Af hverju má byggja ljót hús?

Nú höfum við svo mörg dæmi á Íslandi af ljótum húsum að það er ástæða til að staldra við og velta því upp hver sé ástæðan og hvað hægt sé að gera til að hætta byggingu slíkra húsa.

Eðlilegast er að hugsa þessi mál fyrir almenningshús þ.e. hús sem eru annaðhvort notuð af stórum hluta fólks eða þegar um er að ræða hús sem eru staðsett þar sem margir hafa þau fyrir sjónum, dagsdaglega. Það verður alltaf erfiðara að setja strangar reglur um formfegurð þegar um er að ræða einkahús þ.e. hús sem ein fjölskylda nýtir og eru ekki sýnileg nema mjög fáum. Einkahús á mjög fjölförnum stöðum þyrftu þó að falla undir ákveðna þætti um formfegurð.

Þetta er byggt á þeirri eðlilegu kröfu að það sé mál heildarinnar hvort hægt sé að setja eitthvað ljótt hús á stað þar sem margir þurfa að hafa það fyrir augum um ókomin ár. Það er ekki einkamál þess sem byggir hvernig útlit húsa á að vera, né síður er það málefni arkitektsins sem teiknar þau, þó að flestir í þeirri starfsstétt hafi eflaust sterkar skoðanir á réttindum arkitekta til að ráða nær öllu um útlit húsbygginga.

Stóra spurningin er af hverju ljót hús eru byggð. Líklega má finna fyrir því nokkrar ástæður:

Sumir telja erfitt að meta formfegurð húsa

Sjálfsagt segir einhver að fegurð húsa sé afstæð og því sé ekki hægt að meta fegurð húsa. Þess vegna sé ekki hægt að taka tillit til fegurðar húsa þegar þau eru metin og samþykkt.

Þetta er reginmisskilningur. Mikill meirihluti fólks er sammála um margt hvað fegurð húsa varðar. Ekki allt, en margt. Og á því er hægt að byggja þegar fegurð húsbygginga eða ljótleiki þeirra er metinn.

Dæmi: Stór hluti fólks er sammála um að Þjóðmenningarhúsið sé fallegt hús. Og að uppgerðu húsin í Grjótaþorpinu séu falleg; að Hótel Borg sé fallegt hús sem og mörg hús í flokkinum steynsteypuklassík. Mörg önnur hús mætti telja sem nokkuð mikil sátt er um að séu falleg og þar er stjórnarráðið, Bessastaðir, Dómkirkjan, Háskóli Íslands og fleiri.

Og af nógu er að taka þegar tiltaka á ljót hús. Eitt dæmi er hvað allir voru fegnir að losna við ljóta húsið í Lækjargötu – hús Íslandsbanka til margra ára. Mörg ljót hús eru einnig á Laugavegi eins og víðar í borginni.

En ef skýr meirihluti fólks er með sömu meginlínur hvað ljót og falleg hús varðar þá er kominn grunnur fyrir því að meta formfegurð húsa og skilyrða vinnu arkitekta við ákveðna staðla hvað útlit og formfegurð varðar.

Hægt væri að miða við 75%-ánægjureglu: Að 3/4 hluti fólks eigi að vera ánægður eða mjög ánægður með útlit húss á áberandi stað. Sumsstaðar myndi hús í gamaldags timburhúsastíl leysa málið, sumstaðar þyrfti að horfa til meginstílbrigða steinsteypuklassíkur og á öðrum stöðum þyrfti horfa til fúnksjónalismans. Skilgreina þyrfti þetta svo nánar eftir því sem hentar á hverju svæði.

Gamla kennisetningin „De gustibus non est disputandum“ (enska/íslenska: „In matters of taste, there can be no disputes“ / „það er ekki hægt að rökræða smekk“) er fyrir löngu úrelt og sannað að hún gengur ekki þó að enn sé sífellt verið að vitna í hana. Í dag er auðvelt að sjá að smekk fjöldans er hægt að mæla, slíkt er gert á hverjum degi í formi alls kyns kannana og viðhorfsmælinga.

