Hver er stóri óvinurinn sem við þurfum að varast?

Stærsta blekking samtímans er að fátækt fólk af öðrum litarhætti sé mesta ógn okkar á Vesturlöndum. Og þess vegna þurfum við öll að nær loka landamærum okkar og loka þannig á jákvæð, góð samskipti við umheiminn (krafan um að loka Schengen). Þessari fásinnu trúir Flokkur fólksins.

En þegar áföll, ofbeldi, árásir og ógn í okkar samtíma er skoðuð þá er það alls ekki fátæka fólkið af öðrum litarhætti sem er nein sérstök ógn heldur væri það miklu fremur auðsöfnun fárra á kostnað margra. Ef 1% þeirra sem eiga mest og vilja sannarlega eignast meira þá er það mesta ógn samtímans, því þannig heldur það áfram, að næstum allt sé tekið frá næstum öllum. Fátæka fólkið af öðrum litarhætti tekur ekki neitt frá neinum, en þarf jú hjálp og þess vegna er svo auðvellt að gera það að blóraböggli og fá almenning til að trúa því að þar sé óvin að finna sem sé að taka frá þeim peninga, menningu, gildi og vel uppbyggða samfélagsgerð. En hvor „óvinurinn“ ætli að rífi mest niður góð gildi sem búa til okkar góða samfélag?

Hrædda fólkið, fólkið í Flokki fólksins og einnig margir í Miðflokki (og víðar), hefur fallið kylliflatt fyrir söluræðunni frá þeim sem skapar aðal ógnina, um að óvinir séu ekki þeir sjálfir heldur nokkrir heimilislausir smælingjar á ysta jaðri heimsins. Það mætti íhuga að tilnefna þetta markaðsherferð ársins því það er ótrúlegt að svo augljós ógn geti selt svo mörgum hugmyndina að smælingjarnir séu helsta hættan í veröldinni nú.

Stóra ógnin sem við þurfum að berjast gegn er því miklu meira eitthvað í áttina að þessu:

  • Þeir sem skapa mesta ójöfnuðin og auðsöfnun á hendur fáum því þannig veikist lýðræði og þannig töpum við okkar verðmætustu gildum.
  • Þau stjórnvöld sem stunda enn söluræður fyrir þeirri ógn að það þurfi að eyða stórum fjármunum til stríðsrekstrar, í stað þess að byggja upp vellíðan, menntun, upplifun og heilbrigði.
  • 1% efnuðustu viðskiptablokkir veraldar, þar með talin 10% af stærstu fyrirtækjum heims.
  • Þeir sem vinna gegn gegnsæi, bæði þjóðarleiðtogar og fyrirtæki.

Hér nefni ég sérstaklega stærstu fyrirtæki heims og neikvæð áhrif þeirra á lýðræðið eru því miklu meiri ógn heldur en fátæku smælingjarnir. Það er magnað að það sé hægt að fólk til að gleypa við þessu. Jafn mögnuð sölumennska eins og t.d. ef selja ætti kók og Mountain Dew sem heilsudrykki sem lagi ólæknandi kvilla. Fáðu þér kók gegn krabbabeini! Það þyrfti magnaða söluræði til að fá einhverja til að gleypa við því.

Samt trúa einhverjir því t.d. í Flokki fólksins, t.d. alþingismennirnir Inga Sæland og Karl Gauti Hjaltason, að mesta ógnin í samtíma okkar séu fátækir smælingjar sem engin völd hafa, enga fjármuni, enga getu til að hafa áhrif á stóru málin í heiminum. Þau hafa fallið fyrir einu magnaðasta markaðs-sölutrikki nútímans en til þess þarf maður líklega að vera ansi blindur á staðreyndir samtímans og ginkeyptur fyrir sleipum söluræðum. Þetta er meira að segja svo magnað, einkum í tilfelli Flokks fólksins, að „hitt“ baráttumál flokksins er sagt vera að hjálpa fátækum: Hjálpa einmitt þeim sem hafa orðið undir í baráttunni við þá sem stuðla að ójöfnuði. En að berjast gegn þeim sem skapa þann ójöfnuð er flokknum alveg fyrirmunað að gera.

Í aðra röndina segist Flokkur fólksins berjast fyrir fátækt fólk á Íslandi. Og til að ná árangri í þeirri báráttu þá vill Flokkur fólksins berjast gegn fátæku fólki frá öðrum löndum af því að það er af öðrum litarhætti, menningarheimi og sprottið úr öðrum jarðvegi en það þekkir sjálft. Það væri ekki hægt að skálda þetta, svona ótrúlegir hlutir gerast bara í raunveruleikanum, í höndum á fólki sem gætir sín ekki á því að líta til beggja átta.

Check Also

Loftslagsmál 101

Loftslagsvandinn er eins og hús fullt af skít sem þarf að þrífa. Húsið er jörðin …