engu að síður í takt við gömu gildi. Fólk getur alveg skilið mikilvægi þess að hagnast vel en verður ósátt ef það skynjar að hagnaður sé það eina sem rekur bankafólk áfram. Hagnaður þarf því að ríkja í sátt við aðra þætti þar sem samfélög fái betur að njóta þess þegar vel gengur. Ættu bankar að skoða, smátt og smátt, einhver skref í þá átt að taka upp deilihagkerfi að einhverju leyti þegar vel gengur þannig að fleiri fái að njóta haganaðar. Hagnaðurinn kemur frá viðskiptavinum og skyldir aðilar eiga að njóta hans upp að ákveðnu marki, samkvæmt þeim kröfum um ný gildi sem eru uppi.
 • Kuldaleg framkoma, að vera einstrengislegur, ofuráhersla á reglur, lítil mannleg nálgun eru allt gildi sem fjármálafyrirtæki ná mjög litlum árangri í að sýna.
 • Að vera fjarlægur, stór, öflugur, yfirstétt, ofar öðrum eru einnig gildi sem fjármálafyrirtækjum gegnur ill að að skilja og ná tökum á.
 • Karlæg sjónarmið, harka og yfirgangur er því miður enn ákveðinn hluti af kúltúr í fjármálafyrirtækjum og virðist ganga hægt að ná að tengja sig við nýrri gildi, sem krafa er um í dag.
 • Mikil krafa er í garð fjármálafyrirtæki um aukið gagnsæi og sanngirni í garð viðskiptavina en fjármálafyrirtækjum hefur gengið illa að komas til móts við þau gildi.

Fyrirtækjamenning og stofnanir
Fyrirtækjamenning er á margvíslegan hátt að glíma við gamaldags, karllægan kúltúr sem margir halda í vegna þess að það er þeirra aðferð til að halda völdum. Lausnir síðustu ára um kynjakvóta ekki náð að vinna á þessum gömlu gildum eins hratt og fólk er að gera kröfu um (sjá nýlega frétt). Krafan um aukið gagnsæi er einnig sterk í garð fyrirtækja og þó að þeim gangi betur en bönkum að ná tökum á þeim þá er enn langt í land m.v. þær kröfur sem eru uppi. Einnig er í gangi ákveðin glíma við ofuráherslu á sterka hagnaðarþörf án þess að ábata sé alltaf dreift til samfélagsins, eins og ný gildi gera kröfu um. Að öðru leyti er margt jákvætt í fyrirtækjakúltúr, almennt séð og ýmis teikn á lofti að þar gangi ágætlega að innleiða þau nýju gildi sem krafa er gerð um í samfélaginu.

Almenningur
Það má segja að almenningi hafi gengið einna best í að tengja sig við ný gildi eftir hrun. Almenningur er sá hluti samfélagsins sem leiðir breytingar í átt að nýjum gildum fyrir þjóðfélagið í heild á meðan fjármálakerfið og fyrirtækjamennig að einhverjum hluta hluta er að streitast á móti. Einnig er það stjórnmálakerfið sem nær ekki nógu hratt að ganga brautina í átt að nýjum gildum. Almenningur leiðir baráttuna, gerir kröfur og vill að aðrir gangi hraðar á sömu braut.

Staðan nú
Í heild má því segja að Ísland sé komið ágætlega í gang með að tileinka sér þau gildi sem krafa hefur verið gerð um, eftir hrun. Almenningur stendur sig ágætlega en innviðir samfélagsins eru töluvert á eftir, einkum stjórnmálastéttin og svo fjármálageirinn. Gróflega má segja að við séum komin nálægt því að vera hálfnuð, svona fljótt á litið, þó að vissulega sé erfitt að leggja nákvæman mælikvarða fram þar um.

—  —  —

Sjáum við merki um að það sé verið að streitast á móti breytingum?
Það eru mörg skýr merki um slíkt, hér eru nokkur dæmi:

 • Hæðni og hótfyndni er mjög komið úr tísku – tilheyrir gömlum gildum sem eru á útleið; slíkt má sjá t.d. í skopmyndum og leiðurum og orðræðu þeirra sem vilja halda í tímana eins og þeir voru.
 • Orðræða um að gamlir flokkar sem voru öflugir einu sinni, eigi að vera við stjórnvölinn, af því að þannig var það einu sinni.
 • Afneitun og firring þegar málefni eru rædd; sannleikans ekkert endilega leitað; ríghaldið í sjónarmið hagsmunahópa og ætlast til að þau valti yfir hagsmuni almennings; yfirgangur og frekja.
 • Tregða stjórnmálamanna, stofnanna og oft fyrirtækja til að streitast á móti gagnsæi.
 • Vaxandi ójöfnuður í samfélögum, víða um heim, er greinilegt tákn um tregðu til að meðtaka ný samfélagsleg gildi sem aukin krafa er um, ekki bara á Íslandi, heldur einnig um víða veröld.
 • Aukin samþjöppun valds og tengsl fyrirtækja og stjórnmálamanna (ógagnsæi) eru einnig dæmi um þróun sem er í þá átt að viðhalda gömlum gildum fortíðar.

Traust er beintengt breytingu á gildum
Nú er mikið rætt um að auka traust á stjórnmálum og þeim kerfum sem halda þjóðfélaginu saman. Eru ýmsar leiðir ræddar í þeim efnum sem margar eru góðra gjalda verðar. Stóra myndin í þessum efnum felst þó í því að stjórnmálin tileinki sér ný gildi sem almenningur gerir kröfu um. Traust á stjórnmálum mun ekki aukast að ráði fyrr en almenningur fær það á tilfinninguna að stjórnmálin séu komin ágætlega á veg með að tileinka sér þau nýju gildi sem fólk er að kalla eftir. Í dag eiga stjórnmálin töluvert langt í land, einkum þegar reynt er að gera það utan frá, í stað þess að gera það innanfrá.

 

#metoo færist á næsta stig

Þó að #metoo byltingin hafi byrjað fyrir ári síðan, í október 2017, er hún bara rétt að byrja. Í byrjun var sjónum beint að frægu og valdamiklu fólki og sem hafði sýnt af sér ofbeldi, kynferðislega misnotkun og áreitni innan skemmtanaiðnaðarins og beitt þöggun á slík mál í skjóli þess að það hafði fé og vald.

Næsta stig af #metoo er að birtast um þessar mundir og þar verður kastljósinu beint að venjulegu fólki en ekki bara þekktu fólki. Þetta er #metoo númer 2 þar sem sjónum verður ekki aðeins beint að kynbundinni misnotkun og þöggun heldur einnig gagnvart yfirgangi þeirra sem vilja reyna að þagga niður réttmæta umræðu sem leitar upp á yfirborðið. Þetta gerist því miður oft innan fyrirtækja þar sem sett er í gang sýndarbrottrekstur eða að manneskju er haldið niðri til að þagga niður umræðu um mál sem eru óþægileg. Þess vegna er #metoo númer 2 bylting fyrir almennu réttlæti, sanngirni og gagnsæi.

Við erum þegar byrjuð að sjá æ fleiri tilvik þar sem ekkert ofbeldi, yfirgangur eða áreitni verður liðin. Og þá gildir einu hvort um er að ræða frægan kvikmyndaleikara eða vaktstjóra í pizzugerðar-fyrirtæki í Kópavogi. Allt er lagt undir og skoðað í #metoo númer 2. Við öll erum komin inn á radarinn og skilaboðin eru að almennt réttlæti skuli hafa í heiðri, allir skuli njóta sanngirni og að gagnsæi skuli ríkja um flest mál. Og ekki bara gagnvart kynbundinni misnotkun heldur gagnvart öllum yfirgangi, frekju og ósanngirni.

Dæmin sem hafa birst innan OR og ON að undanförnu eru í þessum anda. Þar stendur ung kona upp og mótmælir fáránlegri framkomu sem hefur verið normalíseruð og álitin saklaus af samfélagi sem fylgir ekki tíðarandanum. Það sem er breytt nú er að það er ríkulega hlustað á öll slík mótmæli. Það maldar enginn í móinn lengur né felur sig á bak við luktar dyr. Þeir sem reyna það munu þurfa að hætta. Þeir sem hafa merkt sig með gildum gamla tímans þurfa líka að hætta. Og þau fyrirtæki sem hafa leyft rembulegri menningu að þrífast þurfa að fara í alsherjar þvott. Það er ekki lengur hægt að fela sig á bak við trúnaðarupplýsingar, það er ekki lengur hægt að segjast ekki hafa vitað og segjast ekki ætla að tjá sig frekar um málið. #metoo er mætt í útgáfu númer tvö og þá er enginn undanskilinn og enginn aðgöngumiði að gamla tímanum er umborinn. #metoo var ekki bara tímabundin bylting á haustmánuðum 2017 heldur var upphafið að bylgju réttlætis sem mun lifa því við viljum öll kveðja yfirgang, ofríki, frekju og þöggun og sjá ný gildi setjast að í stað þeirra gömlu.

—  —  —

#metoo byltingin var að sumu leyti fyrirséð því hún er alveg í takt við annað sem hefur verið að gerjast í þjóðfélaginu nokkur misseri á undan. Ég var í London 2014 með fólki úr fjármála- og tæknigeiranum með fyrirlestur í því sem ég kallaði „The Great Value Shift“ – hin stóra breyting á gildum sem var að byrja að ryðja sér til rúms í samfélaginu, í kjölfar hrunsins. Þar leiðbeindi ég fólki úr þessum geirum og er nokkuð fróðlegt að skoða þessar glærur úr þessu námskeiði frá 2014 og hér má sjá eina af glærunum sem ég fór yfir:

Þarna byrjaði ég að tala um að miklar breytingar væru að eiga sér stað um allan vestræna heiminn og jafnvel um veröld alla. Þessar breytingar væru það kraftmiklar að það þýddi ekkert að ætla sér ekki að vera hluti af þeim því þá gæti maður allt eins hætt sínum starfa. Verst munu þeir fara sem streitast á móti.

Þarna messaði ég yfir bankafólki sem reyndi af breskum kurteisismætti að reyna að skilja og sjá dæmi um þessar breytingar í nútímanum þá. Minnihluti þeirra tengdi við þessa orðræðu þá, þótt ekki séu nema 4 ár síðan. Fólk var vant því að það væri eftirsótt að tilheyra þeim stóra, sterka, valdamikla; þeim óskeikula sem hefði valdið og réði för. En margt hefur breyst síðan þá.

Ég hef nokkrum sinnum talað um breytingu á gildum síðan þá og hér er það í íslenskri útgáfu frá 2015:

Þessi nýju gildi sem eru að festa rætur ganga flest út á aukinn fjölbreytileika, meiri sanngirni og mýkt og að allur yfirgangur og mannleg óvirðing sé í öllum tilvikum óásættanleg. Þetta er ákveðinn kjarni sem ummyndaðist svo í #metoo byltingunni sem ekki sér fyrir endan á.

 

 

Hver er stóri óvinurinn sem við þurfum að varast?

Stærsta blekking samtímans er að fátækt fólk af öðrum litarhætti sé mesta ógn okkar á Vesturlöndum. Og þess vegna þurfum við öll að nær loka landamærum okkar og loka þannig á jákvæð, góð samskipti við umheiminn (krafan um að loka Schengen). Þessari fásinnu trúir Flokkur fólksins.

En þegar áföll, ofbeldi, árásir og ógn í okkar samtíma er skoðuð þá er það alls ekki fátæka fólkið af öðrum litarhætti sem er nein sérstök ógn heldur væri það miklu fremur auðsöfnun fárra á kostnað margra. Ef 1% þeirra sem eiga mest og vilja sannarlega eignast meira þá er það mesta ógn samtímans, því þannig heldur það áfram, að næstum allt sé tekið frá næstum öllum. Fátæka fólkið af öðrum litarhætti tekur ekki neitt frá neinum, en þarf jú hjálp og þess vegna er svo auðvellt að gera það að blóraböggli og fá almenning til að trúa því að þar sé óvin að finna sem sé að taka frá þeim peninga, menningu, gildi og vel uppbyggða samfélagsgerð. En hvor „óvinurinn“ ætli að rífi mest niður góð gildi sem búa til okkar góða samfélag?

Hrædda fólkið, fólkið í Flokki fólksins og einnig margir í Miðflokki (og víðar), hefur fallið kylliflatt fyrir söluræðunni frá þeim sem skapar aðal ógnina, um að óvinir séu ekki þeir sjálfir heldur nokkrir heimilislausir smælingjar á ysta jaðri heimsins. Það mætti íhuga að tilnefna þetta markaðsherferð ársins því það er ótrúlegt að svo augljós ógn geti selt svo mörgum hugmyndina að smælingjarnir séu helsta hættan í veröldinni nú.

Stóra ógnin sem við þurfum að berjast gegn er því miklu meira eitthvað í áttina að þessu:

 • Þeir sem skapa mesta ójöfnuðin og auðsöfnun á hendur fáum því þannig veikist lýðræði og þannig töpum við okkar verðmætustu gildum.
 • Þau stjórnvöld sem stunda enn söluræður fyrir þeirri ógn að það þurfi að eyða stórum fjármunum til stríðsrekstrar, í stað þess að byggja upp vellíðan, menntun, upplifun og heilbrigði.
 • 1% efnuðustu viðskiptablokkir veraldar, þar með talin 10% af stærstu fyrirtækjum heims.
 • Þeir sem vinna gegn gegnsæi, bæði þjóðarleiðtogar og fyrirtæki.

Hér nefni ég sérstaklega stærstu fyrirtæki heims og neikvæð áhrif þeirra á lýðræðið eru því miklu meiri ógn heldur en fátæku smælingjarnir. Það er magnað að það sé hægt að fólk til að gleypa við þessu. Jafn mögnuð sölumennska eins og t.d. ef selja ætti kók og Mountain Dew sem heilsudrykki sem lagi ólæknandi kvilla. Fáðu þér kók gegn krabbabeini! Það þyrfti magnaða söluræði til að fá einhverja til að gleypa við því.

Samt trúa einhverjir því t.d. í Flokki fólksins, t.d. alþingismennirnir Inga Sæland og Karl Gauti Hjaltason, að mesta ógnin í samtíma okkar séu fátækir smælingjar sem engin völd hafa, enga fjármuni, enga getu til að hafa áhrif á stóru málin í heiminum. Þau hafa fallið fyrir einu magnaðasta markaðs-sölutrikki nútímans en til þess þarf maður líklega að vera ansi blindur á staðreyndir samtímans og ginkeyptur fyrir sleipum söluræðum. Þetta er meira að segja svo magnað, einkum í tilfelli Flokks fólksins, að „hitt“ baráttumál flokksins er sagt vera að hjálpa fátækum: Hjálpa einmitt þeim sem hafa orðið undir í baráttunni við þá sem stuðla að ójöfnuði. En að berjast gegn þeim sem skapa þann ójöfnuð er flokknum alveg fyrirmunað að gera.

Í aðra röndina segist Flokkur fólksins berjast fyrir fátækt fólk á Íslandi. Og til að ná árangri í þeirri báráttu þá vill Flokkur fólksins berjast gegn fátæku fólki frá öðrum löndum af því að það er af öðrum litarhætti, menningarheimi og sprottið úr öðrum jarðvegi en það þekkir sjálft. Það væri ekki hægt að skálda þetta, svona ótrúlegir hlutir gerast bara í raunveruleikanum, í höndum á fólki sem gætir sín ekki á því að líta til beggja átta.

Má ég vera aðdáandi Trumps?

Verstu þjóðarleiðtogar sögunnar hafa yfirleitt gert eitthvað sem má skilgreina sem jákvætt:

Hitler tók vegakerfið í gegn (byggði Autobahn), byggði upp veldi Volkswagen, styrkti rannsókna- og vísindastarf meira en áður þekktist í Evrópu, byggði margar glæstar byggingar (t.d. Olympíuleikvanginn í Berlin) og styrkti vinnulöggjöf mikið, almenningi í hag.

Mussolini (harðstjóri Ítalíu 1922-1943, foringi fasista, Partito Nazionale Fascista) var öflugur í að byggja skóla, vegi og brýr og ýmsa innviði.

Jafnvel einn mesti fjöldamorðingi sögunnar, Mao ZeDong, innleiddi sterk réttindi kvenna í Kína og ríkari félagsleg réttindi en áður höfðu þekkst, styrkti efnahagslífið og jók velmegun, samstöðu og samkennd almennings.

― ― ―

Svona er þetta með flest fólk og flesta þjóðarleiðtoga: Nær allir gera eitthvað sem er gott og margir líka eitthvað sem er slæmt. Það eru auðvitað engin ný sannindi. En þetta varpar ljósi á það hvernig við eigum að hugsa um þjóðarleiðtoga og aðra ráðamenn í samfélaginu um það hvort við séum þeim fylgjandi eða ekki.

Stóra rökvillan, sem algeng er nú á tímum, er að fylgja þjóðarleiðtoga að málum vegna einhverra verka eða eiginleika sem við teljum upp og teljum vera jákvæð, en sleppum að horfa á heildarmyndina.

Þetta eru allt setningar sem ég hef heyrt oft og reglulega frá skynsömu fólki sem þó styður Trump:

 1. Trump er frábær af því hann brýtur niður establismentið og dregur úr valdi elítunnar.
 2. Trump er frábær af því hann er svo ríkur að enginn getur keypt hann eða mútað honum.
 3. Trump er frábær af því hann kann svo vel á viðskipti að hann mun gera Bandríkin enn stærra viðskiptaveldi en nokkru sinni áður.
 4. Trump er frábær af því hann er svo slyngur samningamaður („deal maker“) að hann mun ná öllum hagsmunum Bandaríkjanna fram í langfelstum málum.
 5. Trump er frábær af því hann er hann hefur sýnt það að hann kann að láta draumana rætast (hann er svo gott dæmi um hinn bandaríska draum).

Eitthvað af þessu er mögulega rétt. En ekkert er af þessu er nægjanleg ástæða fyrir því að vera fylgismaður Trumps, nema með því að loka augunum fyrir öðrum áhrifum sem hann hefur á samfélagið. Og að loka augunum fyrir öðrum áhrifaþáttum er það sem svo oft er nefnt „ignorance“ eða firring. Firring er þegar upplýst fólk lokar augunum gagnvart áhrifum leiðtoga en fáfræði er þegar fólk veit ekki betur.

Það er mögulega firring að segjast vera umhverfisverndarsinni en fljúga oft erlendis í erindum sem eru ekki alltaf mikilvæg. Það er einnig mögulega firring að fordæma þá sem enn nota jarðefnaeldsneyti á bíla en gera engar athugasemdir við alla plastnotkun sushi-veitingastaða. Það er líka firring að segja að Trump sé góður forseti af því hann mun draga úr valdi elítunnar (jafnvel þótt hann geri það) af því að það svo margt annað neikvætt sem fylgir veru hans á forsetastóli.

Fylgismenn stjórnmálaleiðtoga þurfa því að spyrja sig: Eru heildaráhrif leiðtogans jákvæð á samfélagið í heild? Býr hann til betra samfélag, þegar allt er skoðað?

Því ef einhver segist styðja Trump út frá því að tiltaka einhver möguleg einstök jákvæð áhrif (brýtur upp elítuna, er svo góður deal-maker o.s.frv.) þá eru það engin rök. Það er eins og Jürgen Fischer, þýskur handverksmaður svaraði árið 1936, þegar hann var spurður um hvort hann styddi Hitler: Já, ég ætla að kjósa Hitler, hann mun gera vegakerfið betra en nokkur annar og byggja hér í Þýskalandi flottustu vegi í heimi. Efnahagurinn mun blómstra og aðrar þjóðir líta til okkar öfundaraugum (sjá The Hitler State: The Foundation and Development Of The Internal Structure Of The Third Reich).

Nei, Jürgen Fischer, þú varst aðeins að horfa á einstaka þætti, ekki á allt og lokaðir augunum fyrir mörgum neikvæðum áhrifaþáttum Hitlers.

Hver eru neikvæðu áhrif Trumps þegar heildin er skoðuð? (Hér er ekki hægt að gera tæmandi lista)

 1. Trump ýtir undir rasisma og hatur á milli ólíkra hópa.
 2. Trump veikir frjálsa fjölmiðla og frjálsa umræðu, sem gerir fólk óupplýstara
 3. Trump ýtir undir ofbeldi í þjóðfélaginu, af hendi lögreglu og á milli ólíkra hópa.
 4. Trump ýtir mjög undir ógagnsæja stjórnsýslu sem kyndir undir spillingu, oft mjög mikla spillingu.
 5. Trump vinnur jafnt og þétt að því að komast sem næst því að verða einráður við stjórn landsins – fagleg sjónarmið verða undir, andverðleikar ofaná.
 6. Trump vill handvelja dómara og forstjóra stofnanna og takmarka þannig víðtæk áhrif margra sjónarmiða.
 7. Trump tekur ekkert tillit til hlýnunar jarðar og mun því hraða á því ferli sem er orðið nógu hratt fyrir.
 8. Trump sýnir fasíska stjórnartilburði sem alltaf hafa endað með ósköpum í veraldarsögunni.
 9. Trump dælir fjármunum í hermál en dregur úr fjármunum til innviða sem gera samfélagið betra.

Og svona mætti lengi telja.

― ― ―

Við getum nefnilega ekki ákveðið hvort Trump sé vænlegur á forsetastóli með því að telja upp lista yfir einstök verk og einstaka áhrifaþætti. Nei, við verðum að hugsa um heildarmyndina og spyrja okkur fyrir hvaða gildi hann stendur. Eru það gildi sem ég aðhyllist? Ljúga, pretta, svíkja, plata, hagræða, níðast á öðrum, lágt siðferði, engin sympatía? Nei, þetta eru gildi sem fæst okkar samþykkja. Það ætti að vera nóg til þess að segjast ekki styðja Trump. Vegna þess að ef við ræðum við Trumpista út frá staðreyndum og einstökum verkum og áhrifaþáttum þá erum við föst. Þeir geta alltaf sagt, eins og Jürgen Fischer að það sé frábært að fá besta vegakerfi í heimi. Við verðum að ræða út frá gildum, því það er þannig sem Trump stendur afhjúpaður, kviknakinn með skítinn undir teppinu í lófanum.

Gildin segja okkur nefnilega hvaða heildaráhrif stjórnmálaleiðtoga munu verða. Þess vegna er miklu betra að hugsa um stjórnmálaleiðtoga út frá gildum heldur en einstökum verkliðum, áherslum og áhrifaþáttum. Prófið að spyrja ykkur í huganum hvaða gildi það eru sem helstu stjórnmálaleiðtogar Íslands standa fyrir.

Og með því að horfa á gildin þá getum við meira að segja unnið kappræður við aðdáendur Trumps og fengið þá til að endurhugsa málin.

Leitum að þjóðarleiðtoga sem gerir samfélagið betra, ekki bara okkar eigin efnahag um stundarsakir. Og með því að spegla þá í gildum þá afhjúpast að einhverju leyti hvort þeir gera samfélaginu gott eða ekki.

Donald Trump virðist aðhyllast nefnilega svipuð gildi og Hitler, Mussolini og fleiri gerðu:

 • Ótakmörkuð græðgi er góð (eigin græðgi, ekki annarra).
 • Þröngsýni og firring er í lagi ef það þjónar mínum tímabundnu efnahagslegu hagsmunum.
 • Einstrengingsháttur, kredda og ofstæki er í lagi gagnvart þeim sem gagnrýna.
 • Lygi er aðeins tæki til að ná sínu fram.
 • Kvenfyrirlitning er aðeins aðferð til að finna fyrir mínu eigin valdi.
 • Harðstjórn, einræði, ósanngirni er í lagi því slíkt eykur völd.
 • Að fremja ódæði og kenna öðrum um er í lagi því það eykur athygli og minnkar eigin sök í erfiðum málum.
 • Þakklæti, samkennd og góðvild er eitthvað sem ekki þarf að leggja áherslu á.

― ― ―

„Worst thing that can happen to humanity“
Þegar þjóðarleiðtogi sýnir gildi eins og búið að lista upp hér að ofan þá sýnir sagan okkur að samfélagið fer hratt niður á við. Raunar má segja að ofangreind gildi, sem finna má bæði hjá Donald Trump og úr sögu Adolfs Hitler, séu öruggur leiðarvísir að það versta sem gerst hefur í veraldarsögunni. Nóg er að lesa bókina Um harðstjórn eftir Timothy Snyder til að sjá varnaðarorðin sem við eigum að hafa í huga ef við sjáum þjóðarleiðtoga sem aðhyllast ofangreind gildi.

Það er því raunveruleg hætta af þeim gildum sem Trump aðhyllist. Tölum út frá þeim því það er okkar allra að fylgjast með og vara við, horfa á heildarmyndina og benda á afleiðingar ógnvænlegra gilda sem hafa áður gert mikinn skaða í veraldarsögunni. Hættum að rífast við aðdáendur harðstjóra um það hvort einstök verk eða einstakir áhrifaþættir séu jákvæðir eða ekki. Tölum út frá gildum og fáum fólk til að tengja sig við þau. Þá verður umræðan ögn vitrænni.

 

Þegar lýðræðið er sett á ís

Í hverju landi ríkir stjórnarfar sem fær virðulegt nafn. Á Íslandi heitir það „lýðræði“ í daglegu tali eða „þingbundið lýðræði“ (Unitary Parliamentary Republic) þegar rætt er á nákvæmari nótum.

Nú gleðjumst við réttilega oft yfir því að lýðræði sé á Íslandi. En við sjáum það út frá öðrum löndum að það er ekki nóg að hafa skilgreint lýðræðislegt stjórnarfar til að tryggja að lýðræði sé virkt í viðkomandi landi. Við sjáum að löndin eru mörg sem hafa sama stjórnarfar og á Íslandi en þó má örugglega segja að raunverulegt lýðræði sé mjög mismunandi í þessum löndum og að áhrif „lýðsins“ eða almennings séu mjög mismunandi:

Þannig að virkt og raunverulegt lýðræði þarf alls ekki að vera til staðar þó að land hafi þingbundið lýðræði. Því ef við nostrum ekki við lýðræðið þá getur lýðræðið boðið heim hættum sem grafa undan því. Spilling, flokksræði, leynd og sérhagsmunahópar eiga nefnilega miklu greiðari leið að ná fótfestu í lýðræðislegu umhverfi ef lýðræðið er þannig hannað að það er hægt að hunsa vilja almennings. Þá geta þessi öfl, sem eru andstæðingar lýðræðis, náð fótfestu og breytt lýðræði yfir í fáræði í nafni lýðræðis – þar sem vilji fárra ræður þvert á vilja margra. Færa má rök fyrir því að þetta sé að einhverju leyti staðan í mörgum þeirra landa sem eru á listanum í töflunni hér ofar.

Eina leiðin til að breyta því að lýðræði komist í hendur fárra og breytist í fáræði er að koma í veg fyrir það að stjórnvöld geti hunsað vilja almennings í stórum og veigamiklum málum. Nægir að hugsa um mál eins og heilbrigðismál, nýja stjórnarskrá, ákvarðanir í hruninu og margar aðrar þar sem stjórnvöld hafa hunsað skýran vilja meirihluta almennings í löndum eins og t.d. Íslandi.

Það er því réttmætt að spyrja: Er lýðræði á Íslandi virkt?

Virkt lýðræði einkennist af því að stjórnvöld eru að setja mál almennings í forgang; eru að framkvæma vilja almennings. Sem betur fer gerist slíkt oft en mörg mál síðari ára vekja upp ugg um það að stjórnvöld séu oft treg til að framkvæma í mál sem hafa skýran meirihlutavilja almennings á bak við sig.

Nú spyrja margir: Af hverju þarf að gagnrýna lýðræðisstig þar sem Ísland kemur yfirleitt vel út í alþjóðlegum samanburði á hinum ýmsu „Democracy Index“-listum? Því er til að svara að flestir – nær allir – slíkir listar mæla aðra þætti en hversu virkt lýðræði er í raun í hverju landi. Einn þekktasti listi yfir mat á lýðræði í löndum er „Democracy Index“-listinn sem unnin er af Economist Intelligence Unit (EIU). Þar kemur Ísland mjög vel út, er nú í 2. sæti (sjá allann listann hér):

Gallinn við þennan „Democracy Index“-lista er að hann setur fram mat á lýðræði út frá hvort fólk geti yfir höfuð kosið ef það vill, hvort kjósendur séu öruggir á kjörstað og öðrum þáttum sem eiga frekar við í ríkjum þar sem mun meiri harðstjórn ríkir en er á Íslandi og í nágrannalöndum okkar.

Þetta eru helstu matsatriði „Democracy Index“-listans:

 1. Að kosningar séu öllum opnar. (Whether national elections are free and fair)
 2. Að kjósendur séu öruggir. (The security of voters)
 3. Sjálfstæði ríkisstjórna. (The influence of foreign powers on government)
 4. Svigrúm fulltrúa á að koma málum til leiðar. (The capability of the civil servants to implement policies)

Ísland kemur vel út á öllum þessum atriðum: Kosningar eru öllum opnar (ekki er reynt að hindra ákveðna hópa svo að neinu nemi), kjósendur eru öruggir og áhrif erlendra aðila á ríkisstjórnir eru ekki neitt sérstaklega óeðlileg. Einnig hafa kjörnir fulltrúar svigrúm til að koma málum til leiðar, kjósi þeir það. Oft er það reyndar á kostnað þess að fara gegn flokkslínnum en möguleikinn er til staðar.

Þess vegna er beinlínis rangt að taka lista eins og „Democracy Index“-listann og segja að allt varðandi lýðræði á Íslandi sé í lagi. Þessi listi mælir ekki lykilatriði lýðræðisins: Hvort stjórnvöld setji það í algjöran forgang að vinna út frá hagmunum almennings í stað þess að vinna út frá hagsmunum sérhagsmunahópa. Þetta er nefnilega kjarninn í lýðræðinu í dag: Eru stjórnvöld að setja þarfir og vilja almennings í fyrsta sæti? Jú, í einhverjum tilfellum, en ekki alltaf og að mati almennings, alls ekki í mörgum veigamiklum málum (stjórnarskrá, heilbrigðiskerfið, löggæsla, ljósmæður, meðferð hrunmála, leyndarhyggja o.fl.). Fjölmörgum málum er þannig háttað að ríflegur meirihluti þjóðar hefur kosið að setja þau í forgang en stjórnvöld hafa hunsað þann vilja. Það þynnir út lýðræðið, svo að ekki sé meira sagt.

—  —  —

Að lokum má nefna þann mikilvæga þátt, sem æ oftar kemur fram í rannsóknum fræðimanna á virku lýðræði: Það sem eflir lýðræði er ekki að vinna beint að því að tala fyrir lýðræði því lýðræði getur tekið á sig svo margar myndir (spilltar og óspilltar). Niðurstaða fræðimanna er miklu frekar sú að barátta gegn spillingu á öllum stigum þjóðfélagsins auki lýðræði og greiði götu vilja almennings í veigamiklum málum. Þetta má sjá hér:

Niðurstaðan á þessu grafi er sú að virkt lýðræði, þar sem vilji almennings er ekki hundsaður fæst fram með því að hafa lága spillingu. Einkum ef tekst að minnka spillingu, ógagnsæi og leynd í stjórnsýslunni í heild. Þetta er niðurstaða sem Íslendingar verða að taka alvarlega og auka gegnsæi á öllum stigum stjórnsýslunnar sem og að setja harðari reglugerðir sem koma í veg fyrir spillingu, eða allavega auka fælingarmátt vegna spillingar. Sjá nánar um þetta hér.

 

Mesta tap lífeyrissjóða er í hlutabréfum – samt er haldið áfram

Árin 2008-2010 var langmesta tap lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum:

Þetta gildir ekki bara um árin 2008-2010 því yfir önnur tímabil hefur mikið tap lífeyrissjóða einnig verið vegna innlendra hlutabréfa, bæði fyrir og eftir hrun.

Það kom því ekki á óvart, þegar það kom í ljós að sá lífeyrissjóður, sem hefur hæstu ávöxtunina af öllum íslenskum lífeyrissjóðum sem eru almenningi opnir, skuli lítið taka þátt í íslenska hlutabréfamarkaðinum. Sjá hér frétt um verðlaun til handa Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem hefur slíka fjárfestingastefnu að sögn framkvæmdastjóra sjóðsins.

Það er eflaust gott að fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðnum, ef markmiðið er að ná ágóða á tiltölulega skömmum tíma, á 1-5 árum. En lífeyrissparnaður er sparnaður yfir 40-50 ár og á slíkur sparnaður ekki heima á örsmáum hlutabréfamarkaði, eins og íslenski hlutabréfamarkaðurinn er. Það er ekki nóg með að þar séu miklar sveiflur, heldur er seljanleiki oft erfiður, því stöðutaka lífeyrissjóða er svo stór að oft er enginn kaupandi til staðar nema næsti lífeyrissjóður. Það er nefnilega ekki nóg að græða skv. bókfærðu verði, það verður líka að vera hægt að selja skjótt, á hárréttum tíma, til að taka út góða ávöxtun.

Það má því færa rök fyrir því að íslenskir sameignasjóðir eigi að draga úr þátttöku sinni á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Reynslan sýnir að þaðan koma stærstu taptölur sjóðanna og það er ekkert breytt við íslenska hlutabréfamarkaðinn nú sem kemur í veg fyrir að áframhaldandi tap sjóða á hlutabréfum sé til staðar. Nóg er að horfa á nýlegar fréttir, sem reglulega berast, sem sýna miklar dýfur í verði hlutabréfa sem þýðir lægri lífeyri fyrir íslenskan almenning:

Frétt MBL.is, „Bréfin lækkuðu um 24,65%“, en þar segir:

„Bréf í Icelanda­ir lækkuðu um 24,65 pró­sent í dag. Loka­gengi bréf­anna var 9,57 og var velta viðskipta með bréf­in 600 millj­ón­ir króna.“

Markmið lífeyrisþega eru að viðhalda jafnri og traustri ávöxtun til áratuga. Íslenskur hlutabréfamarkaður veitir ekki slíka ávöxtun. Því er því beint til lífeyrissjóða að draga úr stöðutökum sínum á íslenskum hlutabréfamarkaði og færa sig nær þeim fjárfestingarflokkum sem minnsta tapið hafa veitt á liðnum árum: Innlend veðskuldabréf (húsnæðislán). Við sjáum skýr dæmi um þá sjóði sem forðast hafa íslenska hlutabréfamarkaðinn að þeir eru til lengri tíma að ná hærri langtímaraunávöxtun en aðrir. Næg dæmi eru því fyrir hendi til að rökstyðja slíka áherslubreytingu.

Það er því furðulegt þegar lífeyrissjóðir eru hvattir til þess að taka með auknum þætti þátt í húsnæðisverkefnum sem hafa einmitt (sjá töfluna efst) skilað minnsta tapinu og minnstri áhættunni. Svar lífeyrissjóða er að þeir vilja ekki taka þátt í stórum húsnæðisverkefnum „vegna áhættunnar“, eins og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefndi, sjá hér.

Fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða sagði óaðl­að­andi fyrir líf­eyr­is­sjóði að standa í rekstri leigu­fé­laga. Sjóð­irnir væru fyrst og fremst fjár­festar og myndu ein­ungis styrkja fjár­mögnun leigu­í­búða í gegnum hluta­fé­lög til þess að lág­marka áhætt­una.

Þetta eru undarleg ummæli og þvert ofaní staðreyndir hér að ofan. Fjárfestingar lífeyrissjóða í stórum húsnæðisverkefnum, eins og leigufélögum er minnsti áhættuþáttur lífeyrissjóða skv. bókum þeirra sjálfra. Þátttaka á íslenska hlutabréfamarkaðnum er einmitt mesti tapliðurinn og skapar því mestu áhættuna fyrir lífeyrissjóði, öfugt við það sem framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða nefnir.

―  ―  ―

Unnið er að því að skoða önnur tímabil, bæði 2000-2008 og svo einnig nýrri tímabil, 2009-2014. Erfiðara er að skoða síðustu ár af því að eignir lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði eru færðar inn sem bókfært verð sem reynist oft vera annað en innlausnarverð sem er hið endanlega verð, eftir að sala hefur átt sér stað.

Lífeyrissjóðir tregir til að birta upplýsingar um eigin árangur

Allir landsmenn eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði (sameignarsjóði). Þessi skylduáskrift ætti sjálfkrafa að krefjast þess að hámarksgagnsæi myndi ríkja um alla meðhöndlun þessara fjármuna því hér er um að ræða stærsta sparnað almennings og það sem fólk þarf að treysta á síðasta fjórðung ævinnar. Skýrar upplýsingar um raunávöxtun, kostnað og aðra þætti ættu að liggja fyrir augu almennings en svo er því miður ekki.

Sú ótrúlega staðreynd er þó engu að síður sannleikur: Lífeyrissjóðir hafa til þessa ekki viljað setja fram aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning sem gefa fólki kleyft að bera saman langtímaávöxtun sjóða með auðlæsilegum hætti. Lífeyrissjóðir gefa reyndar upp ávöxtun í ársreikningum og birta stundum ávöxtun örfá ár aftur í tímann en nær aldrei er um að ræða heildstæðan samanburð lífeyrissjóða, ekki einu sinni þeirra stærstu. Að bera saman ávöxtun sín á milli er eitthvað sem lífeyrissjóðir á Íslandi virðast forðast og er sú afstaða mjög bagaleg, sé horft til hagsmuna almennings.

Það er ekki nóg að birta tölur og hafa þær dreifðar og óaðgengilegar (í mörgum skjölum sem geymd eru á mismunandi stöðum). Almenningur verður að fá þessar tölur samanteknar á aðgengilegt og staðlað form, alveg eins og er með innihaldslýsingu matvæla og önnur töluleg gögn sem almenningur á rétt að vera upplýstur um. Um þetta ritaði ég nýlega (Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða) en miðað við núverandi birtingu upplýsinga frá lífeyrissjóðum þyrfti einstaklingur að opna a.m.k. 20 Excel skjöl með um 200.000 tölum, finna réttur tölurnar og reikna þær rétt saman til að átta sig á því hvaða lífeyrissjóðir eru að ávaxta lífeyri landsmanna vel og hverjir ekki. Auk þessi þyrfi að vinna gögn úr ársreikningum sjóða sem eru um 600 PDF skjöl til að sjá sameiningarhlutföll og aðrar upplýsingar um rekstur, kostnað og afkomu, til að fá 20 ára heildarsýn á hvaða lífeyrissjóðir eru að standa sig vel. Augljóst er að Jón og Gunna eru ekki að dunda við þetta yfir sjónvarpinu á kvöldin.

Það er því nær ómögulegt fyrir almenning að svara spurningunni hvaða lífeyrissjóðir séu að standa sig vel til lengri tíma litið.

Margir hafa á umliðnum árum haft samband við mig og viljað fá ráðleggingar um það hvaða lífeyrissjóðir séu að ávaxta vel á Íslandi. Hef ég þess vegna í nokkur ár hvatt lífeyrissjóði reglulega og landssamtök þeirra til að birta raunávöxtunartölur allra sjóða a.m.k. 20 ár aftur í tímann og að hafa þær tölur samanburðarhæfar á milli sjóða. Yfirleitt hefur verið tekið neikvætt í þetta af lífeyrissjóðum og landssamtökum þeirra. Þeir hafa í samskiptum við mig nefnt þrjár meginástæður fyrir því af hverju þeir telja óæskilegt að birta samanburðarhæfar tölur:

 1. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að ávöxtunarstefna þeirra sé mismunandi. Að það megi ekki bera saman „epli og appelsínur“, eins og þeir orða það.
 2. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að sumir sem greiða í lífeyrissjóði eiga erfitt með að skipta um sjóði, hafi ekkert val.
 3. Þeir telja rangt að bera saman ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða af því að uppgjörsaðferðir séu mismunandi og að sameining ýmissa sjóða sem hluti af fortíðinni sem geri uppgjör og útreikning ávöxtunar eilítið flóknari.

Að mínu mati eru þetta ekki sterkar röksemdir því réttur almennings til að fá að vita um ávöxtun á eign peningum ætti að vera svo sjálfsögð það á ekki að þurfa að ræða það neitt frekar. En þetta er stundum reyndin á Íslandi, að það þurfi að kreista fram upplýsingar í dagsljósið sem ættu að vera öllum opnar. Þessum þremur punktum frá lífeyrissjóðunum mætti svara svo:

 1. Það eru engin rök að koma í veg fyrir að birta ávöxtunartölur af því ávöxtunarstefna sjóða sé mismunandi. Almenningur vill vilta hver er að standa sig vel og hver ekki. Það er svo tæknilegt mál að skoða skýringuna þar á bak við, af hverju sumir eru með 1,25% raunávöxtun í 20 ár en aðrir >6%. Skýringin gæti m.a. verið mismunandi ávöxtunarstefna en það er bara ein skýring af mörgum. Ekki ástæða til að birta ekki ávöxtunartölur.
 2. Það er rétt að sumir hafa ekkert val um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í. Þetta tengist nefnilega stundum samningum launþegafélaga. En þetta er – enn og aftur – ekki ástæða til að koma í veg fyrir að birta ávöxtun á sparnaði almennings. Það gæti t.d. verið gott að vita fyrir Jón og Gunnu að ef þau eru að greiða í sjóð sem ávaxtar þeirra lífeyri ekki nema 1,25%, yfir starfsævina, að þau þurfi að leggja fyrir aukalega ef þau ætla að lifa með reisn á efri árum. Það væri næg ástæða til að birta tölurnar.
 3. Ekki er hægt að sleppa frá því að birta ávöxtunartölur lífeyris almennings vegna þess að það sé flókið að leggja saman nokkrar tölur. Búið er að sýna fram á það með vísindavinnu (sem vísað í m.a. hér). Ekkert er því að vanbúnaði, talnalega séð, til að þessar tölur séu birtar.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi:

Ávöxtun á skyldulífeyri landsmanna er mjög mismunandi. Það er eðlileg krafa út frá öllum sjónarmiðum að birta það hvaða lífeyrissjóðir eru að skila landsmönnum góðri ávöxtun og hverjir ekki:

― ― ―

Hversu miklu máli skiptir mismunandi ávöxtun?

Það skiptir mjög miklu máli hvort einstaklingur er í sjóði sem skilar góðri eða slakri ávöxtun.

Dæmi:
Jón og Siggi hafa sömu laun alla starfsævina og greiða í lífeyrissjóð 40 ár. Jón greiðir í sjóð sem er með 1,25% ávöxtun en Siggi greiðir í sjóð sem er með 6,16% ávöxtun, alla starfsævina. Hver er munurinn í útgreiddum lífeyri, þegar þeir eru að hefja töku lífeyris?

Margir þættir hafa áhrif á hvað þeir fá raunverulega, ekki bara ávöxtunin þó hún sé mikilvægasti þátturinn. Sjóðsfélagahópurinn (hvort mikið eða lítið er um örorku) ræður allnokkrum um það hvað þeir Jón og Siggi fá því fjármögnun slíkra greiðslna er í nafni allra hinna sjóðsfélaganna. Auk þess breytast töflur lífeyrissjóða sem segja til um hvað sjóðsfélagar fá m.v. inngreiddan lífeyri, nokkuð ört. Fyrir sjóði með háa ávöxtun koma réttindaaukar en aftur á móti skerðing hjá þeim sjóðum sem lága ávöxtun hafa.

Hér er dæmi um réttindatöflu hjá lífeyrissjóð VR:

Þetta er eins og lífeyrissjóðir áætla endurgreiðslu: Fyrir hverjar 10.000 kr. sem greiddar eru inn í sjóðinn fær einstaklingur endurgreiðsluréttindi (ávinnslu) upp á ákveðna upphæð sem heldur viðkomandi sjóð innan jákvæðra tryggingafræðilegra marka. Ávinnslan er svo út æviskeiðið, ólíkt séreignarsparnaði sem er föst tala.

Það er því ekki hægt að reikna nákvæmlega hvað Jón eða Siggi mun fá í lífeyri nema með því að gefa sér allmargar forsendur. Það fer mikið eftir samþykktum sjóða, ávöxtun, kostnaðarstrúktúr sjóðsins og rekstur hans ásamt öðrum þáttum, sjóðsfélögum, réttindatöflum og breytingum sem þær eru háðar, svo að fátt eitt sé nefnt. Tölurnar sem nefndar eru hér eru því ekki endanleg niðurstaða aðeins áætlun út frá algengum forsendum sem hafa verið gefnar til að átta sig á stærðargráðunni sem niðurstaðan getur legið á:

Önnur leið til að nálgast niðurstöðu í þessu dæmi: Segja má, gróflega séð að ef við miðum við tvo meðalmenn með meðallífslíkur og meðallaun en að þeir greiði, eins og í dæminu hér að ofan, í tvo mismunandi sjóði (annar með 1,25% ávöxtin, hinn með 6,16% ávöxtun) að þá fái sá sem valdi sjóð með lága ávöxtun um 40% lægri lífeyri úr sínum sjóð en meðalmaður myndi fá (sem fær 3,5% ávöxtun) en sá sem valdi sjóðinn með 6,16% ávöxtun fái um 65% hærri lífeyri úr sínum sjóð.

Hafa verður í huga að hér er miðað við ávöxtunartölur síðustu 20 ár sem er ekki nema helmingur af 40 árum og því mjög mörg „ef“ í þessum útreikningum. Vel má færa rök fyrir því að næstu 20 ár verði með þeim hætti að ávöxtunarmunur lífeyrissjóða verði lægri og því er rétt að það komi fram að það séu ákveðin líkindi í þá átt að munurinn verði minni í framtíðinni. Síðustu 20 ár fela í sér eitt bankahrun með tilheyrandi sveiflum og ef við bindum vonir við minni sveiflur á næstu árum þá kann að vera að sá munur sem tilgreindur er hér á Jóni og Sigga verði minni í framtíðinni.

Ath. að lífeyrissjóðir með lága ávöxtun ná ekki að greiða sjóðsfélögum lágmarkslaun. Í þeim tilvikum tekur hið almenna tryggingakerfi við og hækkar upphæðina sem kemur frá lífeyrissjóðum upp í það sem þjóðfélagið (ríkið) skilgreinir sem réttmæt lágmarkslaun. Þó að einstaklingar séu að fá lágan lífeyri þá er hin endanlega upphæð því oft aðeins hluti af upphæðinni sem berst viðkomandi einstakling, upphæðin frá lífeyrissjóðnum er oft töluvert lægri, a.m.k. í sumum tilfellum.

― ― ―

Það þarf ekki að lýsa því hvað þetta er sjálfsagt mál í nágrannalöndum, þar eru þessar upplýsingar mjög aðgengirlegar (t.d. í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Austurríki, Frakklandi og víðar). Þar eru ávöxtunartölur lífeyrissjóða bornar saman, oft vikulega. Enda eykur slíkt aga og samkeppni sjóða og gerir aðeins gott fyrir ávöxtun á fé almennings.

Í nokkur ár hef ég bent á hvað þetta er mikilvægt mál fyrir almenning. Í fyrstu fékk ég harða gagnrýni fyrir að krefjast þess að lífeyrissjóðir birtu samanburðarhæfar raunávöxtunartölur yfir langt tímabil. Á síðustu mánuðum hafa þessar raddir dvínað ögn og meira er tekið undir þessi sjónarmiða að það eigi að birta þessar tölur, skilyrðislaust. Vonandi eru því að koma nýjir tímar í þessum málum og gagnsæi lífeyrissjóða að aukast.

 

 

 

 

 

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda valinn fyrsti valkostur fyrir almenning

Er lífeyrissjóðurinn þinn að ávaxta lífeyrinn þinn vel? Þetta skiptir máli því við öll erum skylduð til að greiða sparnað til lífeyrissjóða sem við ætlum að stóla á síðasta fjórðunginn á ævinni. Þessar upplýsingar ættu auðvitað að liggja fyrir með skýrum hætti sem því miður er svo ekki alltaf. Erfitt hefur verið að bera saman langtímaávöxtun sjóða sem gerir greiðendum lífeyris erfitt með að átta sig á því hvort þeir séu að njóta góðrar ávöxtunnar eða ekki.

Víða í Evrópu tíðkast það miklu meira en hér að bera saman sjóði og veita þeim þannig aðhald og auka samkeppni. Slíkt er vonandi að færast í aukana hér á landi.

Verkefnið PensionPro (á vegum ráðgjafafyrirtækisins Verdicta) miðar að því að opna þessar upplýsingar gagnvart almenningi og er stefnt að því að almenningur geti skoðað upplýsingar um alla sjóði og borið saman hvernig þeir hafa staðið sig til lengri tíma, 20 ár aftur í tímann. Mun þetta opna á næstu vikum.

Í dag var tilkynnt hvaða lífeyrissjóður hefði staðið sig best þegar öll sagan er skoðuð, 20 ár aftur í tímann m.v. þá sameignarsjóði (skyldulífeyrissjóði) sem eru opnir fyrir almenningi. Niðurstaðan var sú að Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem hefur staðið sig best og er sá sjóður sem er fyrsti valkostur fyrir almenning þegar horft er til langst tíma.

Ath. hér er ekki verið að fjalla um séreignasjóði (viðbótarlífeyrissparnað), heldur sameignarsjóði.

Í dag var ég svo heppinn að fá að hitta framkvæmdastjóra Söfnuarsjóðs lífeyrisréttinda, Sigurbjörn Sigurbjörnsson, og afhenda honum viðurkenningu fyrir þennan góða árangur:

Sigurbjörn Sigurbjörnsson hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda tekur við PensionPro verðlaununum úr hendi Hallgríms Óskarssonar sem fyrsti valkostur almennings 2018. (Mynd: GeiriX)

—  —  —

Þegar 20 ár eru skoðuð er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda með 5,02% meðalraunávöxtun yfir allt tímabilið. Slík ávöxtun er afar góður árangur og getur Söfnunarsjóðurinn verið afar ánægður með slíkan árangur.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hefur að auki sýnt jafnan stöðugleika m.v. aðra sambærilega sjóði á Íslandi og kemur hann einnig vel út þegar ýmis önnur tímabil eru skoðuð nánar, bæði árin fyrir og eftir hrun. Sérstaklega hefur Söfnunarsjóður lífeyris­réttinda staðið sig vel á árunum eftir hrun, þar sem hann hefur náð 8,74% í meðalraun­ávöxtun fyrir árin 2009-2012. Þessi árangur, sem og árangurinn í heild, er afar góður og er því hægt að mæla með Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem fyrsta valkosti almennings á árinu 2018.

PensionPro verðlaunin eru afleiðing af rannsóknarvinnu sem miðað hefur að því að birta ítarlegri upplýsingar um lífeyrissjóði en verið hefur til þessa. Fyrstu upplýsingarnar í þá veru birtust í eftirfarandi grein sem er frá 9. maí 2018, rituð af Gylfa Magnússyni og Hallgrími Óskarsyni:

—  —  —

Ítarefni:

  – Umfjöllun um valið á Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda
     http://www.verdicta.is/pensionpro-2018/

 

Í kjölfar kosninga 2018 – staða flokkanna

Fólk velur hvað það eigi að kjósa í kosningum að mestu út frá skilaboðum, grunnímynd og þeim gildum sem fólk telur að flokkar og frambjóðendur standi fyrir. Þess vegna er fróðlegt að skoða hvaða skilaboð flokka og frambjóðenda náðu í gegn í nýliðnum sveitarstjórnakosningum.

Hvað virkaði og hvað hefði mátt gera betur?

Niðurstöður kosninganna: Enginn skýr sigurvegari.

Samfylking

Það er merkileg staða sem Dagur B. Eggertsson er í. Mörgu fólki finnst hann hafa staðið sig svo sem sæmilega sem borgarstjóri en fáir eru mjög ánægðir með hann. Varðandi rekstur borgarinnar þá heldur hann velli þar, a.m.k. hefur andstæðingum ekki tekist að vekja upp sterka umræðu um að eitthvað sé að í rekstri borgarinnar. Það eru miklu frekar samgöngumálin og skipulagsmálin sem hafa veikt hann töluvert mikið sem borgarstjóra. Fólk í fastri bílaumferð er orðið langþreytt og Dagur hefur ekki einu sinni rænu á að svara þannig að hann sýni hluttekningu með þeim tugum þúsunda manna sem upplifa slíkar umferðarhörmungar á degi hverjum. Það eitt eru pólitísk mistök því að offors gegn þessum mikla fjölda er bara ávísun á óvinsældir. Af hverju ekki að reyna að leysa þeirra vanda líka, a.m.k. að sýna viðleitni til þess?

Orðræða Samfylkingar og margra annarra hefur nefnilega verið: Það þarf ekkert að gera fyrir bílafólk því þá koma bara fleiri bílar og svo er Borgarlína alveg að fara að koma sem mun leysa allt. Þetta er auðvitað mikil einföldun á málinu. Borgarlína kemur ekki fyrr en eftir nokkuð mörg ár og með því að svara bílafólki með því að Borgarlína sé að koma þá er í leiðinni verið að segja: Mér er alveg sama þótt þessi umferðarteppa verði í mörg ár í viðbót.

Margir sem tala fyrir Borgarlínu gera yfirleitt þau mistök að t tala léttúðlega um að kýla bara á eina Borgarlínu sem fyrst, já bara drífa í henni! Athugið að þetta gæti verið ein allra stærsta fjárfesting Íslands eða a.m.k. eins sveitarfélags. Fyrstu áætlanir segja 80 milljarðar og ef við notuðm skekkjuna sem var frá áætlun Hörpu upp í raunverulegan kostnað (faktor 3) þá gæti Borgarlína mögulega kostað 80 x 3 eða leikandi um 240 milljarða. Þetta er gríðarleg upphæð fyrir sveitarfélag jafnvel þó að ríkið taki þátt. Þess vegna verða allir sem tala um Borgarlínu, þessa mikilvægu samgöngubót, að tala af miklu meiri ábyrgð, bæði vegna kostnaðarins og líka vegna þess að það er ekki fullséð um það hver sé besta útfærslan og ekki er heldur fullséð að hægt sé að hafa yfirumsjón með jafn stóru verki og halda spillingarhættum frá verkinu á sama tíma.

Auðvitað á að stefna á Borgarlínu en það þarf að undirbúa hana betur. Borgarlína er mikilvæg vegna þess að hverfi borgarinnar eru að verða dreifðari og fólk þarf að fara lengri vegalengdir. En samhliða Borgarlínu þarf líka að leysa vanda ökumanna einkabíla, það er ekki nóg að segja þeim að hætta að keyra. Sú fjárfesting mun líka nýtast sjálfkeyrandi bílum. Það þarf samt áfram að hvetja til takmörkunar á notkun einkabíla, líkt og gert er á ýmsum svæðum erlendra borga, en það væri þó líklega skynsamlegt að leyfa Miklubraut að vera samfellda akstursleið, alla leið úr Mosfellsbæ að Þjóðminjasafni. Þeir sem vilja útiloka annað eru að fá helming borgarbúa upp á móti sér.

Hitt stóra málið sem veikt hefur Dag eru skipulagsmálin en þar hafa þeir félagar, Dagur og  Hjálmar Sveinsson, tekið mjög stóra pólitíska áhættu sem engan vegin gekk upp: Þeir ákváðu í sameiningu að leyfa byggingaverktökum að ráðskast með verðmætustu pláss borgarinnar, byggja þar ljót hús, sem gína yfir öllu (t.d. Lækjargata, Hafnartorg, Valssvæðið, Gamli Garður) og vekja þannig upp áánægju dágóðs hluta Íslendinga sem reglulega koma á þessi svæði.  Þarna er gínandi gámaarkitektúr sem þeir félagar hafa leyft og þar með tryggt byggingaraðilum hagnað á kostnað þess að viðhalda staðarandanum sem öll þjóðin vill viðhalda á þessum svæðum.

Nokkur af umdeildustu verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í tíð Dags og Hjálmars

 –

Í annan stað hafa Dagur og Hjálmar brugðist verulega þegar kemur að því að hafa nóg af hagkvæmum lóðum til úthlutunnar. Þar tóku þeir einnig pólitíska áhættu sem ekki gekk upp. Þarna má segja að slök dómgreind hafi ráðið för; það er eins og þeir félagar hafi ákveðið að það væri í lagi að sinna ekki þörfum og sjónarmiðum meirihluta borgarbúa: að fjölskyldufólki sé gert tiltölulega auðvellt að byggja sér húsnæði í borginni. Með því að sinna þessu ekki hafa Dagur og Hjálmar bakað sér þá andúð sem leiddi til verulegs taps Samfylkingarinnar í Reykjavík í nýafstöðnum kosningum.

Reyndar er andúð margra Reykvíkinga á verkum Dags og Hjálmars nokkru meiri en tap Samfylkingarinnar segir til um. Það kom nefnilega skýrt í ljós að ein af stóru ástæðunum af hverju fólk kaus Samfylkinguna var einfaldlega vegna sjónarmiðsins „ég vil ekki Sjálfstæðisflokkinn“. Það er slök staða sem flokkur er í þegar ein stærsta ástæða sem fólk finnur fyrir til að kjósa þann flokk sé sú að hinir séu hálfu verri. Slíkur flokkur á ekki sjö dagana sæla framundan.

Sjónarmið og verk Dags og Hjálmars eru nefnilega þeirrar gerðrar sem eyðileggur samstöðu vinstra fólks: að klikka á því að láta grunnsjónarmið um að setja þarfir almennings í fyrsta sæti á undan þörfum einstakra fyrirtækja. Einnig gera þeir þau algengu mistök, sem oft má finna hjá vinstra fólki, að telja að þeir þurfi ekki að útskýra óvinsælar gjörðir sínar; að halda að einhvernvegin muni allir skilja þeirra gjörðir og sjá sama ljós og þeir sjálfir. Nei, hið rétta er að stjórnmálamenn þurfa að hugsa um að selja, markaðssetja og ramma inn sínar hugmyndir til þess að hljóta hljómgrunn. Þessu hafa margir vinstri menn óbeit á og því hefur langvarandi staða vinstra fólks verið sú að fá takmarkað fylgi þó að hugsjónirnar séu góðar.

Það var eftir því tekið að engin sérstök málefni Samfylkingarinnar náðu alveg í gegn. Þeir náðu aldrei að verða flokkurinn sem var flokkur tiltekins máls nema þá að viðhalda Degi sem borgarstjóra og að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Sjálfstæðisflokkur

Í Reykjavík tók Eyþór Arnalds nokkra áhættu með að skipta algerlega um fólk á lista. Eftir á að hyggja var það líklega of áhættusöm aðgerð, vegna þess að nýja fólkið náði ekki að skipa sér sterkan sess í hjörtum borgarbúa. Sú sem var í 2. sæti, Hildur Björnsdóttir var reyndar mjög sýnileg, ásamt Eyþóri, en aðrir sáust lítið. Þess vegna skorti á tilfinninguna um breiðan lista sem hefði víðtæka skírskotun með fólki sem fólk hafði heyrt af.

Eyþór má þó eiga það að hann var duglegur og framkvæmdaglaður í kosningabaráttunni; var mjög sýnilegur og sagði margt sem komst á síður fjölmiðla. En líklega má segja að hann hafi talað um of mörg mál, komið fram með of margar lausnir. Líklega má telja nokkuð víst að ef hann hefði hamrað á einhverjum þremur lykil-málunum fyrir kosningar þá hefði hann fengið eitthvað meira fylgi, hugsanlega nóg til að ráða öllu eftir kosningar. Orðræðan reyndist á endanum of víðfem og fólk náði ekki mjög sterkri tengingu við málefni Sjálfstæðiflokksins. Ein algengasta ástæðan sem margir nefndu fyrir því að kjósa Eyþór var að þeir væru komnir með nóg af Degi (skilaboðin „Dagur er að kveldi kominn“ náðu í gegn). Það er ekki nógu sterk ástæða fyrir flokk til að halda sterku flugi til langframa.

Eyþór var líklega of mikið í bláa-jakkafata-gírnum fyrir kosningar, talandi um umfangsmiklar framkvæmdir. Það eru alltaf færri og færri sem tengja sterkt við bláa bindið og þeir sem fíla það eru hvort eð er tryggustu kjósendur xD í Reykjavík: Íhaldsamt, eldra fólk sem myndu kjósa Eyþór óháð klæðaburði. Það hefði verið strategískara fyrir Eyþór að klæða sig líkara Röskvu-manni; í strigaskó og vor-litaðar buxur eins og gæjarnir á auglýsingastofunum eru alltaf í. Vera meira hippi, minna skynjaður sem innmúraður Sjalli, ekki til að villa á sér heimildir heldur að sýna meira tónlistarmanninn sem er með rokk-hjarta. Það hefði bætt við nokkrum prósentum. Að sama skapi hefði það verið áhrifaríkt að sjá Eyþór sinna af alúð málum sem eru ekki hans ektamál. Finna fyrir honum í málum sem tengjast börnum, skólum, umhyggju og mannlegri tilveru.

Líklega verður það engin sæluvist fyrir Eyþór að setjast í borgarstjórnarstólinn – ef af því verður. Hann þyrfti þá a.m.k. að læra að ná til fleiri hópa í Reykjavík og fá fólk til að trúa því að hann ætli að vera borgarstjóri allra. Eyþór fékk flestar útstrikanir (3%) allra í borgarstjórnarkosningunum og þarf að hafa það í huga ef hann nær stóli borgarstjóra að reyna að ná til sem flestra. Hann er þó ráðagóður og tengdur menningunni sem mun hjálpa honum að fóta sig sem borgarstjóri.

Í Kópavogi sigldi Ármann Kr. Ólafsson nokkuð lygnan sjó. Hans styrkleiki er alltaf að koma betur og betur í ljós: að vera alþýðlegi pilturinn að norðan sem kann að höfða til venjulegs fólks. Og það sem meira er: Ármann virðist kunna að láta ólík sjónarmið vinna smurt saman. Kannski er Ármann Kr. Ólafsson mögulegt leiðtogaefni sem gæti tekið að sér stærra hlutverk en hann gerir nú.

Það reyndar kom sér heldur illa fyrir Ármann að fréttir um launahækkun bárust stuttu fyrir kosningar. Það hefur eflaust tekið einhver atkvæði frá honum. En ekki nóg til að hafa veruleg áhrif þar á. Líklega hefur Ármann jafnað þann dragbít með alþýðlegri auglýsingu þar sem hann gerir í raun grín að klassískri, leiðinlegri stjórnmálaumræðu og náði tengingu við fólkið í landinu. Þannig var barátta Ármanns sumpart lygnari en margur leiðtogi Sjálfstæðismanna upplifði á sveitarstjórnastiginu.

Á nokkrum öðrum stöðum náði Sjálfstæðisflokkurinn viðunandi úrslitum en líka eru mörg dæmi um flokksbrot og klofning innan flokksins á sveitarstjórnarstiginu sem áður var reynsluheimur vinstri manna, nær einvörðungu. Þó að staða Sjálfstæðisflokksins sé ekki slök eftir kosningarnar eru þó nokkur mikilvæg umhugsunarefni sem þarf að líma saman ef ekki á að koma til frekari sundrungar á hægri vængnum.

Vinstri græn

Aftur eru Vinstri græn í vanda vegna þess að þau ná ekki að setja fram skilaboð sem hreyfa við fólki. Líf Magneudóttir komst inn í Reykjavík en hefði ekki gert það nema af því fjöldi borgarfulltrúa var aukinn í 23 fulltrúa. Fylgi lækkaði töluvert og það er einmitt vegna þess að það er bara reynt að segja eitthvað, ekkert sem náði eyrum um það af hverju VG á að taka þátt í stjórnun borgarinnar. Það er eins og grunnskilaboðin hafi verið að kjósendur eigi að kjósa VG í Reykjavík bara ef það er vinstra fólk. Bara af því Líf og hennar teymi er vinstra megin. Auðvitað eru þetta alltof veik skilaboð og alls ekki nægjanleg fyrir hinn venjulega kjósanda.

Skoðum aðeins skilaboð VG í Reykjavík fyrir kosningarnar:

 • „VG vill lýðræði á vinnstöðum“
  Í sjálfu sér jákvætt en varla það brýnasta sem liggur á hjarta borgarbúa, eða hvað?
 • „VG vill minnka mismunun í grunnskólum“
  Í sjálfu sér jákvætt en fáir kjósendur skynja að þetta sé akút málefni sem brennur á vörum borgarbúa, dagsdaglega.
 • „VG vill miðstöð fyrir innflytjendur“
  Í sjálfu sér jákvætt mál („nice to have“) en það á eftir að útskýra fyrir kjósendum af hverju þetta er brýnt.
 • „VG: Gerum Reykjavík veganvæna“
  Er það hlutverk borgarstjórnar að velja einhverja sérstaka gerð matarræðis og setja á oddinn? Hvað með að gera Reykjavík ketó-væna eða minnka sykur í matvörum sem borgarbúar neyta? Í sjálfu sér jákvætt en sett fram á óraunhæfan hátt og án þess að kjósendur sjái að þarna sé verið að velja mál sem brennur á borgarbúum. Miklu fremur sjá kjósendur fyrir sér að einhver áhugamanneskja um vegan hafi verið á töflufundi fyrir kosningar og náð þessu inn í lista yfir stefnumál kosninganna.
 • „VG: Mörkum stefnu um aukin loftgæði í Reykjavík“
  Aftur er þetta mjög jákvætt mál en sett fram þannig að maður fær á tilfinninguna að það eigi ekkert að gera endilega strax heldur halda nokkuð marga fundi og sjá til hvað sé hægt að gera einhverntíman. Af hverju ekki að nefna 3 helstu málin sem bæta loftgæði borgarinnar?
 • „VG: Aukum kolefnisbindingu og endurheimtum votlendi“
  Afar fáir Reykvíkingar tala um í heitu pottunum að það þurfi að endurheimta votlendi. Er það ekki eitthvað sem ríkisstjórn þarf að huga að en er ekki mál sveitarstjórna nema þá að hluta. Að vilja endurheimta votlendi skilar afar fáum atkvæðum þó að málefnið sé í sjálfu sér gott.
 • „VG: Höldum áfram að breyta samfélaginu í anda femínískra byltinga“
  Hér er enn eitt málið sem er of almennt. Svona framsetning skilar ekki mörgum atkvæðum. Svara þyrfti miklu frekar hvað eigi að gera. Hvað meirar VGR með þessu markmiðið? Hvað ætla þeir að gera í raun? Þetta er nefnilega eins og að hafa markmiðið: „Höldum áfram að gera samfélagið gott“. Þó að það sé jákvætt markmið þá skilar það fáum atkvæðum af því kjósandinn tengir ekki við þetta. Hann áttar sig ekki á því hvað á að gera með þessu markmiði.

Eins og sjá má þá eru þessi skilaboð VG í sjálfu sér jákvæð en þau eru sett fram á þann hátt að fólk tengir ekki nógu sterkt við þau. Oft of almennt og svo vantar þá það mikilvægasta inn í: að tengjast inn í mikilvæg mál sem eru á vörum borgarbúa, dagsdaglega. Ekki bara hugsa um mismunun, innflytjendamiðstöð, votlendi, feminískar byltingar og stefnu í loftgæðismálum. Þarf fleiri praktískari hluti inn til að ná hljómgrunni.

Ekki var allt máttlítið sem kom frá VG; það var sem dæmi frábært mál hjá þeim og náði sterkt í gegn að segja fjölgun hleðslustöðva á oddinn. Ef VG hefði náð svona skýrum fókusi á fleiri mál sem snerta borgarbúa beint þá hefði útkoman verið betri.

En eitt skýrasta dæmið um skort á næmni fyrir réttum skilaboðum hjá leiðtoga VG í Reykjavík er að hún sagði (hér) að vinstrið væri að fá rassskellingu. Það má virða það við Líf Magneudóttur að þetta er að vissu leyti sannleikurinn en samt sem áður er þetta þannig rammað inn að aðrir munu elska að endurtaka þetta. Stjórnmálafræðingar og blaðamenn tóku þetta orðlag upp frá Líf og útskýra niðurstöðu VG sem rassskellingu. Þetta er eins og að tala sjálfan sig niður; útbúa fóður fyrir andstæðinginn. Þetta er hvorki klókt né sniðugt að gera (ekki einu sinni fyndið) og er bara til þess fallið að veikja ímynd VG enn frekar.

Katrín Jakobsdóttir birtist aðeins í kosningabaráttunni og kom þar fram sem virðuleg og leiðtogaleg. Margt dynur á henni og ekki vantar stóryrta gagnrýni í hennar garð um þessar mundir. En tíminn vinnur með Katrínu því hún er heiðarleg stjórnmálakona sem mun smátt og smátt sýna styrk sinn þó ekki ætli hún að flagga því öllu í byrjun.

Einnig birti VG myndband sem kallaðist Stjórnmálaskóli Vinstri grænna (hér) sem var hálf-kjánalegt (jú, sumum fannst það fyndið) en vakti ekki upp neina hugmynd um af hverju það væri mikilvægt að hafa VG með við stjórnun borgarinnar. Styrkti VG í Reykjavík ekkert.

Svo er það stóra málið, sem gildir jafnt fyrir VG og Samfylkingu að mörg önnur öfl eru hægt og bítandi að taka við hlutverki þeirra sem talsmenn láglaunafólks. Skýrt dæmi er Sósíalistaflokkurinn sem ekki enn er orðinn stórt afl en gæti vaxið ef VG og Samfylking heldur áfram að tala ekki röddu neðsta þriðjungsins í launatöflunni. Slík þróun myndi auka á tilvistarkreppu VG og Samfylkingar og þar með vanda þeirra.

Viðreisn

Viðreisn vann ágætan sigur og er í oddaaðstöðu. Það er þó fyrst og fremst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem er sigurvegarinn þó að hún hafi ekki verið í framboði; hún er formaður Viðreisnar og dróg vagninn allnokkuð í kosningabaráttunni. Þorgerður Katrín er hægt og bítandi að sigla flokknum inn á trúverðugt svið festu og stöðugleika þó að það muni áfram taka tíma að ná því varanlega. En seigla Þorgerðar er að skila sér og af því er virðist, baráttuandi og kjarkað hugarfar hennar. Stóra tækifærið fyrir Viðreisn er að sameina undir sínum hatti þau fjölmörgu klofningsframboð og flokksbrot sem komu fram á síðustu mánuðum undir sjónarmiðum krata og hægri krata. Þetta er fólk sem oft kaus á árum áður Sjálfstæðisflokkinn en finnur ekki samleið með honum nú. Ef Þorgerður Katrín nær að smala þessum nokkuð mörgu brotum undir sinn hatt þá er flokkurinn kominn á nýtt stig.

Það var þó margt veikt hjá Viðreisn í þessari kosningabaráttu. Aðallega var það forystukonan í Reykjavík sem ekki náði sterku flugi en virtist hafa skynjað það rétt og hafði sig mátulega mikið í frammi. Það væri því klókt hjá henni að spila úr góðri stöðu með hóflegum fókus á sjálfa sig.

Mörg málefni Viðreisnar náðu ekki nógu skýrt í gegn. „Einfaldara líf“ er dæmi um slíkt. Hvernig á að stefna að slíku? Skólamálin voru oft nefnd en þá sögðu fulltrúar Viðreisnar (Þórdís Lóa og Pawel) að þau væru í ólestri og að Viðreisn ætlaði að laga þau. Þetta er of almennt, í ætt við það sem hér er nefnt í kaflanum um Vinstri græn. Of fáir átta sig á því hvað þetta þýðir. Hvað ætlar flokkurinn að gera nákvæmlega? Hvað á að laga í skólamálum? Bara skólamálin almennt? Ómarkvisst. Svo þegar Viðreisn var spurð að því hvað þetta merki og hvað þau ætli að gera í raun og veru til að bæta skólamálin þá kom enn þokukendari útskýring. Forystumanneskjan sagði þá: „Jú, með því að auka faglegt sjálfstæði og sveigjanleika“. Hvað þýðir það?

