Brexit þjóðaratkvæðagreiðslan ekki faglega marktæk

Ef allir Bretar hefðu kosið í Brexit þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní 2016 og aðeins munað fáum atkvæðum, hefði sú niðurstaða verið marktæk og lýðræðisleg. En það er sjaldan þannig að allir kjósa. Þess vegna þurfum við einhverja aðferðafræði til að meta hvort meirihluti sé örugglega fyrir hendi gagnvart ákveðinni niðurstöðu, einkum ef munur er lítill (eins og í Brexit) og einnig ef margir kjósa ekki.

Sú röksemd að horfa aðeins á atkvæði þeirra sem kjósa er vissulega ein aðferð til að komast að niðurstöðu en sú aðferð er ekkert sérstaklega lýðræðisleg. Við sjáum hnignandi þátttöku kjósenda og einnig aukna tálmun fyrir fólk sem vill kjósa en gerir eða getur ekki. Því er brýnt að tækla þetta vandamál og finna öflugri vísindalegri nálgun til að lesa úr kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum, einkum þegar munur er lítill. Lykilatriðið er að rétt túlkun komist í gegn, að ekki sé fullyrt að þjóð hafi valið eitthvað sem hún valdi ekki. Við sjáum það, þegar skoðað er með tölfræðilegum aðferðum, að hvorki þeir sem völdu „Leave“ eða „Remain“ geta sagst hafa unnið kosningarnar. Munurinn var einfaldlega of lítill.

Skoðum Brexit úrslitin frá 2016 í einfaldri mynd (tölur hér eru x100.000 lægri en í raun og veru):

456 manns geta kosið en 129 manns kjósa ekki. Það er dágóður hluti eða 27,8% allra. 174 manns segja „förum“ úr EU en 161 manns velja „verum“ í EU. Aðeins munar 13 manns á þessum hópum.

Ef aðeins munar 13 manns og 129 manns kusu ekki og meirihluti skoðanakannanna bendir til að meirihluti þessara 129 manns hafi ekki haft áhuga á að víkja úr EU þá er okkur allnokkur vandi á höndum. Það er ekki skýr meirihluti fyrir þeirri niðurstöðu að Bretlandi yfirgefi EU.

Það eru einkum þrjár ástæður fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla Breta frá 2016 leyfir ekki þá túlkun að annar hópurinn hafi sigrað:

#1 Tölfræðilegar röksemdir

Niðurstaðan frá 2016 (52%-48%) veitir ekki tölfræðilega heimild til að annar hópurinn lýsi yfir sigri. Tölfræðileg marktækni er ekki næg til að annar hópurinn geti óhikað lýst yfir sigri. Þetta er hægt að fá út með því að skoða úrslitin (52%-48%) og tölfræðilegan mun (significant difference) á jöfnum úrslitum (50%-50%).  Þessa niðurstöðu er hægt að fá með því að reikna Cohen’s d effect size en þannig sjást tölfræðileg líkindi á að það sé til staðar munur á stærð hópanna tveggja, þeirra sem vilja vera og fara. Í venjulegum könnunum höfum við öryggisbil/vikmörk (confidence interval) sem segja okkur líkurnar á að úrslit m.v. úrtak endurspegli allt þýðið (population) og er það byggt á úrtaksstærð. Hægt er að reikna raunstærð hópa (effect size) og sjá hvort að einhver, örlítill, veikur, talsverður, allnokkur, verulegur eða mikill munur er á milli hópa, ef munur er lítill. Ef raunstærð (effect size) er reiknuð út frá Brexit-úrslitum kemur í ljós að munurinn á hópunum er það lítill að það er ekki hægt að fullyrða að um mun sé að ræða (negligible effect size). Við erum því með tölfræðilega niðurstöðu sem segir að munurinn sé ekki marktækur á milli hópa. Fræðimenn bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum hafa bent á þetta í æ meira mæli og eru þær raddir að ná eyrum fjölmiðla og stjórnvalda upp að einhverju marki. Útreikningur á raunstærð sýnir (m.v. Brexit-tölur um kjörsókn, stærð hópa og aðra þætti) að úrslitin hefður þurft að vera nær 60%-40% til að tölfræðileg marktækni hefði leyft skýra túlkun á að annar hópurinn hefði örugglega sigrað. Ef slíkt hefði átt sér stað þá hefði Theresa May geta leyft sér þann ósveigjanleika sem hún hefur sýnt til þessa.

Tölfræðilega er það því niðurstaða að úrslitin voru jöfn; ekki var hægt að fullyrða með vissu að annar hópurinn hefði unnið. Þegar Theresa May segir það vera svik við fyrri þjóðaratkvæðagreiðslu, að efna til annarrar slíkrar, þá er hún því miður á algjörum villigötum og sýnir vanþekkingu á túlkun á niðurstöðum. Einu svikin sem hægt er að tala um er að fara út í þessar grunnbreytingar á þjóðfélagsgerð Bretlands án þess að hafa tölfræðilega marktækni á bak við sig. Að leyfa leyfa ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sú fyrri gaf til kynna jafnstóra hópa er líka eitthvað sem mætti flokka sem svik.

#2 Óþekktar forsendur og óþekktar afleiðingar

Er einhver tilbúinn að aka blindandi? Að aka í mikilli þoku þegar ljósin eru léleg? Nei, vegna þess að við vitum ekki hvað er framundan. Leiðir vinstri beygja til réttrar niðurstöðu? Hægri?

