Þegar lýðræðið er sett á ís

Í hverju landi ríkir stjórnarfar sem fær virðulegt nafn. Á Íslandi heitir það „lýðræði“ í daglegu tali eða „þingbundið lýðræði“ (Unitary Parliamentary Republic) þegar rætt er á nákvæmari nótum.

Nú gleðjumst við réttilega oft yfir því að lýðræði sé á Íslandi. En við sjáum það út frá öðrum löndum að það er ekki nóg að hafa skilgreint lýðræðislegt stjórnarfar til að tryggja að lýðræði sé virkt í viðkomandi landi. Við sjáum að löndin eru mörg sem hafa sama stjórnarfar og á Íslandi en þó má örugglega segja að raunverulegt lýðræði sé mjög mismunandi í þessum löndum og að áhrif „lýðsins“ eða almennings séu mjög mismunandi:

Þannig að virkt og raunverulegt lýðræði þarf alls ekki að vera til staðar þó að land hafi þingbundið lýðræði. Því ef við nostrum ekki við lýðræðið þá getur lýðræðið boðið heim hættum sem grafa undan því. Spilling, flokksræði, leynd og sérhagsmunahópar eiga nefnilega miklu greiðari leið að ná fótfestu í lýðræðislegu umhverfi ef lýðræðið er þannig hannað að það er hægt að hunsa vilja almennings. Þá geta þessi öfl, sem eru andstæðingar lýðræðis, náð fótfestu og breytt lýðræði yfir í fáræði í nafni lýðræðis – þar sem vilji fárra ræður þvert á vilja margra. Færa má rök fyrir því að þetta sé að einhverju leyti staðan í mörgum þeirra landa sem eru á listanum í töflunni hér ofar.

Eina leiðin til að breyta því að lýðræði komist í hendur fárra og breytist í fáræði er að koma í veg fyrir það að stjórnvöld geti hunsað vilja almennings í stórum og veigamiklum málum. Nægir að hugsa um mál eins og heilbrigðismál, nýja stjórnarskrá, ákvarðanir í hruninu og margar aðrar þar sem stjórnvöld hafa hunsað skýran vilja meirihluta almennings í löndum eins og t.d. Íslandi.

Það er því réttmætt að spyrja: Er lýðræði á Íslandi virkt?

Virkt lýðræði einkennist af því að stjórnvöld eru að setja mál almennings í forgang; eru að framkvæma vilja almennings. Sem betur fer gerist slíkt oft en mörg mál síðari ára vekja upp ugg um það að stjórnvöld séu oft treg til að framkvæma í mál sem hafa skýran meirihlutavilja almennings á bak við sig.

Nú spyrja margir: Af hverju þarf að gagnrýna lýðræðisstig þar sem Ísland kemur yfirleitt vel út í alþjóðlegum samanburði á hinum ýmsu „Democracy Index“-listum? Því er til að svara að flestir – nær allir – slíkir listar mæla aðra þætti en hversu virkt lýðræði er í raun í hverju landi. Einn þekktasti listi yfir mat á lýðræði í löndum er „Democracy Index“-listinn sem unnin er af Economist Intelligence Unit (EIU). Þar kemur Ísland mjög vel út, er nú í 2. sæti (sjá allann listann hér):

Gallinn við þennan „Democracy Index“-lista er að hann setur fram mat á lýðræði út frá hvort fólk geti yfir höfuð kosið ef það vill, hvort kjósendur séu öruggir á kjörstað og öðrum þáttum sem eiga frekar við í ríkjum þar sem mun meiri harðstjórn ríkir en er á Íslandi og í nágrannalöndum okkar.

Þetta eru helstu matsatriði „Democracy Index“-listans:

  1. Að kosningar séu öllum opnar. (Whether national elections are free and fair)
  2. Að kjósendur séu öruggir. (The security of voters)
  3. Sjálfstæði ríkisstjórna. (The influence of foreign powers on government)
  4. Svigrúm fulltrúa á að koma málum til leiðar. (The capability of the civil servants to implement policies)

Ísland kemur vel út á öllum þessum atriðum: Kosningar eru öllum opnar (ekki er reynt að hindra ákveðna hópa svo að neinu nemi), kjósendur eru öruggir og áhrif erlendra aðila á ríkisstjórnir eru ekki neitt sérstaklega óeðlileg. Einnig hafa kjörnir fulltrúar svigrúm til að koma málum til leiðar, kjósi þeir það. Oft er það reyndar á kostnað þess að fara gegn flokkslínnum en möguleikinn er til staðar.

Þess vegna er beinlínis rangt að taka lista eins og „Democracy Index“-listann og segja að allt varðandi lýðræði á Íslandi sé í lagi. Þessi listi mælir ekki lykilatriði lýðræðisins: Hvort stjórnvöld setji það í algjöran forgang að vinna út frá hagmunum almennings í stað þess að vinna út frá hagsmunum sérhagsmunahópa. Þetta er nefnilega kjarninn í lýðræðinu í dag: Eru stjórnvöld að setja þarfir og vilja almennings í fyrsta sæti? Jú, í einhverjum tilfellum, en ekki alltaf og að mati almennings, alls ekki í mörgum veigamiklum málum (stjórnarskrá, heilbrigðiskerfið, löggæsla, ljósmæður, meðferð hrunmála, leyndarhyggja o.fl.). Fjölmörgum málum er þannig háttað að ríflegur meirihluti þjóðar hefur kosið að setja þau í forgang en stjórnvöld hafa hunsað þann vilja. Það þynnir út lýðræðið, svo að ekki sé meira sagt.

—  —  —

Að lokum má nefna þann mikilvæga þátt, sem æ oftar kemur fram í rannsóknum fræðimanna á virku lýðræði: Það sem eflir lýðræði er ekki að vinna beint að því að tala fyrir lýðræði því lýðræði getur tekið á sig svo margar myndir (spilltar og óspilltar). Niðurstaða fræðimanna er miklu frekar sú að barátta gegn spillingu á öllum stigum þjóðfélagsins auki lýðræði og greiði götu vilja almennings í veigamiklum málum. Þetta má sjá hér:

Niðurstaðan á þessu grafi er sú að virkt lýðræði, þar sem vilji almennings er ekki hundsaður fæst fram með því að hafa lága spillingu. Einkum ef tekst að minnka spillingu, ógagnsæi og leynd í stjórnsýslunni í heild. Þetta er niðurstaða sem Íslendingar verða að taka alvarlega og auka gegnsæi á öllum stigum stjórnsýslunnar sem og að setja harðari reglugerðir sem koma í veg fyrir spillingu, eða allavega auka fælingarmátt vegna spillingar. Sjá nánar um þetta hér.

 

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …