Fjögur gildi sem íslensk stjórnmál þurfa að tileinka sér

Stjórnmálaflokkum gegur illa að tileinka sér ný gildi sem fólk vill leggja áherslu á. Um þetta snýst sú togstreita og andúð sem hefur byggst upp á milli stjórnmálamanna og almennings.

GÖMUL GILDI – sem stjórnmálaflokkar þurfa að kveðja:

  • Leyndarhyggja. Leyndarhyggja er helsta mein stjórnmála og nú er svo komið að það þarf að taka hana með öllu út úr íslenskum stjórmálum ef þau eiga að geta aukið trúnað og traust gagnvart almenningi. Hvarvetna í heiminum er gerð krafa um aukið gagnsæi og að leyndarhyggja víki og eru mörg lönd komin mun lengra en Ísland hvað þetta varðar, einkum mörg nágrannalönd. Besta baráttan gegn leyndarhyggju er einfaldlega aukið gagnsæi.
  • Að hampa þeim sterka. Sú hugsun hefur verið ríkjandi að sá stóri og sterki verði að stjórna því annars verði allt ómögulegt. Þjóðarhjartað hefur trúað lengi á ímynd þess sem er „sýslumannslegur“ og talar eins og sá sem ræður. Almenningur er að breytast hvað þetta varðar og í stað þess að trúa á þann sem vísar í stöðugleika og ábyrgð vill almenningur trúa á þann sem er færastur til að leysa málin. Og sá sem er færastur er sá sem getur leyst málin með sanngirni, gagnsæi og almannahag að leiðarljósi.
  • „Ég er valdið“ – tækifærismennska og prinsippleysi. Ef stjórnmálamaður getur aðskilið sjálfan sig og sína persónu frá því hlutverki sem hann er valinn til að sinna þá er mikilvægu markmiði náð. Alltof oft hafa stjórnmálamenn litið svo á að þegar valdamikið embætti er komið í höfn að þá sé það persónan sjálf (persóna stjórnmálamannsins) sem hefur unnið fyrir þeim völdum og hafi ákveðinn rétta á að nýta sér þau völd beint eða óbeint. Þetta er gamaldags hugsun sem er á útleið því þó að stjórnmálamaður sé valinn til æðstu embætta þá verður hann að hafa í huga að hann á að þjóna almenningi og undirstöðum þjóðfélagsins. Gamla hugsunin, „að nú sé komið að mér“ viðheldur gömlum gildum sem má víða sjá enn, sbr. setningu þekkts stjórnmálamanns: „Maður sem hefur aðstöðu og misnotar hana ekki misnotar aðstöðu sína.“ Að hugsa sem svo að „ég eigi völdin“ af því að ég var kosinn er hluti af gömlu ídeólógíu sem almenningur vill losna við.
  • Verkleysi – elítuismi. Fólki finnst sem að stór hluti stjórnmálamanna lifi í hugarheimi sem sé ólíkur veröld almennings. Bæði er það elítuisminn – gjáin sem er á milli stjórnmála og almennings – og svo ákveðið getuleysi gagnvart mörgum erfiðum viðfangsefnum sem glímt er við í nútímanum, sem skapar ímynd verkleysis. Hillary Clinton tapaði m.a. vegna sterkrar tengingar við þessa eiginleika, að vera álitin þjóna kerfum, fremur en fólki. Aukin krafa er hér á landi að kerfum sé ekki þjónað, heldur að fólki og þörfum þess sé þjónað og að þeim sé mætt þar sem fólk er statt hverju sinni.

NÝ GILDI – sem stjórnmálaflokkar þurfa að leggja ríkari áherslu á:

  • [1] Gagnsæi. Gagnsæi er lykillinn að því að auka traust í stjórmálum. Lykillinn í því að minnka leyndarhyggju og gera ákvarðanir stjórnmálafólks betri fyrir samfélagið. Ef leynd hverfur þá hverfa þau tilvik þar sem hagmunir fárra eru teknir fram fyrir hagmuni almennings. Þannig er gagnsæi vopn gegn spillingu og vörn gegn hagsmunaárekstrum. Innra eftirlit, sterkari upplýsingalög og ítarlegri siðareglur eru þær leiðir sem notaðar eru til að efla gagnsæi í stjórnmálum – eru nokkurskonar forvörn gegn því að stjórnmálafólk freistist til að vinna gegn hagsmunum almennings. Hagsmunaskráning alþingismanna skiptir þarna máli en hún er enn sem komið er einföld og tekur ekki tillit til hagmuna maka og skyldra aðila.
  • [2] Sanngirni. Ísland hefur lengið búið við stjórnmálamenningu sem gerir mikið fyrir fáa. Í dag er kallað á aðrar áherslur – kallað er á meiri sanngirni og mannlegrar áherslur inn í stjórnmálin og að stjórnmálafólk geti unnið eins og fólk fyrir annað fólk. Krafa um aukna sanngirni mun smátt og smátt kalla fram aukinn jöfnuð og að notendur auðlinda greiði hámarksarð til þeirra sem þær eiga. Hér er því bæði átt við sanngirni í skiptingu fjármuna og einnig sanngirni í ákvörðunum er lúta að persónulegum málum og réttlæti einstaklinga. Einnig er kröfu almennings um aukna sanngirni beint inn á samninga sem gerðir eru fyrir hönd þjóðarinnar sbr. samninga álvera sem greiða litla skatta til Íslands í krafti þunnrar eiginfjármögnunar og þar með lægri tekna og hagnaðar sem lágmarkað þar með skatta til hins íslenska þjóðfélagsins.
  • [3] Auðmýkt, hluttekning, samkennd. Auðmýkt hefur verið hálfgert tískuorð, hin síðari ár. Með því að gera aukna kröfur um auðmýkt í stjórnmál er almenningur að biðja stjórnmálamenn að hætta að setja sig í stellingar gagnvart almenningi og að muna að sérhver stjórnmálamaður er þjónn almennings og á að vinna í hlutverki en ekki sá sem hefur vald yfir örlögum almennings. Auðmjúkur stjórnmálamaður er því sá sem er sympatískur gagnvart hlutverki sínu og gætir þess að setja hagsmuni heildarinnar í öndvegi bæði hvað ákvarðanir og tilsvör varðar.
  • [4] Öflugari hagsmunabarátta í nafni almennings. Í íslenskum stjórnmálum hefur það oft sést hvað stjórnmálamenn berjast stundum sterkar fyrir hagsmunum heldur en hugsjónum. Almenningur er að kalla eftir að þessi leikur snúist við: Að stjórnmálamenn berjist af hörku fyrir þeim gildum sem skipta almenning máli og séu jafnöflugir í þeirri baráttu og þegar þeir hafa barist fyrir hönd fjárhagslegra hagsmuna. Almenningur er því að kalla eftir að stjórnmálafólk berjist af meiri hörku fyrir hagsmunum sínum heldur en verið hefur til þessa og horfir til þess hvað sumir eru tilbúnir að ganga langt í baráttu fyrir hagsmuni þeirra sjálfra og tengdra aðila.

Kjarninn í vantrausti almennigns á stjórnmál er þess vegna of mikil spilling og leynd og á sama tíma of lítið gagnsæi. Spilling er skv. skilgreiningu þessi:

Spilling er þegar opinber valdhafi (t.d. stjórnmálamaður) freistast vegna loforða um verðlaun eða veraldlegan ágóða til þess að taka opinberar ákvarðanir í samræmi við hagsmuni þeirra aðila sem bjóða verðlaunin og skaðar með því þann hóp eða stofnun sem hann sjálfur er ábyrgur fyrir og á að vinna að heilindum fyrir.

Það sem hefur breyst á síðustu árum er að almenningur vill veita stjórnmálafólki miklu meira aðhald en áður var gert. Nú á tímum, þegar færri (og veikari) fjölmiðlar veita strangt aðhald finnst fólki það enn mikilvægara en áður að #hafahátt og láta í sér heyra. Með tækni samfélagsmiðla höfum við tækifæri til að senda stjórnmálafólki skilaboð sem veita því öflugt aðhald. Upp er komin ákveðinn samtakamáttur sem er öflugari en áður var, þar sem fólki finnst að slíkt samfélagslegt aðhald eigi að vera persónuleg skylda hvers og eins.

 

Check Also

Úthlutun þingsæta með misjöfnu atkvæðavægi

Við útdeilingu þingsæta er atkvæðahlutföllum, breytt í heiltölur, heil sæti, sem getur aldrei endurspeglað hlutföllin …