Nei, viljum aka ákvarðanir þegar mest af forsendum og flestar afleiðingar okkar ákvarðana eru ljósar.

Bretar voru beðnir um að ákveða að fara eða vera í EU þegar hérumbil allt var óljóst. Nokkur dæmi sem kjósendur spurðu sig á kjördag en áttu engin svör við:

  1. Ef við förum („Leave“) þýðir það að við endum í EFTA?
  2. Ef við förum („Leave“) þýðir það að skattar lækki af því minna af fjármunum fer til EU?
  3. Ef við förum („Leave“), mun fyrirtækjum í Bretlandi fækka?
  4. Ef við förum („Leave“), mun þjóðarframleiðsla standa í stað eða minnka?
  5. Hvaða þættir munu breytast, hvorn valmöguleika sem við veljum?
  6. Ef við veljum að fara („Leave“), mun þá allt vera óbreytt?
  7. Ef við veljum að vera („Remain“), mun þá það reynast rétt sem fullyrt er að framleiðslustörf muni flytjast frá Bretlandi?
  8. Munu fjármálastofnanir hverfa ef við veljum að fara úr EU?
  9. Hver er munurinn á hörðu og mjúku Brexit?
  10. Þurfum við samning eða ekki? Hvort er hagstæðara?

Í raun vissu fáir hverjar afleiðingarnar af þessum tveimur valkostum yrðu. Samt voru Bretar látnir kjósa. Slíkt er varasamt því það getur kallað fram niðurstöðu sem er þjóðinni ekki hagstæð. Í raun ætti aldrei að efna til kosninga eða þjóðaratkvæðagreiðslu nema að forsendur valkosta og afleiðingar þeirra séu að mestu ljósar kjósendum.

Einnig þarf hér að taka tillit til þess að óræðum spurningum er erfitt að svara. Það er leiður siður að spyrja spurninga þegar þær eru orðaðar þannig að svarið er háð þekkingu sem er ekki til staðar. Viltu kjöt eða fisk? Hvernig get ég valið það nema að vita aðeins meira um málið? Viltu fara til Tenerife? Fæstir vilja vita eitt og annað áður en þeir svara (verð, tími, lengd ferðar, gerð gistingar, ferðafélagar, kostnaður o.fl.). Samt var Bretum gert að svara miklu flókari spurningu, sem fáir vissu nógu mikið um til að vera færir um að svara henni.

#3 Skekkt vitneskja kjósenda, falskar fréttir, bjögun beggja hópa

Það vildu fáir viðurkenna það árið 2016 en nú er það augljóst að falskar fréttir voru mjög ráðandi mánuðina fyrir Brexit atkvæðagreiðsluna. Þetta voru ekki litlir jaðarhópar sem mest áhrif höfðu heldur voru það þekktir stjórnmálamenn sem höfðu mest áhrif á að koma upplýsingum til kjósenda sem eftir á hafa reynst alrangar. Forsætirráðherra, utanríkisráðherra, formenn flokka og þingmenn breska þingsins gerðu sig seka um rangan fréttaflutning í þágu þess málstaðar sem þeir trúðu mest á. Nægar upplýsingar eru til nú í fjölmiðlum og á netinu sem staðreyndaprófa helstu söluraddirnar sem fengu mikið svigrúm í breskum fjölmiðlum fyrir Brexit. Fræg er fullyrðing Boris Johnson um að breska þjóðin myndi geta veitt £350 milljónum á viku inn í NHS (National Health Service) ef Bretland færi úr EU. Þetta reyndist vera rangt, upphæðin var langtum minni. Margar rangar fullyrðingar af þessum toga dúkkuðu upp og höfðu mikil áhrif.

Lærdómurinn af Brexit er að efna helst ekki til kosninga eða mikilvægra þjóðaratkvæðagreiðslna þegar ávinningur, forsendur og fréttaflutningur er óljós. Það er eðlileg krafa að ræða málin svo að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun.

Ýmis dæmi eru um að mjór meirihluti (eða jöfn niðurstaða) hafi átt sér stað. Árið 1994 voru merkilegar kosningar í Quebec þar sem Liberal Michel Charbonneau og Roger Paquin fengu jafnmörg atkvæði. Ákveðið var að efna ekki til hlutkestis (arfavitlaus aðferð) heldur að ræða málið aðeins betur og gera kjósendur upplýstari um báða frambjóðendur. Nýjar kosningar voru haldnar 42 dögum síðar sem enduðu þannig að Paquin vann með því að fá 532 fleiri atkvæðum en áður höfðu þeir fengið jafnmörg atkvæði, 16.536 atkvæði. Þetta er lítið dæmi um að reynt er að fá lýðræðislega niðurstöðu, eftir að lögleg kosning hefur ekki getað leitt til skýrrar niðurstöðu. Slíkt mætti upphugsa oftar; slíkt ættu Bretar að hugsa nú. Annars eru þeir í þeirri stöðu að hafa kastað upp peningi til að velja grunnstefnu fyrir sína þjóð. Myndi einhver samþykkja þá aðferð í veigamiklum málum? Líklega ekki. Þrátt fyrir það eru Bretar einmitt að gera það hér og nú.

 

 

 

 

 

Facebook Comments

Check Also

Að koma ferðaþjónustu á flug á nýjan leik

Við erum byrjuð að átta okkur á því að COVID-faraldurinn og umhverfismál eru nátengd. Annað …