Fleiri punktar hjá Viðreisn sem hefðu þurft að endurramma og útskýra betur:

 • „Viðreisn: Við viljum leiðrétta laun kennara þannig að skólar verði eftirsóttir vinnustaðir“
  Auðvitað er þetta jákvætt, en svona framsetning nær ekki endilega sterkt í gegn af því fólk spyr sig hvernig þetta sé hægt? Hvað á að skera niður í staðin? Allir vita að þetta mun kosta mikla peninga og því væri miklu sterkara að ramma þetta inn með því að segja „Viðreisn ætlar að bæta kjör kennara um 20% með því að …“. Og að koma svo með lausnina að því.
 • „Viðreisn: Aukum sérúrræði fyrir börn með sérþarfir“
  Hér er annað atriði sem er jákvætt í sjálfu sér en tilheyrir ekki endilega stóru málunum sem skipta fólk máli. Viðreisn hefði þess vegna frekar átt á leggja áherslu á stærri málefni, hamra oftar á þeim í stað þess að fara í smærri mál, þó að þau séu flest jákvæð.
 • „Viðreisn: Hættum greiningarhyggju á börnum“
  Hér er einnig undarlegt loforð sem er erfitt að tengja við. Er það ekki fagfólk sem ákveður greiningar á börnum (ofvirkni, ADHD, einhverfa, Tourette o.s.frv.)? Er það stjórnmálamanna að segja hvenær eigi að leggja þessa læknisfræðilegu ráðleggingu niður? Væri þá ekki réttar að benda á að Viðreisn taki undir orð sérfræðinga sem mæla með því að minnka áherslu á greiningar og auka þess í stað íþróttaiðkun? Með þeim hætti væri búið að ramma þetta mál inn á jákvæðari hátt, þannig að fleiri kjósendur tengi við.

Af mörgu öðru er að taka. Viðreisn þarf umfram allt að hlusta á borgarbúa en ekki láta tækifærismennsku ráða lögum og lofum í ákvörðunum um samstarfsaðila. Miklu máli mun skipta hvað Sjálfstæðisflokkur hefur leikið Þorgerði Katrínu grátt og oft á ósanngjarnan hátt. Nú er hugsanlega komið að endurgjaldinu til baka: Þorgerður Katrín mun líklega ekki mæla með viðræðum við Sjálfstæðisflokk í sínu baklandi nema að enginn annar valkostur sé fyrir hendi.

Píratar

Píratar voru fremur mikið á hlutlausa svæðinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar þetta árið. Fá sértæk málefni náðu í gegn og fáir kandídatar þeirra náðu sterkt í gegn þannig að þeir yrðu minnisstæðir. Samt náðu Píratar 2 fulltrúum og juku fylgi sitt allnokkuð (fóru í 7,7%). Það verður því ekki af þeim tekið að þeir náði góðum árangri og það sem er líklega ein af meginástæðunum eru að þeir hömruðu á einföldum skilaboðum sem geymdu aðeins 3 lykla:

1) Heiðarleiki
2) Traust vinnubrögð
3) Aðhald gegn spillingu

Það var eiginlega fátt annað sem sást frá Pírötum. Það er nefnilega alltaf gríðarlega verðmætt þegar forysta í hópi (flokkur eða fyrirtæki) nær að halda sig við einföldu skilaboðin. Og þá er oft kostur að ná athygli í gegnum skilaboðin sjálf heldur en persónuleg einkenni fulltrúa.

En það er með þessi grunnskilaboð Pírata: að uppræta spillingu og breyta kerfinu og ýta undir gildin um gagnsæi og ábyrgð sem er svo mikill kjarni í því sem fólki er umhugað um nú á tímum. Að þessu leyti náðu Píratar því sérstöðu, að lofa ekki hærri launum kennara og öllu stærra og betra heldur lofuðu að hafa ákveðin gildi í heiðri. Þetta virkar yfirleitt miklu betur heldur en að lofa einstökum fjárlagaliðum (hækka laun kennara, Viðreisn) og þess vegna náðu þeir að stækka sig verulega í borginni.

Pírata skortir samt ennþá skýrari leiðtogaímynd því þó að þeir séu hlyntir dreifðu valdi þá er skýr leiðtogaímynd einfaldlega hraðvirk leið til að ná skilaboðum í gegn.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn áttu nokkuð sterka kosningabaráttu þar sem þeir náðu í gegn með persónulega kynningu á frambjóðendum. Í kjölfarið fylgdu myndir sem fengu mikla dreifingu og voru í anda „I Want You“/„Uncle Sam“-herferðar Bandaríkjahers frá 19. öld þar sem kemur fram áskorun um að skrá sig í herinn. Auglýsingar Sósíalistaflokksins hefur einnig tilvist yfir í „Columbia“-konseptið sem var notað í USA og Evrópu sem táknmynd fyrir Bandaríkjamenn (sjá hér).

Skiptir litu þó að auglýsing Sósíalistaflokksins hafi þessa tilvísun; ef eitthvað er þá er það kostur. Fólk tengir við. Margir tala um að einlæg framkoma Sönnu hafi ráðið úrslitum um að ná í gegn í Reykjavík og er vissulega margt til í því. Sanna er hrífandi manneskja og á auðvelt með að afla persónufylgis langt út fyrir raðir harðra sósíalista. En auglýsingaherferð flokksins hafði líka mikil áhrif og fyrst og fremst náði að láta fólk skynja eitt mikilvægasta atriðið í kosningabaráttu: að þau væru á uppleið. Takturinn hækkaðir alltaf, jafnt og þétt og hafði áhrif í þessa átt sem var svo niðurstaða flokksins.

Miðflokkurinn

Það skemmir fyrir Vigdísi Hauksdóttur að vera ekki með fæturnar á jörðinni í öllum sínum yfirlýsingum. Ætlum að fá 4 eða 6 menn, sagði hún en fékk 1. Kjánalegt, vissulega og skemmir fyrir að flokkurinn nái frekari útbreiðslu. Miðflokkurinn er enn skynjaður sem sama sem og Sigmundur Davíð. Það er af því að fólk fær það reglulega staðfest að SDG sé álitinn hálfgerður Guð af flokksmeðlimum. Slíkur Norður-Kóreskur status gerir ekkert nema að grafa, smátt og smátt, undan tilvistarímynd flokksins og takmarka þá skynjun að Miðflokkurinn sé eitthvað annað en hliðarsjálf eins manns. Og á meðan Sigmundur hefur ekki bitið úr nálinni með það af hverju hann hætti sem forsætisráðherra (Wintris, Panama) þá mun flokkurinn ekki rísa hærra en nú er, fá smáfylgi hér og þar.

Í rauninni var það líklega ekki klókt hjá Miðflokknum að velja Vigdísi Hauksdóttur sem forystukonu í Reykjavík. Það hefur sýnt sig að menntað fólk hefur lítinn áhuga á Vigdísi og því hefði Vigdís verið sterkari frambjóðandi annarsstaðar, líklega allstaðar annarsstaðar en í Reykjavík. Hún er of yfirlýsingaglöð fyrir menntaða Reykvíkinginn sem vill hafa hlutina vel unna og í jafnvægi. Vigdís væri betri sem fulltrúi þar sem kjörsókn og menntunarstig er lágt, eins og t.d. í Reykjanesbæ. Þar gæti hún miklu frekar dregið vagninn.

Orðræðan sem Miðflokkurinn velur sér er nefnilega nokkuð frá takti þjóðarhjartans. Miðflokkurinn talar ýkt og án mikillar innistæðu þar sem fram kemur oft mikil sannfæring um eitthvað sem reynist ekki vera rétt á endanum. Íslendingar eru nefnilega hófstilltir jafnaðarmenn, sjálfstæðir og þótt margir séu í grunnin egó-sinnaðir þá eru þeir nær allir með velviljuð og hlý hjörtu sem fátt mega aumt sjá. Inn í þetta „zone“ nær Miðflokkurinn ekki að tala nema að takmörkuðu leyti.

Hversu furðulegt sem það hljómar þá var það þyngdartap Sigmundar sem reis einna hæst í umræðu Miðflokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar (sýnir hvað Miðflokkurinn er mikið hliðarsjálf Sigmunds). Orðræða Sigmundar af því tilefni var kjánaleg – eiginlega barnaleg – var á þá lund að af því að Sigmundi tókst að losna við nokkur kíló þá muni allt reynast Miðflokki auðvellt:

      

Auðvitað eru hlutirnir ekki svona hjá neinum stjórnmálaflokki í heiminum. Miðflokkurinn mætti því oftar tala með báða fætur á jörðinni og með meiri tengingu við lífið og tilveruna eins og hún er og með meiri skilning á framtíðinni sem bíður handan hornsins. Helsti vinkillinn sem kemur frá Miðflokki og almenningur á erfitt með að tengja við eru ýmis gamaldags viðhorf sem lýsa ákveðinni andúð á nútíma lausnum. Að borða mat eins og var í gamla daga, að nota lausnir eins og var í gamla daga. Allt þetta er umræðusvið sem er ákveðinn dragbítur á starf Miðflokksins.

Aðrir

Stóru gleðitíðindi kosningabaráttunnar er hvað rasísk öfl fengu fá atkvæði. Þau hafa aldrei fengið færri atkvæði og ættu í raun að leysa sína flokka upp. Það er þó ólíklegt að slíkt muni gerast því þetta eru yfirleitt fámennir hópar örfárra manna sem fá þarna agnarlitla atóm-athygli og það er nóg til að þeir haldi áfram, í fámenni sínu og fáfengileika sínum, með færri atkvæði í húsi heldur en fjöldi meðmælendalista. Utangarðsmenn sem eru á skjön við meginstrauma þjóðfélagsins og hvert tíminn er að teyma okkur öll. Það væri svosem í lagi að hafa nokkra hokna karla í skraufþurri pissukeppni um mesta rasistann ef ekki fengi að fljóta með frá þeim svona mikil manneskjuleg andúð á grunngildum þess að lifa saman í samfélagi. Andúð og fyrirlitning á fólki í neyð sem þarf hjálp annarra til að geta komið sér upp mannsæmandi lífi. Það er því gleðilegt að þessum viðhorfum og gildum hafi verið hafnað rækilega.

 

Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða

Landsmenn greiða háar fjárhæðir inn í lífeyriskerfið, til að safna fyrir árunum þegar vinnu er lokið. Þetta þurfa landsmenn að greiða skv. lögum,  þetta er ekki val. Þess vegna er það afskaplega mikilvægt að landsmenn fái allar upplýsingar um þessa sjóði, árangur, ávöxtun og aðra framistöðuþætti á þann hátt að landsmenn geti borið lífeyrissjóði saman, bæði til að taka upplýsta ákvörðun um hvaða sjóðir eru að standa sig vel og svo einnig til að efla gagnsæi, aga og samkeppni sjóða.

Því miður hefur það verið svo að gagnsæi í upplýsingagjöf sjóða, einkum er varðar langtímaávöxtun, hefur ekki alltaf verið nægjanlegur. Almenningur á erfitt með að bera sjóði saman til langs tíma litið því þessar upplýsingar liggja hvergi fyrir á aðgengilegu formi.

Reyndar eru þessar upplýsingar „birtar“ með vissum hætti, tæknilega séð. En til að bera sig saman þarf sérfræðikunnáttu, að safna saman gögnum úr talnasafni Fjármálaeftirlits, skoða ársreikninga og meta sameiningarhlutföll. Í einu skjali í talnasafni eru gjarnan um 10.000 tölur. Skoða þarf skjöl fyrir hvert ár, allt aftur eins og talnasafnið nær, til að bera saman árangur lífeyrissjóða. Til að fá heildarmynd þarf því að glöggva sig á a.m.k. 20 talnasöfnum sem geyma þar með yfir 200 þúsund tölur, finna þær réttu og reikna þær svo rétt saman. Eftir slíka vinnu væri hægt að fá heildaryfirlit. Augljóst er að þetta er ekki eitthvað sem einstaklingar hrista fram úr erminni.

Nýlega birtist grein eftir þá Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Hallgrím Óskarsson, verkfræðing og varaformann Gagnsæis. Þar kemur fram að ávöxtun lífeyrissjóða er mjög misjöfn, allt frá 1,25% til 6,16%, sé langt tímabil skoðað aftur í tímann (1997-2016), eða 20 ár (greinina má sjá hér).

Í þessu sambandi er athyglisvert er að skoða ýmislegt efni frá sjóðum sjálfum (ársreikninga, vefsíður, auglýsingar o.fl.) og orðalag þar sem notað er til að lýsa gengi sjóða. Eru ýmis dæmi þar sem talað er um að tiltekinn sjóður sé traustur og öruggur og að ávöxtun sé mjög góð þegar reyndin er í einhverjum tilfellum að um er að ræða fremur slakan árangur sé skoðað til lengri tíma. Eitt er að hafa góða ávöxtun yfir sérvalið tímabil en mikilvægara er að geta þess hvernig hefur gengið á ársgrunni eins langt aftur og sjóður (eða forverar hans) hefur starfað. Í einhverjum tilfellum eru dæmi um efstu stig lýsingarorða og að talað sé um einstakan árangur sjóða þegar dæmi eru um sjóði sem eru í reynd mjög neðarlega á lista, sé ávöxtun innlendra skyldulífeyrissjóða skoðuð yfir langt tímabil.

Sjóðsfélagar eiga ekki skilið svona loðna upplýsingagjöf. Þeir eiga það skilið að fá skýrar, greinilegar og samanburðarhæfar upplýsingar, útgefnar af óháðum aðila, þar sem raunverulegur árangur sjóða (ávöxtun) er borin saman við aðra sjóði. Allt of mikill skortur á gagnsæi hefur ríkt of lengi um þessar upplýsingar hér á landi.

Í Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Hollandi og víðar er ávöxtun sjóða birt mjög oft mörg ár aftur í tíman – stundum marga áratugi aftur í tímann og gert aðgengilegt fyrir almenningi. Sjóðir hér á landi hafa oft sagt að það eigi ekki að bera þá saman af því þeir hafa mismunandi fjárfestingastefnu en ef slík rök halda þá ætti aldrei að bera saman neinn árangur íslenskra sjóða. Þar væri ekki verið að hugsa um eðlilega upplýsingagjöf til almennings. Vera má að sjóðir hafi mismunandi fjárfestingastefnu en það gildir einu, almenningur á réttláta kröfu sem er að fá þessar upplýsingar betur upp á borðið en verið hefur. Sem betur fer hillir undir að það séu gagnsærri tímar framundan í þessum efnum en það er ekki endilega af frumkvæði lífeyrissjóðanna sjálfra.

Einnig er áhugaverð sú regla sem gildir yfirleitt í þessum löndum líka, þó að hún sé með breytilegu sniði á milli landa. Þar er það þannig að sjóðir eiga ekki að matreiða upplýsingar um ávöxtun og aðra framistöðuþætti því reynslan sýnir að þeir hafa tilhneigingu til að birta góðu tímabilin oftar en þau slæmu. Í Þýskalandi, Sviss og víðar verða sjóðir að setja fram beina tilvitnun óháðs ráðgjafa um það hvernig ávöxtun og aðrir framistöðuþættir eru gagnvart tilteknum sjóði. Þar er það orðspor ráðgjafanna sjálfra sem er í húfi; þeir vilja gefa almenningi skýrar upplýsingar og því er það þeirra hagur að birta eins gagnsæja útgáfu eins og hægt er af raunverulegri framistöðu sjóða til að þeir sem lesi – almenningur – öðlist traust á viðkomandi ráðgjafa og að hann verði þá eftirsóttur til að tala um sjóði. Þetta er ágætis fyrirkomulag sem eykur gagnsæi í upplýsingagjöf til almennings.

Sjá nánari fréttir um þessi mál:

„Núverandi kerfi er lífeyrishappadrætti“
http://www.visir.is/g/2018180519926

Bestu lífeyrissjóðir skila fjórfalt meiri ávöxtun en hinir lökustu
http://www.visir.is/g/2018180508993

― ― ―

(Grein þessi birtist fyrst á vef félagsins Gagnsaei.is)

Vaxtarhlutdeild sýnir stöðuna eftir nokkur ár

Í áratugi hefur útreiknuð eða mæld markaðshlutdeild verið einn helsti mælikvarði fyrirtækja á stöðu þeirra og árangri. Þetta var ágætismælikvarði á meðan viðskiptalífið breyttist hægt, því markaðshlutdeild lýsir fyrst og fremst þeim árangri sem búið er að ná til þessa. Markaðshlutdeild getur auðvitað áfram verið nytsamur mælikvarði, einkum í þeim geirum þar sem breytingar eru hægar. En af því að staða fyrirtækja er alltaf að breytast hraðar og hraðar þá er vaxandi þörf á að horfa til jafns á aðra mælikvarða sem gefa innsýn inn í hver líkleg markaðshlutdeild verður í framtíðinni. Þá er skynsamt að skoða þann hluta viðskipta þar sem vöxturinn er mestur og reikna hver sé hlutur viðkomandi fyrirtækis í vaxtarhlutanum. Það er vaxtarhlutdeild.

Markaðshlutdeild segir nefnilega fremur lítið um framtíðina af því að vöxtur viðskipta á sér oft stað á sérstökum og oft nýjum segmentum en þar er það einmitt þar sem við sjáum framtíðina mótast.

Þetta mætti skoða út frá verslun, iðnaði, framleiðslu, þjónustu, fjarskiptum o.fl. en þar er áhugaverðast að fylgjast með hlutdeildinni þar sem mestur vöxtur er.  Einnig má nefna bílabransann en hann er dæmigerður geiri þar sem markaðshlutdeild er nokkuð þekkt en þó má fá innsýn inn í breytingar í framtíðinni ef við skoðum vaxtarhlutdeild. Með því að skoða hana er hægt að sjá líklega markaðshlutdeild inni í framtíðinni en vaxtar-segment bílabransans eru rafmagnsbílar og hybrid-bílar. Til eru dæmi um bílaframleiðanda sem hafa um langt skeið haft mikla markaðshlutdeild og hafa enn, en hafa afar litla vaxtarhlutdeild. Það eru bílaframleiðendur sem munu líklega eiga erfitt í framtíðinni.

Vaxtarhlutdeild er því nokkurs konar innsýn um markaðshlutdeild framtíðar, með einhverri óvissu þó.

Þannig er hægt að nota vaxtarhlutdeild til þess að:

 1. Fá innsýn inn í það hverjir verða sterku vörumerkin á næstu árum og áratugum (til að skilja markaðinn).
 2. Átta sig á því hvaða vörumerki eru í hættu með að lenda í hröðu falli á næstu misserum eða árum (fyrir stjórnendur).
 3. Skoða hvaða nýju aðilar geta átt möguleika á að ná sterkri fótfestu í náinni framtíð (fyrir fjárfesta).

Þetta er í takt við það sem við sjáum þegar líftími fyrirtækja er skoðaður. Hann styttist sífellt og hefur gert frá upphafi mælinga. Fyrir 70-80 árum var 40-70 ára aldurstími fyrirtækja algengur. Nú erum við að sjá miklu lægri tölur eða um 18 ára líftíma fyrirtækja að meðaltali (skv. tölum fyrirtækja bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum).

Niðurstaðan er: Fyrirtæki hafa alltaf styttri og styttri tíma til að bregðast við aðstæðum. Þess vegna þurfum við hraðvirkari mælikvarða sem segja okkur hver sé líkleg hlutdeild fyrirtækja í náinni framtíð eins og hún er að þróast hverju sinni. Þær upplýsingar er hægt að greina með því að skoða vaxtarhlutdeild.

Ég hef unnið greiningu á vaxtarhlutdeild fyrirtækja í ráðgjöfinni fyrir Verdicta. Hefur vaxtarhlutdeild oft veitt fyrirtækjum algerlega nýja innsýn inn í það hvert þau eru að stefna.

 

Sykurskattur eða heilsugjald?

Nú er umræða um sykurskatt aftur komin á flug. Þeir sem fá tekjur sínar út frá sykursölu tala allir með einum rómi. Forstjóri sælgætisfyrirtækisins Góu segir „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og líka: „Það getur vel verið að við séum orðin eitthvað of þung. En tökum við ekki bara á því í ró­legheitunum?“ Og forstjóri Nóa-Síríus segir: „Það eru engar einhlítar niðurstöður í rannsóknum um tengsl sykursýki og sykurneyslu sem sýna fram á beint samband þar á milli. Ég efast um að sykurskattur hafi stórkostleg áhrif, en veit að hann eykur mjög flækjustigið hjá viðkomandi fyrirtækjum og er þeim dýr í framkvæmd.“

Það er sérstakt að sjá þessa orðræðu um sykur hér á landi því ef staðreynda er leitað út frá reynslu annarra þjóða þá sjást allsstaðar þau rök að aukagjald á sykurneyslu minnki sölu á sykri. Þetta einkennir íslenska umræðu oft; það eru settar fram einhverjar staðreyndir og gert ráð fyrir því að enginn leiti sannleikans erlendis og að íslensku orðræðunni sé þar með bara trúað. Þetta virkaði hér áður fyrr, þegar Ísland var einangraðra og fréttir og upplýsingar bárust stopult. En nú er varla hægt lengur að slengja bara einhverju fram sem stenst ekki skoðun.

Það meira að segja þannig að framkvæmdastýra landsamtaka íslenskra útgerðarmanna blandaði sér í sykurumræðuna á síðasta ári og sagði: „Neyslu sykraðra matvæla verður ekki stýrt með sköttum“ og gaf lítið fyrir rannsóknir og ráðleggingar Landlæknisembættisins um sykurmál. Hún vissi jú miklu betur en sjálfur Landlæknir. Grein hennar er hér. Þetta er stór galli við íslenska umræðu hvað hún á það til að vera faglítil og málefnalaus. Það má bara segja eitthvað og vona að einhver trúi.

Rök #1: Sykurskattur virkar ekki

Slökustu rökin í sykurumræðunni eru: „Sykurskattar virka ekki“ því að þeir virka auðvitað í takt við hvað þeir eru háir. Skattur sem var 1 króna á gosflösku virkar jú ekkert en hærra gjald (t.d. nokkur hundruð krónur á flösku) myndi auðvitað stórlega draga úr neyslu. Þannig að þegar sagt er „Sykurskattar virka ekki“ þá er í raun verið að segja „Agnarlítill sykurskattur virkar ekki“ og það er rétt, aukagjöld á sykur verða að vera allnokkur þannig að fólk finni fyrir því ef sala á að minnka. WHO segir að 20% aukagjald leiði strax til mikils samdráttar í neyslu:

Sjá hér grein The Guardian um málið, þar sem vitnað er í niðurstöður óháðra rannsókna og reynslu annarra landa í að hemja sykurneyslu.

Helstu niðurstöður WHO eru:

 • 20% álögur eða hærri á sykraða drykki (þar sem sykur er >8% innihalds) lækka neyslu mjög verulega
 • Mikil umræða er í öllum löndum að setja á sykurskatta. Mörg lönd hafa nýlega tekið þetta upp eða eru á leiðinni í þá átt.
 • Líffræðilega þá þarf mannslíkaminn ekki sykur til neyslu. Sykurneysla er því að langmestu leyti áunnin þörf sem þarf að draga til baka með öllum tiltækum ráðum.
 • Mikil andstaða er með álögur á sykraða drykki í nokkrum löndum veraldar, m.a. í Kólumbíu. Þar eykst offita og sykursýki hraðar en annarsstaðar.

Rök #2: Engar rannsóknir styðja sykurskatt

Önnur slök rök í umræðunni um sykurskatt eru að engar rannsóknir sýni fram á að auknar álögur á sykur minnki ofneyslu sykurs. Þetta eru “fake news” eða beinlínis röng staðreynd og á því ekki að flokkast sem rök. Þetta er væntanlega sagt af því fá rök eru í raun á móti aukagjöldum til að hemja sykurneyslu og við verðum að horfa til þess að það er beinlínis réttmætt hlutverk forstjóra sælgætisfyrirtækja að vernda tekjustreymi og efnahagsreikninga sinna fyrirtækja. Sú viðleitni má samt ekki verða ofaná ef hagsmunir almennings eru á öndverðum meiði.

Álögur á skylda þætti, t.d. sígarettur hafa verið við lýði í allmörg ár og hafa um víða veröld skilað fækkun reykingamanna. Í ítarlegum rannsóknum um slíka skattlagningu (sjá t.d. þessa rannsókn) kemur í ljós að skattlagning er oftast lítil og hefur því einkum áhrif á efnaminna fólk. Það fólk sem býr við góð efni er ekki að fara að breyta reykingum sínum þó að pakki af sígarettum hækki úr 1500 kr upp í 1700 kr. Slíkt hefur ekki áhrif. Alls staðar er þó mælt með því að nota álögur á tóbak í meira mæli til að hafa letjandi áhrif á reykingar. Það sama ætti að gilda með sykraðar vörur.

Einnig er það skýr niðurstaða að neysla sykraðra drykkja er stærsti áhrifavaldurinn í því að offita og sykursýki er að verða sá sjúkdómur sem er dýrastur samfélögum á Vesturlöndum og víðar. Dr. Douglas Bettcher, forstöðumaður þeirrar deildar hjá WHO sem sér um forvarnir á ósmithæfum sjúkdómum segir:  “Consumption of free sugars, including products like sugary drinks, is a major factor in the global increase of people suffering from obesity and diabetes”.

Rök #3: Við viljum ekki forræðishyggju

Það eru sterk rök að vilja ekki forræðishyggju, almennt séð. En það eru veik rök að kalla það forræðishyggju að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Allar þjóðir gera það nú þegar.

Það er ekki forræðishyggja að takmarka aðgengi að áfengi, vopnum, eiturlyfjum; við köllum það skynsemi og að hlíta ráðum fagaðila.

Forræðishyggja eða faghyggja?

Við getum öll verið sammála að það þarf að takmarka aðgengi að því sem hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Alltaf þarf að vega og meta rétt einstaklingsins m.v. áhrifin á samfélagið. Þess vegna ættum við að geta sameinast um það að forræðishyggja sé slæm en að faghyggja sé til að bæta samfélagið. Undir faghyggju flokkast að setja álögur á sykurneyslu til að minnka sölu á sykurvörum:

Þeir sem eru hlyntir því að takmarka þætti sem hafa neikvæð áhrif á samfélagið ættu því að gera þennan greinarmun: Að vera á móti forræðishyggju, enda er hún nær ætíð vitlaus hugmynd. En að átta sig á því að faghyggja er nauðsynleg til að viðhalda góðu samfélagi. Það er nefnilega ekki allt forræðishyggja – langt í frá. Fæst af því sem bannað er má flokka undir forræðishyggju. Slíkt var líklega raunin hér á árum áður en frjálsræði hefur sem betur fer aukist.

Umræðan sem er í kringum áramót um það hvort leyfa eigi eða banna flugelda í höndum almennings er dæmi um þennan línudans á milli sjálfsstjórnar, frelsis og þess að taka tilllit til samfélagslegra sjónarmiða. Meðrök eru upplifun og skemmtanagildi en mótrök eru mikil lofmengun, sóðaskapur, slys og mikil ónot dýra og búfénaðar. Þetta verður að vega og meta í stað þess að hver hrópi þá skoðun sem hentar hans eigin aðstæðum og úr hans litla ranni.

Rök #4: Sykurskattur eykur verðbólgu og hækkar íbúðalán

Þeir sem hafa haft lifibrauð sitt af sykursölu hafa bent á að ef sykurskattur verður lagður á þá mun hann hækka verðbólgu. Það kann að vera rétt þó að ólíklegt sé að sú hækkun munu valda miklum hækkunum á íbúðalánum. En hugsanlega einhverjum hækkunum. En það er ekki röksemd að þess vegna meigi ekki hækka álögur á sykraðar vörur. Þetta er fyrst og fremst enn eitt dæmið um hvað verðtrygging, verðbólga og mælingar á þeim þáttum eru vitlaust gerðir hér á landi. Við munum einhverntíman líta til baka og spyrja okkur: Af hverju höfðum við kerfi sem er þannig að þegar rakari hækkar verð á klippingu að þá hækki húsnæðislán?

Það er hins vegar ekki hægt að nota þetta sem röksemd í því að setja ekki auknar álögur á sykur – þetta er tvö aðskilin mál:

 1. Viljum við hækka álögur á sykraðar vörur til að stemma stigu við neyslu þeirra?
 2. Viljum við hafa verðtryggingarkerfi sem er þannig að þegar neysluvörur hækka að þá hækki íbúðalán?

Vörur eins og tóbak hefur fengið aukna neysluskatta á undanförnum árum og hefur það m.a. haft þau áhrif að neysla tóbaks hefur minnkað. Þetta hefur væntanlega hækkað íbúðalán, eins furðulegt og það hljómar. En samt sem áður getum við ekki fryst verðhækkanir til eilífðarnóns af því að við viljum ekki hækka íbúðalán. Við verðum einfaldlega að breyta verðtryggingarkerfinu og það er allt annað mál.

Rök #5: Sykurskattar eru flóknir og dýrir fyrir sælgætisfyrirtæki

Forstjórar sælgætisfyrirtækja hafa talað um að það sé flókið og dýrt fyrir sælgætisfyrirtæki ef sykurskattar eru innleiddir. Jú, það er flóknara en að hafa þá ekki en þetta er samt engin röksemd í málinu. Innheimta VSK er flókin, en eigum við þá að hætta henni? Er ekki innheimta yfirleitt flókið fyrirbæri? Það er margt annað flókið sem fyrirtæki gera, m.a. er matvælaframleiðsla frekar flókin framleiðsla. Og að uppfylla lög og reglur til að fá leyfi til matvælaframleiðslu. Það má því strika þessi rök út.

Rök #6: Notum forvarnir, ekki bönn

Ein algengasta röksemd í umræðunni er að það eigi ekki að nota bönn heldur forvarnir. Að allir séu látnir vita hvað sykur sé slæmur og þá muni fólk minnka neyslu hans hratt og örugglega. Það mætti ræða þessa leið ef sælgætisfyrirtækjum væri þá ekki heimilt að dreifa áróðri sem hvetur til sykurneyslu, á sama tíma, eins og þau gera nú. Auglýsingar eru nefnilega mjög hvetjandi til neyslu, séu þær rétt gerðar. Máttur ríkis til að standa fyrir forvörnum verður alltaf takmarkaður og verður alltaf miklu veikara afl heldur en það afl sem fyrirtækin ráða yfir þegar þau setja í gang herferðir til að hvetja til aukinnar neyslu á sykri. Auglýsingar sælgætisfyrirtækjanna gera þetta og það verður einfaldlega að taka umræðuna um það að þau geta ekki skýlt sér á bak við það að fólk taki sjálft ákvörðun, ekkert sé þeim sjálfum að kenna.

Fólk getur tekið réttar ákvarðanir ef það hefur óheft aðgengi að réttum upplýsingum. En þegar það eru auglýsingar sem hvetja til allskonar neyslu, sem ekki er holl, þá er ekki hægt að tala um að fólk eigi bara sjálft að taka upplýsta ákvörðun. Fólk verður fyrir áhrifum vegna hvatningar og auglýsingar eru gerðar til að hafa slík áhrif. Þegar vísað er í að fólk eigi að taka rökréttar ákvarðanir þá er verið að gera ráð fyrir því að fólk hugsi eins og tölvur og vélmenni sem er mjög langt frá lagi. Sagan sýnir að fólk á fremur auðvellt með að gera órökrétta hluti og er þá oft að hlýða kenndum og tilfinningum sem ýta undir tiltekna hegðan eða að láta undan óbeinum þrýstingi til að neyta tiltekinnar vöru eða haga neyslu sinni með ákveðnum, samfélagslega viðurkenndum hætti.

Breyttur tíðarandi

Í sykurumræðunni kemur í ljós finnst sumum það vera rök ef tekjur eins fyrirtækis minnka. Auðvitað er gott ef fyrirtækjum gengur vel en það má aldrei vera á kostnað samfélagsins. John Stuar Mill skrifaði um frelsi á þann hátt að það væri mikilvægt en mætti aldrei vera til að skaða samfélagið. Í ljós hefur komið að sykur er verra efni en fólk hélt og þá eiga fyrirtæki að laga sig að þeim venjum, finna nýjar vörur og þróa þær gömlu þannig að þær séu eftirsóttar en séu með minna af sykri og helst engum viðbættum sykrum. Þetta er einfaldlega breyttur veruleiki og það er eitthvað sem flest fyrirtæki þurfa að glíma við daglega; að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Sælgætisfyrirtækin íslensku eiga því að taka þann vinkil í málinu sem tekur mest tillit til samfélagslegrar ábyrgðar; segjast ætla að verða í forystu í að bjóða góðar vörur með helst engum sykri. Þar ættu þessi fyrirtæki að keppa en ekki eyða kröftum sínum í að deila um það með veikum rökum um það hvort þau eigi að fá að framleiða vörur sem eru troðfullar af sykri athugasemdalaust. Við lifum við breyttan tíðaranda sem segir okkur að það sé eðlilegt að taka meira tillit en verið hefur. Þetta er angi af því máli; sælgætisfyrirtæki verða einfaldlega að laga sig að þessum breytta tíðaranda.

Mjólkursamsalan er dæmi um fyrirtæki sem hefur hlustað á breyttan tíðaranda. Fyrirtækið fékk gagnrýni fyrir að selja sykraðar vörur og ota þeim að börnum. Þeir tóku algengustu vörurnar sem féllu mögulega undir þessa gagnrýni, eins og Engjaþykkni og settu þá vöru (og fleiri vörur) í flokkinn „Eftirréttir“ til að undirstrika það að þetta væri ekki ætlað sem dagleg neysluvara fyrir börn. Þetta er væntanlega aðeins fyrsta skrefið af mörgum hjá MS en er klárlega jákvæð þróun og sýnir að MS getur hlustað á breyttan tíðaranda og aðlagað sig.

Víkkum út kröfur um röksemdir

Þegar umræða um álögur á sykur fer fram ættum við að taka þær röksemdir sem settar eru fram og setja þær í einfalt próf:

Fyrir hverja röksemd þarf að svara þremur spurningum. Ef öllum spurningum er svarað játandi þá bendir allt til þess að um sé að ræða mjög gilda röksemd sem þarf að taka til nánari skoðunnar.

 1. Gildir röksemdin fyrir hagsmuni þess sem setur hana fram? [Já/Nei]
 2. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið allt hér og nú? [Já/Nei]
 3. Gildir röksemdin líka fyrir samfélagið til framtíðar? [Já/Nei]

Tökum röksemd Helga í Góu: „Allt tal um sykurskatt er algjör barnaskapur“ og spyrjum þessara þriggja spurninga. Spurningu 1 er hægt að svara játandi því röksemdir gildir fyrir fjárhagslega hagsmuni þess er setti hana fram. Hinum spurningunum er svarað neitandi og því á þessi röksemd Helga ekki endilega að fá mikið vægi í umræðunni. Rök Helga snúast fyrst og fremst um hagsmuni hans, ekki samfélagsins.

Hér erum við að horfa á það að það þurfi að breyta um áherslur í íslenskri umræðu; að minnka áherslu þeirra sem geta aðeins svarað spurningu (1) játandi. Að taka aukið tillit til þeirra þátta sem skipta mestu máli, samfélagsins alls.

Hættum að nota orðið „sykurskattur“

Orðið „sykurskattur“ er mjög neikvætt orð og styrkir málstað þeirra sem vilja ekki álögur á sykraðar vörur. Þess vegna ætti að hugsa þetta frá grunni og ramma inn upp á nýtt þetta sem við viljum kalla álögur á sykraðar vörur. Orð eins og „heilsugjald“ lýsir þessum álögum betur því þarna er verið að gera framleiðendur ábyrga fyrir því að framleiða, auglýsa og hvetja til aukinnar notkunnar á sykri með því að láta þá taka þátt í þeim kostnaði sem verður til í samfélaginu þegar fólk hefur neytt of mikils sykur sí áratugi.

 

 

Þrjár gerðir af villandi kosningaauglýsingum algengastar

Fyrir kosningarnar í október 2017 var meira gert af því en áður að koma villandi kosningaáróðri til kjósenda. Settar voru fram rangar fullyrðingar, einkum gagnvart því að skattpíning myndi aukast gríðarlega og efnahagslegt ástand myndi hríðversna ef tilteknir flokkar myndu fá of mikil völd.

Í kosningafræðum er þetta kallað „disinformation“, þegar einhver reynir að hafa áhrif á niðurstöður kosninga með villandi upplýsingum eða með því að birta aðeins eina hlið mála þannig að falskri heildarmynd er haldið á lofti. Þessi aðferð er ein þekktasta aðferðin í nútímanum til að hafa áhrif á kosningar. Veikari fjölmiðlar og einnig aukinn fjöldi fjölmiðla í eigu hagmunaaðila kemur svo í veg fyrir að nægar óháðar raddir séu til staðar til að tækla þessi tilvik, uppljóstra um þau og leiðrétta rangfærslur. Þess vegna eru snarpar kosningar þar sem stutt er til kjördags, kjöraðstæður fyrir að beita þessari aðferð til að hafa áhrif á hvert atkvæði lenda.

Hér er því hægt að segja að verið sé að skekkja lýðræðið, a.m.k. að hafa óæskileg áhrif á það. Á móti er sagt: Við skulum virða þessa lýðræðislegu niðurstöðu kosninga en það er ekki að öllu leyti rétt á meðan það liggur fyrir að einn aðilinn gerði langmest í því að setja fram villandi auglýsingar (áróður) sér í hag.

Þetta eru helstu aðferðirnar sem notaðar hafa verið til að hafa áhrif á kosningar:

Það væri gaman við tækifæri að rekja dæmi um villandi kosningaáróður í þessum þremur propaganda-flokkum, allt frá snemma á síðustu öld. Dæmin eru mörg, bæði frá Þýskalandi í tengslum við seinna stíð (WWII) en einnig líka frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Bandaríkjunum og víðar.

Í flokkinum „Grey Propaganda“ eru þær auglýsingar sem birtust hér á Íslandi fyrir kosningarnar. Nafnlausar eða í nafni aðila sem annað hvort er ekki til eða látið líta út fyrir að viðkomandi sé fulltrúi stórs hóps þjóðfélagsþegna. Ef ekkert verður gert í að koma böndum á þessa villandi upplýsingagjöf í kosningum mun hún aðeins aukast, ár frá ári, og leiða til mikilla bjögunnar á lýðræðinu.

Svo má segja þeir stjórnmálaforingar sem hafa verið hallir undir poplúlísk mál séu sjálfir að setja fram það sem kallað er „White Propaganda“ því þar eru skýr dæmi um að stjórnmálamenn setji fram mjög bjagaðar upplýsingar til að upphefja eigin gjörðir og til að beina sjónum að öðrum málum en þeirra eigin. Þetta er einnig frekar nýtt hér á landi en hefur þó þekkst hin síðari ár.

Ég hef spurt þrjá þaulvana auglýsingamenn og þeir telja (án ábyrgðar) að kostnaður nafnlausu auglýsinganna, sem beindust mest gegn því að vinstri flokkar næðu miklum árangri hafi verið á bilinu 40-60 milljónir króna. Alveg sama hvort svona efni beinist gegn vinstri eða hægri flokkum. Þetta á einfaldlega ekki að líðast og það eru til aðferðir til að koma í veg fyrir þetta. Ef það verður ekki gert mun fólk, smátt og smátt, missa trú á að atkvæðagreiðslur og kosningar þjóni þeim tilgangi að ná fram vilja fólksins. Sú umræða er reyndar þegar byrjuð eins og David Van Reybrouck ræðir í merkilegri grein sinni í The Guardian, Why elections are bad for democracy“.

Ísland þarf skýrari lagasetningu gegn villandi kosningaáróðri

Mikil áhrif voru höfð á kosningaúrslit í Bandaríkjunum þegar Trump var kjörinn forseti, með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum. Þetta er svolítið óhuggulegt en á samt samsvörun við íslenskan veruleika því í nýafstöðnum kosninum til Alþingis voru það nafnlausar auglýsingar og villandi efni á samfélagsmiðlum sem höfðu allnokkur áhrif á niðurstöður kosningar.

Íslensk kosningalög nr. 24/2000 taka ekki með skýrum hætti á þessum vanda. Þau tala um að kosningaáróður sé óleyfilegur, það „að hafa áhrif á hvernig fólk greiðir atkvæði“:

Þessi lög kveða samt ekki skýrt á um að banna skuli að hafa áhrif á kjósendur með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum. Þess vegna þarf að endurbæta kosningalög og færa slíkar takmarkanir inn í þau. Annars endum við í hinu villta vestri þar sem falskt efni verður alsráðandi í kosningum og sá vinnur sem er tilbúinn að fara niður á lægsta planið og hefur úr mestu fjármununum að spila. Yfirleitt væru það þeir flokkar sem væru nátengdastir viðskiptalífinu og stærri fyrirtækjum.

Í Bandaríkjunum er verið að kynna ný lög sem einmitt eiga að koma í veg fyrir falskan kosningaáróður. Honest Ads Act. Í þeim er gert ráð fyrir að leggja kvaðir á fyrirtæki eins og Facebook, Google, Twitter og YouTube í þá veru að ritskoða efni. Að það sé á þeirra ábyrgð að kanna með réttmæti auglýsinga. Í lögunum er gert ráð fyrir gagnagrunni þar sem geyma verður allar pólitískar auglýsingar og að þar verði þær tengdar við kostunaraðila. Þessi leið er víða gagnrýnd m.a. vegna þess að hún tekur ekki á þeim aðilum sem framleiða slíkt efni. Enda væru slíkar aðgerðir torveldari því þær geta verið framleiddar í nærri hvaða landi sem er í heiminum og væri auðvitað erfitt fyrir eitt ríki að setja lög sem gilda fyrir önnur ríki. Kannski komumst við að því í framtíðinni að slíkt mun vera nauðsynlegt til að ná tökum á þessum vanda. Samhæfð lagasetning á milli margra þjóðríkja væri auðvitað áhrifaríkari.

 

Á Íslandi væri hægt að útfæra þetta svona:

 1. Auglýsingar sem fela í sér fullyrðingar þarf að staðreyndaprófa hjá óháðum aðila. Ef auglýsandi getur ekki lagt fram ótvíræð gögn sem sanna allar fullyrðingar sem koma fram í auglýsingu sem á að fara í birtingu þarf auglýsandinn að kosta það að óháður greiningaraðili kanni réttmæti þeirra skilaboða sem á að setja í birtingu. Auglýsingadeild fjölmiðils (birtingaaðili) skal meta hvort meta þurfi sannleiksgildi fullyrðinga sem koma fram í auglýsingum áður en birting er heimiluð.
 2. Auglýsingadeildir munu þannig ekki þurfa að staðreyndaprófa auglýsingar heldur væri það kostað af auglýsandanum sjálfum.
 3. Kveðið yrði á um það í lögum að bannað væri að setja í dreifingu auglýsingar sem hafa áhrif á kjósendur með fölskum fréttum, nafnlausum auglýsingum og villandi efni á samfélagsmiðlum.


Dæmi úr íslenskum veruleika:

Fyrir kosningarnar hér á landi í október 2017 voru birtingar á hreinum óhróðri og fölskum upplýsingum algengar. Og með skýrum hætti er hægt að sjá það í gögnum um ástæður kjósenda fyrir vali sínu að þær auglýsingar höfðu áhrif. Dæmi:

 1. Ef þú kýst tiltekinn flokk þá mun hann hækka þína skatta margfallt.
 2. Ef þú kýst tiltekinn flokk þá mun hann setja Evrópumet í skattahækkunum.
 3. Ekki kjósa tiltekinn flokk því hann mun minnka frelsi þitt til athafna.
 4. Ekki kjósa tiltekinn flokk því hann mun færa atvinnuhætti aftur til baka um marga áratugi.

Ofangreint er alls ekki tæmandi listi, aðeins dæmi af handahófi.

Um það hljóta allir að vera sammála um að þetta beri að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Það er fátt dýrmætara lýðræðinu en að láta almenning taka upplýsta ákvörðun um hvernig eigi að kjósa án þess að hagsmunaaðilar séu að reyna að hafa áhrif á þann þátt tilverunnar. Næg eru áhrif þeirra fyrir.