Skipulagsyfirvöld geri kröfur um fagurfræði húsa

Nýlega ritaði ég pistil um nauðsyn þess að byggja fegurri hús. Að ljót hús væru ekki bara fagurfræðilegt mál eigenda heldur væri stærra mál sem snerti samfélagið allt. Að ljót hús væru nefnilega samfélaginu öllu til ama.

Nýlega dvaldi ég í Boston og nýtti tímann m.a. til að skoða hvernig þessi fornfræga borg viðheldur heimsþekktri fagurfræði í húsbyggingum innan borgarmarka. Á Íslandi leggja skipulagsyfirvöld fremur lítið mat á útlit, fegurð og staðaranda þegar byggingarleyfi eru gefin út en í Boston er þessu öfugt farið. Það verður að halda sig við þær hefðir, stíl, útlit og þann anda sem fyrir er. Það er ekki hægt að setja niður ferhyrndan kassa í fornfrægum hverfum sem byggja á öðrum stíltegundum, bara af því að byggingarfélag vill hámarka hagnað af byggingu. Því þegar byggt er út frá hagnaðarsjónarmiðum er lítið sem ekkert fjárhagslegt rými til að bæta við einhverjum kostnaði sem flokkast undir fegurð eða smekkvísi. Í Boston, sem dæmi, hefur þetta hins vegar verið sett í lög og reglur sem eru skilyrði fyrir því að byggja á ákveðnum stöðum. Meginmarkmiðið er að nýjar byggingar og viðbætur við eldri byggingar viðhaldi sama anda og séu teiknaðar í sama stíl og það sem fyrir er.

Því má segja að á Íslandi ríki ófremdarástand í smekkvísi húsbygginga því byggingastjórar, arkitektar og ábyrgðaraðila byggingaverkefna hafa nær öll völd um útlit húsa. Og þar sem hagnaðarkrafan er orðin algjörlega ráðandi munu fá fögur hús rísa. Þess vegna verður með lögum að gera byggingaraðilum skylt að byggja hús með lágmarkskröfur hvað útlit og stíl varðar. Helsta vandamálið liggur hins vegar í því að margir eru á þeirri furðulegu skoðun að ekki sé hægt að setja reglur um lágmarkskröfur hvað stíl og útlit varðar. Þetta er hinn mesti misskilningur, enda hafa slíkar reglur verið settar víða, m.a. í Boston.

Og ef við skoðum nánar hvernig þessu er háttað í Boston þá gildir sú grunnregla að ekki er hægt að fara á svig við staðarandann í hverju hverfi fyrir sig.  Gott dæmi um þetta er þegar átti að setja upp nútímalegt glerhýsi utan á 18. aldar hús í Beacon Hill hverfinu í Boston. Reglurnar kröfðust þess að þetta útskot yrði að vera í anda þessa fornfræga hverfis. Hér er það sem reglurnar kölluðu fram; smekklegt og fallegt:

Það er sem sagt hægt að leggja fram reglur á skipulagssviði sem krefja byggingaraðila um lágmarksstaðal hvað útlit, smekkvísi og stíl varðar. Þetta er gert annarsstaðar og ætti að vera hægt hér á landi. Lykilatriðið er að setja upp ramma og láta svo marga koma að því að móta og útfæra þessar reglur.

Í Beacon Hill hverfinu í Boston eru starfandi nefndir og ráð sem vinna að því að viðhalda staðarmyndinni:

 1. Beacon Hill Civic Association (BHCA). Íbúasamtök sem skipulagsyfirvöld ráðfæra sig við. Í BHCA eru um 1000 manns en um 9000 manns búa í hverfinu (12% íbúa taka þátt). Þetta eru því mjög virk samtök sem koma sjónarmiðum íbúa á framfæri þegar endurbætur innan hverfisins eru ræddar. Málefni sem tekin eru fyrir í BHCA eru breytingar, endurbætur, hreinlæti, bílastæðamál, íbúamál, mengun, rusl, lýsing, gangstéttar og viðhald.
 2. Beacon Hill Architecture Committee. Ráðgefandi fagnefnd sem veitir íbúum og byggingaraðilum ráðgefandi álit um það hvernig þurfi að undirbúa og haga umsóknum til Beacon Hill Architectural Commission (BHAC) um breytingar og endurbætur. Fulltrúi fagnefndarinnar situr fundi skipulagsyfirvalda þegar málefni hverfisins eru tekin fyrir. Einnig er það hlutverk fagnefndarinnar að greina helstu þætti í hverfinu sem þarfnast endurbóta og koma með tillögur til að laga það sem er ábótavant til að viðhalda arfleið, stíl og fegurð hverfisins. Markmiðið er að hverfið sé áfram segull á íbúa og ferðamenn og að fólki þyki eftirsótt að vera í eða búa í hverfinu.
 3. Boston Building Department (BBD). Verkefni BBD eru að skoða teikningar og áætlanir um byggingaáform og koma með breytingatillögur til að viðhalda staðaranda hverfisins. BBD skilgreinir sérstaka þætti sem lögð er sérstök áhersla á og má þar sem dæmi nefna inngangur og hurðir húsa, gluggar, girðingar og gróður. Einnig hefur BBD reglur um notkun raflagna, hitun húsa, loftræstingu og frárennsli. BBD gefur út framkvæmdaleyfi en getur ekki gert það fyrr en BHAC hefur gefið grænt ljós á að engir útlitsþættir í nýjum framkvæmdum eða breytingum séu á skjön við það sem fyrir er í hverfinu.
 4. Beacon Hill Architectural Commission (BHAC). BHAC er sá aðili sem þarf að fara yfir teikningar að breytingum og viðbótum og staðfesta að ekkert í útliti nýrra framkvæmda sé á skjön við það sem fyrir er. Þannig er BHAC hluti af skipulagsyfirvöldum en er samt sjálfstæð eining sem er gert að starfa náið með öðrum aðilum sem hér eru upp taldir. Þannig er þessum skipulagsyfirvöldum svo óheimilt að gefa út framkvæmdaleyfi nema að BHAC hafi samþykkt útlit og stíl nýframkvæmda og metið sem svo að þar sé að finna einungis það sem styður við þann anda sem er til staðar í hverfinu. BHAC vinnur þannig náið með BBD og þessir tveir aðilar saman hafa það að markmiði að viðhalda staðaranda, stíl og útliti til að viðhalda ákveðinni upplifun.

Til viðbótar eru einingar eins og Registry of Deeds sem heldur utanum sögu, byggingaaðferðir og séreinkenni hvers húss og heldur utanum eigendasögu. Boston Zoning Division heldur utanum mál sem tengjast stærri einingum en einu húsi eða íbúð. Boston Redevelopment Authority (BRA) er svo aðalhluti skipulagsyfirvalda, hjartað í umsjón með öllum þessum málum.

Reglur og leiðbeinandi tilmæli sem þarf að setja í Reykjavík

Reglur í anda þess sem hér hefur verið greint frá mætti íhuga að þróa fyrir Reykjavík. Auðvitað þar að gera sérreglur fyrir Reykjavík en það væri eflaust nytsamt að skoða hvernig svipuðum málum er háttað í öðrum borgum, Boston jafnt sem öðrum.

Í grunninn þyrftu eftirfarandi þættir og/eða stoðeiningar að vera tengdar inn í skipulagsyfirvöld til að hægt sé að vinna betur með útlit, fagurfræði og staðaranda húsbygginga. Ég legg til að áhersla verði lög á þessa þætti:

 1. Tengsl inn í íbúasamtök. Að íbúasamtök hafi töluvert um það að segja hvaða nýjungar er verið að hanna og skipuleggja sem verða áberandi í viðkomandi hverfi.
 2. Fagurfræðilegur rammi fyrir hönnun, stíl og útlit. Að tilgreint sé eftir svæðum eða hverfum hvað sé æskilegt á hverjum stað með hönnun, stíl og útlit í huga. Að slíkt gildi bæði fyrir nýja byggingar sem og viðbætur jafnt sem endurbætur sem áformaðar eru á tilteknum svæðum. Að starfandi sé faghópur á vegum skipulagsyfirvalda sem myndaður er þverfaglega og með tengsl við íbúa sem hafi töluvert um það að segja hvernig útlit húsa sé lagt fram og hvaða smáatriðum sé hugað að í þeim efnum. Hægt er að láta þennan ramma tilgreina heildarþætti, grunnstef og stíla en í sumum tilfellum, þar sem saga og arfleið er meiri, væri nauðsynlegt að tilgreina fagurfræðilegan ramma gagnvart smáum atriðum, allt niður í glugga, efnisnotkun, áferð, línur, boga og önnur atriði sem tilheyra útlitsþáttum.
 3. Ráðgefandi leiðbeiningar fyrir hönnuði og eigendur verkefna. Skynsamlegt er að hjálpa hönnuðum og forkólfum byggingaverkefna til að finna bestu leiðina til að niðurstaða hvers verkefnis sé í sátt við íbúa og skipulagsyfirvöld. Þetta væri ráðgefandi álit sem hægt væri að styðjast við á meðan hönnunarferli stendur yfir.
 4. Tengsl skipulagsyfirvalda inn í grasrót og ráðgefandi aðila. Að það sé þannig að skipulagsyfirvöld gefi ekki út framkvæmdaleyfi nema að viðkomandi verkefni standist þann fagurfræðilegan ramma sem settur er fyrir viðkomandi svæði.

Ofangreint tel ég að geti gert mjög mikið gagn í þá átt að gera Reykjavík að aðlaðandi borg til langs tíma litið. Borg þar sem húsbyggingar gleðja augað og fólk þarf ekki að horfa í sífellu á hús sem falla illa í umhverfið, eru jafnvel ljót eða a.m.k. þeirrar gerðar að fólki finnst að það passi ekki í umhverfið á viðkomandi stað. Markmið með slíkum reglum og leiðbeinandi tilmælum væru eftirfarandi:

Markmið með fagurfræðilegum ramma:

 • Fjölga byggingum sem vekja upp jákvæða tengingu gangvart fagurfræði.
 • Minnka líkur á því að eitthvað sé sett hvar sem er.
 • Fjölga þeim tilvikum þar sem byggingar á ákveðnu svæði séu hannaðar í svipuðum stíl í stað þess að mjög ólíkum stílum sé hrúgað á einn og sama blettinn.
 • Tengja saman fleiri viðhorf en nú er sem vilja koma að því að ákveða hvernig hús eigi að vera.

― ― ―

Til að enda þennan pistil er ágætt að taka dæmi af því húsi í Boston sem borgarbúar kalla ljótasta húsið í Boston. Um er að ræða “Boston City Hall” eða ráðhúsið í borginni sem byggt var 1968. Það lítur svona út:

Þetta er virkilega ljótt hús og má gera ráð fyrir að nokkuð stór hluti fólks sé sammála um það. Það er ekki að ástæðulausu að þessi stíll er kallaður Brutalism (tuddastíll) í söguútskýringum arkitekta. (Þetta minnir á húsið í Lækjargötu þar sem Íslandsbanki var lengi til húsa en það hús verður rifið á næstunni, mörgum til gleði, þó að það sem mun koma í staðin sé ekki mikið fegurra).

 

 

Check Also

Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Eigum við að hafa börnin okkar á leikskóla þar sem næring í fæðu er 100% …