Meðvirkir fjölmiðlar dreifa vopnum Trumps

Fjölmiðlar telja margir að fréttir af Trump veiki stöðu hans, en yfirleitt eru fjölmiðlar í raun að flytja fréttir sem styrkja mjög stöðu Trumps. Á meðan forseti Bandaríkjanna níðir niður frjálsa fjölmiðlun gera fjölmiðlar fátt annað en að styrkja stöðu hans með því að dreifa orðfæri hans.

Fjölmiðlar hafa lengi haft þá mikilvægu starfsreglu að vera hlutlausir og taka ekki afstöðu til mála. Þetta verður æ erfiðara, einkum þegar fréttir eru fluttar af orðræðu fólks sem notar orðræðuna sjálfa til að styrkja stöðu sína. Að endurtaka orðræðu orðháka eins og Trump, gerir ekkert annað en að styrkja málstað þeirra.

Þegar dómsmál Stormy Daniels á hendur Trump var nýlega látið niður falla þá birti Trump þetta á Twitter:

Fjölmiðlar út um allan heim fluttu fregnir af þessu tísti með því að nota orðræðu Trumps og nota orðfærið „horseface“. Þar með hjálpuðu fjölmiðlar heims sjálfum Trump í að draga konuna niður og upphefja Trump sem sigurvegara.

Að ramma Stormy Daniels inn sem „horseface“ er alls ekki eina dæmið, sambærilega hjálp fær Trump frá fjölmiðlum oft í viku hverri. Þetta verður að breytast því annars mun Trump sigra, aftur og aftur og vera áfram í embætti eftir næstu kosningar. Útlitið er alls ekki gott því fjölmiðlar eru búnir að hjálpa Trump ókeypis í 2 ár og er ekkert útlit fyrir öðru en að þeir muni halda þessu óbreytt áfram.

Þetta sjúklega ástand er eins og ef Hitler hefði getað talað óáreittur í alla helstu fjölmiðla heims á árunum í kringum seinna stríð, til að styrkja nasista og veikja varnarheri frjálsrar Evrópu. Við munum að þeir sem töluðu máli Hitlers, jafnvel þótt það væri aðeins á léttvægan hátt voru flestir útskúfaðir og dæmdir hart, annað hvort af dómstólum eða af almenningi, á árunum eftir stríð. Þetta sama er samt að gerast þessi dægrin með aðstoð allra helstu fjölmiðla heims.

Ég veit ekki hvort fíkn fjölmiðla (≈fjárhagsleg krafa) í músarsmelli og krassandi athygli sé svona mikil eða að fjölmiðlar séu einfaldlega svona meðvirkir. Átta fjölmiðlar sig á því hvað þeir eru að hjálpa honum mikið? Ég vil jafnvel ganga svo langt að telja núverandi enduróm fjölmiðla á orðfæri Trumps eina helstu forsenduna fyrir áframhaldandi veru hans í embætti. Hollt væri að íhuga þá staðreynd að ef fjölmiðlar myndu hætta þessari meðvirkni með helsta andstæðingi sínum þá myndi fljótt fjara undan stuðningi við Trump.

Orðfæri Trumps og margfölld mögnun þess í boði fjölmiðla hvetur nefnilega mjög marga til að hugsa eins og hann og að sjá fyrir sér sigurvegara og tapara eftir smekk Trumps, því orðfæri kveikir myndir sem eru einskonar dyr að nýjum leiðum að því hvernig á að hugsa.

Þetta verður að breytast
Þess vegna geta fjölmiðlar ekki lengur notað orðfæri Trumps nema að játast undir þá staðreynd að þeir séu hans helsta hjálparhella. Þeir eru að dreifa vopnum og skotfærum sem Trump vill nota – sýn hans á sviðsmyndinni – til að skjóta niður andstæðinga sína. Væntanlega eru fjölmiðlar ekki sáttir við þetta, enda notar Trump flest tækifæri til að níða niður frjálsa fjölmiðlun á sama tíma og fjölmiðlar hjálpa honum að styrkja sig og framlengja sína tilvist. Hvernig er hægt að vera meira meðvirkur?

Þess vegna þurfa fjölmiðlar að breyta strategíu sinni þegar fréttir af Trump (og öðrum orðhákum) eru fluttar. Ekki endurtaka orðræðuna heldur taka saman hvað báðir aðilar eru að segja og skrifa frétt af atburðum án þess að nota orðfæri Trumps. Í frétt um Stormy Daniels, sem dæmi, hefði verið hægt að segja frá öllu sem gerðist án þess að nota orðið „horseface“. Ekki að dreifa uppskrift Trumps að því hver sé tapari/ljótur/vitlaus/varasamur o.s.frv. Hægt er að lýsa atburðum og segja fréttir án þess að nota orðfæri Trumps. Enda, ef vel er skoðað er orðfæri Trumps yfirleitt mjög bjöguð lýsing á því sem gerðist. Stormy Daniels er ekki ófríð. Af hverju að leyfa Trump að nota hérumbil alla hátalara heimsins til að segja þessa bjöguðu sögu, með þessu ofbeldis-hvetjandi orðfæri? Getum við ekki bara hætt þessu?

(P.S. Ég veit að ég er ekki samkvæmur sjálfur mér í þessum pistli;  ég gagnrýni að orðfæri Trumps sé dreift en dreifi því sjálfur hér í miðjum pistlinum!)

 

Check Also

Úthlutun þingsæta með misjöfnu atkvæðavægi

Við útdeilingu þingsæta er atkvæðahlutföllum, breytt í heiltölur, heil sæti, sem getur aldrei endurspeglað hlutföllin …