Einkenni velsældar

Allir vilja lifa á tímum velsældar þar sem sem flest svið mannlífsins blómstra.  Hvaða tímabil hafa það verið í sögu mannkyns?  Um það má jú deila en margir nefna tímabilin þrjú: tímabil Forn-Egypta, tímabil Forn-Grikkja eða gullöld endurreisnarinnar (renaissance) sem flestir setja að líkindum í fyrsta sæti yfir helsta blómaskeið sögunnar.

Því er fróðlegt að setja þetta í samhengi við nútímann og spyrja hvort þeir tímar sem við lifum nú séu á einhvern hátt keimlíkir þessum tímabilum sem oft eru nefnd helstu blómaskeið mankyns.

Það sem einkennir helstu blómaskeiðin þrjú eru þessir þættir:

a) Andleg menning blómstrar mjög og nær miklum þroska
b) Meginreglur samfélags eru mikið ræddar
c) Mikil umræða er um óleystar ráðgátur – smáar sem stórar – vegna áhuga á framþróun

Finnum við þessi einkenni í nútímanum, nú í byrjun 21. aldarinnar?  Hver getur svarað því fyrir sig en mín skoðun er sú að þessi einkenni sé nokkuð erfitt að finna á því nútímasamfélagi sem við lifum í.

a) “…andleg menning…”  Í dag er töluverð áhersla lögð á veraldlega menningu á kostnað þeirrar andlegu.  Hvort Jón hafi keypt sér nýja glæsibifreið eða hvort hann hafi greitt háar upphæðir fyrir húsnæði er oft meira lesið heldur en efni sem vísar í andlega menningu.

b) “…meginreglur samfélagsins…”  Í dag er umræða um það hvernig meginreglur samfélagsins eiga að vera ekki mjög fyrirferðamikil í fjölmiðlum. Og þegar einhverjir hópar upphefja umræða um gerð samfélagsins okkur þá er því oft mætt með ólýðræðislegum tilburðum sbr. að stór meirihluti þjóðar vildi ná í gegn nýrri stjórnarskrá stjórnlagaráðs en sjálft stjórnkerfið stóð í vegi fyrir því.  Lítil eftirspurn virðist því vera eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að skapa betra samfélag.  Umræða um hvernig hægt sé að auka vegsemd lýðræðis fær allt að fimmtugfallt minni lestur á mbl.is heldur en frétt um það að Paris Hilton hafi í gær farið út að djamma án nærbuxna.

c) “…óleystar ráðgátur mankyns…”  Lítil umræða er um óleystar ráðgátur.  Það er meira að segja svo að þeir sem leysa ráðgátur – vísindamenn – hafa á undraskömmum tíma fallið í þann flokk á meðal þeirra sem löndin erfa að vera álitnir skrýtnir nördar í stað þess að fólk líti á þá sem hornsteina framfara.  Nýleg könnun á meðal ungs fólks í Bretlandi sýndi að lægra hlutfall fólks en nokkru sinni áður hefur áhuga á að kynna sér brautir vísinda og rannsókna; miklu meiri áhugi er á að módelstörfum, kvikmyndaleik, verðbréfagæslu, sjóðastýringu, sjónvarpsframkomu eða einfaldlega hinu ljúfa lífi.

Check Also

Forræðishyggja eða faghyggja?

Af hverju bönnum við 16 ára unglingum að aka bílum? Af hverju bönnum við almennan …