Dæmi þar sem gott væri að fá frekari umræðu með fegurð húsa sem standa á áberandi stað:


Hér er mynd af nýjum stúdentaíbúðum sem áformað er að reisa beint fyrir framan Gamla Garð á Hringbrautinni. Margir hafa talað í þá átt að þetta sé fremur ljót bygging. Að það sé hægt að byggja fallegra hús sem gegnir sama hlutverki, er jafn dýrt en miklu fegurra.

Áhugavert væri að byrja í einhverju allt annarri formgerð og spyrja: Gæti eitthvað í líkingu við þetta skapað meiri ánægju? Þegar búið væri að kanna með margar gerðir þá gæti legið fyrir grunnlíkan varðandi þetta verkefni og að við værum mun nær svarinu með það hvernig stúdentaíbúðir eigi að líta út gengt Hringbraut.

Tilviljunarkennt dæmi um einhvern allt annan stíl. Dæmið er ekki birt sem tillaga að betri lausn heldur dæmi um eitthvern annan stíl sem hjálpar okkur að komast nær svarinu með það hvernig stúdentaíbúðir eigi að líta út á þessu fjölfarna svæði.

 

Gámaarkitektúr

Hinn svokallaði gámaarkitektúr virðist æ oftar koma fram í tillögum arkitekta sem vinna að tillögum um ný hús. Þarna er hámörkun hagnaðar byggingaverkefna orðin að slíkri ofuráherslu að allar kröfur um formfegurð og ánægju þeirra sem munu þurfa að horfa á þessi gámahús verður að engu. Það gengur ekki að leyfa byggingaraðilum (og arkitektum þeirra) að fá fullt vald yfir útliti húsa ef þeir hafa allt annað markmið en að hámarka ánægju með umhverfi og útlitsþætti.

Þegar við sendum börn okkar í leikskóla þá þurfa foreldrar barna og leikskólakennarar að sameinast um markmið. Foreldrar vilja hámarka vellíðan barna. Ekki myndi duga að velja leikskólastjóra sem vilja hámarka eitthvað allt annað. Hámarka lágan kostnað við leikskólann? Hvernig leikskóli yrði það? Það sama gildir um marga aðra þætti í samfélaginu. Það er ekki hægt að vera með uppáskrifir byggingarleyfa ef byggingaraðilar og almenningur hafa jafn ólík markmið og virðast stundum vera til staðar.

Bygginaráform gengt Arnarhóli:

Byggingaráform nýs hótels í Lækjargötu:

Þetta hótel er áformað að byggja á reitnum þar sem Lækjargata 12 var – hús Íslandsbanka en það hús var einstaklega ljótt. Ekki er hægt að sjá að hið nýja hús sé mikið fegurra en hið gamla.

 

Ráða arkitektar stundum of miklu?

Arkitektar hafa haft fullt vald yfir öllu er varðar útliti húsbygginga. Að það sé ekki bara þeirra réttur sem hönnuða heldur einnig listrænn réttur þeirra. Ég tel mig skilja ágætlega þarfir hönnuða (ég er verkfræðingur) og tel mig skilja listræn sjónarmið einnig (ég er lagahöfundur). Ég velti því stundum fyrir mér hvort það sé alltaf heppilegt að einn aðili ráði svona miklu. Mætti ekki þetta vera ríkari ákvörðun hjá samfélaginu sem á eftir að hafa bygginguna í sínu nærumhverfi?

Væri það ekki jákvætt ef arkitektar væru, í miklu ríkara mæli, til í að taka tillit til þeirrar formfegurðar sem uppi er varðandi almenningshús (hús sem eru á fjölförnum stöðum eða hús sem almenningur hefur aðgang að).

Arkitektar eru ekkert endilega alltaf að reyna að hámarka fegurð húsa – þeir eru stundum að vinna út frá allt öðrum hugleiðingum, vilja teikna eitthvað nýstárlegt eða frumlegt. Jafnvel stundum eitthvað sem er flott að hafa á ferilskrá sinni og vekur athygli í þeirra eigin geira. Í þessu flest mótsögn því markmið fjöldans eru oft allt önnur og því mætti hugleiða að taka ríkari tillit til óska fólks um það hvernig hús eiga að líta út.

Þétting byggðar

Oft er þétting byggðar nefnd sem ástæða til að byggja bara einhvernvegin. „Það verður að þétta byggð og þess vegna er ekki hægt að byggja eintóm fegurðarhýsi út um allt“ var sagt í fjölmiðli nýlega þar sem fegurð bygginga var rædd.

Þetta er þó ekki allskostar rétt því víða er verið að byggja há hús með mörgum íbúðum en á sama tíma er verið að taka tillit til forms, útlits, efna og formgerðar. Hér er mynd af 12 hæða blokk í Portland í Bandaríkjunum sem fyrirtækið Lever Architecture byggir. Þar er áhugi á að koma fram með lausnir um þéttingu byggðar en að byggja á sama tíma hús sem skapa ánægjulegt umhverfi og fólk nýtur þess að horfa á.

Einnig má skoða stærri dæmi af þéttingu byggðar. Hér er hús sem áætlað er að hefja byggingu á í Florida í Bandaríkjunum. Við hönnun þessa húss var sérstaklega horft til útlitsþátta og að útlit íbúðarhúsnæðis og samspil þess við verslanir væri ein heild og væri talin fegra umhverfi sitt að mati meirihluta fólks. Þetta var metin falleg bygging sem prýða myndi umhverfi sitt og myndi nýtast í hlutverki sínu á skilvirkan máta.

 

Dæmi: Útlit ákvarðað fyrirfram 

Ég kom eitt sinn nálægt verkefni sem gekk út á að greina hvernig útlit húsbyggingar ætti að vera áður en vinna arkitekta hófst. Þetta var metið út frá þörfum þeirra sem áttu að nota og njóta viðkomandi byggingar en um var að ræða sjúkrahúsbyggingu í Pittsburg og var meginkrafan sú að fólk í nágrenni væri ánægt með bygginguna (að byggingin væri prýði í umhverfinu að mati meirihluta fólks) og að innréttingar og líðan fólks inni í húsinu skapaði ánægju og vellíðan. Í þessu verkefni var beitt djúpum markaðsrannsóknaraðferðum og viðhorfsmælingum til að kalla fram og greina upplýsingar fyrir skipulagsyfirvöld.

Við ráðgjafar sem höfum unnið hjá Verdicta.is kynntumst því hvernig væri hægt að nota ákveðna aðferðafræði, Deep Evaluation Research, til að skilgreina fjölmarga þætti í hönnun hússins áður en verkefnið fór í formlegt hönnunarferli. Um leið og búið var að ákvarða meginmarkmiðið: Fallegt hús sem gleður almenning og hefur drjúgt notagildi var hægt að skilgreina forsendur fyrir hönnuði áður en vinna þeirra hófst.

Nokkrar myndir sem teiknaðar voru í hönnunarferli barnaspítalans:

Nokkur dæmi eru úr íslenskum veruleika þar sem útlit og stemming hefur verið skilgreind að einhverju leyti fyrirfram, áður en farið er í hönnun. Gott dæmi er deiliskipulag Kvosarinnar frá 1986 eftir Guðna Pálsson og Dagnýju Helgadóttur. Þar var byrjað á því að greina staðaranda Kvosarinnar áður en sjálf skipulagsvinnan hófst til að tryggja að niðurstaðan yrði sem mest í samræmi við staðarandann. Þetta gleymdist alveg við gerð Austurbakka (Hafnartorg) og víðar í dæmum sem hér að ofan hafa verið upptalin.

 

Check Also

Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Eigum við að hafa börnin okkar á leikskóla þar sem næring í fæðu er 100% …